Var "Fagra Ísland" tálvon eða blekking?

Í þessum pistli kvaddi ég eiginlega "Fagra Ísland" Samfylkingarinnar. Engu að síður er vonin nánast ódrepandi og ég finn að hún er ennþá til staðar. En þrátt fyrir fögur fyrirheit er ekki hægt að þakka Samfylkingarráðherrum neitt sem áunnist hefur í náttúruverndarmálum síðastliðið ár, eða frá því þeir settust í stjórn. Þvert á móti, þeir fela sig alltaf á bak við stjórnarsamstarfið. Eins og þetta myndband, sem ég setti saman í kvöld sýnir, er hver gjörðin á fætur annarri í andstöðu við þau fögru fyrirheit sem þar komu fram og voru að töluverðum hluta undirstaða velgengni þeirra í kosningunum og þar með setu þeirra í ríkisstjórn.

 

 

"Fagra Ísland" tiltekur engar sérstakar framkvæmdir en þetta samræmist á engan hátt anda stefnunnar. Greinilegt er að Össur og Björgvin eru sáttir,  kátir og stoltir af verkum sínum - en það er Þórunn ekki. En kjósendur Samfylkingarinnar voru ekki að velja þetta þegar þeir kusu flokkinn í síðustu kosningum. Í skoðanakönnun Fréttablaðsins fyrr í vikunni kom greinilega í ljós að þjóðin hefur fengið nóg af stóriðju og virkjunum. Íslendingar eru í rauninni að segja við stjórnvöld: "Látið landið okkar í friði!" Ætla stjórnarflokkarnir ekki að hlusta eða treysta þeir alfarið á gullfiskaminni kjósenda?

Á vefsíðu Samfylkingarinnar er "Fagra Íslandi" flaggað ennþá og þar má nálgast plaggið sjálft - Fagra Ísland - náttúruvernd og auðlindir. Þar segir meðal annars: "Umhverfismál eru á meðal brýnustu verkefna næstu ríkisstjórnar." Ef marka má orð og gjörðir ráðherranna sem koma fram í myndbandinu hér að ofan virðist það hafa breyst eitthvað. Hvers vegna? Geta þeir endalaust falið sig á bak við stjórnarsamstarfið við stóriðju- og virkjanaflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn? Eða eru þeir að verða samdauna honum?

Annar liður í plagginu hljóðar svo: "Slá ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð." Eins og fram kemur í myndbandinu hefur engum stóriðjuframkvæmdum verið slegið á frest - þvert á móti. Engin heildarsýn liggur þó fyrir yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands. Hvað veldur?

Í 24stundum í gær var mjög góður leiðari eftir Björgu Evu Erlendsdóttur og á sömu síðu var grein eftir Mörð Árnason, varaþingmann Samfylkingarinnar. Mér virðist Mörður ekki vera mjög kátur og ég finn til með honum, Dofra og fleiri Samfylkingarmönnum og -konum sem eru einlægir náttúruverndarsinnar, að þurfa að verja gjörðir ráðherra flokks síns og veita þeim nauðsynlegt aðhald. En kjósendur mega ekki láta sitt eftir liggja og verða líka að veita þingmönnum og ráðherrum Samfylkingarinnar aðhald, minna á kosningaloforðin og síðast en ekki síst - gleyma engu fyrir næstu kosningar!

Björg Eva Erlendsdóttir

Mörður Árnason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Takk fyrir þetta stórfína myndband Lára Hanna. Þú ert raunar að gegna því hlutverki sem fjölmiðlarnir eru einhverra hluta vegna að víkja sér undan. Samfylkingin er búin að pissa skóinn sinn þannig að út úr flýtur og gefa mörgum kjósendum sínum langt nef!

Sigurður Hrellir, 28.6.2008 kl. 08:18

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú ert ekki um að hafa misst vonina, amk. þá von að Samfylkingin ætli að verða bremsa á virkjana æðið.

Sjá hér.

Þeirri eigin fólki er algjörlega nóg boðið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.6.2008 kl. 10:27

3 Smámynd: Gulli litli

Athyglivert..

Gulli litli, 28.6.2008 kl. 10:29

4 identicon

Þú hittir algjörlega naglann á höfuðið, Lára. Stórfínn pistill og myndband.

Hvað mig varðar er stuðningi mínum við Samfylkinguna hér með lokið. Þann flokk kýs ég ekki aftur, það er alveg á hreinu. Framkoma Björgvins og Framsóknarmannsins Össurar er algjörlega óásættanleg. Hef smá samúð með Þórunni, sem virðist vera viljalaust verkfæri í höndum stóriðjuflokksins.

Sem kjósandi finnst mér ég hafa verið hafður að algjöru fífli.

Hélt ég myndi aldrei kjósa VG en það virðist vera komið að því.

Ellert Grétarsson (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 10:39

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, Lára Hanna, þetta vekur fólk til umhugsunar um það hvernig pólitík virkar. Fólk er kosið út á óljósar hugsanir um enn fegurri veröld á mælikvarða kjósandans, en hinn kosni ráðherra verður síðan að taka tillit til raunverulegra aðstæðna alvöru manneskja þegar hann er kominn í valdasætið, á meðan pípudraumar hans frá hippaárum hans verða að víkja til hliðar.

Hverjum og einum ber að fara eftir sannfæringu sinni eftir að hann er kominn í embætti. Kannski sjá þau ljósið sem þeim var áður hulið?

Ívar Pálsson, 28.6.2008 kl. 10:48

6 Smámynd: Einar Indriðason

Þó það sé rétt og gott að minna fólk á hvernig Samfylkingin hefur (og hefur ekki) staðið við sín loforð fyrir kosningar.... þá má alls alls alls ekki gleyma öðru:  Það er að minna fólk á hvernig D listinn valtar hægt og rólega yfir allt og alla!  Það má *aldrei* gleymast.

Mér finnst það oft á tíðum ansi merkilegt, hvernig allar svona áminningar til stjórnvalda virðast renna af D listanum eins og vatn af gæs.  Það virðist ekkert festast við þá til lengdar, og það er eins og kosningaminni kjósenda, gagnvart D listanum, sé enn lélegra en á móti öðrum flokkum.

Semsagt... ágætt að skamma Samfylkinguna... en það *verður* að koma skilaboðum til D listans líka.  Skilaboðum, sem vonandi ná inn fyrir fílabeinsturninn hjá þeim.

Annars skulum við bara segja að þetta sé innlitskvitt hjá mér :-)

Góða skemmtun á tónleikunum í dag.

Einar Indriðason, 28.6.2008 kl. 11:40

7 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Loforð og raunveruleikinn er bara ekki það sama þegar pólitík er annars vegar - því miður.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.6.2008 kl. 11:51

8 Smámynd: Víðir Benediktsson

Hvers vegna að hafa samúð með Þórunni? Kvittaði hún ekki upp á framkvæmdirnar í Helguvík? Hef aldrei áður upplifað önnur eins kosningasvik eins og Samfylkingin er að fremja núna og er þó eldri en tvævetur. Þórunn gat neitað að kvitta fyrir Helguvíkurálverinu en gerði það ekki. Þórunn gat mótmælt gjörðum Össurar á þingflokksfundi Samfylkingar en gerði það ekki. Hún gat mótmælt þessu öllu í ríkisstjórn en gerði það ekki.

Svo kemur hún með grátstafinn í kverkunum framan við myndavélarnar í hlutverki Pílatusar og þvær hendur sínar. Hún hefur ekki svo mikið sem lyft litla fingri til að koma stefnu flokksins FAGRA ÍSLAND í framkvæmd. Hún á enga samúð skilið. Það er betra að hafa fólk við stjórnvölinn sem maður veit hvar maður hefur, þó maður sé ósammála. Maður veit aldrei hvar maður hefur Samfylkinguna.

Víðir Benediktsson, 28.6.2008 kl. 12:46

9 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Með áframhaldandi sjónarspili Samfyllkingar/Sjálfstæðisflokks í umhverfismálum og reyndar efnahagsmálum, þá getum við innan skamms farið að tala um MAGRA ÍSLAND...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 28.6.2008 kl. 13:30

10 identicon

Takk fyrir þetta innlegg. Ferlega sterkt að taka saman myndband með svikum Samfylkingarinnar.

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 14:37

11 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Magra Ísland er einmitt heitið á grein Kristínar Helgu Gunnarsdóttur í tímaritinu Herðubreið sem kratar gefa út.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 28.6.2008 kl. 14:57

12 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Ekkert af þessu kemur mér í raun á óvart enda umhverfismál ætíð verið einskis virði í alvöru pólitík. Aumlegast þykir mér þó að Össur skuli afsaka þessa endurnýjun viljayfirlýsingarinnar vegna Bakka með því að síðasta ríkisstjórn hafi sett málið af stað (24 stundir)! Undrast að ný stjórn skuli telja sig svo skuldbundna af gjörðum þeirrar fyrri að sjálfsagt sé að svíkja meiriháttar kosningaloforð til að standa við dílinn.

Ég held að boltinn sé nú hjá ungliðunum og Dofra, Þau verða að láta í sér heyra svo eftir sé tekið og virkilega grilla þessa forystumenn sína - annars tapar þetta fólk allri tiltrú þeirra sem lætur sig þessi umhverfismál varða.

Og að lokum, allir að mæta á tónleikana í kvöld

Haraldur Rafn Ingvason, 28.6.2008 kl. 16:16

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Linkaði á þig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.6.2008 kl. 17:54

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég held að Fagra Ísland hafi aðeins verið atkvæðaveiðigræjur. En ég sakna þess svolítið að sjá, að ekki einn einasti áberandi umhverfisbaráttumaður eða -kona skuli taka á mesta umhverfisvandamáli á Íslandi fyrr og síðar:

Landeyðingu af völdum ágangs búfjár. 

Theódór Norðkvist, 28.6.2008 kl. 21:04

15 identicon

Já, rosalega flott og vel unnið myndband!!

Það er verst hvað það er langt í kostningar en ég mun vissulega skila auðu þegar að því kemur að kjósa, ég er langþreytt á því að lítið er gert úr vilja hins almenna borgara. Ég vona bara að við öll skilum auðu, hvernig á eiginlega að mótmæla þessu ölluSvo fela ráðamenn sig bara á bak við það að þetta séu einhver fyrirtæki sem ráða þessu og nokkrir aðilar í sveitarfélögunum, maður er bara að verða reiður!!

alva (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 01:09

16 identicon

já og svo er ég orðin langþreytt á þessu fórnarlambs"attitudi" sem Þórunn Sveinbjarnardóttir er með, ég meina, kommon, er hún ekki umhverfisráðherra með völd!! Hún hagar sér eins og barin hunds... Bæði í þessum málum og síðan ísbjarnarmálunum báðum!! Hræðilegt að horfa upp á hana.  Segi bara það.

alva (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 01:13

17 Smámynd: Brattur

... Samfylkingin er að renna saman við Sjálfsstæðisflokkinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi... eins og Framsóknarflokkurinn gerði þar á undan... mikil vonbrigði með Samfylkinguna í þessum virkjanamálum...

Brattur, 29.6.2008 kl. 10:45

18 identicon

Össur Skarphéðinsson og Kristján Möller eru stóriðjusinnar og hafa verið það alla tíð. Ég held að konurnar í Samfylkingunni séu í miklum meirihluta andvígar þessum álverum og virkjunum. Þess vegna væri það líklega besti kosturinn fyrir Samfylkinguna ef hún á að vera trúverðug að koma þessum þjóðflokki (Össur, Kristján og kó) í þann flokk sem skoðanir þeirra fara saman við, þ.e. Framsóknarflokkinn. Þá held ég að Samfylkingin gæti verið hinn ágætasti flokkur.

Reyndar væri áhugavert að gera könnun á kynjaskiptingu og aldri þegar kemur að stóriðjumálum almennt. Það hefur verið gert með einstaka virkjanir og álver en ég er ekki viss um að það hafi verið gert í víðara samhengi. Ég held nefnilega að ef þú spyrð karl svona cirkabout á aldrinum 50-60 hvort hann sé hlynntur stóriðju og nýtingu orkuauðlinda til stóriðju þá fáir þú talsvert fleiri já en nei - ef þú aftur á móti spyrð konu á sama aldri færðu mjög líklega fleiri nei.

Ég er reyndar komin á þá skoðun að engum flokkanna (ekki heldur VG) sé hægt að treysta í þessum efnum. T.d. treysti ég alls ekki Steingrími Joð. Hann er t.d. á þessum aldri sem ég benti á að væri hallari undir stóriðju en aðrir. Og hann er líka ólíklegur til að leggja í einhverja alvöru baráttu gegn t.d. álveri á Bakka, einfaldlega vegna þess að hann er hræddur við að missa einhver mikilvæg atkvæði ef hann beitir sér af alvöru gegn þessu álveri. Hvað er þá orðið eftir af hugsjón þegar menn hugsa þannig?

Líklega dugar ekkert til í þessum efnum nema alvöru Græningjaflokkur með engu V-i fyrir framan. En í þeim flokki ættu hvergi að sjást á lista menn eða konur sem áður hafa verið á lista eða prófkjöri fyrir aðra flokka. Á þessu klikkaði Íslandshreyfingin, þess vegna var henni ekki treyst. Þegar þú ert komin með Margréti Sverris fyrrum F-lista, Jakob Frímann, fyrrum Samfylkingu, Ástu Þorleifs, fyrrum VG o.s.frv. þá virkar framboðið bara eins og samansafn af svekktu fólki sem fékk ekki þau völd og áhrif sem það vildi innan annarra flokka.

En nú er ég hætt í bili að hugsa um pólitík og farin að hugsa um úrslitaleikinn

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 14:28

19 Smámynd: Víðir Benediktsson

Ég held að Össur og Kristján Möller séu best geymdir þar sem þeir eru. Samfylkingin er stóriðjuflokkur og er búin á nokkrum mánuðum að kvitta uppá fleiri álver en Framsókn gerði á 12 árum. Það skilur á milli Framsóknar og Samfylkingar að Framsókn fór ekki leynt með það að vilja stóriðju. Samfylkingin hins vegar siglir undir fölsku flaggi og þykist vera eitthvað annað en hún er.

Fólk á að geta kosið eftir sannfæringu sinni en ekki vakna upp við það að flokkurinn sem það kaus er á allt annarri vegferð en boðað var í kosningum. Þetta heitir á mannamáli lygar og svik. Þeir sem eru á móti virkjunum og stóriðju geta kosið VG Ég held að þeir séu heilir í þeirri afstöðu. Þeir sem vilja áframhaldandi uppbyggingu geta kosið Framsókn eða Sjálfsstæðisflokkinn. Þeir fara heldur ekki leynt með hvað þeir vilja.

Við vitum allavega hvar við höfum þessa flokka og getum kosið í samræmi við það. Með því að kjósa Samfylkingu veit maður ekkert hvað maður er að kjósa.

Víðir Benediktsson, 29.6.2008 kl. 16:13

20 identicon

MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 16:48

21 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Heyr fyrir þér Lára Hanna!

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 29.6.2008 kl. 22:33

22 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Góð og þörf samantekt. Skil ekki af hverju þarf að ráðast í þessar virkjanir eins og staðan er í dag. Er ekki allt af fara til fjandans vegna þenslunar sem Kárahnjúkavirkjun skapaði? Og eru þá fleiri álver lausnin?

Mig langar að fá svar við einni spurningu:

Fyrst að það þarf tvö álver til að halda hagkerfinu gangandi eftir Kárahnjúka hvað þarf mörg álver eftir Bakka og Helguvík og hvar eiga þau að rísa á fagra Íslandi?

Sigurður Haukur Gíslason, 30.6.2008 kl. 00:49

23 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

þú stendur þig Lára Hanna

Hólmdís Hjartardóttir, 30.6.2008 kl. 00:50

24 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Auðvitað stendur hún sig, er afskaplega STÆÐILEG kona OG STÓR!

En með hinn ágæta fyrrum sægarp og sambæing minn hann Víði, vil ég allra vinsamlegast spara sér það að vera með einhvern samanburð á hans núverandi/fyrrverandi flokki, Framsókn og Samfylkingunni, svona til að sýna fram á hve annar flokkurinn sé alvondur og fólk viti ekki hvað það fái með að kjósa hann!

Hafi slíkt bara nokkurn tíman gerst, þá á það við um Framsókn, því það veit sá sem allt veit að fæstir þeir sem kusu B t.d. í kosningunum '99 kusu hann til að setja ólög og brjóta Stjórnarskrána í málefnum öryrkja eða til að flokkurinn tæki þátt í þeim ömurleika að gera aðför að fjölmiðlun í landinu, allt vegna óráðs og haturs eins manns í garð annara manna að því enn best verður séð!

Og ekki kusu nú þúsundir manna Árna Magnússon til að hann gæti framkvæmt þá svívirðu sem hann varð svo dæmdur maður fyrir, að brjóta á rétti VAlgerðar Bjarnadóttur og hrekja hana úr starfi Jafnréttisstýru, Víðir minn!

Er satt best að segja orðin dálítið leiður á að heyra menn fara með þessa klisju um S, sem þó svo sannarlega á skilið gagnrýni, en frá þeim þá sem hafa á því efni, en ekki til dæmis B mönnum (núverandi sem fyrrverandi) slíkt er ekkert annað en sannkallað grjótkast úr glerhúsi!

Magnús Geir Guðmundsson, 30.6.2008 kl. 01:29

25 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Frábært myndaband... hvernig væri að skella því á youtube svo auðveldara sé að dreifa því?

með björtum baráttukveðjum

Birgitta Jónsdóttir, 30.6.2008 kl. 06:45

26 identicon

Takk fyrir frábær myndbönd hér á síðunni, pistlana alla, þrautseigjuna og baráttuandann. Ef allar götur ættu bara eina svona baráttukonu eins og þig værum við fyrir löngu komin á allt aðrar og betri slóðir en við erum núna. Legg til að Samfylkingin fari úr þessari ríkisstjórn og bjargi sjálfri sér og náttúru Íslands frá enn frekari niðurlægingu. Þetta má ekki gerast. Lilja nágranni á Vesturgötu

Lilja Gretarsdottir (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 13:42

27 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú ert bara nokkuð snjöll í gerð áróðursmyndbanda Lára Hanna!

En eruð þið já-jarm-kórinn virkilega svo grunnhyggin að halda að ef VG hefði verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, þá hefðu þessi áform farið eitthvað öðruvísi? Eruð þið búin að gleyma því þegar Steingrímur J. Sigfússon fór kjökrandi á hnén eftir kosningarnar og sagði að álver á Bakka og í Helguvík væru möguleiki ef hann fengi ráðherrastól?

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.6.2008 kl. 13:44

28 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Hef síðustu daga legið yfir skrifum þínum og get ekki annað en tekið ofan fyrir þér vegna frábærra skrifa og einlægrar elsku til landsins...frábær vinna sem þú innir af hendi að halda á lofti því sem máli skiptir.....takk

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 30.6.2008 kl. 17:15

29 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Elskar landið en fólkið sem byggir það er einskis virði greinilega

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.6.2008 kl. 17:24

30 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þú ert orðin þrælmögnuð í myndbandagerðinni Lára Hanna. - Þarna varparðu einfaldlega fram spurningum sem vakna við þessar fréttir. - En svo ég sé smá leiðinlegur líka þá er þarna ein leiðinleg villa í texta, sem er að vísu mjög algeng. Það stendur á alls oddi. Þarna á bara að vera eitt l á als oddi. Hið ágæta verkfæri alur er það sem þetta er sótt í. Þetta er kannski óþarfa nöldur en bendi þér á þetta í fullri vinsemd.

Haraldur Bjarnason, 30.6.2008 kl. 19:31

31 identicon

Virkilega góð samantekt Lára Hanna, takk fyrir.

Dagný Reykjalín (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 20:28

32 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mér fallast alltaf hendur þegar ég fæ svona margar athugasemdir. Finnst ég þurfa að svara hverjum og einum, en auðvitað er það yfirleitt óþarfi en... engu að síður þakka ég fyrir stuðninginn og eins og ég hef ítrekað sagt - ég gæti ekki haldið áfram án þess að fá þennan ómetanlega stuðning. Myndbandið hefur breyst svolítið - veit ekki hvort fólk tekur eftir því, en þessi óþolandi fullkomnunarárátta veldur því að mér finnst aldrei neitt nógu gott sem ég læt frá mér og ég þarf stöðugt að endurskoða hlutina. Auk þess sem Halli Bjarna kom með góða ábendingu í athugasemd nr. 30 sem ég brást umsvifalaust við.

Mér finnst athugasemd Ellerts, nr. 4, mjög athyglisverð. Nú veit ég ekkert hver Ellert er en mig grunar að hans viðhorf endurspegli viðhorf ansi margra kjósenda Samfylkingarinnar sem treystu "Fagra Íslandi".

Ívar... ég er ekki að fjalla um neina pípudrauma frá hippaárunum. Skil ekki hvað hippar koma málinu við. Ég er einfaldlega að fjalla um almenna skynsemi, ekkert annað. Og ég dreg ekki mörkin með sannfæringuna við embætti. Mér finnst að fólk eigi ALLTAF að fara eftir sannfæringu sinni - bæði fyrir og eftir embætti.

Einar hefur auðvitað rétt fyrir sér eins og ævinlega. Sjálfstæðisflokkurinn valtar yfir allt og alla og einhvern veginn dregur enginn hann til ábyrgðar af því enginn væntir neins af honum. Auðvitað er þetta ekki sanngjarnt og það þarf að skafa af flokknum teflonhúðina.

Sko... Víðir... samúð eða ekki samúð með Þórunni. Hún er alltént sú eina af ráðherrum Samfylkingarinnar sem hefur lýst því yfir að hún sé ósátt við framvindu mála. En ég sakna þess að heyra ekkert í formanni flokksins um þessi mál. Ekki orð.

Ungliðarnir, Dofri og Mörður eru líkast til eina von Samfylkingarinnar úr því sem komið er, Haraldur Rafn.

Theódór... ég veit hvað þú ert að meina með búféð en hef ekki næga þekkingu á því máli til að fjalla um það. Vissulega er það alvarlegt umhverfisvandamál, ekki spurning. En uppfræddu okkur hin.

Alva... þetta með að skila auðu... einu sinni var ég á því að maður ætti bara að skila auðu ef maður vildi engan... ég er farin að efast. Ekki lengur viss um að það sé góð lausn.

Anna mín Ólafs... þitt innlegg er allt of innihaldsríkt til að kommentera á í stuttu máli. Það krefst hittings.

Sigurður Haukur... það þýðir ekkert að spyrja mig að þessu og þótt ég viti að bæði þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar lesi bloggið mitt hefur enginn látið svo lítið að svara neinum fyrirspurnum hér. Sendu þeim tölvupóst - það sakar ekki að prófa.

Magnús Geir - ég er 170 sm á hæð - er ég þá stór og stæðileg?

Gunnar Th. - Ef sannleikurinn er áróður þá er það bara þannig. Og hér var enginn að tala um VG og eitthvað "ef" og "hefði". Hér er verið að tala um raunveruleikann eins og hann blasir við. Þú hefur ekki svarað beiðni minni um rök fyrir orðum þínum í fyrri pistli mínum svo ég nenni ekki að eyða frekari orðum á þig hér.

Hrafnhildur - mikið er gaman að sjá þig hérna. Ég hef séð þig svo oft annars staðar. Mér er heiður af bloggvináttu þinni.

Takk, Haraldur - eins og ég sagði á öðrum vettvangi var málið leyst snarlega.

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.7.2008 kl. 01:40

33 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Dagný...  ég sá ástæðu til að svara þér sérstaklega.

Ég las pistilinn þinn um hann Halla afa þinn og fannst hann frábær. Nei, meira en það... hann var fallegur og sannur. Ég hvet alla til að lesa þann pistil - bara smella á nafn Dagnýjar og þá birtist hann.

Eins framfarasinnaður og hann afi þinn var hefði hann alls ekki verið sáttur við virkjanahugmyndir þeirra sem nú ráða ríkjum þar sem græðgin ein er höfð að leiðarljósi. Nú skal náttúra Íslands og orkuauðlindir landsmanna seld lægstbjóðanda - og það er ekkert veriðað hugsa um hag þjóðarinnar heldur skammtímahugsjónir misviturra stjórnmálamanna.

Alveg er ég sannfærð um að hann afi þinn hefði tekið undir með Stefáni Arnórssyni sem ég vitnaði í í þessum pistli. Spegilsviðtalið við hann er í tónspilaranum. Stefán vill meina að virkjanastefnan sé spurning um siðferði þegar upp er staðið. Að við verðum að velja á milli skammtímasjónarmiða og skyndigróða annars vegar og afkomenda okkar og komandi kynslóða hins vegar.

Ertu í nokkrum vafa um hvað Halli afi hefði valið? Ekki ég.

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.7.2008 kl. 01:53

34 identicon

Takk fyrir svarið Lára, ég er ekki í nokkrum vafa um hvað 20. aldar sjálfstæðismaðurinn hefði valið stæði hann frammi fyrir þessum spurningum núna. Hann hefði hugsað laaaangt fram í tímann, miklu lengra en það sem er verið að gera núna, og hefði hugsað um hag afkomenda sinna langt framar síns eigin. En þetta væri samt sem áður erfitt vegna þess að krafan um praktískar skyndilausnir er svo rík. Glópagullinu er veifað framan í okkur. En við eigum ekki að hlusta á vælið í þeim sem halda því fram að allt falli hérna í eymd og volæði ef við förgum ekki Íslandi. Þeir sem hafa sterka sjálfsmynd, hafa val og kunna að forgangsraða ná að bjarga sér sjálfir. Ef við virkjum allt sem hægt er að virkja fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki sem senda gróðann úr landi, höfum við ekki aðeins misst þetta val heldur líka fórnað því sem býr til sjálfsmyndina. Hvar verðum við þá? Við höfum alltaf verið rík af því stoltið yfir landinu og fólkinu okkar höfum við ekki getað metið til fjár, og sennilega ekki kært okkur um það fyrr en núna. Þetta eru allt siðferðilegar spurningar eins og Stefán segir í viðtalinu góða.

Sjálf erum við að flytja heim til Akureyrar frá námi í Danmörku þessa dagana, kasólétt og með einn fjögurra ára. Unnusti minn fer að vinna við hugbúnaðarþróun hjá fyrirtæki á Akureyri (og Reykjavík) sem vinnur hugbúnað fyrir sjúkrahús á meginlandi Evrópu. Ef t.d. hugbúnaðarþróun fengi þó ekki nema helminginn af athyglinni sem stóriðjan fær í Iðnaðarráðuneytinu væri staða þess mun betri. Þá gætum við virkjað smærra, hugsað lengra og skipulagt betur. Ég held að afi minn, 20. aldar maðurinn, hefði verið sáttari við þá framtíðarsýn.

En þetta er bara minn túkall (verst hvað túkallinn rýrnar hratt þessa dagana ), takk aftur fyrir frábæran vef!

Dagný Reykjalín (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband