12.8.2008
Auðmannablús og bankastjóraraunir
Þeir sem lesa bloggið mitt reglulega muna kannski eftir þessum pistli sem ég skrifaði 20. apríl sl. Þar var ég meðal annars að spá í hvaða menn væri verið að vernda og þóknast með "innspýtingu í efnahagslífið" sem helst virðist felast í því að reisa sem flestar virkjanir, álver og jafnvel olíuhreinsistöð. Einstakri, dýrmæti náttúru Íslands skal fórnað fyrir rándýra jeppa, sumarbústaði, utanlandsferðir, munað, óhóf og einkaþotur auðmanna. Ég vitnaði í atriði úr Spaugstofunni...
"Munið þið eftir vel klædda manninum (Pálma) sem stóð á gangstétt í Ingólfsstræti (hjá Sólon) og þusaði þessi ósköp um ástandið í landinu og skort á viðbrögðum stjórnvalda við því? Hann sagði:
Það er bara hreinlega að verða deginum ljósara að það er ekki búandi í þessu þjóðfélagi. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvernig hægt er að fara með okkur þegnana. Ég er til dæmis nýbúinn að kaupa mér 8 milljón króna jeppa og hjólhýsi á afborgunum. Og þegar þetta bætist við afborganirnar af nýja eldhúsinu mínu og heita pottinum og hérna... já, og lánið af sumarbústaðnum... og flatskjáinn og snjósleðann minn og fjórhjólið og frúarbílana... þá bara ræð ég ekkert við þetta lengur! Og svo hækka þeir vextina til að gera endanlega út af við mann. Og hvað gera stjórnvöld? Ekki neitt! Þetta á ekki að líðast í siðmenntuðu þjóðfélagi!"
Ég var að leita að grein í Morgunblaðinu í kvöld og rakst þá á þetta litla viðtal frá 2. júlí sl. Hér er verið að fjalla um kvótaniðurskurðinn.
Takið sérstaklega eftir þessari setningu: "Efnahagsumhverfið er þannig að maður er á mörkum þess að geta lifað lífinu..." HA?! Er þetta ekki auðmaðurinn og útgerðarmaðurinn úr Eyjum sem á meðal annars Toyota umboðið og svífur milli staða á landinu á einkaþyrlu? Hann segist vera á mörkum þess að geta lifað lífinu! Hamingjan góða! Hvernig er hægt að bjarga þessum vesalings manni? Er þyrlueldsneytið orðið svona dýrt? Söfnun, einhver...?
Ég hafði ekki áhuga á að fletta upp í sköttum fólks og keypti ekki skattablað - en veit einhver hvað þessi maður borgaði í skatta? Það væri fróðlegt að vita í ljósi þessara ummæla. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta!
Annar maður hefur tjáð sig um orkusölu Íslendinga til útlendinga - það er bankastjóri Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason. Ég man eftir útvarps- og sjónvarpsviðtölum þar sem hann tjáði sig hvað eftir annað um að Íslendingar eigi að nýta sér hátt orkuverð í heiminum og selja útlendingum orku til að bjarga efnahagsástandinu. Þó græða bankarnir á tá og fingri. Ég hugsaði með mér: "Hvaða hagsmuna eiga hann eða Landsbankinn að gæta? Er Landsbankinn kannski viðskiptabanki Norðuráls? Hluthafi í Geysi-Green? Af hverju er bankastjóri að tjá sig um virkjanir og stóriðjuframkvæmdir og hvetja til þess að Íslendingar selji auðlindina sína úr landi? Er eitthvað annað á bak við orð hans en einskær umhyggja fyrir almenningi, viðskiptavinunum?" Ég fann ekki í fórum mínum þessi viðtöl þrátt fyrir langa og tímafreka leit en ég fann vitnað í orð hans víða þegar ég gúglaði, t.d. hér og hér. Og ég fann þetta líka. Ein setning í þessari frétt fékk mig til að glotta við tönn og hugsa til orða margnefnds Stefáns Arnórssonar í títtnefndu Spegilsviðtali (sjá tónspilara).
Í fréttinni, sem fjallar um félag Landsbankans og Landsvirkjunar um endurnýjanlega orkuvinnslu erlendis, segir: "Fáar þjóðir í heiminum búa yfir jafnmikilli þekkingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og Íslendingar" og á þessari fádæma miklu þekkingu virðist samningurinn byggja.
En ef hlustað er á viðtalið við Stefán heyrum við þetta í niðurlagi viðtalsins:
Stefán: ...þannig að Íslendingar þurfa að taka á þessum umhverfismálum á miklu, miklu breiðari hátt en gert hefur verið til þessa.
Jón Guðni: En nú erum við alltaf að tala um að kenna heiminum að nýta jarðhitann þannig að við þurfum þá kannski að fara að taka okkur tak, eða hvað?
Stefán: Ég veit nú ekki hvað ég á að segja um þetta, en mér finnst stundum að Íslendingar ofmeti sig svolítið. Í hvert einasta skipti sem er heimsmeistarakeppni í handbolta þá ætlum við á verðlaunapall, ef ekki að verða heimsmeistarar - og mér finnst að við högum okkur alveg eins í þessum efnum, í okkar viðhorfum eins og í handboltanum.
Það skyldi þó aldrei vera að Íslendingar hafi ekki eins mikla þekkingu á jarðhitaorkumálum og þeir halda? Verðum við kannski Ólympíumeistarar í handbolta innan skamms?
Nú er búið að tala yfir okkur kreppu mánuðum saman og telja fólki trú um að allt sé á beinni leið til andskotans nema því aðeins að við seljum erlendum auðhringum orkuauðlindina okkar - eins og hún leggur sig. Þessir menn eru ekki að hugsa um atvinnuhorfur einstaklinga á Norðurlandi eða Vestfjörðum - hag og kjör íbúa þar. Ekki aldeilis. Almenningur er að kikna undan vöxtum, verðbótum (fer beint í hagnað bankanna) og vöruverði og þá kvartar maður eins og Magnús Kristinsson, sem líklega veit ekki aura sinna tal, um að hann geti ekki lifað lífinu. Og bankastjórar, sem hafa meiri tekjur á mánuði en almenningur getur skilið og ausa í sjálfa sig enn meira fé í formi kaupréttarsamninga hvetja til þess að framtíð komandi kynslóða sé seld úr landi, þjóðarbúið ofurselt á klafa erlendrar stóriðju og börnin okkar og barnabörnin bundin þjónkun við erlend ál- eða olíufyrirtæki um ókomna framtíð. Og til hvers? Hvert er aðalatriði málsins? Þetta kannski?
Eru menn, sem tala og haga sér þannig, verðir trausts okkar? Erum við tilbúin til að selja landið okkar til að þóknast þeim og gera þá enn ríkari? Hvað myndi gerast ef við gengjum í ESB? Fengjum við þá tækifæri til að skipta við erlenda banka og losna undan ofurvaldi og kverkatökum þessara? Treystir fólk stjórnmálamönnunum sem spila með þeim? Óttast þeir inngöngu í ESB af því þá missa þeir einhver völd og jafnvel kverkatakið á þjóðinni? Á hvaða refilstigu er gróðahyggja og skammtímahugsun nokkurra valda- og fégráðugra manna að leiða íslensku þjóðina sem fylgir þeim þögul og niðurlút eins og lamb til slátrunar?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:32 | Facebook
Athugasemdir
Flott skrif hjá þér Lára.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 12.8.2008 kl. 06:48
Brilljans. Takk.
Jenný Anna Baldursdóttir, 12.8.2008 kl. 07:57
Einhverra hluta vegna detta mér bara tvö orð í hug við lesturinn;
GERUM BYLTINGU !
(Nú verð ég lögsótt - en það er svosem allt í lagi, þar sem ég er gerandinn. )
Anna Einarsdóttir, 12.8.2008 kl. 11:04
hmm, að eina úrræðið sé að gera út fjallkonuna og senda hana út á næsta götuhorn. hljómar þannig
flottur pistill hjá þér
Brjánn Guðjónsson, 12.8.2008 kl. 11:12
... þú ert allavega ekki þögul og niðurlút... vekur fólk til umhugsunar... það er með ólíkindum hvað menn vilja fórna miklu fyrir peninga... sem skipta svo litlu máli þegar upp er staðið... dettur í hug bíómynd sem ég sá fyrir mörgum árum, flugvél nauðlendir í eyðimörk með 10 manns... einn af þeim var auðmaður...
... hvað var það dýrmætasta sem þetta fólk gat fengið við þessar aðstæður, jú vatn... auðmaðurinn reyndi að kaupa vatn af þeim sem það átti... en peningarnir hans urðu skyndilega verðlausir í eyðimörkinni...
Brattur, 12.8.2008 kl. 12:15
Takk.
MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 18:38
snilldarpistill, takk. Vísa í hann, prontó.
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 12.8.2008 kl. 21:17
Sælt veri fólkið. Mér datt í hug að ljá máls á einu atriði varðandi svo kallaða græna orku, þar sem ég sé að meðal annars hefir þú sett spurningamerki við þekkingargrunn sem liggur að baki meintri forystu okkar Íslendinga á sviði jarðgufuvirkjana, meðal annars með tilvitnun í viðtal við Stefán Arnórsson. Við yfirlestur á matsskýrslu vegna stækkunar Hellisheiðarvirkjunar á sínum tíma rakst ég á nokkuð sem kom mér á óvart. Þar var fjallað um losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmdarinnar og kom þar fram að heldarlosun gróðurhúalofttegunda frá jarðgufuvirkjunum á Íslandi árið 2002 hafi numið 155þúsund tonnum Til að setja þetta í samhengi hafi heildarlosun á íslandi árið 2003 numið 3.500 þúsund tonnum. Athugið að þessar losunartölur eru fyrir stækkun Hellisheiðarvirkjunar, Hverahlíðarvirkjun, Bitruvirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar og áætlanir um öflun orku fyrir Bakkaálver og væri því gaman að vita hver heildarlosun gróðurhúsalofttegunda er nú, frá orðnum og áætluðum jarðgufuvirkjunum. Síðan kom fram í matsskýrslunni eftirfarandi , sem mér þótti athygli vert en það er að losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum er undanþegin losunarbókhaldi fyrir Ísland. Einnig kom fram að losun frá Hellisheiðarvirkjun færi ekki yfir 11gr CO2/Kwst. Leikur mér nú forvitni á að vita hort þessi undanþága er enn í gildi, hvernig er hún rökstudd og í hvers umboði er hún sett? Er hér um að ræða viðurkenda bókhaldsaðferð á heimsvísu að ræða, hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda eða sér Íslenskt fyrirbæri , kanski Íslensk sérþekking fallin til útflutnings? Ég hefi grun um að sú fullyrðing, að jarðgufuvirkjanir í núverandi mynd séu "grænar" og er meðal annars boðuð af ekki ómerkari mönnum en Forseta vorum, heims um ból, sé í það minnsta ekki hafin yfir gagnrýni og þarfnist nánari skoðunar.
Kv. Geir Guðjónsson.
Geir Guðjónsson, 13.8.2008 kl. 00:01
PS. Það er að því ég best veit um hverfandi losun gróðurhúsalofttegunda að ræða, frá vatnsaflsvirkjunum að loknum framkvæmdatíma, burt séð frá öðrum áhrifum. Sást Listamannaelítunni yfir þetta atriði í herferðinni "Ísland örum skorið" sem blásið var til einhverntíman á Kárahnjúkatímabilinu og einhverjir muna að líkindum eftir ?
Kv. Geir Guðjónsson.
Geir Guðjónsson, 13.8.2008 kl. 00:10
Gamla orðtakið: Margur verður af aurum api, á alltaf vel við finnst mér.
Steingerður Steinarsdóttir, 13.8.2008 kl. 10:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.