Forréttindastéttin og fávitarnir

Mikill er máttur peninga og valds, tengslanetsins og klíkunnar. Sigurjónsmál hin nýjustu eru sambland af ótrúlegri forherðingu, ósvífni og ósannindum. Miðað við fréttaflutning fjölmiðla í gærkvöldi mætti ætla að Sigurjón Þ. Árnason hefði átt einkalífeyrissjóð með a.m.k. 70 milljóna króna innistæðu. Leitað var álits hjá lögmanni Sigurjóns og lögmanni Landsbankans, sem væntanlega er félagi og fyrrverandi samstarfsmaður Sigurjóns. Ekki var leitað til óháðra lögmanna úti í bæ. Ætli það hefði nú ekki þjónað sannleikanum betur. Hér eru fréttir kvöldsins um málið.

Svo kom lögmaður Sigurjóns, Sigurður G. Guðjónsson, í Kastljós og talaði enn um einkalífeyrissjóð Sigurjóns. Dásamlegt.

Ég sinnti erindum fyrir son minn í gær. Hann er í námi erlendis. Ég sótti fyrir hann skattkort og fór með það í bankann. Hann þarf nefnilega að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn til að geta lifað. Strákurinn átti um 500.000 krónur í séreignarsparnaði. Ekki há upphæð, en hann er líka ungur. Bankamenn og útrásardólgar sáu til þess að um 322.000 krónur af sparnaðinum töpuðust í hruninu. Hann fær heilar 178.000 íslenskar krónur í sinn hlut. Hann hefur ekki efni á að koma heim og fær enga vinnu. Ég hef ekki efni á að heimsækja hann þegar hann útskrifast. Mér varð hugsað til Sigurjóns og 70 milljónanna hans - og sonar hans, Icesave. Tapaðist ekkert af sparnaði Sigurjóns? Ferðast hann enn á Saga-Class um heiminn og lætur okkur borga reikninginn? Litla 650 milljarða+. Maður spyr sig...

Ég fékk fróðleg bréf í gær frá manni... köllum hann bara Kristján, sem ofbýður umfjöllunin um "einkalífeyrissjóð" Sigurjóns Þ. Árnasonar og ég ætla að birta einn og segja frá því sem ég fann sjálf.

Samningsform um lífeyrissparnað - horfin vefsíða LandsbankansFyrst sagði Kristján mér frá þessu. Síðan er ekki lengur opinberlega á netinu en ekkert hverfur þaðan alveg. Þarna sjáum við þrjár leiðir til lífeyrissparnaðar, þar á meðal Fjárvörslureikninga. Samkvæmt nýjustu upplýsingum um þá reikninga eru sjóðfélagar í "einkalífeyrissjóði" Sigurjóns 2.514 í janúar 2009 (sjá fylgiskjal neðst í færslu). Lán Sigurjóns er hjá Fjárvörslureikningi III. Á síðunni sem vísað er í er skjal merkt: 3) Samningur um Fjárvörslureikninga Landsbankans-Landsbréfa (sjá líka fylgiskjal neðst í færslu). Skoðum það.

Í samningnum kemur fram að Fjárvörslureikningur III fjárfestir eingöngu í FORTUNA III, alþjóðlegum verðbréfasjóði Landsbréfa (Landsbankans). Fortuna III-sjóðurinn er svokallaður sjóðasjóður, þ.e. sjóður sem fjárfestir aðeins í öðrum sjóðum.

En hvað er þessi Fortuna-sjóður og hvar er hann til húsa? Maður gúglar smá og viti menn - Fortuna-sjóðurinn er með lögheimili á Guernsey. Guernsey er ein af Ermarsundseyjunum, heyrir undir Breta og er skattaskúmaskot á borð við Sviss, Lúxemborg og Bresku Jómfrúreyjar (Tortóla).

Mín takmarkaða þekking á peningum og fjármálum og sáraeinföld rökleiðsla segir mér þetta: Sigurjón Þ. Árnason > Fjárvörslureikningur III > Fortuna III > Guernsey > Skattaskúmaskot dauðans. Einkalífeyrissjóður, hvað?

Fortuna-sjóðurinn og Guernsey er ekkert nýtt. Það er þó nokkuð síðan bankarnir fóru að bjóða t.d. kvótakóngum og öðrum sem höfðu fé milli fingra, vel eða illa fengið, að fela fyrir þá peninga fyrir skattinum. Munið þið eftir þessu, sögunni hans Ara Matt í Silfrinu? Ég fann grein úr Morgunblaðinu frá 6. janúar árið 2000 - fyrir einkavæðingu bankanna - þar sem Landsbankamenn tala fjálglega um "aflandsþjónustu". Það þýðir á mannamáli leiðir til að svíkja undan skatti. Ég fann líka þingsályktunartillögu þriggja þingmanna frá 126. löggjafarþingi 2000-2001 um afnám skattleysissvæða. Um að koma í veg fyrir að fjármagnseigendur og fyrirtæki geti komið sér hjá því að greiða til samfélagsins. Framsaga Ögmundar Jónassonar er hér. Ég leitaði ekki uppi örlög tillögunnar en giska á að hún hafi sofnað í nefnd eða verið stungið ofan í skúffu.

En nóg um hugleiðingar mínar og aftur að bréfum Kristjáns. Ég get ekki státað mig af því að skilja alveg allt sem hann segir, en líklega flest, býst ég við. Gefum Kristjáni orðið:

******************************

Þeir (RÚV) halda áfram að kalla þetta "einkaséreignarsjóð" - það er hugtak Skuldabréf - Landsbanki - Granaskjólsem búið var til af Landsbankanum til að afvegleiða fólk. "Það var einkaséreignarsjóður Sigurjóns í Landsbankanum sem keypti tvö skuldabréf af Sigurjóni" segir á ruv.is - þetta er haft beint upp úr fréttatilkynningu Landsbankans. Þetta orðalag nota bæði bankinn og Sigurður G. að einhverju leyti til þess að gefa inneign Sigurjóns þá ásýnd að hún sé annars eðlis en inneignir allra annarra Íslendinga sem eiga peninga í hinum ýmsu séreignarlífeyrissjóðum.

Þótt menn gefi þessu nöfn á borð við 'einka'séreignarsjóður, er þetta hefðbundinn séreignarlífeyrissparnaður í lífeyrissjóði sem er í vörslu Landsbankans. Sigurjón er einn af sjóðsfélögunum og hans inneign í sjóðnum er ekkert meira 'einka' heldur en hver önnur inneign í séreignarlífeyrissjóðum á Íslandi.

Sjóðsfélagar fá að velja um 'tegund fjárvörslureiknings' sem fjárfest skal í (I, II eða III), en hafi sjóðurinn fjárfest í veðskuldabréfum tryggðum í fasteignum gengur það klárlega gegn skilmálum sjóðsins, sem samþykktir eru af fjármálaráðuneytinu. Hvað þá ef hann fjárfesti í veðskuldabréfum einstakra sjóðsfélaga og með tilliti til inneignar í sjóðnum. Á síðunni sem ég sendi þér fyrr í dag er tengill á annan séreignarsjóð, Íslenska lífeyrissjóðinn, sem einnig býður upp á þrjár leiðir (I, II, III). (Innsk. - sjá viðhengi neðst í færslu). Hann hefur heimild til að kaupa veðskuldabréf, skv. skilmálum. Skilmálar séreignarlífeyrissjóðs verða að vera samþykktir af fjármálaráðuneytinu og ekki voru neinir sérskilmálar fyrir Sigurjón samþykktir þar - enda hefði það ekki verið löglegt.

Hagnaður eða tap af kaupunum á skuldabréfum Sigurjóns koma enda niður á öllum sjóðsfélögum í Fjárvörslureikningi III (eða koma þeim til góða, verði ávöxtun næstu 20 ár undir 3,5%) - ekki eingöngu hluta Sigurjóns. Sjóðurinn fjárfestir fyrir alla í Fjárvörslureikningi III með sama hætti og allir í þeirri leið fá sömu ávöxtun - ávöxtunin er ekki einstaklingsbundin. Hugmyndir um slíkt eru út úr kortinu!

Skuldabréf - Landsbanki - BjarnarstígurEf þetta væri heimilt líkt og Sigurður G. heldur fram, væri það aldrei tengt við inneign hvers sjóðsfélaga, heldur væri það hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins að kaupa veðskuldabréf einstaklinga eða lögaðila, tryggð með veði í fasteignum. Það væri ekki bundið við einstaklinga sem ættu háar fjárhæðir hjá sjóðnum, heldur í boði fyrir fyrir annað hvort alla sjóðsfélaga eða allan almenning. Líkt og hefðbundin lífeyrissjóðslán.

Sigurður G. sagði í Kastljósi í kvöld að sjóðsfélagar í sjóðnum sem lánaði Sigurjóni hefðu "fullt forræði yfir" eign sinni í sjóðnum. Þetta er ósatt, þeir hafa einungis val um fjárvörslureikning líkt og segir í skilmálum sjóðsins. Það eru engir aðrir skilmálar sem hafa verið samþykktir fyrir þennan sjóð, með þessa kennitölu, af stjórnvöldum. Sigurður bætti síðan við: "Sigurjón á þennan sjóð" - en hann á ekki meira í sínum sjóð en ég á í mínum 600 þ.kr. sjóð. Og hvorki ég né Sigurjón getum ráðstafað okkar hluta - kerfið er ekki þannig upp sett, heldur skal sjóðsstjórn "móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum [*] tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Stjórn lífeyrissjóðs er heimilt að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja deild í deildaskiptum sjóði. " (lög um starfsemi lífeyrissjóða)
[*] eitthvað segir mér að betri kjör hafi verið í boði á markaði með skuldabréf tryggðum með veði í fasteign.

Mergur málsins er auðvitað að þetta er úttekt, en ekki bara lán. Lífeyrissjóðurinn yrði að bjóða öllum öðrum (a.m.k. öllum sjóðsfélögunum) samskonar lán og lánakjör, ef hann ætlaði að komast upp með þetta. En það er auðvitað ekki heimilt skv. skilmálum sjóðsins - sjóðurinn fjárfestir eingöngu erlendis. Þetta held ég að Sigurði hefði vel mátt vera ljóst þegar hann samdi gerninginn.

Þegar Helgi Seljan spurði í viðtalinu: "Þarf hann ekki að borga skatt af Fjárvörslureikningur Landsbankans 31. maí 2009
þessu?", svaraði Sigurður: "Nei, hann er að taka lán". Þetta er einnig ósatt, komist Sigurjón á einhvern hátt upp með þessa lántöku (líkt og Kaupþingsfólkið virðist vera að komast upp með niðurfellingu persónuábyrgða), mun verða litið á mismun á vaxtakjörunum á láninu og almennum vöxtum á markaði, sem tekjur. En það er annað mál.

Hannes J. Hafstein, lögfræðingur hjá Landsbankanum virðist hafa lagt blessun sína yfir gjörninginn í tölvupósti, dags. 10 des. 2008. Endurritað efni tölvupóstarins er hjálagt. Ég þekki örlítið til Hannesar og einungis af góðu. Í tölvupóstinum kemur fram mjög framsækin lagatúlkun og helst er að sjá af niðurlagi tölvupóstsins að það hafi verið pantað. Ég hef reyndar prófað það á eigin skinni að Sigurður G. getur verið mjög ágengur og þrautseigur, og hef ég séð hann sannfæra fólk á ótrúlega hæfileikaríkan hátt.

Ég bið þig að afsaka kverúlantastílinn á þessum tölvupósti, ég á bara ekki orð yfir gjörðum þessara manna og andvaraleysi fjölmiðla. Aðeins einn fjölmiðill hefur leitað álits utanaðkomandi sérfræðinga, það var Vísir sem spurði formann Landssambands lífeyrissjóða. Af hverju í ósköpunum fær ekki einhver fjölmiðill óhlutdrægan lögfræðing eða lögmann til að skoða þetta mál?

Hér kemur bréfið sem birtist í kvöldfréttunum, með nokkrum innskotum (leturbr. mínar):

--- Endurritað eftir myndskoti í kvöldfréttum sjónvarps, 15. júní 2009.---

From:               Hannes J. Hafstein
Sent:                10. desember 2008  14:47
To:                   Friðrik Nikulásson
Subject:           Einkaséreignarsjóður

Sæll.

Ég er búinn að skoða þetta mál þar sem lagt er til að sjóðurinn kaupi skuldabréf útgefið af sjóðsfélaga en til tryggingar eru fasteignir.

Um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða á þeim séreignarsparnaði sem þeim er falin ávöxtun fer eftir 28. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og þeim samningi sem gerður er við viðkomandi sjóðsfélaga. Ekki er þó heimilt að víkja frá lagaákvæðum um fjárfestingarstefnu. [*]

Þau skuldabréf sem hér eru til skoðunar falla undir 3. tl. 1. mgr. 36. gr. laganna en þar kemur fram að lífeyrissjóði sé m.a. heimilt að ávaxta fé í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 75% af metnu markaðsvirði. Ég geri ráð fyrir að skuldabréfin falli undir þessi skilyrði varðandi veðhlutfall.

Önnur ákvæði varðandi fjárfestingarheimildirnar koma einnig til skoðunar í þessu sambandi. Sérstaklega 5. mgr. 36. gr. þar sem fram kemur að samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum útgefnum af sama aðila skuli ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins.

Í þessu sambandi verður að líta á eign hvers viðskiptavinar í einka-séreignarsjóðum sem sjálfstæðan sjóð í skilningi laganna. [**] Þannig verða fjárfestingar fyrir hvern viðskiptavin að uppfylla skilyrði 36. gr. laga 129/1997.

Með vísan til ofangreinds er niðurstaðan sú að kaup á umræddum skuldabréfum séu heimil að því gefnu að fjárfestingar fyrir viðkomandi viðskiptavin í heild uppfylli skilyrði 36. gr. laga nr. 129/1997. [***]

Kveðja,
Hannes

--------------------------
[*] Það athugist að lögin setja lágmarksviðmið um í hverju sjóðum er heimilt að fjárfesta og að hvaða marki. Síðan er í ákvæðinu gert ráð fyrir að skilmálar (samþykktir af fjármálaráðuneyti sbr. 9. gr. laganna) í samningi milli vörsluaðila og sjóðsfélaga afmarki fjárfestingarheimildir. Fjárfestingarheimildir sjóðsins, leiðum I, II og II sem eru í boði, eru alveg skýrar og þær heimila ekki kaup á skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign.

Vogarskálar réttlætis[**] Þetta er lögfræðileg rökleysa. Til að byrja með er um að ræða hefðbundinn séreignarsjóð, hann er ekkert meira ‘einka' heldur en hver annar séreignarsjóður. En fyrst og fremst er út í hött að líta megi á hvern sjóð sem ‘sjálfstæðan sjóð í skilningi laganna'. Þetta hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum, formaður Landssambands lífeyrissjóða leiðrétti þennan misskilning. Maður er aðili í séreignarsjóði, það eru ekki til séreignarsjóðir í einkaeigu, með sérstakri sjóðsstjórn og vörsluaðila, sérstökum skilmálum og samþykktum. Og væru þeir til, þá er ekki um það að ræða í tilviki þessa viðskiptavinar.

[***] Með þessu er lögfræðingurinn að segja að, þar sem inneign hvers félaga sé sjálfstæður sjóður (sem reyndar er bull), megi bréf útgefin af einum aðila aldrei fara yfir 10% af nettó inneign. M.ö.o., þessi kaup séu heimil ef bréfin sem útgefin eru af Sigurjóni nema ekki meira en 10% af hreinni eign Sigurjóns sjálfs. Hann verður því að hafa átt a.m.k. 700 milljónir samtals í sínum persónulega séreignarsparnaði, til þess að þetta gæti talist heimilt að mati lögfræðingsins.

Ofan á allt annað, finnst mér kostulegt ef maðurinn er er búinn að læsa 700 m.kr. í séreignarsjóði, en getur ekki losað 70 m.kr. öðruvísi en með því að taka veð út á húsin sín. Það er ágætis bobbi.

*********************************

Sagði Kristján. Forréttindastéttin lítur greinilega á almenning sem fávita - og kemur fram við hann sem slíkan. Ég mótmæli!

Mig langar að skjóta því hér inn að Hannes þessi J. Hafstein, lögmaður Skjól gegn skatti - Forsíða Tíundar júní 2009 - lítillega breyttLandsbankans sem sagði gjörning Sigurjóns löglegan, er einn innsti koppur í búri Intrum Justitia - innheimtufyrirtækisins sem innheimtir gjaldfallnar skuldir heimilanna, að sögn af hörku, og stórgræðir á því. Einn eigenda Intrum Justitia er Landsbankinn - nú ríkisbanki undir meintri stjórn ríkisstjórnar Íslands.

Sigurvin, sem skrifar oft athugasemdir við bloggpistlana mína, kom með þessa við síðasta pistil: "Einu sinni var náungi sem dró sér fé úr sjóði. Vinirnir í sjóðstjórninni uppgötvuðu fjárdráttinn. "Úps, hann gæti lent í fangelsi, við verðum að gera eitthvað". Og þá var útbúið skuldabréf, veðin voru kannski ekki uppá marga fiska en málinu var samt bjargað - bókhaldið stemmdi.

Þetta er að sjálfsögðu óskylt mál en það er margt skrítið við lánveitingu þessa sjóðs til þessa fyrrverandi bankastjóra, eiginlega eins og þetta hafi verið e.k. "eftiráredding".

Hvers vegna er vísitala september notuð (síðasti mánuður gamla bankans) en ekki nóvember, þegar bréfið er gefið út? Hvernig getur 'einka'sjóður haft sömu kennitölu og almennur sjóður bankans og samt gilt mismunandi lög um þessa "tvo" sjóði. Eru einhver lög til um 'einka'séreignasjóði?

En við getum verið alveg róleg, þetta verður örugglega rannsakað ofan í kjölinn og engin ástæða til að ætla að hér sé eitthvað óhreint á ferð, þetta er jú NÝI bankinn... Kannski sömu einstaklingarnir... en...??

**********************************

Heiða B. Heiðars var handtekin í gær fyrir að setjast á götuna fyrir framan Alþingishúsið og neita að standa upp í mótmælum gegn Icesave-samningnum. Sigurjón Þ. Árnason, höfundur Icesave og fleiri gjörninga, og hans líkar ganga lausir. Hvort þeirra ætli hafi framið stærri glæp gegn íslensku þjóðinni, Heiða eða Sigurjón?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Ekki miklu við þessa greinargóðu lýsingu að bæta Lára Hanna.

Velti því fyrir mér hversu lengi á að reyna "manninn" og þá meina ég okkur, venjulegt fólk sem er gjörsamlega að springa yfir þessu gengdarlausa rugli sem viðgengst í voluðum, gerspilltum heimi þessara gullæta.

Þetta er gargandi rugl, og farið nú að hunskast til að gera eitthvað í málunum, stofnanafólk, rannsakendur og lögregla.

Eftir hverju er verið að bíða?   Að verstu spár rætist?  100.000 menn konur og börn yfirgefi eyjuna?

Jenný Stefanía Jensdóttir, 16.6.2009 kl. 03:53

2 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Það er rosalegur óþefur af fjölmiðlum núorðið og rökin hans Sigurðar í þessu viðtali eru mjög undarleg. Reyndar talaði hann Sigurður eins og lögmenn eiga að tala- Hann talaði máli Sigurjóns en hvar voru sjónarmið annarra á þessu sem höfðu fræðilegan skilning. - Nú ert til glás af lögmönnum sem telja íslenska bankahrunið vera mesta svikamillu allra tíma og því ekki annað hægt en að furða sig yfir að þeirra rödd fái ekki að heyrast heldur eingöngu rödd Sigurðar.

Brynjar Jóhannsson, 16.6.2009 kl. 04:42

3 identicon

ÉG mótmæli einnig!!!

Ásta B (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 04:50

4 Smámynd: Þórbergur Torfason

Stöðugt hallar á siðferðisvitundina hjá útrásararmi spilasjúklinganna. Leitt að sjá jafnöflugan lögmann eins og Sigurð G tala máli þessara fáráðlinga. Það er löngu orðið tímabært að einhver öflugur einstaklingur stígi fram og leiði hina raunverulegu gjaldþrota þjóð. Við getum ekki haldið þessum kúrs lengur hann leiðir okkur bara uppí næstu blindsker með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Þórbergur Torfason, 16.6.2009 kl. 07:07

5 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

takk Lára Hanna mín fyrir frábæra samantekt nú sem endranær. Mér finnst svívirðilegt að þessi maður gangi laus - ég krefst þess að hann verði færður í langa og stranga yfirheyrslu - helst í beinni... það er eins og þetta fólk sem rændi okkur frá toppi til táar sé hulið ósýnilegum verndarhjúp - hvað veldur?

Birgitta Jónsdóttir, 16.6.2009 kl. 09:16

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk Lára Hanna.

Ég er svo reið að ég er að kafna.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.6.2009 kl. 09:26

7 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk endalaust fyrir þínar samantektir og til lukku með soninn - leitt að þú komist ekki í útskrift, sem er hvenær?

Ættum við bloggvinir ekki að „styrkja“ konuna til utanfarar?

Ásgeir Kristinn Lárusson, 16.6.2009 kl. 09:30

8 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

jú hvernig væri það nú:) góð hugmynd Ásgeir

Birgitta Jónsdóttir, 16.6.2009 kl. 10:00

9 identicon

Styð síðustu hugmynd #7. Er tilbúinn að setja 5 þúsund í púkkið. Finnst Lára Hanna vera býsna mögnuð og vinnubrögðin fagleg. Ég er hreint ekki alltaf sammála henni en virði hvað hún vinnur athugasemdir sínar á vandlegan máta.

Látið mig vita um reikningsnúmer og kennitölu og þá kemur hitt í kjölfarið.

Annars held ég að flestir sem hér rita og tjá þakkir sínar láti þar við sitja. Tala fjálglega en tími ekki að leggja neitt af mörkum - eða hvað?

Sú vinna sem Lára Hanna hefur sett í þessar samantektir sínar hefði getað fært henni hundruðir þúsunda í tekjur ef hún hefði verið unnin fyrir einhverja fréttastofu.

Ragnar (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 10:01

10 identicon

.Ég er sorgmædd og reið og  gætið grátið yfir því hvernig að komið er fyrir okkur og hversu vanmáttug við erum gagnvart þessum glæpamönnum.Maður er löngu búin að fá nóg og bíður eftir lokadómi.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 10:09

11 identicon

Langaði bara til að segja takk fyrir frábæra pistla og samantektir!!

Halldor (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 10:49

12 identicon

Takk fyrir pistilinn Lára Hanna. Þú ert sannkölluð Guðsgjöf. Við þyrftum að klóna þig í nokkrum eintökum.

Þetta er auðvitað fáránlegur spuni og lítilsvirðandi að bjóða fólki uppá þennan þvætting. Gera menn ekki ráð fyrir að fólk hafi starfhæfan heila milli eyrnanna?

Landa (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 10:57

13 identicon

Sæl Lára Hanna. Þú bregst ekki á vaktinni fyrir almenning. Mafíu og forréttindahópar hafa enn öll völd í þessu landi. Helstu einkafjölmiðlar eru í eigu mafíósanna og ríkisfjölmiðlanir eru greinilega ekki óháðir. Helgi Seljan hlýtur að sæta hótunum, hann mundi ekki fjalla um málin á þennan hátt ef hann gæti um frjálst höfuð strokið. Fjölmenn mótmæli almennings er það sem til þarf ef takast á að gera útaf við mafíuna.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 11:13

14 identicon

frábær skrif hjá þér, er búin að vera að pósta skrifum þínum á facebook og held því áfram!

Það er alveg ótrúlegt hvað verið er að bjóða okkur uppá með öllu þessu svínaríi en það er svosem búið að vera að gera það í gegnum árin...

evags (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 11:28

15 Smámynd: Aron Ingi Ólason

einu orðin sem ég get komið upp er "djöfulsins bastarðu"

 Ástæðan fyrir því að nær enginn fjölmiðill hefur og vill leita álits annara sérfræðinga er sú að þeir eru algerlega óhæfi. því miður er eini traustvekjandi miðillin á íslandi bloggið þar ber þitt blogg af og þakk ég þér kærlega fyrir allan þann tíma og vinnu sem þú setur í þetta.

Aron Ingi Ólason, 16.6.2009 kl. 11:42

16 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég tek undir athugasemd Ásgeirs og er reiðubúin að leggja mitt í púkkið til þess að Lára Hanna geti farið. Hún hefur verið ötull varðhundur upplýsinga hér á vefnum, hefur unnið ómældar stundir í rannsóknarvinnu án endurgjalds og ég vil þess vegna taka þátt í að gera henni kleift að fara þessa ferð.

Elfur Logadóttir, 16.6.2009 kl. 11:55

17 identicon

Hversu langt verðum við að bíða þar til einhver fær alveg gersamlega nóg og fer og tekur lögin í sínar hendur... varla mikið lengur

DoctorE (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 12:08

18 Smámynd: AK-72

Langar til að benda á eitt varðandi viðtalið við Sigurð G. í gær. Hann ætlaði að taka vörn um að birting skjalsins væri hefnd vegna þess að hann hefði veirð að ráðast á Evu Joly og reyna að höfða til samúðarkenndar, helst með tárvot augun yfir þeirri vonsku að undirstéttin skuli ekki taka tillit til þarfa herrastéttarinnar sem hann tilheyrir. Það var bara iett vandamál við þessa "hefnd nafnleysingja" eins og hann kallaði það, að fyrir það fyrsta birtist skjalið hjá nafngreindum aðila og í annan stað, birtist það nokkrum klukkustundum fyrir biritngu Pressu-pistilsins.

AK-72, 16.6.2009 kl. 12:27

19 identicon

Segi eins og gamla konan:  Helv. læti er mannskapnum. Þeir hætta ekki fyrr en þeir drepa einhvern.   þessi setning varð til í upphafi síðari heimstyrjaldar.

Er nokkuð langt í það?

J.þ.A (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 12:31

20 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir athugasemdir og ég bið alla sem þetta lesa að láta upplýsingarnar ganga, hvort sem það er slóð á þennan pistil, viðhengin í tölvupósti eða hvernig sem er. Það verður að vekja athygli á þessu máli og ekki síst skattalegum hliðum þess sem ég fæ upplýsingar um fljótlega.

En í öllum bænum látið ekki blankheit okkar mæðgina skyggja á aðalatriði pistilsins. Þeim var bara stillt upp sem andstæðu  við ofrausn Sigurjóns við sjálfan sig og til að sýna fram á að ekki sitja allir við sama borð. En það vissum við nú reyndar þótt það geri þetta mál ekkert betra. Í mínum huga er það nú enginn heimsendir að geta ekki farið til útlanda í einhver ár og sonurinn útskrifast vonandi samkvæmt áætlun í haust. Ég fer í mitt frí norður á Strandir og svo á Norðurlandið og hlakka mikið til.

Hvað sem hruni og kreppu líður er Ísland alltaf jafn undurfallegt. Það er gaman að ferðast um það, njóta náttúrunnar og hitta vini, kunningja og ættingja.

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.6.2009 kl. 14:38

21 identicon

Ein hugleiðing varðandi þetta mál. Mér sýnist þetta vera einhver sú sniðugasta leið til þess að koma eignum undan gjaldþroti sem völ er á. Pælið í því að þarna er búið að setja veðið að húsnæði Sigurjóns í lífeyrissjóð, sjóð sem ekki er hægt að ganga í út af gjaldþroti. Þannig að ef hann færi á hausinn, þá ætti hann húsnæðið sitt áfram, því að það væri ekki hægt að ganga að því!

Þetta er reyndar kannski soldið langsótt skýring, en engu að síðir möguleg nálgun sem hefur ekki verið talað um.

EJ (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 14:49

22 identicon

Sæl, Lára Hanna, oft hef ég verið hugsi eftir að lesa pistlana þína, en í þetta sinn er ég hálfrugluð. Ég þarf að lesa hann aftur og svo aftur til að skilja þetta til fulls.

Tvennt sem mig langar þó að vekja athygli á.

Afritið af skuldabréfinu hans Sigurjóns til hans Sigurjóns lak á netið. Ég get bara reynt að ímynda mér hvaðan. Ég gagnrýni ekki þann sem fékk upp í kok og lét málið leka - ég er viðkomandi óendanlega þakklát.

Hitt sem ég velti fyrir mér er hvort ríflega 2.000 sjóðsfélagar í "einka"-lífeyrissjóði Sigurjóns eigi ekki að höfða mál gegn annaðhvort Sigurjóni eða Sigurjóni fyrir að misnota þeirra sameiginlega "einka"-lífeyrissjóð?

Allra síðast, takk fyrir pistilinn. Hann er eitt það magnaðasta sem ég hef lengi lesið.

Mig langar svo að vita hvort fréttamenn á launum skammist sín ekki þegar þeir sjá fréttakonuna launalausu Láru Hönna að verki?

Helga (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 14:55

23 identicon

Takk fyrir þessa samntekt og síðast enn ekki síst þínar hugrenningar ... ég þarf að lesa þetta aftur þá sérstaklega alla linkana sem þú setur með. Þetta er bara toppurinn á ísjakanum eins og flest okkar grunar,og líka Evu Joly.

 Já þessa daganna fær maður dass af blóðbragði í munninn og gnístir tönnum enn það dugar víst ekki, önnur bylting ?

 Hverju skilar það svo sem ? Jú önnur stjórn tekur við, hvað svo ? Sama spilling við þekkjum þetta orðið.

Hvað á fólk að gera til að réttlætinu verði fullnægt og síðast enn ekki síst að fá betra lagaumhverfi  fyrir næstu kynslóð/ir  hvernig er hægt að koma fyrir svona glæpsamlegar glufur í kerfinu öllu sem þessi elíta hér á landi hefur hannað af

"tærri snilld" handa sjálfum sér. 

Ég er ansi hrædd um að margir eigi eftir að fara héðan á næstu vikum og mánuðum þegar kreppan fer að bíta, bíta fyrir alvöru, heimurinn er fullur af tækifærum fyrir fólk á góðum aldri því skyldi fólk taka á sig eitthvern þrældóm fyrir fyrir alla vitleysuna í þessu landi. 

Enn og aftur takk fyrir að nenna að vinna vinnu megin þorra blaða og fréttamanna já og það launalaust !

Heiður (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 15:30

24 identicon

Sæl Lára Hanna

 Sendi póst á Landsbankann þar sem ég bað um að fá að stofna svona Einkasparnaðarfínerí sem ég gæti svo lánað sjálfum mér þá lús sem Landsbankinn væri ekki þegar búinn að tapa fyrir mér.  Svarið sem ég fékk var nú á skjön við það sem Kristján heldur fram.  Þannig vill hún Margrét í Fjármálaráðgjöf hjá Landsbankanum halda því fram að vissulega sé til Einkalífeyrissparnaður fyrir forréttindastéttina.  Hérna er svar hennar:

Sæll Einar. Einkalífeyrissparnaður er sérstakt séreignarsparnaðarrform sem er hluti af vöruframboði bankans á sviði eignastýringar og lífeyrisþjónustu. Eigandi séreignarparnaðarins stýrir sínum fjármunum að miklu leyti sjálfur en hefur aðgang að sjóðstjóra hjá bankanum til að framfylgja viðskiptalegum ákvörðunum og daglegum rekstri sparnaðarins.Einkalífeyrissparnaður hefur verið í boði fyrir aðila sem eru í mjög umfangsmiklum viðskiptum með séreignarsparnað eða að lágmarki 50 milljónir.

Svona er það þá.

Einar Finnur Valdimarsson (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 15:36

25 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Takk fyrir samantektina. Þú ættir að prófa að bjóða fjölmiðlafólki upp á námskeið í rannsóknarblaðamennsku. Æi, nei það má vist ekki skrifa svona eins og þú gerir.

Vil svo benda öllum á hvítbók! Þar er verið að safna saman ýmsum fróðleikum þennan stærsta glæp Íslandssögunnar.

Ævar Rafn Kjartansson, 16.6.2009 kl. 16:06

26 identicon

ef Sigujón á þessa EINKAlífeyrissjóði, þá eigum við Sigurjón.

og þá étum við hann bráðum.

Halldór Carlsson (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 16:10

27 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Trúi ekki að þetta haldi lagalega. 

Annars finnst mér margt óljóst ennþá.  Var þetta "einkalífeyrissparnaður" (og þá innan ákveðins sjóðs)  eða "einkalífeyrissjóður" sem maðurinn átti bara sisona einn og sér.

Einnig er óljóst hvernig á hvaða fosendum hægt var að fá svona gott lán útá þetta.

Spurning hvernig málið þróast. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.6.2009 kl. 16:48

28 identicon

"Out of habit we use words like ´corruption' or ´financial impropriety'. I would rather use the word 'impunity', a way of living above the law, because one is stronger than the law." -Eva Joly.

Solveig (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 18:04

29 identicon

Tvær mögulegar niðurstöður í þessu. Ef þetta verður á einhvern undraverðan hátt talið til lögmæts einkasjóðs inni í sjóðnum, eru kaupin á skuldabréfunum ólögleg. Ef inneign mannsins er hluti af stærri sjóðnum, sem er líklegra, er þetta jafnframt ólöglegt.

Þetta er svikamylla í mörgum þrepum, sum þrepin eru að líkindum ólögmæt og ofaná þau eru byggð fleiri þrep sem einnig fela í sér lögbrot.

Nánari skýring:

Ef um er að ræða aðskilinn sjóð inni í Fjárvörslureikningi III (sbr. kennitalan á skuldabréfinu), á nafni umrædds Sigurjóns, sem ber sína eigin vexti og er stjórnað með sérstökum hætti hvað varðar fjárfestingar, af Sigurjóni sjálfum, er það mjög, mjög líklega ólöglegt - það er ekki hægt að reka sjálfstæðan sjóð inni í lífeyrissjóði fyrir einn aðila.

Enda þótt Fjármálaráðgjöf Landsbankans hafi fengið þær upplýsingar að þetta sé hægt fyrir eignamikla aðila og bankinn gefi út fréttatilkynningar þar að lútandi, er þetta jafn ólöglegt fyrir vikið.

Ef þetta hefur verið gert, í trássa við lög, og kallað "sérstakt" séreignarsparnaðarform, boðið einstaklingum sem "hluti af vöruframboði", og einstaklingum leyft að stýra þeim fjármunum sem þeir eiga í hinum stærri sjóði, er líklegt að hugmyndasmiðirnir á bak við það verði látnir sæta ábyrgð. Þessu verður þá hætt, mjög fljótlega, einstaklingar munu ekki fá að ráðskast með sínar inneignir og fela sjóðsstjórum að fjárfesta í hinum og þessum félögum og bréfum núna eftir að þetta er komið upp. Það er ekki heimilt að veita aðilum að lífeyrissjóðum aðgang að sjóðsstjórum, gera þeim kleift að hringja í lífeyrissjóðsstjórann og segja honum hvernig skuli fjárfest með inneignir sínar – segja við hann "losaðu öll bréfin sem ég á í félagi X, strax”, hvað þá “kauptu bréf af mér”.

Ennfremur, hafi þessi ólögmæta framganga vörsluaðila séreignarsjóðsins viðgengist, er líklegt að gjörningar á borð við þessi veðskuldabréf með veði í eignum Sigurjóns feli í sér enn frekari lögbrot. Annars vegar varðandi skilmála lífeyrissjóðssparnaðarins, hins vegar varðandi hlutfall bréfa útgefnum af einum aðila.

1. Samkvæmt skilmálum sjóðsins, nota bene einu skilmálunum sem samþykktir hafa verið af stjórnvöldum fyrir sjóðinn og leiðirnar Fjárvörslureikning I, II og III, fjárfestir sjóðurinn eingöngu í erlendum sjóðum. Eingöngu erlendum sjóðum, engum innlendum bréfum, og alls engum bréfum tryggð með veði í fasteignum!

2. Eins og lögfræðingurinn Hannes bendir á, mega ekki, þegar litið er á inneignarhlut einstaks sjóðsaðila sem einn sjóð, bréf útgefin af einum aðila fara upp fyrir 10% af hreinni eign sjóðsins. Þetta eitt það allra skýrasta í lögunum og kemur fram í tölvupóstinum. Kaupin voru því ólögleg nema Sigurjón hafi á þessum tíma átt 700 milljónir í séreignarlífeyrissparnaði. M.a.s. leigulögfræðingurinn benti á það.

---

Það er hugsanlega tóm þvæla að fabúlera um þessi fylgilögbrot 1 og 2, í ljósi þess að ekki er heimilt að aðgreina einn sjóðsfélaga og stýra fjárfestingum fyrir hans sjóðshlut sérstaklega. Allir í sömu leið innan sjóðsins sem rekinn er undir þessari kennitölu eiga að vera undir sama hatti. Ávöxtun á að vera sameiginleg fyrir alla í viðkomandi ávöxtunarleið, ekki sitt hvor eftir því hvort það er Sigurjón magri eða Sigurjón digri. Hafi annað viðgengist, brýtur það gegn lögum um lífeyrissjóði.

Hver einn og einast aðili í sjóðnum, sem er í Fjárvörslureikningi III, fær reglulega yfirlit yfir ávöxtun leiðarinnar. Ef Sigurjón hefur verið að fá sérstaka ávöxtun á sinn hlut eingöngu, er það einfaldlega ólöglegt og hans ávöxtun verður látin renna inn í heildarsjóðinn. Ef hans ávöxtun er lægri kann hann eða bankinn sem hann stjórnaði að vera skaðabótaskyldur. Það er hreinlega með ólíkindum ef mönnum hefur dottið þessi svikamylla í hug.

Svo ég fari yfir þetta einu sinni enn á einfaldari hátt:

Ég er mjög spenntur að sjá hvort menn reyni að svara fyrir þetta 10% viðmið sem Hannes J. Hafstein nefnir í tölvupóstinum og eins þetta brot á fjárfestingarheimildum sjóðsins, sem kveða mjög skýrt á um kaup á erlendum hlutabréfum. Fjárfestingarheimildirnar koma skýrt fram í samningnum við sjóðsfélaga (skilmálarnir).

Það eru aðeins tveir möguleikar í stöðunni:

(1) lífeyrissjóðurinn leyfði einstökum stórum viðskiptavinum að sýsla sérstaklega með sína sjóðsinneign, og aðskildi hana frá inneignum annarra sjóðsfélaga, þessu er haldið fram hér: http://www.visir.is/article/20090615/FRETTIR01/801278663 - það er ólöglegt og opnar fyrir alls konar misnotkun, lífeyrissjóðir geta ekki verið í einkaeigu og sjóðsfélagar geta aldrei einir síns liðs ákveðið hvernig sjóðurinn fjárfestir. Og ef þetta var gert, með ólöglegum hætti, mátti þessi aðskildi ólögmæti sjóður ekki kaupa bréf Sigurjóns nema 700 m.kr. hafi verið í séreignarsparnaði, sbr. lögfræðingabréfið.

Ef einhverjir sérstakir samningar voru í gangi sem ekki voru samþykktir af stjórnvöldum, varðandi stórar inneignir, kunna allir gjörningar varðandi þær inneignir að hafa verið ólöglegar.

(2) lífeyrissjóðurinn leyfði einstökum stórum viðskiptavinum að skipta sér af fjárfestingarstefnu sjóðsins í eigin þágu, þrátt fyrir að félagar í sjóðnum væru rúmlega 2.500 og ávöxtunin af bréfum Sigurjóns engan vegin viðunandi fyrir sjóðinn í heild. Það koma engar greiðslur af þessu bréfi inn í sjóðinn í 20 ár!

Hér er ekkert farið út í skattahliðina eða hugsanleg vanskil á láninu.

Afsakið hugsanlegar stafsetningarvillur hér að ofan.

Kristján (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 18:58

30 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Vinna ekki svona "greinendur" eins og Kristján hér að ofan hjá skattinum líka?

Skúli virtist ekki geta svarað því klárt og kvitt, að skattalög hafi verið brotin,  en venjulegir skattborgarar (almenningur) er klár á því að þetta er ósvífið undanskot skattgreiðslna, og kallar á nánari rannsókn og sókn í þessa peninga, á aflandseyjum ef verða vill.

"Fáir svona einkasjóðir"! segja talsmenn Landsbankans:  Fáir kannski en FEITIR!

Nær því hvert einasta orð sem Sigurður G hefur látið út úr sér síðan þarna eftir nóttina löngu, er lýgi og hefur verið hrakið heim til föðurhúsa.

Hann viðurkennir t.d. ekki orðatiltækið siðlaus!  Gerir bara ráð fyrir að lög séu siðleg.  Ef lögin eru ekki mötuð oní hann með dropateljara, fyrir öll hugsanleg tilvik sem snillingar eins og Sigurjón geta látið sér detta í hug, þá er það að mati Sigurðar G,  fullkomnlega löglegt!

Stendur ekki steinn yfir steini, og augljóst að menn hafa ekki haft tækifæri til að samræma framburðinn.

Æji æji æji, fer nú ekki brátt að birta til.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 16.6.2009 kl. 19:59

31 identicon

Þakkir fyrir allar þær upplýsingar sem þú geymir og leyfir okkur síðan að njóta með þér !

Eitt sem maður spyr sig eftir að hafa talið sig vera viðskiptavin Landsbankans yfir 50 ár , var þetta þá bara þjófagengi sem rak Landsbankan ?

JR (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 20:29

32 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

.....ég get ekki lesið meira........................

30BEDA55-B2D0-6370-817A-081F7BF5D664
1.02.28

Hólmdís Hjartardóttir, 16.6.2009 kl. 20:58

33 identicon

Landsbankinn var stofnaður árið 1886. Það tók Björgólfsfeðga, Kjartan Gunnarsson, Sigurjón Árnason og aðra óreiðumenn úr Sjálfstæðisflokknum tæp sex ár að keyra bankann í þrot. 

Þeir tóku íslenskt efnahagslíf með sér í fallinu. Lífsafkomu almennings. Orðstír landsins.

Ó, reiðu menn! Sjáið til þess að stjórnvöld sæki þessa óreiðumenn til saka. Stjórnvöld munu ekki gera það ótilneydd. Aðeins almenningur getur lamið þau til þess. 

Sjáumst í kirkjugarðinum! 

Rómverji (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 21:20

34 identicon

"Að sögn Sigurðar var ástæða þess að Sigurjóns gaf út veðskuldabréf upp á sjötíu milljónir króna í nóvember í fyrra einfaldlega sú að hann vantaði laust fé. „Hann var búinn að kaupa sér nýtt hús og var búinn að leggja út fyrir miklum kostnaði í endurbætur á því þegar hann missti vinnuna. Hann fékk engin laun á uppsagnarfresti auk þess sem hann sér móður sinni, systur og stjúpföður farborða og hefur gert lengi,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns." úr frétt í Morgunblaðinu í dag 16.6.

Jæja gott fólk, dustið nú rykið af aumingjagæskunni ;-) hehe...   

Berglind I (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 23:22

35 identicon

Lara Hanna.

Thakka kaerlega oll thin skrif og alla thina vinnu i thessu sambandi.

Eg er innilega sammala athugasemd numer 7,8 og 9 her ad ofan.

Og eg vona ad sem flestir geri meir en ad tala um thad.

Bestu kvedjur

Islendingur (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 00:55

36 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Kæra Lára Hanna! Takk fyrir þennan greinagóða pistil og allar spurningarnar sem þú megnar að setja fram því þær eru nauðsynlegar. Ég spurði mig í gær hver væri í stjórn einkalífeyrissjóðsins því eru ekki lög um að það verði að vera stjórn yfir lífeyrissjóðum? Það væri all undarlegt ef að stjórnin samanstæði af Sigurjóni og Sigurði, ekki satt?

Anna Karlsdóttir, 17.6.2009 kl. 01:06

37 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Hvernig væri að hætta að kaupa blöð og hætta að horfa á sjónvarp. Auglýsingarnar verða þá til einskins. Við útnefnum Láru Hönnu sem áhorfenda fyrir okkar hönd og síðan kemur það sem vert er að sjá á blogginu þínu Lára Hanna.
Við getum líka horft á þetta drasl á netinu, auglýsingar þá orðnar óvirkar. Vandamálið er að þá þyrfti kannski að loka Stöð 2. Reka alla fréttamenn hjá RÚV. Segja upp öllum blaðamönnum hjá prentmiðlum.

Hvernig getum við fetað í fótspor Heiðu og verið með Borgaralega óhlýðni ? Reynum að finna einhver ráð, sem NEYÐA eigendur fjölmiðla (ríkið líka) til þess að hætta að misbjóða okkur.
Ég vorkenndi Helga Seljan í gær og finnst hræðilegt að hugsa til valdsins, sem neyðir, annars góðan fréttamann, til þess að vera með 2007 kóngaviðtal.

Erum við tilbúin til þess að gera eitthvað ?

Lilja Skaftadóttir, 17.6.2009 kl. 02:13

38 identicon

Tek undir með henni Lilju hér fyrir ofan! Fjölmiðlar á Íslandi eru vita gagnlausir og eru stjórnaðir vægast sagt! Ég er ekki áskrifandi á neinum blöðum eða með stöð 2 en finn mínar upplýsingar í gegnum bloggið t.d. hér hjá henni Láru Hönnu sem ætti skilið að fá fálkaorðuna þegar Ólafur Ragnar Grímsson verður farinn af Bessastöðum.

Í sambandi við Sigurjón vs Sigurjón þá er voða lítið hægt að bæta við þetta sem ekki hefur komið hér fram! Hinsvegar þurfum við að hugsa til þessara manna sem voru í skilanefndum viðkomandi banka á þeim tíma sem þessi gjörningur var gerður! Svo finnst mér hryllilegt að hugsa til fyrverandi formanns FME og hversu duglaus sá maður var í starfi! Og hvort orðið "duglaus" sé nógu gott orð fyrir hann!

 Það er hellingur af upplýsingum til sem á eftir að koma ELÍTUNNI á Íslandi illa! Þessr upplýsingar þurfum við að koma á netið! Við almenningur erum í stríði við ákveðin hóp af fólki og í stríði þá kemur alltaf fólk fram sem sýnir ótrúlegt hugrekki og væntumþykju við einstaklinginn næst þér! Við almenningur höfum þann kost fram yfir ELÍTUNA að við erum mörg! Við getum ekki tapað þessu stríði eins lengi og við stöndum saman þá mun ELÍTAN riða til falls.

Þröstur Halldórsson (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 11:33

39 identicon

Mig langar svo að vita hvort fréttamenn á launum skammist sín ekki þegar þeir sjá fréttakonuna launalausu Láru Hönna að verki?

Tek undir thessi ord Helgu her ad ofan.

Aumingjar og landnydingar thessir duglausu frettamenn. Eg er grati næst ad lesa um enn eina drulluna.

SM (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 12:34

40 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Takk fyrir enn eina gæðafærslu, þú lætur íslenska blaða og fréttamannastétt líta illa og afar gagnslitla út, snýtir þeim öllum í hverri viku.

Georg P Sveinbjörnsson, 17.6.2009 kl. 14:02

41 identicon

Það vill nú svo til að um lífeyrissjóði gilda afar ströng lög og ég get ekki betur séð en að þau hafi hér verið þverbrotin. En það hefur engum dottið í hug að spyrja hvað gerist ef Sigurjón lendir í slysi og verður öryrki. Þá þarf hann að fá greiðslur úr sjóðnum samkvæmt lögum um lífeyrissparnað. Hver borgar ef hann er með allan sinn lífeyissparnað að láni og á ekki að borga fyrr en eftir tuttugu ár?

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband