Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Meira af eldheitum skipulagsmálum í Reykjavík

Það er ekki ofsögum sagt að skipulagsmálin í Reykjavík séu mikið rædd þessa dagana og enn bætist við ítarefnið sem nauðsynlegt er að kynna sér. Eins og sjá má af athugasemdum við fyrri færslu mína eru ýmsar skoðanir á lofti og fólk ekki par ánægt með hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár, einkum í miðborg Reykjavíkur. Einnig er stórmál komið upp á Akureyri sem lesa má um hér og djúpstæður ágreiningur er milli íbúa á Selfossi og bæjaryfirvalda þar - svo ekki sé minnst á ósköpin sem hafa gengið á í Kópavogi og Hafnarfirði. Þessi mál eru síst bundin við Reykjavík eingöngu þótt þessa dagana sé miðborg hennar í brennidepli.

Hagsmunatengsl eru fólki augljóslega ofarlega í huga og af fréttum og viðbrögðum manna má merkja að spilling er greinilega mjög algeng þegar um lóðabrask, húsabrask og aðra fjárplógsstarfssemi á því sviði er að ræða. Því hvað er það annað en spilling þegar verktaki borgar í kosningasjóð og fær að launum verðmætar lóðir sem hann getur skipulagt að eigin geðþótta og grætt tugmilljónir á? Hvað er það annað en spilling að formaður skipulagsnefndar bæjarfélags starfi fyrir einn verktakann í bænum eins og kemur fram í einni athugasemdinni við fyrri færslu? En hér á landi eru engin lög - hvað þá viðurlög - við spillingu. Hún er umborin eins og hvert annað hundsbit. Fólk tautar og skammast hvert í sínu horni eða á sinni kaffistofu en yfirvöld eru aldrei krafin skýringa og aldrei reyna fjölmiðlar að fletta ofan af slíkri spillingu og neyða ráðamenn til að afhjúpa siðleysið.

Ef brotið er á rétti almennings, yfir hann vaðið og lífsgæði hans skert, eru fáar leiðir færar og glíman við kerfið, embættismenn og peningavaldið virðist oftar en ekki fyrirfram töpuð. Þegar svo úrskurður berst frá æðstavaldinu er eina leið fólks að ráða sér rándýran lögfræðing og fara í einkamál við verktakann - eða hvern þann sem braut á því - og renna blint í sjóinn með útkomu málsins. Það er á fárra færi. Svona mál eru orku- og tímafrek og reikningar lögfræðinga stjarnfræðilega háir.

Hjálmar SveinssonEinn er sá útvarpsmaður sem hefur um langa hríð fjallað mjög vel og skilmerkilega um skipulagsmál á Rás 1. Það er Hjálmar Sveinsson í þætti sínum, Krossgötum, sem nú er sendur út klukkan 13 á laugardögum. Í fyrravetur helgaði Hjálmar þáttinn skipulagsmálum mánuðum saman og mér telst til að ég eigi í það minnsta 14 þætti sem ég tók upp. Þessir Krossgötuþættir eru fjársjóður fyrir áhugafólk, því Hjálmar tók afar faglega og ítarlega á málinu og ræddi við fagfólk á ýmsum sviðum skipulags- og byggingamála, sem og við almenning. Í þáttunum kom ótalmargt fram sem á brýnt erindi við borgar- og skipulagsyfirvöld hvar sem er á landinu, ekki síður en málflutningur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem minnst var á í pistlinum hér á undan.

Í rúmlega ársgömlum tölvupósti til nágranna minna vegna mála í nánasta umhverfi okkar sagði ég: "Mikið hefur verið rætt um umhverfismál á landsvísu, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sagt að umhverfismálin verði mál málanna í komandi alþingiskosningum, jafnvel að nýr flokkur verði stofnaður utan um þau mál. Ég fagna þessari umræðu, ekki veitir af.

Þetta mál og fleiri af sama toga eru líka umhverfismál - á borgarvísu - og verðskulda einnig athygli og umfjöllun auk þess sem þau snerta lífsgæði tugþúsunda íbúa gamla Vesturbæjarins og nágrennis.

Talað er um stóriðjuæði og virkjanafíkn á landsvísu, en á borgarvísu mætti tala um byggingaræði og þéttingarfíkn. Auk þess er æðibunugangurinn slíkur að hroðvirkni hefur valdið miklu tjóni og enginn ber ábyrgð eins og fram kom hjá fréttastofu RÚV í umfjöllun um þau mál í janúar sl."

Í þessari umræðu er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn, a.m.k. ekki í Reykjavík. Þéttingaræðið hófst á valdatíma R-listans og ekki virðist ennþá hafa tekist að stöðva það - eða að minnsta kosti að hægja á ferðinni svo hægt sé að horfa heildstætt og skynsamlega á málin. Kannski er umræðan nú vísir að hemlun, eða það vona ég altént.

Á flakki mínu um blogg Egils Helgasonar sá ég athugasemd við eina færsluna hans frá 25. mars sl. sem mér finnst rétt að benda á sem dæmi um vinnubrögðin í skipulags- og byggingamálunum: 

"Flestar íslenskar byggingar eru byggðar undir stjórn verktaka sem vilja umfram allt halda kostnaði niðri. Það er fegurðarskyn verkfræðinganna sem hefur ráðið mestu um byggingastíl á Íslandi.

Það var tvennt sem kom eiginkonu minni, arkitektinum mest á óvart þegar hún fór að vinna á Íslandi. Fyrst áhrifa- og valdaleysi arkitekta yfir flestum verkefnum sem þeir vinna að. Þau eru kommisjónuð af verktökum sem hafna öllu sem mögulega gæti aukið kostnað. í öðru lagi sú súrrealíska staða sem hún lenti stundum í, að fara á byggingarstað og teikna það sem verktakinn hafði þegar byggt til að skila inn teikningum og fá þær samþykktar af yfirvöldum."

Finnst einhverjum þetta viðunandi vinnubrögð? Ég veit af fenginni reynslu að þetta er kallað "breytingar á byggingartíma" hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum og er samþykkt, því það væri svo dýrt fyrir verktakann að breyta því sem búið er að gera. Ekki kemur til álita að meta tjónið sem t.d. nágranninn verður fyrir og enginn er ábyrgur.

Í dag, sunnudag, voru tveir þættir í sjónvarpinu sem komu inn á skipulagsmál, Silfur Egils og Sunnudagskvöld með Evu Maríu. Hjá Agli var Þórður Magnússon, einn stjórnarmanna endurreistra Torfusamtaka, og hjá Evu Maríu var Björn Ólafsson, arkitekt, búsettur í París.

Ég set bæði viðtölin inn hér að neðan. Viðtalið við Þórð er endasleppt, Egill fór mínútu eða svo yfir tímann og þá er klippt á útsendinguna á Netinu. Það verður væntanlega lagað og þá endurvinn ég upptökuna og set úrklippuna inn á ný.
Uppfærsla: Nýtt myndband komið inn með endinum.

Björn fór um víðan völl í löngum þætti og sagði mjög margt áhugavert, en ég klippti út það sem hann sagði um skipulagsmálin í Reykjavík sem hér eru til umræðu og þau skelfilegu mistök að láta gróðabrask ráða ferðinni.

Þórður Magnússon í Silfri Egils - 30. mars 2008

Björn Ólafsson í Sunnudagskvöldi með Evu Maríu - 30. mars 2008

 


Öflug og löngu tímabær umræða um skipulagsmál

Þessa dagana fer fram öflug umræða um skipulagsmál - og ekki seinna vænna. Ýmis öfl í samfélaginu hafa unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að eyðileggja miðborg Reykjavíkur og nágrenni hennar, elstu hluta borgarinnar, í þeim tilgangi einum að græða fé - og það mikið. Þeir hafa náð nokkrum árangri, en ef sú von mín rætist að nú sé að eiga sér stað hugarfarsbreyting bæði hjá almenningi og borgaryfirvöldum er þeim niðurlægingarkafla í sögu Reykjavíkur að ljúka.

Það hefur staðið til hjá mér um tíma að skrifa um þessi mál þar sem mér eru þau afskaplega hugleikin og ég hef staðið í baráttu, ásamt nágrönnum mínum, við skipulagsyfirvöld í Reykjavík og nokkra misvitra stjórnmálamenn sem mér er fyrirmunað að skilja.

Kári Halldór ÞórssonEn áður en lengra er haldið langar mig að biðja fólk sem hefur áhuga á þessum málum að hlusta á sterkan málflutning Kára Halldórs Þórssonar í Vikulokunum á Rás 1 á laugardagsmorgun. Margir hafa séð Kára Halldór í fréttum undanfarna daga þar sem hann hefur talað fyrir hönd íbúa við Bergstaðastræti og nágrenni um skipulagsklúðrið þar, búsetu útigangsfólks í gámi og yfirgang vertaka. Þátturinn er hér og það er um miðbik hans sem umræður hefjast um skipulagsmál. Ég bendi sérstaklega á umræðuna um verktaka, meint tengsl þeirra við stjórnmálamenn og greiðslur í kosningasjóði. Ef satt er myndi svona nokkuð kallast forkastanleg spilling í öllum siðuðum lýðræðisríkjum og viðkomandi stjórnmálamönnum væri ekki sætt í sínum mjúku stólum. Þættinum lýkur síðan með umræðu um málið sem ég skrifaði um í síðustu færslu.

Einnig er hér fyrir neðan kafli úr Silfri Egils frá 13. janúar sl. þar semSigmundur Davíð Gunnlaugsson Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðingur, greinir frá rannsóknum sínum og niðurstöðum á vel og illa heppnuðu skipulagi borga. Ég veit um fólk sem skipti algjörlega um skoðun á málunum eftir að hafa horft og hlýtt á áhrifaríkan málflutning Sigmundar Davíðs.

Ég heyrði fyrst í Sigmundi Davíð á fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í fyrra þar sem hann var með fyrirlestur og sýndi myndir máli sínu til stuðnings. Hann hefur einnig haldið fyrirlestra um skipulagsmál á Ísafirði, Akureyri og sjálfsagt víðar, því það sem hann hefur fram að færa kemur öllum við - jafnt smáum sem stórum samfélögum. Fagleg umfjöllun hans, dæmin sem hann tekur, myndirnar sem hann sýnir, rökin sem hann færir fyrir máli sínu... allt er þetta afskaplega vel fram sett og gríðarlega sannfærandi.

Við viljum öll að okkur líði vel og að umhverfi okkar sé notalegt og aðlaðandi. Sigmundur Davíð er með niðurstöður, hugmyndir og lausnir sem svo sannarlega er vert að taka mark á.


Hroki, siðblinda, spilling og ósnertanleiki

Árni MathiesenAllir vita hvað gengið hefur á með umdeilda stöðuveitingu á vegum Árna Mathiesen, sem var settur dómsmálaráðherra gagngert til að veita stöðuna "réttum" manni. Nýjasta útspil Árna er að sýna Umboðsmanni Alþingis yfirgengilegan hroka og draga fagmennsku hans í efa til að kasta rýrð á væntanlegt álit Umboðsmanns, sem Árni veit mætavel að verður sér í óhag.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, var í löngu og fróðlegu viðtali í Speglinum í gær um málið. Gunnar Helgi sagði meðal annars: "Það er náttúrulega hlutverk Umboðsmanns Alþingis að lenda í árekstrum við framkvæmdavaldið... og hann á að gera það. Og hann verður auðvitað að fá skilyrði til að sinna því starfi almennilega. Þannig að vandinn kemur kannski aðallega upp - eftir að Umboðsmaður hefur látið í ljós skoðun á einhverju - ef framkvæmdavaldið er ekki tilbúið til að hlíta því á einhvern hátt. Þá kemur upp sú staða að Umboðsmaður er auðvitað ekki dómari. Umboðsmaður er álitsgjafi og það eru á endanum engir aðrir en dómstólar sem geta kveðið upp dóma sem framkvæmdavaldinu ber að hlíta. Sú staða sem kemur upp ef framkvæmdavaldið hafnar túlkun Umboðsmanns... það er þá fyrst og fremst það, þá þarf kannski að reyna á þetta fyrir dómstólum ef það er mögulegt. En það er auðvitað ekki alltaf mögulegt. Til dæmis eru ráherrar í þannig stöðu að um lögsókn gegn þeim gilda alveg sérstakar reglur... um lögsókn gegn þeim samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð, það er að segja. Þá þarf þingið að kæra, meirihluti þingsins þarf að kæra. Þá er kallaður saman sérdómstóll, landsdómur, sem er skipaður á alveg sérstakan hátt. Það segir kannski vissa sögu um hversu effektíft það fyrirkomulag er, að landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman á Íslandi."

Fréttamaður: "En það sem er kannski sérstakt við þetta mál, sem við erum að ræða er það, að áreksturinn kemur upp áður en Umboðsmaður kveður upp úrskurð."

Gunnar Helgi: "Já, þetta er mjög óvenjulegt að eitthvað af þessu tagi komi upp."

Fréttamaður: "Er það ekki bara fordæmislaust?"

Gunnar Helgi KristinssonGunnar Helgi: "Ég held að þetta sé fordæmislaust, ég veit ekki betur. Hér gerist það að ráðherrann ýjar að því í innganginum að bréfi sínu að Umboðsmaður sé í raun og veru búinn að gera upp skoðun sína og að eiginlega hafi það þá engan tilgang að svara spurningum hans. Þetta er hins vegar ekki í sjálfu sér rökstutt neitt sérstaklega í bréfinu. Það er vísað svona til þess að það sé ákveðinn tónn í spurningunum og þess háttar. Þá leiðist maður til að halda að þetta sé pólitískt útspil hjá ráðherranum. Að hann sé í raun og veru búinn að reikna stöðuna þannig að það séu líkur á því að Umboðsmaðurinn muni gagnrýna hann í sínu áliti og er þá að undirbúa jarðveginn fyrir það, að í raun og veru hafi ekki verið hlustað á röksemdir ráðuneytisins eða ráðherrans"

Gunnar Helgi segir jafnframt: "Ráðherrann auðvitað, hann er að búa sig undir það, geri ég ráð fyrir, að fá hugsanlega gagnrýni frá Umboðsmanni. Auðvitað er það slæmt í jafnmiklu deilumáli og þetta mál er, auðvitað er það slæmt að fá á sig gagnrýni frá Umboðsmanni og það eru vissir hnekkir fyrir ráðherra. Hvernig hann spilar úr því er auðvitað eitthvað sem hann verður að sjá fram úr en virðist svona vera að undirbúa þá vörn einhvern veginn með þessum ummælum - eða ég get ekki séð annað."

Fréttamaður: "Umboðsmaður ber ábyrgð gagnvart Alþingi. Ætti svona mál einhvern veginn að koma til kasta Alþingis eða forsætisnefndar Alþingis. Er þetta eitthvað sem það eða hún ætti að fjalla um eða taka á?"

Gunnar Helgi: "Ja... í raun og veru hefur Umboðsmaður ekkert sérstakt vald til að knýja fram aðgerðir Alþingis. Alþingi er ekki bakhjarl hans í þeim skilningi. Það eru í raun og veru flokkarnir, og þá meirihlutaflokkarnir á hverjum tíma, sem ráða Alþingi. Ráðherra situr náttúrulega í skjóli þeirra. Þannig að... álit Umboðsmanns er miklu mikilvægara sem hluti af mótun almenningsálitsins heldur en að móta einhverjar stjórnvaldsaðgerðir áður en auðvitað dómstólar hafa kveðið upp sinn úrskurð."

Ég fæ ekki betur skilið af orðum Gunnars Helga en að ráðherrar séu ósnertanlegir. Til að koma lögum yfir þá og láta þá axla ábyrgð á gjörðum sínum í ráðherrastól þarf meirihluti Alþingis að kæra - meirihluti sem samanstendur meðal annars af flokksfélögum ráðherra sem veittu honum embættið. Getur einhver séð fyrir sér að slíkt gerist hér á landi? Ráðherrar geta því sýnt valdhroka og misnotað vald sitt að eigin geðþótta án þess að neinn fái rönd við reist. Stjórnmálamenn treysta því að almenningur verði búinn að steingleyma misgjörðum þeirra og valdníðslu fyrir næstu kosningar og auðvelt verði að sveigja og beygja atkvæðin og beina athygli þeirra annað.

Verður raunin sú eða mun hin opna umræða á blogginu breyta einhverju?

 


Fjölmiðlar, fjórða valdið og fyrirlitning í framkomu ráðamanna

Oft er talað um að fjölmiðlar séu fjórða valdið í þjóðfélaginu. Hinar þrjár valdastofnanirnar eru löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Af þessum fjórum eru fjölmiðlarnir einna mest áberandi, enda inni á gafli á hverju heimili í einni eða annarri mynd á hverjum einasta degi. Ábyrgð þeirra er mikil... mjög mikil.

Að sumu leyti er hlutverk fjölmiðla mikilvægara en hlutverk stjórnarandstöðunnar því fjölmiðlar ná betur til fjöldans og hafa svo gríðarleg áhrif ef þeir vilja beita sér. Fjölmiðlar eiga alltaf að vera í eins konar stjórnarandstöðu - veita stjórnvöldum aðhald, meðal annars með því að upplýsa misnotkun valds og vinna í þágu almennings án nokkurrar íhlutunar stjórnmála eða flokkapólitíkur. Þeir eiga að fylgjast með umræðunni í þjóðfélaginu, þjóðarsálinni, og fylgja þeim málum eftir sem brenna á alþýðu manna.

Margt er athugavert við fréttaflutning og eftirfylgni mála í fjölmiðlum, hverju svo sem um er að kenna. Gæti verið tímaskortur, mannfæð, tíð mannaskipti vegna álags, of margir of ungir og reynslulausir fréttamenn sem skortir þekkingu og yfirsýn... ég veit það ekki, ég þekki ekki til og verð því að giska. En við eigum marga góða, vandaða og klára blaða- og fréttamenn sem geta gert - og gera góða hluti, en innanum er fólk sem ætti að gera eitthvað allt annað og láta fagmenn um fréttamennsku.

En hlutverk blaða- og fréttamanna er heldur ekki alltaf öfundsvert, til dæmis þegar komið er fram við þá eins og sést í fréttabrotinu hér að neðan. Á þriðjudaginn í síðustu viku boðaði forsætisráherra til  blaðamannafundar þar sem hann sat fyrir svörum um hrun krónunnar og fleira varðandi efnahag landsins. Eða hvað...? Svaraði Geir því sem hann var spurður að?

Þrátt fyrir alla pólitík hafði ég alltaf nokkuð álit á Geir Haarde. Taldi hann kurteisan séntilmann sem talaði gjarnan af þekkingu og yfirvegun. Þetta var á meðan hann var fjármálaráðherra. Mér finnst hann hafa breyst og vera farinn að draga dám af ónefndum forvera sínum.

Hér er Geir spurður afskaplega eðlilegrar spurningar - hvort honum finnist að Seðlabankinn eigi að bregðast við ástandinu sem skapast hafði í efnahagsmálum landsins. Sem Seðlabankinn gerði jú í morgun með hækkun stýrivaxta. Svona svaraði forsætisráðherra fréttamanni Stöðvar 2, þriðjudaginn 18. mars 2008:

 

Hvernig geta fjölmiðlar sinnt skyldu sinni gagnvart almenningi þegar þeim er svarað á þennan hátt? Mér finnst þetta vanvirðing - ekki bara við fréttamanninn heldur allan almenning sem sat skjálfandi og áhyggjufullur heima í stofu og beið eftir svörum stjórnvalda. Forsætisráherra sýnir þjóð sinni fyrirlitningu með þessari framkomu. Ráðamenn mega ekki komast upp með slíkt. Þeir stjórna í okkar umboði, sleikja á okkur tærnar fyrir kosningar en skella á okkur þess á milli. Þetta augnablik er eitt af þeim sem ég ætla ekki að vera búin að gleyma í næstu kosningum.


Treystum við svona fólki?

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um fréttina sem fylgir hér að neðan. Ég verð að viðurkenna að mér krossbrá. Samt kom fréttin mér ekki á óvart, ég var full tortryggni fyrir. Mútur, umhverfisspjöll og rausnarlegar þóknanir. Ekki fylgdi sögunni hverjar heimildir fréttastofunnar eru en gera verður ráð fyrir að þær séu traustar. Fréttin birtist á Stöð 2 laugardagskvöldið 22. mars 2008.

Þetta er fyrirtækið sem rekur álverið á Reyðarfirði og vill reisa álver á Bakka við Húsavík. Annað alþjóðlegt fyrirtæki vill reisa álver í Helguvík og aðstandendur hugmyndarinnar um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum segja rússneska og bandaríska aðila á bak við sig en neita að gefa upp hverjir þeir eru.

Eru Íslendingar tilbúnir til að treysta svona fólki og þeim sem makka með því fyrir landinu sínu, framtíð sinni, barnanna sinna og barnabarna - og ómetanlegri náttúru Íslands?
Ekki ég!

 


Bankar, vandræði, vextir og önnur óáran

Þann 24. febrúar sl. kom gestur í Silfur Egils sem vakti gríðarlega athygli og margt var rætt og ritað um málflutning hans, meðal annars mikið hér á Moggablogginu. Maður þessi heitir Andrés Magnússon og Egill kynnti hann sem lækni. Andrés hefur skrifað greinar í blöð um íslensku bankana, okurvexti þeirra og fleira því tengt - og það á mannamáli.

Ég hafði samband við Egil um daginn og hann veitti mér leyfi til að birta efni úr þáttunum sínum. Hafi hann þökk fyrir það. Upphaflega hafði ég ætlað að skrifa viðtalið niður, en það reyndist allt of viðamikið og tímafrekt verk, svo ég tek á það ráð að birta það hér sem myndband. Ég held að ekki veiti af að rifja svona viðtöl upp reglulega til að halda okkur öllum við efnið - einkum í því árferði sem nú ríkir en var ekki skollið á af þunga þegar Andrés var í Silfrinu.

Ýmsar spurningar vakna nú þegar allir keppast við að mála skrattann á vegginn og heimsendaspár birtast úti um víðan völl. Ég viðurkenni fúslega að ég get engan veginn hent reiður á því hvað er rétt og hvað rangt í umræðunni um efnahagsmálin núna - einn segir þetta, annar hitt og allir þykjast hafa rétt fyrir sér. Skilaboðin eru svo misvísandi að ég veit ekki mitt rjúkandi ráð. Mig grunar að ég sé ekki ein um það. Ég lýsi hér með eftir einhverjum sem veit hvað hann er að tala um eins og Andrés virðist gera í þessum þætti og getur útskýrt fyrir mér orsakir og afleiðingar - á mannamáli. Sá aðili verður að vera algjörlega óháður bönkum og öðrum lánastofnunum, stóriðju og gróðafyrirtækjum. Ég tek ekkert mark á slíkum hagsmunaaðilum sem hugsa ekki um annað en að bera af sjálfum sér sakir og haga seglum eftir sínum græðgisvindi.

En eitt veit ég: Staða bankanna nú er ekki almenningi á Íslandi að kenna. Hann hefur goldið keisaranum það sem keisarans er - og gott betur. Ekki líður á löngu þar til bankarnir geta endurskoðað lágu húsnæðisvextina sem buðust í upphafi húsnæðislánabólunnar og þá verða ennþá fleiri í enn verri málum en nú. Ríkisstjórnin, stjórnvaldið sem almenningur á að geta treyst, þegir þunnu hljóði og neitar að gera nokkurn skapaðan hlut. Hvað er þá til ráða?

Viðbót:  Ég má til með að benda á þessa grein sem ég rakst á í gærkvöldi.

 


Hugsum okkur ráðherra eða þingmann...

Eins og sjá má í fyrri færslum mínum hef ég fjallað svolítið um þá skelfilegu hugmynd að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - eða hvar sem er annars staðar á okkar fagra landi - með tilheyrandi sjón-, loft- og hljóðmengun, svo ekki sé minnst á hættuna af alvarlegum slysum sem gætu haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á láði og legi.

Fyrsta færslan um það mál er hér, og í kjölfar hennar kom færsla með myndum hérÞví næst benti ég á í þessari færslu að lögmál Murphys ætti við í þessu samhengi sem öðrum og slys væri óhjákvæmilegt - fyrr eða síðar.

Í dag fékk ég tölvupóst frá vini mínum sem benti mér á myndbandið hér að neðan, væntanlega í því skyni að róa mig og slá á áhyggjur mínar af slysahættunni í tengslum við olíuhreinsistöðvar í landi og olíuflutningaskip á sjó. Þetta er gamalt sjónvarpsviðtal við ástralskan þingmann eftir að stafn olíuflutningaskipsins Kirki brotnaði af skrokknum í júlí 1991 vestur af Ástralíu og 20.000 tonn af hráolíu láku í sjóinn.

Ég sé alveg fyrir mér álíka umræðu og svipuð svör ef þetta myndi gerast við Íslandsstrendur og íslenskur þingmaður eða ráðherra sæti fyrir svörum í Kastljósi, Silfrinu eða Mannamáli... eða jafnvel Spaugstofunni. Annað eins bull veltur næstum daglega upp úr ýmsum af ráðamönnum þjóðarinnar í fúlustu alvöru og þeir ætlast til að við tökum þá alvarlega og trúum hverju orði.

Sjálf hef ég vissan ráðherra í huga sem mér finnst koma sterklega til greina í hlutverkið og nokkra þingmenn, en dæmi nú hver fyrir sig og velji sinn mann eða konu. Hver finnst ykkur nú líklegastur/líklegust?


Eins og heyra má er ekkert að óttast! Við getum verið alveg róleg... eða hvað?
  LoL


Sjónarspil eða svikamylla - breytir engu

Skaftafell


Ég sé mig knúna til að taka aftur til máls í tilefni af sumum athugasemdunum við færsluna hér á undan, jafnvel þótt ég þurfi að endurtaka bæði það sem ég skrifaði í færslunni, sem og eigin svörum í athugasemdunum þar. Sumir virðast bara ekki lesa það sem á undan er komið, eða skauta svo hratt yfir að kjarninn fer fram hjá þeim og þeir misskilja allt - viljandi eða óviljandi. Þetta málefni er einfaldlega of mikilvægt til að hægt sé að leiða slíkt hjá sér.

DynjandiÉg var búin að skrifa þetta mestallt í athugasemdakerfið en minnug orða bloggvinar míns,  Sæmundar Bjarnasonar, sem segir að maður eigi ekki að sólunda löngu máli í athugasemdir heldur nota það frekar í nýja færslu, ætla ég að gera það. Þeir sem lesa þessa færslu þurfa því að lesa þessa fyrst - og allar athugasemdirnar við hana - til að skilja hvað ég er að fara.

Það gladdi mig mjög að sjá og heyra Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, tjá sig um gjörninginn í Helguvík í fréttum aðeins nokkrum klukkustundum eftir að ég setti inn síðustu færslu. Hún kallaði þetta sjónarspil og vafasama stjórnvaldsákvörðun og var varkárari í orðum en ég, en meining okkar var nákvæmlega sú sama. Enn er því von.

Ég finn ekki til með þeim sem vilja virkja og nýta orkuauðlindir, Örvar Þór. Þeim er engin Hænuvík við Patreksfjörðvorkunn nema kannski að því leytinu til að þeir virðast hafa misst af þeirri upplifun sem að mínu mati er nauðsynleg og ómetanleg - að kunna að meta ósnortna náttúru landsins síns, sérstöðu hennar og mikilvægi þess fyrir efnahag, framtíðina og komandi kynslóðir að ganga hægt um gleðinnar stóriðjudyr og gá að sér. Auðvitað þarf alltaf að virkja eitthvað, skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda er nauðsynleg. En það sem hefur einkennt virkjanaæði og stóriðjufíkn undanfarinna ára er hve menn einblína á stundarhagsmuni og skyndigróða, sýna fullkomið fyrirhyggjuleysi í framkvæmdum og vanvirðingu við afkomendur okkar. Það á ekki að skilja neitt eftir handa þeim. Því get ég ekki með nokkru móti verið sammála. Þetta er kallað rányrkja þegar auðlindir hafsins eru annars vegar og fordæmt harðlega. Nákvæmlega sama máli gegnir um orkuauðlindirnar.

LátrabjargStóriðja er ekki, getur ekki verið og má ekki vera eina lausn Íslendinga á byggðavanda. Margt annað kemur til sem þarf að skoða betur áður en stokkið er til og plantað álverum eða olíuhreinsistöðvum í firði og flóa þessa fallega lands. Sjáið bara hvað Hornfirðingar eru að gera! Þeir eru frábærir og hugmyndaríkir.

Í einhverjum athugasemdum er ég kölluð, að því er virðist mér til hnjóðs, "menntakona", "vel lærð á bókina" (eins og það skipti einhverju máli hér) og sögð sýna "menntahroka". Í því sambandi er vert að geta þess að ég er algjörlega ómenntuð. Ekki einu sinni með stúdentspróf. Eina prófgráðan sem ég get státað mig af er próf úr Leiðsöguskóla Íslands þar sem sú ást og aðdáun á náttúru Íslands sem ég hlaut í uppeldi mínu fékk aukinn byr undir báða vængi og gott ef ekki stél líka. Að öðru leyti hefur lífið verið minn skóli og ég endurtek það sem ég sagði í athugasemd minni (nr. 12) við síðustu færslu: "...ég hef enga fordóma gagnvart starfsfólki í neinni atvinnugrein. Ég var alin þannig upp að það sé sama hvað fólk gerir - ef það er heiðarlegt og sinnir sínu af alúð og samviskusemi." Ég hef haft þann boðskap foreldra minna í heiðri hingað til og hyggst gera hér eftir." Ég endurtek líka, að ég sagði að ég þekkti engan sem langaði að vinna í álveri. Það þýðir síður en svo að enginn vilji gera það - aðeins að ég væri ókunnug þeim sem hefðu þær hugmyndir um framtíðina. Sjálf hef ég aldrei verið hálaunakona. Útgjöldin sem fylgja aukinni þenslu, vaxtaokri og verðbólgu, m.a. vegna stóriðjuframkvæmda, eru að sliga mig. En ég hafna því algjörlega að fórna náttúrunni til að ég geti fengið nokkrum krónum meira í budduna, keypt mér nýrri bíl eða farið í fleiri utanlandsferðir. Mér finnst það einfaldlega ekki þess virði og ég vil skila landinu eins ósnortnu og gjöfulu og frekast er unnt til komandi kynslóða.

Þorsteinn Valur talar um "sovét hugsun" um stofnun og rekstur fyrirtækja og að NorðurálÍ Vigur starfi samkvæmt lögum og sé frjálst að hefja framkvæmdir og eitthvað fleira sem ég fæ ekki almennilegt samhengi í. Þorsteinn Valur virðist ekki átta sig á því frekar en Árni Árnason, að álver í Helguvík er alls ekki einkamál Reyknesinga, Suðunesjamanna eða erlendra auðhringa sem vilja græða meiri peninga. Síður en svo. Því til stuðnings vísa ég í færsluna sjálfa og svör mín í athugasemdakerfinu - og reyndar athugasemdir annarra s.s. Eggerts Vébjörnssonar og Gunnars Jónssonar - þar sem bent er á að tengdar framkvæmdir og neikvæðar afleiðingar þeirra snerta hvorki meira né minna en 2/3 landsmanna, íbúa alls suðvesturlands. Meðal annars þess vegna er svo mikilvægt að fram fari umhverfismat á öllum tengdum framkvæmdum sem einni heild eins og ég minnist á í færslunni. Þess vegna lagði Landvernd fram kæru sem á eftir að úrskurða um og þess vegna átti Árni Sigfússon að bíða þess úrskurðar en ekki að einblína á eigin pólitíska framtíð. Þess í stað kjósa álverssinnar á Suðurnesjum að ana út í óvissuna, sannfærðir um að þrýstingurinn sem þeir skapa með því nægi til að þagga niður í þeim sem átta sig á óhæfuverkinu.

Dverghamrar á SíðuÞað virðist vera einhver lenska um þessar mundir að stóriðjusinnar á landsbyggðinni segi að okkur hér í Reykjavík komi ekkert við það sem þeir eru að bralla í sínum landshlutum. Þeir geti bara gert það sem þeim sýnist og "liðið í 101" eigi ekkert með að hafa skoðanir á því, hvað þá að skipta sér af. Engu að síður fá Reykvíkingar reglulega skilaboð eins og nú síðast frá bæjarráði Fljótsdalshéraðs, þar sem þess er krafist að borgarstjórn heimili uppbyggingu á aðstöðu við Reykjavíkurflugvöll því Reykjavík sé fyrir landsmenn alla. Ég efast reyndar um að landsbyggðarfólk átti sig á álaginu sem fylgir því að hafa flugvélagný yfir höfðinu daga og nætur inni í miðri íbúðabyggð, en það er önnur saga.

Ég er alin upp við mikla ást og aðdáun á Íslandi og móðir mín þreyttist aldrei á að tala Drangaskörðum hve heppin við værum að vera Íslendingar, eiga þetta dásamlega land með hreinu lofti, tæru vatni og óviðjafnanlegri náttúru. Aldrei vottaði fyrir þeirri hugsun hjá henni að einn landshluti væri betri eða fallegri en annar, þótt sterkustu taugarnar væru til Vestfjarða þar sem hún fæddist og ólst upp. Þangað var farið á hverju ári og auk þess í a.m.k. eina eða tvær hálendisferðir á sumri með Ferðafélagi Íslands. Þessa hugsun hlaut ég í arf og er mjög þakklát fyrir. Ég hrekk í kút og mér sárnar þegar því er slengt framan í mig að mér komi ekki við þegar Austfirðingar, Vestfirðingar, Norðlendingar eða Reyknesingar ætla að leggja dásamlega náttúru Íslands í rúst til að reisa eiturspúandi verksmiðjur í fallegum fjörðum í þágu erlendrar stóriðju. Í mínum huga er Ísland okkar allra, rétt eins og Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna eins og bæjarráð Fljótsdalshéraðs bendir réttilega á. Við höfum öll ástæðu og leyfi til að hafa skoðanir á því hvað gert er við landið og náttúru þess, við eigum þar öll hagsmuna að gæta.

Sólarlag í HænuvíkMisvitrir stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina att landshlutunum hverjum gegn öðrum með  eigin hagsmuni í huga, meðal annars í krafti misvægis atkvæða í kosningum. Nýjasta dæmi um slíkt er t.d. sú ákvörðun að í kjölfar Héðinsfjarðarganga skuli byrjað á Vaðlaheiðargöngum. Með fullri virðingu fyrir Norðlendingum hefði ég heldur kosið að þeim peningum væri varið í uppbyggingu samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum og íbúum þar gert kleift að ferðast á milli norður- og suðurhluta kjálkans svo þeir geti orðið eitt atvinnusvæði. En mönnum virðist svo tamt að hugsa bara um naflann á sjálfum sér og telja hann miðju alheimsins en gleyma því að aðgerðir þeirra hafa áhrif á ótalmarga utan þeirrar miðju - oftar en ekki alla landsmenn á einn eða annan hátt.



Fjallsárlón


Svikamyllan á Suðurnesjum

Árni SigfússonÞað er hreint með ólíkindum að hlusta á málflutning Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, þessa dagana og vikurnar. Hann slær um sig með stórkarlalegum yfirlýsingum um fyrirhugað álver í Helguvík, framkvæmdaleyfi, útboð og fleira án þess að nokkur innistæða sé fyrir kokhreystinni. Það vantar bara upp á að sjá hann með skóflu í hönd að taka fyrstu stunguna með glott á vör.

Staðreyndin er nefnilega sú að lausir endar eru enn svo margir og svo gríðarlega mikilvægir, að það er fullkomið ábyrgðarleysi og sóun á skattpeningum íbúa Reykjanesbæjar og Garðs að stinga skóflu í svörð eins og staðan er.  Þótt Árni segi þeim ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir er sannleikurinn engu að síður sá, að enn sem komið er hlýtur framkvæmdin að teljast fullkomlega óraunhæf.  Stundum er sagt að hlutirnir séu "talaðir niður" en í þessu tilfelli er verið að "tala upp", þ.e. láta líta út eins og allt sé í lagi þótt álversmenn á Suðurnesjum séu með allt niðrum sig.

Lítum nánar á málið.

Í fréttum í gær kom fram að búið væri að samþykkja nauðsynlegt deiliskipulag, bæði í Garði og Reykjanesbæ, til að framkvæmdir gætu hafist við að reisa álverið í Helguvík.  Gott og vel.  En varla er nú skynsamlegt að reisa álver án þess að hafa tryggt sér tilskylda orku.  Til að Helguvíkhægt sé að reka skepnuna þarf gríðarlega mikla orku og hana þarf að flytja frá viðkomandi virkjunum. Ekki nema lítið brot af nauðsynlegri orku fæst úr virkjunum á Reykjanesi.  Af þeim 260 MW sem talin eru upp í töflu Skipulagsstofnunar um "líklegustu virkjunarkosti Hitaveitu Suðurnesja" eru líklega að minnsta kosti um 115 MW óraunhæf sökum umdeildra orkuflutninga og/eða andstöðu við markmið Suðurlinda, sem er að nýta orkuna heima í héraði.  Raunhæf orkuöflun í héraði er því í besta falli 145 MW - en til að keyra skrímslið þarf 435 MW.  Eftir er þá að afla 290 MW - sem er nákvæmlega tvöfalt það magn sem Reyknesingar geta sjálfir skenkt sér í álverið.

Álversfíklar Suðurnesja hyggjast þá leita á náðir Reykvíkinga með orkuöflun og þiggja orku frá Orkuveitu Reykjavíkur, einkum úr virkjunum sem hvorki er búið að veita leyfi fyrir né byrjað að reisa.  Þar er fyrst að nefna Bitruvirkjun sem rísa myndi á Ölkelduhálsi, skammt fyrir norðan Hellisheiði.  Gríðarleg andstaða er gegn þeirri virkjun, bæði meðal almennings, fjölmargra borgarfulltrúa í Reykjavík og þingmanna.  Ölkelduháls og umhverfi hans er náttúruperla sem væri glæpur að hrófla við.

Ásta ÞorleifsdóttirÍ því sambandi er vert að nefna, að í viðtali í 24 stundum 16. febrúar sl. sagði Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar OR: "Ég mun ekki styðja neitt sem ógnar Ölkelduhálsi og Klambragili og þessum mjög svo mikilvægu útivistar- og fræðslusvæðum."  Á forsíðu Fréttablaðsins 22. febrúar sl. sagði forstjóri OR að fyrirtækið selji ansi mikla orku til álvera og ekki sé heppilegt að hafa öll eggin í sömu körfu.  Í áformum Norðuráls er gengið út frá því, að 175 MW fáist frá OR en aðeins hefur verið samið um 100 MW.  Ef marka má orð forstjóra OR verður ekki samið um meira á þeim bænum.  

Gríðarlega umdeildir orkuflutningar í gegnum mörg sveitarfélög gera alla orku á Hengilssvæðinu að óraunhæfum valkosti fyrir álver í Helguvík.  Mörg þessara sveitarfélaga hafa þegar lýst því yfir að engar háspennulínur verði lagðar í þeirra landi.

Ég hef áður skrifað um þann reginmisskilning sem sífellt er hamrað á, að jarðgufu- eða jarðvarmavirkjanir séu hrein og mengunarlaus orkuöflun.  Nú þegar hefur brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiðarvirkjun einni farið yfir hættumörk á höfuðborgarsvæðinu.  Verði af fleiri virkjunum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði eykst sú mengun til mikilla muna.  Fram hefur komið, m.a. í Speglinum á Rás 1 þann 7. nóvember sl. að ef Bitru- og Hverahlíðarvirkjanir bætist við verði losun brennisteinsvetnis frá þessum þremur virkjunum orðin ríflega FIMMFALT meiri en öll náttúruleg losun brennisteinsvetnis frá jarðvarmasvæðum landsins.  Langtímaáhrif á heilsu fólks eru ekki þekkt svo þarna væri rennt staurblint í sjóinn og jafnvel tekin óviðunandi áhætta með líf og heilsu íbúa á suðvesturhorni landsins.

Í þessum sama Spegli, þar sem rætt er við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Frá ÖlkelduhálsiUmhverfisstofnun, kemur einnig fram að óæskilegt sé að beina ferðafólki inn á þessi svæði ef virkjanirnar verða að veruleika.  Þorsteinn segir að þessi mikla losun brennisteinsvetnis fari ekki saman við ferðamennsku með tilliti til mögulegra áhrifa á heilsufar fólks.  Og sama er sagt gilda um náttúruna og fólkið - langtímaáhrif mengunarinnar eru ekki kunn.  Þetta ættu að vera fullkomlega nægjanleg rök gegn þeirri fullyrðingu virkjana- og álversfíkla að allt sé þetta nú gert í fullri sátt við umhverfið, því hvað er umhverfi annað en náttúran og fólkið sem vill njóta hennar?

Sem sagt - Árni Sigfússon og félagar ætla samt að byrja að reisa álver og æða áfram með frekju og yfirgangi, enda þótt þeir séu langt í frá búnir að tryggja sér þá orku sem til þarf til að reka það.  Væntanlega er þeim líka slétt sama um þótt þeir stefni mögulega heilsu ríflega helmings landsmanna í hættu með brennisteinsvetnismengun og leggi ósnortnar náttúruperlur í rúst.  Í mínum huga heitir þetta glæpsamlegt athæfi óforsjálla manna, sem eins og sannir fíklar hugsa ekki um neitt nema fix dagsins í dag og skyndigróðann á kostnað bæði okkar og komandi kynslóða.

Árni Sigfússon hefur oft lýst því yfir í fjölmiðlum að álver í Helguvík sé lífsspursmál fyrir Suðurnesjamenn því það vanti svo sárlega störf eftir að herinn fór.  Þetta er bull sem mjög auðvelt er að hrekja.  Atvinnuleysi á Suðurnesjum er í lágmarki og þar, eins og á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið flutt inn erlent vinnuafl í stórum stíl því heimamenn anna ekki þeim störfum sem í boði eru.  Fram kom í frétt 4. mars sl. að samkvæmt samantekt Hagstofunnar hafi íbúum fjölgað mest á Suðurnesjum af öllum landshlutum í fyrra.  Ekki bendir það beinlínis  til að erfitt sé að fá vinnu við hæfi á svæðinu.

Bergur SigurðssonÞað er nóg annað um að vera á Suðurnesjum.  Eins og fram kom í grein eftir Berg Sigurðsson, framkvæmdastjóra Landverndar, í Morgunblaðinu 23. febrúar sl. drýpur smjör af hverju strái á Suðurnesjum.  Hann nefnir t.d. 200 störf tengd nýju hóteli við Bláa lónið, 90 störf við fyrirhugaða kísilverksmiðju, nokkur hundruð störf til að þjónusta hið nýja háskólasamfélag á flugvallarsvæðinu, 150 störf við netþjónabú auk 60-70 nýrra starfa á ári í tengslum við aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli.  Bergur telur að fjöldi þessara starfa samsvari starfsmannafjölda u.þ.b. þriggja ávera.

Árni hefur nú gert sér grein fyrir því að hjalið um skort á störfum og atvinnuleysi er ósannfærandi þvættingur.  Hann veit sem er að ekki þýðir að ljúga þessu lengur og er nýlega búinn að skipta um plötu á fóninum.  Nú heitir þetta "að skapa vel launuð störf", eins og hann sagði í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær.  Aldrei hef ég heyrt minnst á að almennt starfsfólk álvera sé hátekjufólk.  Það er að minnsta kosti ekki talið upp með skattakóngum og -drottningum landsins.  Ja... kannski forstjórarnir.  Aukið menntunarstig íslensku þjóðarinnar hefur aukinheldur leitt til þess að fæstir geta hugsað sér að eyða vinnuævinni í álveri, hvað þá að þar sé framtíð barna okkar og barnabarna.

Hverjir halda menn að starfi við að reisa álverin og virkjanirnar?  Eru það vel launuðu störfin handa Suðurnesjamönnum og öðrum Íslendingum?  Ef marka má framkvæmdir undanfarinna ára verða fluttir inn erlendir farandverkamenn í þúsundatali til að vinna við byggingarframkvæmdirnar við misjafnar undirtektir heimamanna.  Þessir verkamenn búa við  óviðunandi aðbúnað eins og margoft hefur komið fram, þar sem þeim er hrúgað saman í hesthús eða iðnaðarhúsnæði eins og sauðfé og ekki hirt um annað en að kreista út úr þeim sem mesta vinnu fyrir ómannsæmandi laun.  Þetta er ekkert annað en nútíma þrælahald sem við ættum að skammast okkar fyrir.

Ég gæti haldið endalaust áfram að tína til alls konar atriði sem hanga í lausu lofti og eruLandvernd ókláruð en VERÐA að vera í lagi áður en hafist er handa við að reisa álver í Helguvík.   Umhverfisráðherra á til dæmis eftir að úrskurða um kæru Landverndar þar sem farið er fram á heildstætt umhverfismat á áhrifum álvers í Helguvík.  Þetta þýðir einfaldlega að Landvernd fer fram á að öll framkvæmdin verði metin í einu lagi - allar tengdar framkvæmdir metnar sem ein heild - virkjanir, raflínur og álver.  Slíkt heildarmat ætti vitaskuld að vera sjálfsagt og eðlilegt, því allt hangir þetta saman og myndar órjúfanlega heild.

Norðurál hefur ekki fengið úthlutað mengunarkvóta eða losunarheimild fyrir álver í Helguvík, við eigum hann ekki aflögu.  Nóg mengum við samt og erum næstum búin með kvótann sem okkur er heimilaður.  Getur "hreina, græna Ísland" vera þekkt fyrir að menga andrúmsloftið svo gríðarlega að það þurfi að kaupa mengunarkvóta til viðbótar við þann sem við höfum?  Hvaða áhrif ætli það hefði á sívaxandi ferðaþjónustu sem dælir peningum inn í þjóðarbúið?

Annan álíka pistil mætti skrifa um efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar.  Um þann þátt berast mjög misvísandi skilaboð þar sem ljóst er að stóriðjusinnar ætla að tala yfir okkur kreppu - ef ekki verði reist nokkur álver og helst olíuhreinsistöð líka.  Sú hlið á málinu er rannsóknarefni út af fyrir sig sem ég fer ekki út í hér.

Niðurstaða:

Starfsleyfi fyrir álver í Helguvík liggur ekki fyrir.  Breytt skipulag allra þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli liggur ekki fyrir.  Leyfi þeirra til orkuflutnings og lagningar háspennulína liggur ekki fyrir.  Losunarheimild liggur ekki fyrir.  Starfa við álver er ekki þörf, hvorki við byggingu né rekstur.  Úrskurður um umhverfismat virkjana og heildarmat álversframkvæmda liggur ekki fyrir.

Frá ÖlkelduhálsiÆðibunugangur Árna Sigfússonar og Norðuráls er óskiljanlegur í ljósi þess að nánast ekkert af því sem til þarf er í höfn.  Menn eru með allt niðrum sig, næstum allt er óklárt.  Hver er þá tilgangurinn með þessu háværa gaspri?  Af hverju láta fréttamenn Árna komast upp með bullið án þess að upplýsa sannleikann um á hve miklum brauðfótum yfirlýsingagleðin stendur?  Hér er verið að blekkja almenning á svívirðilegan hátt, láta fólk halda að allt sé klárt, ekkert til fyrirstöðu, bara kýla á þetta þótt engin nauðsynleg leyfi eða heimildir séu fyrir hendi.  Svo þegar byrjað er að framkvæma verður sagt:  "Það er of seint að snúa við!"  Þá verður beitt óbærilegum þrýstingi til að fá hlutina í gegn og helst á hraða ljóssins sem gerir öðrum hagsmunaaðilum ókleift að láta rödd sína heyrast í öllum gauraganginum.  Ef orðið "stjórnsýsluofbeldi" er til á það prýðilega við hér.

Er það þetta sem kallað er "klækjastjórnmál"?  Ég veit það ekki, en hitt veit ég að það er óbærileg skítalykt af þessu máli.  Það er blekkingarleikur og svikamylla í gangi á Suðurnesjum.

 

John Cleese ávarpar Bandaríkjamenn

Dear Citizens of America,John_Cleese

In view of your failure to elect a competent President and thus to govern yourselves, we hereby give notice of the revocation of your independence, effective immediately.

Her Sovereign Majesty, Queen Elizabeth II, will resume monarchical duties over all states, commonwealths and other territories (except Kansas, which she does not fancy), as from Monday next.

Your new prime minister, Gordon Brown, will appoint a governor for America without the need for further elections. Congress and the Senate will be disbanded. A questionnaire may be circulated next year to determine whether any of you noticed.

To aid in the transition to a British Crown Dependency, the following rules are introduced with immediate effect:

1. You should look up “revocation” in the Oxford English Dictionary. Then look up “aluminium,” and check the pronunciation guide. You will be amazed at just how wrongly you have been pronouncing it.

2. The letter ‘U’ will be reinstated in words such as ‘colour’, ‘favour’ and ‘neighbour.’ Likewise, you will learn to spell ‘doughnut’ without skipping half the letters, and the suffix “ize” will be replaced by the suffix “ise.”

3. You will learn that the suffix ‘burgh’ is pronounced ‘burra’; you may elect to spell Pittsburgh as ‘Pittsberg’ if you find you simply can’t cope with correct pronunciation.

4. Generally, you will be expected to raise your vocabulary to acceptable levels (look up “vocabulary”). Using the same twenty-seven words interspersed with filler noises such as “like” and “you know” is an unacceptable and inefficient form of communication.

5. There is no such thing as “US English.” We will let Microsoft know on your behalf. The Microsoft spell-checker will be adjusted to take account of the reinstated letter ‘u’ and the elimination of “-ize.”

6. You will relearn your original national anthem, “God Save The Queen”,but only after fully carrying out Task #1 (see above).

7. July 4th will no longer be celebrated as a holiday. November 2nd willbe a new national holiday, but to be celebrated only in England. It will be called “Come-Uppance Day.”

8. You will learn to resolve personal issues without using guns, lawyers or therapists. The fact that you need so many lawyers and therapists shows that you’re not adult enough to be independent. Guns should only be handled by adults. If you’re not adult enough to sort things out without suing someone or speaking to a therapist then you’re not grown up enough to handle a gun.

9. Therefore, you will no longer be allowed to own or carry anything more dangerous than a vegetable peeler. A permit will be required if you wish to carry a vegetable peeler in public.

10. All American cars are hereby banned. They are crap and this is for your own good. When we show you German cars, you will understand what we mean.

11. All intersections will be replaced with roundabouts, and you will start driving on the left with immediate effect. At the same time, you will go metric immediately and without the benefit of conversion tables… Both roundabouts and metrification will help you understand the British sense of humour.

12. The Former USA will adopt UK prices on petrol (which you have been calling “gasoline”) - roughly $8/US per gallon. Get used to it.

13. You will learn to make real chips. Those things you call french fries are not real chips, and those things you insist on calling potato chips are properly called “crisps.” Real chips are thick cut, fried in animal fat, and dressed not with catsup but with malt vinegar.

14. Waiters and waitresses will be trained to be more aggressive with customers.

15. The cold tasteless stuff you insist on calling beer is not actually beer at all. Henceforth, only proper British Bitter will be referred to as “beer,” and European brews of known and accepted provenance will be referred to as “Lager.” American brands will be referred to as “Near-Frozen Gnat’s Urine,” so that all can be sold without risk of further confusion.

16. Hollywood will be required occasionally to cast English actors as good guys. Hollywood will also be required to cast English actors as English characters. Watching Andie MacDowell attempt English dialogue in “Four Weddings and a Funeral” was an experience akin to having one’s ear removed with a cheese grater.

17. You will cease playing American “football.” There is only one kind of proper football; you call it “soccer”. Those of you brave enough, in time, will be allowed to play rugby (which has some similarities to American “football”, but does not involve stopping for a rest every twenty seconds or wearing full kevlar body armour like a bunch of Jessies - English slang for “Big Girls Blouse”).

18. Further, you will stop playing baseball. It is not reasonable to host an event called the “World Series” for a game which is not played outside of America. Since only 2.1% of you are aware that there is a world beyond your borders, your error is understandable and forgiven.

19. You must tell us who killed JFK. It’s been driving us mad.

20. An internal revenue agent (i.e. tax collector) from Her Majesty’s Government will be with you shortly to ensure the acquisition of all monies due, backdated to 1776.

Thank you for your co-operation.

John Cleese


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband