Svikamyllan á Suðurnesjum

Í mars 2008 skrifaði ég pistil með þessari sömu fyrirsögn, Svikamyllan á Suðurnesjum. Í pistlinum fór ég yfir svikamyllu Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, forkastanleg vinnubrögð hans og endalausar blekkingar. Næsti pistill, Sjónarspil eða svikamylla - breytir engu, var beint framhald af hinum fyrri.

Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf.Enn er Árni Sigfússon í blekkingarleik, en nú snýst málið um að redda rassinum á sjálfum sér, pólitískri framtíð sinni og þar með öllum launuðu bitlingunum. Og væntanlega buddu nokkurra vina í hópi útrásardólga - á kostnað Reyknesinga og annarra Íslendinga. Árni er búinn að fara illa með fjárhag Reykjanesbæjar og bæjarfélagið mun vera ansi illa statt. Hann seldi t.d. húseignir bæjarins inn í Eignarhaldsfélagið Fasteign, þar sem hann  situr sjálfur sem stjórnarformaður. Nú þarf Reykjanesbær að borga stórfé í leigu mánaðarlega til Fasteignar sem, þrátt fyrir fögur fyrirheit, mun vera í miklum fjárhagskröggum og hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar eins og sjá má t.d. hér og hér.

Fasteign ehf. var, eins og sjá má í tilvísuðum fréttum, í samkrulli við gamla Glitni banka, sem lánaði Fasteign 100 milljónir af peningum Reykvíkinga án leyfis borgarstjórnar. Sjóður í vörslu Glitnis var líka annar af stærstu hluthöfunum í hugarfóstri útrásardólganna í Geysi Green Energy, sem er á brauðfótum en ætlar samt í milljarðaviðskipti við Árna fyrir hönd Reykjanesbæjar. DV fjallaði um tengsl manna og völdin í Geysi Green hér. Það er ekki bara mér sem finnst skítalykt af málinu - og það stæk. Ég hélt satt að segja að REI-málið hefði verið mönnum víti til varnaðar. Sjálfri finnst mér þetta lykta af spillingu þar sem nokkrir félagar ætla að maka krókinn. Annað eins hefur nú gerst undanfarin ár.

Nokkuð hefur verið skrifað um þessar sjónhverfingar bæjarstjórans og vina Árni Sigfússon, Ásgeir Margeirsson, Böðvar Jónsson, Júlíus Jónssonhans í blöð og netmiðla. Ég tók saman nokkur sýnishorn r og birti samanklipptar sjónvarpsfréttir um málið hér og vísaði í vefsíður og skrif annarra um málið.

Nýjasti farsinn í svikamyllunni á Suðurnesjum er, að bæjarstjórinn boðar til íbúafundar eða borgarafundar í Reykjanesbæ. Fundurinn er boðaður í gærmorgun - á sunnudagsmorgni og er strax í kvöld, mánudagskvöld. Fyrirvarinn er enginn. Þá á að "kynna" fyrir íbúum Reykjanesbæjar eina stærstu og mikilvægustu ákvörðun sem tekin hefur verið fyrir þeirra hönd - framsal orkuauðlindarinnar á Reykjanesi, sem ætti að vera þjóðareign, til a.m.k. 65 ára með mögulegri framlengingu um önnur 65, eða til 130 ára. Það er heil öld og 30 ár að auki! Fimm kynslóðir! Hinir heppnu, sem eiga að fá að græða á auðlindinni, eru Geysir Green Energy og kanadíska fyrirtækið Magma Energy. Útrásardólgar og erlendir fjárfestar (eða leppar innlendra?).  Var frekari einkavæðing auðlindanna inni í hugmyndum Íslendinga um Nýja Ísland? Ekki minnist ég þess.

Og bæjarstjórinn er ekkert að spá í jafnvægið í málflutningnum. Framsögumenn eru 5, þar af Árni og fjórir félagar hans og skoðanabræður - en aðeins einn maður sem er andsnúinn gjörningnum. Meðmælendurnir, auk Árna, eru Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green, Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku og Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs og aðstoðarmaður Árna Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra. Andmælandi einkavæðingarinnar og framsals orkuauðlindanna á fundi bæjarstjórans er aðeins einn, Guðbrandur Einarsson. Er þetta lýðræðishallinn í Reykjanesbæ í hnotskurn?

Íbúar Reykjanesbæjar eru engir kjánar. Þeir hljóta að vera farnir að sjá í gegnum grímu og fagurgala  bæjarstjórans og taglhnýtinga hans. Þessir menn eru ennþá fastir í frjálshyggju-einkavæðingarbrjálinu og sjást ekki fyrir. Það verður að  stöðva þá áður en þeim auðnast að glata auðlindum Reykjaness og ofurselja íbúa þess óþekktum, gráðugum fjárfestum. Er ekki komið nóg af slíku á Íslandi? Ég skora á alla Reyknesinga - og aðra Íslendinga - að fjölmenna á íbúafund bæjarstjórans og stöðva þessa fásinnu.

Ég fékk leyfi Guðbrands Einarssonar til að birta grein eftir hann úr prentútgáfu Víkurfrétta 2. júlí sl. Lesið það sem Guðbrandur hefur fram að færa:

***********************************

Skemmdarverk
-fyrir hverja vinna sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ

Í fréttatilkynningu sem komin er fram segir að Reykjanesbær og Geysir Green Energy eigi nú í viðræðum um kaup bæjarins  á landareignum og auðlindum HS Orku til  að tryggja að auðlindin verði í opinberri eigu eins og segir í svo fallegum orðum í  þessari fréttatilkynningu. Ef að þetta væri nú eini tilgangur viðræðnanna milli þessara aðila væri manni rótt, en á bak við þennan fagurgala á að ráðast í milljarða viðskipti með eignarhluti sem munu hafa afdrifaríkar afleiðingar marga áratugi fram í tímann eða á maður kannskiGuðbrandur Einarsson að segja um aldir.

Auðlindir í okkar eigu?
Reykjane
sbær ætlar að kaupa landið sem hefur að geyma þær auðlindir sem Hitaveitan hefur verið að nýta og hefur verið í hennar eigu. Fyrir það ætlar Reykjanesbær að borga tólfhundruð milljónir króna. Til þess að þetta nái fram að ganga ætla þessir snillingar sem þessu stjórna að gefa út skuldabréf til 10 ára með 5% vöxtum. Greiðslur af slíku skuldabréfi myndu, í 5 % verðbólgu, verða frá 150 milljónum upp í 230 milljónir á ári.

Mikil ánægja virðist ríkja meðal sjálfstæðismanna með að við skulum geta haft 50 milljónir upp í þetta með leigutekjum af auðlindunum, en hvar ætla sjálfstæðismenn að taka mismuninn svo að hægt verði að standa í skilum? Ætla þeir kannski að hækka leikskólagjöld?

Kaup á landi er feluleikur
Að minni hyggju er sala á þessu landi til Reykjanesbæjar ekkert nema feluleikur. Það stendur til að gera samning við GGE um að þeir hafi nýtingarréttinn á auðlindunum í 65 ár og því til viðbótar hafa þeir (eða þeir sem eiga allt dótið á þeim tíma) rétt til þess að framlengja í 65 ár í viðbót. Við Suðurnesjamenn ætlum því að afsala okkur nýtingarrétti á auðlindum okkar til einkaaðila í a.m.k 130 ár. Var það nokkuð til umræðu á þeim íbúafundum sem bæjarstjóri stóð fyrir nýverið?

Hvernig á svo að borga fyrir herlegheitin?
Skv. framkomnum upplýsingum er meiningin að borga fyrir allt þetta með eftirfarandi hætti. Þrír milljarðar eiga að koma í peningum. Skv. upplýsingum sem ég hef undir höndum, er gert ráð fyrir að sú greiðsla geti verið að berast fram á næsta ár. Svo ætlum við Reyknesingar að kaupa meira í HS veitum fyrir u.þ.b 4 milljarða af GGE.

En ég verð að spyrja að því hvers vegna í ósköpunum ættum við að greiða 4 milljarða til þess að eignast meira í HS veitum sem er fyrirtæki sem sér um dreifingu á orku og vatni  til margra byggðarlaga. Nægir ekki að eiga þriðjung í því fyrirtæki eins og við eigum nú? Eða er að koma í ljós það sem ég hef áður sagt að verið sé að koma því þannig fyrir að við munum að endingu eiga bara rörin?

Skuldabréf fyrir restinni
Meiningin er síðan að gefa út skuldabréf fyrir restinni. Það skuldabréf á
Jarðorkuvirkjunsamt ekki að vera á sömu vöxtum og við verðum að greiða vegna landakaupanna heldur mun GGE njóta betri kjara í viðskiptum sínum við okkur heldur en RNB við þá. Það má síðan spyrja að því hverjum Reykjanesbær ætlar að lána 6 milljarða til 7 ára.

Er um stöndugt fyrirtæki að ræða sem líklegt er að muni vaxa og dafna í framtíðinni? Eftir því sem ég best veit stendur GGE á brauðfótunum einum. Þeir aðilar sem stóðu að fyrirtækinu eru annað hvort orðnir gjaldþrota eða komir í greiðslustöðvun. Eru einhverjar líkur á því að staðið verði við þessar skuldbindingar nema því aðeins að erlendir aðilar eignist GGE að stórum hluta eða öllu leyti og þá um leið nýtingarréttinn til orkuöflunar á  Suðurnesjum til næstu 130 ára. Ég vissi ekki betur en að þeir Geysismenn hefðu viljað eignast lítinn hlut í Hitaveitunni svona til þess að geta sýnt hana í útrásinni sem þeir ætluðu sér að leggjast í. En nú virðist ekkert annað eftir hjá þeim en að leggja undir sig orkuhluta Hitaveitu Suðurnesja með dyggri aðstoð Árna Sigfússonar bæjarstjóra í Reykjanesbæ.

Eignir Reykjanesbæjar að klárast
Það eru margir til að spyrja hvort ekki sé réttlætanlegt að selja við þessar aðstæður sem nú eru í efnahagslífi þjóðarinnar. Það er auðvitað gild spurning, en ég vil leyfa mér að spyrja á móti hvort  það sé ásættanlegt að núverandi meirihluti sem ráðið hefur ríkjum í Reykjanesbæ frá árinu 2003, skuli leyfa sér að ganga svona á eigur bæjarins. Þess er skammt að bíða að eigið fé sveitarfélagsins, sem orðið hefur til með sparnaði undangengna áratugi verði uppurið, vegna algjörs getuleysis  þessara aðila til þess að hafa heimil á útgjaldafýsn sinni.

Hvaða leyfi hafa þeir gagnvart komandi kynslóðum til þess setja sveitarfélagið í þessa stöðu?  

Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Þessir aðilar sem nú höndla með eignir Reykjanesbæjar höfðu aðkomu að REI málinu svokallaða á sínum tíma. Bæði bæjarstjórinn í Reykjanesbæ og forstjóri GGE sátu við hringborðið og véluðu um að Hitaveita Suðurnesja færi inn í REI. Sem betur fer stöðvuðu Reykvíkingar það. Nú er hins vegar annað REI-mál í uppsiglingu komið af stað með hluta leikenda úr því leikriti. Verður þetta keyrt í gegn án þess að íbúar hafi eitthvað um þetta að segja? 

Var það þetta sem sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ buðu uppá í síðustu kosningum?

Guðbrandur Einarsson
oddviti A-listans í Reykjanesbæ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Maður spyr sig, hversvegna selja á auðlindina útlendingum?  Sem hækka svo verðið til notendanna, til þess að græða.  Ekki er þetta félag að kaupa auðlindina til þess að hjálpa okkur Íslendingum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.7.2009 kl. 01:52

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Þarna hittir Jóna Kolbrún naglann á höfuðið. sannarlega.  Líklega bera menn því við, að þeir eru nú þegar kominir á hvínandi hausinn, og þurfi "nýtt erlent" fjármagn til frekari framkvæmda.

Business snýst um það að græða, ekki bara fyrir annan aðilann heldur báða.  Í þessu tilfelli snýst þetta um að fá inn fjárfesta og þeir vilja auðvitað græða, en það á hinn eigandinn líka að gera:  Hinn aðilinn er(u) Suðurnesjamenn!  Þannig þurfa umboðsmenn Suðurnesjamanna líka að semja um dílinn, fyrir það fá þeir greitt "umboðslaun" í formi launagreiðslna sem greiddir eru af  skatttgreiðslum frá Suðurnesjamönnum.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 13.7.2009 kl. 02:30

3 identicon

Það er ekki tilviljun að ég hef kallað Sjálfstæðis-FL-okkinn síðustu 20 árin eða svo RÁNFUGLINN.....! Þeir stela öllu sem hægt er að stela og heimta svo "verndartolla & mútur" frá flest öllum fyrirtækjum landsins...! Viðbjóðslegt - vægast sagt...! Þessi FL-okkur er "innmúraður í spillinguna" og þetta rugl Árna þarna í tengslum við allt þetta dæmi er vægast sagt með ólíkindum! Glæpastarfsemi frá mínum bæjardyrum séð!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 02:50

4 identicon

íbúar Snæfellsbæjar hafa misst réttin á vatninu sem kemur frá Snæfellsjökli næstu 95árin til kandamanns sem sætir nú rannsóknar kanadíska fjármálaeftirlitsins.framsalið gerðu bæjarstjórinn í Snæfellsbæ,sem hefur farið mikinn í fjölmiðlum vegna hættu sem hann telur stafa að vinum sínum í útgerð og forseti bæjarstjórnar,sem nú situr á þingi fyrir sjálfstæðisflokkinn.ekki finnst mér mikill munur á auðlindum suðurnesinga og Snæfellsbæinga nema að aðrir hafa þegar misst umráðin yfir þeim hinir ekki enn.mér finnst ekki vera litið nógu alvarlegum augum af yfirvöldum að ein bæjarstjórn geti framselt vatnsréttindin heila mannsævi!!!!

árni aðals (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 03:23

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Flott hjá þér að halda þessu máli til streitu. En lastu viðtalið við Vilhjálm Egilsson á Vísi. is í gærkvöldi þar talar hann um að í stöðugleikasáttmálanum hafi verið ákveðið "að ryðja öllum hindrunum úr vegi" fyrir 1. nóvember- virkja verði neðri Þjórsá! Byggja eigi álverksmiðjur í Helguvík og á Bakka?

María Kristjánsdóttir, 13.7.2009 kl. 12:02

6 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Ja hérna, samdi Árni Sigfússon, bæjarstjóri við Árna Sigfússon, stjórnarformann Fasteignar um sölu eigna bæjarins og síðan leigu á þeim. Væri ekki rétt að taka málið til ítarlegrar rannsóknar, hvar er efnahagsbrotadeildin?

Einnig vil ég deila áhyggjum Maríu á orðum Vilhjálms Egilssonar í sjónvarpinu í gær. Ég vona að þar sé eitthvað málum blandið.

Valgeir Bjarnason, 13.7.2009 kl. 13:02

7 identicon

Alla vega þarf að upplýsa okkur um hvað var samið annað en launaþáttinn.Ég tel að nóg sé komið af svona BAKTJALDA MAKKI GAGnVART FÓLKI og LANDINU OKKAR. Árni Sigfússon á að sýna manndóm og fá sér aðra vinnu.

Guðrún Hlín (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 13:46

8 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Þetta fyrirbæri Fasteign var og er svo arfavitlaust fyrirbæri að spilltasti pólítíkus, að mínu mati, Gunnar I. Birgissson þá einræðisherra í Kópavogi sagði þetta fasteignafélagsfyrirbæri vera algjört rugl.

Baldvin Björgvinsson, 13.7.2009 kl. 13:55

9 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessuð Lára Hanna

Frábær eins og venjulega, og gallinn er að allt er þetta satt og rétt sem þú segir þarna. Finnst kannski bara vanta að bæta inn í þetta hvernig fjármálasnilli hans og hugmyndafræði fór með Tæknival forðum daga. Hér er úlfur í sauðargæru á ferð, sem nýtur stuðnings máttlausra meðreiðasveina í meirhlutanum. Þeir stóðu þó upp í Reykjavík og vildu hvorki REI málið, né Árna Sigfússon.

Kveðja Hannes

Hannes Friðriksson , 13.7.2009 kl. 15:58

10 identicon

Hvað var Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express, handlangari Pálma Haraldssonar og innmúraður Framsóknarmaður að gera á fundum þar sem samið var um kaup GGE í HS Orku? Finndu Finn.

Þrándur í Götu (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 17:00

11 Smámynd: Gerður Pálma

Ég er hrædd um mitt ástkæra Ísland. Það verður að stoppa þessa varga áður en þeir éta allt inn að beini.

Gerður Pálma, 13.7.2009 kl. 21:06

12 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hvenær ætli rannsóln Evu Joly nái til þessara glæpamanna

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.7.2009 kl. 21:22

13 identicon

Eigum við ekki bara að anda með nefinu? Þetta verður stoppað og ekki látið viðgangast. Stjórnvöld eru ekki svo ónýt. Held ég.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 23:02

14 Smámynd: Óskar Þorkelsson

já sjallarnir sjá um sína.. sjálfstektin er áfram við völdin.. bak við tjöldin..

Óskar Þorkelsson, 14.7.2009 kl. 02:52

15 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Sjálftökuflokkurinn sér um sína!  Nú sem fyrr.

Baldur Gautur Baldursson, 14.7.2009 kl. 07:22

16 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Sagði ekki Bismarck um Ítali: "Græðgin er söm við sig, jafnvel þótt þeir séu gamlir og illa tentir?"

Baldur Gautur Baldursson, 14.7.2009 kl. 07:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband