Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Ljós í myrkrinu

Þegar ég renndi yfir Moggann í gær sá ég ljós í myrkrinu - og það var góð tilfinning.

Þessi óskapnaður, nýjar höfuðstöðvar Glitnis, mun að líkindum ekki rísa á Kirkjusandi.

Nýjar höfuðstöðvar Glitnis við Kirkjusand

Og þessir hroðalegu kassar, nýr Landsbanki, munu ekki rísa í gamla miðbænum í Reykjavík.  Miðbær - Nýr Landsbanki Landsbankabygging-texti

 Góð ábending frá Emil í athugasemd - glerhöllin World Trade Center milli Hafnarstrætis og tónlistarhúss

WorldTradeCentre-1

WorldTradeCentre-2


Hvað þarf til að ofbjóða þjóðinni?

Mig langar að biðja þá sem líta hingað inn að lesa textann hér fyrir neðan, horfa síðan á bæði myndböndin frá upphafi til enda og spyrja sig svo: Er þetta það sem ég vil? Er þetta það stjórnarfar sem þjóðinni er fyrir bestu? Vil ég að hagsmunir stjórnmálaflokka, fámennrar klíku og nokkurra einstaklinga séu alltaf látnir ganga fyrir mínum hagsmunum og mikils meirihluta þjóðarinnar?

Víðsjá á Rás 1 - lógó

Víðsjá heitir frábær útvarpsþáttur á Rás 1 sem er á dagskrá kl. 17 alla virka daga. Þar eru oft beittustu pistlar sem ég heyri þessa dagana. Beittari og kjarnyrtari en nokkuð annað efni í útvarpi mér vitanlega. Ég ætla að vitna í hluta úr pistli sem fluttur var í Víðsjá 23. október sl.:

Þyrla"En mikið djöfull sem þetta er farið að fara illa í mann, ágætu hlustendur. Myndirnar af sumarhúsunum, vínkjallararnir, snekkjurnar, þyrlurnar... þrjúhundruð milljónir fyrir það eitt að fara á fætur. Eitt er víst. Allir eru búnir að fá nóg af upplýsingum um laun íslensku bankastjóranna, hinar siðlausu upphæðir sem ná upp í rjáfur og ríflega það - og menn þáðu vegna þess að þeir báru ábyrgð. Nú hefur komið upp úr dúrnum að þeir báru aldrei ábyrgð á öðru en rassgatinu á sjálfum sér. En við... við getum ekkert sagt við þessa menn. Þetta voru frjálsir menn á frjálsum markaði.

Annað gegnir um stjórnmálamennina. Við kusum þá, við hleyptum þeim til valda... En við stjórnmálamennina - við hljótum að geta sagt eitthvað við þá. Við ættum að minnsta kosti að geta hvatt til þess að stjórnmálaflokkar sem nú eru með öllu gjaldþrota og draghaltir, að þeir séu nú studdir út af sviðinu. Sannarlega án blóðsúthellinga en samt nokkuð rösklega.

Það snjóar og Ísland er ömurlegt klíkusamfélag. Ég held að Jón Baldvin MörgæsirHannibalsson hafi talað um það í sjónvarpinu sl. sunnudag. Ísland er Rótarýklúbbur frá helvíti. Gamlir menntskælingar halda hér hópinn betur en mörgæsir. Árás á eina þeirra jafngildir árás á þær allar. Klíkukarlarnir hittast í rúmgóðum einbýlishúsum á kvöldin og grípa í spil. Þeir kunna yfirlitin frá bönkunum utanbókar. Þeir fara fram nafni skynsemi, þeir trúa á heilann, þeir eiga Ísland og hús á nokkrum hæðum...

Þeir töldu okkur trú um að rétt væri að virkja, rétt væri að selja bankana, þeir allra hörðustu vildu selja Ríkisútvarpið. Í seinni tíð hafa þeir lesið söguna um Bjart í Sumarhúsum en lítið af henni lært. "Hvað er heimur? Þetta er heimurinn. Heimurinn, hann er hér. Sumarhús, jörðin mín, það er heimurinn. Og þó þú ætlir þér að gleypa sólina í einhverri augabragðsvitfirringu, af því þú sérð bláa peninga frá Amríku sem auðvitað eru falsaðir eins og allir miklir peningar sem berast upp í hendur einstaklingnum án hans atgerða, þá skaltu sanna það fyrr eða síðar að Sumarhús, það er heimurinn og þá veit ég að þú hugsar til minna orða."

MörgæsirNú eru gæsirnar bara óvart búnar að setja okkur á hausinn. En bara óbeint því það voru ekki beinlínis þær sem settu okkur á hausinn heldur grínistarnir. Og nú er hlegið að Íslendingum út um allan heim. Það er búið að gefa út yfirlýsingu á alþjóðavettvangi að gæsirnar séu hálfgerð flón sem skilja ekki nútíma hagkerfi. Við hefðum allt eins getað látið hunda stjórna landinu, geitur eða seli. En hvað gera Íslendingar? Já, hvað ætlið þið að gera, Íslendingar? Ætlið þið að bíða og sjá? Athuga hvort innistæðan tekur ekki við sér? Athuga hvort ekki leynist enn örlítið líf í sjóði númer 9? Athuga hvort þetta hafi ekki allt verið örugglega bara nettur gustur að utan - jafnvel bara pínulítið hressandi gustur.

Andri Snær Magnason, rithöfundur, skrifaði fræga bók með undirtitlinum "Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð". Andri hitti naglann á höfuðið og hann er einn af þeim sem á lof skilið fyrir sitt tal á undanförnum árum. Íslendingar eru logandi hræddir. En við hvað eru þeir hræddir? Jú, þeir eru hræddir við mörgæsir. Þeir óttast ekkert meira en þennan kjólfataklædda og sjóðmilda söfnuð sem stendur svo vel saman og af sér alla hríðarbylji. Þeir eru hræddir við mörgæsir.

Ísland er Rótarýklúbbur dauðans og honum er stjórnað af mörgæsum sem Mörgæsirhalda hópinn og létu sig dreyma um þægilega setustofu með leðursófasetti, koníaksglögg í glasi, málverk af Þingvöllum og stutt í næsta spilastokk og hesthús þar sem hægt er að moka skít. En hvað fengu þær? Þær fengu katastrófu. Þessar gæsir mega alveg halda áfram að standa saman mín vegna ef þær bara standa  ekki í stafni á sama tíma..."

Svo mælti Eiríkur Guðmundsson í Víðsjá í einum af sínum kjarnyrtu og beinskeyttu pistlum.

Hvað þarf til að ofbjóða þjóðinni? Hversu langt geta stjórnvöld gengið í hroka sínum og yfirlæti án þess að eitthvað bresti einhvers staðar? "Það er ekki þar með sagt að þetta sé vilji þjóðarinnar," sagði Geir eftir að 90% hennar hafði hafnað Seðlabankastjóra. Hvað er það ANNAÐ en vilji þjóðarinnar? Geir sagði líka: "Mér finnst óviðeigandi að persónugera þann vanda sem við er að fást í þeim einstaklingum sem sitja í stjórn Seðlabankans." Það má ekki kenna neinum um. Það má ekki benda á augljós mistök manna, endalaust klúður og fullkomlega óhæfa stjórnendur - hvað þá að krefjast þess að þeir taki pokann sinn og aðrir hæfari taki við. Hvað má gera? Bíða og sjá til eins og Eiríkur nefnir í pistlinum sínum? Þegja og lúta höfði í þýlyndu þakklæti eins og ég sagði í einhverjum pistli? Hvers konar framkoma er þetta eiginlega hjá þessum klíkubræðrum sem telja sig eiga Ísland með manni og mús og geta ráðskast með okkur að vild? Og þeim finnst það auk þess alveg sjálfsagt!

Ef þið hafið ekki horft á myndbandið í færslunni hér á undan skuluð þið gera það núna - áður en lengra er haldið. En horfið svo á þessi tvö hér fyrir neðan, frá upphafi til enda, og spyrjið ykkur hvort þetta sé það stjórnarfar sem þið viljið og tengið við lýðræði. Lesið svo pistlana hans Péturs Tyrfingssonar. Alla bara, það er öruggast.

Úr fréttum Stöðvar 2 - 29. október 2008

 

Úr Silfri Egils 9. mars 2008 og Tíufréttum RÚV 10. september 2008


Holdgervingar hrokans

Það er búið að segja svo margt og skrifa enn meira. Ég held að þetta myndband þarfnist ekki frekari skýringa en fólk er auðvitað velkomið að segja skoðun sína í athugasemdum.

Viðbót: Ég fékk ábendingu í tölvupósti frá bloggvinkonu í morgun um þessa tilvitnun í Hannes Hólmstein, stjórnarmann í Seðlabankanum, í Fréttablaðinu í dag. Hér kemur hroki og yfirlæti frjálshyggjupostulans vel í ljós.

Fréttablaðið 29.10.08 - Hannes Hólmsteinn

Svo ætla ég að bæta þessu myndbandi hér inn. Viðtalið við Geir mun hafa verið í mars á þessu ári.

Athugasemd sem skrifuð var við myndbandið á YouTube vakti athygli mína. Hún hljóðar svona og þarfnast varla þýðingar:

The Icelandic Prime Minister and his ministers of incomptence have bankrupted Iceland and lost hundreds of thousunds of ordinary citizens in the UK, Holland and Belgium their savings.
Why is he still running around as a Prime Minister of Iceland? There must be something wrong with the people of Iceland.
Must be some sort of Mugabe effect that keeps him and his idotic Government in power.

Leigh Hartley


Einar Már leggur sitt af mörkum

Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, hefur heldur betur látið frá sér heyra um ástandið í þjóðfélaginu, aðdraganda þess og afleiðingar, og er beinskeyttur með afbrigðum. Hér er grein eftir hann frá 16. október og viðtal við hann í Silfri Egils 19. október. Einar Már flutti ræðu á mótmælafundinum á Austurvelli sl. laugardag kl. 15 og hann var einn ræðumanna á borgarafundinum í Iðnó í gærkvöldi. Svo birtist mögnuð grein eftir hann í Morgunblaðinu í dag. Ég lýsi eftir fleiri kraftmiklum málsvörum almennings af kalíberi Einars Más.

Einar Már á borgarafundinum í Iðnó 27. október 2008 - Mbl Sjónvarp

 Frá borgarafundinum - hádegisfréttir Stöðvar 2
Pétur Blöndal er ekki í góðu sambandi við þjóðina ef hann heldur að við teljum nóg að aðeins EINN maður segi af sér!

Grein Einars Más í Morgunblaðinu 28. október 2008
(smellið þar til hún stækkar í læsilega stærð)

Moggi 28.10.08 - Einar Már Guðmundsson


Dótið frá Bjögga frænda

Halldór Baldursson þarf ekki mörg orð til að varpa ljósi á hlutina.

Halldór - Moggi 28. október 2008


Björgólfur Thor í Kompási

Hvernig í ósköpunum á maður að skilja þetta? Þarna segir Björgólfur að hægt hefði verið að losna við Icesave-ábyrgðirnar upp á - hvað var það aftur mikið, 450 milljónir punda? - með því að reiða fram 200 milljónir punda í tryggingu! Það er búið að nefna svo margar upphæðir, ýmist í pundum eða krónum, að erfitt er að henda reiður á þeim. Þessi mál verða æ flóknari eftir því sem fleiri tjá sig um þau og ekki nokkur leið að vita hver segir satt og hver ekki. Það verður æ brýnna að fá utanaðkomandi, hlutlausa rannsóknaraðila til að fara ofan í saumana á öllum hliðum þessa skelfilega klúðurs - því þetta lítur út fyrir að vera klúður frá upphafi til enda.

Kompás 27. október 2008 - Björgólfur Thor Björgólfsson

 

Kastljós 27. október 2008 - Björn Bjarnason og Guðni Ágústsson

 

Kastljós 27. október 2008 - Upphaf borgarafundar í Iðnó

Þetta sagði Sigurjón fyrrverandi Landsbankastjóri í kvöldfréttum RÚV

 

 Athugasemd Seðlabanka Íslands í dag

Athugasemd vegna ummæla Björgólfs Thors Björgólfssonar
um beiðni Landsbanka Íslands um fyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands

Í bréfi til bankastjórnar Seðlabanka Íslands mánudaginn 6. október sl. kynnti bankastjórn Landsbanka Íslands að bankinn þyrfti fyrirgreiðslu að fjárhæð 200 milljónir punda frá Seðlabanka Íslands vegna útstreymis sem orðið hefði í útibúi þeirra í Bretlandi auk 53 milljóna punda láns vegna dótturfélags Landsbankans í Lundúnum. Verulegt útstreymi var úr útibúinu helgina á undan. Í samtölum við forsvarsmenn bankans kom fram að jafnvel þótt umbeðin fjárhæð fengist væri alls ekki víst að hún dygði og líklegt að fjárþörfin gæti á örskömmum tíma hækkað verulega, jafnvel margfaldast. Tilefni beiðninnar í bréfi Landsbankans 6. október var útstreymið af innlánsreikningum. Ekki var minnst á flýtiafgreiðslu breska fjármálaeftirlitsins.

Af framangreindum ástæðum er augljóst að sú fullyrðing Björgólfs Thors Björgólfssonar að 200 milljóna punda fyrirgreiðsla Seðlabanka Íslands hefði leyst allan vanda Landsbanka Íslands á þessum tíma stenst ekki. Eins er frásögn hans af rás atburða röng.

Á þessum dögum virtist enn líklegt að Seðlabankinn yrði að fylgja eftir ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um hlutafjárframlag í Glitni að fjárhæð 600 milljónir evra. Einnig hafði verið ákveðið að höfðu samráði við forsætisráðherra að lána Kaupþingi 500 milljónir evra til nokkurra daga í þeim tilgangi að aðstoða þann banka við að mæta kröfum breska fjármálaeftirlitsins og annarra þarlendra stjórnvalda vegna stöðu dótturfyrirtækis þess banka í Lundúnum.

Líkleg framlög Seðlabankans vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um Glitni og fyrirgreiðsla við Kaupþing höfðu þá þegar sett miklar byrðar á gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar og varasamt var að ganga lengra í þeim efnum.


Yfirlýsing Björgólfs Thors eftir athugasemd Seðlabankans

Seðlabanki Íslands sendi síðdegis í dag frá sér athugsemdir vegna ummæla minna í sjónvarpsþætti sem birt voru í gær. Þar segir að í bréfi frá mánudegi 6. október sl. og í samtölum við forsvarsmenn Landsbankans hafi ekki verið minnst á flýtimeðferð breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Þetta er ekki rétt. Bankastjórum Seðlabankans var kunnugt um boð breska fjármálaeftirlitsins um flýtimeðferð og geta fleiri staðfest það. Þá var einnig þeim ráðherrum í ríkisstjórn Íslands sem helst hafa unnið að úrlausn vanda íslensku fjármálafyrirtækjanna kunnugt um boð breska eftirlitsins. Allar líkur voru á því að útstreymi fjármuna úr útibúi Landsbankans í London hefði minnkað stórlega við tilkynningu í Englandi um flýtimeðferð FSA og því mun minni líkur á að fjárþörf Landsbankans margfaldaðist eins og Seðlabankinn lætur í veðri vaka í svari sínu.

Þá segir Seðlabanki Íslands að frásögn mín af rás atburða sé röng. Sú fullyrðing er án nokkurs rökstuðnings. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur.

Einnig kemur á óvart að Seðlabanki Íslands beri fyrir sig búið hafi verið að ákveða í samráði við forsætisráðherra að lána Kaupþingi 500 milljónir evra þegar Landsbankinn fékk synjun Seðlabankans eftir hádegi mánudaginn 6. október. Tilkynning um lán til Kaupþings kom ekki fyrr en síðar þennan dag. Þá kemur einnig á óvart að Seðlabanki hafi um hádegi þennan mánudag reiknað með að ríkið legði 600 milljónir evra í hlutafé í Glitni þegar fáeinum klukkustundum síðar var kynnt á Alþingi frumvarp um neyðarlög sem boðaði þjóðnýtingu bankanna.

Mikilvægasta verkefni íslenska fjármálalífsins um þessar mundir er að efla traust á fjármálastofnunum. Þar ríður mest á að Seðlabanki Íslands fari fyrir öðrum. Svo er ekki þegar hann gerir ekki með neinum hætti viðunandi grein fyrir ákvörðunum sínum heldur svarar með hálfkveðnum vísum og aðdróttunum.

Að ofansögðu má sjá að ég stend við orð mín í sjónvarpsþættinum Kompás.

Björgólfur Thor Björgólfsson

----------------------------------------------------

Eftir þetta áhorf og lestur legg ég til að fólk lesi pistil Péturs Tyrfingssonar - Hringavitleysa


Fáræði og valdkúgun - fámenn klíka með tögl og hagldir

Ég efast ekkert um að fjölmargir kannist við lýsinguna í fyrirsögninni, kinki kolli og samsinni því að svona sé stjórnarfarið einmitt hér á landi - og hafi verið mjög lengi. Ekki satt? Einn flokkur hefur ráðið flestu sem hægt er að ráða, fámenn klíka innan hans stjórnar og þar af deilir og drottnar einn maður úr hásæti sínu. Fáræði, valdkúgun og fámenn klíka með tögl og hagldir.

En þessi orð eru tekin úr fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu í dag sem fjallar um stjórnarfar í landi sem við, fólkið í "lýðræðisríkinu" Íslandi höfum gagnrýnt mikið og lengi, nefnilega Rússlandi. Þetta er einstaklega kaldhæðnislegt. Smellið til að stækka í læsilega stærð.

Moggi 27.10.08 - Stjórnarfar í Rússlandi

 

Mikið hefur verið rætt og ritað um viðtal Morgunblaðsins við einn af eigendum sínum, Björgólf eldri, sem birtist í gær og var skrifað af einum alharðasta stuðningsmanni áðurnefndar valdaklíku. Blaðið hefur verið gagnrýnt harðlega og því miður heyrist mér að allir blaðamenn hafi verið settir undir sama hatt sem mér finnst ósanngjarnt gagnvart þeim mörgu, ágætu blaðamönnum sem á Morgunblaðinu starfa. Einkum hefur ritstjórinn verið skammaður fyrir að birta viðtalið.

En hver sem skrifaði leiðara dagsins í Mogganum er ekki sammála eigandanum eins og sjá má hér:

Moggi 27.10.08 - Leiðari um Icesave

Þessi tilvitnun leiðarans í viðtalið fannst mér sérlega skondin:

Moggi 27.10.08 - Leiðari Icesave bútur

Ef ég hefði nú tekið húsnæðislán í Landsbankanum sé ég mig alveg í anda setjast niður með þjónustufulltrúanum mínum og rekja úr honum garnirnar um það hvaðan peningarnir sem bankinn ætlaði að lána mér kæmu og hvort það væri ekki rétt að lækka lánið eða hafa það með hærri vöxtum - eða eitthvað - af því gengið væri svo vitlaust skráð. Þegar þjónustufulltrúinn segir mér, ef hann veit það þá, að peningarnir komi frá breskum almenningi sem í góðri trú lagði allt sparifé sitt inn í útibú Landsbankans í Bretlandi, Icesave (sem ég vissi reyndar ekki að væri til fyrr en fyrir 3 vikum) í trausti þess að fá góða vexti þá ofbýður mér - hvað mér á að ofbjóða nákvæmlega veit ég ekki. Kannski að ég sé að fá lánaða peninga hjá breskum almenningi sem fær hærri vexti en ég þarf að borga af láninu? En ég geng auðvitað út, hætti við að kaupa íbúðina eða fer í næsta banka til að athuga hvort kaupin gerist eitthvað öðruvísi á þeirri eyri. Þetta finnst mér mjög sennileg atburðarás. Gerðum við þetta ekki öll þegar við fengum húsnæðislánin okkar?   W00t


Litið um öxl á spádóma, orð og efndir

Hvað gerðist og hvenær? Vorum við vöruð við eða ekki? Hvað sögðu ráðherrar, þingmenn, bankastjórar og aðrir sem þóttust hafa vit á málunum? En erlendir fjölmiðlar? Munum við það? Ég fór í lagerinn og klippti saman umfjöllun í sjónvarpsfréttum um efnahagsmál fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Samantektin einskorðast við það sem ég átti til og þar sem gefið var hressilega í efnahagsumfjöllun í mars, auk þess sem ég átti fleiri fréttatíma úr þeim mánuði, varð ég að klippa mánuðinn í tvennt. Ég einskorða mig við kvöldfréttatíma sjónvarpsstöðvanna og eins og sjá má átti ég fleiri á lager frá Stöð 2 en RÚV þótt það breytist síðar. Það er svo stutt síðan þetta var - en samt svo óralangt. Og þetta er MJÖG fróðleg upprifjun. Það er með ólíkindum að rifja upp hvað sumir höfðu ofboðslega rangt fyrir sér og aðrir ótrúlega rétt fyrir sér.

Það er ekki víst að ég taki fleiri mánuði, þetta er gríðarleg vinna og tímafrek og því miður hef ég ekki þann tíma sem til þarf, enda eykst umfjöllun um efnahagsmál og fréttatímum á lager fjölgar eftir því sem líður á árið.

Ég læt svo fylgja nokkur aukamyndbönd með syrpu Stöðvar 2 um hvort komin væri kreppa, styttri syrpu um skattamál sem og viðtöl við Árna Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og Eddu Rós Karlsdóttur, en vísað er í viðtölin í fréttatímunum. Góða skemmtun!

Fréttir af efnahagsmálum í janúar 2008

Fréttir af efnahagsmálum í febrúar 2008

Fréttir af efnahagsmálum í mars 2008 - fyrri hluti

Fréttir af efnahagsmálum í mars 2008 - seinni hluti

Umfjöllun Stöðvar 2 um kreppu eða ekki kreppu 5. til 9. mars 2008

Umfjöllun Stöðvar 2 um skattamál 12., 13. og 16. mars 2008

Hádegisviðtal Stöðvar 2 við Árna Mathiesen 29. febrúar 2008

Hádegisviðtal Stöðvar 2 við Björgvin G. Sigurðsson 18. mars 2008

Ísland í dag 18. mars 2008 - Árni Mathiesen

Ísland í dag 18. mars 2008 - Edda Rós Karlsdóttir


Fréttaannáll 2007

Ég er í endurliti þessa stundina og rakst á Fréttaannál Stöðvar 2 fyrir árið 2007 á myndbandalagernum mínum. Ég reyndi að klippa hann til þannig að aðeins íslenska efnið yrði eftir en það sleit í sundur samfelluna í þættinum svo ég set hann allan hér inn. Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvað maður er fljótur að gleyma og hvað tímaskynið er undarlegt.

Takið sérstaklega eftir að auðmaðurinn á einkaþyrlunni sem sést í annálnum er sá sem ég nefndi hér og hafði þetta eftir: "Efnahagsumhverfið er þannig að maður er á mörkum þess að geta lifað lífinu..." Fólk gerir mismiklar kröfur, það er ljóst.

 


Árni Darling og Björgvin G.

Enn og aftur stöndum við frammi fyrir spurningunni: Hver segir satt og hver lýgur? Það var fróðlegt að heyra þetta margumrædda ráðherraspjall. Darling  áhyggjufullur og ekki gat ég heyrt að svör Árna róuðu hann. Nú þyrfti einhver blaðamaður að rekja garnirnar úr Björgvin og annar (breskur?) úr Darling og bera síðan saman frásagnir af fundinum í september sem Darling vísar í. Hvað sagði Björgvin? Hverju lofaði hann og hverju lofaði hann ekki? Eða lofaði hann kannski engu?

Hér er umfjöllun Kastljóss um símtal Árna og Darling. Textann má líka lesa á Eyjunni.

Fjallað var um málið í tíufréttum RÚV í kvöld.

En mér fannst ekki síður áhugavert viðtalið við Jón Daníelsson sem kom á eftir. Hann pakkar áliti sínu ekki inn í bómull, hvað svo sem fólki finnst um skoðanir hans.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband