Hrammur græðgi og heimsku

Mikið ofboðslega er ég orðin þreytt á yfirgangi stjórnmála-, stóreignamanna og verktaka í skipulagsmálum í nánasta umhverfi mínu. Árum saman höfum við nágrannar mínir háð baráttu við skipulagsyfirvöld Reykjavíkur til að reyna að verja eignir okkar og umhverfi fyrir eyðileggjandi hrammi græðgi og heimsku. Með  misjöfnum árangri. Ég bý alveg við miðborgina og í umhverfi mínu eru ein elstu og jafnframt viðkvæmustu hús borgarinnar, heillegustu götumyndirnar og saga við hvert fótmál. Ég hef megnustu fyrirlitningu á gráðugum, smekklausum frekjuhundum sem beita valdníðslu og fjámagni til að valta yfir samborgara sína, hunsa siðferði og sanngirni og sýna sögunni - grunninum sem við byggjum á - fullkomið skeytingarleysi og vanvirðingu.

Þetta er lýjandi barátta, tímafrek og getur verið mjög kostnaðarsöm. Og það er svo sárt að þurfa að standa í svona málum. Horfa á uppbyggingu forfeðranna og söguna sem þeir skópu með tilvist sinni troðna í svaðið. Það er alltaf verið að minnka hjarta og sál miðborgarinnar. Skemmdarverkin í borginni eru engu minni en þegar verktakar fara með stórvirkar vinnuvélar inn í náttúruperlur og leggja allt í rúst.

Nú á að ráðast á Ingólfstorg og Nasa, sem í mínum huga og jafnaldra minna heita Hallærisplanið og Sigtún. Þeir sem eldri eru kalla þetta eflaust ennþá Steindórsplanið og Sjálfstæðishúsið. Sigtún er undurfallegt hús með mikla sögu, ómetanlegan sal og stórfenglega sál sem geymir mörg leyndarmál mannlegra samskipta og ástarfunda í áranna rás. Staðið hefur til alllengi að breyta þessu svæði og við skulum líta á fréttir af fyrirhuguðum framkvæmdum frá júní og júlí 2008.

Ég tek undir með þeim sem segja að Ingólfstorg sé ljótt eins og það lítur út núna. Það er grátt og kalt og forljót hús gera umhverfið ekki aðlaðandi, s.s. Miðbæjarmarkaðurinn, TM-húsið, Plaza-hótelið og gamla Morgunblaðshúsið. Til hvers að bæta einu slíku við til að gera illt verra? Torginu er hreint ekki alls varnað og hægur vandi að breyta því ef vilji er fyrir hendi. Ef öll steypan væri upprætt, tyrft og bætt við blómum og trjám yrði þetta yndislegur staður í hjarta borgarinnar.

Til stendur að færa hús inn á torgið og byggja 5 hæða hótel (sem gæti vel orðið 6 hæðir eða meira - slíkt er kallað "breytingar á byggingartíma" hjá skipulaginu). Torgið er eign Reykvíkinga, en það á að klípa af þeirri eign til að hygla lóðareigandanum, Pétri Þór Sigurðssyni, eiginmanni Jónínu Bjartmarz fyrrverandi þingmanns og ráðherra Framsóknarflokksins. Pétur Þór á semsagt að fá að byggja stórt og almenningur á að víkja svo hann geti athafnað sig. Svona vinnubrögð geta engan veginn kallast eðlileg, hvað þá sanngjörn. Hér eru nokkrar fréttir frá undanförnum dögum um málið.

Aðalstræti er elsta gata Reykjavíkur og var, eins og nafnið bendir til, aðalgatan í þorpinu forðum. Hún er mjög þröng og öll aðkoma að henni líka. Fyrir ofan og vestan götuna er Grjótaþorpið, elsta byggð borgarinnar, og út frá Aðalstrætinu liggja - eðli málsins samkvæmt - fleiri götur á svipuðum aldri og með mikla sögu. Nú þegar standa tvö, stór hótel við Aðalstræti. Hótelum fylgir mjög mikil umferð bifreiða af öllum stærðum og gerðum - á öllum tíma sólarhrings. Rútur að sækja og skila erlendum ferðamönnum í eða úr flugi og/eða skoðunarferðum, leigubílar og ótölulegur fjöldi bílaleigubíla sem þurfa stæði. Auk þess þurfa hótel alls konar aðföng og þar vinnur fullt af fólki. Að ætla að bæta allri þessari umferð á þetta þrönga, viðkvæma svæði er ekki verjandi. Ef einhver hefur á annað borð hugsað út í slíkt hjá borginni.

Kastljós var með umfjöllun um málið 1. september og talaði m.a. við Júlíus Vífil Ingvarsson, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem var fullur hrifningar á fyrirhugðum framkvæmdum. Um Nasa sagði Júlíus m.a. "...að húsið væri ekki hluti af skemmtanalífinu því þarna væru tónleikar." Ansi er ég hrædd um að fáir taki undir með Júlíusi. Horfið og hlustið sjálf.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom heim úr námi með flottar hugmyndir og ákveðnar skoðanir á skipulagsmálum, enda skipulagshagfræðingur. Ég sat með stjörnur í augunum og hlustaði á hann. Tók undir hvert orð sem hann sagði. En svo fór hann í pólitík og hefur ekki minnst á skipulagsmál síðan. Rifjum upp frammistöðu Sigmundar Davíðs í skipulagsmálum.

Silfur Egils 13. janúar 2008 - um skipulag

 Silfur Egils 27. apríl 2008 - um fasteignaverð og skipulag

 Fréttir Stöðvar 2 og Ísland í dag 31. júlí 2008 - um staðsetningu Listaháskóla

Fínar hugmyndir hjá stráknum, vel fram settar og frábærlega rökstuddar. Hann hefði gjarnan mátt halda áfram í skipulagsmálunum, þar var hann eins og fiskur í vatni. Íhugum orð Sigmundar Davíðs með Ingólfstorg og Nasa í huga.

Eins og fram kemur í fréttaklippunum hér að ofan rennur frestur til að skila inn athugasemdum við breytingarnar á skipulaginu og niðurrifi salarins á Nasa út í dag, föstudaginn 11. september. Mig langar að hvetja alla sem vilja ekki að þessi tillaga fari í gegn til að senda inn athugasemd - mótmæla þessari vitleysu. Þetta kemur okkur ÖLLUM við, líka ykkur á landsbyggðinni og Íslendingum erlendis. Um er að ræða torg og sögulegan skemmtistað í hjarta höfuðborgar allra landsmanna - og við eigum landið okkar og höfuðborgina öll saman. Aðgerðarhópurinn Björgum Ingólfstorgi og Nasa er með heimasíðuna bin.is - og þar er hægt að fá allar upplýsingar um málið og senda athugasemd í gegnum síðuna. Kynnið ykkur heimasíðuna og hjálpumst nú að við að afstýra þessu slysi. Ef fólk vill senda athugasemdir sínar sjálft í pósti er netfangið: skipulag@rvk.is.

Líf á Ingólfstorgi - af bin.is

Ályktun stjórnar Torfusamtakanna 5. september 2009:

Torfusamtökin vara við því hættulega fordæmi um ráðstöfun almannaeigna sem gefið er með samþykkt fyrirliggjandi deiliskipulags um uppbyggingu við Ingólfstorg og Vallarstræti. Í slíkri samþykkt felst að réttur eins lóðareiganda eru settur í forgang fram yfir breiða hagsmuni nágranna og almennings á grundvelli löngu úreltra skipulagshugmynda um miðbæ Reykjavíkur. Þó tillagan taki í vissum atriðum mið af sjónarmiðum húsverndar þá er hæð og umfang fyrirhugaðrar nýbyggingar við Vallarstræti á skjön við þá 101 hús í hættu - Torfusamtökinfarsælu endurreisn sögulegrar götumyndar Aðalstrætis og Grófar, sem borgaryfirvöld hafa unnið að af miklum metnaði og með glæsilegum árangri á undanförnum árum. Með nýbyggingunni yrðu fest í sessi eldri skipulagsmistök er heimild var veitt fyrir hækkun Aðalstrætis 9, en gluggalaus gafl þess húss varpar mestum skugga á sunnanvert Ingólfstorg og spillir ásýnd þess. Í því máli voru fjárhagslegir hagsmunir eins húseiganda teknir fram yfir tækifæri borgarbúa að eignast sólríkt og fallegt torg í hjarta miðbæjarins.

Nýjar upplýsingar um eðli og umfang minja frá fyrstu árum Íslandsbyggðar á svæðinu við Aðalstræti og Kirkjustræti breyta forsendum um uppbyggingu á þeim lóðum sem deiliskipulagið tekur til. Ljóst er að gera þarf umfangsmiklar rannsóknir á svæðinu áður en framkvæmdir geta hafist. Í þessum fornleifum kann að vera fólgið einstakt tækifæri fyrir Reykjavík sem ekki má gefa sér fyrirfram að moka megi burt.  Þær fornleifar geta reynst Reykjavík, sögustaðnum við sund, menningarborginni og ferðamannastaðnum verðmætari en eitt hótel.  Þá kann hugmynd um að „jarða" hinn sögulega merka og um margt einstæða sal gamla Sjálfstæðishússins að vera í uppnámi, fari svo að merkar minjar finnist á lóð hússins.

Torfusamtökin árétta mikilvægi þess að borgaryfirvöld samþykki endurskoðaða heildarstefnu um húsvernd í elsta hluta Reykjavíkur og geri hana að lögformlegum hluta aðalskipulags borgarinnar.  Í því eru fólgnir ríkir almannahagsmunir fyrir alla íbúa borgarinnar um langa framtíð. 

Meðan húsverndarstefna Reykjavíkur er ekki hluti af aðalskipulagi borgarinnar mun uppbygging hins sögulega kjarna borgarinnar verða tilviljunarkennd, ómarkviss og borginni dýr.  Mörkuð vafasömum þrætumálum eins og því sem hér fer. 

Stjórn Torfusamtakanna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

I submitted a comment a few days ago about this building project, and therein I mentioned that the likelihood of the hotel ever being completed was pretty slim, because there is almost certainly really important archaeological remains underneath the houses they want to move and or tear down, which means they will have to stop building to excavate the site and figure out how to preserve it. The building they were planning on building around the corner has been stopped for exactly this reason, and a huge hole covers the city block instead. Archaeologists have found a 1000 year old street like the ones in Viking Age tradetowns, plus remains of several buildings. As an archaeologist, I think the hole is a very cool hole, but still, I am not sure another salvation archaeology project around the corner from it, in the middle of downtown Reykjavik, is really what the city needs right now.

Lissy (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 08:45

2 identicon

Ég er hvorki skipulagsfræðingur eða skipulagseitthvað og ég hef varla búið í Reykjavík og hef eiginlega aldrei líkað borgin. Stundum hef ég spurt sjálfan mig hvers vegna. Ætli ég sé ekki að fá svarið. Borgin er á margan hátt skipulagslegt slys. Í upphafi var snotur miðbær með alla burði til að halda áfram að gegna hlutverki miðsvæðis í nútíma. Var þá ekki tekin stefna á að flytja miðbæinn upp í Kringlu – á Kringlusvæðið.  Með því var Laugarvegurinn settur út í kuldann í tvöfaldri merkingu. Gamli miðbærinn með aðliggjandi hverfum er enn augnayndi erlendra. Grjótaþorp og Þingholt. Skipulagsleg slys hafa átt sér stað víða. Osló, þar sem ég bý, lenti í því að “nýsköpunaráratta” á árunum 1960 – 1980 eyðilagði stórkostleg menningarleg verðmæti. Stokkhólmur varð fyrir skurðarhnífnum, eins Fred Åkerstrøm, syngur um í ástaróð sínum til Oslóar (sem fékk reyndar að kenna á hnífnum skömmu síðar). Það er kanski til of mikils mælst að fara fram á það að fólk læri af mistökum annarra, en þess þá heldur ætti það að læra af eigin mistökum. Reyndin er samt sú að sumir vilja ekkert læra annað en það sem þjónar þröngum eiginhagsmunum, mjög þröngum. Því miður.

Albert Einarsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 08:55

3 Smámynd: Jón Ragnarsson

Það hefur ekki verið almennilegt skipulag á höfuðborgarsvæðinu í mörg ár, verktakar og braskarar virðast hafa ráðið algjörlega hvenær, hvað og hvar er byggt. Ekkert er spáð í heildarmyndinni, frekar virðist manni að hagsmunir verktakans ráði för.  Borgartúnsruglið er líklega besta dæmið um þetta...

Jón Ragnarsson, 11.9.2009 kl. 09:01

4 Smámynd: Bó

Þessi orð úr pistli þínum lýsa þér væntanlega mjög vel (þú kemur mér a.m.k. þannig fyrir sjónir) " Árum saman höfum við nágrannar mínir háð baráttu við skipulagsyfirvöld Reykjavíkur". Árum saman???

Mikið hlýtur að vera erfitt að vera þú. Á móti öllu nema grasinu græna á heiðum uppi. Ég held að þú sért haldin ákveðinni fíkn og þess vegna líður þér svona illa. Þú ert mótmælafíkill.

, 11.9.2009 kl. 09:15

5 identicon

Takk fyrir þetta Lára, ég er held ég sammála þér í einu og öllu hérna. Og Bó(4), ekki veit ég hvað drífur þig áfram - því þú ert hér að mótmæla líka. Munurinn á þér og Láru er samt sá að hún hefur málstað á meðan þú virðist aðeins hafa persónulega andúð.

gummih (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 09:37

6 identicon

Sæl Lára og takk fyrir athyglisverða síðu.

Mér finnst á stundum sem þessi hópur fólks sem rís upp með mótmælum í hvert einasta skipti sem stendur til að "laga" miðbæinn, oft á tíðum hjákátlegur.  Ertu virkilega að meina það að gera Ingólfstorg að Ingólfsgarði??  Verð að segja fyrir mína parta er það galin hugmynd.  Jafngalin og ætla að byggja (enn eitt) hel**** hótel í miðbænum!

Ég er líklega það sem kallast miðbæjarrotta hef búið alla mína tíð við miðbæinn og sótt hann misgrimmt í gegnum tíðina.  Þó svo að ég sé sammála þér í því að Ingólfstorg eigi að varðveita, er ég ekki sammála þér um hvað eigi að gera þar.  Eins og staðan er í dag, er þetta stórsamkomustaður margra hópa í samfélaginu, svo sem mótorhjólamanna og kvenna, tónlistarfólks og já jafnvel mótmælenda.  Mér finnst að það ætti að laga torgið betur að því að þarna gæti verið hægt að setju upp gott svið og halda miðlungsstóra tónleika með lítilli fyrirhöfn og fyrirvara.  Á milli þess á þetta plan að vera áfram samkomustaður á góðviðrisdögum.  Hvort sem "ykkur" :) finnst það slæmt eða gott, þá er mjög mikil faratækjamenning í Reykjavík, bæði bílar og mótorhjól.  Reykjavík er og verður alltaf mikil bílaborg.  Ingólfstorg er og hefur alltaf verið stór hluti af þessu (samanber gamla Hallærisplanið).  Ef þrengt verður meira að þessu torgi, endar það á samahátt og Lækjartorg, sem er umlukið risabyggingum og stórri umferðargötu, er steindautt nema á sunnudagsmorgnum þegar það er fullt af símígandi djammliði.  Held að enginn geti haldið fram að Lækjartorg sé til fyrirmyndar í miðborginni.

En alla vegna takk fyrir aftur fyrir athyglisverða síðu, ég er ekki alltaf sammála (en hvað svo sem gaman við það ef allir eru alltaf sammála?)

Skúli Skúlason (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 10:09

7 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Samála, líka þessu með að torgið líti ekki endilega vel út í dag. Það var á sínum tíma hannað í dálítið yfirhlöðnum postmodern stíl en hefur þrátt fyrir augljósa galla náð miklum vinsældum til margvíslegra athafna. En þetta torg á mikla möguleika og umgjörðin er um margt eistök.

Eitt það ótrúlegasta við þetta mál er að borgaryfirvöld skuli ætla að afhenda einkaaðila hluta af okkar takmarkaða og sameiginlega útirými. Ef við fengjum mikil og óumdeild verðmæti í staðinn mætti auðvitað skoða þannig tilfærslur en hér er þessu þveröfugt farið.

Allt sem við fáum fyrir er til hins verra.

Guðl. Gauti Jónsson, 11.9.2009 kl. 10:58

8 identicon

Eitt atriði var undirstrikað rækilega af Júlíusi Vifli, formanni skipulagsráðs, í viðtali við Kastljós:

Ekki yrði fallið frá skipulagshugmyndum lóðareiganda BÓTALAUST.

Leikurinn er í stuttu málið þannig: Kaupa lóðir. Lauma skipulagshugmyndum gegnum kerfið.  Lóðareigandi græðir á framkvæmd skipulagshugmyndanna. Eða. Lóðareigandi græðir á því að falla frá skipulagshugmyndum sínum.

Rómverji (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 10:59

9 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Rómverji #8

Þetta er athyglisverður punktur. Ef lóðarhafinn á bótarétt þá hlítur það að byggjast á gildandi skipulagi en ef þessi áform eru í samræmi við gildandi skipulag þá þyrfti væntanlega ekkert að auglýsa.

Guðl. Gauti Jónsson, 11.9.2009 kl. 11:12

10 identicon

Takk fyrir enn eina frábæra samantekt Jenný, hvar værum við án þín :)

Það væri áhugavert ef að einhverjum fréttamanninum myndi nú detta það í hug af sjálfsdáðum að fá formann Framsóknarflokksins í viðtal um skiðpulagmál og fá álit hans á framlagi Framsóknarmanna  til borgarskipulags og verktakauppbyggingar (dæmi: Höfðatorg sem fékk að rísa undir pilsfaldi þeirra og svo þetta frábæra Framsóknarverkefni í miðborginni)

Fréttamenn: talið við skipulagsfræðinginn!Sjáum hvað honum finnst um þetta sem fagmanni?????

Ása (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 11:17

11 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Víða í miðbænum virðist aðalskipulag einmitt gera ráð fyrir að byggja megi mjög þétt og hátt. Þess vegna kemur upp þessi staða. Sá sem kaupir lóð greiðir fyrir hana miðað við leyfilegt skipulag og á því skaðabótakröfu ef hann fær ekki að byggja samkvæmt því.

Þetta vandamál er líka til staðar á Laugaveginum því þar var á sínum tíma ákveðið að hefja uppbyggingu og þétta. Allt þetta mál er hinsvegar komið í hinar mestu ógöngur eins frægt er.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.9.2009 kl. 11:39

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Skúli... þessi hugmynd sem ég skelli hér fram er bara ein af mörgum sem hægt væri að útfæra á Ingólfstorgi. Ekkert heilög eða sérstakt hjartans mál í mínum huga. Það má alveg ímynda sér alls konar öðruvísi lausnir.

En það sem ekki má gera er að byggja fleiri stórhýsi sem skyggja á sól og birtu sem er okkur svo mikilvæg - ekki síst í miðbænum - þrengja að torginu og bæta við umferð sem fylgir svona stóru hóteli. Og húsið þar sem Nasa er á að varðveita í þeirri mynd sem það er - með salinn á sínum stað.

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.9.2009 kl. 12:49

13 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir enn eina ofurfærsluna. Var að senda inn athugasemd.

Græða á daginn, grilla á kvöldin. Íslendingar eru svo... eitthvað. Veit ekki. Afskrifa bara dæmið. Gera þetta að fanganýlendu eða eitthvað.

Villi Asgeirsson, 11.9.2009 kl. 13:00

14 Smámynd: Villi Asgeirsson

Hér er mín athugasemd. Vilji fólk nota hana, er það velkomið. Reynið samt endilega að laga til og breyta eftir eigin sannfæringu.

----

Kæra borgarstjórn,

Ég vil hér með mótmæla fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum við Ingólfstorg í Reykjavík. Reykjavík er nyrsta höfuðborg í heimi og við megum ekki við því að missa sólarljósið á almennum samkomustöðum eins og torg eru. Fimm hæða bygging mun án efa varpa löngum skuggum yfir torgið og rýra gildi þess til muna. Verði þetta skipulagsslys að veruleika verður erfitt, ef ekki ómögulegt, að leiðrétta það síðar.

Að færa tvö hús inn á torgið skerðir ekki aðeins það pláss sem borgarbúar hafa, heldur rífur það viðkomandi hús úr sínu upprunalega samhengi og skemmir götumynd sem á sér langa sögu. Skipulagsmál í Reykjavíkur hafa, í gegn um tíðina, verið sundurlaust og sjaldan hugsað um heildina. Það virðist eiga við hér. Ég trúði því að við hefðum lært að meta menningararf okkar, en það virðist ekki verar. Ný hótel eru einskis virði ef ekkert er að sjá.

Fjalakötturinn var rifinn fyrir nokkrum árum. Þótti þetta gamalt kofaskrifli sem ekkert gagn gerði. Það virtist gleymast að hann var elsta kvikmyndahús í Evrópu og þar af leiðandi menningararfur sem bar að varðveita. Götumyndin í Aðalstræti væri mun fallegri, hefði honum verið bjargað. Hann hefði samsamað sér betur við hliðina á Fógetanum en tómt skrifstofuhúsnæði.

Sem reykvíkingur er ég alfarið á móti því að eitt síðasta torgið sem Reykjavík á verði minnkað til að rýma fyrir hóteli sem lítil þörf er á. Geri deiliskipulagið frá 1987 ráð fyrir frekari nýbyggingum við torgið, og að gömul hús verði rifin, er skipulagið gallað og bera að breyta því hið snarasta. Lækjartorg er gott dæmi um gamalt torg sem ekki er að virka. Það er umlukið nýlegum byggingum og umferðargötu. Flestir sem þar eru, eru að fara eitthvað annað. Þar er ekki stoppað við, eins og á Austurvelli og Ingólfstorgi.

Að lokum vil ég benda á að Kvosin er elsti hluti Reykjavíkur og líklegt að mikið sé um fornminjar í jörðinni. Það er því ólíklegt að framkvæmdir gengju vel, þar sem rannsóknir yrðu að fara fram. Þetta myndi tefja byggingu hótelsins og gera það að verkum að miðbær borgarinnar yrði eitt stórt sár í langan tíma, jafnvel einhver ár. Það yrði óskemmtilegt fyrir borgarbúa og dýrt fyrir framkvæmdaraðila.

Er ekki kominn tími á að vernda það litla sem eftir er að gömlu Reykjavík og stefna að því að búa til miðbæ sem við getum öll verið stolt af?

Með bestu kveðju,

NAFN

KENNITALA

Villi Asgeirsson, 11.9.2009 kl. 13:12

15 identicon

Styð auðvitað mótmælendur vegna breytinga á þessum fæðingarbletti mínum. NASA hét reyndar einu sinni Sjálfstæðishúsið en þar voru dúndur böll og 68 kynslóðin sótti ekki síður þangað en Glaumbæ. Sigmundur Davíð var sérlega spurður um þetta sérstaka mál af fréttamanni. Hann talaði í ullarsokk, það er hafði ekki "efnislega skoðun" á málinu.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 13:50

16 Smámynd: Villi Asgeirsson

Geturðu ímyndað þér hvernig hann yrði tekinn í gegn ef hann leyfði sér að hafa skoðun á málinu? Það sem hann segir við Egil hér að ofan er nógu skýrt. Hann hefur skoðun á málinu, en þessi blettur er ekki pólitísks frama hans virði.

Villi Asgeirsson, 11.9.2009 kl. 14:26

17 identicon

Sæl, Lára Hanna

 Það er kannski vitleysa í mér en mér finnst þú orðin fulldramatísk í skrifum og mér finnst það oft ekki hjálpa þínum málstað. Það er kannski ekki gott að fá eintóm hrós til lengdar, þá veðrast maður allur upp. Ég er ekki að setja mig á háan hest eða rakka þig niður. Ég les færslurnar þínar allar með tölu og er mjög oft sammála þér en finnst þú mættir hafa þetta bakvið eyrað. En það er bara það sem mér finnst.

kv. Kári

Kári (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 15:47

18 identicon

Mikið ofboðslega er ég orðin þreytt á yfirgangi stjórnmála-, stóreignamanna og verktaka í skipulagsmálum í nánasta umhverfi mínu.

Er þetta ekki eins og að segja að hundurinn sé 3 lífverur, haus-búkur-skott.

Alexander (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 16:28

19 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sæll, Kári,

"Það er kannski vitleysa í mér..." og "En það er bara það sem mér finnst" segirðu. Ekki gera lítið úr skoðunum þínum. Það sem þér finnst er ekkert ómerkilegra en það sem öðrum finnst. Þú verður að hafa trú á sjálfum þér og skoðunum þínum, hverjar sem þær eru hverju sinni, og ekki er verra ef þú temur þér að rökstyðja mál þitt af skynsemi. En málið er að þú ert ekki ómerkilegri en aðrir og ekki skoðanir þínar heldur.

Ég átta mig ekki alveg á hvað þú meinar með dramatíkinni af því þú tekur engin dæmi. En hitt veit ég, að raunveruleikinn getur oft verið margfalt dramatískari en nokkuð drama sem þú sérð t.d. í leikhúsi eða bíó. Ég skrifa um það sem mér finnst um hlutina og tek stundum djúpt í árinni. Er mikið niðri fyrir og fjalla gjarnan um mál sem eru mér hjartans mál. Kannski er það sú undiralda sem þú kallar dramatík og eflaust getur hún virkað ýmist jákvætt eða neikvætt. Ég myndi giska á að áhrifin á lesandann færu eftir hans eigin afstöðu til málsins.

En haltu áfram að tjá skoðanir þínar á málum sem þú hefur skoðanir á. Við þurfum á svoleiðis fólki að halda í þjóðfélaginu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.9.2009 kl. 17:43

20 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Frábær færsla. Það getur verið líjandi að vera í baráttunni, því stundum er fagaðilum hótað sem vilja vinna með andstöðuöflum og stundum er veruleikanum snúið á haus með aðför að opnum samtökum um umhverfisvernd og íbúalýðræði. Mbk,  G

http://gbo.blog.is/admin/blog/?entry_id=946633

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.9.2009 kl. 18:19

21 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Það verður hlutverk sumra endalaust að hygla "flokksgæðingunum".... En vonandi fer þeirra tími að líða undir lok. Þú stendur þig vel í hagsmunagæslu almennings, Lára Hanna. Takk fyrir það.

Ómar Bjarki Smárason, 11.9.2009 kl. 21:04

22 identicon

Kærar þakkir fyrir að vekja athygli á þessu, fyrir vikið komust allavega tvær ath.semdir í viðbót inn á tíma. Endilega haltu þínu striki, þ.e. tilfinningunum sem þú setur í skrifin, mér sýnist helst að Íslendingar líti niður á þá sem tala frá hjartanu? þó það sé ekki eigingirni eða græðgi sem rekur fólk eins og þig til að tjá tilfinningarnar - Maður er taminn til að vera "hlutlaus", "fagleg" og "hlutlæg" og tjáningin dettur niður dauð...., - að tjá það sem skiptir mann sjálfan máli, hvað þá aðra óskilgreinda (jafnvel ófædda) er "ekki hægt" án þess að taka tilfinningarnar og siðferðislegan mælikvarða inn í dæmið..... af hverju þótti græðgin- sem vissulega er tilfinning - dulbúin í einhvern hagrænu-/bissnessbúning bara flott fram að kreppu?  

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 21:47

23 identicon

Það er ekki sniðugt hvernig á að fara með þetta torg. Vil engu breyta og alldekki færa gamla Sjálfstæðishúsið (Nasa).

Burtu með þessar hótelbyggingar!

Angantýr Ófeigsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 23:57

24 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Reykjavík er ljót borg - því miður.

En ástæða þessa er sú að hér vantar sárlega fagmennsku og heildarsýn í skipulagsmálum. Slík viðhorf hafa ævinlega verið látin víkja fyrir fyrirgreiðslu og einkavinapoti í lóða- og skipulagsmálum. Óþolandi - en svona er þetta nú samt.

Einhvern tíma hef ég bloggað um þetta efni - þó það sé auðvitað tabú fyrir fyrrverandi borgarfulltrúa að tala um ljótar bygginar og skipulagslegan yfirgang innan borgarmarka. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.9.2009 kl. 15:53

25 identicon

Það hafa mörg umhverfisslys orðið í gamla bænum.  Við þurfum að bremsa þar, og bæta fyrir.  Eitt langar mig þó að minnast á, en það er Gtjótaþorpið.  Þegar ég vann þarna í grenndinni, fyrir ca 40 árum, var Grjótaþorpið allt í niðurníðslu, sannkallað draugaþorp.  Sem betur var horfið frá að rífa öll gömlu húsin, og í dag finnst mér það einn skemmtilegasti staður miðbæjarins.  Öll húsin fallega endurbyggð í upprunalega mynd, og fallegur heildarsvipur á Grjótaþorpinu.  Nú er ánægja að ganga þar í gegn.   

vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband