Látum ekki deigan síga - höldum andófinu áfram!

Mótmæli á AusturvelliÉg hef margoft sagt að ég mæti á mótmælafundina á Austurvelli á mínum eigin forsendum. Ég mæti til að mótmæla rangindunum sem við höfum verið beitt og því hugarfari sem ráðið hefur ríkjum. Ég nenni ekki að standa í deilum um einstök efnisatriði eða áherslur og átel það fólk sem mætir ekki af því eitthvað hugnast því ekki í yfirskrift mótmælanna, vali á ræðumönnum eða þvíumlíkt. Að mínu mati eru það bara átyllur og undanbrögð. Þras sem ég tek ekki þátt í.

Fjölmennustu fundirnir á Austurvelli hafa talið um 10.000 manns. Þið skuluð ekki ímynda ykkur að allt þetta fólk hafi verið sammála um öll smáatriði. Langt í frá. Það sem þessir andófsmenn áttu sameginlegt var viljinn til að breyta samfélaginu. Þótt ný ríkisstjórn sé í höfn sem er byrjuð að breyta er óralangt í land. Hugarfarsbyltingin heldur áfram og við verðum að fylgja henni eftir. Annars er það sem við höfum afrekað hingað til ónýtt og hætta á að allt fari í sama farið aftur.

Ingibjörg Hinriks, bloggvinkona mín, sendi mér skilaboð í kvöld og benti mér á pistil sem hún hafði séð á Facebook. Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að birta pistilinn. Hann er ekkert minna en frábær og eins og talaður út úr mínu hjarta. Það er of áliðið til að hringja í höfundinn og fá leyfi svo ég birti hann í fullkomnu leyfisleysi með von um að höfundurinn, Valgeir Skagfjörð, virði mér það til betri vegar. En pistill Valgeirs hljóðar svona - gætið þess að lesa hvert einasta orð, hverja setningu:

Ekki laust við spennufall eftir byltinguna.

Takturinn, söngurinn, ástríðan, þessi íslenska þjáning sem gaf okkur sameiginlegan kraft til að berjast gegn siðleysinu og óréttlætinu. Þessi neisti sem kviknaði, þessi von.

Ísland minn draumur mín þjáning mín þrá,
mitt þróttleysi og viðnám í senn,
þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá
hún vakir og lifir þó enn

orti Steinn Steinarr fyrir margt löngu.

Ég finn til með okkur og öll þjóðin finnur til. Við erum máske beygð en ekki brotin. Við getum borið höfuðið hátt og verið stolt af því að vera Íslendingar. Við höfum flest gert landinu gagn og leitast við að vernda börnin okkar og eigur okkar sem best við kunnum og fæst tókum við þátt í sukkinu. Við stóðum hjá og horfðum á í forundran.

Hversu oft spurði ég mig ekki þeirrar spurningar hvort þetta væri í lagi? Bankastjóri með 65 milljónir að meðaltali í tekjur á mánuði? Hversu geðveikislega hljómar þetta? Við sem vorum trillukarlar og kotbændur fyrir ekki svo löngu síðan. Við sem lifðum á landsins gæðum, feng sjávar og smáiðnaði. Við sem fórum í löng verkföll til að koma lámarkslaunum upp fyrir hundraðþúsundkallinn og vorum svo svikin jafnharðan af stjórnvöldum sem stóðu alltaf vörð um atvinnurekendur, heildsala og fjármagnseigendur með því að skella framan í okkur verðhækkunum sem virkaði bara eins og hver annar eldiviður á verðbólgubálið sem logaði glatt. Svo þegar þeim tókst að koma böndum á blessuðu verðbólguna þá skelltu þeir á okkur verðtryggingunni sem nóta bene var bara á skuldunum en launin stóðu í stað.

65 milljónir á mánuði fyrir að stjórna banka sem fór á hausinn. Það þykir kannski ekki svo mikið ef maður skoðar það í ljósi þess að þaValgeir Skagfjörðð gæti kostað ríkið 70 milllur að útvega seðlabankastjóra annað djobb. Hvar erum við stödd? Hugsum aðeins um þetta góðir hálsar. Við erum núna að taka á okkur launalækkanir. Í fyrsta sinn í aldalangri sögu verkalýðsbaráttu á Íslandi erum við að taka á okkur launalækkanir vegna einhverra sem með óráðsíu sinni settu landið á hausinn en gátu borgað sér 65 milljónir í laun á mánuði og það kom í ljós að þeir voru ekki að standa sig í vinnunni. Núna stöndum við hér með okkar - kannski 200 þús kall á mánuði og stöndum okkur aldrei betur í vinnunni af því núna er raunveruleg hætta á því að við höfum ekki þessa vinnu mikið lengur. 65 milljónir á mánuði - það jafngildir mánaðarlaunum 325 manna sem standa og norpa á Austurvellinum.

Og við sem fáum þennan hundrað og fimmtíu eða tvöhundruðþúsund kall útborgaðan um hver mánaðamót höldum uppi velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu með skattgreiðslum okkar. Þeir sem reynast hafa 65 milljónir á mánuði reyna svo að skjóta öðrum fjármunum undan skatti með því að færa þá í skattaskjól úti í heimi. Hvað er í gangi hérna hjá okkur? 65 milljónir á mánuði.

Sögurnar af sukkpartíunum, utanlandsferðunum, veiðiferðunum, fjármagnsflutningunum og svo mætti lengi áfram telja skiptu tugum og hundruðum. Allan tímann hugsaði ég með sjálfum mér: "Nei - þetta hlýtur að taka enda einn daginn. Fólk getur bara ekki hagað sér svona endalaust. Það hlýtur einhver að stoppa þetta af". En ekkert gerðist. Við vorum blekkt og okkur talið trú um að hér væri allt í stakasta lagi og góðærið ætti nú sem óðast að færast til okkar hinna sem náðarsamlegast fengum að hirða upp brauðmolana góðu af allsnægtaborði aðalsins. En ekki bólaði á neinni betrun né bót. Enginn hafði döngun í sér til að stöðva ruglið og handhafar valdsins góndu eins og staðar beljur á misvitra fjárglæframenn flytja þvílíkt fjármagn úr landi að dygði til að standa undir rekstri ríkisins til margra ára. Hvert fóru allir milljarðarnir? Það virðist ekki skipta máli. Við sem spyrjum þessarar spurningar erum bara til ama og leiðinda. Við verðum bara að skilja það að þessir peningar eru farnir og það fæst bara ekkert upp í þetta nema kannski hugsanlega í mesta lagi eitthvað... bla, bla, bla.

Svo ég vitni nú aftur í Stein Steinarr:

Abbyssiníukeisari heitir Negus Negusi
og Negus Negusi segir: Búlúlala.
Öllum mönnum sem íhuga málstað ríkisins
finnst unun að heyra Negus Negusi tala.
Og í hreinskilni sagt eru allir óvinir ríkisins
sem ekki hlusta á Negus Negusi tala.
Ég er Negus Negusi, segir Negus Negusi,
ég er Negus Negusi. Búlúlala.


Í þessu ljóði sé ég birtast þá valdsmenn sem því miður hafa skaðað þjóðina varanlega með hugmyndafræði sem svo augljóslega hefur beðið skipbrot. Innantóm orð, heimska, hroki, valdagræðgi, spilling og auðsöfnun í krafti valds er það sem hefur einkennt stjórnarhætti þeirra manna sem hafa aðhyllst þessa hugmyndafræði og látið hana vera leiðarljós við stjórnvölinn á þjóðarskútinni ms Íslandi.

Það var ekki fyrr en skáldin létu til sín taka, ekki bara rithöfundarnir, ljóðskáldin og heimspekingarnir heldur athafnaskáldin á götunni, bráðgreint fólk með sterka réttlætiskennd fór að tala á torgum og benda á klæðleysi keisaranna að þeir áttuðu sig á því að þeir voru kannski ekki í neinum fötum þegar allt kom til alls. Samt þráuðust þeir við og vildu sjálfir fá að taka í lurginn á þessum lævísu skröddurum sem sniðu fötin á þá en allt kom fyrir ekki. Almenningur, þessi sofandi risi var nú farinn að rumska. Það var ekki alveg nóg að hella hann fullan og stinga upp í hann dúsu í hvert sinn sem hann ætlaði að mjamta kjafti. Nú var hann farinn að rumska svo rækilega að ekki varð séð hvernig hægt yrði að koma í veg fyrir að hann stæði upp og léti til sín taka.

Mótmæli á AusturvelliGóðu heilli þá náðist að kveikja sannan byltingaranda í brjóstum sem að geta fundið til og þá er ekki að sökum að spyrja - við getum fært fjöll úr stað. Þeir ráðamenn sem nú eru farnir frá mislásu stöðu sína svo herfilega og spiluðu svo herfilega illa af sér í þessari lönguvitleysu að ég man ekki eftir öðru eins í annan tíma. Hef ég þó fylgst með pólitík á Íslandi frá því 1968 - eða þar um bil. Það var einmitt snemma morguns að mamma vakti mig og sagði dramatísk: "Jæja, nú er skollin á ný heimsstyrjöld" - Rússarnir réðust inn í Tékkóslóvakíu og umbótastefna Dubceks var upprætt og troðin niður af járnuðum stígvélahælum rauða hersins. Vorið í Prag sölnaði. Frá og með þessum morgni, frá og með fréttunum af Jan Palach sem lét lífið undir rússneskum skriðdreka fór réttlætiskennd mín að mótast. Ég hef alltaf haft ímugust á alræði. Ég hef alltaf aðhyllst stefnu sem mótast af lýðfrelsi, jöfnuði, öryggi borgaranna, tækifæri fyrir alla, brautargengi góðra hugmynda, sköpun, menningu, að njóta þeirrar fegurðar sem lífið hefur upp á að bjóða. Menntun fyrir alla, heilsugæsla fyrir alla, velferð og farsæld fyrir alla. Ísland á alla möguleika á að geta orðið fyrirmyndarríki þrátt fyrir efnahagshrunið.

Hér búa þó ekki nema rúmlega 300 þúsund hræður og miðað við landgæði, auðlindir sjávar, menntun þjóðarinnar og gríðarlegan mannauð sem er á stundum vanmetinn, eigum við að geta rekið hér samfélag réttlætis, jöfnuðar og bræðralags. En til þess að stýra nýju fleyi þegar aftur verður ýtt úr vör þá þarf nýjan mannskap um borð. Nú nenni ég ekki lengur að horfa á sömu þreyttu þungbúnu andlitin þarna inni á þingi sem geispa, gapa og kyrja sama sönginn aftur og aftur. Ekki einasta eins og bilaðar plötur sumir hverjir heldur fóru sumir beinlínis í sama sandkassaleikinn og áður kvöldið sem nýi forsætisráðherrann flutti stefnuræðu sína. Kenna hinum um. Þetta er orðið svo þvælt og þreytt að tekur engu tali. Ég reyndi að búa mér til áhuga á þeim umræðum sem fram fóru en allt kom fyrir ekki.

Ég vil fá nýja orðræðu. Ég nenni ekki lengur að hlusta á þetta gjamm um hvað hinir hafi gert af sér og hvað þessir sem nú sitja séu ómögulegir og það sem boðið er upp á núna sé bara bull og vitleysa. Það eru allir að verða eins og Negus Negusi. Tölum um það sem skiptir máli. Tölum um það sem brennur á fólki. Tölum um verðtrygginguna sem er að sliga fólk. Tölum um viðskiptasiðferðið, tölum um pólitíska siðferðið og tölum um náttúruna, tölum um velferð barnanna okkar, gamla fólkið, tölum um auðlindirnar okkar, tölum um framtíðarmöguleikana og tölum um lýðræði, lýðveldi - hver erum við - hvað viljum við - hvert viljum við stefna sem þjóð?

Það verður að uppræta þetta gjörspillta flokkakerfi. Það verður að vera hægt að kalla hæft og gott fólk til góðra verka. Það má ekki gerast að sá kraftur sem varð til í búsáhaldabyltingunni fari ónýttur út í loftið. Við þurfum svo áMótmæli á Austurvelli því að halda að hugsa samfélag okkar upp á nýtt. Andleg verðmæti þurfa að vega þyngra. Við þurfum að finna okkur stað í veröldinni. En hvaða stað? Þetta með að lifa eins og burgeis er fullreynt - við verðum ekki hamingjusamari þótt við getum brunað út úr bænum á stórum jeppa með hjólhýsi aftan í, með flatskjá, fjölvarpi og þráðlausri háhraðatengingu svo við missum nú örugglega ekki af neinu á meðan við erum í fríi. Nú þurfum við andlegan innblástur. Við þurfum skáldin inn á þing. Við þurfum kennara inn á þing, Við þurfum smiði inn á þing. Við þurfum heimavinnandi húsmæður inn á þing. Við þurfum leikara, rithöfunda, myndlistarmenn, tónlistarmenn, eldri borgara, æskulýðsleiðtoga, presta, lækna, verslunarmenn o.s.frv. Við þurfum alls konar fólk inn á þing. Löggjafasamkundan á að vera þverskurður samfélagsins.

Nú sem aldrei fyrr er áríðandi að fylkja liði. Fram - aldrei að víkja. Fram, bæði menn og fljóð. Tengjumst tryggðaböndum, tökum saman höndum. Vinnum þjóð vorri gagn og hugsum um það hvert og eitt að vera öðrum til gagns og aðeins minna um að skara eld að eigin köku. Hugsum um litlu gulu hænuna. Allir vildu jú borða brauðið sem hún bakaði en enginn var tilbúinn að hjálpa til.

Til að spillingaröflin verði fjarlægð þá þarf að rífa meinið upp með rótum. Rótin liggur í hugsuninni. Og til þess að bylting hugarfarsins geti átt sér stað þá verðum við fyrst og síðast að skapa okkur hugsanir sem gagnast okkur og hjálpa síðan hinum við að losna undan hugsunum sem eru skaðlegar. Taumlaus gróðahyggja er t.d. skaðleg. Að hugsa um að skapa sér farsæld er gagnlegt. Hefndarhugur er skaðlegur. Fyrirgefning er gagnleg. Réttlæti er fallegt og göfugt ef það felur ekki í sér óréttlæti gagnvart einhverjum öðrum. Jafnrétti er sjálfsagt og eðlilegt, misrétti er það ekki. Það felst bara í orðinu "misrétti". Hér á landi hefur ríkt alltof mikið misrétti alltof lengi. Ég minni á orð frelsarans sem er að finna í bæninni sem hann kenndi okkur: "Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum".

Ef þeir sem ollu þjóðinni skaða biðja um fyrirgefningu þá fá þeir hana - skilyrðislaust.

Það er ekkert eins gott fyrir reiðina og fyrirgefning. Þannig getum við öll gert skuldaskil ef vilji er til þess. Það er ekkert í heiminum svo slæmt að ekki sé hægt að laga það. Það hefur sagan kennt okkur. Af hverju ætti það að vera eitthvað öðruvísi núna?

Nýtt fólk á þing! Nýja ásýnd Alþingis! Nýja hugsun! Nýir tímar eru framundan og nú er að tryggja það að þessir nýju tímar einkennist af hugsjónum, réttlæti, lýðræði, jöfnuði og farsæld. Reisum nýtt Ísland á nýjum gildum. Við þurfum að byrja núna - það eru jú kosningar framundan.

Es. Að lokum vil ég leggja það til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.

Valgeir Skagfjörð,
borgari

_________________________________________________

Svo mörg voru þau orð. Ef innihald þessa pistils er ekki næg ástæða til að fjölmenna áfram á Austurvöll á laugardögum klukkan þrjú - þá veit ég ekki hvað þarf til. Hugarfarsbylting er undirstaða Nýja Íslands og við verðum að halda henni til streitu. Annars gerist ekkert. Hugarfarsbylting tekur lengri tíma en 17 vikur og við VERÐUM að halda út og vera staðföst.

Ó, þjóð mín þjóð... 

Hvar ertu?

Hvar eruð þið, sem skrifið svo fjálglega um ástandið og spillinguna?
Hvar eruð þið, sem ræðið um byltingu í heitu pottunum og á kaffistofunum?
Hvar eruð þið, sem fordæmið bankamenn og útrásarauðmenn?
Hvar eruð þið, sem skammið ríkisstjórn, alþingismenn og embættismenn?
Hvar eruð þið, sem hallmælið gróðærinu og viljið annað siðferði?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við aðgerðir og aðgerðaleysi ráðamanna?
Hvar eruð þið, sem viljið réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á hlutabréfakaupum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á peningamarkaðssjóðum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað lífeyrinum ykkar?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við að bankarnir afskrifi skuldir auðmanna?
Hvar eruð þið, sem viljið ekki selja þeim fyrirtækin aftur skuldlaus?
Hvar eruð þið, sem horfið á aldraða foreldra flutta hreppaflutningum?
Hvar eruð þið, sem viljið jafnræði?
Hvar eruð þið, sem sjáið húsnæðislánin ykkar rjúka upp?
Hvar eruð þið, sem hafið misst vinnuna?
Hvar eruð þið, sem viljið kosningar og nýja stjórn?
Hvar eruð þið, sem teljið réttlætiskennd ykkar misboðið?
Hvar eruð þið, sem eruð að lenda í heljargreipum verðtryggingar - sumir aftur?
Hvar eruð þið, sem viljið láta frysta eigur auðmanna?
Hvar eruð þið, sem fordæmið leynd og ógegnsæi aðgerða stjórnvalda?

Hvar er samviska ykkar?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bravo, frábær pistill. Takk bæði tvö.

ASE (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 02:18

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta er frábær pistill hjá Valgeiri Skagfjörð, raunsönn lýsing á ástandinu í dag.  Ég er sammála honum að mestu leiti, sérstaklega þetta með afnám verðtryggingarinnar á húsnæðislánunum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.2.2009 kl. 02:24

3 identicon

Frábær grein og eftirskriftin tær snilld.

"Það er helst hægt að finna dæmi um að verðtrygging lána hafi verið bönnuð í löndum sem hafa átt í verulegum erfiðleikum í baráttu við verðbólgu." (Gylfi Magnússon, 2003)

Siggi Helga (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 02:33

4 identicon

Skrifin eru góð og áminning um að við tökum ekki allt án gagnrýni !

Auðvitað á fólk að halda áfram að mótmæla, vitum við eitthvað meira um ástandið ?

Voru ekki að koma upplýsingar frá kaupþingi , sem allir hagfræðingar þjóðarinnar lesa núna hver með sínum skýringum ?

Það þarf einhver að fara koma fram og segja okkur satt um á hvaða stað þjóðin er ?

JR (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 02:39

5 identicon

Fínn pistill hjá Valgeiri en sem tékkanörd verð ég þó að leiðrétta eitt - Jan Palach varð ekki undir skriðdreka, hann kveikti í sjálfum sér í mótmælaskyni.

Ásgeir H Ingólfsson (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 03:22

6 Smámynd: Þórbergur Torfason

Að ákalla fólk; Lára Hanna getur orkað tvímælis. Margir eru í sömu stöðu og starfsmaður Toyota sem varð á að tjá sig og hlaut að launum brottrekstur. Enn eru viðkvæm mál uppi í þjóðfélaginu og dýrt, þeim sem það verður á í fljótfærni að velta við steinvölum sem á vegi þeirra verða. Aðstæður fólks eru mjög mismunandi þannig að hjá einhverjum jaðrar líklega við þrælsótta. Það er mikið böl hvers einstaklings að missa lífsviðurværið og þurfa að þiggja ölmusu.

Pistill Valgeirs er góður svo langt sem hann nær. Spillingaöflin eru bara ennþá grasserandi í stjórnsýslunni.

Hver trúir því að Framsóknarflokkurinn sé eitthvað nýtt dauðhreinsað afl sem öllu geti bjargað? Þurfi hann að hefja einhverjar björgunaaðgerðir, er öllum ljóst hverju og hverjum hann muni fyrst bjarga. Svona skinhelgi dómgreindarlausra, siðblindra flokkseigenda gengur ekki lengur í landann. Samsetning þessarar ríkisstjórnar eru mér vonbrigði.

Þórbergur Torfason, 7.2.2009 kl. 04:14

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Kvitta hér aðallega til að monta mig af því að ég las hvert einasta orð Drakk þau reyndar í mig! Sérstaklega þó þetta:

Ég vil fá nýja orðræðu. Ég nenni ekki lengur að hlusta á þetta gjamm um hvað hinir hafi gert af sér og hvað þessir sem nú sitja séu ómögulegir og það sem boðið er upp á núna sé bara bull og vitleysa. [...] Tölum um það sem skiptir máli. Tölum um það sem brennur á fólki. Tölum um verðtrygginguna sem er að sliga fólk. Tölum um viðskiptasiðferðið, tölum um pólitíska siðferðið og tölum um náttúruna, tölum um velferð barnanna okkar, gamla fólkið, tölum um auðlindirnar okkar, tölum um framtíðarmöguleikana og tölum um lýðræði, lýðveldi - hver erum við - hvað viljum við - hvert viljum við stefna sem þjóð?

Megi Valgeir hafa þökk fyrir þessi flottu skrif og þú fyrir að vekja athygli á þeim Sammála því sem þið bendið á bæði að baráttan er langt frá því búin!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.2.2009 kl. 04:30

8 Smámynd: Bó

Þú ert nú meiri nöldrarinn. Ætlar ein niður á Austurvöll til að mótmæla einhverju sem þú veist ekki einu sinni hvað er.

Þú ættir að reyna að kynnast Georgi Bjarnfreðarsyni - þið eigið örugglega vel saman

, 7.2.2009 kl. 08:40

9 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Auðvitað mætum við. Frábær pistill: Sami maður, ný föt.

Margrét Sigurðardóttir, 7.2.2009 kl. 09:01

10 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Góður pistill hjá þér takk fyrir þetta Lára, kæmi á mótmæli í dag ef ég væri ekki heima með lungnabólgu eftir að hafa staðið í mótmælum í nístings kulda, já.. því þetta er ekki búið.

Ég fór inn á síðu Glitnis fyrir nokkrum dögum, og var að leika mér á húsnæðislána reiknivélinni hjá þeim, ég seti inn 5% 10% 20% verðbólgu, það sem kom út úr þessu skelfir mig hræðilega, upphæðirnar sem ég verð búin að borga þegar upp er staðið eru skelfilegar, 00000000000000000 inn voru svo mörg að ég get ekki einu sinni lesið út úr þeim. Gaman væri að vita hvort þú hafir eða aðrir hafi farið inn á þessar síður ??? Og hvort þú hafir skrifað um þetta ??? Og ef ekki hvort þú getir set þetta upp fyrir okkur þannig að venjuleg manneskja skilji þetta. Mér finnst þessi umræða um verðtrygginguna ekki hafa komist til skila, ég held að fólk átti sig ekki á hvað þetta er hræðilegt, þessar upphæðir sem komu á reiknivélina voru svo hræðilegar að ég (og börn og barnabörn) verð næstu 300 árin að borga, og það hræðilega við þetta allt er að ég skulda ekki mikið.  það væri gaman að sjá hvað þú sérð út úr þessu.

Sigurveig Eysteins, 7.2.2009 kl. 09:20

11 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk Takk

Hólmdís Hjartardóttir, 7.2.2009 kl. 09:22

12 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Algjörlega magnaður pistill Valgeirs Skagfjörð !  Líklega sá besti sem ég hef lesið.

Anna Einarsdóttir, 7.2.2009 kl. 09:27

13 Smámynd: Brattur

Valgeir Skagfjörð góður... hann talar um að við þurfum þverskurð samfélagsins á þing... það er akkúrat málið... kjósum okkur fólk inn á þing, það fólk ræður svo ópólitíska sérfræðinga sem ráðherra, þeir sitji ekki á þingi ... fækkum þingmönnum sem þeim nemur... en hvernig förum við að þessu?

Þeir sem ollu þjóðinni skaða, sem í mínum augum eru aðallega fjárglæframennirnir, munu aldrei biðja okkur afsökunar af því að þeim finnst þeir ekki hafa gert neitt...

Þeir sem létu fjárglæframennina komast upp með það að skaða okkur eru stjórnvöld... þau munu heldur ekki biðjast afsökunar, því þau þykjast saklaust líka...

Hvað sem öðru líður, þá er þó smá vonarneisti kviknaður með tiltekt í stjórnkerfinu... við kjósum okkur svo nýtt fólk í apríl sem við treystum til að leiða okkur út úr ógöngunum... það verður vandasamt að merkja við kjörseðilinn þá... ég hefði vilja sjá nýtt afl með allar þær nýju hugmyndir sem hafa verið í umræðunni koma fram fyrir næstu kosningar...

Og að lokum. Af hverju eru verðtryggð lán ekki tengd launavísitölunni?

Brattur, 7.2.2009 kl. 10:07

14 Smámynd: Sævar Helgason

Magnaður og sannur pistill hjá Valgeir Skagfjörð  -  takk fyrir. 

Og mætum öll á Austurvöll kl 15 í dag 7.feb.09   Góðir hlutir gerast hægt . Við höfum náð góðum áfanga en það er mikið eftir...

Sævar Helgason, 7.2.2009 kl. 10:17

15 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Góður pistill Valgarðs, las hvert einasta orð. Svo sammála þessu með orðræðuna, svakalega orðin þreytt á bendileiknum í sandkassa Alþingis. Og því að það þarf að vera þverskurður af samfélaginu á þingi.

Rut Sumarliðadóttir, 7.2.2009 kl. 11:43

16 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Það gefur manni von, þegar maður les svona pistla eins og þennan frá Valgeiri.  Fólk eins og þú Lára Hanna gefur manni von.  Baráttan er ekki búin.

Sigrún Jónsdóttir, 7.2.2009 kl. 12:00

17 identicon

Kaerar thakkir Lara Hanna, fyrir thennan frabaera pistil fra Valgardi, eg las hvert ord.

Og aftur kaerar thakkir

Halldor Hjaltason (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 12:12

18 identicon

Heyr!Heyr!

Aðalbjörg Tryggvadóttir (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 14:23

19 Smámynd: Bó

Hvar hafið þið verið síðustu 15 ár??

Við höfum upplifað þvílíkan uppgang og góðæri að það hálfa væri næstum nógu gott. Kaupmáttur fólks hefur aukist gríðarlega á þessum síðustu árum og lífsgæðin hafa næstum verið þau bestu sem völ er á í þessum heimi okkar. Svo þegar þið allt í einu þykist eiga svo bágt og ekki getað borgað af lánunum sem þið sjálf skrifuðuð undir, þá er það allt ömurlegum þingmönnum og ráðherrum að kenna. Þeim sömu og sköffuðu okkur þessi miklu lífsgæði.

Þið eruð ekkert annað en frekjur.

Að geta ekki tekið á niðursveiflu með öðrum hætti en þið gerið er vanvirðing við þau lífsgæði sem þið hafið notið á undanförnum árum og þ.a.l finnst mér þið ekki eiga neina einustu vorkunn skilið.

Þið eruð dónar og frekjur.

, 7.2.2009 kl. 14:50

20 identicon

Fyrirgefðu BÓ Hvaða "miklu lífsgæði"  ? Að fá aukið lánsfé eftir gerviþörfum ???  skil ekki svona Bull !  Hvaða "þvílíkan uppgang" ert þú að tala um ? þegar þeir fengu bankana gefin, þegar þeir keyptu og seldu hvor öðru, eða þegar þeir fengu feitu bónusanna ? Það er ekki eins og að landinn eigi allt dótið skuldlaust eftir "gróðærið" Um hvað ertu eiginlega að tala ?

jemin eini einasti þú segir;  

 "Þið eruð dónar og frekjur."

ég segi; síðasti fávitinn er ekki fæddur enn !

ag (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 16:30

21 Smámynd: Sigurveig Eysteins

ag... þessi ræfilstuska er gunga sem þorir ekki að koma undir nafni og það á ekki að svara honum, hann er ekki að sækjast eftir neinu nema fæting, ekkert málefnalegt sem kemur frá honum, og svo talar hann bara um sjálfan sig greyið.

Sigurveig Eysteins, 7.2.2009 kl. 17:09

22 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir Lára Hanna. Tek undir það að áróðursfrasar stjórnmálamenna eru þreyttir

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.2.2009 kl. 18:19

23 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þessi pistill hans Vlla er góður og ekkert annað um hann að segja.

Haraldur Bjarnason, 8.2.2009 kl. 00:08

24 identicon

 Takk fyrir þetta, Valgeir, flott grein   Mig langar að koma á framfæri í sambandi við þetta: 

 "65 milljónir á mánuði fyrir að stjórna banka sem fór á hausinn. Það þykir kannski ekki svo mikið ef maður skoðar það í ljósi þess að það gæti kostað ríkið 70 milllur að útvega seðlabankastjóra annað djobb."

 Ég hef leitað til ýmissa spekinga hérna úti í USA með eitt og annað sem snýr að ástandinu heima vegna dálkaskrifa minna fyrir Huffington Post - eitt er t.d. þessir starfslokasamningar, að ríkið þurfi að greiða fleiri zilljónir til bankastjóranna, o.fl. sem það segir upp. Þetta er bara vitleysa, segja lögspekingar hér, ríkistjórnin þarf ekki að borga þessum mönnum krónu. Lögskýrendur, sem ég hef talað við hjá WestLaw International (westlaw.com) hérna úti, segja að ríkinu beri ekki skylda til að greiða þessar milljónir skv. starfslokasamningum. Ég ætla ekki að þreyta fólk á löngum útskýringum, en til að vitna beint í það sem var sagt: "...basically, this is the government, this is not an ordinary citizen. They don´t "have to" do anything. Unless the Constitution requires it, the government is not bound to fulfill these contracts."  Þeim fannst alveg út í hött að fólk héldi virkilega að ríkið/ríkisstjórnin YRÐI að borga þessar milljónir í starfslokasamninga. "They are the government, they can say, sorry, they can say whatever they want!... " við ætlum ekki að borga þér krónu, bæ bæ! 

Það er alveg rosalegt að hugsa til þess að ísl. skattgreiðendur verði látnir borga þessum mönnum fleiri hundruð milljónir fyrir að setja landið á hausinn. 

Iris Erlingsdottir (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 06:27

25 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Flott hjá þér Íris! Mér finnst full ástæða til að skoða þennan vinkil vel og nákvæmlega og líka af fullri alvöru! Það verður að koma þessari ábendingu þinni áleiðis á rétta staði!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.2.2009 kl. 08:42

26 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hér er athugasemd frá Jakobi Þór Haraldssyni sem mér barst í tölvupósti eftir að mistekist hafði að setja hana hér inn:

Ég er ROSALEGA ánægður (smá grín) með framgöngu VERKALÝÐS hreyfingarinnar..!  Það er búið að NAUGÐA íslenska ÞRÆLNUM í ca. 15 ár með ÞEGJANDI samkomulagi þeirra.  Hvar var RÖDD þeirra þegar KVÓTASVIKAMYLLAN fór af stað?  Hvar var RÖDD þeirra þegar EINKAVINAVÆÐING BANKANNA átti sér stað?  Hvar var RÖDD þeirra þegar VERÐTRYGGING var komið á?    Þeir sem hafa brugðist þjóðinni hvað MEST síðustu 15 árin eru "verkalýðsforystan & íslenskir stjórnmálamenn".Það voru íslenskir stjórnmálamenn (SJÁLFTÖKULIÐIÐ) sem úthlutar AUÐNUM til fára útvalda og útbjó LEIKSVIÐIÐ....!  Síðan hafa farið fram FÁRANLEGAR LEIKSÝNINGAR hjá bæði stjórnmálamönnum & útrásarvíkingum þar sem ÖLLUM átti að vera ljóst að "Keisarinn var nakinn" en "the SHOW must go on" - en þessar leiksýningar viðkomandi "fábjána" hafa gert íslensku þjóðina að SKULDAÞRÆLUM (Ice-SLAVE) og maður er auðvitað ekki sáttur....:).

Jákvætt að þjóð sem búið er að NAUÐGA síðustu 15 árin, skuli LOKSINS vera að vakna til lífsins...!  Þjóðin hefur ítrekað verið BLEKKT enda kunna þessir SKÍTHÆLAR það eitt "að blekkja, ljúga & svíkja út pening fyrir sjálfa sig".  Ég vorkenni rosalega erlendum þjóðum sem lánuðu þessum SPILAFÍKLUM pening.  Þessir skíthælar munu vonandi þurfa að svara til saka fyrir sínar SVIKAMYLLUR hérlendis, þó maður vissulega efi það.  Nú veit íslenski SAUÐURINN að landið er búið að vara APAPLÁNETA - apaspil fyrir almúgan (75% af þjóðinni) en ÆVINTÝRALAND fyrir fá útvaldar FJÖLSKYLDUR.   Skömm þessa fólks er mikil og þið hafið breytt okkar fallega landi yfir í ÞRÆLAEYJU.  Blind græðgisvæðing SIÐBLINDRA einstaklinga er nú komin í ljós (keisarinn er nakinn) en samt heldur KVÓTAKERFIÐ áfram eins og ekkert sé eðlilegra....:).  Já íslenski ÞRÆLINN kan það eitt að "tuða & röfla" og svo felur allt í sama farið (vonandi ekki) - en ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur í stjórn eftir þetta KLÚÐUR þá flytt ég aftur til Noregs.  Réttlætiskennd minni hefur verið misboðið í 15 ár, en nú segi ég STOP - hingað og ekki lengra - "VIÐ MÓTMÆLUM ÖLL...!"

 

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.2.2009 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband