Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Áramótakveðjur

Sendi öllum sem þetta lesa bestu óskir um gleðilegt og hamingjuríkt nýtt ár með þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða...

Kveðjur frá Langtbortistan.

Wizard


Hátíð kristni eða sólstöðuhátíð

Vetrarsólstöður (eða vetrarsólhvörf) eru á tímabilinu 20. - 23. desember.  Breytileiki dagsetningarinnar mun fyrst og fremst stafa af hlaupársdögum en oft er einfaldlega miðað við 21. desember í daglegu tali.  Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur, síðan fer hann að lengja smátt og smátt og það grillir í vorið handan við sjóndeildarhringinn þótt erfiðir og jafnvel hundleiðinlegir vetrarmánuðir séu fram undan.  Hér er skemmtileg umfjöllun Almanaks Háskóla Íslands um hænufetið, en ein merking orðsins er einmitt lenging sólargangsins dag frá degi eftir vetrarsólstöður.

Sumum líkar myrkrið vel, öðrum illa, mörgum er slétt sama um það.  Myrkrið í umhverfinu má auðveldlega lýsa upp en þeir eru verr settir sem upplifa myrkur í sálartetrinu líka.  En hver hefur líklega sinn háttinn á að eiga við það eins og annað.

Kannski væri öllum hollt að setja ytra myrkrið sem við upplifum í samhengi við söguna.  Ísland hefur verið byggt í rúm 1100 ár.  Við höfum haft rafmagn í tæp 100 ár.  Það er um 9% af þeim tíma sem landið hefur verið í byggð.  Vetrarmyrkrið sem við búum við í raflýstri veröld nútímans hefði líklega verið sem sólbjartur sumardagur í augum forfeðra okkar.  Við erum lánsöm og okkur ber að þakka þeim sem byggðu þetta land og þraukuðu í kulda og myrkri með því að bera tilhlýðilega virðingu fyrir sögunni í víðasta skilningi þess orðs.

Forfeður okkar, frumbyggjar Íslands, vissu hvað um var að vera í náttúrunni á þessum árstíma og héldu hátíð sem síðar breyttist í kristna jólahátíð.  Það er svo sem sama hvaðan gott kemur og upplagt að gleðjast í skammdeginu og fagna hækkandi sól, hvað sem við köllum þessa ágætu hátíð.

Gleðileg jól, njótum sólstöðuhátíðarinnar.


Við skulum ekki vetri kvíða

Við skulum ekki vetri kvíða,
vænn er hann á milli hríða.
Skreyttur sínum fannafeldi,
fölu rósum, stjörnueldi
dokar hann við dyrastaf.
Ekkert er á foldu fegra,
fagurhreinna, yndislegra
en nótt við nyrzta haf.

Við skulum ekki vetri kvíða,
vorið kemur innan tíða.
Undan fargi ísaþagnar
eyjan græna rís og fagnar,
líkt og barn, sem lengi svaf.
Kviknar landsins ljósa vaka.
Ljóð og söngva undir taka
himinn, jörð og haf.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Síðustu ljóð, 1966.


Háð getur verið hárbeitt gagnrýni

Vefsíðan www.hengill.nu var sett upp 30. október sl. til að vekja athygli á fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum á Hengilssvæðinu og hvetja fólk til að senda inn athugasemdir við þær.  Það tókst svo vel að Skipulagsstofnun bárust um 700 athugasemdir sem var Íslandsmet.  Í framhaldi af Hengilssíðunni opnaði ég þessa bloggsíðu til að hnykkja enn frekar á málefninu og ýmsu því tengdu.

Fjöldi manns hefur einnig haft samband við okkur persónulega, ýmist hringt eða sent tölvupóst.  Sumir til að sýna stuðning, aðrir til að veita upplýsingar.  Sumir óska nafnleyndar, aðrir ekki.

Eins og greinilega hefur komið fram mjög víða er sveitarstjóri Ölfuss ábyrgur fyrir ýmsu sem þykir vægast sagt gagnrýnisvert og eru virkjanamálin aðeins einn angi af því öllu saman.  Nýlega var mér bent á grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir rúmu ári, nánar tiltekið 2. desember 2006.  Hún er eftir Jóhann Davíðsson og fjallar í háðskum tón um afrekaskrá sveitarstjórans í Ölfusi og hvernig hann hefur æ ofan í æ klúðrað málefnum Þorlákshafnar- og Ölfusbúa.  Það er ofar mínum skilningi hvers vegna íbúar Sveitarfélagsins Ölfuss eru ekki löngu búnir að taka sig saman og stöðva sveitarstjórann.  Skyldi það eitthvað hafa með hræðsluna og nafnleyndina að gera sem fjallað er um í færslunni hér á undan?  Það kæmi mér alls ekkert á óvart.

Jóhann Davíðsson veitti mér leyfi til að endurbirta greinina sína.  Háðið getur verið hárbeitt vopn eins og hér má sjá:

Laugardaginn 2. desember, 2006

Til hamingju, Þorlákshafnarbúar

Jóhann Davíðsson fjallar um málefni sveitarfélagsins í Þorlákshöfn

Jóhann DavíðssonÍBÚAR Þorlákshafnar hafa verið svo lánsamir að njóta forystu Ólafs Áka Ragnarssonar bæjarstjóra í eitt kjörtímabil og eru að upplifa annað með þessum framtakssama manni. 

Hann er röskur, selur 1544 hektara jörð, Hlíðarenda, sem nota átti sem útivistarsvæði, m.a. til skógræktar og breytir í iðnaðarsvæði. Eiginlega er ekki hægt að kalla þetta sölu, heldur svona góðra vina gjöf, en það gerðu oft höfðingjar til forna, gáfu vinum sínum ríkulega og nískulaust. 

Bæjarstjórinn bar hag eigenda vel fyrir brjósti, þ.e. íbúa sveitarfélagsins, og setti enga óþarfa fyrirvara eða kvaðir í kaupsamninginn, t.d. hvað um jörðina verður ef ekki kemur til reksturs vatnsverksmiðju. Hefur kaupandinn fimm ár til að hugsa það án fjárútláta og vonandi verða stjórnendur fyrirtækisins ekki andvaka vegna vaxtanna. 

Kaupandinn þarf ekki að greiða krónu fyrir vatnið en annars átti vatnsfélagið að greiða bæjarfélaginu fyrir vatnsnotkun. Þetta sýnir hve útsjónarsamur bæjarstjórinn er í rekstri sveitarfélagsins og skýrir væntanlega hækkun meirihlutans á launum hans. 

Þá var hann ekkert að bíða eftir formlegum leyfum, enda er það tafsamt fyrir duglegan bæjarstjóra heldur gaf mönnum góðfúslega leyfi til að atast í vatnslindinni og fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn með stórvirkum tækjum áður en hann seldi jörðina enda vissi hann sem var að fáir höfðu skoðað þetta og enn færri hugmynd um, hvað jörðin hefur að geyma. Þar hlífði hann mörgum íbúum við að sjá hverju þeir voru að missa af. Sú tillitssemi hans er virðingarverð. 

Þetta var fjárhagslega hagkvæmt enda kostar skógrækt og annað stúss við svona útivistarsvæði ómælt fjármagn. Þá losar hann Þorlákshafnarbúa við fjárútlát vegna um 100 ára gamals húss á bæjarstæðinu, en einhver sérvitringurinn gæti látið sér það til hugar koma að gera upp húsið, þar sem það tengist mjög náið sjávarútvegi og sögu Þorlákshafnar og er elsta húsið í sveitarfélaginu. Bæjarstjórinn er séður, nefnir ekki húsið einu orði í sölusamningnum. 

Það er gott hjá honum að hafa ekki látið minnast á sölu stórs hluta af upplandinu, m.a. þeirra fjalla sem blasa við frá Þorlákshöfn, á fréttavef bæjarfélagsins, Ölfus.is. Einhverjir gætu orðið sárir vegna sölunnar en Ólafur Áki er friðsemdarmaður og vill hlífa mönnum við óþægilegum fréttum. Betra að fólk lesi þar um nýjan slökkvibíl og bangsadaga í bókasafninu. 

Ólafur Áki er hamhleypa til verka. Búinn að ákveða að selja land undir álverksmiðju í Þorlákshöfn. Til að milda skap þeirra íbúa sem finnst nóg komið af slíkum í landinu, og kæra sig ekkert um eina við bæjardyrnar, bendir bæjarstjórinn réttilega á að þetta er ekki álverksmiðja heldur svona smá álverksmiðja. 

Sveitarfélagið hefur selt land undir golfvöll og land úti á Bergi. 

Stefnir í að bæjarstjórinn verði búinn að losa sig við allt land sveitarfélagsins fyrir næstu jól og er það rösklega gert þar sem bærinn var með þeim landmestu á landinu. 

Þessi forystusauður hefur lýst áhuga sínum á að íbúar höfuðborgarsvæðisins losni við úrgang sinn í Þorlákshafnarlandið. Á það eflaust eftir að efla jákvæða ímynd bæjarfélagsins.

Hópur fólks kom til Þorlákshafnar s.l. vor. Mætti honum mikill fnykur og þegar spurt var hvað annað væri í boði var sagt að í bænum væru þrjár hraðahindranir. Þarna tel ég að bæjarstjórinn hafi sýnt hyggjuvit til að laða að ferðamenn, sparað auglýsingakostnað og vitað sem var að betra er illt umtal en ekkert. 

Í framtíðinni geta svo ferðamenn skoðað, væntanlega fyrir sanngjarnt gjald, hvernig skemma má án nokkurra leyfa gróna fjallshlíð, barið augum iðnaðarhús á útivistarsvæði, séð lítið og sætt álver og notið ilmsins af sorphaugi. Allt í anda "metnaðarfullrar stefnu í umhverfismálum", með "áherslu á að gengið verði um landið og auðlindir þess af varfærni og virðingu" og þess að náttúran og íbúarnir hafa lengi og vel notið "vafans áður en ákvörðun er tekin" eins og segir á vef Sjálfstæðisfélagsins Ægis. 

Íbúar Árborgar hljóta að vera ánægðir með skreytinguna á Ingólfsfjalli enda er hún gerð með metnaðarfullri varfærni og virðingu. 

Nýyrðasmíði bæjarstjórans er uppspretta peninga. Þannig fann hann upp nýyrðið "Bráðabirgða framkvæmdaleyfi" og lét Orkuveitu Reykjavíkur greiða 500 milljónir fyrir. Sannast þar hið fornkveðna: "Dýrt er drottins orðið". 

Einnig virðist hann hafa breytt merkingu orðsins "íbúalýðræði" sem var talið þýða að haft væri samráð við íbúana um málefnin, í: "Bæjarstjórinn ræður".

Þótt hann hafi örlítið hagrætt geislabaugnum fyrir kosningar og verið með orðhengilshátt við gamla Hafnarbúa, má ekki dæma hann hart. Hann var að safna atkvæðum og þar helgaði tilgangurinn meðalið. 

Enda er gaman að stjórna og fá að tylla, þótt væri ekki nema annarri rasskinninni í bæjarstjórastólinn, um stund.

Hvar eru teiknibólurnar? 

Enn og aftur, til hamingju. 

Höfundur er lögreglumaður, bjó á B-götu 9 Þorlákshöfn og er félagi í Græna bindinu.


Hræðslan og nafnleynd

Þetta var fyrirsögn í leiðara Morgunblaðsins síðastliðinn mánudag, 10. desember.  Leiðarinn er birtur hér að neðan.  Umrædd hræðsla er ekki ný af nálinni.  Agnes Bragadóttir skrifaði langa grein um hræðsluna í Morgunblaðið 12. nóvember sl. og Ómar Ragnarsson bloggar um hana sama dag hér.

Við sem höfum reynt að berjast gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi, og bent á vægast sagt vafasamar aðferðir sem viðhafðar hafa verið af þeim sem að virkjuninni standa, höfum aldeilis fundið fyrir þessari hræðslu.  Fólk, sem er innilega sammála okkur og býr jafnvel yfir upplýsingum, þorir ekki að leggja nafn sitt við málið af ótta við einhvers konar refsingu eða aðrar afleiðingar þess að láta skoðanir sínar í ljós.  Þetta er óhugnanlegt.

Í þessari færslu lýsti ég eftir lýðræðinu á Íslandi.  Nú lýsi ég eftir skoðana- og málfrelsinu.

Leidari_Moggi_101207


Nú er mér ekki skemmt

Ég er ekkert sérstaklega viðkvæm og finnst sjálfsagt að fólk hafi ólíkar skoðanir á hlutunum, en í greininni hér að neðan úr 24 stundum 12. desember sl. fer formaður Húseigendafélagsins óralangt yfir strikið. Hér með er áætlunum um að ganga í téð félag frestað um óákveðinn tíma.

Í grein formannsins er nánast hver einasta setning árás á mig og mína og aðra líkt þenkjandi, auk þess sem orðbragðið er síst til fyrirmyndar.  Þegar sjálfum formanni Húseigendafélagsins finnst sjálfsagt að banna fólki að elda tiltekinn mat innan veggja eigin heimilis og reykja á bak við luktar dyr er þess skammt að bíða að fleira bætist á bannlistann.

Ég er alin upp við að borða skötu einu sinni á ári. Foreldrar mínir og amma, sem bjó á heimilinu, ÞÓTTUST ekki vera að Vestan - þau VORU að Vestan. Og það var ekkert barbarískt við matargerð móður minnar eða neyslusiði okkar, hvort sem um var að ræða skötu, siginn fisk, svið, rauðmaga eða annað sem sumum fannst herramannsmatur en öðrum ómeti. 

Ég var frekar matvönd í æsku, en skatan fannst mér alltaf góð, ólíkt mörgum börnum, og ég hef alltaf haft skötu á borðum á Þorláksmessu og hyggst halda í þá hefð til dauðadags.  Vei þeim formanni sem reynir að banna mér það.  Ég get ekki með nokkru móti séð að þar með sé ég að skerða rétt annarra til að lifa eðlilegu og heilbrigðu lífi eins og formaðurinn segir.  Ég ólst upp í sambýlishúsi, bý enn í sambýlishúsi og hef aldrei fengið kvörtun frá nágrönnum yfir skötulykt, enda er opnanlegt fag á eldhúsglugganum hjá mér og auk þess vifta yfir eldavélinni.  

Ég áskil mér þann rétt að meta sjálf hvað mér finnst óætur viðbjóður og hvað ekki.  Þar í flokki er ýmislegt sem öðrum þykir herramannsmatur, s.s. gellur, sniglar, ýmsir pastaréttir og fleira.  En ekki hvarflar að mér að banna fólki að borða það þótt mér þyki það ógeðslegt.  Mér finnst líka frekar ókræsilegt að ganga fram hjá hitakössum með sviðahausum í búðum og finna fýluna af þeim, ekki sérlega lystugur matur fyrir minn smekk, en fyrr skal ég dauð liggja en kvarta og hafa sviðin af þeim sem finnast þau góð.

Skötumáltíð er órjúfanlegur hluti af jólunum hjá mér eins og rjúpur og hangikjöt.  Lyktar- og bragðsmekkur fólks er einstaklingsbundinn og sitt sýnist hverjum í þeim efnum.  Sumum finnst hangikjötslykt ógeðslega vond, vill formaðurinn banna það líka?  Sjálf kúgast ég ef ég kem nálægt þar sem verið er að gera slátur - þoli ekki lyktina.  Á þá ekki að banna sláturgerð í mínu húsi? Mér finnst lykt af alls konar mat ógeðsleg, öðrum sjálfsagt líka, og ef hlustað væri á svona blaður gæti endað með því að enginn mætti elda neitt sem nágrönnunum þykir vont eða illþefjandi. 

Ég hlýt að vera mikill syndaselur í augum formannsins, því auk þess að elda skötu einu sinni á ári þá reyki ég alla daga ársins - en aðeins innan veggja heimilisins - ekki í sameigninni, hvað þá að ég liggi á skráargötum nágranna minna og blási reyknum inn til þeirra.  Það væri eina leiðin til að þeir yrðu fyrir ónæði af mínum reykingum.

Ef formaðurinn og hans líkar vilja banna fólki að elda og borða tiltekinn mat og reykja tóbak inni á heimilum sínum, hvað kemur þá næst? Hvað fleira vill formaður húseigendafélagsins banna fólki að gera innan veggja eigin heimila?  Hvernig ætlar hann að fylgjast með? Hafa eftirlitsmyndavélar á hverju heimili?

Það er í hæsta máta óeðlilegt og raunar argasti skandall að Sigurður sé með slíkt óþverraorðbragð og geri svona lítið úr fjölda fólks opinberlega þar sem hann er í forsvari fyrir félag sem tekur við alls konar kvörtunum yfir nágrönnum, hversu alvarlegar eða léttvægar þær kunna að vera.  Hann er hér að stimpla sig rækilega inn sem fordómafullur maður sem dæmir samkvæmt eigin smekk og getur því aldrei talist hlutlaus í neinum málum héðan í frá.

Ég er búin að lesa greinina þrisvar og verð reiðari við hvern lestur. Mér finnst maðurinn gera sig að fífli og óviðurkvæmilegt orðbragðið lýsir ótrúlega mikilli mannfyrirlitningu og er formanni Húseigendafélagsins ekki sæmandi.


Skata_24_121207-80

Löglegt en siðlaust... eða kolólöglegt og siðlaust í þokkabót?

Hér fyrir neðan er samkomulag það, sem Orkuveita Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus gerðu með sér í apríl 2006 þar sem OR kaupir blygðunarlaust samvinnu sveitarstjórnar og loforð þess efnis að framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir virkjunum og greitt fyrir flýtimeðferð gegn því að OR kosti ýmsar framkvæmdir í Ölfusi. Samkomulagið er gert löngu áður en lögbundið ferli hófst við umhverfismat og breytingu aðalskipulags sem krafist er við svona miklar framkvæmdir, svo ekki sé minnst á hvað þær eru umdeildar.

Samkomulagið er metið á 500 milljónir króna sem eru greiddar úr vasa Reykvíkinga - þeir eiga jú Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki lækka orkureikningar þeirra við það. Matsupphæðin er fengin úr fundargerð Sveitarfélagsins Ölfuss sem sjá má hér undir lið g.

Í viðtali í kvöldfréttum Sjónvarpsins 1. desember sl. gagnrýndi Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sveitarstjórnir harðlega fyrir að taka ekki nægilegt tillit til náttúruverndarsjónarmiða við skipulagsákvarðanir. Hún sagði jafnframt að náttúrunni væri of oft fórnað fyrir atvinnusjónarmið. Orðrétt sagði Þórunn einnig: "Ég fæ ekki séð hvernig fyrirtæki, hvort sem það er ríkisfyrirtæki eða annað, geti lofað þjónustubótum sem eru í raun á hendi ríkisins."

Samkomulag OR og Ölfuss er nákvæmlega svona. Þarna er opinbert fyrirtæki í eigu Reykvíkinga að lofa sveitarfélagi ljósleiðara, uppgræðslu, hesthúsum, raflýsingu á þjóðvegum og fleiru og fleiru til að horft verði fram hjá skaðsemi framkvæmdanna og öllu ferlinu flýtt eins og kostur er.

Nú þegar hefur verið bent á gríðarlega lyktarmengun sem hljótast mun af þessu virkjanaæði. Ólíft getur orðið í Hveragerði 70 daga á ári. Reykvíkingar hafa nú þegar fundið fyrir töluverðri lyktarmengun og magn brennisteinsvetnis í mælingum við Grensásveg hefur farið yfir hættumörk þótt enn sé aðeins búið að reisa tvær virkjanir af fimm eða sex fyrirhuguðum. Virkjanirnar endast ekki nema í 40 ár, nýting þeirra einungis 12-15% þannig að 85-88% fer til spillis og aðeins er fyrirhugað að framleiða rafmagn, ekki heitt vatn til húshitunar eða annarra verkefna. Þetta eru því jarðgufuvirkjanir, ekki jarðvarmavirkjanir.

En hér er samkomulagið - dæmið sjálf hvort þetta séu siðlausar mútur eða eðlileg meðferð á fjármunum Reykvíkinga. Ég ætla að taka fyrir einstakar greinar í seinni færslum og kryfja þær nánar. Allar frekari upplýsingar, studdar gögnum, væru vel þegnar.
___________________________________________________

Samkomulag milli Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði

1. grein
Orkuveita Reykjavíkur er að reisa fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar og stefnir að enn frekari uppbyggingu orkuvera á Hellisheiði og Hengilssvæðinu.  Um er að ræða framkvæmdir vegna stækkunar virkjunar og framkvæmdir vegna nýrra virkjana til raforku- og varmaframleiðslu.  Fyrirséð eru mannvirki tengd vélbúnaði og stjórnstöð, borteigar, safnæðar, skiljustöðvar, aðveituæðar, kæliturnar og önnur mannvirki aukist á svæðinu.  Framkvæmdin felur í sér vinnslu jarðhita, vegi, borholur, vatnsöflun, gufuveitu, stöðvarhús, kæliturna, niðurrennslisveitu og efnistökusvæði.  Framkvæmdatími getur numið allt að 30 árum og stærð virkjana orðið samtals um 600 - 700 MW.

2. grein
Bæjarstjórn Ölfuss veitir framkvæmdaleyfi og greiðir fyrir skipulagsmálum eins hratt og unnt er vegna umræddra framkvæmda enda byggi þær á lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir hvern áfanga og viðkomandi verkþætti.  Orkuveita Reykjavíkur greiðir Sveitarfélaginu Ölfuss skv. 11. grein fyrir aukið álag og vinnu sem framkvæmdirnar kalla á hjá sveitarfélaginu.  Þetta gerir sveitarfélaginu kleift að hraða öllum umsögnum og leyfisveitingum sem þörf er á.

3. grein
Orkuveita Reykjavíkur sér um og ber allan kostnað af hugsanlegum málaferlum og skaðabótakröfum sem rekstur og framkvæmdir tengdar Orkuveitu Reykjavíkur leiða til, sama hvaða nafni þær nefnast.  Þetta á einnig við um hugsanleg skaðabótamál á hendur Sveitarfélaginu Ölfuss sem rekja má til virkjunarframkvæmda og orkuvera á Hellisheiði.

4. grein
Aðilar eru sammála um að sérstök ráðgjafanefnd sem skipuð verði um uppgræðsluverkefni skili tillögum til beggja aðila um uppgræðslu í Sveitarfélaginu Ölfusi.  Ráðgjafanefndin verði skipuð þremur aðilum, einum frá Orkuveitu Reykjavíkur, einum frá Sveitarfélaginu Ölfusi og aðilar koma sér saman um einn fulltrúa eftir nánara samkomulagi.  Fulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss verður formaður nefndarinnar.  Um er að ræða uppgræðsluverkefni í sveitarfélaginu, til að mæta bæði því raski sem verður vegna virkjana og til almennra landbóta.  Miðað er við að Orkuveita Reykjavíkur verji til þessa verkefnis 12,5 milljónum á ári fram til 2012.  Þá verði leitast við að fá fleiri aðila að verkinu.  Þá mun Orkuveita Reykjavíkur leggja að auki til starf unglinga til landbóta í sveitarfélaginu.  Haft verður í huga í landgræðsluverkefnunum að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

5. grein
Vegna framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur tekur hún að sér að byggja upp nýja fjárrétt og hesthús við Húsmúla sem notuð er til smölunar á afrétti Ölfusinga skv. fyrirliggjandi teikningum.  Orkuveita Reykjavíkur mun annast viðhald þessara mannvirkja.  Þessi aðstaða nýtist fyrir ferðamennsku á svæðinu í annan tíma.  Þá sér Orkuveita Reykjavíkur um að byggja upp og lagfæra það sem snýr að smölun og afréttarmálum sem virkjunarframkvæmdirnar hafa áhrif á.  Miða skal að 1. áfanga verksins þ.e.a.s. bygging fjárréttar, verði lokið fyrir göngur haustið 2006.

6. grein
Orkuveita Reykjavíkur gerir Sveitarfélaginu Ölfuss tilboð í lýsingu vegarins um Þrengsli, frá Suðurlandsvegi í Þorlákshöfn fyrir 14 milljónir á ári (verðtryggt með neysluvísitölu, janúar 2007).  Innifalið er lýsing á veginum með ljósum sem eru með 50 m millibili, allur fjármagnskostnaður, orka og viðhald er innifalið í tilboðinu.  Fylgt verður kröfum og reglum Vegagerðarinnar.  Verkinu verði lokið á árinu 2006 að því tilskyldu að öll leyfi liggi tímanlega fyrir.

7. grein
Orkuveita Reykjavíkur mun greiða Sveitarfélaginu Ölfuss fyrir jarðhitaréttindi í afréttinum á Hellisheiði samkvæmt sömu reglum og notaðar voru við önnur landa- og réttinda kaup af landeigendum í Ölfusi.  Þetta verður gert ef og þegar óbyggðanefnd eða eftir atvikum dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að afrétturinn sé fullkomið eignarland sveitarfélagsins, allur eða að hluta.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af 3 manna gerðardómi þar sem hvor aðili skipar einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

8. grein
Verði niðurstaða óbyggðanefndar, eftir atvikum dómstóla, sú að afrétturinn allur eða að hluta sé þjóðlenda mun Orkuveita Reykjavíkur bæta tjón vegna jarðrasks, missi beitilanda, umferðarréttar, og röskunar á afréttinum eftir nánara samkomulagi.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af þriggja manna gerðardómi þar sem hvor aðili um sig skipi einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

9. grein
Á árinu 2008 hafi Orkuveita Reykjavíkur lokið lagningu ljósleiðara um þéttbýli í Þorlákshöfn og fyrir árið 2012 verði lagningu ljósleiðara lokið um aðgengilegan hluta dreifbýlis Ölfuss skv. nánara samkomulagi er liggi fyrir áramót 2006/2007.

10. grein
Kannað verði til hlítar hvort aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur að Sunnan 3 sé áhugaverður kostur fyrir verkefnið og þá aðila sem að verkefninu standa.  Markmið verkefnisins er að nota rafrænar lausnir til að efla búsetuskilyrði á svæðinu.

11. grein
Aðilar eru sammála um að bæjarstjórn Ölfuss þurfi að fylgjast með reglubundnum hætti með virkjunarframkvæmdum innan sveitarfélagsins m.a. til að geta svarað spurningum sem upp kunna að koma og beint verður til bæjarstjórnar.  Í þessu skyni koma aðilar sér saman um að halda reglulega fundi á framkvæmdatíma, allt að 4 fundum á ári, þar sem m.a. verður farið í skoðunarferðir um vinnusvæðið.  Aðilum er ennfremur ljóst að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra Ölfuss mun fyrirsjáanlega aukast meðan framkvæmdir við virkjanir á Hengilssvæðinu standa yfir í sveitarfélaginu.  Samkomulag er um að Orkuveita Reykjavíkur greiði Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst með fastri heildargreiðslu, kr. 7,5 milljónir á ári árin 2006 til 2012, 1. september ár hvert.  Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er. 

Ölfusi 28. apríl 2006 

Undir skrifa Ólafur Áki Ragnarsson og Hjörleifur Brynjólfsson fyrir hönd Ölfuss og Guðmundur Þóroddsson og ólæsileg rithönd fyrir hönd OR.

_________________________________________________


Ég kref Orkuveitu Reykjavíkur svara við því, hvernig hún telur sig þess umkomna að gefa Sveitarfélaginu Ölfusi 500 milljónir - hálfan milljarð - af peningum Reykvíkinga. Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki í eigu útsvarsgreiðenda í Reykjavík og þeir eiga heimtingu á að fá skýr svör frá OR.

Svo væri einnig mjög fróðlegt að vita nákvæmlega í hvað gjafaféð sem þegar hefur verið reitt af hendi hefur farið. Það þykir mér forvitnilegt og nú stendur upp á sveitarstjórn Ölfuss að gefa nákvæmar skýringar á hverri einustu krónu.

Eins og fram kom í einni af fyrri færslum mínum er meirihlutinn í Sveitarstjórn Ölfuss skipaður 4 einstaklingum sem hafa alls 495 atkvæði á bak við sig. Athugasemdir við og mótmæli gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun voru rétt um 700. Ef allt er talið snertir ákvörðunin um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu um það bil 200.000 manns beint í formi spilltrar náttúru, lyktar-, loft- og sjónmengunar og alla landsmenn í formi ofurþenslu, verðbólgu og vaxtahækkana.

Ég lýsi eftir lýðræðinu í þessum gjörningi.


Í beinu framhaldi af síðustu færslu

Jón Steinar var að kenna mér að setja inn mynbönd af Youtube og mér finnst upplagt að byrja á þessu - svona í framhaldi af síðustu færslu um auðmennina. Skyldu þeir vinna svona?

 


Peningar um peninga frá peningum til hvers?

Ég hef lengi furðað mig á fréttamati fjölmiðla hvað varðar peninga og auðmenn. Allt annað í lífinu virðist vera hjóm eitt hjá því hver græðir hve mikið og á hverju, hver hlutabréfavísitalan er eða hvað þær nú heita þessar úrvalsauravísitölur, hvað hefur hækkað og hvað lækkað hverju sinni.

Sérstök innslög eða fréttatímaaukar eru um "markaðinn" eins og t.d. hjá Stöð 2 í kringum hádegið - kl. 12:15 í dag var Markaðurinn hádegi og kl. 12:31 var Hádegisviðtal markaðarins. Síðan var Markaðurinn kl. 18:20.

Bankar og aðrar fjármálastofnanir eru með fréttir oft á dag um hvernig peningamarkaðurinn er að gera sig þá stundina og fréttir af hve margar milljónir, milljónatugir eða milljarðar gengu kaupum og sölum þann daginn tröllríða öllum fréttatímum á öllum fjölmiðlum. Það þótti auk þess tilefni í sérstaka frétt þegar viðskiptaþátturinn Í lok dags féll niður kl. 16:20 þann 3. des. sl. eins og sjá má hér.

Í gærkvöldi var fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins mannaskipti auðmanna hjá FL Group. Það var þriðja frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fyrsta frétt í sexfréttum Ríkisútvarpsins.

Menn hverfa frá störfum með tugmilljóna starfslokasamninga, sagt er frá þeim nýjasta hér. Þó var maðurinn sagður með 4 milljónir á mánuði á meðan hann gegndi starfinu og hefði líkast til getað lagt aura til hliðar fyrir mögru árin eins og við hin þurfum að gera.

Á sama tíma les maður þetta... og þetta... og þetta... svo dæmi séu nefnd. Þessar sögur nísta í gegn um merg, bein og hjarta og maður spyr sig hvað þarf til að snerta við réttlætiskennd almennings og fjölmiðlafólks. Af hverju er svona mikið fjallað um auðmennina í fjölmiðlum en svona lítið um fátæktina... um þá sem minna mega sín og þjóðfélagið kemur illa fram við?

Ísland best í heimi... hvað?

Ég hef verið að reyna, ásamt mörgum öðrum, að benda á þá firringu sem á sér stað í virkjanafíkn og stóriðjuæði vissra aðila í þjóðfélaginu og afleiðingar þeirrar skammsýni. Afleiðingarnar snerta hvert einasta mannsbarn á Íslandi í formi loftmengunar, lyktmengunar, eyðileggingar á þeirri dásamlegu náttúru sem við höfum öll hlotið í arf frá forfeðrum okkar og -mæðrum ásamt þenslu, verðbólgu, hækkandi vöxtum, innflutningi tugþúsunda erlendra verkamanna og almennt versnandi lífskjörum. Fáir hlusta og fjölmiðlar sofa á verðinum. Enginn fjölmiðill virðist tilbúinn til að kryfja málið og fjalla um það á vitrænan hátt og í heildstæðu samhengi. Fréttablaðið hefur gert heiðarlegar tilraunir, en þær nægja ekki til að gera svo gríðarlega alvarlegu og yfirgripsmiklu máli nauðsynleg og verðskulduð skil.

Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar var eftir því tekið að upp spruttu umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum sem mærðu náttúruvernd og lofuðu öllu fögru. Nauðsynlegt er að breyta lögum, að minnsta kosti tvennum, en hver er að sinna því? Enginn á þingi eftir því sem ég best veit.

Árið 2004 kom út merkileg ljóðabók eftir Sigfús Bjartmarsson sem hann kallaði Andræði. Bókin er leikur með orð og Sigfús leikur af mikilli snilld. Bókin skiptist í 11 kafla og hver kafli hefur inngangsljóð. Ég ætla að leyfa mér að birta hér tvö ljóð ásamt inngangsljóðum hvors kafla. Það var erfitt að velja því ljóðin eru hvert öðru betra og beinskeyttara.

5
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá hlutafjármarkaðarins hástökksmethafa
í flokki hörmangarafélaga vann:
Sá skal mæra samkeppnina
sem hana kaupir upp.

Og ljóðið sjálft er svona og ég tileinka það Hannesi Smárasyni og öðrum tugmilljóna-auðmönnum:

Vit er
veraldar
gengi.

Og
gott
er hátt
gengi en
hættar þó
en lágu við
að lækka
lengi.


vit er
vandmeðfarið
og valt.

Kúlið
getur óðara
orðið svo
kalt.

9
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá innsta aðstoðarkoppi æðstaráðsritara
landseigendaflokksins vann:
Fjórðungi bregður til flokks
en frekar bregður hinum
til hagsmuna
hans.

Ljóðið hljóðar svo - ég tileinka það Alþingi og ríkisstjórn, sem með réttu ættu að fara með stjórnartaumana - og sem lofa öllu fögru fyrir kosningar:

Í upphafi
skal efndirnar
skoða.


fagurt
galar formaður
sem fögnuðinn vill
fólki sínu
boða.

Og
ljúft er
að leggja svo
með lygasögnum
slag eftir
slag.


sjaldan
lifir kosningaloforð
kjördag.

Og
marga
mun sverja
eiðana sá
sem alla
svíkja
má.


enginn
tryggir atkvæðin
eftir á.

 


Hver á umhverfið?

Þessi spurning er yfirskrift fundar sem haldinn verður á vegum Framtíðarlandsins næsta miðvikudag, 5. desember. Í fundarboðinu, sem birt er hér að neðan, kemur fram að allar Norðurlandaþjóðirnar hafi fullgilt Árósasamninginn - nema Ísland. Tekið skal fram að samningurinn var gerður í júní 1998, fyrir hartnær 10 árum.

Yfirskrift samningsins, eða titill hans, hljóðar svo:  SAMNINGUR UM AÐGANG AÐ UPPLÝSINGUM, ÞÁTTTÖKU ALMENNINGS Í ÁKVARÐANATÖKU OG AÐGANG AÐ RÉTTLÁTRI MÁLSMEÐFERÐ Í UMHVERFISMÁLUM

Hvað veldur tregðu íslenskra stjórnvalda við að leyfa almenningi og náttúruverndarsamtökum að hafa meiri áhrif á meðferð umhverfisins? Alveg eins mætti spyrja: Hver á Ísland?

Framtíðarlandið hélt annan fund um Árósasamninginn 27. september sl. og var sitthvað skrifað og bloggað um málið þá, t.d. hér. Heilmikla umfjöllun má finna um samninginn víða á netinu, svo sem hér og hér og hér

------------------------------------------------

Hver á umhverfið? Stefnumót við framtíðina

Framtíðarlandið efnir til opins morgunfundar miðvikudaginn 5. desember frá klukkan níu til tíu í fundarsal Norræna hússins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, verður sérstakur gestur fundarins en að lokinni tölu hennar verða pallborðsumræður.

Í pallborði sitja eftirtaldir, auk umhverfisráðherra:
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar
Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur

Fundarstjóri er Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og meðlimur í sérfræðingaráði Framtíðarlandsins.

Umfjöllunarefni fundarins er staða lýðræðis-, skipulags- og umhverfismála með hliðsjón af Árósasamningnum. Árósasamningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Á fjórða tug ríkja í Evrópu eru aðilar að samningnum og hafa öll Norðurlöndin fullgilt hann nema Ísland. Þar sem samningurinn tryggir að almenningur og félagasamtök sem starfa að umhverfismálum eigi lögvarða hagsmuni þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfið má telja að fullgilding hans myndi breyta miklu fyrir frjáls félagasamtök.

Fyrir alþingiskosingar í vor lýsti Samfylkingin yfir vilja til að staðfesta Árósasáttmálann og því er forvitnilegt að vita hvort umhverfisráðherra muni beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að hann verði fullgiltur. Að sama skapi er áhugavert að ræða hvaða áhrif fullgilding hans muni hafa, t.d. á umhverfi orkufyrirtækja og umhverfismála almennt á Íslandi. Staða frjálsra
félagasamtaka á Íslandi myndi að líkindum taka stakkaskiptum t.a.m. hvað varðar gjafsóknir og hverjir geta kallast lögaðilar að málum en einnig hvað varðar fjárstuðning til þess að kanna og kynna mál - t.d. andstöðu við fyrirhuguð álver og virkjanaáform.

Það hlýtur að vekja athygli að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa fullgilt samninginn þrátt fyrir að öll önnur lönd í kringum okkur hafa gert það..  Eiga komandi kynslóðir það ekki skilið að ákvarðanir um stórframkvæmdir og röskun á umhverfi séu teknar á opinn og gagnsæjan hátt?

Fundurinn á erindi til allra sem eru áhugasamir um lýðræðis-, skipulags- og umhverfismál.

 

Vísir að svari við spurningunni?

Í síðustu færslu spurði ég spurningar - um hvort menn færu ekki að sjá að sér og hætta við fyrirhugaða Bitruvirkjun...  Ætli þetta sé vísir að svarinu? Það vona ég svo sannarlega!

Fréttabladid_031207


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband