Forsætisráðherra og fjölmiðlarnir

Það var aldrei meiningin að fara út í mikla myndbandagerð, en ég ræð ekkert við hugmyndaflæðið; fjölmiðlarnir og þjóðmálin eru endalaus uppspretta hugmynda og gagnrýni. Ég hef ekki tíma til að vinna úr nema brotabroti af öllum þeim hugmyndum sem ég fæ. Oft spilar margt saman og í þetta sinn var það lítill pistill á baksíðu 24stunda þriðjudaginn 1. júlí og nokkrar fréttaúrklippur af viðtölum við forsætisráðherra.

Í mars sl. skrifaði ég þennan pistil, sem ég kallaði "Fjölmiðlar, fjórða valdið og fyrirlitning í framkomu ráðamanna". Tilefnið var tilsvar forsætisráðherra þegar fréttakona spurði hann spurningar - eða réttara sagt, reyndi að ganga á eftir því að hann svaraði spurningu. Forsætisráðherra var aldeilis ekki á því og hreytti í hana ónotum. Hann hefur verið áberandi ergilegur undanfarið, blessaður, og gjarnan svarað með skætingi.

Svo sá ég þennan pistil á baksíðu 24stunda á þriðjudaginn og ákvað að búa til nýtt myndband.

 Atli Fannar um forsætisráðherra

 

Mér til dálítillar furðu bættist við enn eitt myndbrotið áður en ég byrjaði á myndbandinu - í hádegisfréttum Stöðvar 2 í gær, miðvikudag. Að sjálfsögðu tók ég það með. Athygli vekur að svona myndbrot hafa aðeins birst í fréttum Stöðvar 2. Hvað þýðir það? Að forsætisráðherra svari ekki fréttamönnum Ríkissjónvarpsins á þennan hátt - eða eru tilsvör hans bara ekki sýnd þar? Það langar mig að vita.

Geir HaardeGeir Haarde er vel gefinn maður og hér áður fyrr naut hann álits, trausts og virðingar langt út fyrir raðir síns flokks. Er valdið að fara svona með hann eða er eitthvað annað að gerast? Af hverju sér þessi áður fyrr prúði og kurteisi maður sig knúinn til að koma fram eins og forveri hans í embætti sem kunni sér ekkert hóf í framkomu sinni og talaði alltaf niður til þjóðarinnar? Ég neita að trúa að Geir sé strengjabrúða seðlabankastjóra, sem virðist ráða því sem hann vill ráða þótt hann eigi að heita hættur í stjórnmálum. Breytir hann hegðan sinni fyrir næstu kosningar? Verður hann þá eins og Halldór Ásgrímsson sem sást aldrei brosa nema í kosningabaráttu? Eða er Geir búinn að fá leið á vinnunni sinni eins og George Constanza sem Atli Fannar skrifar um?

Með samsetningu þessa myndbands vil ég hvetja fjölmiðlafólk til að láta stjórnmálamenn ekki komast upp með að svara ekki spurningum eða hreyta í það ónotum þegar það reynir að gera skyldu sína gagnvart almenningi - að upplýsa þjóðina um atburði líðandi stundar. Og birta svör þeirra eins og Stöð 2 hefur gert. Fjölmiðlar eru fjórða valdið í þjóðfélaginu og þeim ber að sinna skyldu sinni gagnvart þjóðinni. Vonandi ber þeim gæfa til að inna það starf eins vel af hendi og kostur er.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

UFF.. góð samantekt hjá þér Lára.. Geir Haarde þykist vera harður gaur.. en kemur bara út eins og fífl í viðtölum.. og hrokafyllri en forveri hans...

Ömurlegt og ég tel niður dagana þar til Samfylkingin ákveður að losa sig við þetta fólk og boða til kosninga sem fyrst..  

Óskar Þorkelsson, 3.7.2008 kl. 01:41

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hjá hverjum vinur þessi maður?

Hólmdís Hjartardóttir, 3.7.2008 kl. 01:45

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

vinnur

Hólmdís Hjartardóttir, 3.7.2008 kl. 01:51

4 identicon

Hjá hverjum vinur þessi maður?

MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 03:00

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Landsfeðurnir svonefndir eru ævinlega auðmjúkir þegar þeir-umboðslausir ræða við kjósendur og biðja um stuðning þeirra. Hrokinn byrjar ekki fyrr en ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Mýksti og um leið einn flinkasti forsætisráðherra í mínu minni var Steingrímur Hermannsson. Alltaf reiðubúinn að ræða við fréttamenn og einskonar heimilisvinur þjóðarinnar vegna margra viðtala í sjónvarpi.

Eitt sinn rétt fyrir áramót gaus sá kvittur upp að Seðlabankinn hefði ákveðið að fella gengið næstu daga. Mikill órói greip um sig meðal þjóðarinnar og Steingrímur forsætisráðherra tók að vanda vel í að koma í sjónvarpsviðtal. þar var hann þráspurður um hvort til stæði að fella gengið. Steingrímur vék sér fimlega að vanda undan afdráttarlausum yfirlýsingum og sagði sem svo að sér væri ekki kunnugt um að gengisfelling væri á næstu grösum enda væri hann "alfarið á móti því að gengið yrði fell!"

Þjóðinni létti mjög við þetta og hélt sín jól og áramót með glöðu yfirbragði. Fyrsta virkan dag á nýju ári var svo gengið fellt eins og spáð hafði verið. Fréttamenn ærðust. Töldu sig hafa verið svikna og kölluðu Steingrím í viðtal. Þar réðust þeir að honum ókvæða og sökuðu hann um að hafa sagt þjóðinni ósatt um þetta viðkvæma mál.- Ég sagði ekki ósatt, enda er það ekki venja mín!- svaraði forsætisráðherra. - Þú sagðir að gengið yrði ekki fellt nokkrum dögum áður en það var fellt! -Það sagði ég aldrei. Ég sagði að ég væri á móti því að gengið yrði fellt. - En vitaskuld er hægt að fella gengið þó ég sé á móti því!

Ekki tek ég ábyrgð á að orðrétt sé farið með en þessi var atburðarásin.

Forsætisráðherra glórulausrar græðgihyggju einkavina verður aldrei vinsæll til lengdar. Frjálshyggjublaðran sprakk í andlitið á stýrimönnum hennar og þjóðinni er ætlað að þerra upp gumsið sem reyndist hafa fyllt þetta fyrirbæri sem sjálfstæðismenn líktu helst við fyrsta geimfar sögunnar.   

Árni Gunnarsson, 3.7.2008 kl. 08:34

6 identicon

Ekki eru vandamál Íslensku þjóðarinnar stórvægileg að mati þeirra sem leggja það á sig að setja saman vandaða og vel unna pistla og velta sér svo upp úr þeim dag eftir dag, að forsætisráðherra þjóðarinnar hafi þrívegis - síðan 18 mars, neitað að svara spurningu fréttamanns!

Megi forsjónin haga því svo að tuðarar og nöldurskjóður þessa lands hafi ekki úr meira að moða um ókomna framtíð

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 10:33

7 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Næg eru vandamál Íslensku þjóðarinnar Sigurjón og væri líklega að bera í bakkafullan lækinn að taka þau öll saman.  Þess heldur eiga kjörnir fulltrúar okkar á þingi að upplýsa okkur um hin ýmsu mál og hvað þeir hyggist gera - eða gera ekki - í stöðunni. 

Flott hjá þér Lára Hanna. 

Megi forsjónin haga því svo að Sigurjónar og Pálssynir þessa lands hafi annað að gera en senda frá sér leiðindakomment um ókomna framtíð.

Anna Einarsdóttir, 3.7.2008 kl. 12:00

8 identicon

Þú misskilur tilgang minn gjörsamlega Anna mín. 

Þetta innskot mitt var öðrum þræði áskorun til Láru Hönnu um að gefa sig heldur að brýnni málefnum en geðsveiflum ráðherrans. Málefnum sem hæfa hennar kalíber betur.  Það að ráðherra fari í fýlu er miklu heldur málefni nöldrara og tuðkerlinga fyrir nú utan það að hann hlýtur að mega fara í fýlu annað veifið  -  svona rétt eins og þú í morgun.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 13:03

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ef ég færi í fýlu í þeim viðtölum sem ég á í við mína viðskiptavini.. væri ég atvinnulaus í dag Sigurjón.

Óskar Þorkelsson, 3.7.2008 kl. 13:07

10 identicon

Þjóðin bíður eftir þér.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 13:32

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þennan pistil.  Þú mátt gjarnan kynna þér þettta mál.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.7.2008 kl. 15:31

12 identicon

Mín ósk varðandi Geir er að hann losi sig undan valdi Dabba. Ég er orðin svo þreytt á því hvernig DO er endalaust gefið eitthvað vald sem hann á bara alls ekki að hafa. Þeim mun fyrr sem Geir hristir hann af sér þeim mun betra.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 17:05

13 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Svakalegt ég held bara að þú hafir hitt naglan á höfuðið Lára.

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 3.7.2008 kl. 23:28

14 Smámynd: Víðir Benediktsson

Þessi maður er í vinnu hjá Samfylkingunni og þar af leiðandi á hennar ábyrgð.

Víðir Benediktsson, 4.7.2008 kl. 00:27

15 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir þetta. Næsta víst, að Geir H & Co. þurfa að panta viðtal hjá þjóðinni sem allra fyrst.

Og varðandi stjórnarsáttmálann, það loðna plagg, sem alltaf er verið að vitna til og sérstaklega þann þáttinn, er tekur til kvennastétta, þá er þar lykli í hnykli snúið.

Ég legg til að ljósmæður boði til alþjóðlegs blaðamannafundar á Austurvelli og til að leggja áherslu á sín baráttumál og kvenna almennt, fái í lið með sér nokkrar verðandi mæður, sem komnar eru á steypirinn og undirbúi fæðingar við fótskör Jóns forseta Sigurðssonar...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 4.7.2008 kl. 07:54

16 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þetta myndband er snilld. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 4.7.2008 kl. 08:20

17 identicon

Það er nákvæmlega svona framkoma ráðherra í garð þjóðar sem kemur alveg í veg fyrir að ég nenni að fylgjast með pólitík á Íslandi. Þessi hroki er óþolandi og maður hálfskammast sín fyrir hvað pólitísk umræða á vegum stjórnvalda á Íslandi er léleg. Engar upplýsingar gefnar neins staðar og manni finnst hálfpartinn að stjórnin sé alltaf að stjórna fyrir sig og sína, en ekki fyrir þjóðina í heild. Frá mínum bæjardyrum séð (í suð-austur Asíu) virkar þetta allt heldur gamaldags. Það er eins og stjórnin viti ekki hvað Ísland er og hvaða möguleika það gefur, en sé alltaf að elta gamlar hugmyndir sem gefa kannski fáeinum vinum og vandamönnum stundargróða.

Ragnheiður Ólafs (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 13:37

18 identicon

Í þessu samhengi má samt alveg koma fram að sami forsætisráðherra var í ítarlegu viðtali við Ísland í dag, fimmtudagskvöldið 3. júlí, þarsem hann svaraði öllum helstu spurningum er varða pólitík, efnahagsmál og Evrópumál.

Viðtalið má sjá hér: http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=STOD2&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=664d9977-3481-4136-8d9d-c97f0c024908&mediaClipID=fb376d1a-07b2-4355-8d75-1089d6f3da8a

Athugið að viðtalið byrjar á svari hans við spurningunni um hugsanleg stjórnarslit, sem greinarhöfundur Financial Times taldi sig hafa heimildir fyrir.

Kveðja!

Þorfinnur 

Þorfinnur (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 15:28

19 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innlit og athugasemdir.

Þessi maður er í vinnu hjá okkur kjósendum - sama hvaða flokk við kusum. Allir alþingismenn, ráðherrar, embættismenn og aðrir ríkisstarfsmenn eru í vinnu hjá skattborgurum þessa lands. Þeim ber að fara vel með fjármuni okkar og svara þeim spurningum sem almenningur og fjölmiðlar sjá ástæðu til að spyrja þá. Svo einfalt er það.

Góð saga af Steingrími, Árni... 

Ég er snortin og upp með mér af öllu hrósinu sem Sigurjón Pálsson eys yfir mig í athugasemdum sínum. Hann segir að ég setji saman vandaða og vel unna pistla, að ég sé af einhverju kalíberi og að þjóðin bíði eftir mér (eða var hann að ávarpa einhvern annan?). Ég get ekki annað en þakkað auðmjúklega fyrir slíkt hrós en um leið bendi ég Sigurjóni á orð mín hér að ofan - maðurinn er í vinnu hjá mér og ég því í fullum rétti til að gagnrýna hann fyrir að neita að svara spurningum sem ég vil fá svör við. Slíkt væri víðast hvar brottrekstrarsök samanber það sem Óskar segir.

Jenný... ég fylgist mjög grannt með þessu máli og er að safna heimildum sem ég mun svo sannarlega vinna úr.  Þetta er hneyksli sem stjórnvöld mega alls ekki komast upp með! Ég hef hins vegar haft mjög takmarkaðan tíma til aflögu og ekki skánar það á næstunni. Segi þér seinna hvað er á seyði.

Anna... svona menn eins og DO koma víða fram í mannkynssögunni. Ég ætla ekki að hætta mér út á þann hála ís að telja þá upp og þeirra "afreksverk". Ég held að þú fattir alveg hverja ég á við og hvað þeim fylgdi.

Þorsteinn... ég er með kúlu framarlega í miðju á höfðinu. Naglinn hefur líklega lent þar.

Ásgeir - ertu að vísa í það sem Geir sagði við Sindra? Hann pantaði ekki viðtal. Ég get vel skilið að ráðherrar séu önnum kafnir og ekki alltaf í skapi til að tala við fréttamenn, en þeir þurfa ekki að vera dónalegir við þá - og þar með þjóðina, kjósendur.

Takk fyrir hrós og innlit, Hallur.

Þorfinnur... ég sá viðtalið þitt við forsætisráðherra í Íslandi í dag. Þar var gamli, góði Geir á spjalli en samt ekki. Geir virðist hafa tileinkað sér hroka forvera síns sem kemur ýmist fram í því sem sýnt er í myndbandinu eða yfirlætislegum tón eins og þegar hann kallaði þig: "...Þorfinnur, minn kæri vinur..." og þegar hann líkti greinum í Financial Times við greinar í DV! Það fannst mér ævintýralegur samanburður. Það kitlar eflaust fréttamanninn í þér að hafa fengið þetta viðtal við forsætisráðherra, en hafðu það ávallt í huga að á ykkur hlustar sæmilega vel gefið og upplýst fólk sem lætur ekki bjóða sér hvaða málflutning sem er og sér jafnvel í gegnum huggulegheitin sem eiga að slá á áhrif skætingsins.

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.7.2008 kl. 02:36

20 Smámynd: Beturvitringur

Eitt eða allt af þessu:

  • Undirlægjuháttur GHH við t.d. flokkinn og gamla "Formanninn".
  • Dónaskapur og ókurteisi á vinnustað við annað vinnandi fólk.
  • Feimni eða óöryggi gagnvart viðmælendum
  • Hroki og sjálfsupphafning gagnvart "sauðsvörtum almúganum"
  • Siðleysi gagnvart vinnuveitendum sínum (okkur)

Þótt aðeins ein þessara ágiskana reyndist rétt, er það nóg til að hann er ekki fær um starfið/stöðuna/tignina.

EÐA?

Beturvitringur, 16.7.2008 kl. 18:00

21 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Þessi framganga Geirs er dapurleg. Ingibjörg Sólrún var líka önug þegar hún var spurð um eftirlaunafrumvarpið. Fékk vægt sjokk, þegar ég horfði á viðtal Sindra Sindrasonar við Geir. Sindri er einn af þessum fréttamönnum sem lyfta  fjölmiðun á Íslandi á hærra plan. Þeir sem þekkja til Geirs segja allir að þessi framganga sé mjög ólík Geir. Hef sjálfur átt nokkur erindi við Geir Haarde og miðað við þau kynni er þetta sannarlega mjög ólíkt, þeim manni sem ég hef þar kynnst. Það er eins og á stundum ómálefnaleg gagnrýni sem hann hefur fengið, hafi sett Geir úr jafnvægi.  Flokkspólitískir andstæðingar hans hafa á þessu sjálfsagt aðrar skýringar. Kvakið í sumum þeirra, minnir mig í kvakið í sumum stuðningsmönnum Kárahnjúkavirkjunar hvar sem þeir eru nú í flokki.

Sigurður Þorsteinsson, 21.7.2008 kl. 06:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband