2.9.2009
Fáránlegur farsi
Sala Orkuveitu Reykjavíkur á hlut sínum í HS Orku til Magma Energy verður æ farsakenndari eftir því sem fleiri tjá sig um hana og reyna að verja hana. Mér finnst skelfilegt að horfa upp á þennan fáránleika. Það er deginum ljósara að þjóðin vill alls ekki einkavæða orkuframleiðsluna, sem er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins. Að minnsta kosti ef marka má hljóðið í þeim sem tjá sig um málið. Þeir eru æfir.
Nú reynir á borgarstjórn Reykjavíkur. Þar ræður Sjálfstæðisflokkurinn ríkjum í hrossakaupasamstarfi við Framsóknarflokkinn. Sá örflokkur var næstum dottinn út úr borgarstjórn í síðustu kosningum en slefaði einum manni inn út á 4.056 atkvæði (af 64.895), eða rétt rúm 6%. Upphaflega var Óskar Bergsson aðeins í 3. sæti listans, en vegna óánægju eins og spillingar annars lenti hann í efsta sætinu og var til í að verða viðhald Sjálfstæðisflokksins - gegn gjaldi, vitaskuld. Meðal gullmolanna í herfangi Framsóknarmanna var að endurheimta Orkuveitu Reykjavíkur sem er, að því er virðist, akfeitur pólitískur bitlingur. Óskar skipaði vin sinn og flokksfélaga, sem var í 14. sæti á lista flokksins í Reykjavík, stjórnarformann OR og sá er nú að ráðskast með verðmætar eigur borgarbúa að eigin vild og flokksins. Við getum rétt ímyndað okkur hvað maður í 14. sæti hjá flokki með 6% atkvæða í kosningum hefur sterkt umboð frá kjósendum. En flokksbræður hans græða á orku og virkjunum - þeir eru margir í þeim bransa - og þá er ekkert spurt hvað sé almenningi fyrir bestu, eða hvað?
Ég sá frétt á Sky sjónvarpsstöðinni í gær þar sem rætt var við skuggaráðherra orkumála í Bretlandi. Hann var ómyrkur í máli og sagði að orkuskortur gæti farið að hrjá Breta innan 8 ára. Verið er að loka kolaorkuverum þar í landi vegna gróðurhúsaáhrifa og deilt er um hvað eigi að koma í staðinn. Ég horfði líka á viðtal á netinu, sem lesandi síðunnar benti mér á, við mann að nafni John Beddington, sem er vísindalegur ráðgjafi stjórnarinnar í Bretlandi og las svo líka viðtal við hann. Framtíðarsýn hans er ófögur og hann tengir saman fólksfjölgun í heiminum, fæðu- og vatnsskort, hnattræna hlýnun og - en ekki hvað - orkuskort.
John Beddington segir að eftirspurn eftir ferskvatni muni aukast um 30% og orku um 50% á næstu 20 árum. Getið þið ímyndað ykkur hvað verðið á eftir að hækka mikið á vatninu okkar og orkunni ef eftirspurnin eykst svona mikið og svona hratt? Svo eru nokkrir stjórnmála- og embættismenn að selja bæði vatnið og orkuna á tombóluverði - og lána meira að segja fyrir því líka! Við verðum að stöðva þetta fólk með öllum ráðum. Hér eru fréttir gærkvöldsins á RÚV. Þarna geislar fólk bókstaflega af útblásnum valdhroka. Þetta fólk hefur ekkert lært.
Eins og áður sagði reiknar John Beddington með því að eftirspurn eftir ferskvatni og orku aukist gríðarlega næstu áratugina. Hér er stuttur viðtalsbútur við hann sem fylgdi með netfréttinni. Hlustið á manninn!
BBC News - 24. ágúst 2009
Það er augljóst að auðlindir Íslendinga eiga eftir að verða verðmætari með hverju árinu sem líður, hvað þá hverjum áratugnum. En óhæfir og gjörspilltir flokksgæðingar enn spilltari stjórnmálaflokka ætla að svipta þjóðina arðinum af þessum auðlindum um ókomna framtíð með fáránlegum samningum við gráðuga menn. Nú þegar er búið að semja við álrisa um orkukaup á útsölu og alls kyns forréttindum. Og hverjir ætli borgi svo brúsann þegar upp er staðið nema almenningur þessa lands. Hvað þarf mikið til að fólki ofbjóði sukkið?
Hér er annað viðtal við John Beddington frá 13. ágúst í þættinum HardTalk á BBC. Sama þætti og Geir var í, munið þið? Þetta viðtal er mun lengra og ítarlega en hitt og hér fer Beddington nánar í svipaða hluti.
HardTalk á BBC - 13. ágúst 2009
Í Kastljósi í gærkvöldi var okkur sýndur farsakenndur fáránleiki málsins þar sem Guðlaugur stjórnarformaður OR og Dagur B. létu ljós sitt skína. Satt að segja var ég nákvæmlega engu nær eftir þennan farsa. Dagur var óundirbúinn og greinilega illa að sér í málinu. Ég hefði miklu heldur viljað sjá þarna Sigrúnu Elsu eða Þorleif, sem bæði sitja í stjórn OR, og hafa meiri þekkingu á þessu máli en Dagur virtist hafa. Og ég get ekki með nokkru móti sætt mig við að Guðlaugur sitji í þessu embætti og fremji slíka gjörninga umboðslaus með öllu.
Kastljós 1. september 2009
Í athugasemd sem Birgir Gíslason gerði við þennan pistil kom m.a. fram: " Miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum varðandi efni sölusamnings OR til Magma má draga saman þessa niðurstöðu um áhrif hans á rekstur OR. Það skal tekið fram að ég er ekki endurskoðandi, en það væri fróðlegt að fá álit endurskoðanda með þekkingu á uppgjörsreglum orkufyrirtækja.
Beint sölutap OR af þessum samningi er lauslega áætlað 4,211 milljarðar. Inn í þeirri upphæð er sölutap upp á 743 milljónir vegna kaupa OR og framsals á hlutum Hafnarfjarðarbæjar (95% hlutur þeirra í HS Orku).
Vaxtaberandi skuldir OR bera allt að 9.325% vexti á ári (sjá árshlutauppjör þeirra 30.06.2009). Miðað við þá vaxtabirgði félagsins má áætla að nettó vaxtakostnaður OR á hverju ári vegna láns á 70% kaupverðsins sé 657 milljónir á ári, eða 4,601 milljarður næstu 7 árin. OR er mjög skuldsett félag og þar sem kaupverðið er að meirihluta lánað þá getur OR ekki greitt niður aðrar skuldir sínar á móti, eru í raun að taka lán til að lána Magma,
ergo: Nettó vaxtakostnaður OR næstu 7 árin 4,601 milljarður.
Heildartap OR á sölu hlut sínum í HS Orku er því varlega áætlað 8,813 milljarðar króna eða 54% af heildarverðmæti hlutanna beggja (bókfært verð hlutanna beggja er 16,211 milljarðar en söluverðið er sagt vera 12 milljarðar).
Gengisáhætta OR af 8,4 milljarða (ca. 66.9 milljónir USD) láni til Magma er eftirfarandi: Ef gengi íslensku krónunnar styrkist um 10% gegn US dollar, þá þýðir það tap upp á 840 milljónir. Ef krónan styrkist um 20% er upphæðin 1,680 milljarðar. Það skal tekið fram að mjög miklar líkur eru á því að gengi krónunnar styrkist næstu 7 árin, út á það miðar efnahagsáætlun ríkisins og IMF.
Ég óska eftir því að stjórn OR og/eða fulltrúar eigenda félagsins (borgarfulltrúar) leiðrétti mína útreikninga ef þeir eru rangir, en svona lítur málið út miðað við þær fréttir sem stjórn OR hefur gefið út vegna þessarar sölu.
Ég spyr, ef útreikningar mínir eru réttir, eru hagsmunir eigenda OR borgið með sölu hlutabréfanna til Magma Energy núna, heildartap upp á 8,813 milljarð króna auk hugsanlegs gengistap ef krónan styrkist?
Að lokum vil ég benda á að óbeint eignarhald OR í HS Orku vegna veðs í hlutabréfunum er 22%. Samræmist það kröfu Samkeppnisstofnunar um að OR megi ekki eiga meira en 10% í félaginu? Er samningurinn því ekki brot á úrskurði Samkeppnisstofnunar og þar með ólögmætur? Hvernig hyggst stjórn OR tryggja að veðið rýrni ekki í virði?"
Ef við gefum okkur að Birgir hafi rétt fyrir sér er þetta með ólíkindum. Gengið þarf ekki að styrkjast nema um 10% til að OR tapi 840 milljónum! Talað hefur verið um stöðutöku gegn krónunni. Getur þetta ekki fallið undir það - og verið stöðutaka gegn OR, verðmætasta fyrirtæki Reykvíkinga, um leið?
Fjallað var um samninginn á borgarstjórnarfundi í dag. Baráttukonan Heiða B. Heiðars fór á pallana og sagan sem hún segir á blogginu sínu er mjög athyglisverð. Lýsir algjöru áhugaleysi sumra kjörinna fulltrúa borgarbúa á stórmálum eins og þessu. Heiða gat ekki orða bundist og lagði orð í belg á fundinum. Ég hengi hljóðskrá með athugasemd Heiðu af pöllunum neðst í færsluna. Það verða sveitarstjórnarkosningar næsta vor. Ef þessi samningur verður samþykktur í borgarstjórn verð ég fyrst til að minna á hann þegar kosningabaráttan hefst. Ég læt ekki stela af mér, samborgurum mínum og afkomendum okkar þegjandi og hljóðalaust. Mig grunar að ég verði ekki ein um það.
Viðbót: Þessi pistill Stefáns Snævarr er nauðsynleg og umfram allt holl lesning.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Spilling og siðferði, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:49 | Facebook
Athugasemdir
Er nú ekki betra að fara rétt með. Óskar Bergsson var í 2. sæti listans í upphafi en ekki 3. sæti. Hann varð reyndar þriðji í prófkjörinu sem var haldið en sú sem varð í öðru sæti tók það ekki eins og stundum gerist.
Það er líka athyglisvert að þú kjósir að gera lítið úr atkvæðafjölda Framsóknarflokksins. Það er nú þannig að í þessum kosningum þá eru um 4.000 atkvæði að baki hverjum einum og einasta borgarfulltrúa. Um 4.300 að baki hvorum fulltrúa VG og sama tala bak við hvern fulltrúa Samfylkingar. Um 3.900 að baki hverjum Sjálfstæðismanni. Ólafur F. hefur reyndar sérstöðu með 6.527 á bak við sig eins og frægt er orðið.
Það sem margir virðast kjósa að lítaalveg framhjá í þessu máli er sú staðreynd að OR er með lögum gert skylt að selja hlutinn. Fyrirtækið er svosannarlega ekki að gera það að gamni sínu að selja hlutinn á mun lægra verði en það þurfti að borga Hafnarfjarðarbæ. Samkeppnisyfirvöld hafa bannað OR að eiga meira en 10% í HS Orku. Þegar það kom í ljós reyndi OR að fá samningnum rift og látaHafnarfjararbæ þannig halda hlut sínum í fyrirtækinu. En Samfylkingarmeirihlutinn í Hafnarfirði barðist með kjafti og klóm gegn því að þurfa að taka hlutinn aftur. Ef þeir hefðu ekki gert það þá væri hluturinn sálfsagt í þeirra eigu í dag. Ég held að Samfylkingarmenn ættu að spyrja Lúðvík Geirsson hvers vegna þessi eignarhlutur er kominn í eigu einkaaðila.
Stefán Bogi Sveinsson, 2.9.2009 kl. 08:18
Fyrir löngu hefðu stjórnvöld átt að "breyta lögum" þannig að hægt væri að gera aftur kræfa þessa kröfu Samkeppnisstofnunnar. Það var allan tímann BILUN að banna OR á sýnum tíma að kaupa hlutina sem voru til sölu, eitthvað sem opnaði fyrir stofnun Geysir Green Energy. Samspillingin innleiðir ávalt í blindni regluverk EB og þeim virðist alveg sama þó orkan okkar endi í höndum erlendra aðila. Því hefur ekkert verið gert í 6 mánuði og OR selur síðan eins og ekkert sé sjálfsagðara..! Auðvitað átti OR bara að hafna kauptilboði Magma á þeim forsendum að lífeyrissjóðir íslendinga myndu kaupa sig inn í orkufyrirtækin. Sama gildir þegar ríkið yfirtekur Geysir Green Energy, lífeyrissjóðir okkar eiga að fjárfesta í þessu, það er það sem þjóðin vil og þetta er "arðbær fjárfesting", en það er eins og lífeyrissjóðirnir okkar vilji ekki græða pening, heldur bara tapa OKKAR peningum. Alls staðar upplifir maður "svik & prettir" í okkar siðblinda samfélagi. Samfélg sem er að springa úr reiði, enda er verið afhenda okkar bestu fyrirtæki á brunnaútsölu og þetta er ekki að gera sig! Hvers á þjóðin að gjalda? Kvótakerfi sem er "helvítis fokking fokk", svo "einkavinnavæðing til réttu aðilanna", og nú þetta með "orkuna okkar" - það vantar ekki fólk hérlendis með "skítlegt eðli". Ísland er & hefur verið í 20 ár ÆVINTÝRALAND fyrir fáar útvaldar fjölskyldur sem eru á ríkisspennanum, en APASPIL fyrir okkur hinn, það er nefnilega "vitlaust gefið" og hefur verið svo í tugi ára...!
kv. Heilbrigð skynsemi
Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 08:32
Birgir Gíslason er ekki endurskoðandi eins og hann segir.
Hann ætti því að kynna sér niðurstöðu endurskoðenda KPMG - og endurskoðenda fyrirtækisins sem sá um milligöngu á sölu hlutar OR í HS Orku. Eða sossum hvaða vandaðan endurskoðanda sem er.
Staðreynd málsins er reyndar sú að það er ekkert vit annað fyrir Orkuveituna að fá greiðslu í dollurum. Þeir dollarar verða að sjálfsögðu notaðir til að greiða niður erlend lán Orkuveitunnar í dollurum: Það skiptir því engu hvert gengi íslensku krónunnar verður - öryggið felst í dollar á móti dollar.
Orkuveitan er með þessu búin að tryggja sig bæði fyrir verðbólgu og gengisáhættu. Fullkomið "hedge".
Hanna Lára. Þú verður að fara að gera eitthvað í persónuleg óvild þín út í Óskar Bergsson. Það er ekki hollt að hafa einn mann svona á heilanum.
Að lokum. Þú segir:
" Í Kastljósi í gærkvöldi var okkur sýndur farsakenndur fáránleiki málsins þar sem Guðlaugur stjórnarformaður OR og Dagur B. létu ljós sitt skína. Satt að segja var ég nákvæmlega engu nær eftir þennan farsa. Dagur var óundirbúinn og greinilega illa að sér í málinu. Ég hefði miklu heldur viljað sjá þarna Sigrúnu Elsu eða Þorleif, sem bæði sitja í stjórn OR, og hafa meiri þekkingu á þessu máli en Dagur virtist hafa."
Það er alveg rétt að Dagur er illa að sér í málinu - og þó! Rök hans byggja á sandi og málflutningur hans var fyrst og fremst pólitísk slagorð án undirstöðu.
En ástæða þess að Sigrún Elsa fór ekki í Kastljósið er einföld. Hún var svo gersamlega afhjúpuð í Morgunútvarpi Rásar 2 þegar Þórhallur Jósepsson fór yfir staðreyndir málsins og hrakti rangar fullyrðingar hennar lið fyrir lið - reyndar hefur það verið gert áður. Reyndar fór Þórhallur svo illa með Sigrúnu Elsu og rangfærslur hennar að Páll Baldvin Baldvinsson sá ástæðu til þess að taka upp hanskan fyrir hana "Við tækið" í Fréttablaðinu í dag - þar sem honum fannst orka tvímælis að vel upplýstur og rökfastur fréttamaður skyldi "grilla! Sigrúnu Elsu - eins og Páll Baldvin orðaði það svo smekklega.
Hvað Þorleif varðar - þá hefi ekki verið síðra að hann kæmi með sinn málflutning í málinu! En það var Dagur sem varð fyrir valinu og lá í valnum pólitískt.
Hallur Magnússon, 2.9.2009 kl. 09:12
Hallur hér að ofan er greinilega í flokksbuxum í athugasemd sinni. Af hverju er flokksbundnu fólki ómögulegt að fjalla um málefni án þess að reyna að "klekkja" á öðrum flokki.
Þetta mál snýst um þann vilja að hafa orkufyrirtæki í almannaeigu - og láta almenning hagnast á auðlindinni en ekki gróðabraskara. Það að skýla sér bak við einhver samkeppnislög er fáránlegt! Síðan hvenær er samkeppni í gangi á orkumarkaðnum á Íslandi??
Norðmenn eiga olíusjóð sem oft er vitnað til sem þeirra lífeyrissjóð! Eru Íslendingar svona heimskir að þeir selja orkuna og vatnið eins ódýrt og hægt er? Eða eru það fáeinir einstaklingar sem sitja við völd með skammtímagróða handa sjálfum sér í huga? Einhvern veginn held ég að seinni spurningunni sé hægt að svara játandi. Og þá er mér skítsama í hvaða flokki þetta lið er - ég vil að hagnaður af auðlindum okkar fari í VASA ALMENNINGS!
Hvað þarf til að Íslendingar segi nú er nóg?
Rebekka (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 10:50
En afhverju fa thessir menn ad komast upp med thetta?
Islendingur (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 10:59
Rebekka! Ef ég skil þig rétt þá ertu að mælast til þess að Orkuveitan gerist lögbrjótur!
Það eru samkeppnislög í landinu og okkur ber að fara eftir þeim hvort sem okkur líkar betur eður verr.
Myndir þú samþykkja að olíufélögin brjóti samkeppnislög? Eða bankarnir?
Þú getur ekki valið hvenær farið er eftir lögum eða ekki!
Ég virði það viðhorf að orkufyrirtæki skuli vera í almannaeigu. En í tilfelli HS orku - þá var alveg ljóst að Orkuveitan - sem er öflugt orkufyrirtæki í almannaeigu - má ekki eiga meira en 10% hlut í HS Orku. Orkuveitnni var - lögum samkvæmt - gert skylt að selja.
Söluferlið var opið og gegnsætt og hefur staðið í 6 mánuði!!!
Orkuveitan átti að vera búin að selja hlut sinn fyrir allnokkru - en fékk frest hjá samkeppnisyfirvöldum.
Það var enginn "almannaeiguaðili" reiðubúinn að kaupa hlutinn. Ekki ríkið - þótt Steingrímur J og VG hafi tekið kipp á síustu mínútunum. Steingrími J. hefði verið í lófa lagið að veita Orkuveitunni tryggingu fyrir því að ríkið ábyrgðist tilboð sem yrði ekki lakara en það tilboð sem Magma hafði gert í hlut Orkuveitunnar. hann gerði það ekki - enda var um pólitískt upphlaup að ræða - enda kom flatt upp á Steingrím að hann fengi aukafrest til að tryggja "almannaeigu" á hlut Orkuveitunnar í Magma. Það gerði hann að sjálfsögðu ekki - enda ráðherrar Samfylkingarinnar á því að selja ætti hlutinn erlendum einkaaðila.
Það er sá tvískinnungur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar sem ég gagnrýni - og sá málflutningur þeirra sem byggir í besta falli á útúrsnúningum!
Talandi að "klekkja" á öðrum flokki - þá er vert að benda á að Hanna Lára hefur verið í 100% missjón í að "klekkja" á Framsóknarflokknum - stundum komið með gagnrýni sem á rétt á sér - en miklu oftar komið með sleggjudóma og rangfærslur í þeirri baráttu sinni.
Ekki heldur gleyma því að það er ekki verið að selja auðlindir - það er verið að leigja þær. Menn geta takist á um það hvort leigan sé of lág eða of há. Ég get verið sammála þér um að hún mætti vera hærri. En þar er ekki við Orkuveituna að sakast.
Hallur Magnússon, 2.9.2009 kl. 11:07
Hallur ertu á launum við að verja þennan ömurlega samning? Og þessi rök sem þú margtyggur upp gagnrýnilaust að því er virðist, halda ekki vatni. Og aðkoma KPMG ein sér vekur tortryggni. KPMG var svo innvinkluð í brellur Baugs og Íslandsbanka að þeir voru af Fyrrverandi Saksóknara, sagðir vera deild í Baugi. Tengsl Íslandsbanka/Gltinis og GGE eru öllum ljós og GGE er hér aftur komið nú með Magma sem lepp að sölsa undir sig orkuauðlindir á Reykjanesi. Þetta er kjarni málsins
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.9.2009 kl. 11:38
Hallur,
kannastu við dæmið þar sem viðamiklar skipulagsbreytingar eru boðaðar og það á að funda með íbúum um það á öðrum í jólum? Hversu margir sjá sér fært að mæta á fundinn?
Hvað ætli þingið hafi verið að braska s.l. 6 mánuði? Tja maður klórar sér í höfðinum yfir því...en við vitum að það er verið að reyna að slökkva elda út um allt, ekki satt?
Ég er ekki að mælast til þess að lög séu brotin í landinu, en það vill svo til að það má breyta þeim, aðlaga, þannig að þau þjóni þeim tilgangi sem þeim var ætlað. Það að skýla sér á bak við samkeppnislög í þessu tilfelli er lélegur málflutningur.
Ég hef ekki orðið vör við mikla samkeppni á milli olíufélaganna, tryggingafélaganna, eða bankanna. Því miður.
Hér er verið að drífa sölu í gegn og fáránlegt að halda því fram að verið sé að vernda hagsmuni almennings í því samhengi. Leiga til 65 ára og kúlulán til 7 ára fyrir 70% af kaupverðinu þar sem arðurinn verður notaður til að greiða lánið...maður þarf ekki menntun í viðskiptafræði til að sjá að þetta er gjöf. Sama viðskiptamódelið og viðgengist hefur undanfarin ár. Kaup sem skuldsett eru upp í rjáfur. Má ég þá frekar biðja um frest við Samkeppnisyfirvöld þangað til hægt er að koma þessum hlut í almenninlegt verð, eða selja lífeyrissjóðum Íslendinga hlutina.
Ætli eignir gamla Landsbankans verði "seldar" á svipaðan hátt?
Og svona í lokin svo það sé á hreinu, ég skilaði auðu í síðustu alþingiskosningum, ég hef verið sammála Framsóknarfólki í Icesave málinu, öðrum flokkum í öðrum málum, og er sammála Ögmundi í þessu máli.
Ég vil hafa auðlinda- og orkufyrirtæki í almannaeigu!
Rebekka (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 11:43
Samkvæmt því sem mér var bent, þá rennur frestur Samkeppniseftirlitsins út um áramótin. Því lá ekkert á af hálfu OR að selja hlutinn eða eins og í þessu tilfelli að gefa hann með 5-6 milljaðra tapi fyrir Reykvíkinga en það fé myndi duga til að reka leiskólakerfið í hálft ár. Nei, það hangir eitthvað meir á spýtunni í þessu nýja REI-máli og spjótn beinast að S-hópnum og álíka klíkufélögum REI-flokkana. Það er verið að hirða af okkur auðlindirnar til samviskulausra viðskiptamanna og til fyrirtækis sem virðist bara vera skúffufyrirtæki fyrir vafasama aðila á borð við útrásarvíkinga sem hafa haft flokkana í vasa sínum. Ef þð haldið virkilega að þetta sé gert í þágu almannahagsmuni, gleymið því, það sést á Fésbókar-hangsinu hjá borgarfulltrúum. Það er búið að ákveða þetta á bak við tjöldin með greiðslu undir borðið líkt og sala bankanna, ÍAV og já sala á hlut ríkisins í HS sem FL Group smurði með 25 milljónum.
Nú eigum við að glata þessum auðlindum í allt að 130 ár og hafa ekkert um þau að segja. Það verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum og gera borgarfulltrúum það ljóst að við þetta verður ekki sæst fremur en þær hörmungar sem leiddar voru yfir okkur af stjórnmálamönnum sem leyfðu álíka mönnum og nú eru á ferð, að valsa um bankakerfið með flokkskírteinið í vasanum.
SKrifið til borgarfulltrúa, sendið tölvupósta, faxið til þeirra eða á flokkskrifstofur, hringið og gerið það þeim ómögulegt að starfa nema þeir hafni þessu tilboði. Mótmælið á alla vegu og sjáum til þess að þau geti ekki annað en hætt við. Ef þau gera það ekki, þá höfum við glatað náttúru-auðlind til þrjóta, þá höfum við glatað óbætanlegum verðmætum þjóðarinnar svo Finnur Ingólfs eða álíka skaðræðisgripur geti grætt á hörmungum þjóðarinnar.
Hér eru netföng borgarfulltrúa og staðlaður póstur fyrir þá sem vilja senda þeim staðlað bréf sem samið var af aðilum sem stendur ekki á sama:
Netföng borgarfulltrúa sem hægt er að afrita beint í póstforrit:
vilhjalmurth@reykjavik.is,bjork.vilhelmsdottir@reykjavik.is, dagur.b.eggertsson@reykjavik.is,gisli.marteinn.baldursson@reykjavik.is, borgarstjori@reykjavik.is,jorunn.frimannsdottir@reykjavik.is, jvi@reykjavik.is,kjartan.magnusson@reykjavik.is,oddny@reykjavik.is, olafur.f.magnusson@reykjavik.is,oskar.bergsson@reykjavik.is, sigrun.elsa.smaradottir@reykjavik.is,soley.tomasdottir@reykjavik.is, thorbjorghelga@reykjavik.is,thorleifur.gunnlaugsson@reykjavik.is
Netföng varaborgarfulltrúa sem hægt er að afrita beint í póstforrit:
marsibil@reykjavik.is,sif.sigfusdottir@reykjavik.is, bolli@hi.is,marta.gudjonsdottir@reykjavik.is, ragnar.s@simnet.is,kristjan.gudmundsson@or.is, bjorn.gislason@shs.is, aslaug@sja.is,margret.kristjana.sverrisdottir@reykjavik.is,dofri.hermannsson@reykjavik.is, stefan.johann@islandia.is,steben@internet.is, gerlag@internet.is, hermannv@nordlingaskoli.is
Hugmynd að texta, ef vill:
Kæri borgarfulltrúi
Ég hvet þig eindregið til að samþykkja EKKI söluna á HS Orku. Ísland þarf á öllum sínum auðlindum að halda í komandi kreppu og þessi orka verður bara verðmætari eftir því sem á líður. Ég minni á að það styttist í sveitarstjórnarkosningar og það verður örugglega minnt á þetta mál þegar nær dregur, hvernig sem það fer. Mér finnst að hagsmunum Orkuveitunnar og borgarbúa sé illa sinnt með því að selja hlutinn á undirverði.
Virðingarfyllst"
AK-72, 2.9.2009 kl. 12:07
Hver er nú hún Sigríður okkar í Brattholti?
Flosi Kristjánsson, 2.9.2009 kl. 12:22
Það er algjörlega fáranlegt hverni búið er að standa að þessari sölu. Í fyrsta lagi eru lögin algjörlega ónothæf og þau verður að endurskoða strax.
Af hverju þarf þetta líka að gerast svona hratt? Hvað liggur undir að Magma fái algjörlega að stjórna ferlinu? Það er greinilega verið að nýta sér það að Icesave hefur tekið alla orku frá fólki.
Halda ráðamenn ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna að þeir séu virkilega að græða á þessari sölu?og ef þeir eru búnir að átta sig á því að þeir eru ekki að gera það, af hverju er þá verið að selja? Einungis út af samkeppniseftirlitinu? Enginn almenninlega svör er að fá við þess.
Enginn almenninleg umræða, engar almenninlegar upplýsingar, fjölmiðlarnir miðla örstuttum fréttum um þetta enn enginn hefur almenninlega farið og upplýst hvað er um að vera. Bloggið þitt Lára Hanna er það besta sem maður kemst í varðandi þetta mál, það er auðvitað frábært, en bera ríkisfjölmiðlarnir ekki meiri ábyrgð en það að taka drottningarviðtöl við Ross Beaty?
Þetta mál er allt hið sorglegasta og við verðum að reyna að stöðva þetta áður enn það er um seinan. Takk fyrir að setja inn netföng og uppkast af bréfi til borgarfulltrúa.
Thorhildur Fjola Kristjansdottir (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 13:19
Lára Hanna, takk fyrir ýmsar fræðandi greinar og umfjöllun um þessa fyrirhuguðu sölu til Magma Energy. Það er mikið í húfi að ekki sé rasað um ráð fram varðandi sölu og afsal á íslenskum auðlindum. Þú gerir reyndar afar lítið úr okkur Framsóknarmönnum í inngangi að þessu bloggi og við eigum það ekki skilið. Fjölmargir Framsóknarmenn þar á meðal ég telja það ekki þjóna hagsmunum almennings á Íslandi að selja úr landi yfirráð á orkuauðlindum. Fjölmargir Framsóknarmenn eru andstæðingar þeirrar skefjalausu einkavæðingarstefnu sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn byggir á allt annars konar hugmyndafræði, hugmyndafræði Samvinnustefnunnar.
Það eru ómakleg orð um Óskar Bergsson í upphafi pistilsins, ég veit ekki til annars en Óskar hafi unnið að heilindum að hagsmunum borgarbúa allt þetta kjörtímabil og raunar er ekki hægt að segja annað en að Framsóknarmenn undir forustu Óskars hafi tryggt að hér væri festa og ró í stjórnun borgarinnar. Það má minna á að Óskar bjargaði borginni úr klóm Ólafs Magnússonar og hann hefur átt gott með að vinna með mönnum úr öllum hinum flokkunum.
Varðandi það sem þú kallar umboðsleysi Guðlaugs þá er það þannig að Marsibil sem var næst á lista á eftir Óskari og hefði að sjálfsögðu verið eðlilegur stjórnarformaður í valdamiklar nefndir sem komu í hlut Framsóknar kaus að ganga til liðs við Samfylkinguna.
Guðlaugur er formaður félags Framsóknarmanna í Reykjavík og var á lista Framsóknarmanna í Reykjavík og hann hefur sýnt sem stjórnarformaður í Orkuveitunni að hann getur tryggt þar vinnufrið, það var allt upp í loft þar þangað til Guðlaugur kom þar til starfa.
Guðlaugur hefur unnið að þessu máli sem best hann getur og með hag borgarbúa að leiðarljósi. Ég hins vegar efast um að þetta tilboð frá Magma Energy sé gott og ég efast um að þetta sé góður tími til að selja. Það er virkilega mikilvægt að við flönum ekki að neinu í málum sem þessum.
Stjórn Orkuveitunnar hefur samþykkt þetta tilboð enda var það punktur í löngu söluferli. Það reynir hins vegar á borgarfulltrúa í borgarráði og borgarstjórn hvort þetta verður staðfest þar og þar eiga menn að horfa á víðari hagsmuni en bara hagsmuni eins fyrirtækis. það er margt sem bendir til að borgin sé ekkert að tapa á því að bíða og gefa ríkinu eða öðrum innlendum aðilum meira svigrúm til að kaupa.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.9.2009 kl. 13:53
Hallur: Því miður hef ég ekki séð skýrlu KPMG endurskoðenda. Mér vitanlega hefur almenningur ekki aðgang að henni. Ef þú hefur hana undir höndum þá væri gott að koma henni í dagsljósið (eða vísa til hvar hægt er að nálgast hana). Þá getur almenningur myndað sér skoðum á efni og tilgangi hennar. Það eru marklaus rök að vitna í plögg sem ekki eru aðgengileg almenningi.Ég hef kynnt mér samninginn (útreikningar mínir voru gerðir áður en samningurinn var birtur opinberlega) og því miður standast fyrri útreikningar mínir, staðan er reyndar verri en ég hélt vegna kostnaðar OR við lán frá Hafnarfjarðarbæ sem fyrri útreikningar mínar tóku ekki tillit til. Ég stend því enn við niðurstöðu mína. Vandamálið er að OR er að veita lán til Magma og geta því ekki greitt niður önnur erlend lán sín á meðan. 30% greiðslan frá Magma fer beint til Hafnafjarðarbæjar til að greiða 50% kaupverðs af hlutnum sem OR kaupir af þeim. OR fær ekki krónu né cent greitt í dag. OR hefur því miður ekki tekist vel til í gengisvörnum sínum eins og ársreikningar félagsins sýna. Afhverju ætti þeim að takast betur til í því efni varðandi þennan samning?Þetta mál liti betur út ef Magma hefði fengið 100% greitt fyrir hlutinn með reiðufé, þá væri vaxtabyrði OR minni næstu 7 árin og félagið gæti greitt niður eitthvað af óhagstæðustu lánum sínum. En beint bókfært tap er mjög mikið engu að síður.
Birgir Gislason (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 19:40
Ég held að jafnvel hörðustu sjálfstæðismenn hljóti að sjá að þessi sala er ekki góður díll. Langar að vita hversvegna gengið var að þessu vonda tilboði.
Ég meina sala á orkuauðlindum, kemur sér mjög illa við almenning í landinu, getur einhver sagt mér annað ???
Kristín Hildur Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 20:15
Það vakti athygli mína að gaurinn frá Magma Energy marg endurtók það í stuttu Kastljósviðtali að hann væri heiðarlegur og honum væri að treysta.
"I am not a crook" sagði Nixon. "They´re all honourable men" lætur Shakespeare Antoníu endurtaka hvað nógu oft í frægri ræðu til þess að menn fá á tilfinninguna að þessu sé þveröfugt farið.
Eftir allar yfirlýsinar Magma gaursins um heiðarleika sinn sagðist hann aldrei myndu leggja nafn sitt við framkvæmdir nema að þar væri óumdeilanlega um endurnýjanlega og hreina orku að ræða.
Þetta hefði Shakespeare líka látið hann segja, - það er ég viss um.
Ómar Ragnarsson, 2.9.2009 kl. 20:52
Ef menn vilja endilega selja þá er pottþétt betra að bíða, þessi orka á bara eftir að verða verðmætari.
Og Samkeppnisstofnun gaf frest til áramóta, það liggur ekkert á.
Gunnar, 2.9.2009 kl. 21:22
Ketill Palsson (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 22:01
Sæl Lára,
góður pistill, meira af þessu.
Gunnar Skúli Ármannsson, 2.9.2009 kl. 23:59
Birgir Gíslason, gætirðu sent mér póst á mrx@mi.is. Mig bráðvantar að fá smá svar við spurningu sem er í kollinum á mér.
AK-72, 4.9.2009 kl. 09:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.