Til athugunar fyrir íslensk stjórnvöld framtíðarinnar

Þetta er eiginlega framhald síðustu færslu. Þar kom fram í frétt Channel 4 að í dag kæmi Tony Shearer, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander - breska bankans sem Kaupþing keypti - fyrir nefnd á vegum breska þingsins sem  rannsakar bankahrunið, þ.á.m. íslensku bankana sem störfuðu í Bretlandi. Það má eiginlega kalla þetta yfirheyrslu. Nefndin sem hér um ræðir er alltaf að störfum (permanent committee) og rannsakar allt mögulegt sem við kemur fjármálum og fjármálastarfsemi, enda heitir hún Treasury Committee (treasury = ríkissjóður).

Yfirheyrslurnar hófust klukkan 9:45 í morgun og þeim lauk klukkan 12:13. Fyrstir voru fulltrúar innistæðueigenda íslensku bankanna spurðir spjörunum úr. Síðan var Tony Shearer spurður um skoðanir sínar á hinum íslensku Kaupþingsmönnum, viðvaranir sínar til breska Fjármálaeftirlitsins og fleira. Að lokum sátu fyrir svörum fulltrúar yfirvalda í skattaskjólunum á Guernsey og Isle of Man. Þetta má allt sjá hér. Á morgun verður tekið fyrir hlutverk fjölmiðla í bankahruninu. Þá mæta menn frá Financial Times, Daily Mail, Guardian og BBC. Ekki síður spennandi að fylgjast með því.

Og það er einmitt málið. Breskar þingnefndir starfa fyrir opnum tjöldum, almenningur má vera viðstaddur - og auðvitað fjölmiðlar - og fundirnir eru í beinni útsendingu á netinu. Ég fylgdist með framburði Tony Shearer í beinni í morgun. Slík vinnubrögð hljóta að veita bæði nefndinni og vitnum gríðarlegt aðhald því allir sem vilja geta horft og hlustað. Hvernig hefði t.d. Davíð Oddsson svarað viðskiptanefnd þingsins um daginn ef við hefðum öll verið að horfa og hlusta? Hefðu nefndarmenn spurt öðruvísi undir vökulum augum almennings og fjölmiðla? Ég efast ekki um það.

Því legg ég til að í framtíðarskipulagi íslensku stjórnsýslunnar, hvort sem um er að ræða nýja stjórnarskrá, nýtt lýðveldi, breytt og bætt vinnubrögð stjórnvalda eða hvað sem við viljum kalla það - að þessi háttur verði tekinn upp. Að hér fari allt fram fyrir opnum tjöldum; nefndarfundir, rannsóknir og yfirleitt allt sem varðar almannahag.

Hér er þáttur Tonys Shearer í morgun. Mjög athyglisverður og vel þess virði að horfa og hlusta vandlega.



Viðbót: Hér svarar Sigurður Einarsson því sem Tony Shearer segir í yfirheyrslunni. Samkvæmt orðum Sigurðar er Shearer að ljúga. Hvor er nú trúverðugri í ljósi þess sem gerst hefur og alls flórsins sem mokað hefur verið út úr skúmaskotum hjá Kaupþingi?
 
Viðbót 2: Stöð 2 fjallaði um málið í kvöld:
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Bendi á að ekki er hægt að hlusta á þingumræður í útvarpi sem er miklu hentugri miðill fyrir fólk á ferðinni en sjónvarp.

Pétur Þorleifsson , 3.2.2009 kl. 14:59

2 Smámynd: Anna

Á Íslandi ríkir svo mikill leynd. Er það bara ekki spillingarleynd. mer sýnirst að Steingrímur vilji uppræta spillingu.

En verkin tala fram að kosningum. Og þeir sem munu standa sig vel munu komast áfram í næstu ríkisstjórn en ekki hinir. Því þá verður kosið um menn enn ekki flokka.

Almenningur er að fá sínu fram.

Anna , 3.2.2009 kl. 15:14

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sammála, Pétur. Þessu þyrfti bæði að útvarpa og sjónvarpa og það ætti ekki að vera neitt mál.

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.2.2009 kl. 15:15

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Lára Hanna, við munum einfaldlega breyta þessu ;)

http://lydveldisbyltingin.is

Baldvin Jónsson, 3.2.2009 kl. 15:24

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er stór merkilegt.

Sat hér gapandi.

Takk.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.2.2009 kl. 15:51

6 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Nákvæmlega! þessi gegnsæi vantar hér á landi. En þetta er ein undirstaða lýðveldisins.

Úrsúla Jünemann, 3.2.2009 kl. 16:32

7 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Tek undir tillögu þína Lára Hanna að á nýja Íslandi verði umræðan opin og gagnsæ, þannig á lýðræðið að virka.

Það var mjög fræðandi að horfa á þessa "yfirheyrslu" og maður hreinlega skammast sín fyrir það að vera samlandi þessara útrásargæja.

Sigrún Jónsdóttir, 3.2.2009 kl. 16:49

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég trúi Kaupþingsmanninum.  Nei, nei, nei, það er ekki spurning um hvor er trúverðugri hérna.

Auðvitað segja þeir manninn ljúga.  Heimurinn er vondur við þá alsaklausa.

Mér finnst líka góður punktur þar sem Tony talar um að það hafi komið sér á óvart hversu ungir bankamennirnir voru (allir nema einn norðmaður eða svíi sem hann hitti hér) og allir úr sama umhverfi.

He can say that again.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.2.2009 kl. 17:59

9 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Það kæmi örugglega ýmislegt misjafnt í ljós ef þessi háttur yrði tekinn upp hérna. Það verður hörð barátta að koma því í gegn því það eru svo margir sem hafa eitthvað að fera.

Helga Magnúsdóttir, 3.2.2009 kl. 20:11

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég ætla að leyfa mér að trúa báðum aðilum þar til búið er að skoða málin til hlítar. Bretar og íslendingar eru afskaplega ólíkar þjóðin í hugsun svo það sem Breta þykir ekki hægt eða mögulegt, finnst íslendingnum vera vel framkvæmanlegt. Heimir Karlsson spurði kollega sína í Bretlandi hvort þeim þætti ekki skrítið að gamla fólkið hjá þeim sé að deyja úr kulda að meðan slíkt væri ekki til staðar í nágrannalöndunum, þó þar væru húsin hituð upp með sama eldsneyti. "Já þú meinar það, kannski best að skoða málið" Heimir sagðist helst halda að þeim hefði fundist þetta eðlilegt, eða þannig.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.2.2009 kl. 20:13

11 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Hólmfríður, annað hvort segir Sigurður eða Shearer satt. Ekki báðir. Hvernig í ósköpunum ætlarðu að trúa báðum?

Björgvin R. Leifsson, 3.2.2009 kl. 20:47

12 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég held að menn ættu nú að fara að huga að því að kalla þessa menn, t.d. Sigurð Einarsson, til ábyrgðar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.2.2009 kl. 21:40

13 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Túirðu yfirleitt mest neikvæðum hlutum um hægri menn???

Ásdís Sigurðardóttir, 3.2.2009 kl. 23:03

14 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvernig færðu það út að þetta mál snúist um hægri eða vinstri, Ásdís?

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.2.2009 kl. 01:38

15 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hægri sannleikur, vinstri sannleikur.  Er sannleikur ekki alltaf sannleikur?  Annar mannanna lýgur og trúi ég þeim enska miklu fremur en honum Sigurði. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.2.2009 kl. 01:56

16 identicon

Hjartanlega sammála, hef óbeit á orðinu "trúnaður" sem stjórnmálamenn og kerfisfólk er sífellt að tala um. 

Þau hafa gríðarlegan trúnað sín á milli en engan að því virðist við almenning!

Gullvagninn (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 09:30

17 Smámynd: Hermann Bjarnason

Þingræði er náttúrulega elst í Bretlandi og þeirra hefðir aðrar, og víst má af þeim læra. Af því er lýtur að framburði þessa manns þá ber hann þess merki að hann hafi eitthvað að fela (sálfræði) eða skammist sín, kannski bara fyrir að hafa lent í slæmum félagsskap.

Hermann Bjarnason, 4.2.2009 kl. 13:29

18 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

# 11, Björgvin

Auðvitað er Sigurður að spinna og það var hér áður fyrr kallað að ljúga. Menn verða að átta sig á að Shearer kom sínum upplýsingum til breska FME nokkrum mánuðum áður en af kaupunum varð og löngu áður en Sigurður, að eigin sögn, sagði Shearer upp. Uppsögning eða boð um stöðuhækkun, að sögn Sigurðar, höfðu því engin áhrif á skoðun Shearers.

Það kom líka fram í máli Shearers að FME veitti systurstofnun sinni í Englandi glansandi góða umsögn um Kaupting þegar þeir voru að rannsaka tilboðið.

Guðl. Gauti Jónsson, 4.2.2009 kl. 13:40

19 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sorry Lára, var ekki að meina þennan pistil, var bara að meina svona yfirleitt, er oft að velta því fyrir mér hvort hægri menn séu mestu skúrkar sögunnar.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.2.2009 kl. 14:45

20 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég hef litla trú á því að þetta snúist um hægri eða vinstri Ásdís, snýst bara um hverjir fara með völdin. Hægri og vinstri eru án vafa nákvæmlega sömu skúrkarnir ef þeir fá að vera við völd nógu lengi.

Persónulega finnst mér því eitt aðalmálið nú í siðbót að hámarka valdatíma. Allir menn spillast ef þeir fá að ráða nógu lengi.

Kannski beinist umræðan nú helst að hægri mönnum vegna þess að það eru þeir sem hafa hér öllu ráðið að mestu undanfarin 80 ár og hafa allan tímann hrætt okkur stöðugt með því sem myndi gerast ef vinstri flokkar fengju að ráða. Nú hefur það allt gerst og miklu meira en það - á þeirra vakt. Ekki hef ég séð einn einasta þeirra sem stóðu í brúnni lýsa yfir ábyrgð eða leggja fram afsökunarbeiðni.

Kannski að þjóðin geti snúið sér núna að því sem mestu skiptir við næstu kosningar - að endurskoða og endurbyggja kerfið okkar - að endurheimta lýðræðið og endurreisa trú okkar á löggjafavaldið.

Hvernig væri að hætta að hugsa hægri og vinstri og fara að þjappa okkur saman um að hér verði ekki óbúandi næstu 220 árin?

Baldvin Jónsson, 4.2.2009 kl. 15:46

21 identicon

takk

MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband