Fjárfestar og einkavæðing

Ég ætlaði að birta pistil með myndböndum um einkavæðingu og vitna í pistil sem ég skrifaði í júlí í fyrra. Ákvað svo að endurbirta hann allan sem eins konar formála. VARÚÐ - mjög langan formála en nauðsynlegan þeim sem síðar kemur. Hann er frá 21. júlí 2008. Í athugasemdum er líka vísað í áhugaverða pistla eftir aðra.

Ég geri lítið af því að rifja upp eldri pistla mína og gullfiskaminnið veldur því að þá sjaldan ég geri það kem ég sjálfri mér á óvart. Í minningunni skrifaði ég mest um náttúruvernd - aðallega Bitruvirkjun og olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - fyrir efnahagshrunið - en svo kemur í ljós við nánari skoðun að ég var á kafi í skrifum um pólitík, peninga- og gróðahyggju og slíkum ósóma, auk þess að búa til og birta ýmiss konar myndbönd. Ef lesendur síðunnar hafa áhuga á eldri skrifum eru þau listuð eftir mánuðum vinstra megin á síðunni undir fyrirsögninni eldri færslur. En hér er pistillinn Fjárfestar og einkavæðing frá 21. júlí í fyrra. Hann er framhald af tveimur pistlum þar á undan eins og sjá má.

_________________________________________

Þessi pistill er svar við athugasemd við þann síðasta og fjallar að mestu leyti um fjárfesta, einkavæðingu og íslenska pólitík. Þeir sem hafa áhuga á að skilja þennan pistil verða að lesa athugasemd nr. 12 sem Sigurður Þorsteinsson skrifaði við síðasta pistil minn. Vonandi hef ég gert ágætri athugasemd hans sæmileg skil með þessum pistli.

________________________________________

Sigurður... mér finnst þú snúa svolítið út úr orðum mínum á þinn vingjarnlega, kurteisa og ljúfa hátt. Það má vel vera að pistlarnir mínir um náttúruvernd séu betri en aðrir (NB - náttúruvernd, ekki umhverfisvernd - þar er munur á). En ég hef skoðanir á fleiri málum og þegar peningahyggjan er beinlínis farin að hafa áhrif á náttúruna og verndun hennar get ég ekki orða bundist.

Liður 1:  Til að byrja með vil ég taka fram, að eins og ég segi í upphafsorðunum er þetta skrifað í framhaldi af myndbandinu sem ég birti í síðasta pistli og vísar því beinlínis í slíka og þvílíka fjárfesta. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um venjulegt fólk sem fjárfestir í innanstokksmunum, húsnæði eða menntun sinni og barnanna sinna. Ég er heldur ekki að tala um þennan venjulega Pétur og Pál og Jónínu og Guðrúnu sem fjárfesta hluta af sparifé sínu í hlutabréfum í hinum og þessum fyrirtækjum. Jafnvel ekki þá sem slá lán og veðsetja húsnæði sitt til að spila með á hlutabréfamarkaðnum. Þetta fólk er vitanlega að hugsa um að græða nokkrar krónur á fjárfestingunni, en hefur engin áhrif á stjórn fyrirtækisins og fylgist jafnvel ekkert með öðru en því, hvort hlutabréfin séu að lækka eða hækka í verði. Hefur ekki hugmynd um hvernig fyrirtækinu er stjórnað, hvaða laun það greiðir eða hvaða hlutverki það gegnir í víðara samhengi - jafnvel pólitísku.

Ég er að tala um stóru fjárfestana, þessa sem höndla með milljarða á milljarða ofan og svífast einskis. Fjárfesta, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, sem líta á almenning í landinu - svosem hvaða landi sem er - sem algjört aukaatriði, bara ef þeir geta grætt. Lastu athugasemdirnar við síðasta pistil sem ég benti á? Þar sem sagt var t.d. frá SMS skeyti frá auðmanni til stjórnmálamanns. Ég er að tala um þannig fjárfesta.

Ég hef aldrei unnið við fjármál eða hlutabréf eða neitt þvíumlíkt og hef lýst því yfir í pistlum hér á blogginu mínu að ég hafi enga sérþekkingu á slíkum málum - nema síður sé. Ég er því vissulega áhugamanneskja eins og þú segir. En ég er hluti af þessum almenningi sem horfir í forundran á hina ríku verða ríkari án þess að botna upp né niður í hvernig þetta sé hægt.  Ég horfi á þessi mál sem fullkomlega óinnvígð að öllu leyti en furða mig gjarnan á því hve fárra spurninga er spurt, einkum af fjölmiðlum sem um þessi mál fjalla. Hvernig gat þetta til dæmis gerst sem lýst er í myndbandinu í pistlinum hér á undan? Og hver á hvað í hvaða fyrirtæki eða Group eða hvað sem þessir strákar kjósa að kalla ungana sína?

Endur fyrir löngu kom út bók - mig minnir að hún hafi einfaldlega heitið Kolkrabbinn - þar sem farið var ofan í saumana á tengslaneti einstaklinga og fyrirtækja. Mér sýnist vera góður jarðvegur fyrir aðra slíka til að skýra eignarhald og brask með allt milli himins og jarðar.

Staðreyndin er nefnilega sú að þessir stórtæku "fjárfestar" eru gjarnan að spila með líf og afkomu almennings. Fyrirtæki sem við þurfum öll að skipta við að einu eða öðru leyti og ef þeir klúðra málunum erum það við sem borgum brúsann. Dæmi um það eru t.d. flugfélögin og matvöruverslanirnar. Þeir tapa eða gleypa of mikið sjálfir - það fer beint út í verðlagið sem almenningur er að sligast undan. Hver á Iceland Express? Síðast þegar ég vissi voru að mestu leyti sömu eigendur að IE og Icelandair. Mér gæti skjátlast því ég hendi ekki reiður á hver á hvað hverju sinni. Ég þurfti að fara tvisvar til Englands í vor og sumar með stuttu millibili og ég gat ekki séð neinn verðmun á fargjöldum þessara tveggja flugfélaga. Eiga ekki sömu menn Hagkaup, Bónus og 10-11 og svo aftur sömu menn Nóatún og Krónuna? Þetta eru tveir stærstu aðilarnir á matvörumarkaðnum á svæði þar sem 60-70% landsmanna búa. Og matur er lífsnauðsyn, ekki lúxus, þannig að allir þurfa að skipta við eitthvert þessara fyrirtækja.

Liður 2: Ég hef ekkert á móti samkeppni nema síður sé - þar sem hún á við og ef hún er raunveruleg og marktæk. Við erum svo lítið land með svo fáum íbúum að samkeppni getur ekki þrifist á öllum sviðum. Fyrirtækin bera sig einfaldlega ekki. Í einkavæðingarferli Íslendinga hafa verið gerð svo mörg og svo stór mistök að það hálfa væri nóg. Ég held að í því sambandi nægi að nefna bankana og grunnnet Símans. Nú er svo hægt og rólega verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna sem að mínu mati eru mikil mistök og síðast í gær komu fréttir um "útboð" á þjónustu a.m.k. hluta af Strætó. Ég efast stórlega um að það stuðli að lækkun fargjalda, tíðari ferðum, betra leiðakerfi og því sem þarf til að fá fólk til að nota almenningssamgöngur frekar en einkabílinn. Og ég þekki engan sem kannast við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum, sem er að stærstum hluta einkavætt, sem getur hugsað sér að breyta því góða kerfi sem foreldrar okkar, afar, ömmur, langafar og langömmur börðust fyrir að koma á - þar sem allir hlutu ódýra og góða heilbrigðisþjónustu án tillits til stéttar, stöðu eða efnahags. Engan.

Tilhneigingin í einkavæðingu á Íslandi hefur verið sú, að upp spretta mörg fyrirtæki í sömu greininni þegar allt er gefið frjálst, en fljótlega kemur í ljós að reksturinn borgar sig ekki, markaðurinn er of lítill, og smátt og smátt - stundum mjög hratt samt - gleypir sá fjársterki (eða sá með bestu pólitísku samböndin eða besta aðganginn að lánsfé í bönkum) alla þá litlu og eftir stendur eitt, kannski tvö fyrirtæki (Samkeppnisstofnun gerir athugasemd), jafnvel að hluta til í eigu sömu manna. Verð er samræmt, samkomulag gert um verðlagningu og allir eru ánægðir - nema ég og þú sem þurfum að borga brúsann.

Við Íslendingar eigum miklar og verðmætar auðlindir - t.d. fiskinn í sjónum og orkuna í fallvötnum og jarðhita. Búið er að einkavæða fiskinn í sjónum. Það var gert með kvótakerfinu þar sem einstaklingum var gefinn fiskveiðikvóti sem gengur nú kaupum og sölum eins og hver önnur hlutabréf.  Afleiðing þeirrar einkavæðingar eru öllum kunn. Kvótaeigendur gáfu fögur loforð um um að halda kvótanum í byggð en sviku þau öll og skildu eftir sig sviðna jörð - byggðarlög um allt land hafa nánast lagst í eyði og atvinnusköpun og -uppbygging verið fátækleg. Afleiðing þess er sú að verið er að stúta gjörsamlega ómetanlegri náttúru Íslands til að virkja fossa og jarðhita - til að afla orku fyrir mengandi stóriðju. Álver og kannski olíuhreinsistöð. Þetta hangir nefnilega allt saman. Einkavæðing - virkjun - stóriðja - fjárfestar - gróði - peningahyggja.

Nú blasir við að einkaaðilar ásælist orkuauðlindirnar okkar sem verða æ verðmætari eftir því sem orkuskorturinn eykst í heiminum. Stjórnvöld virðast ætla að nánast gefa þessa auðlind erlendum auðhringum í formi orku til álvera í stað þess að hinkra og sjá til hvernig veröldin þróast. Það á að gera okkur fjárhagslega háð öflum sem gæti ekki verið meira sama um land og þjóð - á meðan þeir sjálfir hagnast. Er nokkur furða að maður mótmæli? Það er verið að arðræna íslensku þjóðina - aftur. Ég get ekki setið þegjandi undir því.

Þú segir í athugasemd þinni: "Það hættulegasta í pólitískri umræðu, er að pólitíkin er of lítið fagleg og of mikið lík trúarbrögðum. Fólk étur allt of mikið upp vitleysuna eftir hvort annað til þess að þjóna flokkspólitískum hagsmunum, í stað þess að nálgast viðfangsefnið á faglegan hátt."

Ég er ekki í neinum flokki, þjóna engum flokkspólitískum hagsmunum, enginn stjórnmálaflokkur er áskrifandi að atkvæði mínu og ég hvorki tala né skrifa með flokkspólitík í huga. Ég veg og met orð og gjörðir út frá minni eigin almennu skynsemi og því sem ég sé, skynja og finn. Flokkapólitík er mér ekki að skapi og alls ekki hreppapólitíkin, sjálfhverfan innan kjördæmanna og atkvæðaveiðarnar. Ég vil að fólk - bæði kjósendur og stjórnmálamenn, fari að hugsa um heildina - ekki bara sérhagsmuni hvers landshluta fyrir sig, svo ekki sé minnst á sérhagsmuni einstakra frambjóðenda, þingmanna eða ráðherra. Ég fyrirlít slíka pólitík en því miður er hún það sem gildir á Íslandi.

Ég vil líka að dustað verði rykið af hugmynd Vilmundar heitins Gylfasonar frá 1983 um persónukosningar þvert á flokka og lista. Það gæti orðið landinu til mikillar blessunar ef sú hugmynd yrði útfærð af sanngirni og skynsemi.

Þetta er langt svar við athugasemd þinni, Sigurður. En nú sem endranær er mér mikið niðri fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að ég er lítil... agnarsmá raunar... Ég á enga peninga, hef engin völd. En sem betur fer bý ég í þjóðfélagi þar sem ég má segja skoðun mína. Hvort ég verð látin gjalda þess á einhvern hátt verður tíminn að leiða í ljós. Annað eins hefur gerst í þessu "frjálsa lýðræðisríki".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Godann daginn Lara Hanna.

Kaerar thakkir fyrir langt og gott blogg. Bloggin thin les eg a hverjum degi og er thar hafsjor af upplysingum um astandid

sem nu er a Islandi. Eg veit ad thetta er gridarlega mikil vinna sem thu leggur i thetta.

Svo eg segi aftur, kaerar thakkir fyrir alla thina miklu og godu vinnu.

Bestu kvedjur.

Islendingur (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 09:29

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hlakka til að sjá framhaldið en þetta er frábær formáli! Man að ég las hann í haust en held að ég hafi ekki áttað mig á því þá að þú skrifaðir hann 21. júlí í fyrra. Spurning hvort þú sést ekki orðin magnaðri og nákvæmari í framtíðarspánum en völva Vikunnar!

Svo sagði sá sem þú varst að svara með þessari færslu: „þú ert hér að fara inn á svið sem áhugamanneskja og niðurstöðurnar eru í samræmi við það.“ Eftir lestur þessarar færslu hefði hann aldeilis átt að sjá það í hendi sér að þú ert a.m.k. engin venjuleg „áhugamanneskja“ en í stað þess að sjá að sér og þegja svarar hann þessum í mörgum orðum. M.a. með því að halda því fram að „vinur sé sá sem til vamms segir“.

Kannski hefur blessaður maðurinn séð að sér núna þegar hann sér að þú vissir betur en flestir aðrir hvað var raunverulega á seiði en þeir sem hann í sinni blindu hélt að væri hægt að treysta af því hann áleit þá sérfræðinga en þig bara „áhugamanneskju“. Hvernig það er hægt að misbeita tungumálinu í þágu valds

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.6.2009 kl. 12:04

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þegar við leikmenn tölum um galla kvótakerfisins horfum við á tvennt aðallega. 1. Kvótakerfið hefur ekki getað haldið stofnstærð þorsks við landið viðunandi stöðugu. Við stöndum frammi fyrir yfirvofandi hruni veiðstofnsins skv nýjustu rannsóknum. 2. Við sjáum fyrir okkur að færanlegir kvótar á milli byggðarlaga hafa einungis fært veiðréttinn á stærri og færri skip útgerða sem að mestu eru gerðar út frá stærri byggðarlögunum í nafni hagræðingar. Þessi hagræðing hefur ekki skilað sér sem skildi í sjálfbærum veiðistofni sem er aðalatriðið. Síðan lendir á ríkinu að fjármagna "atvinnubótavinnu" fyrir þau byggðalög sem vilja enn halda saman af gömlum vana. Það er nú öll hagræðingin séð frá leikmanninum.

Þegar nú þarf að gera upp kvótakerfið virðist blasa við að stórskipaútgerðin er blindgata, "hagræðing" til of skamms tíma litið og á endanum mun þessi útgerð ekki hafa fisk í soðið miðað við veiðigetu og þá mun allt verða að færast aftur í gömlu smábátaútgerðina á meðan og ef fiskistofnarnir ná að hjarna við. Sorglegt. Samt er þetta dæmi um "fjárfestana" sem í raun bara fjárfesta til að mergsjúga höfuðstólinn og fara svo með fjármunina í aðrar "fjárfestingar" í von um stundargróða. Í þessum bransa er ekkert skapandi á ferðinni og berhann því dauðann í sér. Engin háskólagráða í viðskiptum reddar þessu.

Gísli Ingvarsson, 1.6.2009 kl. 15:26

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og ljúfar kveðjur......:O)

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 2.6.2009 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband