Fjárfestar og einkavæðing

Þessi pistill er svar við athugasemd við þann síðasta og fjallar að mestu leyti um fjárfesta, einkavæðingu og íslenska pólitík. Þeir sem hafa áhuga á að skilja þennan pistil verða að lesa athugasemd nr. 12 sem Sigurður Þorsteinsson skrifaði við síðasta pistil minn. Vonandi hef ég gert ágætri athugasemd hans sæmileg skil með þessum pistli.

__________________________________________

Sigurður... mér finnst þú snúa svolítið út úr orðum mínum á þinn vingjarnlega, kurteisa og ljúfa hátt. Það má vel vera að pistlarnir mínir um náttúruvernd séu betri en aðrir (NB - náttúruvernd, ekki umhverfisvernd - þar er munur á). En ég hef skoðanir á fleiri málum og þegar peningahyggjan er beinlínis farin að hafa áhrif á náttúruna og verndun hennar get ég ekki orða bundist.

Liður 1:  Til að byrja með vil ég taka fram, að eins og ég segi í upphafsorðunum er þetta skrifað í framhaldi af myndbandinu sem ég birti í síðasta pistli og vísar því beinlínis í slíka og þvílíka fjárfesta. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um venjulegt fólk sem fjárfestir í innanstokksmunum, húsnæði eða menntun sinni og barnanna sinna. Ég er heldur ekki að tala um þennan venjulega Pétur og Pál og Jónínu og Guðrúnu sem fjárfesta hluta af sparifé sínu í hlutabréfum í hinum og þessum fyrirtækjum. Jafnvel ekki þá sem slá lán og veðsetja húsnæði sitt til að spila með á hlutabréfamarkaðnum. Þetta fólk er vitanlega að hugsa um að græða nokkrar krónur á fjárfestingunni, en hefur engin áhrif á stjórn fyrirtækisins og fylgist jafnvel ekkert með öðru en því, hvort hlutabréfin séu að lækka eða hækka í verði. Hefur ekki hugmynd um hvernig fyrirtækinu er stjórnað, hvaða laun það greiðir eða hvaða hlutverki það gegnir í víðara samhengi - jafnvel pólitísku.

Ég er að tala um stóru fjárfestana, þessa sem höndla með milljarða á milljarða ofan og svífast einskis. Fjárfesta, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, sem líta á almenning í landinu - svosem hvaða landi sem er - sem algjört aukaatriði, bara ef þeir geta grætt. Lastu athugasemdirnar við síðasta pistil sem ég benti á? Þar sem sagt var t.d. frá SMS skeyti frá auðmanni til stjórnmálamanns. Ég er að tala um þannig fjárfesta.

Ég hef aldrei unnið við fjármál eða hlutabréf eða neitt þvíumlíkt og hef lýst því yfir í pistlum hér á blogginu mínu að ég hafi enga sérþekkingu á slíkum málum - nema síður sé. Ég er því vissulega áhugamanneskja eins og þú segir. En ég er hluti af þessum almenningi sem horfir í forundran á hina ríku verða ríkari án þess að botna upp né niður í hvernig þetta sé hægt.  Ég horfi á þessi mál sem fullkomlega óinnvígð að öllu leyti en furða mig gjarnan á því hve fárra spurninga er spurt, einkum af fjölmiðlum sem um þessi mál fjalla. Hvernig gat þetta til dæmis gerst sem lýst er í myndbandinu í pistlinum hér á undan? Og hver á hvað í hvaða fyrirtæki eða Group eða hvað sem þessir strákar kjósa að kalla ungana sína?

Endur fyrir löngu kom út bók - mig minnir að hún hafi einfaldlega heitið Kolkrabbinn - þar sem farið var ofan í saumana á tengslaneti einstaklinga og fyrirtækja. Mér sýnist vera góður jarðvegur fyrir aðra slíka til að skýra eignarhald og brask með allt milli himins og jarðar.

Staðreyndin er nefnilega sú að þessir stórtæku "fjárfestar" eru gjarnan að spila með líf og afkomu almennings. Fyrirtæki sem við þurfum öll að skipta við að einu eða öðru leyti og ef þeir klúðra málunum erum það við sem borgum brúsann. Dæmi um það eru t.d. flugfélögin og matvöruverslanirnar. Þeir tapa eða gleypa of mikið sjálfir - það fer beint út í verðlagið sem almenningur er að sligast undan. Hver á Iceland Express? Síðast þegar ég vissi voru að mestu leyti sömu eigendur að IE og Icelandair. Mér gæti skjátlast því ég hendi ekki reiður á hver á hvað hverju sinni. Ég þurfti að fara tvisvar til Englands í vor og sumar með stuttu millibili og ég gat ekki séð neinn verðmun á fargjöldum þessara tveggja flugfélaga. Eiga ekki sömu menn Hagkaup, Bónus og 10-11 og svo aftur sömu menn Nóatún og Krónuna? Þetta eru tveir stærstu aðilarnir á matvörumarkaðnum á svæði þar sem 60-70% landsmanna búa. Og matur er lífsnauðsyn, ekki lúxus, þannig að allir þurfa að skipta við eitthvert þessara fyrirtækja.

Liður 2: Ég hef ekkert á móti samkeppni nema síður sé - þar sem hún á við og ef hún er raunveruleg og marktæk. Við erum svo lítið land með svo fáum íbúum að samkeppni getur ekki þrifist á öllum sviðum. Fyrirtækin bera sig einfaldlega ekki. Í einkavæðingarferli Íslendinga hafa verið gerð svo mörg og svo stór mistök að það hálfa væri nóg. Ég held að í því sambandi nægi að nefna bankana og grunnnet Símans. Nú er svo hægt og rólega verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna sem að mínu mati eru mikil mistök og síðast í gær komu fréttir um "útboð" á þjónustu a.m.k. hluta af Strætó. Ég efast stórlega um að það stuðli að lækkun fargjalda, tíðari ferðum, betra leiðakerfi og því sem þarf til að fá fólk til að nota almenningssamgöngur frekar en einkabílinn. Og ég þekki engan sem kannast við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum, sem er að stærstum hluta einkavætt, sem getur hugsað sér að breyta því góða kerfi sem foreldrar okkar, afar, ömmur, langafar og langömmur börðust fyrir að koma á - þar sem allir hlutu ódýra og góða heilbrigðisþjónustu án tillits til stéttar, stöðu eða efnahags. Engan.

Tilhneigingin í einkavæðingu á Íslandi hefur verið sú, að upp spretta mörg fyrirtæki í sömu greininni þegar allt er gefið frjálst, en fljótlega kemur í ljós að reksturinn borgar sig ekki, markaðurinn er of lítill, og smátt og smátt - stundum mjög hratt samt - gleypir sá fjársterki (eða sá með bestu pólitísku samböndin eða besta aðganginn að lánsfé í bönkum) alla þá litlu og eftir stendur eitt, kannski tvö fyrirtæki (Samkeppnisstofnun gerir athugasemd), jafnvel að hluta til í eigu sömu manna. Verð er samræmt, samkomulag gert um verðlagningu og allir eru ánægðir - nema ég og þú sem þurfum að borga brúsann.

Við Íslendingar eigum miklar og verðmætar auðlindir - t.d. fiskinn í sjónum og orkuna í fallvötnum og jarðhita. Búið er að einkavæða fiskinn í sjónum. Það var gert með kvótakerfinu þar sem einstaklingum var gefinn fiskveiðikvóti sem gengur nú kaupum og sölum eins og hver önnur hlutabréf.  Afleiðing þeirrar einkavæðingar eru öllum kunn. Kvótaeigendur gáfu fögur loforð um um að halda kvótanum í byggð en sviku þau öll og skildu eftir sig sviðna jörð - byggðarlög um allt land hafa nánast lagst í eyði og atvinnusköpun og -uppbygging verið fátækleg. Afleiðing þess er sú að verið er að stúta gjörsamlega ómetanlegri náttúru Íslands til að virkja fossa og jarðhita - til að afla orku fyrir mengandi stóriðju. Álver og kannski olíuhreinsistöð. Þetta hangir nefnilega allt saman. Einkavæðing - virkjun - stóriðja - fjárfestar - gróði - peningahyggja.

Nú blasir við að einkaaðilar ásælist orkuauðlindirnar okkar sem verða æ verðmætari eftir því sem orkuskorturinn eykst í heiminum. Stjórnvöld virðast ætla að nánast gefa þessa auðlind erlendum auðhringum í formi orku til álvera í stað þess að hinkra og sjá til hvernig veröldin þróast. Það á að gera okkur fjárhagslega háð öflum sem gæti ekki verið meira sama um land og þjóð - á meðan þeir sjálfir hagnast. Er nokkur furða að maður mótmæli? Það er verið að arðræna íslensku þjóðina - aftur. Ég get ekki setið þegjandi undir því.

Þú segir í athugasemd þinni: "Það hættulegasta í pólitískri umræðu, er að pólitíkin er of lítið fagleg og of mikið lík trúarbrögðum. Fólk étur allt of mikið upp vitleysuna eftir hvort annað til þess að þjóna flokkspólitískum hagsmunum, í stað þess að nálgast viðfangsefnið á faglegan hátt."

Ég er ekki í neinum flokki, þjóna engum flokkspólitískum hagsmunum, enginn stjórnmálaflokkur er áskrifandi að atkvæði mínu og ég hvorki tala né skrifa með flokkspólitík í huga. Ég veg og met orð og gjörðir út frá minni eigin almennu skynsemi og því sem ég sé, skynja og finn. Flokkapólitík er mér ekki að skapi og alls ekki hreppapólitíkin, sjálfhverfan innan kjördæmanna og atkvæðaveiðarnar. Ég vil að fólk - bæði kjósendur og stjórnmálamenn, fari að hugsa um heildina - ekki bara sérhagsmuni hvers landshluta fyrir sig, svo ekki sé minnst á sérhagsmuni einstakra frambjóðenda, þingmanna eða ráðherra. Ég fyrirlít slíka pólitík en því miður er hún það sem gildir á Íslandi.

Ég vil líka að dustað verði rykið af hugmynd Vilmundar heitins Gylfasonar frá 1983 um persónukosningar þvert á flokka og lista. Það gæti orðið landinu til mikillar blessunar ef sú hugmynd yrði útfærð af sanngirni og skynsemi.

Þetta er langt svar við athugasemd þinni, Sigurður. En nú sem endranær er mér mikið niðri fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að ég er lítil... agnarsmá raunar... Ég á enga peninga, hef engin völd. En sem betur fer bý ég í þjóðfélagi þar sem ég má segja skoðun mína. Hvort ég verð látin gjalda þess á einhvern hátt verður tíminn að leiða í ljós. Annað eins hefur gerst í þessu "frjálsa lýðræðisríki".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Heil og sæl Lára Hanna.

Mér var algjörlega ljóst hvað þú varst að meina, en vinur er sem til vamms segir. Við sem viljum berjast fyrir náttúrvernd við megum ekki líta á þá sem stunda atvinnurekstur alla sem óþokka. Stór hluti þeirra er heiðarlegur, hafa mörg góð gildi og eru náttúruunnendur. Svo eru undantekningarnar sem eru ruddar, gegn náttúru, fólkinu sem þeir hafa í vinnu osfrv. Lýsingin almennt um fjárfesta er því vond, því hún er röng. Rétt eins og lýsing bóndans um leiðsögumennina. Ef við höldum því fram að atvinnurekendur, eða fjárfestar séu á móti náttúruvernd, þá erum við að skaða málstað okkar, að mínu mati. Björk segist ekki endilega vera á móti virkjunum, heldur þeim fyrirtækjum sem hér hafa hreiðrað um sig í áliðnaðinum. Ég er henni sammála, en ég vil fara afar varlega í virkjunum. Ég studdi Kárahnjúkavirkjun í upphafi. Þótti vænt um austfirðinga og taldi þetta vera gott fyrir þá. Minn nánasti samstarfsmaður var mikill baráttumaður gegn þessari virkjun og spurði mig spurninga. Leitaði svara, og smán saman gerði ég mér ljóst að vísvitandi var verið að fara með blekkingar til þess að ná sínu fram . Ofbeldi. Þegar síðan Landsvirkjun neitaði að greiða sérfræðingi sínum þóknun, vegna þess að hann var ekki tilbúinn að breyta niðurstöðum sínum, var ég orðinn harður baráttumaður gegn þessari virkjun. Góður málstaður þarf ekki á hrottaskap að halda, en þannig met ég vinnubrögð Landsvirkjunar gagnvart sérfræðingum. Við þurfum að taka upp samninga við þessi stórfyrirtæki og setja þeim ramma. Þegar og ef mögulegt er. Fjárfestar almennt eru hins vegar hreyfiafl, sem gera samfélaginu mikið gagn.

Var sósíalisti í menntaskóla, þar til að ég las Frelsið eftir John Stuart Mill. Áður hefði ég talað  um peningahyggju á þennan hátt sem þú gerir. Gróði er mjög jákvætt hreyfiafl, en gróði þarf alls ekki að vera neikvæður. Er oftast nær jákvæður. Náttúrvernd er líka gróði. Flestir viðskipta og hagfræðiaðilar sem ég myndu flokka sig sem hægrisinnaða jafnaðarmenn, þ.e. vilja örva frumkvæði, en sjá mjög vel um þá sem minna mega sín. Þeir sem lesa efnahagsfræðin, læra um lögmál, kenningar, skoða vísindalegar niðurstöður og reynslu. Guðmundur Jónsson í BYKO gaf Skógræktarfélagi Kópavogs Guðmundarlund í Kópavogi. Var það "gróðrarpungurinn" Guðmundur? Fór í BYKO sem strákur, og kynntist Guðmundi sem hugsjónamanni. Ef það voru bara gróðasjónarmiðin sem ráku hann áfram, af hverju gaf hann þá almenningi Guðmundarlund?

Það eru til afar óvandaðir leiðsögumenn. Sumir þeirra hugsa bara um það eitt að græða peninga og hugsa ekkert um náttúruna. Við megum ekki alhæfa um þessa stétt. Meirihluti leiðsögumanna er toppfólk. Fáum þá með, fáum atvinnurekendur með, fáum fjárfesta með. Skiptum liðinu okkar ekki að óþörfu í fylkingar.

 P.s. ég er lesblindur og rugla stöfum, sleppi oft úr orðum. Í vanmætti mínum við skriftir geri ég líka alvarleg málfræðileg mistök, sem ég stundum sé við yfirlestur síðar. Þú virðir það við mig.

Sigurður Þorsteinsson, 21.7.2008 kl. 05:32

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl aftur Lára Hanna. Við eru sýnilega pólitískir samherjar. Þ.e. flokkarnir eiga okkur ekki. Þú hefur virðingu mína fyrir baráttu þinni og svo veit ég um mun fleiri. Er líka mikill áhugamaður um aukið og bætt lýðræði. Ein skilgreining á lýðræðisástand, er mat á því að einstaklingur geti sagt skoðun sína án þess að fá hegningu í einhverju formi. Því miður fannst mér það vera þróunin í þessu samfélagi okkar á tímabili, að æ fleiri þorðu ekki að segja skoðun sína ef hún stangaðist á skoðanir einhverra annarra, jafnvel stjórnmálaforingja. Leiðtogi er ekki skilgreindur sem skoðanakúgari. Það fer ekki saman. Var að koma í mjög áhugaverðri ferð um Þýskaland og Pólland, þar sem farið var yfir tvær alræðisstefnur, nasismann og kommúnismann. Er ekki viss hvor stefnan er verri.

Kynntist Vilmundi Gylfasyni og þótti mjög vænt um hann.

Lára Hanna höldum baráttunni áfram, fyrir betra Íslandi.

Sigurður Þorsteinsson, 21.7.2008 kl. 05:49

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég held að fólk almennt sé hrætt við að tjá sig um efnahagsmál af því það hefur ekki sérþekkingu á málefninu.  Þess vegna tek ég ofan fyrir þér Lára Hanna.  Mín þekking er á heimabasis, heimilisrekstri og þvíumlíku og ég veit nákvæmlega hvar kreppir að.

Takk fyrir frábæra pistla.  Kemur sá dagur að ég verð ósammála þér í þjóðmálunum?

Efast um það.

Það er góð tilfinning.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.7.2008 kl. 12:52

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Í sambandi við einkavæðingu bendi ég á þennan pistil Guðmundar Magnússonar frá því  í morgun þar sem hann fjallar um einkavæðingartal í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í gær, sunnudag.

Takið eftir t.d. þessum orðum:  "Athyglisvert er að í hugleiðingum höfundar Reykjavíkurbréfs er sú gamla vinnuregla póstþjónustunnar að bera út póst alla virka daga talin úrelt. Þarna býr sú skoðun undir að til að gera póstinn arðbæran fyrir einkaaðila verði að draga úr þjónustunni."

Og þessum: "Sú skoðun heyrist víða að þjónusta við almenning hafi í sumum greinum ekki batnað, heldur versnað. Talað er um að fákeppni hafi sumstaðar komið í stað ríkiseinokunar eða einkaleyfisstarfsemi."

Þótt ekki sé ég sérfræðingur virðist mér ljóst að þetta er ískyggileg og stórhættuleg þróun. Sumt er einfaldlega fráleitt að einkavæða, alveg sama hve mjög menn langar að græða á þeim.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.7.2008 kl. 13:36

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Andrés Magnússon fjallar líka um einkavæðingartal Reykjavíkurbréfs hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.7.2008 kl. 14:16

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Jenný. Held að það sé mjög mikilvægt að sem flestir geti tjáð sig um efnahagsmál, en það eru ákveðnar staðreyndavillur í gangi og þær þarf að leiðrétta. Ef einhver tekur sig til og segir að eðlilegu líkamshiti sé 39 gráður, þá myndu læknar eða aðrir úr heilbrigðisgeiranum leiðrétta slíka hluti. Mjög margt hef ég lesið um efnahagsmál, sem ég flokka undir góð innlegg inn í efnahagsumræðuna. Margar rangar fullyrðingar um efnahagsmál eru hins vegar komnar frá pólitíkusum, sem fólk ber virðingu fyrir. Margir reyna ekki einu sinni að leiðrétta þær, þar sem umræðan er á tilfinningasviðinu, eins og trúmál, og þau er erfitt að rökræða.

Lára Hanna hefur sýnt mikla djörfung fyrir baráttu sína um umhverfismál. Þar er ég nánast byrjandi. Les greinarnar hennar með mikilli ánægju. Hlusta fyrst og fremst, þar sem ég kann svo lítið á því sviði.

Í Evrópu hafa verið miklar umræður um að einfalda kerfin sem þjóna okkur. Einkavæða sumt, þjónustuvæða annað. Ef það er til hagsbóta fyrir almenning þá ber pólitíkusum að skoða slíka einföldun. Ef hagsmunir almennings skipta engu máli þá erum við á rangri braut. Ef umræðuna má ekki taka um þann málaflokk. Margir pólitíkusar hafa ríkisafskipti sem trúarbrögð, þó flestir sverji af sér kommúnismann. Aðrir hafa álver sem trúarbrögð og gagnsemi og gildi þeirra má ekki ræða. Þannig á Björk  ekki upp á pallborðið hjá ákveðnum hluta þjóðarinnar. Hluti þeirra segist berjast fyrir frelsi  í viðskiptum og skoðanafrelsi. Skoðanaskipti mín við Láru Hönnu eru í ljósi virðingar minnar fyirr henni og skoðunum hennar.

Sigurður Þorsteinsson, 21.7.2008 kl. 14:41

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk Sigurður.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.7.2008 kl. 15:09

8 Smámynd: Árni Matthíasson

Lára Hanna.

Andrés sá sem þú vísar í í athugasemd nr. 5 (andres.eyjan.is) er kratinn pervisni Andrés Jónsson, ekki hægrimaðurinn myndarlegi Andrés Magnússon.

Árni Matthíasson , 21.7.2008 kl. 18:31

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Æ, ég bið Andrésana báða afsökunar... Það var ekki meiningin að gera hægrimann úr krata - eða öfugt! Hvernig á maður nú líka að henda reiður á þessum utanmoggabloggurum!

Takk fyrir ábendinguna, Árni. Er Magnússon myndarlegur, já... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.7.2008 kl. 19:30

10 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Bravó,  Lára Hanna. 

Anna Einarsdóttir, 21.7.2008 kl. 21:53

11 Smámynd: Sveinbjörg Sigurðardóttir

Les alltaf pistlana þína Hanna og mér fynnst þú tala fyrir mig.

Takk fyrir

Sveinbjörg Sigurðardóttir, 23.10.2008 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband