Opið bréf til alþingismanna

Þið eruð kosin af okkur, þið eruð fulltrúar okkar, þjónar fólksins í landinu, almennings. Gleymið því aldrei. Eins og sagt er á engilsaxnesku: "We can make you or brake you". Okkar er valdið, það hefur sannast með eftirminnilegum hætti. Við tökum aftur í taumana ef þörf krefur, hafið það á hreinu. Íslenskur almenningur er vaknaður af gróðærisrotinu eins og þið hafið orðið harkalega vör við, sum hver. Hlustið á okkur.

Það er sorglegt að verða vitni að tuðinu í ykkur í þingsalnum. Grátbroslegt að heyra fulltrúa þeirra flokka sem komu Íslandi á vonarvöl gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir rangar áherslur. Hrikalegt að heyra duldar hótanir um málþóf í málum sem skipta þjóðina öllu máli því það hentar ekki þeim hagsmunaöflum sem þið þjónið - því þjóðinni þjónið þið ekki, svo mikið er víst. LÍÚ er ekki þjóðin.

Skömmu fyrir jól, þann 21. desember, skrifaði ég eftirfarandi pistil og birti greinar og myndband sem skipta miklu máli. Ég beini máli mínu nú til allra þingmanna á Alþingi Íslendinga. Sem vinnuveitandi ykkar og launagreiðandi ætlast ég til að þið hlustið og takið mark á því sem hér kemur fram. Hlustið á rödd skynseminnar innra með ykkur, hlustið á sannfæringu ykkar, hlustið á vilja þjóðarinnar. Ef íslenska þjóðin hefur einhvern tíma þarfnast samstöðu alþingismanna - þvert á alla flokkapólitík - og skynsamlegrar ákvarðanatöku þá er það núna. Vinnið fyrir þjóðina, ekki flokkinn eða hagsmunaöfl sem eru ennþá föst í græðgisvæðingunni og sérhagsmunapotinu. Slítið ykkur laus frá flokksræðinu og hugið að þingræðinu - valdi hins almenna þingmanns sem kjörinn er af þjóðinni.

Hér er pistillinn frá 21. desember - Til hvers er Alþingi? - Lesið hann og greinarnar, horfið á myndbandið, takið afstöðu með íslensku þjóðinni og hugið að vilja hennar. Til þess eruð þið á Alþingi - að fara að vilja þjóðarinnar. Ekki til að þjóna Flokknum eða þröngum sérhagsmunum. Gleymið því aldrei.

_____________________________________

Frábær grein birtist í Fréttablaðinu í dag. Hún er eftir Njörð P. Njarðvík og er mjög sönn frá upphafi til enda. Þingræðið á Íslandi er fótum troðið, þingmenn eru eins og puntudúkkur sem segja það sem Flokkurinn leyfir, þegja um það sem Flokkurinn vill þagga niður og greiða atkvæði eins og þeim er fyrirskipað. Ákvæði 48. greinar stjórnarskrárinnar um að þingmenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína er hunsað algjörlega. Enda þingsætið í húfi, eða hvað? Þingmenn skirrast ekki við að svíkja bæði eigin sannfæringu og kjósendur sína til að halda þingsætinu í von um að fenni yfir orð, gjörðir og aðgerðaleysi. Þeir beygja sig undir ofurvald flokksforystunnar því aldrei má spyrjast að ólíkar skoðanir um hin ýmsu mál eigi heima undir kúrekahatti flokkanna þótt það sé í hæsta máta eðlilegt.

Til hvers er Alþingi - Njörður P. Njarðvík - Fréttablaðið 21. desember 2008

Hér er svo grein eftir Sverri Jakobsson sem birtist í Fréttablaðinu 29. febrúar sl. og fjallar um sama efni. Takið eftir tölunum sem Sverrir nefnir um að árið 2007 hafi ríflega 90% af samþykktum lögum á Alþingi verið úr smiðju ríkisstjórnar. Þingmannafrumvörp og ályktanir fara beint ofan í skúffu og eiga sér enga lífsvon - frumvörp frá fólkinu sem beinlínis er kosið til þess að semja og setja lög. Hverslags víðáttuvitleysa er þetta eiginlega?

Paradís framkvæmdavaldsins - Sverrir Jakobsson - Fréttablaðið 29. febrúar 2008

Hér er svo samanklippt svolítil umræða um einmitt þetta mál í Silfri Egils 9. mars og fréttum RÚV 10. september sl. Takið eftir tölunum sem Katrín nefnir. Sláandi. Þessu verður að breyta! Er það ekki á valdi þingmanna sjálfra með því að hafna flokksræðinu og ofríki framkvæmdavaldsins og fylgja sannfæringu sinni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Heyr, heyr, Lára Hanna.  Ég hefði ekki getað orðað þetta betur sjálfur.  alþingismenn eru í störfum fyrir þjóðina!  Ekki einhverja fámenna, fjársterka lobbýista!  Það er engin furða að virðing landsmanna fyrir alþingi er með lægstu lægðum þessa dagana.  (Og svo kvarta alþingismenn sumir hverjir undan því að njóta ekki virðingar... Halló!  Vakniði alþingismenn!)

(Ég neita að skrifa alþingi með stórum staf, meðan alþingismenn hegða sér eins og þeir eru að hegða sér....)

Einar Indriðason, 27.5.2009 kl. 08:37

2 identicon

Mig langar að fá að taka undir áskorun þinna til þingmanna og hvet sem flesta að gera það.  Vonandi slæst met í athugasemdum hér í dag.

ASE (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 09:11

3 identicon

Eg veit um einn sem sannarlega heldur á lofti hagsmunum almennings:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090525T162543&horfa=1

Rómverji (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 09:13

4 identicon

Takk fyrir þetta Lára.

Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að vandamál stjórnsýslu á Íslandi tengist þaulsetu embættismanna fremur en undirlægjuhætti kosinna fulltrúa við flokkslínur. Það virðist vera alveg sama hversu gott og frambærilegt fólk kemur inn á Alþingi, flest leitar í sama farið að lokum. Ég vitna hér í blogg Þórs Saari,

"Nýja vinnan er smám saman að lærast.  Föstudagurinn þegar almennt eru ekki haldnir þingfundir fór í ríflega fimm tíma fund í Efnahags- og skattanefnd þar sem verið var að ræða frumvarp fjármálaráðherra um eignaumsýslufélag ríkisins sem á að sjá um að ráða fram úr þeim vanda sem skapast þegar ríkið er orðið eigandi að fjölda fyrirtækja gegnum eign sína á bönkunum.

Um tuttugu manns komu fyrir nefndina og gáfu álit sitt á frumvarpinu, menn og konur úr bankageiranum, stjórnsýslunni, hagsmunasamtökum og einstaklingar með sérþekkingu á viðfangsefninu.  Ekki var að heyra á þeim að hér hefði orðið algert efnahagshrun og að stjórnsýslan sem í hlut átti hafði brugðist heldur vildu flestir halda áfram á sömu braut eins og ekkert hefði í skorist og efuðust ekki mínútu um eigið ágæti og hæfileika til að koma málunum í lag aftur. Þeir einu sem virtust með fæturnar á jörðinni voru forstjóri FME, fulltrúi Seðlabankans og svo Mats Josefsson og annar einstaklingur sem var þar á eigin vegum."

Sagt hefur verið að fjársterkir þrýstihópar "eigni" sér flokksstarf og margt bendir til að svo hafi verið í einhverjum tilvikum samber óvæntar uppljóstranir um risastyrki til flokka og einstaklinga fyrir lagabreytinguna 2006, mál sem ætti nú að vera að mestu úr sögunni. Persónukjör og breytingar á kosningalöggjöf eiga að vera einhver bót á kerfinu en mjög margt bendir til að útkoman verði í algjöru skötulíki. Það er nefnilega svo að hefðir og "ósiðir" erfast á milli ríkisstjórna jafnvel þó nýir flokkar taki við völdum. Ástæður þess að við ríkisstjórnarskipti í mörgum helstu lýðræðisríkjum heims er öllum lykilstarfsmönnum skipt út er einmitt sú að tryggja að nýir vendir sópi best. 

Eftir stendur þetta: við stjórnarskipti þurfa að koma inn nýir embættismenn í allar helstu stofnanir, takmarka þarf ráðherrasetu við hámark 8 ár, þingmanna við 12 ár. Það kerfi sem líklegast er til að skila betri stjórnsýslu er að breyta hlutverki forseta lýðveldisins. Forsetinn verði framkvæmdarvaldið (sitji hámark 8 ár) og velji með sér ráðherra og embættismenn. Skipun ráðherra og embættismanna þurfi samþykki meirihluta Alþingis.

Ég held að fólk sé farið að átta sig á að núverandi stjórnskipun og fyrirkomulag kosninga er gallað. Mannaskipti breyta nánast engu á Íslandi, ólgan mun á endanum leiða til valdatöku án hefðbundinna kosninga ef ekkert er að gert.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 09:21

5 identicon

Lara Hanna.

Kaerar thakkir, thetta er frabaert hja ther, eins og alltaf.

Bestu kvedjur

Islendingur (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 09:32

6 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Ég styð þetta.

Margrét Sigurðardóttir, 27.5.2009 kl. 11:10

7 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég er með þér!

Hvernig væri að halda friðsama samkomu fyrir utan Alþingi á næstunni? Samkomu sem  krefðist samstöðu inni á þingi jafnt sem utan þess?

Heiða B. Heiðars, 27.5.2009 kl. 11:15

8 identicon

Þetta er svo satt. Styð þetta algjörlega. Svo þurfum við bara að sameina landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið í aðgerðum og samstöðu. Við erum ein þjóð og ættum að haga okkur sem slík.

Ásta Hafberg (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 11:23

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er svo sammála þér í því að það er grátbroslegt að hlusta á fulltrúa þeirra flokka sem settu land og þjóð á höfuðið gagnrýna núverandi ríkisstjórn. Gagnrýni þeirra er ákaflega hjáróma þar sem hún snýst gjarnan um að verja hagsmuni einkavinanna eða setja út á það sama og þeir gerðu sig seka um sjálfir.

Skrifa undir þá ósk að þingmenn sameinist um að vinna fyrir þjóðina!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.5.2009 kl. 12:02

10 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Tek undir með þér.

Rut Sumarliðadóttir, 27.5.2009 kl. 12:31

11 identicon

break

Doddi D (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 12:38

12 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Alþingismenn lesa ekkert nema það komi frá "flokknum" þau lesa ekki bréf í blöðum frá þjóðinni þau eru með fastann stefnuvita sem stýrir þeim í hringi annaðhvort til vinstri eða hægri.

Góða skemmtun í kvöld Lára Hanna.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 27.5.2009 kl. 13:52

13 identicon

Í kvöld kl. 22:20 er á dagskrá sjónvarpsins þáttur eða mynd sem heitir:  Einkavæðingin og afleiðing hennar. Ég tek fram að ég veit ekkert um þessa mynd, en sá grunur læðist að mér að þarna sé ekki verið að lofsyngja einkavæðingu. Ég held að það væri hægt að beina verri tilmælum til alþingismanna en þeim að benda þeim á að horfa á þennan þátt. Hér á landi hefur (að mínu mati) verið gengið of langt í að einkavæða grunnþjónustu sem ríkisvaldið á að veita þjóðinni og tryggja jafnan aðgang allra þegna sinna að.  Einkavæðing þarf ekki að vera slæm, þar sem hún á við, það er grunnþjónustan sem allir þurfa á að halda s.s. heilsugæsla, menntun, samgöngur, orkan og vatnið, sem má alls ekki verða svo bundið hagnaðarsjónarmiðum að fólk hafi ekki efni á að nota þetta.

Dagný (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 15:06

14 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Okkar menn taka þetta, Högni. Góða skemmtun, sömuleiðis. 

Takk fyrir ábendinguna, Dagný.

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.5.2009 kl. 15:34

15 identicon

ég held að hlutfall samþykktra laga sem Sverrir Jakobsson vitnar til að samþykkt voru 2007 segji allt sem segja þarf.

zappa (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 16:18

16 identicon

Í Sovétríkjunum fyrir falla kommúnitans var það ekki kommúnistaflokkurinn sem hafði völdin heldur var það fámenn og þröng klíka innsta hrings sem öllu réði. Utanum sig höfðu þeir girðingu embættismanna. Þessi klíka sinnti fyrst og fremst hagsmunum þeirra sem þeir voru í góðu vinfengi við í það sinnið, enda hrundu molar af borðum. Hinn almenni þingmaður þjónaði klíkunni og gerði það vel í von um að komast inní hringinn.

En þetta er að sjálfsögðu bara útúrdúr.

Það hafa jú verið til hagsmunahópar í sögu okkar lýðveldis. SÍS, LÍÚ og á síðustu árum fjármálastofnanir/viðskiptaráð. Skyldu þessir hópar hafa haft áhrif á lagasetningar? Jafnvel lagasetningar sem ganga gegn hagsmunum almennings? Hvers vegna hefur lögjafarvaldið í raun verið fært til fámenns hóps ráða- og embættismanna? Auðveldar það lífið fyrir hagsmunaaðila? Og þá er ég kominn að upphafi þessa ágæta pistils þíns sem ég vona að viðkomandi aðilar lesi og hugleiði, ...hvers þjónar eru alþingismenn??

Góða skemmtun í kvöld. Megi það lið vinna sem skorar fleiri mörk!

sigurvin (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband