Heimska eða vísvitandi misbeiting valds?

Við erum í djúpum skít, Íslendingar... það er óumdeilt. Fjárglæframenn hafa steypt þjóðinni í skuldafen með dyggri aðstoð sinnulausra eftirlitsaðila og rænulausra stjórnmálamanna. Frá upphafi hruns hefur verið hamrað á meintum björgunarhring okkar - auðlindunum - sem við eigum... eða hvað?

Nei, málið er ekki svo einfalt. Auðlindir hafsins voru gefnar frá okkur fyrir löngu. Þegar síðan leyft var að braska með þær voru þær endanlega glataðar og nú er svo komið að fiskurinn í sjónum er veðsettur mörg ár fram í tímann og skuldir sjávarútvegsins eru taldar hundruðir milljarða. Ekki beysinn björgunarhringur það.

Óspillt náttúra er auðlind sem vart verður metin til fjár. Engu að síður hefur verið einblínt á að eyðileggja hana með því að virkja fallvötnin og jarðgufuna til að selja rafmagn til stóriðju í hrávinnslu - og söluverðið er svo lágt að það má ekki segja frá því. Virkjanirnar eru reistar fyrir erlent lánsfé en arður álrisanna fluttur úr landi. Engin skynsemi, engin forsjálni. Væntanlega borgar almenningur brúsann með hækkuðu raforkuverði. Náttúrunni og andrúmsloftinu blæðir, hreina loftið okkar er mengað af útblæstri og eiturgufum og fólk er blekkt með loforðum um svo og svo mörg (hundruð eða þúsund) störf og blómlega byggð sem sannað hefur verið að gengur ekki eftir. Glæsilegur björgunarhringur, eða hitt þó heldur.

Svo er það vatnið sem nóg hefur verið af á Íslandi. Vatn er ein af verðmætustu auðlindum jarðar. Hin nýja olía, segja sumir. Mánudaginn 16. mars sl. hófst alþjóðleg vatnsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Istanbúl - sú fimmta í röðinni. Menn sjá ástæðu til að halda ráðstefnur um vatnsbúskap heimsins vegna þess að vatnið er forsenda lífs. Án vatns þrífst ekkert neins staðar, svo mikilvægt er að fara varlega og vel með það. Miðað við þá einföldu staðreynd eru Íslendingar auðjöfrar á heimsmælikvarða. Hér er frétt Borgþórs Arngrímssonar fréttamanns frá 16. mars og hlustið nú vel.

Tókuð þið eftir þessu: "Vatn verður sífellt verðmætara og eftirsóttara og ýmsir óttast að stór, alþjóðleg fyrirtæki reyni að læsa klónum í þessa auðlind."

Færa má rök fyrir því að stór, alþjóðleg fyrirtæki hafi klófest hluta af náttúruauðlindum Íslendinga með nýtingu á jarðvarma og fallvötnum fyrir álver. En hvað með vatnið? Hvernig ætlum við að stýra því? Ef ég skil rétt hefur gildistöku svokallaðra Vatnalaga - eða breytinga á þeim - verið frestað um óákveðinn tíma, og ég er ekki vel inni í efni þeirra. En eitt veit ég: Lítil sveitarfélög hafa hvorki burði né getu til að taka einhliða ákvarðanir um ráðstöfun verðmætra auðlinda, bera kostnað af viðamiklum rannsóknum og hafa eftirlit með framkvæmdum.

Ég skrifaði pistil í maí í fyrra sem fjallaði m.a. um hin umdeildu Skipulagslög frá 1997 og tilraunir til breytinga í átt að landsskipulagi. Þar kemur glögglega fram hve fáránlegt er að dvergvaxin sveitarfélög megi taka gríðarlega stórar og afdrifaríkar ákvarðanir sem hafa áhrif langt út fyrir þeirra svæði, jafnvel á allt landið og þjóðina í heild. Í pistlinum vitna ég í skipulagsstjóra ríkisins sem sagði í blaðagrein sem birt er í pistlinum: "Land er takmörkuð auðlind og nýting og notkun þess verður að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi."

Nú hefur DV vakið athygli á mjög vafasömum gjörningi í Snæfellsbæ, þar sem bæjarstjórnin, með nýjan oddvita Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi í fararbroddi, hefur selt kanadískum fjárglæframanni vatnsréttindi til 95 ára - það er næstum heil öld! Fyrir 9 árum sögðust þeir ætla að vernda vatnsbólin, en nú er þessi maður kominn með klærnar í þau. Fyrsta fréttin sem ég fann um málið er hérSkessuhorn 17. ágúst 2007. Þar er lofað störfum og rífandi gangi, eigi síðar en í mars 2008. Nú líður og bíður og í janúar sl. er þessi frétt í Mogganum. Enn er rætt við sama Íslendinginn, Sverri Pálmarsson, sem virðist vera frontur Kandamannsins Ottós Spork. Hér er mjög upplýsandi umfjöllun um bæði Ottó þennan og fleira er varðar vafasama umsýslu með þessa miklu auðlind, vatnið, og hættuna sem þjóðum stafar af gráðugum bröskurum.

Í viðbót við dæmin sem ég tók í áðurnefndum pistli er hér komið enn eitt dæmið um agnarsmátt sveitarfélag sem ráðskast með auðlind þjóðar og selur afnotin í tæpa öld. Ef við notum þá þumalputtareglu að 25 ár séu milli kynslóða eru þetta hvorki meira né minna en 4 kynslóðir afkomenda okkar.
Íbúafjöldi Snæfellsbæjar 1. des. 2008:
  1.717.
Atkvæði á bak við meirihluta Sjálfstæðisflokks:  596.
Fjórir sjálfstæðismenn með 596 atkvæði á bak við sig taka í hæsta máta vafasama ákvörðun um að selja erlendum fjárglæframanni hluta af vatnsauðlind Íslendinga í heila öld. Þetta getur ekki með nokkru móti talist eðlilegt - hvað þá skynsamlegt.

Hér er fyrri grein DV sem birtist í fyrradag og hér fyrir neðan sú seinni sem birtist í blaðinu í dag. Eins og sjá má bíta sveitarstjórnarmenn Snæfellsbæjar höfuðið af skömminni með því að neita að gefa upp ákvæði samningsins. Slík leynd er alltaf vafasöm og býður heim grunsemdum um spillingu og mútur, sem er slæmt ef menn eru saklausir af slíku. Hvernig getur Ásbjörn Óttarsson ætlast til að vera kosinn á þing sem oddviti Sjálfstæðismanna í kjördæminu með svona mál í farteskinu?

Leynisamningur um vatnsréttindi - DV 26. mars 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allt sem þú segir er hárrétt, þú stendur ávalt vakina.  Vatn verður einhver dýrmætasta aulind heims, og því er rosalegt að horfa upp á aðgerðir RÁNFUGLINS og sofandahátt Samfylkingarinnar.  Össur er því miður ekki treystandi til að koma þessum málum í eðlilegan farveg.  Þá meina ég að auðvitað á íslenska ríkið að eiga t.d 80% hlutafé í ÖLLUM rekstri sem kemur nálægt vatnsnotkun & vatnsútflutningi, bæjarfélagið á viðkomandi stað ætti svo t.d. að eiga 10% og lífeyrisjóðirnir okkar 10%.  Að leita eftir því að erlendir fjárfestar komi hér inn með pening inn í þessa auðlind okkar er að mínu áliti "fáranleg skammtíma hugsun" og svo kemur meira að segja í ljós að ekki tekst betur til en svo að í tengslum við Snæfellsbæ þá er þar einhvern "erlendur fjárglæframaður" og í tengslum við Jón Ólafsson, þá vita nú allir hans sögu hérlendis.  Þjóðar ógæfa hversu "heimska, spilta & lélega stjórnmálamenn við eigum" - upp til hópa fæðinga hálfvitar.., sem hafa náð að gefa vissum aðilum "góðu bitanna" og síðan er þjóðfélaginu bara rústað eins og ekkert sé sjálfsagðara og hvar lendir svo reikningurinn fyrir uppbyggingu landsins?  Jú það gat nú verið á "Hr Jón & Frú Jónu" enn og aftur.  Við mótmælum ÖLL - við erum orðin frekar leið að láta NAUÐGA okkur hérlendis með t.d. "okurvöxtum & verðtryggingu" við teljum okkur eiga betra skilið....

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 15:08

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Æ þetta er svo skelfilegt

Hólmdís Hjartardóttir, 26.3.2009 kl. 15:36

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þetta er alveg út í hött að svona viðskipti skuli viðgangast með vatnið okkar. Það á að vera skýlaus krafa kjósenda að þeir sem veljast til forystustarfa varðveiti og verndi auðvlindir okkar og þá sérstakelga vatnið sem er það mikilvægast sem við eigum á þessari jörð. Ég er gáttuð á að þetta sé að gerast og við verðum að mótmæla svona viðskiptum fárra með auðlindir okkar allra harðlega.

Takk takk fyrir að veklja athygli á þessu.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 26.3.2009 kl. 15:49

4 identicon

Ég hef nú á síðustu vikum komið inná þetta í umræðum, enda málið mér skylt. Vatnið er ein af auðlindum Íslands og það verður einfaldlega að tryggja það að þessi auðlind verði ekki misnotuð eða yfirtekin af rugludöllum. Nóg höfum við séð og það stefnir í það að aðgangur að vatnsbólum landsins verði smám saman seld erlendum aðilum til afnota.

Neysluvatn verður dýrara með hverju árinu, enda eftirspurn að aukast og verð helst í hendur við hana. Hér getur því verið umtalsverð framtíðar tekjulind fyrir þjóðarbúið, sé rétt á málum haldið.

Ég tel að það þurfi töluverða örvinglan til að gera samninga við erlenda aðila til áratuga eins og Hafnfirðingar hafa nú gert, tala nú ekki um 95 ár sem er hreint út sagt fáránlegt. Því miður - þetta er bara ekki í lagi og langur vegur frá því.

Þessar vatnslindir Hafnfirðinga eða Snæfellsnesinga eru ekki ótæmanlegar.  Það þarf nú þegar að fara í gang starf á vegum ríkisins sem miðar að því að hófsemi í nýtingu þessa sé gætt  og tryggt sé að  ekki sé gengið á höfuðstól þessara linda. 

Fólk hlýtur að sjá það hvar svo sem í flokki það er - að það verður að vera "stýring" á nýtingu vatnsins.  Ég sé hana ekki m.v. þessar fréttir.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 16:06

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þetta fer nú að minna óþyrmilega á Nígeríu-svindlin öll. Olíugróði sem koma þarf undan, viltu lána mér reikning upp á kommu? Vatn sem auðvelt er að fá á Íslandi og selja, viltu fjárfesta? Nokkur hlutafélög til að hægt sé að láta milluna ganga, flottar myndir af paurunum með forseta landsins sem ganga vel í væntanlega fjárfesta. Leynilegur samningur við bæjarstjórnina þannig að enginn hætta er að upp komist um svindlið ef einhver mundi hringja, - og eftir sitja reiðir "fjárfestar" sem eflaust hugsa Íslandi þegjandi þörfina.

Svanur Gísli Þorkelsson, 26.3.2009 kl. 16:24

6 Smámynd: Jakob S Jónsson

Þetta er frábær samantekt, Lára Hanna! Þetta er eitt af brýnustu málefnum okkar þegar til framtíðar er litið. Þú spyrð hvort um sé að ræða heimsku eða vísvitandi misbeitingu valds og ég tel víst að um hvort tveggja sé að ræða. Ég skora á þig að halda þessum flottu pistlaskrifum áfram.

Jakob S Jónsson, 26.3.2009 kl. 17:34

7 identicon

Heimska: Já, örugglega vænn skammtur af henni. Það eru og hafa verið margir í ráðandi stöðum á Íslandi sem eru ekki næstum því eins klárir og þeir telja sig vera, upplögð fórnarlömb fyrir glæpamenn ... Vísvitandi svindl: Já, líka það - en margir ná að réttlæta slíkt fyrir sér með því að telja sjálfum sér trú um að öll völd séu betur komin í höndum þeirra sem geta grætt á gjörningunum fyrir sjálfa sig, trúa því ennþá að einungis gróðavon geti leitt til framfara. Svo eru auðvitað líka til hreinir glæpamenn sem vita alveg hvað þeir eru að gera og víla ekkert fyrir sér -og þeir miklu fleiri en maður gat nokkurn tíma ímyndað sér ...

Ragnheiður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 17:58

8 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Fínn pistill, en það er eitt sem ég skil ekki. Hvað er forsetinn að gera? Var hann ekki búinn að lofa því að hafa sig hægan og hætta þessu útrásarbrölti sínu?

Ingibjörg Hinriksdóttir, 26.3.2009 kl. 19:34

9 Smámynd: Jón Gerald Sullenberger

Gat verið að hann væri þarna forseta ykkar, hurðaopnara fjárglæframanna og klappstýra auðdónanna, Ólafi Ragnari Grímssyni. Hann situr enn á Bessastöðum með 32% atkvæði þjóðarinnar á bak við sig og sendir frá sér skilaboð sem allt er tómur misskilningur að hans eigin sögn.

Heilbrigð skynsemi óskast

Jón Gerald Sullenberger, 26.3.2009 kl. 22:03

10 identicon

Það verður æ ljósara með degi hverjum, hversu brýnt það er að koma því inn í stjórnarskrá okkar að auðlindir okkar skulu vera þjóðarinnar og ekki framseljanlegar.

Það er forgangs verkefni að þjóðin fái að semja nýja stjórnarskrá.

Fyrr verður ekkert lýðræði hér.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 22:54

11 Smámynd: Konráð Ragnarsson

Þú átt heiður skilið Lára fyrir að vakta hrægammanna sem svífast einskis í gróðrabralli sínu.Stöndum vörð um auðlindir okkar og umhverfi!

Konráð Ragnarsson, 26.3.2009 kl. 23:08

12 identicon

Takk fyrir að vekja athygli á þessu. Þetta er ótrúlegt! Hvar er ást þessara manna á landinu?.. Að leigja/selja vatnsréttindi einhverjum dúdda næstu öldina! Og ef hans fyrirtæki fer á hausinn, á þá einhver banki í Kanada vatnsréttindin undan jökli?

En svo er annað, að sveitarfélögin hafa verið tekin fjárhagslegu hálstaki síðustu ár af ríkisvaldinu og eru mörg í þannig ásigkomulagi að þau skrifa nánast undir hvað sem er hjá hverjum sem er.

Dagný (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 23:18

13 identicon

Er ekki þarna aðalsamningamaður Ásbjörn Óttarsson , sem leiðir sjálfstæðismenn í norð vestur kjördæmi ?

Sama gamla spillingin !

JR (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 23:49

14 identicon

Enn og aftur hefur Ólafur Ragnar, sannað það með gjörðum sínum að embætti hans er bara byrði á þjóðinni og hann og hans líkar eiga aðeins samleið með útrásar pólitíkusum og víkingum sem þjóðin hefur greitt nóg fyrir um aldur og æfi.

Leggjum hann og hans embætti niður.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 23:53

15 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Góður pistill Lára Hanna, 

Þessi "storkur" skilur eftir sig blóðuga jörð í heimalandi sínu Kanada, eftir að vogunarsjóður hans var lokaður og eignir hans frystar um miðjan desember s.l.  Vogunarsjóðurinn hét Sex- eitthvað.

Réttarhöld yfir honum áttu að hefjast 16. mars s.l. en "storkurinn" mætti ekki, í fréttinni kemur fram að hann sé

fluttur til Íslands.

Það á að setja lögbann á þennan gjörning í nafni "landráðs, heimsku, eða þaðan af verra",  enda er ekki líklegt að bæjarsjóður ríði feitum hesti eftir þessi viðskipti. 

Nema að samningurinn hafi kveðið á um að greiðslur séu skilyrtar því að "vatnið seljist á ákveðnu verði" næstu 95 árin og Óttó þessi skrifað undir Kúlulán sem fellur á gjalddaga  árið 2103.

Þessum mannvitsbrekkum væri alveg trúandi til þess.

Svei attann enn og aftur!

Jenný Stefanía Jensdóttir, 27.3.2009 kl. 00:16

16 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Heimska eða misbeiting valds? Ég segi að misbeiting valds stafi af heimsku. Þetta er andstyggileg fétt og vonandi verður þessi umfjöllun til að þessi ósvífni græðgis...... sem leiðir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi kemst ekki inn á þing. Hann er það síðasta sem þjóðin þarf inn á þing. Ég vona að hvert einasti kjósandi sé búinn að átta sig á því!

Ég tók líka sérstaklega eftir Ólafi Ragnari Grímssyni á myndinni! Mér sýnist orðið brýnt að segja honum upp áður en hann vinnur þjóðarhagsmunum meira tjón!!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.3.2009 kl. 00:22

17 identicon

Framsal vatnsréttinda eins og á Snæfellsnesi er ekkert nýmæli. Árið 2006 framseldi sveitastjórnin í Ölfusi öll vatnsréttindi í sveitarfélaginu til Icelandic Water Holding til 50 ára án nokkurs endurgjalds. IWH fyrirtæki Jóns Ólafssonar var þá að hluta í eigu Anheuser-Busch bjórframleiðandans. Anheuser Busch sameinaðist 2008 stórfyrirtækinu InBev og heitir nú Anheuser-Busch InBev. Vatnsauðlindirnar í Ölfusi eru því komnar í eigu erlends auðhrings í boði sveitastjórans í Ölfusi og Össurar Skarphéðinssonar sem afhenti Jóni glaður í bragði nýtingarleyfi að auðlindinni við opnun vatnsverksmiðju IWH í september í fyrra. Ólafur Ragnar lét sig vanta við opnun verksmiðjunnar en vísiteraði hana nokkrum dögum síðar til að mæra gjörninginn.

Ég efa ekki að innan tíðar verði IWH komið að fullu í eigu Anheuser-Busch InBev sem getur þá gert það sem þeim sýnist við þessa miklu auðlind sem vatnið okkar er.

Gunnar Jónsson (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 02:05

18 Smámynd: Óskar Ingi Gíslason

Haldiði að Ísland sé eina landið í heiminum sem á hreint vatn? Meira að segja í einni stærstu borg í heiminum New York er hreint vatn á krananum, vatn er kanski verðmætt en það er alltí lagi að selja það ef við getum.

Óskar Ingi Gíslason, 27.3.2009 kl. 04:02

19 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það hefur löngu legið fyrir að næstu styrjaldir jarðar verða háðar vegna vatns.

Svo við lítum okkur nær þá hefur einn stjórnmálamaður aldrei yfirgefið Alþingishúsið með meiri skömm en Geir H. Haarde gerði í gær.

 Og Mbl. biðst afsökunar á að hafa nefnt leiðsöguhund í sömu frétt.   "Vegna fjölda kvartana".  Væntanlega frá ættingjum þess ferfætta...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.3.2009 kl. 07:01

20 identicon

Held að það styttist óðum í að gripið verði til vopna á Íslandi.  Tek undir með Jennýu: "Það á að setja lögbann á þennan gjörning í nafni landráðs, heimsku, eða þaðan af verra".

Skari minn, ertu enn við sama heygarðshornið varðandi bláu trúarbrögðin..?  Hélt að þú myndir vitkast með árunum :)

Jón Árnason (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 07:53

21 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þetta er í annað sinn á tveimur dögum sem einhver minnist á "að grípa til vopna" hér á blogginu. Eva Hauksdóttir talar um það í sinni síðustu færslu og núna notar Jón Árnason svipað orðalag. Ég er sannfærður um að þessu fólki er full alvara, en á sama tíma virðist þjóðin vera upptekin af þessum hefðbundna hanaslag prófkjara og undirbúnings flokkanna undir kosningar. Framboðin (PLO) sem spruttu upp úr búsáhaldabyltingunni virðast ekki ná flugi og andvaraleysi þjóðarinnar gagnvart þeim er mikið. Spurningin er þá, gegn hverjum væri hægt að grípa til vopnaðra aðgerða fyrst almenningur velur að styðja við hinar hefðbundnu flokkspólitísku leiðir til að ráða ráðum sínum? Það væri fróðlegt að heyra svar við því frá Jóni eða Evu ef hún rekur hér inn nefið. 

Svanur Gísli Þorkelsson, 27.3.2009 kl. 08:53

22 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er afar mikilsverð samantekt og nú er virkilega þarft og tímabært að við tímanalega afturköllum lög sem gera vatnsauðlindina að einkaeign fárra.

Hvað sem það kostar nú mun það kosta svo miklu, miklu meira seinna að aftur kalal þessi lög og þau munu hafa svo skelfilegar afleiðingar.

- Hér er jafnvel ljótasta birtingamynd græðgisvæðingar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þó við séum ekki enn alveg farin að finna fyrir afleiðingunum.

Helgi Jóhann Hauksson, 27.3.2009 kl. 13:25

23 identicon

Nú er að sjá hvað verður langt í að farið verður að leggja til kvótakerfi á vatnból landsins. Græðgin finnur ný mið til að róa á...

 Svo þetta frá 17.3.2009:

"In a statement of allegations, the OSC has accused Toronto-based Sextant and Otto Spork, its founder and former president, of a number of offences. These include self-dealing and exaggeration of asset values, notably the value of two glacier companies that were to become sources of bottled water. The OSC also says custodians for Sextant’s funds are unable to account for more than $90 million in investor assets. Spork, who once operated a dental practice in addition to his financial activities, now resides in Iceland."

http://www.investmentexecutive.com/client/en/News/DetailNews.asp?Id=48608&cat=8&IdSection=8&PageMem=&nbNews=&IdPub=

Spork og dóttir hans virðast hafa verið sitt hvoru megin við borðið að keyra upp verðið á þessum 'vatnsverksmiðjum' og þannig féflétt sína kúnna. Stöðluð aðferð útrásarvíkinga, semsé. Fróðlegt væri að vita hverjuir högnuðust með Otto hérlendis. Greinilega búið að nýta sér einfeldni einhverra Ólafsvíkinga (að ég tali nú ekki um íbúa Bessastaða) alveg úpp í topp.

Kærar þakkir Lára.

Karl Aspelund (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 13:32

24 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Gunnar Jónsson, Össur var ekki ráðherra 2006, svo kenndu þeim um sem raunverulega bera ábyrgð. Aðeins þannig vindum við ofanaf vitleysunni. - Það eru þeir sem tóku ákvarðanir sem eru ábyrgir. Hver tekur í hönd á hverjum, eða mætir hvar, eða er á mynd með hverjum kemur hinni ábyrgðinni lítið við. - Ákvarðanir ráða ábyrgð og ákvarðanir geta verið fleiri en ein á leiðinni til glötunar. Þar kemur bæði við sögu sveitstjórnarstig og ríkisvald auk alþingis.

Helgi Jóhann Hauksson, 27.3.2009 kl. 13:36

25 identicon

Helgi Jóhann.

Ekki kann ég skýringar á því hvers vegna þú telur nauðsynlegt að rísa upp og verja útrásarklappstýruna Össur Skarphéðinsson. Kannski var þetta eitthvað óskýrt sem ég skrifaði eða þú ekki kynnt þér þetta ákv. mál. Það var að sjálfsögðu sveitastjórnin í Ölfusi sem framseldi vatnsréttindin árið 2006 en Össur sem iðnaðarráðherra í ríkisstjórn sjálfstæðisflokks og samfylkingar veitti IWH rannsóknar og nýtingarleyfi á auðlindinni að Hlíðarenda árið 2008. Það var því á hans valdi hvort auðlindin kæmist í hendur á erlendum auðhring eða ekki sbr. Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu frá 1998 nr. 57 10. júní þar sem segir í 6. gr. Nýting auðlinda úr jörðu er háð leyfi iðnaðarráðherra hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða í þjóðlendum með þeim undantekningum sem greinir í lögum þessum. Landeigandi hefur ekki forgang að nýtingarleyfi vegna auðlindar í eignarlandi sínu, nema hann hafi áður fengið útgefið rannsóknarleyfi.
Nýtingarleyfi samkvæmt lögum þessum felur í sér heimild til handa leyfishafa til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir eru í lögum þessum og ráðherra telur nauðsynlega. Um veitingu leyfis, efni þess og afturköllun fer skv. VIII. kafla laga þessara.
Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar, umhverfisráðuneytis og viðkomandi sveitarstjórnar.

Össur bar því raunverulega ábygð á því að nýting auðlindarinnar verður næstu 50 árin að hluta eða öllu leyti á hendi erlendra auðhringa.

Gunnar Jónsson (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 16:36

26 identicon

Það að segja að Össur beri alla ábyrgðina er svipað og að segja að Steingrímur J. beri ábyrgð á hvalveiðikvótanum, held ég.

En þetta er flottur pistill Lára Hanna og hafðu þökk fyrir.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 17:16

27 identicon

Það þarf að vekja meiri athygli á þessu máli!  Svakalega mikilvægt.

Kristín Hildur Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 20:41

28 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta er allt umhugsunarvert.

En með vatnið globalt séð, þá er hægt að lesa um vatns kreppuna hér:

http://en.wikipedia.org/wiki/Water_crisis

Maður hugsar sjaldan útí hve vatnsskortur eða mengað vatn hefur afdrifaríkar afleiðingar víða.   

Margir spá að vandamálið fari vaxandi á næstu árum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.3.2009 kl. 23:41

29 Smámynd: Gerður Pálma

Þakkir Lára Hanna fyrir þín frábæru skrif.  Það sem alvarlegast er í okkar málum er að stjórnmálamenn virðast ekki bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti, það er hvergi að finna kærleik til þjóðarinnar og virðingu fyrir framtíð og öryggi hennar. 
Hér verður að koma sterk þjóðarstefna í atvinnumálum sem samin og samþykkt verður af þjóðinni. Kynna þarf, ekki í nokkrum skrifuðum greinum í Moggan heldur á þann hátt að þjóðin fái upplýsingar í æð og leiðbeiningar um aðgang að viðkomandi upplýsingum. Forsenda lýðræðis er heiðarleg upplýsing, óupplýst þjóð er ekki fær um að taka ábyrga ákvörðun. 
Ríkisstjórnin verður að vinna samkvæmt ákveðinni þjóðarstefnu og ef hugmyndir um breytingar koma upp, sem eðlilegt hlýtur að teljast, mun þurfa að leggja þær fyrir þjóðina til ákvörðunartöku.
Sameign þjóðarinnar getur ekki verið ráðstafað af bæjarfélögum og einstaklingum, þar sem hagsmunir munu stangast á við hagsmuni heildarinnar hins vegar
Hinsvegar þegar ákvarðanir hafa verið teknar um nýtingu hinna ýmsu auðlinda þá munu bæjarfélög og byggðir sem búa við viðkomandi auðlindir verða ráðandi framkvæmdarafl sem yrði lyftistöng atvinnulífs í viðkomandi héraði. 
Það er furðulegt að t.d. stækkun álversins í Straumsvík kallaði ekki á landsumræðu og þjóðaratkvæðis, heldur var ákveðin af Hafnfirðingum einum, að vísu var þessari ákvörðun pakkað í ´skipulagsbreytingapakka´ sem er mál Hafnfirðinga en hinsvegar verða allar skipulagsbreytingar sem koma til með að snerta alla þjóðina að vera ákvarðaðar af þjóðinni allri.
Það er furðulegt að álver á Bakka er mál Húsavíkur en ekki mál allrar þjóðarinnar. Það er furðulegt að umræður um Bitruhálsvirkjun skuli ekki vera þjóðhagsmunamál heldur héraða mál. Það er furðulegt að bæjarfélög geti selt vatnið okkar án þess að komi til heildarúttekt á dæminu og lagt undir þjóðina alla.
Það er undarlegt að við þurfum Láru Hönnu til þess að setja upp hættuflöggin á slysaslóðinni sem við farið hefur verið í stað þess að leiðtogar landsins merki örugga leið til verndar og uppbyggingar heilbrigðs þjóðarhags.
Það er furðulegt að þeir liðsmenn sem bjóða sig fram til þjónustu við landið sitt skuli nú ekki ganga fram sem einn og mynda heilsteypta, heilbrigða, verndandi en uppbyggjandi atvinnu stefnu fyrir landið allt.  Flokkar virðast vera eins og íþróttalið, fólk fer í lið á unga aldri og stendur með því þar til yfir líkur í blíðu sem stríðu, án tillits til þjóðarhags.
Á meðan við munum búa við þetta ´íþróttaliðs´´flokka kerfi er ekki von um breytingar og við munum fylgja slysaferlinum í stað þess að varða leiðina til þjóðarfarsældar.

Gerður Pálma, 29.3.2009 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband