Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Dave Allen og Júróvisjón

Ég dáði Dave Allen forðum, fannst hann fyndnasti maður í heimi. Svei mér ef mér finnst það ekki ennþá! Ég fletti honum upp áðan. Ætlaði að athuga hvort hann hefði fjallað á sinn einstaka hátt um Júróvisjón en um leið og ég byrjaði að spila myndböndin varð það algjört aukaatriði. Maðurinn var einfaldlega snillingur og með fyndnari mönnum... enda Íri og hét réttu nafni David Tynan O'Mahoney. Maður saknar hans og skopskynsins við að horfa á þessi myndbönd. Dave Allen lést fyrir þremur árum, 2005.

 

Þetta myndband er tileinkað Jennýju, Hallgerði og okkur hinum sem syndgum enn.

Þetta er fyrir alka í afneitun.

Fyrir trúarnöttana og Jón Steinar.

Um tiktúrur enskrar tungu.

Að kenna börnum á klukku.

Dave Allen byrjar í skóla.

 

En ekki er hægt að hætta nema drepa á upphaflega fyrirætlun - að fjalla á einhvern hátt um mál málanna í gær - Júróvisjón. Ekki eru allar þjóðir og þulir jafnhrifnir af Júró og við Íslendingar. Ég hef oft heyrt talað um hvernig þulurinn hjá BBC dregur keppnina, keppendurna og lögin sundur og saman í háði. Maðurinn sá heitir Terry Wogan og mun vera írskur að uppruna eins og Dave Allen. Hann stjórnar líka forkeppninni í Englandi.

Hér er Terry Wogan hjá snillingnum Parkinson þegar keppnin var fram undan í Eistlandi - hvenær sem það var - og hann gerir m.a. grín að hjónabandinu... og auðvitað Júróvisjón. Hann er alveg með á hreinu muninn á viðhorfi Breta til keppninnar annars vegar og þjóða á meginlandi Evrópu hins vegar. En hann minnist ekki á Íslendinga - enda tilheyra þeir hvorki Bretlandi né meginlandi Evrópu... hvar ætli hann flokki okkur?


Heiminum er einmitt stjórnað af allsgáðum mönnum í jakkafötum...

Í síðustu færslu sýndi ég brot úr Mannamáli Sigmundar Ernis þar sem Einar Kárason las okkur pistilinn. Til að gera ekki upp á milli þeirra nafna og aðdáenda þeirra ætla ég að sýna hér einn af pistlum Einars Más Guðmundssonar þar sem hann fjallar meðal annars um hinn íslenska stjórnmálaflokk, Fatahreyfinguna.

Flestum er sjálfsagt enn í fersku minni uppákoman í borgarstjórn Reykjavíkur þann 21. janúar sl. þegar valdabröltið á þeim bæ náði hæstu hæðum. Síðan þá hafa svipaðir atburðir gerst í tveimur sveitarfélögum, í Bolungarvík og á Akranesi.

Þar sem Einar Már flytur pistil sinn helgina eftir yfirtöku nýs meirihluta í Reykjavík fjallar hann vitaskuld um þá uppákomu. En pistillinn er miklu yfirgripsmeiri en svo, að hann einskorðist við einn atburð. Hvort hann er sígildur verður sagan að dæma.

Blaðakonurnar Agnes Bragadóttir og Björg Eva Erlendsdóttir voru næstar á eftir Einari Má. Agnes dæsti og sagði: "Ég er eiginlega bara orðlaus eftir að hlýða á hann Einar Má. Mér fannst hann algjör snillingur, bara frábær! Ég hef engu við þetta að bæta. Hann er bara búinn að analýsera þetta og það þarf ekkert frekar að segja."

En lokaorð Einars Más finnst mér að ættu að vera fleyg - takið sérstaklega eftir þeim.

 


Lögbrot ráðamanna

Mannamálið hans Sigmundar Ernis á Stöð 2 á sunnudagskvöldum er alveg sérdeilis góður þáttur. Hæfilega langur með mjög þægilegri blöndu af efni. Hinir og þessir gestir koma til Simma og "fastir liðir eins og venjulega" eru gyðjumlíku gáfudísirnar Katrín Jakobsdóttir og Gerður Kristný.

Ekki spillir svo fyrir að Einararnir tveir, rithöfundarnir Kárason og Már Guðmundsson flytja pistla til skiptis. Oftar en ekki fá þeir mann til að sperra eyrun og hugsa... íhuga mál frá öðru sjónarhorni en hingað til. Þeir hrista stundum upp í heilasellunum svo um munar og ýta hressilega við manni eins og Simmi reyndar líka.

Síðasta sunnudagskvöld var Kárason á ferðinni og eftir að hafa hlustað á hann spurði ég sjálfa mig í hálfum hljóðum: "Hvenær breytist þetta? Hvað þarf til? Ætlar þjóðin aldrei að vakna af Þyrnirósarsvefninum?" Það varð fátt um svör og mér varð hugsað til pistils Illuga Jökulssonar frá 2002 og ég birti hér.

Ráðamenn þjóðarinnar verða hvað eftir annað uppvísir að spillingu og lögbrotum en þurfa aldrei að svara fyrir það á meðan almenningur er dæmdur mishart fyrir smávægilegustu yfirsjónir. Hlustið á hann Einar Kárason. Alveg burtséð frá hvaða mál hann er að tala um - þetta er alltaf að gerast. Er það bara ég - eða finnst fólki þetta virkilega í lagi?

 


Áfangasigur og áskorun !!!

Skipulagsstofnun var að birta álit sitt á mati á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar og leggst afdráttarlaust og eindregið gegn byggingu hennar. Þetta eru kærkomin tíðindi - gríðarlega mikilvægur áfangasigur í baráttunni fyrir náttúruperlunni á Ölkelduhálsi og raunar öllu Hengilssvæðinu.

Frá ÖlkelduhálsiÞetta ferli er búið að standa lengi yfir. Hengilssíðan var sett upp í lok október sl. og fólk hvatt til að senda inn athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum. Sett var Íslandsmet - aldrei áður höfðu borist eins margar athugasemdir við neinni framkvæmd í Íslandssögunni - en athugasemdirnar voru hátt í 700. Skipulagsstofnun flokkaði og taldi þær en sendi síðan til Orkuveitu Reykjavíkur, framkvæmdaraðilans. Upp úr miðjum mars sl. sendi OR síðan lokamatsskýrslu sína til Skipulagsstofnunar sem var að kveða upp álit sitt fyrir stundu.

Skjalið, þar sem Skipulagsstofnun færir rök fyrir áliti sínu er langt, 43 síður. Ég festi það við þessa færslu ásamt matsskýrslunni og umsögnum og athugasemdum sem bárust. Þessi skjöl er einnig hægt að nálgast á heimasíðu Skipulagsstofnunar - hér. Ég ætla aðeins að hafa hér eftir kaflann "Helstu niðurstöður" úr álitinu. Hann hljóðar svo (leturbreytingar mínar):

"Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa Frá Ölkelduhálsiá landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis.

Skipulagsstofnun telur ljóst að upplifun ferðamanna innan áhrifasvæðis Bitruvirkjunar myndi gerbreytast þegar horft er til umfangs fyrirhugaðra framkvæmda og þeirra ásýndarbreytinga sem þær hefðu í för með sér. Stofnunin telur að í ljósi þess yrði ferðaþjónusta og útivist eins og hún er stunduð í dag samkvæmt framlögðum gögnum ekki lengur möguleg innan áhrifasvæðis virkjunarinnar. Stofnunin telur að ráða megi bæði af umfjöllun í matsskýrslu sem og í umsögnum og athugasemdum að um verði að ræða mikil neikvæð, óafturkræf og varanleg áhrif á ferðaþjónustu og almenna útivist vegna breyttrar ásýndar svæðisins og verulegs ónæðis af völdum hávaða bæði á framkvæmda- og rekstrartíma.

Stofnunin telur að ekki sé gerlegt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á framangreinda umhverfisþætti með mótvægisaðgerðum þannig að hún teljist ásættanleg.

Frá ÖlkelduhálsiÞá telur stofnunin ljóst að ef litið er til samlegðaráhrifa Bitruvirkjunar með núverandi virkjunum, háspennulínum og fyrirhugaðri virkjun við Hverahlíð á Hengilssvæðið í heild sinni, nái þessi áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu til enn umfangsmeira svæðis og áhrifin verði að sama skapi umtalsvert meiri og neikvæðari. Skipulagsstofnun telur ljóst að með auknu raski á Hengilssvæðinu fari verndargildi lítt snortinna svæða þar vaxandi.

Varðandi áhrif Bitruvirkjunar á aðra umhverfisþætti þá liggur fyrir að mikil óvissa er um áhrif á jarðhitaauðlindina, áhrif á lofgæði ráðast alfarið af virkni hreinsibúnaðar fyrir brennisteinsvetni sem fyrirhugað er að koma upp og áhrif á grunnvatn ráðast af því að skiljuvatni verði veitt um fóðraðar niðurrennslisholur niður fyrir grunnvatnsborð.

Óvissa er um breytingar á yfirborðsvirkni á áhrifasvæði virkjunar á Bitru. Skipulagsstofnun telur að komi til aukinnar virkni geti það leitt til neikvæðra áhrifa á jarðmyndanir, örverulíf hvera, gróður og smádýralíf.

Reykjavík, 19. maí 2008"

Svei mér ef þetta er ekki næstum eins og afritað upp úr pistlunum mínum á þessu bloggi. Mikið svakalega erum við innilega sammála, Skipulagsstofnun og ég! Og álit þeirra er ekki á neinni tæpitungu - þar er fast að orði kveðið, það er ákveðið og afdráttarlaust.

En baráttunni er engan veginn lokið, athugið það. Í mínum huga hljóta næstu skref að vera þau, að Orkuveita Reykjavíkur hætti alfarið við að reisa Bitruvirkjun og að Sveitarfélagið Ölfus dragi breytingu á aðalskipulagi - þar sem breyta á Bitru/Ölkelduhálssvæðinu í iðnaðarhverfi - til baka. Síðan kæmi til kasta þar til bærra aðila að friðlýsa svæðið.

Það er ástæða til að óska Skipulagsstofnun og þjóðinni allri til hamingju. Það er líka ástæða til að þakka öllum þeim tæplega 700 sem sendu inn athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum í haust. Við getum haft áhrif ef við tökum höndum saman og notum samtakamáttinn.

Takið þátt í áskorun á Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus með því að setja inn athugasemd við þessa færslu! 

"Við skorum á Orkuveitu Reykjavíkur að hætta við að reisa Bitruvirkjun og Sveitarfélagið Ölfus að hætta við að breyta svæðinu í iðnaðarsvæði!"

Fréttir Ríkissjónvarpsins í kvöld


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Láttu ekki vín breyta þér í svín!

Við erum fljót að gagnrýna það sem okkur finnst aðfinnsluvert, en ekki eins fljót að hrósa því sem vel er gert - jafnvel því sem snertir okkur djúpt. Meðvituð hugarfarsbreyting getur breytt þessu - öllum er nauðsynlegt að fá klapp á bakið og hrós fyrir vel unnin störf, góðar hugmyndir og árangur í leik eða starfi. Hrósum oftar því sem vel er gert.

Ég held að ansi margir hafi í gegnum tíðina bölvað ÁTVR - eða Vínbúðinni - fyrir ýmislegt sem þeim finnst að betur mætti fara á þeim bæ. Sjálfsagt hef ég gert það líka, en nú ætla ég að hrósa þeim og það í hástert.

Vínbúðin hefur látið gera sjónvarpsauglýsingu sem snertir örugglega ýmsar taugar og fær fólk til að hugsa sig tvisvar um - ef ekki oftar. Þessi auglýsing er frábært framtak opinbers fyrirtækis og löngu tímabær. Við hér á þessu heimili eigum örlítinn, ósýnilegan þátt í henni og erum stolt af því.

Hér er auglýsingin - hugsið ykkur tvisvar um áður en þið látið vín breyta ykkur í svín.
 


 

Tónlistin í auglýsingunni er lagið Mad World eftir Gary Jules og hér flutt af honum.

All around me are familiar faces
Worn out places, worn out faces
Bright and early for their daily races
Going nowhere, going nowhere
Their tears are filling up their glasses
No expression, no expression
Hide my head I want to drown my sorrow
No tomorrow, no tomorrow

And I find it kinda funny
I find it kinda sad
The dreams in which I'm dying
Are the best I've ever had
I find it hard to tell you
I find it hard to take
When people run in circles
It's a very, very… mad world… mad world

Children waiting for the day they feel good
Happy Birthday, Happy Birthday
Made to feel the way that every child should
Sit and listen, sit and listen
Went to school and I was very nervous
No one knew me, no one knew me
Hello teacher tell me what's my lesson
Look right through me, look right through me

And I find it kinda funny
I find it kinda sad
The dreams in which I'm dying
Are the best I've ever had
I find it hard to tell you
I find it hard to take
When people run in circles
It's a very, very… mad world... mad world...
Enlarge your world
Mad world


Gestaþraut Dofra

"Væri þá ekki sorglegt að hafa eyðilagt þá verðmætu auðlind sem er á yfirborði jarðhitageymisins? Ölkelduháls og nágrenni, eitt helsta og verðmætasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins? Höfum við ekki efni á að vera þolinmóð og bíða eftir að við rötum á réttu lausnina?"

Þannig hljóðar niðurlag nýjasta pistils Dofra Hermannssonar sem þar fjallar um Bitru/Ölkelduhálsmálið: Flýtinn og asann við framkvæmdirnar, þá óskiljanlegu stefnu að beita rányrkju og þurrausa orkuauðlindina að óþörfu án minnsta tillits til tækniframfara og framtíðarinnar.

Lesið pistil Dofra, hann er hér.


Er þetta spurning um siðferði þegar upp er staðið?

Money makes the world go around...Það er með ólíkindum hvað viss öfl í þjóðfélaginu eru óskynsöm, fyrirhyggjulaus og svífast einskis til að fá sínu framgengt, hvað sem það kostar og hvaða afleiðingar sem það hefur fyrir núlifandi kynslóðir og þær sem á eftir koma - okkur og afkomendur okkar. Engu er eirt, siðferði er hunsað, sveigt fram hjá lögum og reglum með milljarðahagnaðinn að leiðarljósi. Þetta framferði hefur tíðkast lengi í íslensku þjóðfélagi. Fjármagn er vald og vald er fjármagn - eða eins og ég heyrði lítinn gutta segja í leik fyrir nokkrum árum: "Sá sem er ríkastur ræður auðvitað."

Sumir stjórnmálamenn spila með, hagræða og veita nauðsynlega fyrirgreiðslu til að allt gangi nú eins og smurt og sá sem raunverulega valdið hefur fái það sem hann vill og geti hagnast enn meira - því mikið vill alltaf meira. Það virðist vera lögmál. En greiðar eru ekki ókeypis og oft hef ég spáð í hvað hinn greiðasami stjórnmálamaður fái í sinn hlut - eitthvað fær hann, það er ég handviss um. Spilling og mútur? Aldeilis ekki! Það er engin spilling á Íslandi, er það?Kjartan Magnússon

Ég hef alltaf furðað mig á því af hverju Sjálfstæðismenn voru tilbúnir til að leggjast svo lágt sem raun bar vitni til að ná völdum aftur í borginni. Það var eitthvað á bak við þetta, eitthvað stórt sem enn hefur ekki komið fram í dagsljósið. Það er ég sannfærð um. Ég held að möguleg loforð gefin verktaka- og lóðabröskurum eða öðrum hafi ekki ráðið úrslitum. Ég held að það hafi verið Orkuveita Reykjavíkur. Tekið skal fram að ég hef ekkert fyrir mér í því annað en grun... tilfinningu sem ég losna ekki við. Engin skjöl, enga pappíra, engin orð hvísluð í eyra - ekkert. En það fyrsta sem nýr meirihluti gerði var að skipa Kjartan Magnússon formann Orkuveitu Reykjavíkur. Áður en skipað var í nokkrar nefndir var formennskan í OR á hreinu! Og samkvæmt fréttum var Kjartan Magnússon einn aðalhvatamaður valdayfirtökunnar. Hvað lá svona á að komast til valda... ekki í borginni endilega, heldur í Orkuveitu Reykjavíkur? Getur einhver upplýst mig um það?

SpegillinnÉg hlustaði á Spegilinn í gærkvöldi. Hef mikið dálæti á þeim þætti og reyni að missa ekki af honum. Spegillinn er einn af albestu fréttatengdu þáttunum í íslensku útvarpi og vinnubrögð umsjónarmanna vönduð, sama hvað fjallað er um og þeir kalla gjarnan sérfræðinga til skrafs. Fastir umsjónarmenn spegilsins eru fréttamennirnir Friðrik Páll Jónsson, Gunnar Gunnarsson og Jón Guðni Kristjánsson. Mér heyrðist það vera Jón Guðni sem ræddi í gærkvöldi við Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands um nýtingu jarðhita. Í inngangi viðtalsins sagði Jón Guðni:

"Við fjöllum að lokum um hvernig eigi að nýta jarðvarma - með hámarkshagnað í huga til skemmri tíma litið eða með það í huga að jarðvarminn nýtist komandi kynslóðum eins og okkur. Og hvað vitum við um nýtingarþol auðlindarinnar?"

Þarna er strax komið inn á einn stærsta þáttinn sem keyrir virkjanamálin áfram - græðgina og gróðasjónarmiðin. Hámarkshagnað á eins skömmum tíma og mögulegt er, sama hvað er í húfi og hvaða afleiðingar það hefur. Á vefsíðu Spegilsins stendur þetta um málið:

"Áætlanir um raforkuframleiðslu frá jarðvarmavirkjunum byggjast á Stefán Arnórsson, prófessortakmörkuðum rannsóknum, hugmyndir um að nýta jarðhitasvæði í ákveðinn árafjölda og hvíla þau svo meðan þau jafna sig byggjast á ágiskunum en ekki þekkingu eða reynslu. Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði, telur affarasælast að virkja jarðhitann í smáum skrefum fremur en stórum, ef ætlunin er að varðveita auðlindina, komandi kynslóðum til afnota."

Ég hef gagnrýnt lögin um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmdaraðilinn - í þessu tilfelli Orkuveita Reykjavíkur - sér um matið, fær til liðs við sig ráðgjafafyrirtæki sem getur haft beina hagsmuni af því að virkjunin verði reist og síðan sjá sömu aðilar um að meta athugasemdirnar, þ.e. dæma í eigin máli. Hvorugur aðilinn getur með nokkru móti verið hlutlaus. Ég vil að hlutlausir aðilar sjái um matið á umhverfisáhrifum framkvæmda, t.d. menn eins og Stefán og fleiri sem eiga engra hagsmuna að gæta og geta nálgast viðfangsefnið af þeirri hlutlægni og vísindalegu þekkingu sem nauðsynleg er.

Stefán segir "...að tvö sjónarmið séu ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Full sjálfbærni þýðir að nýting hefur engin umhverfisáhrif og þannig er ekki hægt að nýta auðlindir í jörðu. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum, heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi."

Ég lýsi eftir siðferði stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur, sveitarstjórnar Ölfuss, borgarfulltrúa í Reykjavík, þingmanna, ráðherra í íslensku ríkisstjórninni og almennings á Íslandi.

Annaðhvort vita menn hjá Orkuveitunni þetta ekki eða þeir loka augunum fyrir því. Kannski er þeim uppálagt að gera það. Í virkjununum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði er fyrirhuguð hámarksnýting og áætlað er að unnt sé að nýta jarðhitann þar í ja... segjum 30 til 40 ár. Síðan er sagt að það þurfi að hvíla svæðið á meðan það nær upp jarBorholur á Skarðsmýrarfjalliðhita að nýju - kannski í önnur 30-40 ár? Það er einfaldlega ekki vitað, en það á SAMT að gera það. Þeir viðurkenna að nýtingin sé ágeng en ætla SAMT að virkja. Í frummatsskýrslu OR og VSÓ um umhverfisáhrif af Bitruvirkjun segir: "Framkvæmdaraðili skilgreinir fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Bitru sem ágenga vinnslu en að vinnslustefnan sé engu að síður sjálfbær." (kafli 19.7, bls. 67). Ágeng en engu að síður sjálfbær? Hvernig kemur það heim og saman við það sem Stefán Arnórsson segir í viðtalinu? Endurnýjanleg orka???

Stefán segir að best sé að virkja í smáum skrefum en auðvitað séu það þarfir þeirra sem nýta orkuna sem á endanum ráða virkjanahraðanum. Þar komum við að spurningunni um þörfina. Til hvers þarf að virkja svona mikið? Fyrir hvað og hvern? Álver sem nú til dags eru nánast hvergi reist nema í fátækum þriðja heims ríkjum? Hverja vantar störf í þjóðfélagi sem þarf að flytja inn erlent vinnuafl í tugþúsundatali? Ég er svo treg að ég skil þetta ekki. Getur verið að áherslan sem lögð er á að virkja sem mest og sem hraðast og ganga eins mikið á auðlindina og hægt er sem fyrst tengist á einhvern hátt þeim þrýstingi sem var á Sjálfstæðisflokkinn að ná völdum aftur í Reykjavík og þar með yfir Orkuveitunni? Spyr sú sem ekki veit.

Undir lok viðtalsins kom Stefán inn á mengunina af jarðhitavirkjunum. Borholur á SkarðsmýrarfjalliHann segir að efnamengun frá virkjunum og umhverfisáhrif þeirra yfirleitt hafi verið mjög vanmetin. Þar sé mest áhersla lögð á að draga úr sjónmengun og jarðraski virkjana á háhitasvæðum en að áhrifin séu engu að síður miklu, miklu víðtækari. Efnamenguninn sé í raun alvarlegust og erfiðust til langs tíma litið - bæði lofttegundir sem eru í jarðgufunni og fara út í andrúmsloftið og eins ýmis efni í vatninu sem geta blandast yfirborðsvatni eða skemmt grunnvatn. Þetta er fyrir utan hljóðmengun og margt, margt fleira. Hrein orka???

Í þessu sambandi minni ég á Hveragerðispistlana mína tvo frá í apríl, þennan og þennan. Þeir fjalla um brennisteinsvetnismengunina frá jarðhitavirkjununum sem verður gríðarleg og hefur áhrif á alla íbúa suðvesturhornsins, mest þó á Hvergerðinga. Ég minni líka á Spegilsviðtölin í tónspilaranum ofarlega til vinstri á þessari síðu - við Þorstein Jóhannssson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í öndunar- og umhverfissjúkdómum. Viljum við virkilega að þetta gerist við bæjardyrnar hjá okkur sem búum á suðvesturhorni landsins? (Við erum 2/3 landsmanna, gleymið því ekki. Það eru mörg atkvæði á landsvísu þegar þar að kemur.) Hvað knýr þessa menn áfram við að framkvæma í slíkri blindni? Er eftirsóknin eftir auði og völdum svo siðblind að öllu og öllum - ef ég væri nógu dramatísk segði ég landi og þjóð - sé fórnandi fyrir skyndigróða?

Ýmislegt fleira merkilegt kemur fram í viðtalinu við Stefán. Ég setti það í tónspilarann - það er næstefsta viðtalið - og hvet alla til að hlusta vandlega á það. Þarna talar maður með þekkingu og reynslu sem á engra hagsmuna að gæta.

Annars hef ég verið að lesa lög í dag. Það er leiðinlegasta og tyrfnasta lesning sem hugsast getur - en stundum þarf að gera fleira en gott þykir sagði mamma mín alltaf...  Wink


Athugasemdir og mótmæli

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóriÞað er gott að hafa góðan málstað að verja og með ólíkindum hve mikinn stuðning við, sem höfum barist gegn virkjunaráformum við Ölkelduháls, höfum fengið. Fólk gerir sér almennt mjög vel grein fyrir hvað er í húfi, ekki síst þegar það áttar sig á málavöxtum - sem eru æði skuggalegir í þessu máli öllu. Eða eins og Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hvergerðinga segir í öðrum fréttatímanum hér að neðan: "Það er mjög mikil alda reiði gagnvart þessum virkjunaráformum þarna upp frá." Þetta er einmitt sama undiraldan og við höfum fundið í ótal samtölum, símtölum og tölvupóstum. Andstaðan við Bitruvirkjun er gríðarleg og ástæður hennar fjölmargar. En verður hlustað eða virkjunin keyrð í gegn, þvert á alla skynsemi, mótrök, athugasemdir og mótmæli?

Ég skrapp til Þorlákshafnar í dag til að hitta Björn Pálsson og Petru Mazetti í því skyni að afhenda Sigurði Jónssyni, skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss þau athugasemdabréf og mótmæli sem við vorum með. Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri, var ekki við og eins og fram kemur í frétt Magnúsar Hlyns á RÚV: "Birna Borg Sigurgeirsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ölfuss, vildi ekki tjá sig um ályktun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar frá því í morgun þegar leitað var eftir því og ekki heldur um mótmælalistana. Sagði þá fara sína eðlilegu leið innan stjórnsýslunnar hjá sveitarfélaginu." Af hverju þessi þögn hjá Birnu? Getur þetta flokkast undir valdhroka? Hefur hún vondan málstað að verja? Hvað óttast hún?

Athugasemdirnar sem afhentar voru í dag voru mjög margar og enn eru ótaldar athugasemdir sem sendar hafa verið í pósti. Það verður væntanlega dágóður slatti. En þær tölur sem ég skrifaði hjá mér í dag eru þessar:

Afhent voru 620 athugasemdabréf með nöfnum 773 einstaklinga.
Þar af voru 523 búsettir í Hveragerði og 123 í dreifbýli Ölfuss.
Auk þess var tilkynnt um mótmælabréf í ábyrgðarpósti með undirskriftum 176 Hvergerðinga í viðbót.

Þetta eru alls 949 manns og eins og áður segir eru alveg ótaldar athugasemdir einstaklinga, samtaka og annarra sem sendar voru í pósti.

Íbúafjöldi Sveitarfélagsins Ölfuss 1. desember sl. var 1.930 (Hagstofan).
Greidd atkvæði í Sveitarfélaginu Ölfusi við síðustu sveitarstjórnarkosningar voru 1.029. Þar af eru atkvæðin á bak við meirihlutann 495.

Bara pæling...

Fréttin sem tengt er í hér neðst fjallar um athugasemdi Landverndar og á síðunni hjá mbl.is er hægt að opna .pdf skjal og lesa athugasemdina.

Sjónvarpsfréttir kvöldsins


Björn Pálsson og Petra Mazetti færðu Sigurði veggspjald...

Sigurði fært veggspjald


...sem hann hengdi auðvitað samstundis upp.

Veggspjald hengt upp


mbl.is Telur sveitarstjórn Ölfus vanhæfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðustu forvöð - nú er að drífa sig!

Auðvitað mótmæltu Hvergerðingar, nema hvað? Lífsgæði þeirra verða stórlega skert verði af Bitruvirkjun - sem og annarra íbúa suðvesturhorns landsins. Það er ekki of seint að senda inn athugasemd. Póstafgreiðslustaðir eru flestir opnir til klukkan 18. Nú er að drífa þetta af.

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, segist vera náttúruverndarsinni og var í framboði hjá Íslandshreyfingunni fyrir síðustu alþingiskosningar. Hann skipaði Ástu Þorleifsdóttur varaformann Orkuveitu Reykjavíkur og ég ætla aftur að vitna í orð Ástu í viðtali í 24stundum 16. febrúar sl. en þar sagði Ásta: "Ég mun ekki styðja neitt sem ógnar Ölkelduhálsi og Klambragili og þessum mjög svo mikilvægu útivistar- og fræðslusvæðum." Ég skora á Ástu Þorleifsdóttur að standa við stóru orðin og koma í veg fyrir að Bitruvirkjun verði að veruleika.

Hér fyrir neðan er athugasemdabréfið sem ég og fleiri sendum. Öllum er heimilt að afrita það og senda í sínu nafni. Letur og leturstærð er eitthvað að stríða mér - fólk lagar það bara hjá sér.

Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn

12. maí  2008

Efni:
Athugasemd við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 –
atriði nr. 1 í auglýsingu er varðar Bitru - byggingu allt að 135 MW jarðvarmavirkjunar.

Ég mótmæli breytingu aðalskipulags sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 – atriði nr. 1 í auglýsingu: "285 ha opnu, óbyggðu svæði á Bitru/Ölkelduhálsi sem að hluta er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar, er breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun." Athugasemdir mínar eru eftirfarandi:

1.     
Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa Ölfuss og Hveragerðis. Svæðið býður upp á einstaka náttúrufegurð sem er sjaldgæf á heimsvísu. Enn sjaldgæfara er að finna þessa fjölbreytni bæði hvað varðar náttúru og jarðfræðimyndanir eins nálægt íbúabyggð og hér.  Svæðið er aðgengilegt fyrir alla hvort sem er fyrir börn eða fólk með skerta gönguhæfni.

2.     
Á svæðinu í kringum Bitru og Ölkelduháls er í dag hægt að ganga um í friði og ró og njóta öræfakyrrðar í nánast ósnortnu landslagi. Þetta er ekki síður mikilvægt í samfélagi þar sem umferð er að aukast, byggð að þéttast og hraði og álag að aukast.

3.     
Ég tel það vera okkar ábyrgð að varðveita slíkar náttúrperlur fyrir komandi kynslóðir og legg til að í staðinn fyrir að breyta þessu stórkostlega útivistarsvæði í iðnaðarsvæði þá verði breytingin fólgin í því að friðlýsa svæðið.

4.     
Þrátt fyrir áætlanir um að fyrirhuguð virkjunarmannvirki eigi að falla vel inn í landslagið tel ég engan virkjunarkost á umræddu svæði ásættanlegan þar sem mannvirkjagerð á svæðinu myndi óhjákvæmilega gjörspilla þeirri náttúruperlu sem hér um ræðir.

5.     
Mengun af fyrirhugaðri virkjun yrði algjörlega óviðunandi. Þar er átt við sjónmengun, hljóðmengun og lyktarmengun, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess verður brennisteinsvetnismengun óviðunandi og jafnvel hættuleg þar sem ljóst er að þótt takist að hreinsa útblásturinn verður ekkert hreinsað á framkvæmdatíma og heldur ekki úr borholum í blæstri sem alltaf verða einhverjar í gangi.

6.   Ljóst er að aðrir virkjunarkostir eru fyrir hendi – nefna má svæði eins og Hverahlið, Gráhnúka, Eldborg og Litla-Meitil þar sem rannsóknarboranir eru þegar hafnar.

7.      Ég geri alvarlega athugasemd við auglýsingu Sveitarfélagsins Ölfuss á breytingu á aðalskipulagi þar sem ekki var farið að lögum, þ.e. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997 þar sem stendur: "Tekið skal fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni."
Hvorugt þessara atriða kom fram í auglýsingunni og hlýtur hún því að teljast ólögleg. Ég geri þá kröfu að breytingin verði auglýst aftur með því skilyrði að þegar fram komnar athugasemdir verði engu að síður teknar gildar.

8.      Einnig geri ég athugasemd við þá kröfu Sveitarfélagsins Ölfuss að ekki sé heimilt að senda athugasemdir í tölvupósti.
Í raun er tölvupóstur öruggari en hefðbundinn póstur. Ef vilji minn stæði til þess að semja 40 athugasemdir, prenta þær út, falsa undirskriftir og senda í hefðbundnum pósti væri það hægur vandi og engin leið fyrir móttakanda að rekja póstinn.
Tölvupósti fylgja aftur á móti IP tölur og auðvelt að rekja hvort verið væri að senda 40 athugasemdir frá sömu IP tölunni. Að þessu leyti er tölvupóstur mun öruggari en hefðbundinn póstur. 

9.      Ekki eru gerðar formkröfur um sendingu athugasemda í lögum og t.d. Skipulagsstofnun, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög leyfa athugasemdir við sams konar mál í tölvupósti. Það er því rökrétt að álykta sem svo að með því að heimila ekki tölvupóst sé Sveitarfélagið Ölfus vísvitandi
að gera almenningi erfitt fyrir og það eitt og sér stríðir gegn anda Skipulags- og byggingarlaga og sjálfsagt fleiri laga, s.s. um mat á umhverfisáhrifum og tilskipun Evrópusambandsins (2001/42/EB) um áhrif og aðkomu almennings, aðgengi hans að ákvörðunum yfirvalda um umhverfið og tjáningarfrelsi.
 
Annað sem vert er að íhuga í sambandi við hefðbundinn póst.  Á höfuðborgarsvæðinu búa 195.970 manns (Hagstofan - tölur frá 1. desember 2007). Samkvæmt heimasíðu Íslandspósts eru aðeins 11 pósthús sem þeim þjóna. Þar af eru íbúar Reykjavíkur 117.721 (Hagstofan - tölur frá 1. desember 2007) og aðeins 6 póstafgreiðslustaðir þjóna þeim. Póstkössum hefur einnig verið fækkað töluvert á höfuðborgarsvæðinu, svo og pósthúsum á landsbyggðinni. Það er því ljóst að fjölmargir þurfa að fara mjög langar leiðir til að finna póstafgreiðslustaði og vitaskuld er þessi fækkun póstafgreiðslustaða afleiðing af tölvupóstvæðingunni sem hefur að miklu leyti komið í stað hefðbundins pósts.

Ég geri kröfu til þess, að um leið og breyting á aðalskipulagi verður auglýst aftur skv. 7. lið verði heimilað að senda athugasemdir í tölupósti með því skilyrði
að þegar fram komnar athugasemdir verði engu að síður teknar gildar.

10.    Að lokum er rétt að koma á framfæri miklum efasemdum um hæfi sveitarstjórnar til að fjalla frekar um málið. Sveitarfélagið hefur með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur skuldbundið sig til þess að skipuleggja svæðið „til samræmis við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru“ svo vitnað sé til bókunar bæjarstjórnar 28. apríl 2006. Þær fyrirhuguðu framkvæmdir sem vitnað er til í bókun sveitarstjórnar, og samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, eru m.a. þær sem tilgreindar eru í auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi.

Sveitarstjórn virðist því hafa, með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, og bókun sinni þann 28. apríl 2006, afsalað sér fullveldi til ákvörðunar í þessu skipulagsmáli.  Ég krefst þess að sveitarstjórn Ölfuss lýsi yfir vanhæfi sveitarstjórnarinnar í heild sinni að lokinni eftirgrennslan um hverjir hafi þegið hluta af því fé sem Orkuveita Reykjavíkur hefur greitt sveitarfélaginu nú þegar - og til vara þeirra fulltrúa sem einnig sáu í sveitarstjórn þegar samkomulagið var undirritað.

Virðingarfyllst,

Nafn, kennitala og heimilisfang

 


mbl.is Hveragerði mótmælir áformum um Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innlegg í umræðuna - fréttir Stöðvar 2 í kvöld


Þetta er myndpistill - án orða til tilbreytingar.

 

 

Frestur til að skila inn athugasemdum við breytingu á aðalskipulagi
Sveitarfélagsins Ölfuss rennur út á morgun, þriðjudaginn 13. maí.
Ennþá er því unnt að leggja sitt af mörkum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband