Salan á auðlindum Íslendinga er hafin

Magma EnergyHún hófst þegar Árni Sigfússon og félagar seldu GGE hlut í HS Orku árið 2007. Vatnið á Snæfellsnesi var líka selt og einn sölumannanna kjörinn á þing í vor. Og nú á að bæta um betur. Klára dæmið á Reykjanesi. Ennþá virðist enginn vita með vissu hverjir eru á bak við Magma Energy sem vill kaupa allar orkuauðlindir okkar á Reykjanesi. Margar sögur eru í gangi um það, flestar svipaðar. Forstjóri Magma, Ross Beaty, fundar með fjármálaráðherra í dag til að þrýsta á söluna. Hann vill fá afnotaréttinn í 130 ár ásamt Geysi Green Energy sem enginn virðist heldur vera með á hreinu hverjir eiga þótt eignarhaldið þar sé ögn ljósara en á Magma. Þeir vilja líka fá kúlulán hjá OR. Ekkert út og restin eftir minni? Þá geta þeir borgað sér og sínum arð í mörg herrans ár áður en þeir þurfa að borga hlutinn sinn. Svo þegar rányrkjunni er lokið, engin orka eftir, þá er kúlulánið verðlaust og þjóðin situr uppi með tapið. Arðurinn fór á Tortólurnar. Við þekkjum ferlið, vitum hvernig þetta virkar, er það ekki?

Ég hef haldið því fram að þetta sé allt ein svikamylla - nýtt REI-mál - og fer ekki ofan af því. Það eru peningar í orkunni, hún verður verðmætari með hverju árinu sem líður, og þegar græðgin er annars vegar verður engu eirt og engum hlíft. Við ættum að vita það að fenginni skelfilegri reynslu. Af hverju haldið þið að öll þessi "Glacier" og "Energy" fyrirtæki hafi verið stofnuð í gróðærinu? Vatnið okkar og orkan. Dollaramerki í augum, allt á að selja, mikill gróði. En gróðann á að einkavæða og fáir að njóta góðs af. Alls ekki þjóðin.

Hvort sem Ross Beaty er frontur útrásardólga eða ekki þá er hann talsmaður og stofnandi Magma Energy. Hann er "gullgrafari" í þeirri merkingu orðsins að hann sækist eftir auði. Hann vill gera sig og sína ríka. Haft er eftir honum í grein á netinu: "I just love creating wealth for shareholders through building resource companies from the ground up. It's what gets me out of bed in the morning." Hann nýtur þess að gera hluthafana sína ríka - og sjálfan sig í leiðinni. Með því að arðræna þjóðir sem eru ríkar af auðlindum eins og Ísland. Við erum blönk og liggjum vel við höggi. Nú er lag. Svona menn virka sem segull á aðra gróðapunga.

Dettur einhverjum í hug að þessi maður og hans líkar þyrmi auðlindunum eða hafi hagsmuni þjóðarinnar og komandi kynslóða að leiðarljósi? Látið ykkur dreyma. Fyrir nú utan aðrar afleiðingar þess að grunnþjónusta er einkavædd eins og sjá má á athugasemdum við bloggpistil Öldu Sigmunds. Þar koma fram alvarlegar viðvaranir frá fólki með reynslu. Mjög alvarlegar.

Nú þegar er byrjað að ofnýta orkuna á Reykjanesi. Engu að síður kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að nú þegar er búið að ákveða að tvöfalda orkuvinnsluna. Orkan er ekki endalaus auðlind, hún klárast. Hve fljótt fer eftir því hve mikið og hratt hún er nýtt. Hér ætla menn að klára hana sem fyrst, láta skammtímahagsmuni og gróða ráða ferðinni. Og ein af perlum Íslands, Krýsuvík, er líka í húfi.

Vilji einhverjir senda Steingrími J. línu fyrir fundinn með Magmaforstjóranum er þetta netfangið: steingrimur.j.sigfusson@fjr.stjr.is. Honum þykir örugglega vænt um að fá stuðning við að hafna erindi forstjórans.

Ef einhvern tíma hefur verið þörf á samstöðu íslenskrar þjóðar þá er það nú. Við hvorki getum né megum láta óprúttna menn hafa af okkur orkuauðlindirnar - arðræna okkur. Minnumst orða Johns Perkins: "Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur. Þegar upp er staðið verðið þið að krefjast þessa..." Við verðum að krefjast þess að auðlindum okkar verði ekki fórnað á altari Mammons.

Framtakssamt fólk hefur boðað til samstöðufundar í Saltfisksetrinu í Grindavík í kvöld, þriðjudaginn 25. ágúst, klukkan 18. Eins og segir í fundarboðinu sem ég festi við neðst í færslunni: "Árið 1974 var Hitaveita Suðurnesja stofnuð af sveitarfélögunum á Suðurnesjum og ríkinu. Allar götur síðan hefur fyrirtækið verið hornsteinn í samfélagi Suðurnesjamanna, séð fyrir yl og birtu, skapað störf og arð. Verði úr kaupum Magma Energy á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs væri verðmætum í almannaeigu fórnað fyrir óljósan ávinning einhverra aðila. Framsal auðlindarinnar, hvort heldur sem er í 65 eða 130 ár, er í reynd varanlegt þar sem slíkum nýtingaráformum fylgir sú augljósa áhætta að auðlindin verði upp urin áður en framsalstíminn er liðinn." Mætum öll á þennan fund og sýnum að okkur sé ekki sama. Það verða nokkur sæti laus í mínum bíl.

Þetta kemur okkur öllum við. Um er að ræða sölu á hlut Reykvíkinga í HS Orku sem og glapræði bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Hér er fréttaflutningur af málinu í sumar í þremur hlutum.

Auðlindasala á Reykjanesi - 1

 

Auðlindasala á Reykjanesi - 2

 

Auðlindasala á Reykjanesi - 3

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Takk fyrir þetta Lára Hanna.

Í lögfræðiþrillerum sér maður oft að sakborningur fær að njóta vafans, beyond reasonable doubt.

Nú, í ljósi biturrar reynslu þarf að snúa þessu við svo að Íslendingar og auðlindir þeirra fái að njóta vafans, allir slíkir gjörningar séu hafnir yfir allan vafa. 

Þetta Magma fyrirtæki er skv. pistli þínum alls ekki hafið yfir vafa, né önnur lík fyrirtæki sem stofnuð hafa verið undanfarna mánuði, með  8-12W rafstöðvar einhvers staðar í Nevada eyðimörkinni.  Þeir eiga bágt með að  leyna greddunni og grægðinni, sem er yfir um og allt í kring, og svo leita þeir ráðgjafar hjá nýstofnuðum íslenskum fjármálaráðgjafafyrirtækjum, sem mönnuð eru að mestu leyti með fyrrverandi framkvæmdastjórum úr föllnu bönkunum. 

Það er leiðinlegt að þurfa alltaf að hafa tortryggnina að leiðarljósi, en þegar íslensk þjóð hefur verið svívirt svo eins og raun ber vitni, er það nauðsynlegt.  Brennd þjóð forðast eldinn.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 25.8.2009 kl. 04:25

2 Smámynd: Hannes Friðriksson

Svefntöflunar virðast vera að hætta að virka. Frábær pistill. Bendi þér á nýútkomna bók Sigurjóns Vikarsonar Grjótaþorp um lýðræðið sem læstist ofan í skúffu, í litlum bæ á Suðunesjum, holl lesning öllum þeim sem skilja vilja hvernig lýðræðið í Reykjanesbæ virkar.

Kveðja Hannes

Hannes Friðriksson , 25.8.2009 kl. 09:04

3 identicon

Takk fyrir Lára Hanna, þú skrifar og talar um það sem svo margir eru að hneykslast yfir. Vonandi verður fjölmennt á fundinum í kvöld.

Þuríður (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 09:05

4 Smámynd: Oddur Ólafsson

Góður pistill.

Takk fyrir.

Oddur Ólafsson, 25.8.2009 kl. 09:22

5 identicon

Hvar ætlar þetta að enda ? Allar náttúruauðlindir að renna úr greipum þjóðarinnar, stefnu- og aðgerðaleysi í að finna aðrar tekjulindir, farið að kaupa sement frá Danmörku til að spara eins og gert er með því að kaupa inn ómælt magn af eldsneyti í sprengihreyfla í stað orkunnar í hlaðvarpanum. Sækjum vatnið yfir lækinn, það er hreinna og betra en hérna megin. - Það er rétt sem Zeigeist Addendum bendir á, það eru ekki stjórnmálamennirnir sem leysa vandamál, það er fólkið sjálft. Sýnum nú úr hverju við erum gerð.

Annars hef ég litla trú á landanum sem einhverra hluta vegna hefur í gegnum tíðina dýrkað "sterka einstaklinginn" sem auðgast á svita þeirra sem kalla þá yfir sig. Ekki kæmi mér á óvart að horfa fram á vont versna, við lærum seint af reynslunni eða kjósum ekki að gera það. Jæja, elskurnar, þá eigum við þetta bara skilið !

Hafsteinn Hafsteinsson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 09:31

6 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Takk fyrir þetta Lára Hanna skrif þín opna augu manns...

Steinar Immanúel Sörensson, 25.8.2009 kl. 09:33

7 identicon

Forstjóri Magma hefur að sjálfsögðu enga aðra hagsmuni að leiðarljósi enn sína eigin og hlutahafa í Magma.  En mér finnst við alls ekki eiga þetta skilið, þetta mál hefur komið aftan af mörgum íslendingum, Icesave og önnur mál hafa tekið alla orkuna og þetta mál virðist vera allt vera á hraðferð og það á að trompa það í gegn á met tíma! Það má ekki gerast!  Ég held ennþá í vonina að Steingrímur muni standa sig og halda auðlindunum í almanna eign. 

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 10:04

8 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Ég uppgötvaði að Magma Energy Corp. á eina rafstöð. Hún er að framleiða 8MW, þótt vélasamstæðan eigi að geta framleitt 26MW brúttó. Þetta þýðir að HS orka er að framleiða rúmlega 20 sinnum meira rafmagn. Það er ólykt af þessu dæmi. Ross Beaty er braskari sem ætlar sér eingöngu skjótfenginn gróða. Fái hann tækifæri til að braska með HS þá er það staðfesting á því að kjörnir fulltrúar okkar eru annaðhvort undirmálsfólk eða spilltir.

Sigurður Ingi Jónsson, 25.8.2009 kl. 10:12

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, hefur útrásin ekki snúist upp í andhverfu sína.  Það sem átti að vera tilraun íslenskra athafnamanna til að koma ár sinn vel fyrir borð erlendis hefur snúist upp í það að útlendingar eignast öll helstu fyrirtæki landsins.  Kaldhæðni, ekki satt.

Þetta sannar bara hið fornkveðna: Sígandi lukka er best.  Einnig:  Góðir hlutir gerast hægt. Kannski útrásarbullurnar hefðu átt að hafa þetta í huga áður en þeir notuðu einkabanka sína til að fjármagna sukkið.

Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 10:23

10 identicon

Var að senda Steigrími eftirfarandi bréf:

Ef einhvern vill þá má endilega nota eitthvað úr því og senda á hann.

 
Sæll Steingrímur,

Það sem nú virðist ætla að gerast varðandi einkavæðingu á orkuauðlindum landsmanna til 130 ára, má EKKI gerast.  Auðlindir Íslands eru eign allra landsmanna, og ekki bara núverandi kynslóðar heldur framtíðar kynslóða um ókomna tíð. EKKERT söluverð getur endurspeglað verðmæti auðlindanna fyrir þjóðina.  Endurnýtanlegar orkuauðlindir geta framleitt verðmæti í jafnvel hundruðir ef ekki þúsund ára, og reiknisdæmið er því þannig að ekkert núvirði er nógu hátt. Þessar auðlindir eiga að vera í almanna eigu.

Þetta mál verður að vinna vel og halda hagsmunum þjóðarinnar í fyrirrúmi. Þrátt fyrir núverandi erfiða stöðu ríkissjóðs verður hún ekki betri á því að selja auðlindirnar frá sér. Hún verður verri.

Það eru margir sem eru á sama máli, en fólk er orðið þreytt og mikil orka farið í önnur mál, en það þýðir ekki að það sé sammála sölu. Allir sem ég hef talað við eru sammála um það að auðlindirnar eiga að haldast í almanna eign.

Ég treysti á þig að leysa þetta mál farsællega fyrir þjóðina og tryggja að okkar helstu verðmæti haldist í almanna eigu Íslendinga.

Bestu kveðjur,
Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir,
Orkuverkfræðingur, starfandi í Noregi

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 10:24

11 identicon

Forsetinn, útrásardólgur nr. 1, er búinn að hitta Ross Beaty og nú ætlar fjármálaráðherra að hitta Ross Beaty.  Hann virðist hafa sama sexappíl á ráðamenn og Björgólfur Thor.

Mér finnst að hann eigi ekkert erindi með hitta þennan mann.  Mun Steingrímur handsala nýjan "fjárfestingarsamning" eða standa í lappirnar fyrir hönd landsins?

Ef ekki þá er hann ekki skömminni skárri en fyrirrennarar hans.

TH (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 10:45

12 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Ég fór að fordæmi Þórhildar:

Ágæti Steingrímur,

Eftir lítilsháttar eftirgrennslan hef ég komist að því að HS framleiðir rúmlega 20 sinnum meira rafmagn en MEC (175MW vs. 8MW).

Ross Beaty er braskari, sem lýsir því sjálfur yfir að það sem kemur honum á lappir á morgnana er gróðafíkn.

„At heart I'm an entrepreneur, and I'll do my best to keep Pan American and Lumina moving in the right direction, I just love creating wealth for shareholders through building resource companies from the ground up. It's what gets me out of bed in the morning.“

Með kaupunum á HS, ef af verður, mun MEC verða margfalt verðmætara félag fyrir nánast engin fjárútlát. Það verður selt áfram til þriðja aðila á uppsprengdu verði. Við það eykst arðsemiskrafan á félagið og orkuverð til Íslendinga mun hækka.

Veitufyrirtæki eiga að vera í opinberri eigu og rekin með hagsmuni heimilanna að leiðarljósi.

Það má ekki gerast að á Íslandi verði veitufyrirtæki seld til erlendra braskara.

Þetta ætti að setja í lög.

Ég treysti því að ríkisstjórn Íslands líti þetta mál sömu augum og almenningur.

Með kveðju,

Sigurður Ingi Jónsson

Ráðgjafi – CiMM, MBA

Sigurður Ingi Jónsson, 25.8.2009 kl. 11:10

13 identicon

Ég er búinn að senda línu á Steingrím og ég vona að af öllu mínu hjarta að nú verðið staðið við stóru orðin og að umhverfivernd verði sett í fyrsta sæti!

En ég missti nú alveg af allri umræðu um þetta, en er í hálfgerðu sjokki og trúi þessu bara hreinlega ekki.  

13. ágú 2009

Það er gott að vera ál á Íslandi

„Félagið skal undanþegið ákvæðum 1., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.“ Lög um heimild til viðskiptaráðherra til gerðar samnings við Century Aluminum, um álver í Helguvík, samningsins sem undirritaður var við skyrslettur og lögregluofbeldi á dögunum, eru forvitnileg lesning. „Félagið skal undanþegið iðnaðarmálagjaldi,“ „Öll skjöl sem lúta að endurfjármögnun, svo og hlutabréf í félaginu, skulu undanþegin stimpilgjöldum,“ „ekki skuli leggja á félagið umhverfisgjöld eða umhverfisskatta“ og svo framvegis, til viðbótar við 15% tekjuskatts-dílinn, sem skal standa hvernig sem skattlagning í landinu annars breytist.

Tekið af  http://this.is/nei/

Unnsteinn Jóhannsson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 11:18

14 identicon

Bréfið mitt til Steingríms J. er farið og vegna anna í dag byggði ég það að grunni til á bréfi  Þórhildar Fjólu. En skilaboðin eru skýr. Takk fyrir. Kveðja

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 11:32

15 Smámynd: Halla Rut

Ég virkilega trúði að þessi dagur kæmi aldrei.

Við verðum að koma þessu fólki frá áður en við verðum Indíánar í eigin landi.

Halla Rut , 25.8.2009 kl. 11:34

16 identicon

Kæra Lára Hanna,

Það hefur lengi verið augljóst hvert stefnir í gripadeildum gróðapunga þessa lands & annarra, nú sérstaklega hjá okkur í orkugeiranum og öðrum bitastæðum auðlindum Íslands og þjóðar.

Ég bendi þér og lesendum þínum á þessa bók, sem er t.d. til sölu hjá Amazon;

,,Open Veins of Latin America: Five Centuries of the Pillage of a Continent" - by Eduardo Galeano (Author)

Slóðin er:

http://www.amazon.com/Open-Veins-Latin-America-Centuries/dp/0853459916

SKELFILEG SAGA!!!

með baráttukv

Hans Kristján

Hans Kristján Árnason (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 11:34

17 identicon

Ennþá fara sjálfsstæðismenn af fullri orku fram við að koma auðlindunum í hendur fjárglæfra og leigja þeim síðan orkuna á smá aura reykjanesbær á bara að selja magma orkuna fullu verði.

Halldór (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 11:46

18 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sæl Lára Hanna og þið hin. Sendum braskarann heim og krefjumst þess að ekki verði framar mangað með orkulindirnar okkar. Þeir sem nú stjórna landinu eiga að slá skjaldborg utan um þjóðareignina og búa þannig um hnútana að braskarar fái engan aðgang að þeim ALDREI. Mér finnst þessi della móðgun við Íslenska þjóð.  

Pálmi Gunnarsson, 25.8.2009 kl. 11:55

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sammála Pálma.  Við erum búin að tapa nóg út af brölti íslenskra braskara, þó við förum ekki að hleypa erlendum bröskurum að.

Marinó G. Njálsson, 25.8.2009 kl. 12:09

20 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Mér finnst þessi tilvitnun í grein Öldu - kristalla vandann.

To add insult to injury, the price for leasing the energy fields will amount to a piddly ISK 30 million per year, which – as they so succinctly put it over at Smugan – “That amount is ten times lower than was considered justifiable to pay one útrásarvíkingur* to take on a management position in a bank.” Or roughly equivalent to renting an office space in downtown Reykjavík for a year.

Anna Karlsdóttir, 25.8.2009 kl. 12:28

21 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Nærtækt dæmi og sjálfsagt í fersku minni allra er einkavæðing orkufyrirtækjanna í Californiu.  Fyrst voru almanna-auðlindir einkavæddar - fljótlega eftir það gat fólk ekki greitt það verð sem einkafyrirtækinu þóknaðist að rukka fyrir rafmagn til húshitunar og lýsinga.

Ótrúlegur fjöldi fólks býr nú við rafmagnsleysi.  NB - það fólk fékk heldur ekkert út úr sölu þessara eigna.

Mætum í Saltfisksetrið í kvöld kl. 18:00 - einnig þurfum við að efna til stórfundar hér á höfuðbrgarsvæðinu vegna þessara hræðilegu gjörninga.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 25.8.2009 kl. 13:07

22 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

...vatnið á Snæfelli...

Eins og það sé ein, og aðeins ein, vatnslind á Snæfelli? Af hverju þarf fólk að hætta að hugsa þegar kemur að svona umræðu? Af hverju verður stórfurðuleg fullyrðing allt í einu að einhverjum sannleika? Það var seldur aðgangur að EINNI vatnslind á Snæfellsnesi. Gjörningur sem í dag er dauður og ómerkur vegna vanefnda kaupanda. Það veit það hver sem vita vill að það eru hundruðir annarra vatnslinda og uppspretta á Snæfelli. Upphrópannapólitík er ekki það sem við þurfum þessa dagana. Við þurfum upplýsta, þroskaða umræðu, ekki pólítískt sandkassaskítkast, takk fyrir.

Sigurjón Sveinsson, 25.8.2009 kl. 13:07

23 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Sigurjón, það þarf ekki að falla nema einn dómur á tiltekinn veg til að í hann sé vísað þaðan í frá sem dómafordæmi. Það sama á við um sölu auðlinda landsins. Að sá gjörningur sem þú vísar í hafi fallið dauður niður vegna vanefnda ætti að vekja þig til hugsunar um kaupendur og seljendur. Í þessu tilfelli voru seljendur ginkeyptir fyrir gylliboði fjárglæframanns og glaðbeittir seldu þeir honum einkaafnot að vatnslindum fram á næstu öld. Það varð okkur til happs að einhverjir aðrir sáu í gegnum kauða. Ég er sammála þér um að við þurfum upplýsta, þroskaða umræðu, án þess að hana sé að finna í málflutningi þínum.

Sigurður Ingi Jónsson, 25.8.2009 kl. 13:21

24 identicon

Halla Rut hvaða fólki áttu við að koma frá,

 Ríkistjórnina

 eða OR fólkið

 eða Suðurnesja Rallysölumanninn  Árna Sigfússon og teymi hans

Ríkisstjórninni sem nú er, er frekar streystandi heldur xD og CO

OR er enn síkt af xD gróðrarfólki

Rally sölumaðurinn Árni Sigfússon vill selja allt, samanber fyrrverandi eignir Reykjanesbæjar sem þarf nú að leigja sömu eignirnar og ræður ekki við það eftir bankahrunið, því er þetta söludæmi um HS ORKU Árna eitt af því að reyna að bjarga Reykjanesbæ út úr skuldaskukkinu sem hann er búin að koma bænum í

Tryggvi Bjarnason (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 13:57

25 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Sigurður segir: "Ég er sammála þér um að við þurfum upplýsta, þroskaða umræðu, án þess að hana sé að finna í málflutningi þínum" 

Ég biðst forláts að hafa ekki tekið undir endalausar fordæmingarnar hér á annars hinu ágæta bloggi Láru Hönnu. Ég skal vera úti, hef lítinn áhuga á að taka við svona drullu. Enda óþarfi að nokkur maður sé á annarri skoðun en t.d. fólk eins og Sigurður. Allir á einni skoðun, alveg óþarfi að líta á málið frá fleiri hliðum en þess er hæst öskrar og er með mesta skítkastið. Verðí þér að góðu, Sigurður.

En bara svo þú vitir það, þá hafa erlendir aðilar nú þegar keypt aðgang að vatnslindum Hafnafjarðarbæjar (til útflutnings), enginn að missa vatnið út af því (enda Samfylkingin við völd þar á bæ). Og svo er Jón Bæjó með samning um aðgengi að vatnslind vatnsveitu Selfoss. Enginn heldur að missa vatnið yfir því (aftur, Samfylking og annað félagshyggjufólk við völd), þó það sérstaka mál sé reyndar umhugsunarvert, enda um sömu lind að ræða og Selfoss bær fær sitt vatn úr. En við skulum bara ekkert ræða eitthvað svona sem heitir "stærri mynd" eða "frekari upplýsingar", það þykir víst ekki þroskuð umræða né upplýst hjá sumum. Nei, best að standa bara og öskra, án þess að hafa nokkra hugmynd um að kannski séu aðrir fletir þarna úti. Fletir sem hægt er að ræða og beina okkur út á þroskaðri og gæfusamari en helvítis útrásavíkingarnir leiddu okkur út á.

Sigurjón Sveinsson, 25.8.2009 kl. 13:58

26 identicon

Í Bretlandi fóru ríki og sveitafélög þá leið að einkavæða allan orkugeirann frá og með Thatcher tímanum. Sá gjörningur hefur skilað almenningi um 400% hækkun á gjaldskrám orkufyrirtækja til almennings auk þess sem allur arður rennur beint í vasa hluthafa en ekki samfélagsins.

Einar (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 14:11

27 identicon

Búin að senda Steingrími bréf. Kærar þakkir fyrir alla þessa vinnu sem þú hefur lagt af hendi til að upplýsa okkur.

Berglind Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 14:22

28 identicon

Fundur Beaty og Steingríms var árangursríkur að mati þess fyrri. Bravó, Steingrímur, man það í næstu kosningum. Skiptir engu máli hvaða flokkar sitja í stjórn, sama viðhorfið í öllum hornum.

Ekki jók það álit mitt né hróður

engum þótti kveðskapurinn góður.

Hafsteinn Hafsteinsson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 14:30

29 identicon

Ég er ekki alveg að skilja hann Sigurjón Sveinsson hvaða vatnsrétt keypti Jón af Selfossbæ og svona til ábendingar þá heitir selfoss bær í dag Árborg og stendur saman af sveitarfélögunum Eyrarbakka, Stokkseyri, Selfoss og Sandvíkurhrepp ef ég man þetta allt rétt og vatnsréttur sá er Jón Ólafsson keypti leigði eða hvað sem hver vill nefna  það er bara alls ekki í landi þessara sveitarfélaga og langt frá því að vera sama vatnsból og íbúar selfoss eru að nota. Það vatnsból sem Jón Ólafsson og vatnsverksmiðja hans eru að nota eru í Ölfusi og því væntanlega í eigu Ölfusinga sem hafa ekki verið í sama sveitarfélagi og Selfoss er í dag.

með bestu kveðju um upplýstar umræður án skíts og sleggjudóma

Halldór (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 14:43

30 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Sigurjón, skil ég það rétt að óeðlileg fyrirgreiðsla til Jóns Ólafssonar eigi að réttlæta frekara afsal auðlinda til varanlegra afnota einkafyrirtækja? Ég lít á það sem víti til varnaðar.

Þá tel ég reginmun á því að afsala auðlindum til þriðja aðila, einkum ef það gæti orðið til þess að veitukostnaður heimila hækkaði, og því að veiturnar selji framleiðslu sína eins og vatnsveita Hafnarfjarðarbæjar gerir.

Ekkert af þessu snýst um öskur eða hjarðeðli heldur gagnrýna hugsun. Sporin hræða.

Sigurður Ingi Jónsson, 25.8.2009 kl. 15:06

31 identicon

Einar #28 nefnir einkavæðingu orkuiðnaðs í bretlandi. Í nýlegu Economist var talað um að fljótlega gæti bretland lent í svokölluðum "blackouts" vegna þess að eftir einkavæðingu þá hefur lítil hvatning verið til að búa til nýjar orkustöðvar þrátt fyrir aukna notkun.

Heimurinn er að fara inní tímabil ónægrar orku og ferskvatns og við sitjum á þessu án þess að gera okkur grein fyrir hversu mikil verðmæti þetta eru (og munu verða) og megum því ekki falla í þær gryfjur að láta skammtíma hagsmuni blinda okkur.

Örn Ingvar (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 17:21

32 identicon

Það afsalar engin þjóð auðlindum sínum til erlendra auðhringa - nema gjörspilltog skammsýn yfirvöld sumra þriðja heims ríkja og .......

TH (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 17:38

33 identicon

Það er okkar að verja LANDIÐ fyrir níðslu auðhringa sem bara huga að gróða í sinn vasa.

Guðrún Hlín (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 21:05

34 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæl verið þið á ný.

Veit að það er búið að vekja athygli á þessu viðtali áður; við Jónínu Benediktsdóttur á Bylgjunni.

http://bylgjan.is/?PageID=2734

Hvet alla til að hlusta vel, Jónína hefur um árabil talað gegn græðgisöflunum og ruglinu sem endaði í stóra hruninu, og stundum fyrir tómum eyrum, kannski vegna þess að sumum fannst hún lita heiminn of svartan og of hvítan. 

Jónína hefur líka lagt á sig mikla rannsóknarvinnu, sem sómi er að, minnistæð t.d. "spagettísúpan" sem hún fjallaði um í Silfri Egils löngu fyrir hrun.

Tek undir áhyggjur og óskir Jónínu í þessu viðtali.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 25.8.2009 kl. 22:51

35 identicon

Það er alltaf gæfumerki þegar fólk hefur skoðanir. Áríðandi tilkynningar eru mikilvægar og einskorðast þungi þeirra við lestur.Til eru nýleg dæmi að áríðandi tilkynning hafi verið svo lesin upp til agna að hún hafi horfið af viðkomandi vefsvæði. Þetta minnir á plötur Bítlanna sem voru spilaðar í gegn. Oft hef ég spurt mig hvað gerðist í þessu bankahruni? Og einfaldasta svarið er að guðin Mammon yfirgaf söfnuðinn. Söfnuðurinn saknar síns guðs en Guð vil ekkert með hann hafa. Eftir stendur aðeins sá Guð sem var hér áður og er enn og verður vonandi alla tíð. En þessi Guð er Guð kærleikans og hefur ímugst á hrænsni yfirborðskennd gróðafíkn og öðrum lágkúrukenndum mannfólksins. Í þessu ljósi má segja að bankahrunið hafi leitt yfir íslenska þjóð eitt skærasta ljós uppfyllt af von um miklu betri framtíð. Eina sem við þurfum að gera er að róga öldurnar og hætta að vagga bátnum fyrir sérhagsmuni og virða það sem Guð gaf okkur einstaklega fallega íslenska náttúru. 

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 23:09

36 identicon

Er málið hjá Reykjanesbæ , að sjálfstæðisflokkurinn með Árna Sigfússon fremstan, eru búnir að þurrausa bæjarsjóð og vantar meiri pening ?

Passið bara sálir ykkar, aldrei að vita nema sjálfstæðisflokkurinn takið þær og selji !

JR (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 23:48

37 identicon

Árni Sigfússon Johnsen var dálítð mikið bjartsýnn og í bæjarstjóratíð hans voru á nokkrum árum byggðar nær 2000 íbúðir í Innri-Njarðvík, sem flestar eru væntanlega óseldar og sumar ekki fullkláraðar. Á sama tíma losnuðu (eins og fyrirsjáanlegt var öllum sem fylgdust með umræðum, þ.m.t.  Árni Sigfússyni) 2000 íbúðir á Vellinum. Þetta þýðir ca. tvöföldun á fjölda íbúða í Reykjanesbæ á örfáum árum. Hvergi á höfuðborgarsvæðinu var offjárfesting í lóðum og húsum eins mögnuð og í Reykjanesbæ, sé miðað við fjölda útsvarsgreiðenda, eins og hlýtur að verða að gera. Því kæmi mér ekki á óvart, þótt fjárhagsstaða Reykjanesbæjar sé nú verri en flestra annarra sveitarfélaga á landinu. Það afsakar ekki óðagotið í Árna við að einkavæða allt og alla. Einkavæðing hans er trúlega ekki sjálfbærari en þau viðbrögð við kulda að míga í skóna.

Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband