29.8.2009
Þjóðaratkvæðagreiðsla eða ekki
Ég hef aldrei tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um neitt mál frekar en aðrir Íslendingar, enda hafa þær aldrei farið fram. Eftir heiftúðugar umræður undanfarinna mánaða - ef umræður skal kalla - um tvö stórmál, ESB og Icesave, finnst mér stór spurning hvort þjóðin sé nógu þroskuð og skynsöm fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Fólk hefur verið gífuryrt og sleggjudómar og svívirðingar tröllriðið umræðunni. Líkast til hafa þeir stóryrtustu fælt fleiri frá sínum málstað en þeir hafa laðað að. Öfgar á báða bóga hafa yfirgnæft skynsemisraddir og heilbrigða, hófstillta umræðu.
Eins og fram kom í Krossgátuþætti 25. apríl sl. þar sem Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir veltu vöngum yfir ýmsu, skortir Íslendinga sárlega rökræðuhefð. Sá skortur hefur svo sannarlega endurspeglast í pontu á Alþingi þjóðarinnar þar sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur stigið fram til að gaspra og gjamma, sletta skít á báða bóga og tapað sér í tittlingaskít. Á þessu hafa þó verið heiðarlegar undantekningar, sem betur fer.
Ég fékk bréf í gær frá Hirti Hjartarsyni, baráttumanni miklum og talsmanni þess að forseti Íslands samþykki ekki Icesave-lögin. Mér er ljúft og skylt að birta bréfið hans. Ég er sammála mörgu sem í því stendur þótt ég sé ekki sannfærð um að þjóðaratkvæðagreiðsla sé tímabær eins og ástatt er fyrir þjóðarsálinni. Vonandi mun ástandið lagast áður en ESB-samningur verður kynntur og lagður í dóm þjóðarinnar. Talan sem Hjörtur nefnir er frá í gær, margir hafa bæst við síðan.
Meirihluti þingmanna hefur samþykkt frumvarpið um ríkisábyrgð vegna Icesave-hneykslisins. Málið er þar með úr höndum Alþingis. Á vefsíðunni www.kjosa.is er safnað undirskriftum við áskorun til forseta Íslands um að synja frumvarpinu staðfestingar þannig að almenningur geti gert út um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Meginrökin eru þríþætt: Fjárskuldbindingin sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðin gangist undir er fordæmalaus, bæði stærð skuldbindingarinnar og hvernig til hennar var stofnað. Þótt líta megi svo á að almenningur á Íslandi beri ábyrgð á bankastarfseminni" að baki Icesave, þá verður tæplega sagt að almenningur eigi sök á henni. Sama er að segja um stórfellda vanrækslu íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna, en allt er þetta efniviður í langvinnt ósætti. Í öðru lagi á almenningur kvölina af Icesave-hneykslinu, hvort sem ríkisábyrgðinni verður hafnað eða hún samþykkt. Í þriðja lagi virðist fullreynt að ná sæmilegri sátt meðal þjóðarinnar um málið eftir hefðbundnum leiðum. Hver þessara röksemda, útaf fyrir sig, nægir til þess að réttlæta þjóðaratkvæðagreiðslu. Tvær fyrst nefndu snúast um sanngirni og réttlæti. Síðast talda röksemdin lýtur að sátt. Í einu orði mætti nefna þetta lýðræði. Röksemdirnar sem tilteknar eru í áskoruninni eru ekki fleiri, en hin sögufræga gjá milli þings og þjóðar er látin liggja milli hluta. Hún er vel kunn.
Sé litið til ástandsins í samfélaginu, þyngjast enn rökin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér ríkir ógnvænlegt vantraust á stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, embættismönnum og stjórnsýslustofnunum. Vantraust sem líklega er fordæmalaust í vestrænu lýðræðisríki". Stjórnmálastéttin hefur að formi til umboð þjóðarinnar í málinu, en ekkert umfram það. Reiðin kraumar. Icesave-krísan er orðin að táknmynd hrunsins og almenningur verður að fá að gera út um hana sjálfur beint og milliliðalaust. Að öðrum kosti verður Icesave-gremjan viðvarandi næstu árin til stórkostlegs skaða fyrir íslenskt samfélag og lífsnauðsynlega endurlausn þess. Farsæl niðurstaða í Icesave-deilunni er sú sem þjóðin nær sátt um. Niðurstaða sem magnað ósætti ríkir um er röng. Við þurfum að jafna ágreininginn um Icesave í samfélaginu, og það gerum við með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þeir eru sannarlega til sem vonast eftir gruggugu vatni að fiska í.
Forsætisráðherra sagði Icesave eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar fyrir og síðar." Hvað þarf til á Íslandi þannig að almenningur fái að gera sjálfur út um mál, milliliðalaust? Af hverju er almenningur á Íslandi aldrei spurður um neitt? Okkur stafar ekki hætta af lýðræði. Ekki af því að almenningur fái meiru ráðið um örlög sín. Það var ekki lýðræði sem keyrði samfélagið í þrot. Íslenskt samfélag er statt þar sem það er statt vegna ofríkis íslenskra stjórnmálaflokka og tortryggni stjórnmálamanna í garð lýðræðishugmynda og vantrú þeirra lýðræðislegum vinnubrögðum. Kerfið sem þeir byggja völd sín á er komið að fótum fram.
Forsetaembættið getur ekki tekið afstöðu til málsins. Embættið getur aðeins gert þjóðinni kleift að eiga síðasta orðið, samanber 26. gr. stjórnarskrárinnar. Aumt væri að gefa frá sér baráttulaust stjórnarskrárvarinn rétt sem almenningur á til þess að taka mál í sínar hendur. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Vel á fimmta þúsund manns hefur þegar skorað á forseta Íslands að vísa málinu í okkar hendur". Það eru um 1,5% kjósenda, en á Ítalíu og í Sviss, til dæmis, myndi það duga ríflega til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Áskorunin er sett fram í trausti þess að forseti Íslands fallist á röksemdirnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Við vonum samt og treystum á framtakssemi almennings - þeirra sem munu borga Icesave-reikninginn. Tíminn er naumur.
Hjörtur Hjartarson,
talsmaður Í okkar hendur" á vefsíðunni www.kjosa.is
Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 28. og 29. ágúst 2009
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:45 | Facebook
Athugasemdir
Svona mál eru fölsuð áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur. Þegar búið er að setja málið upp í svart-hvítt eru ekkert eftir nema réttlætingar á orðnum hlut. Þjóðaratkvæðagreiðsla nú getur ekki annað en gert þjóðina meðseka á því rugli sem náði hámarki sl. október og Alþingi afgreiddi nú.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 21:07
Er ekki eitthvað öfugsnúið við það þegar sumir Sjálfstæðismenn eru farnir að mæna í átt til Bessastaðabóndans í von um að hann "bjargi" þjóðinni frá meintri glötun?
Öðruvísi mér áður brá!
Kama Sutra, 29.8.2009 kl. 21:24
Eitt er ég ánægður með í sambandi við Icesave málið og það er hve Þingið kom þar afgerandi að málatilbúnaði. Ég vil sjá þingið miklu sterkara og tel að nefndir þingsins ættu í raun að koma að helstu úrlausnar málum þjóðarinnar strax í upphafi. Þetta ráðherravald er óþolandi. Ég tel ekki að óbreyttu hægt að skjóta icesaveábyrgðinni í dóm þjóðarinnar. Til þess vantar allar forsendur í lögum varðandi þátttöku og vægi atkvæða. Hvað ef þátttaka er undir 50%? Hvað ef þátttaka er 30%? Eiga þá meirihlutinn af 30% að ráða? Kannski bara 16% af þjóðinni? Nei, við þurfum fyrst að fjalla um það og annað sem lýtur að lýðræðinu beint á komandi stjórnlagaþingi.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.8.2009 kl. 21:37
Eitt set ég spurningarmerki við.
Bretar og Hollendingar vísa til EES og segja okkur lagalega skuldbundin til að borga reikninginn. Ekki eru allir sammála þeim í því efni. Spurningin er þessi: Getur þjóðin tekið afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við berum þessa lagalegu skyldu? Ef svo er getur hún þá ákveðið hvort Ísland fari að lögum eða ekki?
Aðalheiður Ámundadóttir, 29.8.2009 kl. 22:00
Jamm,
Þjóðin greiðir um það atkvæði hvort ríkisábyrgð verði veitt eða ekki (er reyndar í verkahring alþingis skv. stjórnarskrá). Setjum sem svo að ríkisábyrgðin verði felld. Dómstólaleiðin er þá eftir fyrir Hollendinga og Breta. Þá er fátt til varna, því þeir sem fara með ríkisvaldið (þingið og ríkisstjórn) hafa viðurkennt ábyrgðina. Setjum svo að héraðsdómur komist að því að innstæðutryggingasjóði beri að borga, og EFTA dómstóllinn að því að ríkissjóði beri að sjá til þess að peningar séu í sjóðnum. Þá yrði komin skringileg aðstaða. Þjóðin neitar að borga en lögin segja að svo verði að vera. (Nú þýðir ekki að segja að dómsniðurstaðan geti allteins orðið önnur - alltaf verður að búast við að dómsniðurstaða geti orðið mótdræg).
Að ekki sé talað um tímasóunina. Ekkert verður gert, engin endurreisn, jafnónýt króna meðan slegist verður í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar, fyrir utan tímann sem fer í að bíða eftir úrslitum dómsmála og áfrýjana. Gangur íslenska réttarkerfisins er slíkur að slíkur prósess, málshöfðun, dómtaka, áfrýjun, álit EFTA-dómstóls o.s.frv. tekur yfirleitt nokkur ár.
Verði ÓRG við áskorun um að neita ríkisábyrgðarlögunum staðfestingar yrði það því eitt ábyrgðarlausasta embættisverk eða verkleysi sem nokkur íslenskur stjórnmálamaður/embættismaður hefur gert sig sekan um og er þó af mörgu að taka.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 22:20
Álþingi er kostaður gúmmístimpill og maskínur úti í bæ semja lögin sem stimpillinn síðan afgreiðir. Þannig hefur þetta gengið með fyrirsjáanlega skelfilegum afleiðingum. Gervidemókratar í eigu peningaafla hafa sett okkur skipulega á hausinn og auðveldað eigendum sínum að stela landinu og flytja það út. Þetta hefur verið þjófastýrt hóruræði fjórskipta einflokksins og er enn eins og hver maður sér. Núna eiga hórumangararnir að fá leifarnar á slikk.
Baldur Fjölnisson, 29.8.2009 kl. 22:37
Nú hefði verið gott að hafa skýr lög um hvenær, hvernig og um hvaða mál á að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur.
Solveig (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 23:00
Það eru enn Íslendingar á lífi sem tóku þátt í síðustu tveim þjóðaratkvæðagreiðslum árið 1944; afnám sambandslaganna og samþykkt ný stjórnarskrá ásamt stofnun lýðveldis.
Ef vilji er fyrir því að halda þjóðaratkvæðagreiðslur er lítið mál að athuga hvernig þær fóru fram á heimastjórnar og fullveldistímabilunum. Hér er 18.gr sambandslaganna:
Hægt er að sjá gamlan pistil sem ég skrifaði um þetta hér.
Axel Þór Kolbeinsson, 29.8.2009 kl. 23:07
Kæra Lára Hanna,
Þetta er skoðun mín á ICESAFE-lögunum og hlutverki og skyldum forseta Íslands:
Að mínu mati þá verður lítið lagfært af sjálfu sér hjá okkar ástkæru yfirstétt - frekar en fyrridaginnl
Nú, þegar eitthvert allra stærsta mál í sögu lýðveldisins hefur verið afgreitt á Alþingi Íslendinga - ICEASAFE-málið - með 34 atkv með og 28+1 á móti, þá spyr ég mig;
HVENÆR Á ÞESSI BLESSAÐA ÞJÓÐ AÐ FÁ AÐ SEGJA NOKKURN SKAPAÐAN HLUT UM AFSTÖÐU SÍNA TIL MÁLA SEM SKIPTA HANA FYRST OG FREMST MÁLI?
HVENÆR ÆTLUM VIÐ AÐ TAKA OKKUR SJÁLF ALVARLEGA OG KREFJAST ÞESS AÐ FÁ AÐ SEGJA OKKAR SKOÐUN Í ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU UM MENN & MÁLEFNI?
Nú stöndum við berskjölduð á nærbuxunum rænd um miðjan dag af bjöggum þessa lands - nágrönnum okkar flokksbræðrum og frændum - og við ætlum barasta eins og fyrri daginn að láta okkur hafa það... og hósta aðeins og kyngja djúpt kögglinum sem er í hálsinum á okkur (og bíður snörunnar...?).
HVAÐ ER AÐ MARKA EMBÆTTI FORSETA ÍSLANDS OG STJÓRNARSKRÁNA EF ÞJÓÐIN ER A L D R E I SPURÐ AÐ NEINU?
Fyrir hvern er þá þessi stjórnarskrá og þessi forseti?
Ég tel að eina færa leiðin út úr gamla spillta Íslandi sé að virkja lýðræðið. Það á að bera undir okkur flest mál - stór og smá. Fulltrúalýðræðið átti við þegar þjóðfélagið var í fornöld með allar sínar torfærur.
Nú er öldin önnur. Til eru tölvur og símar og gemsar og gvöð má vita hvað.
EN EITT ER VÍST - að mínu mati - OG ÞAÐ ER AÐ HÉR VERÐUR ENGIN BREYTING Á HINNI SIÐSPILLTU YFIRSTÉTT NEMA FÓLKIÐ TAKI RÁÐIN Í SÍNAR HENDUR!!!
HELDUR ANNARS EINHVER AÐ YFIRSTÉTTIN SPILLTA FARA AÐ LAGA TIL HEIMA HJÁ SÉR BARA AF ÞVÍ HANA LANGAR SVO MIKIÐ TIL AÐ VERA EINS OG ALMÚGINN? KOMMON!!
Not a chance in hell !!!
Þess vegna er nauðsynlegt að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um ICESAFE-lögin.. Ekki vegna þess að ég t.d. vilji endilega fella þau og greiða atkvæði á móti (sem er til í dæminu) - heldur vegna þess að ef það verður ekki gert þá blasir við sama deilan og klauf þessa þjóð í herðar niður í amk. hálfa öld - þ.e.a.s. stofnaðild okkar að Atlantshafsbandalaginu (NATÓ).
Þegar LýðræðisFLOKKARNIR voru að taka afstöðu til þess hvort spyrja ætti þjóðina að því hvort við ættum að verða stofnaðilar að NATÓ - nú þá gerðu lýðræðisflokkarnir viðhorfskönnun (í leyni...) um afstöðu kjósenda til málsins í ársbyrjun 1949. Niðurstaðan varð sú að mikill meirihluti þjóðarinnar vildi EKKI að Ísland tæki þátt í hernaðarbandalaginu. Þar með var hið nýja lýðveldi Ísland, sem var þá að verða 5 ára, drepið drottni sínum í fæðingu og fært í hendur Fjörflokkanna (eða öllu heldur Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum = samkv. helmingaskiptareglunni.
Flokkarnir áttu eftirleiðis allt geimið.
VIÐ HÖFUM ALDREI VERIÐ SPURÐ UM AFSTÖÐU OKKAR TIL EINS EÐA NEINS! ÞETTA SVOKALLAÐA LÝÐVELDI MEÐ SÍNU LÝÐRÆÐI ER BARA PLAT OG HEFUR VERIÐ ÞAÐ FRÁ UPPHAFI (sbr USSR eða DDR) - EÐA FRÁ ÞVÍ AÐ ÞJÓÐIN VAR AÐEINS EINU SINNI SPURÐ - ÁRIÐ 1944 - UM ÞAÐ HVORT HÚN VILDI VERÐA SJÁLFSTÆÐ ÞJÓÐ OG STOFNA LÝÐVELDIÐ ÍSLAND. Þá sagði þjóðin Já Takk - og svo ekki söguna meir...
Eftir þá þjóðaratkvæðagreiðslu máttum við einu gilda. Völdin voru endanlega og fullkomlega formlega og löglega komin í hendurnar á Fokksklíkunum, sem sáu um að reka LÝÐVELDIÐ & LÝÐRÆÐIÐ í okkar nafni!
,,Fólk er fífl" - eins og allir vita sem völdin hafa.
En...en... en... það er þó einn öryggisventill á þessu siðspillta kerfi. Og það er embætti FORSETA LÝÐVELDISINS.
Forseti Íslands er eini maðurinn (eða konan) sem fær umboð beint frá þjóðinni í lýðræðislegum kosningum. Allir Íslendingar á kosningaaldri geta kosið og öll akvæði eru jafnrétthá.
Sem sé, eina embættið sem hefur raunverulegt umboð frá þjóðinni er embætti forseta lýðveldisins.
EN ALDREI HEFUR ÞESSI UMBOÐSMAÐUR ÞJÓÐARINNAR SAMT VÍSAÐ LÖGUM FRÁ HINU SPILLTA ALÞINGI TIL ÞJÓÐARINNAR - utan fjölmiðlalaganna sællar minningar - sem Davíð Oddsson sá samt um að drepa með sinni blossandi lýðræðisást - OG FORSETINN VAR AF BAKI DOTTINN OG GERÐI EKKI NEITT Í ÞVÍ ÞÓ STJÓRNARSKRÁIN VÆRI BROTIN (ekki bara axlabrotin -heldur mölbrotin...).
TIL HVERS ER ÞESSI FORSETI EF HANN GERIR EKKER ANNAÐ EN AÐ MÆRA ÚTRÁSARVÍKINGA & SKÁLA Í SÓDAVATNI VIÐ RÍKA & FRÆGA FÓLKIÐ Í HEIMINUM? HVAÐ ER MAÐURINN AÐ GERA ÞARNA Á BESSASTÖÐUM? ER HANN ÞARNA FYRIR OKKUR ÍSLENDINGA - ÞJÓÐINA OG HENNAR HLUTSKIPTI & ÖRLÖG - EÐA ER HANN ÞARNA BARA TIL AÐ TRYGGJA AÐ ÞESSI SIÐSPILLTA YFIRSTÉTT HALDI ÁFRAM AÐ NAUÐGA ÞJÓÐINNI?
ÉG S P Y R : ER EKKI KOMINN TÍMI TIL AÐ SPYRJA OKKUR ÍSLENDINGA, SEM ERUM ÞJÓÐIN, HVAÐ VIÐ VILJUM???????
AÐ MÍNU MATI ER EINA FÆRA LEIÐIN ÚT ÚR ÞESSUM ÓGÖNGUM SPILLTRAR YFIRSTÉTTAR AÐ LEITA TIL ÞJÓÐARINNAR BEINT. ÞAÐ Á AÐ LEGGJA ÖLL MEIRIHÁTTAR MÁL Í ÞJÓÐARATKVÆÐI. EF ÞAÐ VERÐUR EKKI GERT NÚNA - S T R A X - ÞÁ ER VOÐINN VÍS FYRIR OKKUR ÖLL.
Ef þjóðin verður ekki með í þessu ICESAFE-máli þá er vel hugsanlegt að við séum að ganga inn í Sturlungaöld-hina-síðari með öllum þeim hræðilegu afleiðingum sem borgarastyrjöld hefur í för með sér.
... ég bara spyr?
Hans Kristján Árnason
kt.: 051047-4009
Hans Kristján Árnason (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 23:50
Í umrótinu eftir búsáhaldabyltinguna var talað um aukið lýðræði. Minnihlutastjórn VG og Samfylkingar vildu að aðeins þyrfti 15% þjóðarinnar að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að slík færi fram. Þetta þótti mörgum ganga helst til of langt. Eftir kosningar hefur þessi sama ríkisstjórn haft tækifæri til þess að sýna lýðræðisást sína með því að leggja tvö stærstu mál sem komið hafa fram á Alþingi fyrir þjóðina, ESB og Icesave. Nei þá eru málin of stór, of flókin, og þetta lýðræðiskjaftæði allt of flókið. Ef málið snérist um kattahald mætti þjóðin kjósa. Ef þjóðin hefði verið spurð í skoðanakönnunum þá hefðu bæði þessi mál eflaust verið felld. Ef þjóðin hefði verðið spurð hvort hún tryði því að þessi mál yrðu lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði niðurstaðan eflaust verið að um 90% tryði ekki að þessi mál yrðu lögð fyrir þjóðina.
Þeir sem halda að Ólafur Ragnar Grímsson muni neita að skrifa undir eru á villigötum. Útspil hans varðandi fjölmiðlafrumvarpið hafði ekkert með vilja þjóðarinnar að gera. Málið snérist um stríð þeirra Ólafs og Davíðs. Eflaust hefur dálæti Ólafs á útrásarvíkingunum haft sitt að segja. Það eina sem Ólafur Ragnar mun gera það sem hann á eftir í embætti er að sitja til loka, rúinn trausti þjóðarinnar.
Sigurður Þorsteinsson, 30.8.2009 kl. 00:09
Það er kominn tími á þjóðaratkvæðagreiðslu, NÚNA og þó fyrr hefði verið.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.8.2009 kl. 00:14
Tek undir með Sigurði Þorsteinssyni.
Það sem Ómar Harðarson segir er ekki rétt. Þó Alþingi hafi samþykkt ríkisábyrgð, þá breytir það ekki alþjóðalögum. Ef ríkisábyrgðin yrði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu og Holland og Bretland fara í mál, þá er einfaldlega dæmt að lögum.
En þeir færu aldrei í mál vegna þess að þeir vita að þeir myndu tapa málinu. Bankarnir voru í fyrsta lagi ekki seldir með ríkisábyrgð og í öðru lagi þá varð hér bankahrun sem er allt annar handleggur en gjaldþrot einstaka banka.
Ef allir bankar í þessum löndum hefðu farið sömu leið og bankarnir hér, haldið þið þá að ríkisstjórnir landanna hefðu samþykkt ábyrgð á þeim öllum?
Nei, auðvitað ekki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.8.2009 kl. 00:33
Íslensk yfirvöld ábyrgðust að fullu innistæður Íslendinga.
Að gera ekki slíkt hið sama við innistæður erlendra ríkisborgara er gróf mismunum ásamt því að vera bæði ólöglegt skv. EES/ESB sáttmálanum og ósiðlegt með öllu.
Verðum að semja um þetta.
Guðgeir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 01:46
Lýðræði er yfirleitt aldrei tímabært. Lýðræði er venjulega óheppilegt nema þegar valdhöfum hentar. Í tilefni af orðum Gunnars Helga í fréttum stöðvar2 fyrr í kvöld vil ég segja þetta:
Rök hans gegn þjóðaratkvæðagreiðslu draga skammt.
Reyndar eru það augljóslega ekki rök gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um icesave-frumvarpið, að ekki sé hægt að bera milliríkjasamninga og fjárlög undir þjóðaratkvæði í Danmörku. Slíkar undantekningar eru reyndar sjaldgæfar í löndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tíðkaðar þótt fyrir þeim séu annars rök, út af fyrir sig.
Fjárhagsábyrgð vegna icesave-samninga er ekki venjubundin á borð við fjárlög eða milliríkjasamninga, heldur algjörlega einstakt fyrirbrigði í sögu íslensku þjóðarinnar. Fullkomlega ósambærilegt við þær almennu undantekningar sem dönsk lög kveða á um.
Ef ekki finnast ekki skárri rök en þetta, þá er einboðið að forseti Íslands vísi icesave-frumvarpinu til þjóðarinnar.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 02:40
Ég velti því fyrir mér hvort þér þyki þjóðin nógu þroskuð og skynsöm til að taka þátt í kosningum yfir höfuð Lára Hanna.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 09:14
Ég setti þessa færslu á bloggið hjá mér:
Einar Karl, 30.8.2009 kl. 09:25
Auðvitað hef ég ekki rétt fyrir mér um dómsniðurstöðuna. Það veit engin fyrr en hún fellur eftir áfrýjanir og allt það. Gunnar Th veit það auðvitað ekki heldur. Það verður hins vegar a) gera ráð fyrir að hún geti verið andstæð Íslendingum og b) að hún taki tíma og þar með komi í veg fyrir að íslenska ríkið og fyrirtæki hafi lánstraust erlendis á meðan réttarhöldunum stendur. Þetta bætist ofan á þann tíma sem tekur fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna að fara fram.
Það eru þessi atriði sem gera það að verkum að það væri algerlega ábyrgðarlaust að láta fram þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum tímapunkti
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 09:33
Íslenskt auðvald og valdastétt hefur beðið hnekki. Í tvo áratugi hefur verið fylgt stefnu sem virtist ætla að skila af sér ótrúlegum auðæfum, Midas konungur virtist vera á meðal vor, og íslenskir ríkisborgarar komnir á lista yfir 100 ríkustu menn heims. Í fararbroddi var Sjálfstæðisflokkurinn og á Landsfundi flokksins 26. apríl 2007 sagði Geir H. Haarde formaður eftirfarandi í setningarræðu sinni:
„Við höfum byggt traustan grunn á síðustu árum, lagt grunninn að frekari framförum íslensku þjóðarinnar. Framundan eru nýjar áskoranir, ný tækifæri – nýir tímar...“
En „nýir tímar“ reyndust vera öðruvísi en formaður Sjálfstæðisflokksins útlistaði fyrir glaðlegum hópi landsfundargesta í vorblíðunni 2007. „Nýjar áskoranir“ felast í því að halda þessari þjóð á floti, að bjarga því sem hægt er og byggja upp nýja framtíð á öðrum grunni.
Geir sagði einnig um gagnrýni stjórnarandstöðunnar: „En ef mesta framfaraskeið hagsögunnar endurspeglar mistök í hagstjórn, skulum við sjálfstæðismenn fúslega gangast við þeim. Nei, góðir fundarmenn. Stóru hagstjórnarmistökin yrðu þau, að Vinstrigrænir og Samfylking tækju hér við stjórn efnahagsmála...“
Nú eru „stóru hagstjórnarmistökin“ tekin við og VG og Samfylking sitja uppi með þrotabú dólganna sem lögðu grunninn. Allir vita hverjir það eru, einfaldast er að nota þeirra eigin nafngift: Eimreiðarhópurinn. Geir H Haarde, Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Kjartan Gunnarsson og Jón Steinar Gunnlaugsson eru þekktustu nöfnin, allt innmúraðir sjálfstæðismenn.
Þau stórkostlegu skemmdarverk sem þeir unnu á efnahagslífi þjóðarinnar munu kosta hvern einasta Íslending milljónir á komandi árum. Sama hvað verður gert, þetta er hin óumflýjanlega niðurstaða.
Þeir sem kusu þennan flokk til valda, og einnig þeir sem exuðu við Framsóknarflokkinn verða að viðurkenna að þeim hafa orðið á mistök. Þjóðin býr við þá gerð lýðræðis sem skilaði þessum árangri. Hægt og bítandi náði framkvæmdavaldið (f.o.f í höndum Sjálfstæðisflokksins) til sín valdastofnunum ríkisins og gerði Alþing að afgreiðslustofnun. Einngi var seilst inn í dómstólana og guð má vita hvar allt hefði endað ef „við hefðum bara haldið áfram“ eins og Hannes Hólmsteinn sagði í frægu viðtali. Það var ekki þjóðin sem stoppaði vitleysuna í kosningum – kerfið hrundi innanfrá.
En nú að skrifum Hönnu Láru:
Ég er mjög hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum og skortur á þeim hefur verið mikill hér á landi. En ég tel að öll skref verði að taka með varúð og að mesta skítinn verði að moka úr flórnum áður en við getum tekið næstu skref í þróun lýðræðis.
Það er ekki búið að gera upp aðdraganda hrunsins, þjóðin er ekki búinn að smakka á beiskustu bitunum. Samþykkt Icesave samninganna er neyðaraðgerð til þess að hindra að við sökkvum enn dýpra.
Við þessar aðstæður tel ég óframkvæmanlegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu – stór hluti þjóðarinnar er reiður og á henni dynja allskonar upplýsingar og útúrsnúningur. Sannleikurinn um hrunið er hægt og bítandi að koma í ljós, en það er margt eftir sem verður að rannsaka og upplýsa.
Hjálmtýr V Heiðdal, 30.8.2009 kl. 09:56
Ég veit ekki hvort það var ætlun þín Lára Hanna en þetta var svona "þið eruð ekki þjóðin" comment hjá þér. Ég býst ekki við neinu af forseta Íslands og myndi því aldrei biðja hann um neitt þannig að mér dettur ekki í hug að rita nafn mitt á listann til hans. Til þess fyrirlít ég hann of mikið. Ég er hins vegar fullviss um að ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi þá myndi Icesave málið falla. Þjóðin býr yfir meiri viljastyrk heldur en ráðamenn hennar halda. Þjóðaratkvæðagreiðsla væri fín leið til þess að þjóðin fengi að segja sitt og taka afleiðingunum án þess að populista stjórnmálamenn þurfi að sitja uppi með ákvörðunina.
Anna María (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 10:08
Hjálmtýr Heiðdal! Hefurðu prófað að lesa þennan texta sem þú skrifaðir. Þetta er alveg stórkostlegt ritverk.
Fyrst stjórnmálaskýring. Tilvitnun í Geir Haarde og ræðu sem hann hélt á landsfundi flokksins síns.
Par mánuðum eftir þessa ræðu tók Samfylkingin við stjórninni EKKI gleyma því. Er sú fylking þá ekki líka í sama liði og dólgarnir? Vann sú fylking ekki líka "stórkostlegt skemmdarverk á efnahagslífi þjóðarinnar"? Ég veit ekki betur en „eftirlitsiðnaðurinn“ hafi verið undir þeirra stjórn í heil tvö ár fyrir hrunið og gloppur í stjórnun þeirra mála „muni kosta hvern einasta Íslending milljónir á komandi árum“.Svo kemur þessi makalausi texti. Það hefur verið mikill skortur á þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi og taka þarf skref fram á við í þróun lýðræðis hér. Hins vegar er þjóðin ekki í jafnvægi til að sjá um sig sjálf. Fólkið í landinu getur ekki tekið upplýsta ákvörðun sjálft af því það er svo reitt. Svo eru líka þarna úti menn sem eru að rugla fólk með alls konar athugasemdum sem eru ekki réttar, eða öllu heldur „réttar“. Við eigum líka eftir að rannsaka aðdraganda hrunsins áður en við getum treyst þjóðinni. Gott ef við ættum ekki að klára Geirfinnsmálið áður líka og kannski að taka umræðu um þróunarkenningu Darwins. Við verðum að vita sannleikann áður en hægt er að treysta þjóðinni fyrir valdinu.Með öðrum orðum „Fólk er fífl!“.Grétar (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 11:48
Þjóðaratkvæðagreiðsla myndi snúast um fyrirliggjandi lög um ríkisábyrgð eins og Alþingi afgreiddi þau frá sér (icesave-frumvarpið). Gera má ráð fyrir að fólk taki afstöðu út frá mörgum mismunandi sjónarmiðum.
Að þjóðin sé ekki nógu þroskuð til að gera út um mál eru almenn og gamalkunnug rök gegn lýðræði yfirleitt. Þau eru jafngild nú og á 19. öld.
„Látum oss fyrst efla menntun kvenþjóðarinnar áður en vjer förum að dyngja á þær politískum störfum.“ Menntun karlanna væri nógu slök, „en enn þá minni er hún hjá kvenfólkinu.“
Klemens Jónsson í umræðum um kjörgengi kvenna 1893.
Er til ein rétt niðurstaða í málinu? Hver er hún?
www.kjosa.is
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 12:12
Bara eitt enn: Lýðræðisleg umræða er ekki alltaf áferðarfalleg. Hún er hins vegar nauðsynleg ef við ætlum að halda uppi einhverskonar lýðræði yfirleitt. Umræða - með öllum sínum hroða - er líka upplýsandi, þrátt fyrir allt. Eða eru menn á því að umræður síðustu vikurnar hafi ekki verið til neins? Hefði átt að sleppa þeim til að losna undan sleggjudómunum?
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 12:39
Þetta er sakamál.
Af hverju var ekki byrjað á þeim sjálfsagða enda. Þjóðin getur ekki verið ábyrg fyrir glæpaverkum fámennrar klíku?
Hvað ef Landsbankinn í London hefði verið rændur utanfrá, af svona hefðbundnum ræningjum frá East End, og ekki getað staðið í skilum? Ætti íslenski tryggingasjóðurinn og íslenska þjóðin að bæta það líka?
IceSave er eðli sínu rangt og þess vegna á þjóðin að hafa lokaorðið.
TH (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 18:25
Sæll Grétar
Það er skrýtin spurning hjá þér í upphafi. Ef ég hef skrifað textann þá hlýt ég að hafa lesið hann. Nokkuð augljóst. Þú ert kanski að vísa til þess að ég lesi hann frá öðru sjónarhorni. Það er erfitt eins og stendur þar sem ég byggi mitt sjónarhorn á þeirri vitneskju sem ég tel mig hafa núna.
Þú telur að Samfylkingin eigi heima í „dólga“ hópnum. Ég er að fjalla um þá sem lögðu grunninn að ástandinu og mér sýnist að lögheimilið sé vel skráð. Samfylkingin kom síðar í ríkisstjórn og þá var hrunið óumflýjanlegt. Menn gerðu sér hins vegar ekki grein fyrir því, það má sjá á atferli og orðum þeirra sem stóðu að þeirri ríkisstjórn. M.a. sagði Ingibjörg Sólrún skömmu fyrir hrun að á Íslandi væri ekki kreppa. Auðvitað var kreppan komin og búin að bíta sig fasta, en stjórnmálamenn augljóslega óupplýstir um raunverulegt ástand.
Þú skrifar að „eftirlitsiðnaðurinn“ hafi verið undir stjórn Samfylkingarinnar - þessi fullyrðing er röng. Björgvin var ráðherra bankamála og ég sé ekki betur en að hann hafi verið jafn grænn og aðrir. Geir Haarde talaði fram á það síðasta um að hlutirnir væru í eðlilegu horfi. Davíð tók svo yfir stjórnina (það er niðurstaða 3ja bóka sem ég hef lesið um hrunið) og leiddi hrunadansinn áfram. Þú verður að greina á milli þeirra sem lögðu grunninn að útreið Íslands og aðila sem voru á vettvangi án þess að eiga mikla möguleika á breytingum.
Icesave málið er gjöf sem þjóðin fær frá frjálshyggjuflaninu.
Þú túlkar mín orð um þjóðaratkvæðagreiðslur þannig að ég vantreysti þjóðinni til ákvarðanna. Ég hef alltaf fylgt þeirri stefnu að beint lýðræði sé farsælast. En ég vil jafnframt ástunda rökræðu og upplýsingasöfnun sem skilar fólki góðum niðurstöðum. Í umræðunni um ESB hefur borið mikið á bulli og vitleysu og þess vegna taldi ég að þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort það ætti að fara í aðildarviðræður hafi verið misráðin. Þá hefði þjóðin tekið afstöðu til mála án nægilegra upplýsinga um stöðuna. Sama gildir um Icesave. Það mál er ein stærsta birtingarmynd svikamyllunnar sem þjóðin situr uppi með. Þetta mál verður að afgreiða strax til þess að koma þjóðlífinu á ferð. Heildarmyndin er ekki orðin skýr og þess vegna get ég ekki séð að þjóðin geti gengið til kosninga við ríkjandi aðstæður. Þetta er mitt mat og þú mátt túlka það með þínum hætti. Geirfinnsmálið og þróunarkenning Darwins eru varla tilefni til þjóðaratkvæðagreiðslu.
En bæði málin kveikja enn miklar deilur, m.a. er hópur fólks í Bandaríkjunum sem telur kenningar Darwins vera villukenningu. Það er auðvelt að sjá fyrir hvernig sá hópur myndi kjósa ef afstaða til Darwins yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu í BNA.
Hjálmtýr V Heiðdal, 31.8.2009 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.