Ólöglegur dómur og réttarglæpur?

Ég er núna fyrst að kíkja á Silfrið frá í gær. Er ekki búin að horfa á allan þáttinn ennþá, en hnaut hressilega um þennan kafla sem - að því ólöstuðu sem ég er búin að sjá - er alveg stórmerkileg umræða og upplýsandi með eindæmum.

Hér talar Sveinn Valfells tæpitungulaust um nýgenginn dóm Hæstaréttar í  Glitnismáli Vilhjálms Bjarnasonar. Nokkuð var fjallað um dóminn eftir að hann féll og ef ummælin eru tekin saman (Spegilsumfjöllun viðfest neðst í pistlinum) er deginum ljósara hvers konar furðuverk er hér á ferðinni. Óskiljanlegur gjörningur. Og dómurinn vekur upp ýmsar spurningar um framtíðina eins og Sveinn kemur inn á.

Það eru svona dómar sem ég átti m.a. við þegar ég sagði í þessum pistli: "Að lokum legg ég til að íslensk lög og dómar íslenskra dómstóla snúist um réttlæti." Því er flaggað í tíma og ótíma að við búum í réttarríki. Það hefur enga þýðingu ef dómar snúast ekki um réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum.

Silfur Egils 8. nóvember 2009

 

Annað sem Sveinn talaði um er hin furðulega ráðstöfun með Haga, afskriftirnar og eignarhaldið. Eins og við höfum reyndar alltaf vitað er ekki sama Jón og séra Jón - og enn síður nú um stundir en nokkru sinni. Spaugstofan var með þetta á laugardaginn og ég trúi ekki að almenningur á Íslandi - og stjórnvöld - ætli að láta þetta viðgangast.

Úr Spaugstofunni 7. nóvember 2009

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

ATH.: Úrvinnsla blog.is á myndbandinu úr Silfrinu misheppnaðist. Er að hlaða því inn aftur og vonandi verður það í lagi.

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.11.2009 kl. 13:32

2 identicon

Fannst þetta einmitt langlanglang mikilvægasta sem kom fram í þættinum og vakti undrun mína að nákvæmlega ekkert séð fjallað um þetta á vefmiðlunum / bloggheimum.  Enn og aftur, takk fyrir að vekja athygli á mikilvægum málefnum, því efast ekki um að margir eigi eftir að fatta mikilvægi þess sem hann sagði eftir samantekina hjá þér.

Ps. fannst Egill reyndar klikka illilega á að láta ekki fulltrúa stjórnarinnar svara þeim spurningum sem Sveinn beindi til hennar

ASE (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 13:50

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sko,  varðandi þennan dóm, þá er ekki hægt að líta framhjá því að í lögunum er undanþáguákvæði.

þ.e. ein grein segir jafnræði - en svo er önnur sem gefur greinilega undanþágu frá jafnræðisgreininni í vissum tilfellum.

Nú, mér finnst að  það eigi nálgast þetta mál í fyrstu með að kanna hvernig lög í td. nágrannalöndum okkar eru þessu viðvíkjandi.  Er slík undanþágugrein eða einhvað álíka til staðar þar. 

Veit ekki, en það er eins og það sé svo gegnumgangandi í ísl. löggjöf að lögin eru þetta og þetta etc - lítur vel út við fyrstu sýn -   en svo kemur oft og iðulega undirmálsgrein - NEMA í þessu og hinu tilfellinu o.s.frv.

(sem dæmi þessu alveg ótengt varð ég hissa á að sjá lögin um refsingar gagnvart samræði undir aldri,  að ef sá ákærði getur borið því við að hann hafi trúað því að viðkomandi hafi verið 15 - þá er miklu miklu mun vægara tekið á því,  nánast laus allra mála.  Nánast.   Þá flokkast það sem samræði við einstakling undir aldri - af gáleysi.)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.11.2009 kl. 14:29

4 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Sæl Lára Hanna.

Öllu gríni fylgir nokkur alvara.

Þetta atriði um afskriftarstólinn,hittir virkilega í mark.Og segir okkur,hvað þegnum  þessara þjóðar er mismunað.Það versta í þessu öllu,er að  það er margt eftir að koma  í ljós,þegar allt er komið upp á borðið.En það sem maður hugnast,er að það verði ekki nema brotabrot af því,sem í raun var og er,kemur aldrei fram í dagsljósið.

Ingvi Rúnar Einarsson, 9.11.2009 kl. 15:07

5 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Horfði á Silfrið og var dolfallin allan tímann sem Sveinn fræddi okkur um þennan dóm og svo margt sem þessi maður sagði og talaði Íslensku.

Tek undir það hér að ofan að aldrei munum við fá að vita um allan sorann sem hefur viðgengist, hann er ekki að byrja, ó nei man eftir honum svo langt aftur sem ég hef vit til
Takk fyrir mig

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.11.2009 kl. 17:34

6 identicon

 Hér er dómurinn og lögin:http://haestirettur.is/domar?nr=6174

http://www.althingi.is/vefur/lagasafn.html

Lög um hlutafélög 1995 nr. 2 30. janúar Mæli með að lesa dóm undirréttar fyrst og svo dóm Hæstaréttar, dómur undirréttar reifar sjónarmið stefnda og stefndu og veitir þannig yfirsýn yfir málið.  Það er ýmislegt fleira hægt að segja um dóm Hæstaréttar en komst að í Silfri Egils. Sveinn

Sveinn Valfells (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 17:56

7 identicon

     Mjog undarlegur domur og mjog skarpar athugasemdir hja Sveini Valfells i sambandi vid thennan dom og lika mjog athyglisverdar athugasemdir i sambandi vid radningu Finns til Kaupthings.

    Væri gott ef bladamenn kynntu ser svipud mal hja nagrannalondum okkar, en thad er i raun med olikendum ad menn geti hreinlega stolid af odrum hluthofum , sem ekkert annad en absurd fordæmi.

Forvitinn (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 18:22

8 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Það vantar stórkostlega hérlendis að íslenskir lögfræðingar stígi fram og tjái sig um furulega dóma sem t.d. koma frá Hæstarétti.  Jón Steinar var sá einni sem hefur staði fyrir slíkum skrifum, en eftir að Dabbi kóngur kom honum að hjá Hæstarétti, þá heyrir til undantekningar að maður lesi gagnrýnislegar greinar frá LÖGFRÆÐINGUM um LÖGFRÆÐI DÓMA...!  Gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið að löglærðir menn stígi fram og tjái sig um þennan dóm og aðra vafasama dóma sem koma út úr íslenska dómskerfinu.

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 9.11.2009 kl. 18:31

9 identicon

Mér finnst skrýtið að Egill hafi komið með hagfræðing/eðlisfræðing frá London til að ræða dóm hæstaréttar. Með fullri virðingu fyrir Sveini þá er hann ekki lögfræðingur og í málflutningi hans bar á ýmsu sem gaf til kynna ótrúlega fáfræði hans á íslensku réttarskipan.

Fólk virðist halda að Hæstiréttur eigi að dæma eftir réttlæti. Það er rangt, dómarar eiga fyrst og fremst að dæma eftir lögunum. Þeir eru bundnir því skv 61.gr stjórnarskrárinnar.

Geðþóttaákvarðanir eiga ekki heima í réttarsal. Röklega má færa siðferðisleg rök fyrir því að lagaleg niðurstaða eigi að vera siðferðilega hlutlaus. Siðferðilegt gildi laganna felst í því að hægt sé að slá föstum reglu um háttsemi manna sem óháðar eru gildismati.

Vandamálið er í löggjöfinni og ekkert því til fyrirstöðu að löggjafinn geri lög um hlutafélög með skýrari hætti.

hs (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 18:33

10 identicon

Alveg rétt hjá þér Jakob Þór. Það vantar að lögfræðingar gerist álitgjafar á meira opinberum vettvangi en hingað til hefur tíðkast.

hs (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 18:35

11 Smámynd: Finnur Bárðarson

Samkvæmt HS má enginn tjá sig um dóma nema þeir tilheyri hinni Guðs útvöldu stétt lögfræðinga.

Finnur Bárðarson, 9.11.2009 kl. 18:39

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég vil benda þér á orðræðuna hennar Kristrúnar Heimisdóttur.  Farðu vel í gegn um hana og klipptu út það sem þér finnst merkilegast.  Mér sýnist sem henni hafi tekist að móðga nokkuð marga.

Marinó G. Njálsson, 9.11.2009 kl. 18:44

13 identicon

Auðvitað mega allir tjá sig um dóma. En ég vildi ekki hlusta á lögfræðing í umræðuþætti í ríkissjónvarpinu tjá sig um nýjustu kenningar í strengjafræði með svo afgerandi hætti.

hs (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 18:47

14 Smámynd: Páll Jónsson

Ég held að HS hitti naglann á höfuðið að mörgu leyti.

En af hverju eru fréttamenn ekki búnir að draga fram félagaréttarspekúlanta háskólanna í tengslum við þetta mál? Liggur það ekki beinast við ef menn vilja álit óháðra kunnáttumanna? 

Páll Jónsson, 9.11.2009 kl. 19:34

15 identicon

"Blaðamenn" 

Er ekki búið að reka alla blaðamenn íslenskra fjölmiðla og einir sem skrifa um atburði líðandi stundar eru ritstjórar og eigendur þeirra??

Þröstur (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 20:31

16 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Hvenær var almennum borgurum bannað að tjá sig um dóma í þessu landi ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 9.11.2009 kl. 20:53

17 identicon

Verið ekki að hnýta í hs. Auðvitað mega allir tjá sig um dóma. Sömuleiðis er algerlega sjálfsagt að gera kröfu til þess að réttlæti sé haft að leiðarljósi í dómsniðurstöðum.

Vandinn, eins og hs bendir á, er að dómarar eiga ekki að dæma eftir réttlæti, heldur fyrirskipar stjórnarskráin að þeir skuli aðeins dæma eftir lögum. Stundum fer þetta saman en ekki alltaf.

Dómararnir komust að þeirri niðurstöðu að jafnræðisreglan gagnvart hluthöfum gilti ekki skilyrðislaust, þar sem önnur ákvæði í hlutfélagslögunum gefa stjórnum færi á að hygla sumum á kostnað annarra.

Gott og vel, hvernig væri þá að breyta helv... lögunum? Og hætta að snupra hæstarétt fyrir að hafa uppgötvað þessa smugu? 

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 21:53

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Mér dettur í hug að "HS" sé lagatæknir eða lögspekingur. Ég vil ekki nota orðið lögfræðingur, því lögfræði er ekki fræðigrein. Frekar tækni eða speki sem byggir á brjóstviti. Það finnst mér hafa sannast í dómi Hæstaréttar.  Fyrirgefið orðbragðið, en ég er hneykslaður.

Ég vil þakka Sveini fyrir að hafa talað á þann veg að allir skilja hve hræðilegur þessi dómur er fyrir atvinnulífið á Íslandi. Þessum dómi Hæstaréttar verður að hnekkja fyrir enn æðra dómstigi. Ég á von á að sú verði raunin.

Ágúst H Bjarnason, 9.11.2009 kl. 22:23

19 Smámynd: Páll Jónsson

Ágúst: Það er einmitt botninn í þessu, Hæstiréttur má ekki dæma eftir því sem hentar atvinnulífinu á Íslandi best, hann verður að dæma eftir lögunum. Annars væri þetta ekki fræðigrein heldur bara speki og brjóstvit.

Alþingi verður einfaldlega að breyta sínum lögum ef þau eru hörmuleg fyrir samfélagið, það þýðir ekki að ætlast til að dómarar gerir það, frekar en blaðamenn eða slátrarar (þó þeir freistist stundum til þess að hnika þeim svolítið til svo lítið beri á). 

Páll Jónsson, 9.11.2009 kl. 22:34

20 identicon

Hafa skal það er sannara reynist og passar það ekki verður bara að breyta lögunum. Greinilegt og algerlega augljóst að pakkið rottar sig saman, mokar til sín miljörðum og þið hin getið bara komið ykkur út i gaddinn. Eginlega held ég að nú eigi að flæma burt síðustu "mótmælabelgina" með skrípaleik svo hægt sé að "selja og kaupa" það sem eftir er að verðmætum og hagnast i báða enda. Því hefur verið flaggað að best sé að hætta að borga af skuldunum. Hef betri hugmynd. Hættið heldur að þjóna pakkinu. Ekki afgreiða i búð, ekki fjarlægja rusl og ef þú getur lokað fyrir rafmagnið og vatnið hjá pakkinu, þá gerðu það. Nei, svona i alvöru er ekki hægt að fjalla um þetta bull málefnanlega lengur.

The Outlaw (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 22:42

21 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Það er engin spurning, að því miður hefur hs á réttu að standa! Dómarar hafa ekkert leyfi til að dæma eftir "réttlæti" heldur eftir lögum. Það er Alþingis að ákveða hvernig lögin eiga að túlka réttlætistilfinningu þjóðarinnar. Alþingi hefur held ég takmarkaðan áhuga á því og fyrir því eru ákveðnar ástæður.

Þetta eru eflaust þær slæmu fréttir, sem Páll Sveinn Hreinsson, hæstaréttardómari og formaður Rannsóknarnefndar Alþingis, hefur að færa þjóðinni. Af þessum sökum var niðurstöðunni frestað! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.11.2009 kl. 22:45

22 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Páll. Ég heyrði enni betur en að Sveinn rökstyddi það mjög vel að dómurinn væri rökleysa og vitnar í 76. grein og 55. grein laganna. Hvenig getur Hætiréttur dæmt eftir lögunum á þennan hátt?

Ágúst H Bjarnason, 9.11.2009 kl. 22:51

23 identicon

Dómur Hæstaréttar var hárréttur. Sú staðreynd að heimild sé í lögunum til þess að félög kaupi eigið hlutafé að vissu marki felur í sér að hægt er að "mismuna" hluthöfum. Til þess að gæta fulls jafnræðis við kaup félags á eigin hlutum þyrfti annars að senda tilboð til allra hluthafa sem byði þeim að selja hlutfallslega það sama af sínum eigin hlut. T.d. Ef félagið ætlaði að afla sér sem samsvaraði 3% af hlutafé sínu yrði þá að bjóða hverjum einasta hluthafa að kaupa af honum 3% af eign hans. Þetta er einfaldlega ekki praktískt.

Aftur á móti fellst ekki í heimildinni sem hluthafafundur veitti algjörlega opin heimild til þess að kaupa hluti, stjórnin er ennþá bundin af því að þurfa að taka ákvarðanir með hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Því er mögulegt að stjórnin verði gerð skaðabótaskyld á þeirri forsendu að hún hafi ekki haft hagsmuni félagsins að leiðarljósi heldur hafi hér einhverjir einkahagsmunir ráðið för á kostnað félagsins. Þannig má telja að ef stjórnin bregst skyldum sínum en í hlutafélagalögunum segir að stjórnin megi ekki  "gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins." (1. mgr. 76. gr. hlutafélagalaga).

Hæstiréttur hafnaði EKKI skaðabótaskyldu ef sú væri raunin, en í dómnum segir :

 "Ef frá er talin málsástæða hans, sem lýtur að broti gegn reglum um jafnræði hluthafa og afstaða hefur þegar verið tekin til, er þeim það sammerkt að þær eru reistar á ávirðingum í garð áfrýjenda vegna starfa þeirra í stjórn Glitnis banka hf., sem gætu ef réttar væru fellt á þau skaðabótaábyrgð gagnvart félaginu eða eftir atvikum refsiábyrgð, en ekki skaðabótaskyldu gagnvart einstökum hluthöfum. Verða áfrýjendur því sýknuð af kröfum stefnda."

Hér ef Hæstiréttur einfaldlega bundinn af því að Vilhjálmur Bjarnason hluthafi er ekki réttur aðili máls, en skv. 134. gr. hlutafélagalaganna hefði réttur aðili hefði verið félagið sjálft en í greininni segir

"Stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar og endurskoðendur og skoðunarmenn hlutafélags, svo og matsmenn og rannsóknarmenn, eru skyldir að bæta hlutafélagi það tjón, er þeir hafa valdið FÉLAGINU í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi"

Ef aðeins einstakur hluthafi hefði orðið fyrir einhverskonar tjóni, s.s. tjón sem snerti hann beint þá gæti sá sami væntanlega höfðað mál, en hér er um það að ræða að ef ekki eru ásættanleg rök fyrir því að borga yfirverð þá verður félagið fyrir tjóni, löggjafinn hefur hagað því þannig að það er félagið sem í slíkum tilfellum á málsaðild og dugar að 10% hluthafa samþykki að höfða mál.  Ef heimilað væri einnig að hluthafar höfðuðu mál þá myndi það þýða að tjónvaldar gætu þurft að tvíbæta tjón sem þeir valda en það er ekki í samræmi við helsta markmið íslensks skaðabótaréttar sem er að gera tjónþola jafnsettan og hann væri ef ekkert tjón hefði orðið. Þess má reyndar geta að ef fallist hefði verið á héraðsdóminn þá hefði skapast fordæmi sem hefði leitt af sér að ef allir hluthafar félagsins á þessum tíma hefðu sótt sér bætur þá hefði stjórnin þurft að greiða sem nemur um 30 miljörðum í bætur fyrir um það bil 500 miljóna tjón.

En stjórnin er ekki endilega sloppin, það var einfaldlega ekki hægt að dæma hana í þessu máli. Slitjastjórn bankans gæti höfðað mál ef hún teldi sig hafa nægar sannanir fyrir þvi að um ólögmæta ákvörðun hafi verið að ræða, enda ýjar Hæstiréttur að því að mögulega sé til staðar skaðabótaábyrgð gagnvart félaginu.

Jafnframt segir í Hæstaréttardómnum að stjórnendur gætu borið refsiábyrgð vegna kaupanna, en um slíkt væri eingöngu dæmt í opinberu máli, þ.e. höfðuðu af saksóknara en ekki sótt af einkaaðila. Enda er ein af ástæðunum sem einn stjórnarmaðurinn gaf fyir héraðsdómi að væri ástæðan fyrir kaupunum sú að koma í veg fyrir að verð bréfanna félli á markaði. Þetta gæti talis markaðsminotkun en samkvæmt tl. 1-b. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti er það markaðsmisnotkun að

"tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði" Slík  misnotkun myndi varða allt að 6 ára fangelsi.

Í stuttu máli sagt, Hæstiréttur fór einfaldlega að lögum eins og honum ber að sjálfsögðu skylda til, í dómnum fólst ekki afstaða til þess hvort um ólögmætar ástæður væri að ræða sem lágu að baki kaupunum heldur var aðildin í málinu einfaldlega ekki rétt til þess að Hæstiréttur gæti tekið afstöðu til þess. Þetta útilokar ekki að málið komi aftur til kasta dómstóla og þá í réttum búningi, s.s. sem skaðabótamál sótt af félaginu sjálfu eða sakamál með ákæru frá saksóknar.

Guðni Einarsson (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 01:02

24 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hvernig má það vera að dómur Hæstaréttar sé "hárréttur"?  Héraðsdómur kemst að þveröfugri niðurstöðu, sem segir okkur að það sé ekkert "rétt" í þessu máli. Hér hlýtur því að vera um að ræða mismunandi túlkun á lagagreinum að ræða. Séu lögin það óljós að hægt sé að skilja þau á mismunandi vegu er ljóst að þau eru illa samin. Ef hægt er að túlka lagagreinar á mismunandi hátt, þá segir það okkur að ekki er um vísindagrein að ræða þar sem lögfræðin er, heldur eitthvað annað.

Hæstaréttardómarar eru örugglega hið mætasta fólk og ekkert við þá að sakast, en það sem vekur fyrst og fremst áhyggjum er það sem var rauði þráðurinn í  ummælum Dr. Sveins Valfells í Silfrinu, en það eru mjög neikvæð áhrif dómsins á íslenskt atvinnulíf. Það er það sem umræðan ætti að snúast um, en ekki hvort dómurinn sé "réttur" eða "rangur".

Hér eftir verður nefnilega ekki hægt að ætlast til þess að fólk hætti fé sínu í kaup á hlutabréfum í fyrirtækjum, sem þýðir að hlutafélög um til dæmis nýsköpun í iðnaði verða ekki að veruleika öðru vísi en að þau verði skráð erlendis. Hugsanlega þó með starfstöðvar á Íslandi og öðrum láglaunasvæðum.

Er þetta það sem við viljum? Mun þetta hjálpa okkur til að komast upp úr kreppunni?

Ágúst H Bjarnason, 10.11.2009 kl. 07:46

25 identicon

Miðað við innlegg lagatæknanna hérna, sýnist mér, að íslenska dómskerfið ráði ekki við þau verkefni sem bíða þess. Ekki er nóg að breyta lögum, heldur verður líka að breyta eðli hæstaréttar og gera hann sjálfstæðari líkt og í Bandaríkjunum. Þar er tekið á fleiri þáttum en lagabókstöfum, sem oft stangast á. Íslenskir lagatæknar hafa ekki næga menntun til að takast á við þannig verkefni. Við eigum að vísu nokkra spekinga á þessu sviði, því þrátt fyrir að Háskólarnir hér séu ekki beisnir, þá eru alltaf til einstaklingar, sem rísa yfir meðalmennskuna og geta hugsað eins og menn.

S.Á. (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband