Björgólfur Thor í Kompási

Hvernig í ósköpunum á maður að skilja þetta? Þarna segir Björgólfur að hægt hefði verið að losna við Icesave-ábyrgðirnar upp á - hvað var það aftur mikið, 450 milljónir punda? - með því að reiða fram 200 milljónir punda í tryggingu! Það er búið að nefna svo margar upphæðir, ýmist í pundum eða krónum, að erfitt er að henda reiður á þeim. Þessi mál verða æ flóknari eftir því sem fleiri tjá sig um þau og ekki nokkur leið að vita hver segir satt og hver ekki. Það verður æ brýnna að fá utanaðkomandi, hlutlausa rannsóknaraðila til að fara ofan í saumana á öllum hliðum þessa skelfilega klúðurs - því þetta lítur út fyrir að vera klúður frá upphafi til enda.

Kompás 27. október 2008 - Björgólfur Thor Björgólfsson

 

Kastljós 27. október 2008 - Björn Bjarnason og Guðni Ágústsson

 

Kastljós 27. október 2008 - Upphaf borgarafundar í Iðnó

Þetta sagði Sigurjón fyrrverandi Landsbankastjóri í kvöldfréttum RÚV

 

 Athugasemd Seðlabanka Íslands í dag

Athugasemd vegna ummæla Björgólfs Thors Björgólfssonar
um beiðni Landsbanka Íslands um fyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands

Í bréfi til bankastjórnar Seðlabanka Íslands mánudaginn 6. október sl. kynnti bankastjórn Landsbanka Íslands að bankinn þyrfti fyrirgreiðslu að fjárhæð 200 milljónir punda frá Seðlabanka Íslands vegna útstreymis sem orðið hefði í útibúi þeirra í Bretlandi auk 53 milljóna punda láns vegna dótturfélags Landsbankans í Lundúnum. Verulegt útstreymi var úr útibúinu helgina á undan. Í samtölum við forsvarsmenn bankans kom fram að jafnvel þótt umbeðin fjárhæð fengist væri alls ekki víst að hún dygði og líklegt að fjárþörfin gæti á örskömmum tíma hækkað verulega, jafnvel margfaldast. Tilefni beiðninnar í bréfi Landsbankans 6. október var útstreymið af innlánsreikningum. Ekki var minnst á flýtiafgreiðslu breska fjármálaeftirlitsins.

Af framangreindum ástæðum er augljóst að sú fullyrðing Björgólfs Thors Björgólfssonar að 200 milljóna punda fyrirgreiðsla Seðlabanka Íslands hefði leyst allan vanda Landsbanka Íslands á þessum tíma stenst ekki. Eins er frásögn hans af rás atburða röng.

Á þessum dögum virtist enn líklegt að Seðlabankinn yrði að fylgja eftir ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um hlutafjárframlag í Glitni að fjárhæð 600 milljónir evra. Einnig hafði verið ákveðið að höfðu samráði við forsætisráðherra að lána Kaupþingi 500 milljónir evra til nokkurra daga í þeim tilgangi að aðstoða þann banka við að mæta kröfum breska fjármálaeftirlitsins og annarra þarlendra stjórnvalda vegna stöðu dótturfyrirtækis þess banka í Lundúnum.

Líkleg framlög Seðlabankans vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um Glitni og fyrirgreiðsla við Kaupþing höfðu þá þegar sett miklar byrðar á gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar og varasamt var að ganga lengra í þeim efnum.


Yfirlýsing Björgólfs Thors eftir athugasemd Seðlabankans

Seðlabanki Íslands sendi síðdegis í dag frá sér athugsemdir vegna ummæla minna í sjónvarpsþætti sem birt voru í gær. Þar segir að í bréfi frá mánudegi 6. október sl. og í samtölum við forsvarsmenn Landsbankans hafi ekki verið minnst á flýtimeðferð breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Þetta er ekki rétt. Bankastjórum Seðlabankans var kunnugt um boð breska fjármálaeftirlitsins um flýtimeðferð og geta fleiri staðfest það. Þá var einnig þeim ráðherrum í ríkisstjórn Íslands sem helst hafa unnið að úrlausn vanda íslensku fjármálafyrirtækjanna kunnugt um boð breska eftirlitsins. Allar líkur voru á því að útstreymi fjármuna úr útibúi Landsbankans í London hefði minnkað stórlega við tilkynningu í Englandi um flýtimeðferð FSA og því mun minni líkur á að fjárþörf Landsbankans margfaldaðist eins og Seðlabankinn lætur í veðri vaka í svari sínu.

Þá segir Seðlabanki Íslands að frásögn mín af rás atburða sé röng. Sú fullyrðing er án nokkurs rökstuðnings. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur.

Einnig kemur á óvart að Seðlabanki Íslands beri fyrir sig búið hafi verið að ákveða í samráði við forsætisráðherra að lána Kaupþingi 500 milljónir evra þegar Landsbankinn fékk synjun Seðlabankans eftir hádegi mánudaginn 6. október. Tilkynning um lán til Kaupþings kom ekki fyrr en síðar þennan dag. Þá kemur einnig á óvart að Seðlabanki hafi um hádegi þennan mánudag reiknað með að ríkið legði 600 milljónir evra í hlutafé í Glitni þegar fáeinum klukkustundum síðar var kynnt á Alþingi frumvarp um neyðarlög sem boðaði þjóðnýtingu bankanna.

Mikilvægasta verkefni íslenska fjármálalífsins um þessar mundir er að efla traust á fjármálastofnunum. Þar ríður mest á að Seðlabanki Íslands fari fyrir öðrum. Svo er ekki þegar hann gerir ekki með neinum hætti viðunandi grein fyrir ákvörðunum sínum heldur svarar með hálfkveðnum vísum og aðdróttunum.

Að ofansögðu má sjá að ég stend við orð mín í sjónvarpsþættinum Kompás.

Björgólfur Thor Björgólfsson

----------------------------------------------------

Eftir þetta áhorf og lestur legg ég til að fólk lesi pistil Péturs Tyrfingssonar - Hringavitleysa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Það þarf óháða einstaklinga til að rannsaka allt þetta mál

Hólmdís Hjartardóttir, 27.10.2008 kl. 22:18

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Úff ég skil ekkert lengur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.10.2008 kl. 22:40

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sammála...nú er maður alveg orðin ruglaður.....og ætli það sé ekki bara ástæðan fyrir þessu öllu...en eitt er víst að ekki var hægt að legja í henginarólinni...þetta var búið!

Haraldur Haraldsson, 27.10.2008 kl. 22:46

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég smellti inn á bloggið hjá mér áðan þætti sem ég fékk sendann frá Heidi Strand bloggvinkonu..  Þetta er skylt þessari færslu hjá þér Lára. 

http://skari60.blog.is/blog/skari60/entry/690026/ 

Mæli með því að menn hlusti á þessar umræður.. þ.e. ef þeir skilja norsku. annars kommentaði ég á umræðurnar svo menn geta getið sér til um hvað þær voru. 

Óskar Þorkelsson, 27.10.2008 kl. 22:49

5 Smámynd: Víðir Benediktsson

Eitt er ljóst. Einhver er ekki að segja sannleikann. Þetta er verkefni fyrir blaðamenn. (ekki Agnesi) Tók eftir því að Jóhanna Vilhjálmsdóttir sagði í Kastljósinu að hún hefði heimildir fyrir því að Ríkisstjórninni hefði verið kunnugt um málið kvöldið fyrir daginn örlagaríka. Það mæðir nokkuð á RÚV með að leiða okkur í sannleikann í framhaldinu.

Víðir Benediktsson, 27.10.2008 kl. 22:52

6 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sammála Jenfó, ég skil ekkert í þessu lengur. Veit það hins vegar að hvorki Björgólfur né Davíð, Darling eða Brown eða einhver annar af þeim sem ÁTTI að vita um stöðuna verður skuldsettur fyrir þessum ósköpum og klárlega ætlar enginn þeirra að axla ábyrgð á þessum ósóma öllum.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 27.10.2008 kl. 22:54

7 identicon

Ég hef ekki kunnáttu til að skilja hvor er að segja satt. En alla vega tvennt er spúggí í athugasemd Seðlabankans.

Það er greinilegt af athugasemd SÍ og yfirlýsingu BTB að Davíð veit af flýtimeðferðartilboði en það var ekki í bréfinu heldur í samtölum. Og hann kýs að neita því - það var ekki skriflegt og það hentaði honum ekki.
Staðsetning á tveimur setningum í fyrstu málsgrein gefur til kynna yfirklór: "Verulegt útstreymi var úr útibúinu helgina á undan." og "Ekki var minnst á flýtiafgreiðslu breska fjármálaeftirlitsins." er sett á eftir umsögn um bréf. Semsagt, flýtiafgreiðslan kom ekki fram í bréfinu.
(Það lyktar eins og Davíð, lítur út eins og Davíð – hlýtur að vera Davíðs-smjörklípa)

verkamaður (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 23:04

8 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég hallast að því að trúa Björgólfi. Davíð og  hans nótar hafa aldrei veigrað sér við því að ljúga upp í opið geðið á fólki. Held að Davíð hafi legið svo á að koma höggi á óvini Kolkrabbans að hann hafi ekki sést fyrir. Eða jafnvel hafi gert sér fulla grein fyrir afleiðingunum en verið skítsama þar sem hans afturendi er tryggður í bak og fyrir með eftirlaunalögunum og svo vonast hann vitanlega til þess að þjóðin fari að hata Björgólfs- og Baugsfeðga jafnmikið og hann.

Helga Magnúsdóttir, 27.10.2008 kl. 23:10

9 identicon

...ætli þeir allir séu bara ekki " sekir " að einhverju leiti. 

alva (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 23:15

10 identicon

ég held að enginn einn sé sekur eða saklaus í þessu öllu, það væri ansi mikið verið að einfalda málin.

alva (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 23:20

11 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

"Hlutlausan rannsóknaraðila"  það er málið.

Sigrún Jónsdóttir, 27.10.2008 kl. 23:22

12 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég held að fjölmiðlar á Íslandi í dag séu ekki óháðir, enginn þeirra.  Varla fara blaðamenn, eða aðrir fréttamenn að styggja eigendur vinnustaðarins, þar sem þeir eru í vinnu.  Þess vegna þarf útlendinga óháða öllum hérna á litla Íslandi til þess að fara í saumana á þessum málum.  Okkar fréttamenn eru ekki hæfir. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.10.2008 kl. 01:25

13 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það ganga a.m.k. gróusögur um það að Davíð Oddson hafi varað nokkra velvildarvini sína við hruni bankanna áður en hin afdrifaríka ákvörðun um þjóðnýtingu Gitnis var tekin. Maður fer að spyrja sig hvort þetta eigi við rök að styðjast?!? Það hlýtur að vera hægt að komast að því með því að skoða hverjir leystu út hlutabréfaeign sína í bönkunum dagana áður en sá gjörningur var kunngerður.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.10.2008 kl. 05:16

14 Smámynd: Heidi Strand

Tek undir með Óskari.

Skoðið endilega samantekt um umræðuþáttinn á NRK í gærkvöldi ásamt linkur á athgasemð nr.4



Heidi Strand, 28.10.2008 kl. 06:40

15 Smámynd: Heidi Strand

Rakel, sumir voru bara heppnari en aðrir.

Heidi Strand, 28.10.2008 kl. 06:41

16 identicon

Frettatilkynning frá Himnaríki. Í Himnaríki sem og víða á jörðinni hafa menn áhyggjur af ástandinu á Ísland. Því var send nefnd þriggja aðila

smáenglana Pú og Pa auk púkans Tikk. Þeir hafa nú dvalið um skeið á Íslandi og kynnt sér ástandið og sent skýrslur til Himnaríkis. Þessar athugasemdir er hægt að skoða á wefsíðu Himnaríkis næstu daga, www.puandpa.com klikka á matseðilinn og siðan á pu and Pa. Þeim sem hafa áhuga er GUÐvelkomið að nota efni úr skýrslunum.

sigurður örn brynjólfsson (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 07:51

17 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Já, nei, Nú er nóg komið !

Eins og mér finnst og rétt er ! (Muna þennan góða frasa stelpur)

-Og er reyndar búin að segja vikum saman;

Fá bara hingað eitt stk. nastí, töff og kláran, hlutlausan, útlending -sem tekur allt dæmið út á einu bretti.  OK, kannski fleiri en einn, en ekki allt of marga.

Við höfum því miður ekki mannskap í að skipta sjálfum sér út -og rannsaka sjálfan sig. 

Ef við verðum heppin með "útlending" gæti hann allavega rasskelt ráðamenn rækilega og komið með góð ráð.   Það getur engin af okkar mönnum gert þessa dagana.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 28.10.2008 kl. 09:17

18 identicon

Góðan daginn þetta er frábær pistill og samantekt.

Ég er sammála því og þeim sem vilja hér hlutlausa rannsóknar aðila. Bogi Nilsson verður bara fótþurrka fyrir Ríkisstjórn og Seðlabankann. Sannleikurinn kemur aldrei fram í dagsljósið hvað þá að hann komi fram í Kastljósinu eða Kompás þar sem menn þora ekki að spyrja þeirra spurninga sem þarf til að komast að hlutnum. Spyrjendur eru yfirleitt einsog pissudúkkur sem jafnframt þykjast hafa meira vit á málunum heldur en sá sem verið er að spyrja þannig að við fáum alltaf eitthvert smá yfirklór í hvert skipti.  Nei hér þarf hlutlausa aðila til að rannsaka skít síðust ára til að fá þetta á hreint og það verður aldrei trúverðugt ef við ætlum að láta einhvern íslending fara að kíkja á þessi mál.

Góðar stundir kæru landar.
Framtíðin er björt þó dimmt sé í Valhöll.

Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 09:51

19 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Úff, hvað á maður að halda? Hverjum á maður að trúa? Ég veit ekkert í minn haus lengur og kannski er það einmitt tilgangurinn.

Rut Sumarliðadóttir, 28.10.2008 kl. 11:36

20 identicon

Við eigum að fá "stórt erlent nafn", t. d. Joseph Stiglitz, og bjóða honum að velja sér samstarfshóp til að leggja mat á stjórn peningamála á Íslandi, frá ca. 2001 þegar krónan var sett á flot. Í því fælist að meta framgang einstakra stofnana og ráðuneyta, embættismanna og ráðherra.

Líka ætti fá alþjóðlega rannsóknarnefnd - svipað samsetta - til þess að gera úttekt á starfsháttum bankanna frá því þeir voru einkavæddir.

Enginn mun treysta innlendum rannskóknarhópum í þessum efnum. Þeir myndu aðeins vekja enn meiri úlfúð og tortryggni.

Fjárglæframenn, vanhæfir embættismenn og stjórnmálamenn hafa lagt byrðar á almenning, byrðar sem þeir sjálfir ættu með réttu einir að bera. Krafa almennings um óháða erlenda rannsókn á þess vegna að vera ófrávíkjanleg. Reisum hana.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 12:08

21 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Síðast þegar fenginn var hingað útlendur sérfræðingur hét sá Karl Schutz og rannsakaði Geirfinnsmálið.

Það verður ekkert rannsakað og óþarfi að gera sér vonir um það. Ef svo ólíklega vill til að svo verði, mun enginn axla ábyrgð, enginn segja af sér og almenningi verður ekkert sagt nema það sem hann hefur gott af að heyra.

Gísli Ásgeirsson, 28.10.2008 kl. 12:52

22 identicon

Meðal annarra orða: http://eyjan.is/silfuregils/2008/10/27/sogulegt-bref/

P. S. 

Óþarfi að gefast upp fyrirfram. Og berum ekki saman epli og appelsínur. Schutz var handbendi íslenskra lögregluyfirvalda. 

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 13:34

23 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þú spyrð hvernig við eigum að skilja þetta. Málið er það að við eigum ekkert að skilja þetta. Til þess er leikurinn gerður.

Greta Björg Úlfsdóttir, 28.10.2008 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband