Til varnar Björk og Sigur Rós

Ég nefndi í pistli fyrir nokkru að Sæmundur Bjarnason, vinur minn og gamall vinnufélagi, hefði gefið mér það ráð að svara aldrei athugasemdum í löngu máli heldur nota efnið frekar í nýjan pistil. Ég hef stundum gleymt þessu góða ráði og skrifað heilu ritgerðirnar í eigin athugasemdakerfi þegar mér er mikið niðri fyrir - sem er æði oft. Ég féll í þessa gryfju í gærkvöldi en ætla að bæta fyrir það með því að afrita athugasemdina yfir í nýjan pistil og prjóna aðeins við hana.

En áður en lengra er haldið langar mig að benda á frábæran þátt sem ég setti í tónspilarann. Það er þátturinn Samfélagið í nærmynd sem útvarpað var í morgun frá Grasagarðinum í Laugardal. Þar tekur Leifur Hauksson ýmsa tali, m.a. Ragnhildi Sigurðardóttur, vistfræðing. Takið eftir orðum Ragnhildar og útreikningum hennar. Þátturinn er merktur Samfélagið í nærmynd - Leifur Hauksson um náttúruna.

En tilefni pistilsins var athugasemd við síðustu færslu um tónleika Bjarkar og Sigur Rósar á morgun til varnar íslenskri náttúru þar sem sagt var: "...mér finnst þessir tónleikar svolítið gervi... ekki svona heill hugur á bak við." Þessu var ég aldeilis ósammála og svaraði á þessa leið:

"Ég held að bæði Björk og Sigur Rós séu mjög einlæg í vilja sínum til að vernda íslenska náttúru og þau vekja athygli á náttúruvernd á sinn hátt - sem tónlistarmenn.

Sigur RósAllir strákarnir í Sigur Rós eru náttúrubörn, það sást t.d. glögglega þegar þeir héldu tónleikaröð sína um allt land fyrir tveimur árum - ókeypis, undir berum himni víðast hvar og jafnvel á afskekktum stöðum eins og Djúpuvík á Ströndum. Myndbandið Heima var gert í þeirri ferð og sýnir heilmikið af íslenskri náttúru og þeir hafa sagst sækja andagift fyrir tónlist sína í hana. Fjölmörg myndböndin við lögin þeirra eru líka óður til náttúrunnar og gerast úti í náttúrunni.

Björk hefur alltaf talað máli náttúrunnar - en hún gerir það á sinn hátt eins og henni er einni lagið. Hún hefur að mínu viti ævinlega verið einlæg í sinni listsköpun og því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur og sagt. Lastu svargrein hennar til Árna Johnsen í Mogganum um daginn? Hún var góð.

Fólk velur sér oftast þann tjáningarmáta sem því hentar best, í þeirra tilfelli er það tónlist og það vill svo vel til að þau eru öll mjög góðir listamenn og á þau er hlustað. Það er síðan misjafnt til hverra fólk höfðar. Ekki geta allir höfðað til allra, það er ógerlegt.
Björk
Björk og strákarnir í Sigur Rós hafa verið gagnrýnd fyrir að tjá sig almennt um málefni hér á landi af því þau hafa verið svo mikið erlendis. Þetta finnst mér vera reginmisskilningur. Það er einmitt búseta í öðrum löndum og heimshlutum sem opnar oft augu fólks fyrir þeim forréttindum sem við Íslendingar búum við - að hafa þessa dásamlegu náttúru í hlaðvarpanum hjá okkur.  Í þessum pistli sagði ég m.a.: "Sínum augum lítur hver silfrið og þeir eru æði margir Íslendingarnir sem kunna ekki að meta það sem þeir hafa í bakgarðinum en mæna aðdáunaraugum á allt í útlöndum og finnst það taka öllu öðru fram. Þetta er alþjóðlegt hugarfar - eða alþjóðleg fötlun - eftir því hvaða augum maður lítur silfrið".

Flestir kannast við þetta. Til dæmis hafa fjölmargir íbúar Parísar aldrei farið upp í Eiffelturninn, á Louvre-safnið eða í Versali. Þetta er of nálægt þeim. Við tökum ekki eftir því sem við höfum fyrir augunum dags daglega - eða okkur finnst það ekkert tiltakanlega merkilegt. Þetta er þarna bara, hefur alltaf verið þarna og verður líkast til um aldur og ævi... höldum við.

NorðurljósÉg vissi jú til dæmis að norðurljósin væru falleg, ekki spurning. En þetta fyrirbæri hafði ég haft fyrir augunum á hverjum vetri frá því ég man eftir mér og kippti mér ekkert upp við það. Svo fór ég að fara með erlenda ferðamenn í norðurljósaferðir fyrir nokkrum árum. Var brautryðjandi í slíkum ferðum. Þá fyrst áttaði ég mig á hversu stórkostlegt náttúrufyrirbrigði þau voru. Fólk hló, grét, tók andköf og gaf frá sér undarleg hljóð yfir þessu hversdagslega fyrirbæri að mínu mati. Þessi mögnuðu viðbrögð hinna erlendu gesta voru hugljómun.

Ég hef sömu eða svipaða sögu að segja um ótalmargt í íslenskri náttúru. Þótt ég hafi alltaf virt hana og metið mikils hef ég lært ótrúlega mikið á því að ferðast um með útlendinga og horfa á umhverfið með þeirra augum. Þannig hafa venjulegustu og hversdagslegustu hlutir í náttúrunni orðið óvenjulegir og stórbrotnir eins og hendi væri veifað. Sú upplifun er engu lík.

Nei, tónleikarnir eru ekki gervi... ég held að þessum tónlistarmönnum sé innilega annt um náttúruna, hvort sem það er þeim meðfætt og eðlislægt eða að þau kunni betur að meta hana af því þau hafa verið svo mikið í burtu frá henni. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og vonandi þurfum við Íslendingar ekki að harma örlög íslenskrar náttúru þegar við erum búin að leggja hana í rúst."

Þessi athugasemd var greinilega efni í annan pistil, en ég ætla að prjóna við og setja inn tvær greinar sem birtust í Morgunblaðinu. Sú fyrri er frá 10. júní sl. og þar fer Árni Johnsen, alþingismaður, niðrandi orðum um Björk og skoðanir hennar. Auk fordóma og fáránlegs málflutnings gerir Árni sig sekan um það, sem nafni hans og náfrændi Sigfússon og ótal fleiri álverssinnar gera - hann sýnir af sér fádæma þröngsýni. Árni talar um að álver hér eða álver þar geri ekkert til en gleymir alveg að nefna fórnirnar sem færa þarf til að framleiða orku handa öllum þessum álverum og hvaða afleiðingar þær fórnir hafa fyrir bæði okkur sem nú lifum og komandi kynslóðir. En orð Árna dæma sig sjálf. Björk svaraði fyrir sig 14. júní og gerði það vel. Svar hennar þarfnast ekki frekari skýringa.

Árni Johnsen - Moggi 10.06.08

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Björk - Moggi 14.06.08


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Þú ert góður penni Lára en stundum þykir mér pistlanir þínir fulllangir fyrir minn smekk.

Mér hefur alltaf fundist bæði Björk og Sigurrós vera gegnheil í því sem þau eru að gera þó svo að tónlist þeirra er ekkert sérlega mér að skapi. Stundum er reynt að láta líta út eins Björk sé einhver krakkakjáni vegna þeirrar imynunar sem hún viðheldur en það þarf ekki nema að hlusta á pælingar hennar þegar hún er að tala við t.d ´tónlistarmenn studioi að þar er á ferðinn afburðar fær musikkand sem veit nákvæmlega hver hún er að fara. Sama á við um Sigurrós. Þetta eru hæfileikaríkir einstaklingar sem hafa verið miklu fylgnari sjálfum sér en mörgum órar fyrir. T.d hafa þeir aldrei tekið þátt í að minka lagalegar útsendingar á tónlist sinni stórþætti eins Jay leno (minnir mig frekar en lettermann). Mér finnst hið besta mál að þessi tvö stærstu nöfn íslandsögunar skuli leiða saman hesta sína um helgina þó svo að ég muni örugglega láta mig vanta. Ekki vegna þess að ég sé gegn þeirra hugsjónum heldur vegna þess að tónlist þeirra er ekki minn tebolli.

Brynjar Jóhannsson, 27.6.2008 kl. 15:03

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég efast ekki um heilindi Bjarkar og Sigur Rósar varðandi löngun þeirra til að vernda náttúruna.  Ekki eitt augnablik.  Reyndar hefur Björk alltaf komið mér fyrir sjónir sem gegnheil manneskja.

Ég fór fyrst að meta íslenska náttúru almennilega eftir að ég fór að sjá hana með augum sænskra vina minna sem ég lóðsaði marg oft um landið hér áður og fyrr.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.6.2008 kl. 15:19

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þann 10. júní var alveg óborganlegur pistill í Víðsjá um grein brekkusöngvarans. Ég gat ekki séð hann í tónlistarspilaranum þínum.

Sigurður Hrellir, 27.6.2008 kl. 15:40

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Það er alveg á hreinu að þau öll eru að gera þetta af fullum heilindum og mér finnst það bara frábært að fólk nýti sér sína frægð og frama til að vekja athygli á málefnum sem oft falla undir skugga síbyljandi gúrkufrétta um ekki neitt. Þau eru engar dægurflugur heldur eins konar nútíma hetjur sem láta hinn háa stall sem þau oft eru sett á ekki villa sér sýn.

Ég er bara þakklát því að það sé til fólk sem hefur nennu og getu til að miðla upplýsingum til almennings. Auðvitað ætti ríkið að sjá um það eins og það leggur í glansblöðin og PR vinnuna sem kemur frá Landsvirkjun. Á meðan svo er ekki þá er það hin mesta blessun að Björk, Sigur Rós, Andri Snær, þú og allir hinir sem hafa unnið að umhverfisvernd hafi frumkvæðið að upplýsa þjóðina.

Birgitta Jónsdóttir, 27.6.2008 kl. 16:19

5 identicon

Þú ert góður penni Lára en stundum þykir mér pistlanir þínir fulllangir fyrir minn smekk.

magús

MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 18:25

6 Smámynd: Huldukonan

Þetta var nauðsynlegt. Takk fyrir að setja þetta hérna inn. Ég hefði ekki viljað missa af þessu. Ég fer á tónleikana á morgun.

Vildi óska að ég gæti gert eitthvað meira gagn við að berjast gegn álverunum. Ef einhver myndi nú bara hlusta

Huldukonan, 28.6.2008 kl. 02:07

7 identicon

Frekar einkennileg uppákoma að hafa Finnboga Pétursson til upphitunnar ,þar sem hann hefur undanfarin ár einkum sýnt í

húsakynnum OR og Landsvirkjunar.Var og vinningshafi í keppni um besta útilistaverkið í samkeppni hjá Landsvirkjun 2006 ,

þegar orrahríðin um Kárahnjúka var í hámarki.Menn hafa greinilega skoðanir til skiptanna þegar svo ber undir og keikir stíga á fjöl.Slæmt að gera þennan góða málstað að brandara , og vissulega vantar mikið uppá að pop liðar séu vel inní málum hérlendis.

helgi (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 14:32

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ekki hefur blessað álið gert okkur rík. Við erum með næstum tífalt meiri álframleiðslu á íbúa en Norðmenn og trjónum á toppnum í þessu tilliti, lang-, langefst eins og sjá má af þessari töflu (vona hún komi rétt út:)

LandÍbúafjöldiÁlfrl. (kt/ári)Kg. pr. íbúa
Ísland316.25274623.589
Noregur4.752.7351.3852.914
Kanada 33.303.0003.075923
Ástralía21.350.0001.951914
Rússland142.008.8384.194295
Kína1.300.000.00015.375118
Bandaríkin304.455.0003.458114
Brasilía 186.757.6081.66789
Þýskaland82.000.00060874
Bretland60.587.30036260
Indland1.132.446.0001.21611

Theódór Norðkvist, 28.6.2008 kl. 20:29

9 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég er lánglokusinni, í þeirri merkíngu að ef að efnið er gott, þá er það tímans míns virði.  Því lez ég þína pistla til húðar hvert sinn.

Mikið óskaplega fannst mér skemmtilegt að sjá þessar ráðleggíngar hér að ofan um að þú mættir stytta þitt mál, sérstaklega frá ónefndum sem að heitir 6 stafa skírnarnafni, en kaus að stytta það um staf, líklega til að spara okkur hinum tíma.

Steingrímur Helgason, 29.6.2008 kl. 00:50

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Afhverju gerum við ekki þetta og afhverju gerum við ekki hitt?, spyr Björk Guðmundsdóttir. Mjög fínar spurningar hjá henni og ég skora á álversandstæðinga að svara þessum spurningum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.6.2008 kl. 13:31

11 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

þessum spurningum hefur verið svarað Gunnar: hefur þú lesið eitthvað af því efni sem Framtíðarlandið hefur sett saman eða farið á málþing þeirra? Hefur þú lesið Draumalandið? Þar má finna fjölmargar hugmyndir að viðskiptatækifærum sem skila arðri til langframa. Þá er ekki vitlaust að líta til landa eins og Írlands sem hefur lagt mikið í að efla og skapa jarðveg fyrir þá sem vinna með hugvit. Sér í lagi þekkingariðnaðinn. Það hefur skilað þeim dágóðum skilding í ríkiskassann og skapað mörg atvinnutækifæri.

Fyrirtæki eins og CCP hafa sannað að hægt er að gera út á slíkt hugvit hér og hægt væri að nýta betur sköpunarkraft þjóðarinnar en ótrúlega margir virðist ekki líta á menningu sem atvinnu. Þó er það menning eins og tónlist sem er að skila töluvert miklum tekjum til landsins.

Birgitta Jónsdóttir, 1.7.2008 kl. 07:50

12 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég get tekið heils hugar undir það sem Lára Hanna segir. Ég fór fyrst að skilja virði íslenskrar náttúru eftir að ég flutti út. Þegar ég kem heim nýt ég þess að rölta um, þótt ekki sé það lengra en inn í Heiðmörk eða Elliðaárdalinn. Komist ég lengra, eitthvað út á land, finnst mér ég kominn í paradís. Kyrrðin, lyktin, umhverfið. Ég vona að ég komist endanlega heim einhvern daginn.

Það sem Björk segir er líka rétt, vona ég. Ég ákvað að eiga mín kvikmyndaverk sjálfur. Ég hefði getað selt stuttmyndina einhverju fyrirtæki. Það hefðu fleiri séð hana og ég hefði kannski ekki tapað á henni fjárhagslega, en ég get ekki hugsað mér að þurfa að biðja um leyfi og jafnvel borga fyrir að nota hana í framtíðinni. Þó að örfáar hræður hafi séð hana og ég tapað á henni, sé ég ekki eftir neinu. Jafnvel þó að pressan sé að aukast. "Annað hvort virkar þetta eða þú hættir!" Ég hætti ekki neitt. Nú er ég mjög sennilega að fara að gera hljómleikamynd, þáttaröð og kvikmynd. Það er allavega hugmyndin. Þeta gerist ekki hratt, en þetta er að gerast. Enginn er að borga mér, ég þarf að vinna með þessu, ég kemst ekki heim eins oft og ég vildi, en ef þetta gengur upp, á ég mín verk sjálfur og þar með mitt lífsstarf. Þetta er djöfulleg vinna, en fjandinn hafi það, ég ætla ekki að girða niður um mig svo ég geti keypt mér dýrari bíl núna. (afsakið orðbragðið) 

Villi Asgeirsson, 1.7.2008 kl. 12:02

13 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Árni Johnsen hefur líklega alveg gleymt að minnast á að á sama tíma og 700 manns misstu atvinnu á Suðurnesjum, þá var flutt inn erlent vinnuafl eitthvað um 13.000 manns sem er eitthvað svipað og var flutt inn til Finnlands á svipuðum tíma.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 1.7.2008 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband