Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Björgunarsveitir og flugeldar

Mér er meinilla við flugelda og hvers kyns sprengiefni. Hrekk í kút við hávaðann og finnst fnykurinn af þessum óþverra skelfilegur. En ég stóð mína plikt þegar sonur minn var á barnsaldri og keypti minnsta fjölskyldupakkann - alltaf af björgunarsveitinni næst okkur, Ingólfi. Stráknum fannst þetta geggjað!

Svo kom að því að stráksi var tækur í björgunarsveitina Ingólf og sá eftir það sjálfur um allt sem laut að skytteríi á gamlárskvöld. Ég varð ekkert hrifnari af tiltækinu en lét mig hafa það. En þá og næstu árin fékk ég beint í æð vitneskju og reynslu af starfsemi björgunarsveita og því mikla og óeigingjarna starfi sem þar fer fram - svo ekki sé minnst á kostnaðinn sem einstaklingarnir bera sjálfir. Afmælis- og jólagjafir drengsins árum saman voru alls konar græjur sem snertu björgunarsveitina. Síðan hefur mér fundist að björgunarsveitirnar eða Slysavarnarfélagið eigi að hafa einkarétt á sölu flugelda. Skítt með samkeppni, einkaframtak og hvað sem fólk ber fyrir sig.

Mig langar að skora á fólk sem á annað borð kaupir flugelda eða annað fírverkerí að versla við björgunarsveitirnar. Ég ætla meira að segja að kaupa af þeim stjörnuljós, mér finnst það eiginlega lágmark. Sem betur fer hef ég aldrei þurft að leita á náðir björgunarsveitar - ennþá. En maður veit aldrei, það gæti komið að því. Og - eins og stendur í auglýsingunni hér að neðan:

Hvað er þinn flugeldasali tilbúinn til að leggja á sig fyrir þig?

Hvað er þinn flugeldasali tilbúinn til að leggja á sig fyrir þig?

Hér er yfirlit yfir útköll einnar björgunarsveitar - Ársæls - sem varð til við samruna Ingólfs og björgunarsveitarinnar á Seltjarnarnesi sem ég man ekki hvað hét forðum. Hugsið ykkur bara ef við nytum ekki þessa öryggisnets sem björgunarsveitirnar eru!

Útköll - Ársæll - 2008


Skelegg og afdráttarlaus ályktun Samfylkingarfélags

Í tíufréttum RÚV var stórmerkileg frétt frá Vestfjörðum og viðtal við skörunginn Bryndísi Friðgeirsdóttur, formann Samfylkingarfélagsins á Ísafirði (ég fæ mig ekki ennþá til að segja Ísafjarðarbæ, kannski seinna...). Miðað við orð Bryndísar var ályktun stjórnar félagsins mjög afdráttarlaus.

Ég hef fundið mikið til með hinum almenna félaga í Samfylkingunni fyrir að þurfa að verja aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og augljósan undirlægjuhátt flokksins gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Svo veit maður ekki hvaða spillingaröfl eru innan Samfylkingarinnar og virkjana- og stóriðjuáhugi sumra þar innanbúðar er með ólíkindum. En horfið og hlustið vel á Bryndísi...


Leppar og leynifélög - 2. hluti

 

 

    Svona var 1. hluti ef einhver missti af honum:

 
Þessu tengt: Varnargrein Jóns Ásgeirs í Morgunblaðinu 29. desember 2008 - fyrri síða, seinni síða.

Illa farið með framtíðarfólk þjóðarinnar

Mikið ofboðslega má hann Gunnar Birgisson skammast sín. Hann álpaðist einu sinni inn á þing en hætti. Líklega var meira upp úr því að hafa að deila og drottna í Kópavogi en að vera óbreyttur þingmaður í afgreiðsludeild Alþingis. Af hverju hann er stjórnarformaður Lánasjóðs íslenskra námsmanna er mér hulin ráðgáta. Hvað hefur hann til að bera í það embætti annað en flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum og hvað fær hann í þóknun fyrir stjórnarformannsstarfið?

Gunnar BirgissonEins og sjá má af glottinu og hrokasvipnum á Gunnari þegar hann segir "Ungt fólk er stundum óþolinmótt" finnst honum bara fyndið að námsmenn erlendis eigi ekki fyrir mat. Og sú er raunin í fjölmörgum tilfellum. Gunnari má vera sama - hann hefur yfrið nóg fyrir sig og sína og umhyggja hans virðist ekki ná lengra. Gunnar gerir sér í fyrsta lagi ekki grein fyrir því að námsmenn erlendis eru ekki bara ungt fólk, heldur eru þeir á öllum aldri, ýmsu þroskastigi og margir þurfa að fæða og klæða börn sín. Í öðru lagi virðist Gunnar alls ekki skilja neyðina og í hvaða stöðu námsmenn erlendis hafa verið síðan hrunið varð fyrir 3 mánuðum. Í þriðja lagi er eins og Gunnar og stjórn LÍN - og kannski stjórnvöld sem hafa ekki haft döngun í sér til að ganga á eftir fyrirmælum um neyðarlán - skilji ekki að hér er verið að tala um LÁN, ekki ölmusu eða gjafafé. Námsmenn eru ekki að biðja um að fá neitt ókeypis eða gefins. Þetta eru lán - neyðarlán til fólks í neyð.

Sonur minn er námsmaður í Sviss, svo ég taki dæmi. Er að hefja síðustu önnina af fjórum í meistaranámi. 1. janúar sl. var gengið á 1 svissneskum franka 55 krónur íslenskar. Í dag var 1 franki skráður á 116 krónur í íslenskum banka sem er hækkun um 111%. En í svissneska bankanum sem hann skiptir við þar úti, UBS, var frankinn skráður á 195 krónur í dag sem er 255% hækkun. Það ætti ekki að vera erfitt að skilja hvaða búsifjum fólk hefur orðið fyrir sem þarf að stóla á námslán frá Íslandi þegar gengisþróunin er skoðuð. En Gunnari Birgissyni finnst þetta bara fyndið, enda er svo gott að búa í Kópavogi að hann mætti ekki á fundinn með námsmönnunum sem minnst var á í Kastjósi - né heldur neinn fulltrúi LÍN.

Stjórnvöld tala ávallt fjálglega um gildi menntunar fyrir framtíðina og fólk er hvatt til að mennta sig, ekki síst nú þegar atvinnuleysi eykst. Menntun er ævinlega nefnd sem einn af helstu björgunarhringum Íslendinga til lengri tíma. En hvað er svo gert til að auðvelda fólki að mennta sig? Jú, skorin niður framlög til menntastofnana sem geta því ekki tekið við öllum sem vilja í nám og svo illa er komið fram við námsmenn erlendis í neyð að þeir hafa hvorki í sig né á og neyðast sumir til að hætta námi. Á meðan eru felldar niður milljarðaskuldir bankastarfsmanna og auðmanna svo aðeins sé nefnt eitt atriði af mörgum í sukkstefnu ríkisstjórnarinnar. Sveiattan!


Háðsglósur frá Norðmönnum

Ætli þeir viti að Geir er hálfnorskur? Greinin í Aftenbladet er hér.

Saga um Íslendingana og stóra peningaspilið


Aprílgabb forsætisráðherra

Ég var að grúska í gullastokknum eina ferðina enn og rakst á ummæli forsætisráðherra frá 31. mars þar sem hann sagði að nú væri botninum náð. Daginn eftir var 1. apríl og hann hélt áfram að gaspra í Kastljósi, því sama og sýnt var brot úr í fréttum RÚV í gærkvöldi. Erlendur sérfræðingur hafði sagt m.a. í fréttatímanum á undan að ríkissjóður væri of smár miðað við bankana, en því var Geir aldeilis ekki sammála! "Þetta er gagnrýni sem stundum heyrist, að bankakerfið sé orðið of stórt fyrir íslenska ríkið, en ég tel ekki að svo sé". Æ, æ, Geir. Það voru ótalmargir búnir að segja þetta og nú súpum við seyðið, meðal annars af því sem Geir neitaði að viðurkenna í aprílgabbi sínu.

Daginn eftir þetta viðtal voru Geir og Ingibjörg Sólrún að fara á NATO-fund og höfðu leigt sér einkaþotu til fararinnar. Geir réttlætir þá ákvörðun með því að tími þeirra sé svo mikils virði að það borgi sig. Hann sér enga möguleika á að nýta biðtímann eins og fólk þarf nú að gera almennt þegar það er í viðskiptaerindum erlendis. Svo er hann hálfmóðgaður við Sigmar fyrir að hnýta í þetta - það voru jú 4 sæti laus og fjölmiðlum boðið að nota þau! Þá eiga þeir ekkert að vera að gagnrýna fjáraustur hins opinbera.

Lokaorð í aprílgabbi Geirs eru þau, að þegar líður á árið og kemur fram á það næsta muni rofa til. Forsætisráðherra er greinilega ekki spámannlega vaxinn og hefur tekist, með dyggri aðstoð félaga sinna í Flokknum, ríkisstjórnar, alþingismanna, embættismanna í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti, bankamanna - að ógleymdum útrásarauðmönnum sem margir vilja gera útlæga - að koma heilli þjóð á vonarvöl með betlistaf í hendi. Þrátt fyrir það sitja allir stjórnmálamenn og embættismenn ennþá í sínum mjúku stólum og þiggja fyrirtakslaun (og svo eftirlaun) af fólkinu sem þeir sviku - en sem vill alls ekki hafa þá áfram í vinnu og heimtar afsögn þeirra. Hvað þarf til að þeir skilji kröfur almennings?

Páll Skúlason sagði í ágætu viðtali við Evu Maríu í gærkvöldi að þrátt fyrir ólíka reynslu okkar og upplifun af efnahagshruninu sé sameiginleg reynsla okkar sem Íslendinga og sem þjóðar sú, að öryggisnetið okkar, ríkið, hafi brugðist. Ríkið sá ekki til þess að grundvallarhagsmunir okkar væru tryggðir heldur hafi það verið notað sem tæki til að sundra okkur í stað þess að sameina okkur. Þetta er hárrétt hjá Páli og ég kann ríkisstjórninni litlar þakkir fyrir. En hér er aprílgabb forsætisráðherra. Ég lenti í svolitlum vandræðum með vinnsluna og verið getur að tal og mynd fari ekki alveg saman.

Ég hlakka til að sjá yfirlit sjónvarpsstöðvanna yfir fréttir ársins. Við fengum örlítið sýnishorn á RÚV.

Að lokum spillingarfréttir hjá Stöð 2. Ég man þegar millifærslumálið kom fyrst upp fyrir um 2 mánuðum. Ekkert virðist hafa gerst í því og það er að koma aftur upp núna. Ég tek undir með Ragnari í seinni fréttinni sem spyr fyrir hverja forstjóri lífeyrissjóðsins og formaður stéttarfélagsins vinna. Og hvernig getur launakostnaður lífeyrissjóðsins verið 270 milljónir á einu ári? Fram kom um daginn að forstjórinn er með vel yfir 2 milljónir í mánaðarlaun og Gunnar Páll er með 1,7 milljónir á mánuði hjá stéttarfélaginu. Lægstu taxtar VR eru um 140.000 á mánuði. Í þessa hít er fólki skylt að borga samkvæmt lögum. Hvað yrði gert við mann ef maður neitaði að borga í svona sukk? Þetta verður að taka með í reikninginn þegar stokkað verður upp á nýtt og gefið aftur í framtíðinni.


Guðspjallamaðurinn Matteus og Stefán Jón Hafstein

Nei, ég er ekki að bera þá saman, Matteus og Stefán Jón. Þekki enda hvorugan og veit ekki hvort þeir eru samanburðarhæfir. Nema hvað vert er að glugga í orð beggja og svo bar til að þeir töluðu til mín báðir í einu í gærkvöldi á mjög svo undarlegan hátt - og af einskærri tilviljun. Held ég.

BiblíaÉg fékk tölvupóst frá Erling vini mínum í gærkvöldi, þar sem hann sagðist vera að lesa bók sem heitir "Outliers" og fjallar um persónur sem standa utan við hið hefðbundna mynstur. Í bókinni er talað um Matteusar-áhrifin (The Matthew Effect) sem hljóða svo: "Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur." (Biblían - Nýja testamentið - Matteusarguðspjall 25:29.)

Ég efast ekki um að hver einasti Íslendingur sem kominn er sæmilega á legg kannist við nákvæmlega það sem guðspjallamaðurinn er að lýsa þarna. Þetta er einmitt það sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi þessa dagana. Ekki að það sé neitt nýtt, en undir þeim kringumstæðum sem við búum við nú um stundir er hið hróplega óréttlæti sem í þessu felst alveg sérlega áberandi. Einmitt þeir sem hafa gnægð settu þjóðina á hausinn og þeir sem eigi hafa þurfa að bera byrðarnar á meðan sökudólgarnir sem hafa gnægð fyrir mun gefið verða, hvort sem það heita afskriftir skulda, gömlu fyrirtækin sín skuldlaus og á útsöluverði eða rífleg eftirlaun á kostnað þeirra sem eigi hafa. Þetta sá hann Matteus karlinn allt fyrir því sennilega vissi hann sem er, að mannlegt eðli og breyskleiki breytist aldregi.

Stefán Jón skrifaði grein í Fréttablaðið í gær, mjög góða grein. Það vildi svo ótrúlega til að ég var Stefán Jón Hafsteineinmitt að lesa hana þegar ég fékk póstinn frá Erling. Og Stefán Jón var líka að lesa bók sem heitir "Outliers". Hvort það er sama bókin veit ég ekki, en hann leggur út frá bókinni og segir: "En bókin skýrir með dæmum hvernig flest slys verða til fyrir röð smávægilegra mistaka, tæknilegra og mannlegra, sem smátt og smátt hlaða svo upp á sig að á endanum verður ekki við ráðið. Engin ein mistök gera útslagið: Smávægileg vélarbilun, samskipti óljós, tungumálaörðugleikar, menningarlegt ólæsi og jafnvel hroki í stjórnklefa, leiðbeiningar misskildar, aðstæður versna, álag sljóvgar og allt í einu er stórslys sem auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir. Uppsafnað vanhæfi."

Ég efast heldur ekki um að allir kannist við það ferli sem Stefán Jón á hér við og geti heimfært það upp á íslenskan veruleika nútímans. Aðdraganda efnahagshrunsins og hrokafulla framkomu hlutaðeigandi gerenda allra við þjóðina. Uppsafnað vanhæfi er snilldarlega að orði komist. Ef þessi tilviljun, að fá póstinn á sama tíma og ég var að lesa greinina, með tilvitnunum í bækur (bók?) með sama nafni sem vísa báðar  beint í veruleika nútímans er skilaboð til mín - þá skil ég þau ekki... a.m.k. ekki ennþá. En kannski felast engin skilaboð í þessu frekar en í öðrum tilviljunum - ef tilviljanir eru þá til. En hér er þessi fína grein Stefáns Jóns. Þið fáið ekki að sjá póstinn frá Erling. Hann er prívat en Erling er til vitnis. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Stefán Jón Hafstein - Fréttablaðið 27. desember 2008

Hér er fréttin á Vísi sem Stefán Jón vísar í og vakti, eins og hann nefnir, furðu litla athygli.

 Vísir.is 30. október 2008


Mögnuð viðtöl um útrásina

Það er alltaf býsna fróðlegt að líta um öxl og spá í forsögu og framvindu mála eftir allt sem gerst hefur undanfarið. Ég hef gert svolítið af því hér á síðunni og nú kemur enn eitt endurlitið - aftur til sumarsins 2007. Allt efni er úr Íslandi í dag á Stöð 2.

Byrjum 18. júní 2007. Þá tók Sölvi viðtal við annan Bakkavararbróðurinn, Ágúst Guðmundsson, og ræddi um umsvif Bakkavarar í Bretlandi. Voru það ekki þeir bræður sem, rúmu ári seinna, skutust á þyrlu frá laxveiðiá í Borgarfirði til að kaupa sér pylsu í Baulu. Hvernig ætli staðan sé hjá þeim núna?

Næsta myndbrot er frá 25. júlí 2007 og ber yfirskriftina Mestu viðskipti Íslandssögunnar. Þar er verið að vitna í þegar Novator millifærði 182 milljarða króna til fyrrverandi hluthafa í Actavis. Gaman væri að rifja upp hverjir fengu stærsta skerfinn. Í beinu framhaldi af þessari umfjöllun er viðtal við Björgvin G. Sigurðsson, sem var búinn að vera viðskiptaráðherra í tvo mánuði. Það er magnað viðtal, alveg ótrúlegt. Björgvin reynir ekki að leyna fölskvalausri aðdáun sinni á útrásinni og auðmönnunum sem hana stunduðu. Hann er svo barnslega einlægur í trúnni á jólasveinana að maður kemst næstum við. Og hlustið á hvað hann segir um útrásina og orkuauðlindirnar og orkufyrirtækin! Þetta er rétt áður en REI-málið kom upp þar sem næstum var búið að selja auðlindirnar í hendur sömu fjárglæframanna og hann dáist svona einlæglega að. Ég get ekki ímyndað mér að Björgvin hefði gert neitt til að hindra það rán á sameiginlegum auðlindum Íslendinga þótt hann hefði haft tækifæri til. Hefur Björgvin axlað pólitíska eða siðferðilega ábyrgð? Nei.

Hér er svo stórfróðlegt viðtal við Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, frá 1. ágúst 2007. Sigurjón er þarna gríðarlega stoltur af barninu sínu, Icesave, og segir hafa tekið 9 mánuði að hala inn álíka mikla peninga á einstaklingsviðskiptum með Icesave og hefði tekið 120 ár að gera á Íslandi. Eftir þetta heldur Icesave blekkingarleikurinn áfram í rúmt ár, eða 14 mánuði. Þeim tókst að hafa enn meira fé af Bretum sem íslenskir skattborgarar verða að endurgreiða næstu áratugina. Takið eftir að Sigurjón kallar Icesave "vöru".

Skömmu eftir að viðtalið er tekið fara bankarnir að fella gengið fyrir ársfjórðungsuppgjörin sín til að sýna betri stöðu á pappírunum - til að geta haldið leiknum áfram. Er búið að handtaka Sigurjón og félaga fyrir fjársvikin? Nei, merkilegt nokk - og helsti aðstoðarmaður hans við Icesave er nú bankastjóri nýja Landsbankans. Það þarf enginn að segja mér annað en að þetta fólk hafi vitað nákvæmlega hvað það var að gera og hvernig það myndi enda og nú vinnur það hörðum höndum að því að fela slóðina.

Í tengslum við upprifjunina minni ég á þessa færslu frá 26. október sl. þar sem ég tók saman umfjöllun um efnahagsmál fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Enn hef ég ekki fundið tíma til að halda þeirri vinnu áfram.

Það er meðal annars þetta sem mótmælt er á Austurvelli á laugardögum kl. 15! Mætum öll í dag á Austurvöll og sýnum með nærveru okkar að við séum ekki sátt við svona vinnubrögð!

Svo mælir Henrý Þór:

Henrý Þór - Jólagjöfin til íslenskra barna


Jólakveðja

Njótið jólanna með yl í hjarta.

 

Og hér eru fréttir dagsins fyrir þá sem misstu af þeim.
Fyrst Stöð 2 kl. 12.


 Síðan RÚV kl. 13.


Kolbrún Bergþórs, Birna Þórðar, mótmæli og ábyrgð

Birna ÞórðardóttirÉg man eftir Þorláksmessuslagnum fyrir 40 árum. Ég var 13 ára og var í bænum að kaupa síðustu jólagjöfina. Stóð frosin álengdar og starði upp í Bankastræti þar sem ljóshærð, síðhærð ung kona slóst við lögregluna ásamt fleirum. Þetta vald sem mér hafði verið innrætt að bera virðingu fyrir. Ekki minnist ég þess að hafa haft hugmynd um hvert tilefnið var og forðaði mér heim þegar ég loks gat mig hrært. Unga konan reyndist hafa verið Birna nokkur Þórðardóttir sem ég hef fylgst með úr fjarlægð æ síðan.

Ég ber virðingu fyrir Birnu og mér finnst hún flott kona, stórglæsileg reyndar. Sé hana alltaf í Gay Pride göngum og undanfarið á mótmælafundunum á Austurvelli. Myndin af henni er sú, að þarna fari kona með mjög ríka réttlætiskennd sem láti aldrei vaða yfir sig möglunarlaust og leggi mannréttindabaráttu lið eins og henni frekast er unnt. Mér finnst ég ekkert þurfa endilega að vera alltaf sammála henni til að bera virðingu fyrir einurð hennar, einlægni og þrautseigju.

Mér hefur orðið hugsað til Birnu í sambandi við annað mál - formann VR, laun hans, augljósa spillingu og framboð. Gunnar Páll er nógu siðlaus til að ætla að halda áfram og fólk furðar sig á því að enginn ætli að bjóða sig fram gegn honum. En málið er ekki svo einfalt. Mér er mjög minnisstætt þegar Magnús L. Sveinsson var búinn að vera formaður MJÖG lengi og stóð sig frámunalega illa. Svaf á verðinum eins og gerist þegar menn eru búnir að vera of lengi í embætti. Gerði vonda samninga fyrir sína umbjóðendur og í verkfalli - mig minnir 1985 - voru samningar við vinnuveitendur felldir af félagsmönnum a.m.k. tvisvar. Fjölmargir vildu losna við Magnús en það var ekki hægt. Hann, ásamt fleirum, var búinn að koma ár sinni svo vel fyrir borð og festa sitjandi formann - sjálfan sig - svo vel í sessi að það þurfti ekkert minna en kraftaverk til að koma honum frá. Mótframboð þurfti að vera með mörg hundruð manns tilbúna í hvert einasta embætti til að geta haggað honum. Í trausti þessarar samtryggingar fer Gunnar Páll fram aftur, siðblindur á bjálkann í auga sér, vitandi að það er ógerlegt að velta honum úr sessi.

Birna var mjög virkur félagsmaður í VR á þessum árum. Hún mætti á alla fundi og á hverjum einasta fundi lagði hún fram fyrirspurn um laun formanns VR. Hún fékk aldrei svar en aldrei gafst hún upp. Ég dáðist að seiglunni. Birna er ein þeirra sem getur lagst sátt til hvílu þegar þar að kemur, vitandi að hún lagði sitt af mörkum til réttlátari heims og verið stolt afkomenda sinna.

Kolbrúnu Bergþórsdóttur hef ég líka fylgst með úr fjarlægð, en öllu skemur Kolbrún Bergþórsdóttiren Birnu. Hún vakti fyrst athygli fyrir bókagagnrýni sína þar sem hún var oftar en ekki ósammála öllu og öllum og hafði sérstakar og sterkar skoðanir. Hún kom fram í útvarpi og sjónvarpi auk þess að skrifa í blöð. Síðan gerðist hún blaðamaður og hefur verið á ýmsum blöðum undanfarin ár. Svo er hún auðvitað í Kiljunni. Ég hef gaman af Kolbrúnu, held að hún sé einlæg í sínum skoðunum á bókmenntum og þótt ég sé alls ekki alltaf sammála henni, hafi ég á annað borð lesið viðkomandi bók, ber ég virðingu fyrir skoðunum sem settar eru fram af hjartans einlægni og hafa engan dulinn tilgang.

Öðru máli gegnir um pistlana hennar í Mogganum. Þar fer hún oft og iðulega hamförum í forpokaðri hneykslan og fordæmingu, meðal annars á því sem telst til sjálfsagðra mannréttinda í öllum siðmenntuðum lýðræðisþjóðfélögum. Sem Ísland er reyndar alls ekki. Hún talar um væl, nöldur og fleira miður fallegt og réttlætir þá sem níðast á almenningi. Kannski af því hún vinnur fyrir þá. Sú Kolbrún er mér lítt að skapi. Einhvern veginn hef ég alltaf á tilfinningunni að Kolbrún viti betur innst inni. Að hún sé að halda dauðahaldi í eitthvað sem hún veit að er ekki rétt því ég held að hún sé miklu klárari kona en þetta. Mér finnst að hún ætti að halda sig við viðtölin sín sem hún gerir ágætlega ef hún á annað borð hefur minnsta áhuga á viðmælandanum. Ef ekki eru viðtölin þurrkuntuleg, sum beinlínis hundleiðinleg og gefa bjagaða mynd af viðfangsefninu.

En tilefni þessara skrifa minna eru pistlar þessara tveggja kvenna, sem ég ítreka að ég þekki ekki neitt persónulega. Fyrstur er pistill Kolbrúnar frá sunnudagsmogga og síðan pistill Birnu í Mogganum í gær þar sem hún gagnrýnir skrif Kolbrúnar. Ég las pistil Kolbrúnar, hristi höfuðið þegjandi og af því mér er hlýtt til hennar hugsaði ég einfaldlega með sjálfri mér: "Æ, æ. Kolla mín... seint ætlarðu að botna nokkurn skapaðan hlut í lífinu og tilbrigðum þess." Kolbrún virðist skilja bókmenntir betur og finnst að fólk eigi bara að taka því sem að því er rétt og halda kjafti. En lífið er bara alls ekki þannig, allra síst á þessum síðustu og verstu tímum. Birna gerði meira en að hrista höfuðið þegjandi - hún skrifaði grein þar sem hún tætir Kolbrúnu í sig.

Kolbrún Bergþórsdóttir - Morgunblaðið 21. desember 2008

Kolbrún Bergþórsdóttir - Moggi 21. desember 2008

Birna Þórðardóttir - Morgunblaðið 23. desember 2008

Birna Þórðardóttir - Moggi 23.12.08

Hér er pistill Kolbrúnar frá 9. júní sl. sem Birna vitnar í. Kolbrún ver háu launin og sakar gagnrýnendur þeirra um öfund og pólitískan tilgang. Ætli henni finnist sjálfsagt að formaður VR sé með margföld laun umbjóðenda sinna og hafi tekið þátt í svindli bankanna sem umbjóðendur hans bæði tapa á og fara jafnvel sumir á vonarvöl? Henni verður einnig tíðrætt um ábyrgðina. Hálaunamennirnir hafa svona há laun segir hún af því þeir bera svo mikla ábyrgð. Hvað segir Kolbrún nú um ofurlaun og ábyrgð? Finnst henni Gunnar Páll axla ábyrgð á siðleysi sínu með því að bjóða sig fram aftur? Hver af þessum hálaunamönnum hefur axlað nokkra ábyrgð á endalausum afglöpum, mistökum, spillingu, þjófnaði og glæpum sínum?

Kolbrún Bergþórsdóttir - Moggi 9.6.08


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband