Ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum

Mér eru fjölmiðlarnir hugleiknir og finnst ansi mikið vanta upp á að þeir sinni því sem má kalla skyldu þeirra - upplýsingagjöf, rannsóknarfréttamennsku og skýringum á atburðum fyrir almenning. Blaða- og fréttamenn komust sjálfir að þeirri niðurstöðu að þeir hafi brugðist í aðdraganda hrunsins, ef ég man rétt. Ekki verið nógu vakandi og of trúgjarnir - eins og við hin.

Blaðamannafélag Íslands - BlaðamaðurinnMér hættir til að verja þá, því ég veit við hvaða aðstæður þeir búa - gríðarlegan tímaskort, ómanneskjulegt vinnuálag og í mörgum tilfellum skítalaun. Viðmælendur svara ekki spurningum þeirra og stundum gátu (geta?) ágengar, beittar spurningar jafngilt uppsögn viðkomandi blaða/fréttamanns. Hátt settir stjórnmálamenn töluðu ekki við gagnrýna blaða/fréttamenn og vildu sjálfir ráða spurningunum. Allt mögulegt hefur viðgengist. En sumir voru líka nátengdir persónum og leikendum í atburðum gróðærisins - og eru enn.

Kannski er ekki við blaða- eða fréttamennina sjálfa að sakast að öllu leyti, heldur vinnuveitendur þeirra, sjálfa fjölmiðlana. Einkum fyrir að skapa þeim ekki þær aðstæður sem nauðsynlegar eru til að geta sinnt starfinu almennilega, sérhæfa sig í málaflokkum og gefa þeim pláss eða tíma til að koma upplýsingunum á framfæri. Vissulega er þó ýmislegt mjög vel gert og bæði vilji og geta fyrir hendi bæði í stéttinni og utan hennar.

Mér finnst að í vetur, á þessum gríðarlegu umbrotatímum í íslensku samfélagi, hafi mestu upplýsingarnar, málefnalegasta umræðan og bestu Blaðamannafélag Íslands - Blaðamannaverðlaunfréttaskýringarnar verið á netinu - þar af mikið á blogginu. Og um þessar mundir er eiginlega einn helsti rannsóknarblaðamaðurinn okkar hún Sigrún Davíðsdóttir í Speglinum á RÚV og á Eyjunni. Sigrún hefur verið óþreytandi við að segja frá ýmsum vafasömum viðskiptum og fleiru sem viðkemur hruninu. Lesið og hlustið t.d. á pistla hennar í vikunni um Endurreista og efalausa banka og Bruðl og sjónhverfingar.

Ég sakna Kompáss mjög. Hef sagt það áður og segi enn. Okkur bráðvantar svona þátt og ég skil ekki af hverju RÚV hefur ekki tekið þáttinn upp á arma sína en mig grunar að um fjárskort sé að ræða. Eins og ég kem inn á í pistlinum hér að neðan vil ég að ríkisstjórnin veiti ríflegri upphæð til að koma saman sjálfstæðum, óháðum rannsóknarhópi fjölmiðlafólks sem hefði það hlutverk að rannsaka, afhjúpa, upplýsa og útskýra. Frá upphafi hruns hafa fjölmargir sérfræðingar, reynsluboltar og leikmenn hamrað á því, að upplýsingar séu grundvallaratriði til að almenningur geti skilið og tekið þátt í þeirri hugarfarsbreytingu og  uppbyggingu sem verður að eiga sér stað á Íslandi. Slík fjárveiting ætti að vera jafnsjálfsögð og fjárveiting til annars konar rannsókna á hruninu. Upplýsingar eru nefnilega nátengdar réttlætinu.

En hér er pistillinn minn á Morgunvakt Rásar 2 í gær - hljóðskrá hengd við neðst.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Í tæpt ár hefur mér fundist ég vera stödd í hræðilegri martröð. Stundum hef ég verið þess fullviss, að einn daginn ranki ég við mér og komist að raun um, að þetta hafi bara verið vondur draumur. En martröðin heldur áfram og verður sífellt skelfilegri eftir því sem fleiri spillingarmál koma upp á yfirborðið. Þeim virðist ekki ætla að linna og botninum er greinilega ekki náð ennþá.

Ég er orðin kúguppgefin á martröðinni og þrái heilbrigt samfélag, lausnir, heiðarleika, réttlæti og von. En það eina sem blasir við er meiri spilling, hræðileg vanhæfni, undarleg leynd og endalausar deilur um allt. Stundum finn ég varla heila brú í þjóðfélagsumræðunni, alveg sama hvernig ég leita. Sérfræðingar karpa, einn segir þetta og sá næsti eitthvað allt annað. Þeim virðist jafn fyrirmunað að finna sameiginlega lausn á vandamálum þjóðarinnar og alþingismönnum. Það er sárt að horfa upp á þetta og enginn fjölmiðill hefur ennþá tekið að sér að skýra út ólík viðhorf, fólkið á bak við þau, bera saman skoðanir, orsakir og afleiðingar - og reyna að komast að niðurstöðu. Er það kannski ekki hægt? Maður spyr sig...

Ég hef komist rækilega að raun um, að það er miklu meira en full vinna að reyna að fylgjast með öllu sem hefur gerst síðan hrunið varð, halda því til haga og reyna að tengja saman menn og málefni. Hvað þá að fylgja málum eftir og halda þeim lifandi í umræðunni. Ef vel ætti að vera þyrfti einhver fjölmiðill að hafa hóp fólks í vinnu sem gerir ekkert annað en einmitt þetta. En sú er aldeilis ekki raunin.

Í mestu hamförum af mannavöldum sem íslenska þjóðin hefur upplifað hafa fjölmiðlar einmitt neyðst til að bregðast þveröfugt við. Skera niður og segja upp fólki þegar þjóðin þarf á öflugum fjölmiðlum að halda sem aldrei fyrr. Eini fréttaskýringaþátturinn í sjónvarpi, Kastljós, fór meira að segja í frí í júlí á meðan fjallað er um tvö umdeildustu málin um þessar mundir á Alþingi, ESB og Icesave. Væntanlega er fríið til komið vegna niðurskurðar og sparnaðar í rekstri RÚV.

Ekki hefur fjarvera Kastljóss náð að fylla Stöð 2 innblæstri og hvatt til dáða á þeim bænum. Frá áramótum hefur Ísland í dag verið undirlagt af yfirborðskenndu léttmetishjali - með örfáum undantekningum. Léttmetið er fínt í bland - en er það svo miklu ódýrara í vinnslu en alvörumálin? Því fylgir ábyrgð að reka fjölmiðla og eigendur þeirra ættu að sjá sóma sinn í, að huga að upplýsingagildi efnisins ekki síður en skemmtanagildi þess.

Mig langar að beina máli mínu til ríkisstjórnarinnar, einkum mennta- og fjármálaráðherra, og fara fram á að veitt verði rausnarlegri upphæð til reksturs rannsóknarhóps fjölmiðla sem hefði það hlutverk að rannsaka og upplýsa þjóðina um öll helstu mál hrunsins. Í hópnum gætu verið valdir fulltrúar frá öllum fjölmiðlum - og alls ekki má gleyma netmiðlum og bloggi. Oftar en ekki hafa langbestu upplýsingarnar komið fram á netinu og málefnalegustu umræðurnar farið fram þar. En netfjölmiðlun nær bara ekki til nema takmarkaðs fjölda landsmanna.

Fyrir utan fræðslu- og upplýsingagildi þessa fjölmiðlahóps fyrir almenning, gæti vinna hans örugglega gagnast rannsóknaraðilum hrunsins. Vinna hópsins væri líka aðhald við embættin, því upplýsingar hans um alvarleg mál hljóta óhjákvæmilega að koma inn á borð hjá þeim.

Upplýsingar og réttlæti kostar peninga - en er þjóðinni lífsnauðsynlegt.

*************************

Í tengslum við þessar pælingar minni ég á viðtöl við Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, sem var hér á ferð í lok maí. Hann lýsir m.a. hvernig útrásardólgar höfðu áhrif á skrif blaðamanna í Bretlandi þegar verið var að markaðssetja Icesave og fleira. Og fyrst þeir gátu blekkt breska blaðamenn gátu þeir vitaskuld blekkt þá íslensku líka - enda voru (og eru) þeir í mörgum tilfellum vinnuveitendur þeirra. Sorglegt en satt. Takið sérstaklega eftir þessum orðum Aidans White: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins."

Aidan White í Kastljósi 28. maí 2009

 Aidan White í fréttum Stöðvar 2 - 28. maí 2009

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Takk fyrir góðan pistil og formálann að honum. Er svo hjartanlega sammála þér.

Svavar Alfreð Jónsson, 25.7.2009 kl. 14:58

2 identicon

Ég er efins um að það sé góð leið að ríkisstjórnin komi upp hópi blaðamanna til að rannsaka málin. Þeir sem eru harðir og skrifa á gangrýnin máta núna yrðu það kannski ekki í garð ríkisstjórnar sem sæi um að borga þeim laun.

Það er líka hætta á því að ríkistjórnin veldi bara fjölmiðlamenn sem þóknast henni eða hafa velþóknun á því sem hún stendur fyrir.

Guðrún (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 15:06

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ó já.. fjölmiðlarnir.  En þeir eru varðhundar valdsins og gegna aðallega embætti blaðafulltrúa spillingarinnar. Við erum öll sammála um að þeir brugðust og við sjáum enga sjálfskoðun eða endurnýjun í þeirri stétt.  Við þurfum fjölmiðlalög sem bannar peningaöflunum að eiga og reka fjölmiðla. Það er betra að hafa enga fjölmiðla en spillta fjölmiðla. Hver tekur mark á Fréttablaðinu eða Mogganum eða RÚV eða Stöð 2?

En þó fyrirfinnast ennþá góðir fréttamenn og líka frábærir fréttamenn eins og Sigrún Daviðsdóttir. Fyrir það skulum við þakka.  En mér finnst samt ekkert erfitt að fylgjast með, þökk sé Útvarpi Sögu og netinu og blogginu. Þetta er nýi tíminn, og við þurfum bara að aðlaga okkur breyttum aðstæðum, við þurfum að hafa fyrir því að afla upplýsinga ogmegum aldrei aftur láta matreiða okkur með skrumskældum áróðri og allra síst ríkis styrktum.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.7.2009 kl. 15:07

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég er sammála þér - takk fyrir færsluna Hanna Lára

Anna Karlsdóttir, 25.7.2009 kl. 15:55

5 identicon

Thakka kaerlega godan pistil, eins og allt sem fra ther kemur og eg er ther hjartanlega sammala

Bestu kvedjur

Islendingur (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 16:36

6 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Takk Lára Hanna, ég nappa þessari þörfu lesningu yfir á fésið mitt.  Umræðan um hlutverk, vald og verkefni blaðamanna hefur aldrei verið brýnni en nú.

Bergþóra Jónsdóttir, 25.7.2009 kl. 17:32

7 identicon

Hvaða ábyrgð???...hvenær hafa íslenskir fjölmiðlar sýnt ábyrgð?

itg (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 20:30

8 identicon

Spegillinn á rúv og Silfur Egils hafa reynst ómetanlegir (þá er eg að tala um fjölmiðla). DV og mbl. hafa líka gagnast þjóðinni. En augljóst er að gera þarf miklu miklu miklu betur Réttmætt er að efast um pólitískan vilja til þess. Á tungutaki gamla spillta Íslands gæti það kallast - á Alþingi - þverpólitískt viljaleysi. 

Rómverji (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 21:50

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Amen. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.7.2009 kl. 04:09

10 identicon

Ég hef verið reglulegur lesandi þeirra færslna sem Egill Helga hefur sett inn á eyjuna, þar talar hann um hlutina eins og þeir eru. Helstu gagnrýnendur hans eru sjálfstæðsmenn. Hvers vegna skyldi það nú vera? Hvers vegna er þeim illa við að flett skuli ofan af spillingunni? Ég vill meina að Sjálfstæðisflokkurinn sé hagsmunasamband fyrir menn í embættis og viðskiptamannakerfinu sem vill ekki að þessu spillingar og klíkusamfélagi verði breytt. Krabbamein í íslensku þjóðlífi.

Valsól (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 07:42

11 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Lára Hanna ætti að fá Blaðamannaverðlaunin fyrir pistla sína og blogg. 

Pistillinn endar á þessu:

"Takið sérstaklega eftir þessum orðum Aidans White: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins.""

Þarna er verið að tala um blaðamenn.  Hugsið ykkur samt hversu vel þetta á við um stjórnmálamenn líka?  Hvar stæðum við ef stjórnmálamenn hefðu á síðustu árum "verndað hagsmuni fólksins" í stað þess að taka upp málstað útrásarvíkinga og bankabófa?

Jón Kristófer Arnarson, 26.7.2009 kl. 10:31

12 identicon

Af hverju ekur útvarpsstjórinn á 15 mkr. bíl í kreppunni?  Það er líklega af sömu ástæðu og hann fékk 15 mkr. bíl í góðærinu.  Frábær hugmynd hjá Páli að spara peninga með því að loka Kastljósinu - enda ekkert um að vera í þjóðfélagsumræðunni.  Spurning hvort það ætti ekki bara að kaupa annan svona bíl handa Þórhalli og loka Kastljósinu alveg.  Væri svo ekki hægt að hækka kaupið hjá Páli, fækka fréttamönnum og stytta fréttatímann?  Það er jú kreppa! 

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 11:29

13 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Lára Hanna gæti verið góður kandídat í ritstjóra fréttatblaðs, eða fréttavefs og þá sem annar af tveimur þar sem hana vantar faglegan blaðamennskubakgrunn. Varpa því fram til þeirra sem kaupa Morgunblaðið næst!

Gísli Ingvarsson, 26.7.2009 kl. 12:59

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Það var síðan Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Mannlífs sem hlaut verðlaun fyrir bestu rannsóknarblaðamennskuna. ... Síðan voru það þau Jóhann Hauksson á DV og Sigrún Davíðsdóttir á RÚV sem voru tilnefnd í flokknum Blaðamannaverðlaun ársins. Þá var Baldur Arnarson á Morgunblaðinu og Brjánn Jónasson á Fréttablaðinu tilnefndir fyrir umfjöllun ársins."

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á Mbl.is hlaut Blaðamannaverðlaun ársins

Þorsteinn Briem, 26.7.2009 kl. 16:09

15 Smámynd: Sylvía

mer finnst nu engin astæda til  ad vorkenna isl. bladamonnum, eg er theim reid, their hafa algjorlega brugdist. Og i dag treystir madur a bloggara.

If there's a will there's a way.

Sylvía , 27.7.2009 kl. 06:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband