9.10.2009
Ég fann mikið til...
...með Birni Þorra, alveg eins og Marinó, þegar hann sat andspænis samfylkingarþingmanninum Magnúsi Orra Schram í Kastljósi í gærkvöldi til að ræða aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Það er erfitt að vera í þeirri aðstöðu. Ætla mátti að Magnús Orri neitaði að skilja. Hann ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki grænustu glóru um hvað hann var að tala. Hann heyrði ekki í Birni Þorra, skildi hann líklega ekki, og hélt bara áfram í frasafílingnum. Minnti óhugnanlega á Árna Pál.
Veit Magnús Orri ekki hvað höfuðstóll er? Skilur hann ekki að vextir og kostnaður er reiknaður af höfuðstóli lána? Fattar hann ekki að verðtryggingin bætist við höfuðstólinn? Veit hann ekki að húsnæðis- og bílalán í erlendri mynt líta allt öðruvísi út í dag en fyrir rúmu ári, hvað þá tveimur? Nær hann ekki að það er ekki sök lántakenda, heldur auðmanna, bankamanna, fyrri ríkisstjórna og annarra gráðugra áhættufíkla? Sama má segja um vísitölutryggðu lánin þótt þau hafi ekki hækkað nándar nærri eins mikið. Skilur Magnús Orri ekki að það er grundvallaratriði að leiðrétta höfuðstólinn? Meira að segja ég skil það - og er ég þó ekki efnahagslega vaxin. Ég beini þeim tilmælum til Samfylkingarinnar að senda næst einhvern sem veit hvað hann er að tala um þegar mál, sem eru lífsspursmál fyrir mestalla þjóðina, eru til umfjöllunar. Ekki smástrák á rangri hillu sem vanvirðir heilbrigða skynsemi. Eru kannski "lausnir" ríkisstjórnarinnar í stíl?
Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf fyrir skuldsettar fjölskyldur í landinu - hvað allir athugi! Samtökin ályktuðu um "lausnir" ríkisstjórnarinnar. Þar innanborðs er fólk sem hefur mikla þekkingu á því sem við hin og botnum ekkert í. Einn af þeim er Marinó G. Njálsson sem skrifaði bloggpistil eftir Kastljósið og bókstaflega valtaði yfir Magnús Orra og málflutning hans. Ég hvet alla til að lesa pistil Marinós sem er skýr og skilmerkilegur eins og allt sem hann lætur frá sér fara. Lesið líka styttri pistil Baldvins Jónssonar. Þarna er Baldvin að tala um niðurfærslu lána milli gömlu og nýju bankanna.
Ef einhver veit ekki hvað þar fór fram er hér dæmi: Jósafat skuldaði gamla Landsbankanum 20 milljónir í húsnæðislán. Nýi Landsbankinn "kaupir" skuldina af þeim gamla á 10 milljónir. Það er 50% niðurfærsla eða afskrift. EN... Nýi Landsbankinn rukkar Jósafat ekki um 10 milljónirnar, heldur 20 eins og upprunalega skuldin kvað á um. Jósafat nýtur því í engu niðurfærslunnar eða afskriftarinnar, heldur ætlar nýi bankinn að innheimta skuldina sem hann fékk á hálfvirði í topp. Mér skilst að þannig sé farið um öll húsnæðislán bankanna.
Á meðan þessu fer fram fá vildarvinir skilanefnda gömlu bankanna afskrifaðar milljarðaskuldir og halda fyrirtækjum sínum og eignum. Er nema von að fólki sé misboðið?
Kastljós 8. október 2009
Viðbót: Talað var við Marinó G. Njálsson og Árna Pál Árnason í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Marinó skrifaði pistil um málflutning Árna Páls og ég hengi upptöku með viðtölunum við þá hér fyrir neðan.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Spilling og siðferði, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:50 | Facebook
Athugasemdir
Nei auðvitað er okkur misboðið, það er engin sanngirni í þessu. Er ekki hægt að leita til mannrettindadómstólsins ?
Hólmdís Hjartardóttir, 9.10.2009 kl. 03:40
Það þarf bara aðkoma samfylkingunni frá. Hún er vandamálið.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2009 kl. 04:13
Magnúsi Orra Schram
Þegar hann var framkvæmdarstjóri KR þá lét hann svona og við losuðum okkur við hann en því miður þá fann hann sér stað á Alþingi, þessi maður er ekki nothæfur í nokkurn skapaðan hlut
KR (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 08:10
Þannig að þeir sem tóku lán hjá bönkum eiga að fá niðurfellingu skulda en ekki sá sem tók lán hjá Íbúðalánasjóði?
Hvernig á maður öðruvísi að skilja söguna af Jósafat?
Björn I (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 08:51
Alveg er ég sammála þér. Það er ótrúlegt rugl í þessum unga manni og maður spurði sig, er mikið af svona fólki inni á þingi? Þá er ekki nema von að illa gangi. Ótrúlegur málflutningur hjá drengnum.
Guðrún (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 09:17
"Hann ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki grænustu glóru um hvað hann var að tala. Hann heyrði ekki í Birni Þorra, skildi hann líklega ekki, og hélt bara áfram í frasafílingnum. Minnti óhugnanlega á Árna Pál."
Get ekki verið meira sammála, Lára Hanna
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.10.2009 kl. 09:54
Björn I (IP-tala skráð)
Þetta með mismunun á lánum banka og lífeyrissjóða er klisja sem löngu er búið að hrekja. Sömu aðferðum eða aðstoð verður beitt gagnvart verðtryggðum lánum sama hvaðan þau komu. Það eru gengistryggðu lánin sem eru hinn stóri vandi. Hvorki lífeyrissjóðir né Íbúðalánasjóður veittu slík lán. Þeir sem létu glepjast af gengislánum bankana hafa borgað sem nemur allt að 5 ára afborgunum verðtryggðra lána á síðustu mánuðum og ástandið fer bara versnandi því krónan er í frjálsu falli. Það hljóta allir að sjá að þetta getur ekki gengið svona. Þetta er bara siðlaust rán. Það verður að færa höfuðstól gengistryggðra lána aftur til lántökudags og breyta þeim í hefðbundin verð eða óverðtryggð lán í íslenskum krónum. Lántakendur taka á sig hluta tjónsins með þeim hætti að allar afborganir sem þegar hafa verið reiddar fram standa.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 10:06
Þetta er mjög vel lýst hjá þér..... það er eins og sumir í stjórnarliði hverju sinni (líka í síðustu ríkisstjórn) verði haldnir einhvers konar "andlegri fötlun" á að greina rétt frá röngu...
og stundum er engu líkara en að sumir hafi "rafsoðið" einhvers konar bullfarsa í eigið heilabú...
þetta er líka svona í veiðiráðgjöfinni um þorskinn - sjá hér þar haf sumir orðið fyrir einhvers konar "heilaskemmdum" og virðast hafa "rafsoðið eigið heilabú" með svona "bullförsum" - hugsanlega eins og vírusar lenda í tölvuheilum...
Ætli það sé til einhver "vírusvörn" við svona "heilabúa-bullförsum"..... hjá homo shapiens
Kristinn Pétursson, 9.10.2009 kl. 11:23
Það er reyndar ótrúlegt að hlusta á Magnús Orra ásamt öðru Samfylkingarfólki og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala um leiðréttingu á lánum og koma til móts við skuldara í landinu. Eru þetta eintómir þöngulhausar sem sitja þarna á Alþingi og ráðskast með hag almennings? Það er eins og stjórnvöld séu algjörlega úti á þekju þegar vikið er máls á þessu efni. Það vottar ekki fyrir skilningi á því að lán sem voru tekin í góðri trú en eru nú komin í himinhæðir eru þvílíkt óréttlæti að það hálfa væri nóg og ekkert sem réttlætir að lántakendur eigi að greiða fyrir þann óskunda sem bankarnir átti stóra sök á. Stjórnvöldum þykir ekkert að því að tala um þetta sem skuldir heimilanna! Það er aldrei minnst á að þetta eru skuldir óprúttinna einstaklinga sem hafa komið landinu á hausinn og nú er þorri almennings settur í að greiða fyrir. Þetta óréttlæti fer bara ekki inn í hausinn á ráðamönnum þessa lands og þeir halda því blákalt fram að það sé verið að koma til móts við "skuldara" með handónýtum aðgerðum. Skuldarar eru bankarnir sem með óráðsíu komu öllu á hvolf hér!! Þeir hljóta að þurfa að taka á sig leiðréttingu á þeim lánum sem almenningi var lofað á allt öðrum forsendum en eru nú fyrir hendi. Það þarf að leiðrétta höfuðstól lána strax, annað gagnast ekkert.
Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 12:33
Já, það var ansi magnað að hlusta og horfa á Magnús Orra, daglega gefast tilefni til að hrista höfuðið þegar pólitíkusar taka til máls, þeir virðast flestir halda að þorri fólks sé fífl.
Inside Bilderberg (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 12:41
Ég er svo innilega sammála þér, langaði að blogga um þetta viðtal en gat það ekki nógu vel, þér tókst það eins og alltaf og allir skilja þig. Ég var hreint út sagt hneyksluð á blessuðum manninum.
Ásdís Sigurðardóttir, 9.10.2009 kl. 13:25
Ég varð bara dapur við að hlusta á Magnús Orra. Hann er í fjárlaganefnd en ekki Björn Þorri. Þvílíkt þjóðarólán er það. Hann veit ekkert hvað hann er að tala um og er "clueless" í þessu máli.
Næstu misseri verður stríð á milli skuldara og fjármagnseigenda. Enn sem komið er stjórna fjármagnseigendur þessu landi og það virðist ekki við það komandi að þeir viðurkenni forsendubrestinn ennþá. Neyðarlögin voru nefnilega sett þeim til handa.
Það tekur tíma að koma þjóðinni í skilning um það hvernig samhengið er í þessu og fram að því er fólk aðgerðarlítið í mótmælum sínum vegna takmarkaðs skilnings. Skuldarar eru nefnilega allt of margir í því að skammast sín fyrir að vera í þessari stöðu og hræðast það mjög að tjá sig af ótta við að verða "tekið fyrir" af bankakerfinu.
Það er kominn tími til að skuldarar geri sér í alvöru grein fyrir því að þeir voru illa sviknir, svo milt sé til orða tekið. Á mannamáli heitir þetta að við skuldarar vorum bara teknir þurrt í görnina. Þetta þurfum við að mynda samtök um að fá leiðrétt hið allra fyrsta svo endurreisn geti átt sér stað.
Haukur Nikulásson, 9.10.2009 kl. 13:55
Það er óhugnanlegt þetta daður sumra í Samfylkingunni við frjálshyggjuna. Þetta minnir mann á hvernig Tony Blair bætti um betur eftir að Margaret Thatcher fór frá.
Hanna Kristín Hallgrímsdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 14:38
Ef afborganirnar miðast við launaþróun (nýu vísitöluna) en ekki þróun höfuðstólsins og afskrifa á lánin þremur árum eftir núverandi lokadagsetningu þá skiptir höfuðstóllinn í raun ekki máli lengur. Þróun hans hefur ekki áhrif á afborganirnar og ekki heldur á lánstímann. Stærð hans hefur því eingöngu áhrif á það hversu há upphæð verður afskrifuð í lokin.
Það sem lántakandinn er að taka á sig eru greiðslur í þrjú ár til viðbótar því sem hann samdi um á sínum tíma. Það sem lánveitandinn er að taka á sig eru afskriftirnar í lokin.
Er ég ekki að skilja þetta rétt?
Sigurður Viktor Úlfarsson, 9.10.2009 kl. 14:45
Samfylkingin er í hörku PR sókn þessa dagana og augljóst hver dagskipunin var fyrir þá herferð. "Fáum lýðinn til þess að trúa því að þetta sé besta leiðin".
Magnús Orri, Stefán Ólafsson í Fbl í dag og leiguliðar þeirra á blogginu um allt.
Stefán Ólafsson ætti að húðskammast sín. Fræðimenn gefa ekki frá sér svona yfirlýsingar - aldrei. Hann fullyrðir að Icesave verði aðeins um 15% af heildarskuldinni sem að á þjóðinni lendir vegna hrunsins. Staðreyndin er að það er miðað við að allt fari á allra besta veg. Ef að allt færi á allra versta veg gæti Icesave skuldin eins og sér, orðið um 50% af heildarbyrðunum. Stefán Ólafsson ætti að skammast sín fyrir að reyna með þessum hætti að blekkja þjóðina.
Ég skrifaði aðeins um þetta Kastljós í gær, en pistill Marinós er með því besta sem að ég hef séð um málið hingað til. Segi það án þess að ætla með neinum hætti að skyggja á þessa skínandi góðu færslu þína Lára Hanna
Baldvin Jónsson, 9.10.2009 kl. 15:03
Skemmtileg múgæsing að myndast hér. Sýnist sanngirnin eitthvað af skornum skammti. Enginn er fullkominn, hvorki Magnús Orri né bloggarar.
Björn Birgisson, 9.10.2009 kl. 15:40
Björn, er það samt nokkuð óeðlileg krafa að ætlast til þess að þingmaðurinn viti hvernig málið er í raun og tali af sannleika?
Baldvin Jónsson, 9.10.2009 kl. 15:44
Það er sjálfsögð krafa, Baldvin.
Björn Birgisson, 9.10.2009 kl. 15:47
Sammála Birni Birgissyni, myndast smá múgæsing?
Icesave er smámál í með tillit til allra skulda.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 17:29
Hvaða múgæsingu eruð þið að tala um, piltar? Að 15 manns séu nokkuð sammála um lélega frammistöðu þingmanns? Auðvitað er enginn fullkominn, Björn. En við eigum að gera þá sjálfsögðu kröfu til þingmanna að þeir hafi a.m.k. hvolpavit og blaðri ekki út í loftið um stórmál sem varða lífsafkomu flestra landsmanna!
Og Ólafur Sveins... þú ert að skrifa athugasemd við vitlaust blogg. Hér er ekki verið að fjalla um Icesave.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.10.2009 kl. 17:34
Það var komið inn á Icesave í einni af krækjunum þínum. Ég þekki skuldara sem eiga ekki skilið að vera hjálpað. Þeir hafa sig líka í frammi.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 18:01
Lára Hanna, takk fyrir góð orð í minn garð og að vekja athygli á færslum mínum. Við þurfum öll okkar vopn til að berjast gegn tillögum ráðherra, sem eru ekkert tillögur hans heldur lítillega breyttar tillögur bankanna.
Mér finnst lágmark, að þegar menn eru sendir í viðtöl, að þeir viti hvað þeir eru að tala um. Magnús Orri Schram uppfyllti ekki það skilyrði og þess vegna átti hann ekki að gefa kost á sér. Þingmennska gerir menn ekki sérfróða um öll möguleg málefni.
Marinó G. Njálsson, 9.10.2009 kl. 18:54
Sæl Lára Hanna,
Ég er sammála en vil benda á að pólitíkusar hafa atvinnu af því að selja sig og sögur sínar. Hvorugt þarf að vera merkilegur pappír né hafa nokkur tengsl við raunveruleikann. Eftir því sem ég las á blogginu hjá Marinó (ég bara hef ekki þolinmæði til að hlusta á þetta kjaftæði lengur) þá vissi þessi ágæti maður lítið um hvað hann var að tala.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 9.10.2009 kl. 19:25
Arnór, ég hálf öfunda þig að vera úti í Port Angeles og horfa á þetta úr fjarlægð. Þetta rugl hérna tekur engu tali. Við höldum að þetta sé alltaf að því komið að batna, en áttum okkur þá á því að við sáum bara í brekkubrún, en það er umtalsvert lengra upp á toppinn (þ.e. niður á botninn).
Marinó G. Njálsson, 9.10.2009 kl. 19:35
Samfylkingin hefur líka sent þjóðfræðing til að tala á móti tveim hagfræðingum um hagfræðimál. Það var eftirminnilegt.
Billi bilaði, 10.10.2009 kl. 04:32
"Hann ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki grænustu glóru um hvað hann var að tala. Hann heyrði ekki í Birni Þorra, skildi hann líklega ekki, og hélt bara áfram í frasafílingnum. Minnti óhugnanlega á Árna Pál."
Get ekki verið meira sammála, Lára Hanna
Ég er líka sammála athugasemd nr 2 frá Jóni Steinari
Jón Á Grétarsson, 10.10.2009 kl. 15:58
Takk enn og aftur Lára fyrir unaðsleg skrif, ég hætti að borga um síðustu mánaðarmót, sé engan tilgang í því að borga 200.000 í lán á mánuði þegar þau hækka um 200.000 þúsund eftir þá afborgun, þetta nær ekki nokkurri átt !
Sævar Einarsson, 10.10.2009 kl. 17:15
Tek undir þetta með utanbókarlærðu frasana. Maður starði bara opinmynntur á þetta viðtal og augljóst að Björn Þorri var mjög hiss á nákvæmninni í utanbókarlærdómi Magnúsar Orra. Ég hef lengi haldið því fram að á leyndum stað hér í bæ, sé heilaþvottastöð Samfylkingarinnar. Þar fara flokksmenn til að fá innprentaða nýja frasa til að nota í baráttunni við skuldara þessa lands. Spurning að reyna að finna fylgsnið og jafna við jörðu.
Mér finnst alveg makalaust hvernig félagsmálaráðherra tókst að slá ryki í augu landsmanna. Flestir sem ég hef talað við varðandi þessar nýju "lausnir" sem kynntar voru, halda að verið sé að færa heildarskuldina (höfuðstólinn) aftur til 1. jan. 2008 (verðtryggð lán) og 1. maí 2008 (gengistryggð lán). Blekkingarmaskínan tókst ætlunarverk sitt og nú heldur meginþorri landsmanna að búið sé bara að redda málinu. Þegar maður svo bendir fólki á að einungis sé verið að færa greiðslubyrðina aftur, þá verða menn ekki svo kátir.
Hrikalegt.
Það er heldur ekki tilviljun að bankarnir eru akkúrat á sama tíma og þessar "lausnir" koma fram á sjónarsviðið, að bjóða fólki að breyta gengistryggðum lánum yfir í óverðtryggð lán. Ef í ljós kemur að gengistryggðu lánin hafi verið ÓLÖGLEG, þá er fólk væntanlega búið að skrifa frá sér rétt sinn að fá leiðréttingu með því að skrifa undir skilmálabreytingu. HVERJIR GRÆÐA Á ÞVÍ!!!
Ágústa Sigrún Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 18:56
Góð færsla hjá þér Lára Hanna, eins og venjulega. Því miður missti ég af viðtalinu við Magnús Orra og hef ekki nennu til þess að horfa á hann núna (geri það seinna) en ég renndi í gegnum athugasemdirnar hér að ofan og verð að segja að mér finnst þær ansi hvassar á köflum.
Auðvitað á þingmaður ekki að mæta í viðtal ef hann hefur ekki á takteinum hvað verið er að ræða um. Auðvitað eiga menn ekki að þylja uppúr sér einhverri síbylju og fyrirfram ákveðnum frösum þegar verið er að ræða um jafn alvarlegt mál og hér er um að ræða. En að sama skapi eiga menn ekki að slá fram fullyrðingum um að þingmaðurinn viti EKKERT um hvað verið er að ræða og því síður að viðkomandi hafi verið í "heilaþvottastöð" ... hvurslags er þetta? Gústí ég er steinhissa á þér.
Sjálf ber ég þungar afborganir af erlendu láni sem ég tók í júlí 2007. Er að greiða nærri þrefalt það sem ég ætlaði mér og finnst þetta andskoti hart. Ég vil að allra leiða sé leitað til að leiðrétta þetta en ég geri mér grein fyrir því að um leið og ég ætlaði mér að greiða minna á mánuði (með því að taka erlent lán) þá tók ÉG áhættu þegar ég samþykkti lánið. Ég féll í þá gryfju að treysta bankamönnunum, treysta fagurgalanum og treysta því að ég ætti í viðskiptum við HEIÐARLEGA bankamenn. Það reyndist tálsýn ein og þetta með heiðarleikann særir mig mest. Ég er sammála Gústí um að ég vil fá úr því skorið hvort erlendu lánin hafi í raun verið lögleg og mér blöskrar ef "nýju" bankarnir ætla sér að græða á almenningi á sama tíma og útrásarvíkingarnir eru skornir úr snörunni hver á eftir öðrum.
Ég vil sanngirni, réttlæti og heiðarleika aftur í bankaviðskipting og á Alþingi. Ég ber ákveðna ábyrgð á því að hafa treyst þessum fjöndum, það er nokkuð sem ég þarf að sætta mig við. En ég er ekki sátt við að kappar sem hafa spilað á kerfið árum saman skuli ganga um lausir allra mála og ég ætla að standa með þér, Gústí og öðrum til að koma þeim á bak við lás og slá, þar sem þeir eiga heima!
Ingibjörg Hinriksdóttir, 10.10.2009 kl. 19:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.