Afmælisbarn mánaðarins - að minnsta kosti

Eitt besta einstaklingsframtak síðari ára held ég að sé Okursíða dr. Gunna. Íslendingar hafa löngum verið mjög ómeðvitaðir um verð, gert lítinn verðsamanburð og lengst af ekki haft um margt að velja (hafa svosem ekki heldur núna í fákeppninni og samráðinu). En við erum afleitir neytendur og látum ótrúlegustu hluti yfir okkur ganga möglunarlaust, það held ég að flestir geti verið nokkuð sammála um.

Hér áður fyrr var eini vettvangurinn til að bera saman bækur sínar, segja dæmisögur og þvíumlíkt, kaffistofur, saumaklúbbar og önnur viðlíka mannamót - líklega einkum þar sem konur komu saman. Karlar hafa frekar verið í því að státa sig af að kaupa dýrt, sjálfsagt þykir "karlmannlegt" að þurfa ekki að horfa í aurinn og bera vott um "velgengni". Ég býst við að ráðdeildarsamir karlar (þeir eru jú vissulega til) segi fátt í slíkum félagsskap. Ekki þar fyrir að í vissum kvennakreðsum þykir líka fínt að gefa dauðann og djöfulinn í hvað hlutirnir kosta, og því dýrara því flottara.

Okursíða dr. Gunna átti eins árs afmæli í gær, sunnudag, og gerði Gunnar af því tilefni lista yfir Topp 10  - Vondu gæjana og Topp 10 - Góðu gæjana. Þetta er fróðleg lesning og það er Okursíðan reyndar alla jafna. Stór liður í baráttu okkar fyrir skaplegra verðlagi á landinu, og þar með kjarabót, er að fylgjast með verði og þjónustu, til dæmis á Okursíðu dr. Gunna. Það ætti að vera keppikefli verslana og þjónustufyrirtækja að fá góða umsögn á Okursíðunni. Hún er hér. En hann er ekki við eina fjölina felldur og heldur úti annarri heimasíðu þar sem hann fjallar um margvísleg önnur mál - sú síða er hér.

Ég óska Gunnari Lárusi Hjálmarssyni - dr. Gunna - til hamingju með eins árs afmæli Okursíðunnar, sem ætti að vera í daglegum netrúnti allra, þakka fyrir mig og vona að hann haldi henni úti um ókomin ár. Það er ótrúleg vinna að halda úti svona síðu og hann á mikinn heiður skilinn fyrir framtakið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

já sannarlega flott hjá DR Gunna

Hólmdís Hjartardóttir, 22.9.2008 kl. 02:15

2 identicon

já, þetta er flott síða!!

alva (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 08:51

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Flott síða og ég ætlaði að kíkja við á hverjum degi en gleymi því oftast.

Ég er alveg ferlegur neytandi.

Frussss

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.9.2008 kl. 09:18

4 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Mjög gott framtak. Okkur veitir ekki af að taka okkur á sem neytendur, við látum okkur bjóða allt of margt. Sú leið að vinna minna og taka sér tíma í staðinn að gera verðsamanburð er ekki vitlaus.

Úrsúla Jünemann, 22.9.2008 kl. 11:27

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þegar maður skoðar topp 10 listana hjá dr. Gunna slær það mann að sjá eintóm stórfyrirtæki sem "Vondu gæjana" á meðan að "Góðu gæjarnir" eru oftar en ekki litlar búðir. Sjálfur hef ég sannreynt að það borgar sig oft að versla við litlu kaupmennina sem flestir halda að séu dýrari en þeir stóru. Nýleg dæmi eru t.d. Garðs apótek sem seldi mér lyf á mun lægra verði en stóru keðjurnar tvær. Einnig hef ég átt mjög ánægjuleg viðskipti við litla reiðhjólaverkstæðið Borgarhjól á Hverfisgötu í sumar og haust en þar hef ég undantekningalaust fengið það sem mig vantaði, stundum eftir að hafa farið erindisleysu í stóru búðirnar nálægt Grensási. Verðið hefur einnig verið mjög sanngjarnt á verkstæðinu.

Síðast en ekki síst er það oftast mun ánægjulegra að versla við "kaupmanninn á horninu" sem hefur mikla þekkingu á því sem hann verslar með ólíkt sumu afgreiðslufólki hjá stórum verslanakeðjum. Heimildamyndin "Kjötborg" sýnir okkur hvers við förum á mis við þegar við verslum í stóru matvörubúðunum. Ég mæli eindregið með Kjötborg, bæði myndinni og búðinni sjálfri.

Við þurfum við að hætta að láta plata okkur!

Sigurður Hrellir, 22.9.2008 kl. 12:11

6 Smámynd: Gulli litli

Stöndum með dr. Gunna...

Gulli litli, 22.9.2008 kl. 14:25

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Skemmtilegt. Okursíðan á sama afmælisdag og mín síða.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.9.2008 kl. 16:03

8 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Vissulega gott framtak. Vekur okkur til umhugsunar almennt, ekki síst varðandi það hvernig við getum varið okkur gegn þessu. Það sem er óneitanlega stingandi er að á markaðnum (matvara, byggingavörur, lyf, útivistarvörur) eru örfáir risar og samkeppni raunverulega lítil.

Varðandi top 10 verstu hef ég athugasemd: Ég skildi Gunna þannig að um væri að ræða samantekt byggða á fjölda athugasemda. Það gefur augaleið að stórar verslanir með fjölda vörutegunda og mikla markaðshlutdeild eru líklegri að fá athugasemd því þar er fleira fólk að versla. Þetta eru því engin vísindi en klárlega vert að gefa þessu gaum.

Kristjana Bjarnadóttir, 22.9.2008 kl. 17:19

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hárrétt hjá Kristjönu, segir sig sjálft að tíðnin á athugasendunum helst nokkuð allavega í hendur við hausafjöldan, líklegast að flestir geri athugasendir þaðan, að því gefnu auðvitað að ástæða sé til!En Gunni er þokkalegasti skreppur,kannast nú vel við hann frá gamalli tíð, síðan já gott framtak sem og fleira frá honum já á netinu, en annað kannski ekki eins gott.

Magnús Geir Guðmundsson, 22.9.2008 kl. 18:30

10 identicon

Flott framtak hjá Gunna en þegar hún er orðin svona áberandi þarf hann örugglega að passa að taka allar breyturnar inn í dæmið. Tek að því leyti undir ath.semd Kristjönu.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 20:23

11 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Tek undir með Sigurði Hrelli. Við erum oft að láta glepjast af "lágvöruverslunum". Þar erum við að kaupa matvöru í einhverjum stöðluðum pakkningum fyrir vísitölufjölskyldu, sem alls ekki hentar því sem ég og fleiri erum að leita að. Oftar en ekki eru þetta "unnar" kjötvörur sem við vitum ekkert hvað innihalda. Reyndir það í sumar þegar ég var í vinnu á Akranesi í þrjá mánuði að kaupa matvöruna í Einarsbúð, sem er vandvirkt fjölskyldufyrirtæki, svona nútíma kaupmaðurinn á horninu. Alltaf persónulegt viðmót og allt það. Þarna er kjötborð og ferskur fiskur. Þarna var vönduð vara. Þegar upp er staðið var maður ekki að borga meira því allt sem keypt var nýttist. þarna eru "góðu gæjarnir" á Skaganum. Svona búðir vantar víðar en ég veit að þær eru til í Reykjavík. Doktor Gunni á þakkir skyldar fyrir sitt framtak.

Haraldur Bjarnason, 22.9.2008 kl. 22:04

12 Smámynd: Steingrímur Helgason

Gunni eiginlega tekur mest í nebbann svokölluð 'neytendasamtök' & 'talsmann neytenda' fyrir áralanga meðvirkni við áskapaða óvirkni þeirra í því að mizza fókuzinn á hvað skiptir máli, fyrir ræðunum um það sem ungvu býttar.

Auðvitað ætti að gagnagrunnsvinna síðuna upp, þannig að hægt verði að fletta eftir fyrirtækjum/söluaðilum, áður en viðskipti eru frágengin, þannig að fólk geti skoðað mizvísandi skoðanir á þjónustu & verði.

En, guðmérgóðari, ekki benda honum á að ég hafi skrifað það !

Steingrímur Helgason, 23.9.2008 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband