Réttlætið og sálarheill þjóðar

Þessi litla frétt birtist í Mogganum í gær. Landlæknir segir að réttlæti dragi úr áfallastreitu, sem öll þjóðin þjáist líklega meira og minna af um þessar mundir. Ég tek heilshugar undir þessa skoðun landlæknis - ekki á faglegum forsendum, því þær hef ég ekki, heldur aðeins með því að líta á eigin líðan og annarra í kringum mig. Þegar réttlætiskennd manns er misboðið - og það bæði gróflega og ítrekað - fyllist maður reiði, vonleysi og svartsýni og allir vita hve mikil áhrif sálræn líðan hefur á líkamlega heilsu.

Landlæknir um fé í skattaskjólum - Moggi 28.2.09

Ótrúlegasta fólk hefur liðið sálarkvalir í vetur - verið kvíðið, óttaslegið, vonlítið með hugann fullan af svartnætti. Það er líka logandi af réttlátri reiði og sárindum sem eiga sér engan líka. Jafnvel fólk sem ekki fer illa út úr hruninu fjárhagslega, hefur ennþá vinnu og hefur kannski ekki yfir mörgu að kvarta að mati þeirra sem verr eru staddir.

Ég held að okkur líði flestum eins, að minnsta kosti mjög svipað. Það var brotið gróflega á okkur. Við vitum hverjir gerðu það en þar til bær yfirvöld virðast ætla að láta brotamennina sleppa án refsingar. Svo virðist sem réttlætinu verði ekki fullnægt - þjófarnir og nauðgararnir fá að sleppa án svo mikils sem yfirheyrslu. Eða hvað? Fimm mánuðir eru liðnir frá fullnustu glæpsins og hinir seku eru enn frjálsir menn. Þeir ganga um á meðal okkar og láta eins og ekkert sé. Sumir krefja meira að segja þjóðina um hundruð milljarða í viðbót við það sem þeir stálu frá henni vegna gengismunar - sem þeir sjálfir áttu mesta sök á. En hlustið á það sem Egill Helgason segir hér í heimsókn hjá stelpunum í þættinum Mér finnst á ÍNN.

Ég hef heyrt þetta áður - eða lesið. Þeir bjuggust við frystingu eigna - eða einhverju. Meðal annars þess vegna skráðu þeir eignir á eiginkonurnar. Er eitthvert yfirvald að skoða þau mál núna og athuga hvort forsendur séu til að ógilda þá gjörninga eins og gera má ef þeir eru sannanlega til málamynda? Ekki hef ég heyrt um það.

Munið þið hvað Sölvi Tryggvason sagði hér? EITT mál til athugunar hjá Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra rétt fyrir miðjan febrúar, 4 og hálfum mánuði eftir hrun! Þetta er með ólíkindum og vakti gríðarlega athygli. Heil þjóð sett á hausinn, enginn yfirheyrður og engin mál einu sinni til athugunar.

Þetta er meðal annars það sem fer svo illa í fólk og fyllir það reiði, sárindum, vonleysi og sálarangist. Það er ekkert réttlæti í augsýn. Ekki verið að yfirheyra neinn eða rannsaka nein mál. Almennt er réttlætiskennd fólks mikil og við viljum öll sjá réttlætið ná fram að ganga. Það er eitt af grunngildum samfélagsins sem yfirleitt er nokkuð góð sátt um. Við sjáum dópsala, þjófa og ofbeldismenn dæmda og fangelsaða - jafnvel fyrir minniháttar mál - en stærstu þjófar Íslandssögunnar eru látnir í friði. En menn reyndu. Sáuð þið þessa frétt?

Kafla Indriða um skattaskjól hafnað - Fréttablaðið 26.2.09

Hér stendur að Tryggvi Þór Herbertsson, nú frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi efnahagsráðgjafi Geirs Haarde og Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins - tveir sjálfstæðismenn - hafi einna helst lagst gegn tillögum Indriða. Indriði tjáði sig um þessi mál í Silfri Egils og Kastljósi.

Þá kem ég aftur að mikilvægi réttlætisins fyrir sálarheill þjóðarinnar. Flestir kannast orðið við Andrés Magnússon, geðlækni. Hann hefur komið fram í Silfri Egils, fréttum, haldið ræður á Austurvelli og á Borgarafundi og verið mikið niðri fyrir. Þetta sagði hann um áhrif réttlætis á geðheilsuna 3. febrúar sl.

Og hér er hann í Silfri Egils tveimur dögum áður, eða 1. febrúar.

En við þurfum svosem ekki landlækni, Indriða eða Andrés til að segja okkur þetta. Við finnum það sjálf. Okkur þyrstir eftir réttlæti. Síðasta ríkisstjórn veitti okkur enga von um slíkt og lét sem hún heyrði ekki neyðaróp okkar og spurning hvort núverandi stjórn nái að gera eitthvað í málinu. Þess vegna er mjög mikilvægt að við íhugum sem þjóð og sem einstaklingar með réttlætiskennd hvernig stjórn við viljum eftir næstu kosningar. Spyrjum frambjóðendur gagnrýnna spurninga og tökum hvorki blaður né þvaður trúanlegt. Hugsum sjálfstætt, höfum skoðanir og verum minnug þess að okkar skoðanir eru ekkert minna virði en þeirra. Sálarheill þjóðarinnar er í húfi.

Viðbót: Þessi pistill birtist á vef Þjóðkirkjunnar í dag. Þarna eru átta guðfræðingar að fjalla mikið til um þetta sama málefni út frá sínum forsendum. Best að halda þessu til haga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr Lára Hanna sálarheill þjóðarinnar er í húfi.  Minni réttlætiskennd er misboðið, ég vil sjá frystingu eigna, og tilfærslu á peningum aftur til Íslands frá skattaskjólunum.  Annað getur ekki verið réttlátt, að ræningjarnir skili þýfinu til okkar þjóðarinnar sem borgar fyrir svikin.. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.3.2009 kl. 01:19

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Réttlætiskennd okkar er stórlega misboðið

Hólmdís Hjartardóttir, 1.3.2009 kl. 01:41

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sálarheill þjóðarinnar er í húfi alveg hárrétt, auk þess tel ég framtíð þjóðarinnar í húfi.

Framtíð Íslands,kynslóðin sem nú er að hefja lífið, með börnin sín mun nota fyrsta tækifærið og vinnur trúlega að því öllum árum að flytja af landi brott.  Þessi hreyfanlegi hópur telur alls um 200 þúsund manns.  Þau munu varla snúa aftur í bráð. 

Á meðan getur fólk verið að rífast um og velta sér upp úr þeirri brýnu nauðsyn að fara strax í sértækar aðgerðir gagnvart þessari kynslóð, í formi skuldaniðurfellinga.  Það verður að mismuna hér, framtíð Íslands er í húfi.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.3.2009 kl. 02:35

4 identicon

Ég er búin að vera reið og nýta reiðina í mótmæli, blogg og alls konar starf með mótmælendum. Er búin að vera óvenjulega oft veik í vetur, flensur og sýkingar. Annars er ég hraust kona. En nú græt ég oft, missi börnin mín bráðum til útlanda og þau tala um að Ísland verði aldrei fjölskylduvænt samfélag. Hér verði aldrei hægt að lifa góðu lífi aðeins á dagvinnunni.

Ég veit þetta er sorgarferli og núna semsagt er ég loksins farin að gráta.

Rósa (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 05:49

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Já, sálarheill þjóðarinnar er svo sannarlega stefnt í voða. Þó það beri að fagna þeim sem hafa lagt sig fram við að styðja hana með ráðum sínum og dáð þá er það ekki nóg. Það verður að sækja þá sem bera ábyrgðina á rányrkjunni til saka! Það er lífsspursmál ekki aðeins fyrir nútíðina heldur framtíðina líka! Vonandi fara þeir sem fara með völdin að horfast í augu við það og grípa til aðgerða!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.3.2009 kl. 07:36

6 identicon

Já þetta er sorglegt að þessir þjófar sleppa undan en þjóðin er látin borga fyrir þá.

Hérna i Svíþjóð voru eignir nokkura manna frystar af beiðni Sameinuðuþjoðana vegna gruns um að peningar sem þeir sendu til útlanda væru notaðir til ap fjármagna vopnakaup fyrir hryðjuverkamenn en það var nú aldrei sannað, það ætti nú að vera hægt að gera það sama við þessa bankaræninga á Íslandi finnst mér...

Jóhannes H (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 08:14

7 identicon

Frábær grein

Jóhann Gunnar (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 09:35

8 Smámynd: Einar Indriðason

Enn og aftur, Lára Hanna:  AMEN!

Einar Indriðason, 1.3.2009 kl. 11:09

9 identicon

Þrátt fyrir öll þessi ósköp, þá styður ennþá fjórði hver kjósandi spillingarflokkinn. Sem á stærstu sök á þessu öllu. Er þjóðin þá ekki algjörlega dauðadæmd? Ég þekki meira að segja fólk sem var hlynnt stóriðjustefnunni/Kárahnjúkavirkjun en flutti til útlanda og skildi okkur eftir, sem vorum á móti, með byrðarnar sem það vill ekki bera sjálft en kallaði yfir okkur hina. Er einhver furða þó að brostinn sé á flótti núna?

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 12:40

10 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Heyrði eða las að svona gjörninga að flytja eignir á maka og fleiri, sé hægt að rifta ef það er gert innan tveggja ára.

Rut Sumarliðadóttir, 1.3.2009 kl. 14:01

11 identicon

Takk kærlega, nafna, fyrir þitt starf :) Þú ættir að vera að vinna á einhverjum fjölmiðlinum (verst að þá kæmirðu ekki þessu öllu að). Fékk tölvupóstinn, takk fyrir mig

Lára Ómarsdóttir

Lára (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 15:48

12 identicon

Takk fyrir góða samantekt. EITT mál hjá efnahagsbrotadeid 4,5 mánuðum eftir hrun. Skyldu þau verða fleiri? Atli Gíslason giskaði á að faldar innistæður á reikningum í skattaskjólum væru 1.500 milljarðar, það eru ca 11 Kárahnjúkavirkjanir.

Athyglisverð forsíðumynd á mogganum í gær. Sérstakur saksóknari situr við tómar hillur með hendur í skauti. Er hann kannski bara að gera það sem hann var ráðinn til......?

Þetta eru jú alvarleg mál, en einhvernveginn líkjast þau meir og meir ....endalausum brandara.

sigurvin (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 15:50

13 identicon

Grafalvarlegt og fólki gróflega misboðið.  Fólksflutningar munu verða og líkl. í stórum stíl.  Og ekki bara unga fólkið.  Það er bara ekki búandi við hina rotnu spillingu sem fær að viðgangast nánast óheft í landinu.

EE elle (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 16:30

14 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Sko, ég held og eitthvað segir mér að glæpurinn sé það stór og margir flækir í hann á einn eða annan hátt, bísnessmenn, stjórnmálamenn, embættismenn og aðrir að við höfum einfaldelga ekki ráðin, mannskap né önnur úrræði til að fullnægja réttlætinu.

Arinbjörn Kúld, 2.3.2009 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband