Kolbrún Bergþórs, Birna Þórðar, mótmæli og ábyrgð

Birna ÞórðardóttirÉg man eftir Þorláksmessuslagnum fyrir 40 árum. Ég var 13 ára og var í bænum að kaupa síðustu jólagjöfina. Stóð frosin álengdar og starði upp í Bankastræti þar sem ljóshærð, síðhærð ung kona slóst við lögregluna ásamt fleirum. Þetta vald sem mér hafði verið innrætt að bera virðingu fyrir. Ekki minnist ég þess að hafa haft hugmynd um hvert tilefnið var og forðaði mér heim þegar ég loks gat mig hrært. Unga konan reyndist hafa verið Birna nokkur Þórðardóttir sem ég hef fylgst með úr fjarlægð æ síðan.

Ég ber virðingu fyrir Birnu og mér finnst hún flott kona, stórglæsileg reyndar. Sé hana alltaf í Gay Pride göngum og undanfarið á mótmælafundunum á Austurvelli. Myndin af henni er sú, að þarna fari kona með mjög ríka réttlætiskennd sem láti aldrei vaða yfir sig möglunarlaust og leggi mannréttindabaráttu lið eins og henni frekast er unnt. Mér finnst ég ekkert þurfa endilega að vera alltaf sammála henni til að bera virðingu fyrir einurð hennar, einlægni og þrautseigju.

Mér hefur orðið hugsað til Birnu í sambandi við annað mál - formann VR, laun hans, augljósa spillingu og framboð. Gunnar Páll er nógu siðlaus til að ætla að halda áfram og fólk furðar sig á því að enginn ætli að bjóða sig fram gegn honum. En málið er ekki svo einfalt. Mér er mjög minnisstætt þegar Magnús L. Sveinsson var búinn að vera formaður MJÖG lengi og stóð sig frámunalega illa. Svaf á verðinum eins og gerist þegar menn eru búnir að vera of lengi í embætti. Gerði vonda samninga fyrir sína umbjóðendur og í verkfalli - mig minnir 1985 - voru samningar við vinnuveitendur felldir af félagsmönnum a.m.k. tvisvar. Fjölmargir vildu losna við Magnús en það var ekki hægt. Hann, ásamt fleirum, var búinn að koma ár sinni svo vel fyrir borð og festa sitjandi formann - sjálfan sig - svo vel í sessi að það þurfti ekkert minna en kraftaverk til að koma honum frá. Mótframboð þurfti að vera með mörg hundruð manns tilbúna í hvert einasta embætti til að geta haggað honum. Í trausti þessarar samtryggingar fer Gunnar Páll fram aftur, siðblindur á bjálkann í auga sér, vitandi að það er ógerlegt að velta honum úr sessi.

Birna var mjög virkur félagsmaður í VR á þessum árum. Hún mætti á alla fundi og á hverjum einasta fundi lagði hún fram fyrirspurn um laun formanns VR. Hún fékk aldrei svar en aldrei gafst hún upp. Ég dáðist að seiglunni. Birna er ein þeirra sem getur lagst sátt til hvílu þegar þar að kemur, vitandi að hún lagði sitt af mörkum til réttlátari heims og verið stolt afkomenda sinna.

Kolbrúnu Bergþórsdóttur hef ég líka fylgst með úr fjarlægð, en öllu skemur Kolbrún Bergþórsdóttiren Birnu. Hún vakti fyrst athygli fyrir bókagagnrýni sína þar sem hún var oftar en ekki ósammála öllu og öllum og hafði sérstakar og sterkar skoðanir. Hún kom fram í útvarpi og sjónvarpi auk þess að skrifa í blöð. Síðan gerðist hún blaðamaður og hefur verið á ýmsum blöðum undanfarin ár. Svo er hún auðvitað í Kiljunni. Ég hef gaman af Kolbrúnu, held að hún sé einlæg í sínum skoðunum á bókmenntum og þótt ég sé alls ekki alltaf sammála henni, hafi ég á annað borð lesið viðkomandi bók, ber ég virðingu fyrir skoðunum sem settar eru fram af hjartans einlægni og hafa engan dulinn tilgang.

Öðru máli gegnir um pistlana hennar í Mogganum. Þar fer hún oft og iðulega hamförum í forpokaðri hneykslan og fordæmingu, meðal annars á því sem telst til sjálfsagðra mannréttinda í öllum siðmenntuðum lýðræðisþjóðfélögum. Sem Ísland er reyndar alls ekki. Hún talar um væl, nöldur og fleira miður fallegt og réttlætir þá sem níðast á almenningi. Kannski af því hún vinnur fyrir þá. Sú Kolbrún er mér lítt að skapi. Einhvern veginn hef ég alltaf á tilfinningunni að Kolbrún viti betur innst inni. Að hún sé að halda dauðahaldi í eitthvað sem hún veit að er ekki rétt því ég held að hún sé miklu klárari kona en þetta. Mér finnst að hún ætti að halda sig við viðtölin sín sem hún gerir ágætlega ef hún á annað borð hefur minnsta áhuga á viðmælandanum. Ef ekki eru viðtölin þurrkuntuleg, sum beinlínis hundleiðinleg og gefa bjagaða mynd af viðfangsefninu.

En tilefni þessara skrifa minna eru pistlar þessara tveggja kvenna, sem ég ítreka að ég þekki ekki neitt persónulega. Fyrstur er pistill Kolbrúnar frá sunnudagsmogga og síðan pistill Birnu í Mogganum í gær þar sem hún gagnrýnir skrif Kolbrúnar. Ég las pistil Kolbrúnar, hristi höfuðið þegjandi og af því mér er hlýtt til hennar hugsaði ég einfaldlega með sjálfri mér: "Æ, æ. Kolla mín... seint ætlarðu að botna nokkurn skapaðan hlut í lífinu og tilbrigðum þess." Kolbrún virðist skilja bókmenntir betur og finnst að fólk eigi bara að taka því sem að því er rétt og halda kjafti. En lífið er bara alls ekki þannig, allra síst á þessum síðustu og verstu tímum. Birna gerði meira en að hrista höfuðið þegjandi - hún skrifaði grein þar sem hún tætir Kolbrúnu í sig.

Kolbrún Bergþórsdóttir - Morgunblaðið 21. desember 2008

Kolbrún Bergþórsdóttir - Moggi 21. desember 2008

Birna Þórðardóttir - Morgunblaðið 23. desember 2008

Birna Þórðardóttir - Moggi 23.12.08

Hér er pistill Kolbrúnar frá 9. júní sl. sem Birna vitnar í. Kolbrún ver háu launin og sakar gagnrýnendur þeirra um öfund og pólitískan tilgang. Ætli henni finnist sjálfsagt að formaður VR sé með margföld laun umbjóðenda sinna og hafi tekið þátt í svindli bankanna sem umbjóðendur hans bæði tapa á og fara jafnvel sumir á vonarvöl? Henni verður einnig tíðrætt um ábyrgðina. Hálaunamennirnir hafa svona há laun segir hún af því þeir bera svo mikla ábyrgð. Hvað segir Kolbrún nú um ofurlaun og ábyrgð? Finnst henni Gunnar Páll axla ábyrgð á siðleysi sínu með því að bjóða sig fram aftur? Hver af þessum hálaunamönnum hefur axlað nokkra ábyrgð á endalausum afglöpum, mistökum, spillingu, þjófnaði og glæpum sínum?

Kolbrún Bergþórsdóttir - Moggi 9.6.08


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég hef þá skoðun að til að ná árangri á einhverju sviði, í einhverjum málaflokki, séu mótmæli ekki leiðin. Þá er ekki að skipta máli hvort ég er sammála málstaðnum eða ekki.

Mótmæli senda neikvæð skilaboð til alheimsins.

Til að ná árangri þarf jákvæðar tillögur og jákvæðar aðgerðir. Þá far jákvæð skilaboð til alheimsins

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.12.2008 kl. 08:59

2 Smámynd: Einar Indriðason

Hmm... Ég er ekki sammála Hólmfríði þarna... Ég held að mótmæli verði að vera, til að vekja athygli á því sem miður fer.  Og, mótmælin þurfa (helst) að vera friðsöm, annars snúast þau upp í skrílslæti, og það viljum við ekki.

En, ég er líka sammála Hólmfríði, um að það þarf líka að vera til staðar jákvæðar hugmyndir og uppástungur um úrbætur.

Og.  Hafandi sagt það, þá ætla ég að bæta við:  Gleðileg Jól, og gott nýtt ár!  

Ps.  Lára Hanna... ég barði saman smá pistil um palindromes.... :-)

Einar Indriðason, 24.12.2008 kl. 09:21

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég er að því leyti á öndverðum meiði við þig, Lára Hanna, að ég er LÍKA fyrir löngu hætt að taka mark á bókmenntaumfjöllun Kolbrúnar. Og þessir réttlætingarpistlar hennar byrjuðu ekki í júní, hún hefur vandað um við fólk langtum lengur.

Berglind Steinsdóttir, 24.12.2008 kl. 09:34

4 Smámynd: Sævar Helgason

Fræg er sú saga frá fyrri heimstyrjöldinni, þar sem andstæða rfylkingar bárust á banaskotum í nokkur ár.  Á jólanótt hljóðnuðu byssurnar og varlega fikruðu hinar andstæðu fylkingar sig upp úr skotgröfunum. Og á einskinsmanns landi mættust bardagamennirnir og áttu örstutta hátíðlega jólastund saman- Þessi mikla hátíð kristinna manna sameinaði þá. Þeir áttu stund milli stríða.  Svo er það einnig á Íslandi núna. Um jólin eigum við öll stund milli stríða-frið jólanna

Gleðilega jólahátíð   og þakkir til þín Lára Hanna.

Sævar Helgason, 24.12.2008 kl. 09:59

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Gleðileg jól og farsælt byltingarár

Hólmdís Hjartardóttir, 24.12.2008 kl. 10:52

6 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég er sammála Berlindi og skrúfa samstundis niður í Kolbrúnu hvar svo sem hún tjáir skoðanir sínar. Sjálf er hún eins og einsleit persóna í lélegum reyfara og skil ég ekkert í því af hverju henni er svo oft hampað af ljósvakamiðlum.

Gleðilega hátíð!

Sigurður Hrellir, 24.12.2008 kl. 11:12

7 identicon

Afsakið, en hvað þýðir það þegar fólk talar um neikvæð skilaboð til alheimsins? Eða jákvæð? Fólk sem búið er að stilla upp við vegg, með svimandi háan reikning fyrir einhverju sem það keypti ekki sjálft, hlýtur að hugsa um það eitt að bjarga eigin skinni. Skítt með skoðun "alheimsins".

Gleðileg jól og hafðu þakkir fyrir litlu fréttastofuna, Lára Hanna.

Jóhann (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 11:15

8 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Kolbrún er enn að í Mogga dagsins.

Bullið í henni nær nýjum lægðum: „Það er orðinn einskonar lífsstíll í kreppunni að vera fýldur og reiður og þykir alveg sérstaklega smart í réttu kreðsunum...Það er heldur ekki hægt að meina þessum hópi fólks að rotta sig saman og ganga um hrópandi slagorð til að leggja áherslu á hversu ömurlegt hið hversdagslega líf er orðið. En það er ástæðulaust að fagna eins og þar séu nýjar þjóðhetjur á ferð... Sjálfsagt verða einhverjir í fýlu yfir jólin vegna þess að þeir hafa ekki tækifæri til að gala á torgum gegn ríkisstjórn og fyrrverandi auðjöfrum“

Hafi einhver málað sig út í horn með eftirminnilegum hætti þá er það Kolbrún þessi. Hvað er að angra hana? Ég skil ekki sjónarmið hennar. Hún er á móti mótmælum að því að virðist - almennt. Er hún á móti mótmælum gegn þeim sem komu þjóðinni í gin andskotans? Eða er hún kanski bara í hátíðafýlu?

Hjálmtýr V Heiðdal, 24.12.2008 kl. 11:33

9 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Got hjá þér að vekja athygli á þessu Lára Hann, sérstaklega fyrir okkur sem ekki sjáum Morgunblaðið daglega. Óska þér svo gleðilegra jóla og þakka fyrir frábæra pistla á blogginu.

Haraldur Bjarnason, 24.12.2008 kl. 11:39

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Kolbrún er oft ágæt, skrifaði t.d. stundum góða leiðara í 24 stundir en hættir mjög til að tala niður til þeirra sem hún er ósammála og með mikilli fyrirlitningu, t.d. þetta tal um væl og að menn séu í fýlu. Það skilja allir þá fyritlitningu sem býr í slíku orðalagi en rökgildið er ekkert. Kolbrúnu skortir fyrst og fremst umburðarlyndi og skilning á því að heimurinn er margbrotinn. Það er stundum eins og henni finnist hún vera nafli heimsins.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.12.2008 kl. 11:43

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gleðileg jól, Lára mín Hanna!

Þorsteinn Briem, 24.12.2008 kl. 12:45

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

"En þau eru verst hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu." Þetta er algild ályktun og tímalaus. Birna Þórðardóttir er fyrirfram dæmd af öllum þeim sem hata kommúnista. Þess vegna fær hún sjaldan að njóta sannmælis. Hún er bara þeirrar stærðar að það hrín ekki á henni.

Árni Gunnarsson, 24.12.2008 kl. 13:06

13 identicon

Kærar þakkir fyrir skrifin þín, þau eru ómetanleg.

Gleðileg jól Lára Hanna og ég óska þér gæfu og gleði á nýju ári!

anna (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 13:09

14 Smámynd: Egill Jóhannsson

Skoðanir mínar eru sennilega að flestu leiti eins langt frá skoðunum Birnu Þórðardóttur og er mögulegt. En ómælda virðingu ber ég fyrir henni samt sem áður og hennar þrautsegju í gegnum tíðina. Sama gildir um Evu Hauksdóttur sem, ásamt fleirum, berst við ofurefli liðs og fær skammir í hattinn frá Kolbrúnu vegna þess að þrjár rúður brotnuðu. Er ekki allt í lagi?

Íslenskir fjölmiðlamenn ætla seint að læra. Það virðist sem fjölmiðlum og mörgu fjölmiðlafólki sé ókunnugt um að ein af meginástæðum þess að svo fór sem fór var einmitt þöggun fjölmiðla á gagnrýnisröddum. Það fellur undir skilgreininguna þöggun að fjalla um þrjár brotnar rúður en sleppa því að ræða gagnrýni þeirra sem brutu rúðurnar. Aukaatriði er orðið að aðalatriði.

Líklega mun einhver snillingurinn koma með komment og spyrja mig hvort mér þætti það sniðugt ef mótmælendur kæmu í mitt fyrirtæki og brytu rúður. Já, mér þætti það ekki sniðugt og þess vegna reyni ég að koma í veg fyrir það með því að tala við þá sem eru óánægðir með þjónustu, svara öllum sem kvarta og bæta síðan úr því sem aflaga fór. Í raun eru mótmælendur ekki að fara fram á neitt meira en þetta. En ef ekkert er gert þá er líklegt að rúður brotni.

Ég myndi glaður leggja út fyrir þessum þremur rúðum ef það verður til þess að hætt verði að tala um rúðurnar og frekar hlustað á þá gagnrýni sem mótmælendur hafa fram að færa. Mestar áhyggjur hef ég þó af tjóninu sem siðlausir menn hafa valdið landinu okkar. Ég get því miður ekki lagt út fyrir þeim kostnaði frekar en aðrir og ég held að Kolbrún ætti frekar að beina vandlætingu sinni að þeim mönnum. Við hin sem mótmælum úr hlýjunni í gegnum bloggið eigum frekar að þakka þeim hinum sem rífa sig upp úr sófanum og norpa út í kuldanum og mótmæla fyrir okkur þessi sérhlífnu.

Takk fyrir gott blogg og gleðilega hátíð, Lára Hanna.

Egill Jóhannsson, 24.12.2008 kl. 14:23

15 Smámynd: Víðir Benediktsson

Gleðileg  jól  Lára Hanna og takk fyrir skrifin á árinu. Láttu ekki deigan síga.

Víðir Benediktsson, 24.12.2008 kl. 14:23

16 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Gleðileg jól Lára Hanna og takk fyrir frábær skrif og myndir sem þú hefur birt okkur hér á blogginu. Ég óska þér velferðar og réttlætis á komandi ári.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.12.2008 kl. 15:06

17 identicon

Málefnalegar, vel ígrundaðar og vel rökstuddar skoðanir þínar hafa verið ljós í myrkri síðustu vikna.Framreiðsla þín á málefnum líðandi stundar er mér að skapi. Takk fyrir mig.

Gleðileg jól, flykkjumst á Austurvöll 27.desember.   

Herta Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 15:12

18 identicon

Spurning hvort Kolbrún leggi í að svara Birnu svo úr verði ritdeila. Hlakka til að fylgjast mð því.

Gleðileg jól Lára Hanna og þakka þér fyrir þessa upplýsingaveitu þína.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 15:19

19 identicon

Mig langar bara að þakka þér fyrir frábæra bloggsíðu Lára og að mínum dómi er þetta blogg ársins. Ég ber bara eina von í brjósti og hún er sú að á komandi ári rísi almenningur í landinu upp og sýni þessu hrokapakki sem hefur leitt þjóðina nánast í glötun hvar Davíð keypti ölið. Þó ekki Davíð Oddsson. Sem betur fer fer þeim ört fækkandi sem taka mark á þessum óþjóðalýð sem er undir verndarvæng íhaldsins og skrifar niður til okkar almennings. Þeir vita ekki hvað bíður þeirra þegar fólk vaknar upp eftir jólahátíðina og áttar sig á að undir handleiðslu Sjálfstæðisflokksins er þessi þjóð farin á hausinn. Lifi byltingin.

Peðersen (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 15:34

20 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég hef stundum haft gaman að Kolbrúnu, fyrir að segja meiningu sína. ég er þó langt í frá alltaf sammála henni. skil t.d. ekki kóngafólksblætið hennar.

Birna er kona sem stöðugt vex í áliti hjá mér. ekki vegna þess ég sé alltaf sammála henni, heldur vegna þess að hún er einlæg og með mjög sterka réttlætiskennd. svo ber hún líka svo fallegt nafn.

mér er minnistæð Gay Pride gangan í fyrra. þá ákváðum ég og þáverandi kærastan að standa ekki á gangstéttinni og horfa á, heldur taka þátt. skelltum okkur í gönguna og gengum einmitt fyrir aftan Birnu og hennar félaga. það var mjög skemmtileg upplifun.

eigðu gleðileg jól Lára Hanna

Brjánn Guðjónsson, 24.12.2008 kl. 16:52

21 identicon

Ekki ber ég neina sérstaka virðingu fyrir Birnu & Kollu ekki heldur af því hvoruga þekki ég & því ekki grundvöllur neinnar virðingar umfram aðra.

Dáist hins vegar alltaf að Kollu fyrir dirfsku, frelsi & sjálfstæði andans.  Hún þorir meira að segja að vera sæt & sexý starfandi þó í þessum menningarheimi.  Það er aðdáunarvert.

Birna virðist hins vegar vera föst í fangelsi eigin hugsjóna & líklega verður hún teymd á asnaeyrunum beina leið lífið á enda með bundið fyrir augun, viljalaus & andlaust verkfæri pólitískrar rétthugsunar.

Kolla er í grein sinni einfaldlega að benda á að mótmælendur ættu að reyna að skilja orðið "ábyrgð" (& þá ekki bara pólitíska ábyrgð heldur persónulega) áður heimtað er að hinir & þessir axli hana.

Ég er ósammála því að Birna hafi eitthvað meiri réttlætiskennd en aðrir. Réttlætiskennd er eins & orðið ber með sér "kennd", nokkurs konar tilfinning & má ekki rugla saman við réttlæti sem er siðferðilegt fyrirbæri & breytilegt eftir tíðaranda.  

- Réttlætiskennd vaknar með manni þegar manni þykir einhver órétti  beittur t.d. þegar stolið er feitt af einhverjum en réttlætiskenndin getur líka kviknað þegar þjófurinn er órétti beittur.  Þannig er réttlætiskenndin & því verður ekki séð að Birna sé með neitt meiri réttlætiskennd en Kolla þó svo virðist að akkúrat hér virðist menn flokka réttlætiskennd í æskilega & óæskilega.

Rutseg (IP-tala skráð) 25.12.2008 kl. 09:52

22 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fátt er líklegra til að fara úr böndum en réttlætiskenndin svonefnd. Mörgum hættir til að nýta sér hana til skjóls þegar þeir ganga fram af öðrum í einhverju efni. Hún hefur orðið aflvaki fólki á borð við Martin Luther King, Joseph Mandela og Maríu Teresu. Hún hefur því miður líka orðið aflvaki þjóðernishreinsana og margra annara illverka.

Mér hefur sýnst réttlætiskennd þeirra Kolbrúnar og Birnu vera af ólíkum toga en ekki treysti ég mér til að ganga mjög langt í útskýringum þar. Mér finnst réttlætiskennd Birnu beinast að því að verja samfélagið gegn ofbeldi auðmagnsins og þeim sem telja sér skylt að greiða götu þess með regluverki sem því hentar. Réttlætiskennd Kolbrúnar finnst mér ofurlítið höll undir óheft frelsi fyrirbærisins og þeirra sem ganga þar fram fyrir skjöldu.

Mín dómgreind er ekki óskeikul og réttlætiskennd mín getur stundum orðið hálfgerður vandræðagripur.

Árni Gunnarsson, 25.12.2008 kl. 17:38

23 identicon

Ég hrissti líka alltaf hausin þegar ég les bloggin þín og hugsa "seint ætlarðu að botna nokkurn skapaðan hlut í lífinu og tilbrigðum þess."

Mikið er ég líka sammála henni Kolbrúnu.

Svo er ég búin að hugsa þettta, að mótmæla í mótmælagöngum, ræðum á Austurvelli, á táknrænana hátt, með eggjakasti osfrv. finnst mér hálfgerð uppgjöf. Fólk sem geriri svona er fólk sem vill að hlutirnir séu gerðir fyrir það, ríkið, verkalíðsfélög eða ofurmenni(konur) eiga að redda málunum, en slíkur hugsunarháttur kemur manni ekki neitt. Það er einstaklingsframtakið og framtakssemin (þá ekki á bloggheimum eða í mótmælagöngum) sem kemur manna áfram og upp úr volæðinu. Það er engin sem býr til þína hagsæld nema þú sjálfur. 

Þetta fólk sem hefur safnast saman á Austurvelli er fólk sem er að bíða eftir að einhver bjargi þeim, það kann ekki að synda sjálft. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 25.12.2008 kl. 17:58

24 identicon

Bjöggi! Þessi færsla þín lenti á röngum stað. Hún á að byrtast í áróðurspésum Sjálfstæðisflokksins daginn fyrir næstu kosningar.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 25.12.2008 kl. 18:52

25 Smámynd: ThoR-E

Ég veit um konu sem Kolbrún tók viðtal við og spurði hana hvaða fótboltamenn henni fyndist sætastir á HM, konan sem er mjög hrifin af fótbolta, sagði snúðugt að hún horfði ekki á fótbolta vegna útlits karlmannanna. Heldur vegna íþróttarinnar.

Það sem birtist í blaðinu var að þessari konu fyndist viðbjóðslegt að sjá fótboltamenn tárast og fagna, semsagt sýna tilfinningar sínar þegar mark væri skorað.

Konan hringdi alveg í rusli í Kolbrúnu og bað hana um að leiðrétta þessar rangfærslur, en þá sagði Kolbrún að konan hefði verið svo lík annari konu í tilsvörum að hún hefði ákveðið að taka sér skáldaleyfi.

En sú blaðamennska. 

Eftir að ég las þessa pistla um mótmælin eftir hana Kolbrúnu í Morgunblaðinu að þá hef ég endanlega misst allt álit á henni. Bæði sem blaðamanni og gagnrýnanda. Hver tekur mark á svona manneskju??

ThoR-E, 25.12.2008 kl. 18:59

26 Smámynd: Heidi Strand

Goð greinin hennar Birnu þar sem hún svarar "besservisseren".

Gleðileg jól og farsælt byltingarár

Heidi Strand, 25.12.2008 kl. 20:15

27 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jólastemningin hérna bara ansi skemmtileg. En þetta eru já tvær ágætisdömur, sem margt hafa til bruns að bera, en eru já umdeildar mjög. Birna einfaldlega einn af meiri kvenntöffurum þessa lands og svei mér (og þú afsakar það vonandi þó ég segi það Lára Hanna') einnig ein almesta KYNBOMBA þess!Hún er eiginlega svona Marlyn Monroe/Bridget Bardot Íslands samankomnar í einni og sömu konunni!Eiginlega bráðfyndið alesa hjá nafnlausa spekingnum hér ofar að "hún sé í fangelsi eigin hugsjóna.. o.s.frv." Ég er nú hræddur um að ansi margir séu þá í fangelsum líka og fleiri en hægt er að telja nokkurn tíman.

Hef oft getað hlegið af Kolbrúnu og hennar verkum, en hennihefur greyinu ansi oft í seinni tíð hætt til að vera helst mikið yfirdrifin og hégómleg! En læt það nú ekkert fara í taugarnar á mér. Þættirnir hennar á rás tvö um árið,Sunnudagslærið, ásamt Auði Haralds voru þó dæmi um mjög góða hluti sem KB hefur komið nálægt.

Magnús Geir Guðmundsson, 25.12.2008 kl. 22:31

28 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ó, Magnús, hvað ég er ósammála þér með þetta síðasta, Sunnudagslærið (ég mundi reyndar ekki að þátturinn hefði heitað það) var skemmtilegt ÞRÁTT FYRIR Kolbrúnu Bergþórs af því að Auður er svo meinfyndin og skemmtilega háðsk.

Nú fæ ég dálítinn jólamóral yfir að hafa sagt og segja enn leiðinlega hluti um Kolbrúnu. Hún var ansi djörf á árum áður og átti það til að koma með óvænt sjónarhorn á skáldskap en í (langa) seinni tíð hefur mér ekki fundist hún gera það. Mér finnst Páll Baldvin reyndar ekki bæta hana upp í Kiljunni þannig að ég fylgist ekki með þeim þar lengur.

Og þótt ég láti mér útlitslega útgeislun og þokka þeirra tveggja kvenna sem hér er rætt um litlu varða get ég varla annað en hlegið að athugasemd nr. 23 þar sem dáðst er að Kobrúnu fyrir að vera „sæt & sexý starfandi þó í þessum menningarheimi“ - hefur Rutseg (Gestur?) ekki séð þær á fæti?

Berglind Steinsdóttir, 26.12.2008 kl. 14:08

29 Smámynd: Árni Gunnarsson

Bara svona til að gera vart við mig og bjóða gleðileg jól. Að vísu hef ég ákveðið að misnota þessa mikið lesnu síðu til að benda á bloggsíðu ágæts kunningja míns sem heitir Ragnar Eiríksson riddari og er auðfundinn í leit. Hann er svona dæmigerður Skagfirðingur, stórorður, illmálgur og ógreindur. Syngur ekki að vísu né drekkur brennivín að gagni; um kvensemina er mér ekki kunnugt. En síðan hans er vel læsileg fyrir fólk af minni mennt og með mínu hugarfari.

Vona að hún Lára Hanna fyrirgefi mér þetta gegn loforði um að gera þetta aldrei aftur.. 

Árni Gunnarsson, 26.12.2008 kl. 16:43

30 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Birna valtaði algerlega yfir Kolbrúnu, og ef hún skilur það ekki þá er hún heimskari en ég hélt...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 26.12.2008 kl. 17:45

31 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Virkilega, virkilega, virkilega flottur pistill hjá þér Lára.

Mikið getur það verið fyndið stundum að sjá svona tvo andstæða póla setta upp með þessum hætti sem að þú ert vön að gera.

Íslendingum hættir líklega allt of oft til skipta sér í hópa eða lið. Eigin skoðun eða sannfæring virðist oft skipta þar litlu máli og fagleg vinnubrögð oft látin lönd og leið. Ég hef nú á tilfinningunni að Kolbrún hreinlega hljóti að vera að skrifa gegn eign sannfæringu (ef ekki, þá er eitthvað að toppstykkinu hjá henni). Hún er líklega komin í það hlutverk eins og svo margir að vera í hinum fræga "já"-hópi eða klappliðinu þar sem þarf að hneigja sig og beygja á réttum stöðum. Þar gildir að þekkja réttu aðilanna, hampa rétta fólkinu og þar fram eftir götunni til að fá að að vera memm. Kolbrún veit vel eftir áratuga reynslu í jobbinu að það borgar sig að skrifa eins og "yfirvaldinu" þóknast og þá þarf hún ekki að hafa neinar áhyggjur um ókomin ár. Þeir sjá víst "vel" um sína ..........

Líklega fattar hún ekki að öll barátta er hreinlega bráðnauðsynleg til að hreinsa reglulega til í þeirri mannlegu eymd og þeim ófullkomleika sem mannskepnuna hrjáir. Öll þurfum við smá aðhald með einum eða öðrum hætti. Sjálfsskoðun Íslendinga hefur líklega ekki verið hátt skrifuð í gegnum aldirnar. Nýjasta dæmið er hreinlega fáránlega fyndið þar sem tíndir eru til velborgandi, rétttrúaðir og innmúraðir til að rannsaka hvað olli hruni bankanna!

Hvar væri velmegun og framfarir í Evrópu ef ekki hefði komið til öflug stéttabarátta. Laun og annar "lúxus" kemur ekki að sjálfum sér, það þarf hreinlega að bera sig eftir "réttindum". Vandinn er að "réttindi" hafa verið fótum troðin vegna þess að kosnir (keyptir) varðmenn hafa (viljandi) sofið á verði.

Gleðilega hátíð og takk fyrir snilldar blogg sem reis til hæstu hæða á hreint ótrúlega skömmum tíma. Enda ertu með hárbeittan fókus bæði á menn og málefnin og eitthvað sem "réttkjörnir" mættu fara að temja sér þegar þeir loksins drattast úr "Haarde" fríinu sínu.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 26.12.2008 kl. 23:50

32 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mig langaði bara til að bæta því við að mér finnst sýn Kolbrúnar Bergþórsdóttur á veruleikann oft vera álíka brenglaða og Hannesar Hólmsteins. Þá meina ég alls ekki að þau séu sammála heldur er eins og skoðanir þeirra verði til í einhverjum álíka afskekktum fílabeinsturnum.

Það kemur þó einstaka sinnum fyrir að Kolbrún segir eitthvað sem ég get tekið undir. Hins vegar sýnist mér hún þrífast á athyglinni sem orð hennar njóta oft og tíðum og þes vegna tek ég sannfæringunni sem liggur skoðunum hennar til grundvallar oftar en ekki með mjög miklum fyrirvara. Það er e.t.v. ljótt að segja það að annað sem hún á sameiginlegt með Hannesi er að þau eru bæði álíka miklar fjölmiðlafígúrur.

Birnu þekki ég ekkert en mér virðist hún þannig kona að það sé ekki hægt annað en bera virðingu fyrir hennar sterka persónuleika.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.12.2008 kl. 02:52

33 identicon

Tlmæli til BJÖGGA : Þögn er sama og samþykki. Þjófnaði skal ávallt vera mótmælt, þótt þú skapir þína eigin hamingju - á hvaða plánetu býrð þú Bjöggi? Hamingjuplánetunni ? Hvurs lags bull er þetta að líkja hamförum heillar þjóðar við að hver sé sinnar eigin gæfu smiður? Bíddu, átti einhver val um að skipta ekki við banka, leggja ekki fyrir í lífeyrissjóð, eiga ekki þak yfir höfuðið eða eiga ekki fyrir mat þegar að atvinnur-tryggingarsjóður verður uppurinn nk. sumar og féló farin á hausinn? Ætli þú Bjöggi boy að koma þá og redda málunum, hamingjupappinn sjálfur. Ég finn fíluna af XD í gegnum póstinn þinn og þú ættir kannski að dúlla þér við hjá henni sófa-kollu með eina rauðvín eða svo. Þá breytist gremjutóninn í henni í allt annan dúr og það myndi ekki væsa um ykkur í heimi bókmenntanna með hvítbækurnar hans Bjössa Bjarna til að lesa fyrir afkomendur ykkar. Birna malar ykkur ekki bara í mælsku og greind heldur valtar hún hreinlega yfir ykkur bæði tvö!

Fríða (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 01:52

34 Smámynd: Tryggvi Gunnar Hansen

Jú Birna er nú alltaf skellegg og Kolbrún virðist vera snobbkelling að nudda sér utaní mafíósa og þöxara. Þeir nottlega fara að spjalla við hana þegar þeir verða varir við að hún er að verja þeirra ránsaðferðir. Hún er líka að svæla fram athygli, og auglýsa sig og framleiðir hnarreist bull í því sambandi. Þannig aukast líkurnar á hundsbita úr hendi einhvers glæpons. Og það tekst því miður of vel hjá henni og mér finnst dapurt að sjá ruglið taka yfir athyglina, frekar en upplýsing, greining og haldgóðu rökin, sem leiða til sanngjarnra viðhorfa og leiða. Ég held að menn eigi að leiða blöðin hjá sér algerlega, ja nema bara á netinu til að sjá hvað fásinna kemur frá valdaklíkunni. Slökkva á sjónvarpinu ... bara henda því og útvarpinu og alls ekki að hlusta á Geir bulla um áramótinn.  Það er bara heilavírus sem kemur þaðan. Að netið sé nóg. Þar sitja allir við sama borð. Geta tjáð sig eða þagað að vild. Lesið og stundað samræður. Skammast og bullað ja sagt eitthvað vitlegt vonandi. Sem leiðir til heilbryggðara samfélags. Semsagt mér finnst einsog HKL forðum að lifta þurfi umræðunni af þessu lága plani Kolbrúnar yfir í að ræða hvernig við getum varðveitt ísland og þjóðina og tunguna og sjálfstæði. Rétt einsog ég vil ekki að Íslenski hesturinn og geitin og hænan verði frekjum og sjáfsuppteknum frjálshyggju-heimskingjum að bráð. Ef lýðræðishugsjónin fellur og þjóðinríkið með inngöngu í Evrópu og þessir peningaspákaupmenn fá að leika lausum hala, þá er ekkert verkfæri lengur tiltækt til að veita græðisæðinu viðnám. Þá er vistkerfið bara örugglega á fullri ferð á leið í mola. (to the point of no return) Að við komum okkur saman um hvernig við ætlum að "stjórna" saman án foringja en samt forvígismenn og konur. Það gerist ósjálfrátt að þeir sem snjallir eru að finna lausnir hafa mikil áhrif á hina í hringborðsumræðum.  Það er þannig sem "leiðtogahæfnin" nýtist og gáfur og greind koma þá öllum hópnum til góða en ekki bara honum einum. Svona var þetta á meðan við vorum fjölskyldur í stórum hópum. Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Mikil samtrygging og jöfnuður. En samt einstaklingslíf, því allir byggja sér þar bæ eða hreiður hver fyrir sig.  Ef við eigum að vænta betri tíma, þá þurfum við að gera grundvallar breytinga á hvernig við búum saman á þessari kúlu og hér á eyjunni til að byrja með. Hvernig við samræmum og skipum svæðum milli manna og villtra dýrategunda. Ekkert að þessu er komið inní umræðuna. Það eru bara peningasvekkelsi og skítkast í gangi. Þvaður allt of stór hluti. Ég bið fólk að senda upplýsandi póst á mig. Og ég áframsendi stundum ef mér líkar. En ekki svona stagl. Takk samt Lára.

Tryggvi Gunnar Hansen, 31.12.2008 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband