Rússatengsl íslensku auðjöfranna

Halldór Halldórsson, blaðamaður, skrifaði athugasemd við síðasta pistil sem ég sé ástæðu til að vekja sérstaka athygli á. Áður var ég búin að birta greinar Halldórs úr DV frá í haust og hugleiðingar um glæparíkið Rússland og hugsanleg tengsl þess við íslenska auðjöfra. Þessi mál þarf að skoða í samhengi og því meiri upplýsingar sem koma upp á yfirborðið, því betur er hægt að gera sér grein fyrir hvað hefur verið á seyði í fjöldamörg ár. En líkast til er þetta allt bara toppurinn á ísjakanum og alls óvíst hvort öll þessi mál upplýsast, sbr. orð Halldórs í lok pistilsins. Gefum Halldóri orðið:

Halldór Halldórsson, blaðamaðurUpphaf fjárstreymis græðgiáranna á milli Íslands og Rússlands með viðkomu í Lúxemborg, á Kýpur og Brezku Jómfrúreyjum (Tortola) má rekja til fyrsta ársins, sem Björgólfur seníor átti tíð erindi til Pétursborgar, þar sem hann var verktaki hjá gosdrykkjaverksmiðjunni Baltic Bottling Plant. Íslendingar, sem hittu Björgólf í Pétursborg 1993, hafa sagt frá því að BG hafi stoltur greint þeim frá þessum nýja reynsluheimi sínum, m.a. hvernig samskiptum við borgaryfirvöld og fleiri væri háttað. Fram kom, að hann hefði "hörkumann" innan borgarkerfisins á sínum snærum og hann þyrfti að borga honum mútur uppá 200-300 Bandaríkjadali á mánuði.

Annar heimildarmaður minn segir mér, að mútugreiðslur til embættismanna hefðu verið nauðsynlegar á þessum árum, en upphæðir fyrir góð sambönd hefðu verið a.m.k. 500 dollarar. Í DV-greinum mínum sem birtust í lok september og í upphafi október fjallaði ég svolítið um tengsl Björgólfsfeðga og Magnúsar Þorsteinssonar við borgaryfirvöld í Pétursborg og nefndi sérstaklega til sögunnar Yakovlev, sem var aðstoðarborgarstjóri Pétursborgar, en tók við borgarstjórastarfinu af Pútín, þegar hann tók við stjórn Rússlands. Þessi Yakovlev var á mynd, sem birtist í DV, en hún var tekin þegar gosdrykkjaverksmiðja BBP var opnuð. 

En tengsl Björgólfsfeðga og MÞ við valdamenn í svokallaðriLeonid Reiman, fyrrverandi símamálaráðherra Rússa Pétursborgarklíku voru víðtækari og má nefna Leonid Reiman, forspilltan fyrrverandi símamálaráðherra Rússlands, sem Pútín neyddist til að láta fara fyrir röskum tveimur árum. Reiman var sá ráðherra, sem Pútín hélt lengst hlífiskildi yfir af spilltum ráðamönnum í Moskvu og lét hann komast upp með að sanka að sér símafyrirtækjum út um Rússland, þvert og endilangt, og stofna Megafon, sem var með um 70% af allri símaþjónustu í landinu. Reiman þessi hafði útsjónarsaman lögmann, Galmond að nafni, Dana, sem sá um að koma gróðanum af fjársvikastarfi Reimans í skattaskjól. Svo vill til, að Galmond þessi var lögmaður Björgólfsfeðga í málaferlum BBP gegn þeim í Rússlandi - og sinnti öðrum verkefnum fyrir þá, t.d. þegar þeir breyttu nafni BBP verksmiðjunnar í Bravo International þrátt fyrir að eignatilfærslan byggði á meintum fölsuðum skjölum skv. átta dómum, sem féllu um málið í Rússlandi og tveimur í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Tengslin teygja sig vítt og breitt um valdakerfi Rússlands, og ekki leikur minnsti vafi á góðum samböndum Samson-þremenninganna í Pétursborg og Moskvu. Magnús Þorsteinsson á einnig ríka hagsmuni í Pétursborg og víðar. Prentsmiðjan, sem Þorgeir í Odda keypti fyrir að sögn 20 milljónir dollara er gjarnan nefnd. Hún heitir MDM Pechat. Skiptastjóri Landsbankans hefur sagt Björgólf tengjast henni í gegnum sitt eigið eignarhaldsfélag. Af því, sem nefnt hefur verið opinberlega er þó athyglisverðast að huga að stórfelldum hafnarframkvæmdum Björgólfs eldra og Magnúsar Þorsteinssonar í Pétursborg. Höfnin þótti ákaflega erfið og hægvirk og missti borgin viðskipti til Murmansk og svo annarra hafna við Eystrasalt.

Til þess að koma yfirleitt til greina sem þátttakandi í endurbyggingu eins af sex stórum svæðum hafnarinnar, tugmilljarðaverkefni, segir sig sjálft að þeir Björgólfur og Magnús hefðu ekki komið til álita án þess að hafa mjög öflug og traust sambönd hjá stjórnendum borgarinnar. Fyrir utan að nota mútur til að liDavíð Oddsson afhendir Samson-hópnum viðurkenningu árið 2002ðka fyrir þjónustu embættismanna og kaupa frið frá mafíu, þá skipti mjög miklu máli í nýfrjálsu Rússlandi í kringum 1992-3, þegar opnað var á fjárfestingar útlendinga samhliða einkavæðingu ríkisfyrirtækja að hafa fína titla. Sem dæmi má nefna að Björgólfur Thor varð ræðismaður Íslands þegar hann dvaldi í Pétursborg og við embættinu tók svo Magnús Þorsteinsson! Magnús var sviptur þessu embætti, þegar hann varð gjaldþrota og flýði til Rússlands

Samson-félagarnir voru á kafi í rússneskum viðskiptum og margt bendir til þess, að 350 milljóna dollara kaupverð Heineken á Bravo International bjórverksmiðjunni hafi að stórum hluta setið eftir í höndum lánardrottna og samverkamanna þremenninganna í Pétursborg. Málið er víst svo flókið að skiptastjóri Landsbankans gaf í skyn, að skiptastjórnin væri að gefast upp á því að eltast við Rússlandstengslin. Það má ekki verða. Í mjög athyglisverðri frétt í Morgunblaðinu þ. 31.marz s.l. undir fyrirsögninni Samson greiddi fé til Tortola sagði í upphafi fréttarinnar: "Samson eignarhaldsfélag greiddi (lánaði? innsk.: HH) 580 milljónir króna til félags sem heitir Opal Global Invest og er skráð á Tortola-eyju, lánaði tengdu félagi, Bell Global Lux, 1,5 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í hafnarverkefni í Pétursborg og lánaði félögum í eigu Björgólfs Guðmundssonar 2,5 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins. Auk þess fékk fjárfestingarfélagið Grettir, sem er einnig í eigu Björgólfs, 393 milljóna króna lán."Lykillinn að "gátunni" um Rússagull o.fl. felst að nokkru leyti í ofangreindri setningu og þessari setningu úr skýrslu skiptastjóra Landsbankans frá því í febrúar:

"Af skýrslunni að dæma virðast flestar eignir Samson í dag vera lán til annarra félaga í eigu Björgólfsfeðganna."

***************************************

Í síðasa pistli sagði ég frá bók um hrunið á íslandi, Meltdown Iceland, eftir breska blaðamanninn Roger Boyes. Ég vissi ekki fyrr en í dag að Sigrún Davíðsdóttir var með viðtal við hann og pistil í Speglinum á RÚV í gærkvöldi. Pistilinn má lesa og hlusta á hér - en til öryggis hengi ég líka við hljóðskrá hér fyrir neðan með pistli Sigrúnar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Til viðbótar þessu öllu þá vekur innrás rússneskra auðmanna í nóvember 2008, upp miklar grunsemdir um hver raunveruleg ástæða heimsóknarinnar var.

http://www.dv.is/frettir/2008/11/18/50-russneskir-milljardamaeringar-islandi/

http://eyjan.is/blog/2008/11/18/dv-deripaska-rikasti-madur-russlands-og-50-russneskir-milljardamaeringar-leigja-allt-101-hotel-i-viku/

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.11.2009 kl. 06:59

2 identicon

Takk fyrir þetta Lára

þú leggur bresýnilega mikla vinnu í þessar greinar

Spurning um að leggja fyrir sig ransóknarblaðamensku?

kv

Magnús

Magnus (IP-tala skráð) 28.11.2009 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband