Exista, Síminn og Skipti

Gunnar TómassonÉg sé ástæðu til að vekja athygli á athugasemd sem Gunnar Tómasson, hagfræðingur í Bandaríkjunum, skrifaði við síðustu færslu mína. Prjóna svo fleiru aftan við. Leturbreytingar og tenglar eru frá mér komnir.  Þetta skrifar Gunnar:

Sæl Lára Hanna.

Þann 21. apríl sl. sendi ég ábendingu um hugsanleg lagabrot til Páls Hreinssonar, formanns Rannsóknarnefndar Alþingis - sjá hér að neðan. Málið tengist Exista.

Kv. Gunnar

******************
Sæll Páll.

I.
Í eftirfarandi samantekt minni frá því í marz 2008 eru leidd rök að því að yfirtökutilboð Exista í allt hlutafé Skipta...

   1. braut sett skilyrði við einkavæðingu Símans;
   2. skapaði eldri eigendum Exista nokkurra milljarða skaða;
   3. ofmat að sama skapi verðmæti Skipta í bókhaldi Exista; sem
   4. jafngilti margföldu bókhaldsbroti af því tagi sem Jón Ásgeir var sakfelldur fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. maí 2007.

II.
Þann 21. marz 2008 sendi ég eftirfarandi tölvupóst til viðskiptaráðherra:

Sæll Björgvin.

Ég tek mér það bessaleyfi að senda þér hér með umsögn mína um yfirtökutilboð Exista í allt hlutafé Skipta.
Umsögnin er innlegg mitt á viðskiptaþræði málefnin.com.

Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson

III.
Þann 6. apríl 2008 sendi ég eftirfarandi tölvupóst til Umboðsmanns Alþingis:

Hæstvirtur Umboðsmaður Alþingis.
Með hliðsjón af ákvæðum 5. gr. laga nr. 85/1997 leyfi ég mér að senda yður til athugunar í viðhengi lauslega samantekt varðandi embættisfærslu ráðherra í sambandi við nýafstaðin viðskipti í hlutabréfum Skipta.

Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson
[kennitala]

IV.
Viðskiptaráðherra og Umboðsmaður Alþingis létu tölvupóstum mínum ósvarað.

Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson

************

Yfirtökutilboð Exista í allt hlutafé Skipta - brýtur sett skilyrði við einkavæðingu Símans. Exista

1. Í greinargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu dags. 4. apríl 2005 um fyrirkomulag sölu á hluta ríkisins í Landsíma Íslands hf. (sjá hér að neðan) segir m.a. að "Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta verður háð eftirfarandi skilyrðum", þ.m.t. þessu:

"að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni slíkri sölu."

2. Viðskipti | mbl.is | 19.3.2008 | 10:48

Exista vill yfirtaka Skipti
Stjórn Exista ákvað á fundi sínum í morgun að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Skipta, móðurfélag Símans. Tilboð Exista hljóðar upp á 6,64 krónur á hlut sem er sama verð og í nýafstöðnu hlutafjárútboði Skipta. Greitt verður með nýjum hlutum í Exista sem verða verðlagðir í samræmi við lokagengi á OMX í gær sem var 10,1 króna á hlut.

Fyrirhugað er að tilboðið standi í átta vikur. Verði gengið að tilboðinu mun Exista leggja til við stjórn Skipta að óskað verði eftir afskráningu félagsins eins fljótt og auðið er.

Stefnt að skráningu á ný síðar.

Í tilkynningu til kauphallar OMX er kemur fram að ástæða tilboðs Exista er sú að félagið telur ekki vera grundvöll fyrir eðlilega verðmyndun með hlutabréf Skipta á markaði í ljósi niðurstöðu nýafstaðins hlutafjárútboðs og þeirra óvenjulega erfiðu markaðsaðstæðna sem nú ríkja.

Vegna samþjappaðs eignarhalds og markaðsaðstæðna eru verulegar líkur á því að félagið og hluthafar þess muni ekki njóta þeirra kosta sem fylgja skráningu í kauphöll. Stefnt er að því að kanna skráningu félagsins á ný þegar aukið jafnvægi verður komið á fjármálamörkuðum.

Skipti„Það er mat Exista að tilboðsverðið, 6,64 krónur á hlut, endurspegli á sanngjarnan hátt núverandi raunvirði Skipta í samanburði við önnur fjarskiptafyrirtæki á markaði og nýlegar yfirtökur á sambærilegum fyrirtækjum.

Exista og dótturfélög þess eiga þegar 43,68% hlutafjár í Skiptum og gerir Exista tilboð í alla útistandandi hluti félagsins. Verði tilboðið samþykkt mun stjórn Exista nýta heimild í samþykktum félagsins til útgáfu allt að 2.846.026.330 nýrra hluta í Exista. Hlutafé Exista mun því að hámarki aukast úr 11.361.092.458 hlutum í allt að 14.207.118.788 hluti og eigið fé félagsins mun aukast um allt að 28,7 milljarða króna," samkvæmt tilkynningu.

Tilboðið er háð skilyrði um samþykki samkeppnisyfirvalda að því marki sem það kann að vera áskilið lögum samkvæmt.

Skipti voru skráð í Kauphöll OMX á Íslandi í dag í kjölfar hlutafjárútboðs.

Útboðið og skráning félagsins á hlutabréfamarkað var í samræmi við ákvæði kaupsamnings sem upphaflega var gerður við sölu ríkisins á 98,8% hlut í Landssíma Íslands hf. árið 2005.

Í útboðinu, sem stóð frá 10. til 13. mars 2008, var almenningi og öðrum fjárfestum boðið að kaupa 30% hlutafjár félagsins. Einungis seldust um 7,5% hlutafjár í félaginu.

3. Skilyrði um sölu 30% hlutabréfa til almennings og annarra fjárfesta var án fyrirvara um hugsanlegt söluverð:

Fyrirkomulag sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur að undanförnu unnið að undirbúningi við sölu á hlutabréfum í Landssíma Íslands (Símanum) í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin og ráðherranefnd um einkavæðingu hafa markað.

Ákveðið hefur verið að selja eftirstandandi hlut ríkisins (98,8%) í einu lagi Framkvæmdanefnd um einkavæðingueinum hóp kjölfestufjárfesta. Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta verður háð eftirfarandi skilyrðum:
- að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, eignist stærri hlut í Símanum, eða í félagi sem stofnað er til kaupa á hlut í ríkisins í Símanum, en 45%, beint eða óbeint, fram að skráningu félagsins á Aðallista í Kauphöll.
- að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni slíkri sölu.
- að Síminn verði skráður á Aðallista Kauphallar hér á landi að uppfylltum skilyrðum Kauphallarinnar samhliða sölu til almennings og annarra fjárfesta, og innlausnarrétti verði ekki beitt gagnvart núverandi hluthöfum í Símanum (1,2%) fram að skráningu félagsins á Aðallista Kauphallar.
- að kjölfestufjárfestir fari ekki með eignaraðild, beina eða óbeina, í fyrirtækjum í samkeppni við Símann hér á landi.

Allir áhugasamir aðilar, sem hafa til þess getu, nægjanlega reynslu og fjárhagslegan styrk til að ljúka kaupum, koma til greina sem kaupendur. Upplýsingar um gang söluferlisins verða gefnar út með reglulegu millibili, en eðli máls samkvæmt verða ákveðnar upplýsingar varðandi söluferlið bundnar trúnaði, sem og til að viðhalda forsendum til samkeppni.

Stefnt er að því að ljúka söluferlinu í júlí n.k. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu áskilur sér rétt til þess að hafna öllum tilboðum. Ráðherranefnd um einkavæðingu tekur ákvörðun um við hvaða aðila verður samið, að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Við mat á tilboðum verður meðal annars horft til verðs, fjárhagslegs styrks og lýsingar á fjármögnun, reynslu af rekstri fyrirtækja, hugmynda og framtíðarsýn varðandi rekstur Símans, starfsmenn fyrirtækisins og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin, og annarra viðeigandi þátta.

Ráðgjafar- og fjármálafyrirtækið Morgan Stanley í Lundúnum er framkvæmdanefnd um einkavæðingu til ráðgjafar við undirbúning sölu.

Reykjavík, 4. apríl 2005
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu

4. Í markaðshagkerfi eins og því íslenzka ræðst raunvirði hlutabréfa af aðstæðum á hlutabréfamarkaði hverju sinni. Verð sem mætir ekki væntingum samningsaðila réttlætir því ekki að skilyrði um sölu bréfa til kjölfestufjárfesta séu sniðgengin.
5. Þann [3. maí 2007] var Jón Ásgeir Jóhannesson sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir "meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum viPeningarð aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna."
6. Undirtekt
ir almennings og annarra fjárfesta við útboðið á 30% hlutafjár Skipta jafngilda ótvíræðri staðfestingu á því að útboðsgengið 6,64 krónur á hlut var verulega umfram raunverulegt markaðsvirði.
7. Ef yfirtökutilboð Exista á öllum útistandandi hlutum í Skiptum á genginu 6,64 gengur eftir, þá mun útgáfa 2.846.026.330 nýrra hluta í Exista skapa eigendum þeirra 11.361.092.458 hluta sem fyrir eru tjón að upphæð mismuninum á 6,64 krónum og raunverulegu markaðsvirði x 2.846.026.330 - e.t.v. tjón upp á nokkra milljarða króna.
8. Eftir yfirtökuna myndi verðmæti Skipta í bókhaldi Exista vera ofmetið að sama skapi.
9. Meint bókhaldsbrot Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fólst í því að hafa "látið færa til eignar (........) í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf., sem lækkuð vörukaup, kr. 61.915.000 á grundvelli rangs og tilhæfulauss kreditreiknings (afsláttarreiknings) frá Nordica Inc., Miami í Flórída í Bandaríkjunum, dagsetts 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngilti kr. 61.915.000 á færsludegi."
10. Hliðstætt bókhaldsbrot virðist blasa við ef yfirtökutilboð Exista á öllum útistandandi hlutum í Skiptum gengur eftir.

 *************************

Svo mörg voru orð Gunnars. Ekki get ég hrakið þau. Einhver...? Hér má sjá sitthvað um einkavæðingu Símans, bankanna og fleiri ríkisfyrirtækja á vef Forsætisráðuneytisins.

Þessu tengt - í október skrifaði Agnar Kr. Þorsteinsson bloggpistil þar sem hann sagði farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við Exista. Agnar sagði frá grein sem hann hafði skrifað og birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2008. Hér er hún. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Hýenur hlutabréfamarkaðarins - Mbl. 4. júlí 2008

Strax daginn eftir, 5. júlí, birtist lítil svargrein frá framkvæmdastjóra samskiptasviðs Existu - og hann fékk rammagrein, hvorki meira né minna. Það fær ekki hver sem er.

Um tilboð í hlutabréf Skipta - Mbl. 5. júlí 2008

Í desember tóku Bakkabræður yfir Exista eins og mbl.is greinir frá hér. Í apríl fengu svo hluthafar Exista yfirtökutilboð þar sem þeim voru boðnir 2 aurar - 0,02 krónur - fyrir hlut sinn í Exista. Um þetta skrifar Agnar aftur fínan bloggpistil 19. apríl.

Að lokum er hér ítarlegur fréttauki af Eyjunni eftir Sigrúnu Davíðsdóttur með fyrirsögninni Hversu lengi lifir Exista? Þessi mál eru öll með þvílíkum ólíkindum að það hálfa væri nóg. 

Fréttaauki Eyjunnar 2. júní 2009 - Hversu lengi lifir Exista?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Vann á Landssímanum frá 1987 til 1996 og veit að Lífeyrir þessara kvenna sem ég vann með voru skertir verulega og algerlega ef ekki hefði verið Ögmundur Jónasson.  Sjálfstæðismenn sökuðu hann á þeim tíma um að vera "kommúnisti" að vilja bjarga lífeyri þessarra kvenna á Landssímanum! 

Þær lögðu dag við nótt í marga áratugi til að skapa "tengingu" á milli landshluta! Þetta var "hugsjón" og allt þetta gjöfula starf gleymdist á degi "einkavæðingar"!

ps: Vil enn minna á að 1990 þá voru öll símtöl til útlanda miklu ódýrari en 2009?

Vil einnig minna á að 1991 voru 3 mánaða símgjöld 1.500 kr (á þáverandi gengi) en inn í því voru 40 símtöl innanlands og ókeypis innan svæðis...talandi um nútíma "uppbyggingu ódýrara kerfis"???

PPS: Landssíminn var einnig rekinn með gróða, þrátt fyrir ódýra þjónustu! Núna eru "Síminn" og "Tal" og "Vodafone" og "Nova" og kannski fleiri að græða og græða og græða???

PPPS: Hvers vegna var svona flott fyrirtæki í plús og landsmönnum öllum til hagnaðar,...selt????

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.6.2009 kl. 21:27

2 identicon

Og svo langar mig til þess að vita hvar sá lagabókstafur er skráður í lög um einkavæðingu að kóngarnir skulu hirða gróðan en almenningur bera tapið. Getur einhver bent mér á það??

Annars... frábær grein. Ég á bara varla til orð.. betri en hjá nokkrum blaðamanni.. Og varpar ansi miklu ljósi á þetta skuggalega ferli.

Björg F (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 21:41

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Dýrmætar upplýsingar frá Gunnari Tómassyni, sem renna stoðum undir þann (ó)sýnilega varnarher, sem berst á hæl og hnakka við að tefja, svæfa og þæfa málin þar til þau fyrnast, eða einhver aðkomandi máls, gerir sig (van)hæfan með því að tjá hug sinn.

Þurfum að taka Dani til fyrirmyndar, ráða þá jafnvel.  Bagger stakk af 2.desember með tugi milljarða, eftirlýstur út um allan heim, gaf sig fram, þar sem hann gat hvergi höfði hallað, dæmdur í dag rúmum 6 mánuðum síðar í 7 ára fangelsi, og spúsan þarf að skila öllu Dubai glingrinu.

Hér, ganga allir lausir, frjálsir og ennþá með derring!

Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.6.2009 kl. 21:45

4 identicon

Einmitt, kallinn dæmdur í 7 ára fangelsi í dag!! Hvað gerist á Íslandi!? Ég bíð spenntur ...

Kári (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 22:04

5 identicon

Lára.

Enn og aftur, mikilvæg vinna, allt skráð á spjöld Internet sögunnar. Ekkert tínist, öll vefsetur eru vistuð til lagframa á http://www.archive.org/index.php . 

Verður gullkista sagnaritara í framtíðinni.

Ekki spillir að fjöldinn er farinn að skoða síðuna þína í leit að upplýsingum.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 22:06

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Tek undir öll hrósin þér til handa og einnig er ég mjög svo sammála kreppukarli hér á undan.....Hvar eru rannsóknarfréttamenn þessa lands?

Sigrún Jónsdóttir, 13.6.2009 kl. 00:28

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er algjörlega sammála henni Sigrúnu Jónsdóttur.  Takk fyrir alla vinnuna sem þú hefur lagt í bloggið frá því að hrunið varð í haust. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.6.2009 kl. 01:05

8 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Þú ert frábær.. getum við ekki takið símann til baka ?

Vilhjálmur Árnason, 13.6.2009 kl. 01:08

9 identicon

Sallafínt hjá ykkur Agnari og Gunnari og þér!

Rómverji (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 01:19

10 identicon

Tek undir með öðrum hér, þakkir fyrir allar þessar upplýsingar !

Já, fjölmiðlafólk er það ekki bara eins og hinir sem tóku þátt, endurskoðendur , lögfræðingar, viðskiptafræðingar og hagfræðingar ?  

Allir að ljúga að okkur ! 

Er ekki bara best að við höldum áfram að nota netið til upplýsingaöflunar ?

JR (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 01:27

11 Smámynd: Elfur Logadóttir

Afsakið, en hvar eru tengslin við Pál Hreinsson?

Er ég að missa af einhverju augljósu hérna?

Elfur Logadóttir, 13.6.2009 kl. 01:28

12 Smámynd: Elfur Logadóttir

nevermind, klukkan er bara orðin of margt fyrir gömul og þreytt augu. Ég mislas fyrstu setningu - sem olli "smá" misskilningi í kolli mínum.

Elfur Logadóttir, 13.6.2009 kl. 01:30

13 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

ég þoli ekki orðið að lesa svona.................það er allt svo rotið.

Þú ert okkur ansi dýrmæt Lára Hanna.

30BEDA55-B2D0-6370-817A-081F7BF5D664
1.02.28

Hólmdís Hjartardóttir, 13.6.2009 kl. 01:55

14 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Vil benda á að Lífeyrissjóðirnir töpuðu gríðarlegum upphæðum á þessum viðskiptagjörningi.

Þá sérstaklega lífeyrissjóður verslunarmanna sem var einkaveski Bakkavararbræðra og Kaupþingselítunnar.

Ragnar Þór Ingólfsson, 13.6.2009 kl. 12:54

15 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Annars frábær samantekt hjá þér Lára Hanna.

Ragnar Þór Ingólfsson, 13.6.2009 kl. 12:55

16 identicon

Ég sendi eftirfarandi tölvupóst til Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur eftir að hlusta á viðtal hennar við Ríkissaksóknara á mbl.is í gær:

Eins og fram kemur í upphafsinnleggi mínu á eftirfarandi bloggi Láru Hönnu fékk formaður Rannsóknarnefndar Alþingis vísbendingu frá mér sl. apríl um hugsanlegt milljarða bókhaldsbrot Exista-manna sem formlega séð er nákvæmlega hliðstætt því sem kostaði Jón Ásgeir þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og útilokun frá öllum stjórnarstöðum í íslenzku viðskiptalífi.

[Slóð á blogg LH]

Ég þekki ekkert til Exista-manna og annarra viðskipta þeirra, en málsatvik í umræddu tilfelli hafa legið ljós fyrir almenningi og embætti Ríkissaksóknara frá upphafi.

Af dómi Hæstaréttar í Baugsmálinu má ráða að sonur Ríkissaksóknara braut lög í málinu þannig að varðar fangelsisdómi með meiru.

En Ríkissaksóknari kaus að láta embættisskyldu víkja fyrir öðrum sjónarmiðum.

Í vikunni var greint frá "mistökum" embættis hans í máli tengdu syni Ríkissaksóknara.

Það skiptir öllu fyrir samfélagið að gengið sé beint og hreint til verks á komandi tíð.

Valtýr Sigurðsson hefur a.m.k. tvívegis látið slíkt undir höfuð leggjast.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 17:35

17 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

okeiii...

Takk fyrir þetta. Þarf að melta þetta aðeins.

Ásgeir Rúnar Helgason, 13.6.2009 kl. 20:26

18 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Takk fyrir þetta Lára Hanna, og þakka þér líka kærlega fyrir Gunnar Tómasson.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 14.6.2009 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband