Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Miðborgarrölt í hitasvækju

Ég fattaði fyrir löngu af hverju ég valdi að fæðast á Íslandi... ja, sumir segja að maður velji sér foreldra og fæðingarstað, hvað svo sem til er í því. Ástæðan hlýtur að vera sú að ég þoli ekki hita. Um leið og hitastigið er komið yfir 20 gráður verður mér ómótt, ég verð máttlaus, finnst ég ekki geta andað og heilastarfsemin hrynur. Sellurnar bráðna líklega. Þetta er ekki þægilegt. Maður getur þó klætt af sér fjárans kuldann.

Mér var of heitt í gær og ég fann fyrir verulegri vanlíðan og heiladoða. Ég gat ekki með nokkru móti unnið og viftan sem ég hef alltaf í gangi í vinnuherberginu gerði ekkert gagn. Það endaði með því að ég fór út og tók Kötlu hvolp með mér. Katla er Vestfirðingur, alsystir Skutuls, flutti til mín 4. júlí og er að venjast borgarlífinu. Ég hélt að kannski yrði auðveldara að anda úti. Það reyndist tálvon.

Ég kippti myndavélinni með og tók nokkrar myndir af því sem á vegi mínum varð í hverfinu mínu, miðbænum.

Það er mikið rætt um nýjan Listaháskóla og hve illa byggingin passar inn í götumyndina við Laugaveg. Hér er slíkt dæmi sem er langt komið - skrímslið á bak við Naustið við Vesturgötuna. Ég mun aldrei skilja af hverju þetta var leyft.

Nýbygging bak við Naustið

 

Þegar búið var að rífa kofaskriflin sem voru á bak við Naustið kom í ljós einstaklega falleg bakhlið sem ég vonaði að fengi að vera í friði. En svona lítur svo bakhlið nýbyggingarinnar út - norðurhliðin Tryggvagötumegin, og felur hina fallegu bakhlið Naustsins. Mikið er Reykjavík að verða grá, svört og glerjuð. Allur sjarmi að hverfa.

Nýbygging - norðurhlið

 

Hann Hjálmtýr V. Heiðdal sendi mér nokkrar myndir sem hann tók af bakhlið Naustsins sem ég minnist á að ofan. Hér sést svo greinilega hvað hún er skemmtileg - með kvistum, kýraugum og ég sé ekki betur en að grunnar allra húsanna séu hlaðnir. Er þetta nú ekki fallegri sjón og betur við hæfi í þessum borgarhluta en svarta báknið í myndinni á undan?

Naustið bakhlið - Ljósm.: Hjálmtýr V. Heiðdal

 

Við gerðum okkur ferð inn í Alþingisgarðinn. Hann er mjög gróinn og fallegur, algjör vin í miðbænum. Þar sat einn maður á bekk og las. Á Austurvelli sást hins vegar varla í gras, svo þéttsetið var þar. Inn í garðinn kom svo fólk sem var að leita að bekk í skugga... á Íslandi.

Alþingisgarðurinn

 

Þetta fólk horfði út um gluggann á Alþingishúsinu í átt að Ráðhúsi Reykjavíkur og hugsaði sjálfsagt sitt í hitasvækjunni.

Gægst á glugga Alþingis

 

Öndum og gæsum við Ráðhúsið virtist standa alveg á sama um borgarstjórnarraunir mannfólksins og voru afslappaðar við sólböð undir suðurgluggum hússins.

Endur og gæsir við Ráðhúsið

 

Hér hefur hjólreiðamaður komið sér vel fyrir á bekk í Fógetagarðinum og fengið sér lúr. Þetta er sjaldgæf sjón í Reykjavík.

Hjólreiðamaður sefur á bekk

 

Katla gerði sér dælt við hjólabrettastráka á Ingólfstorgi og einn vildi leyfa henni að prófa. Hún þorði ekki og forðaði sér bara í skuggann. Henni var líka heitt.

Viltu prófa hjólabrettið mitt?

Beint í skuggann til að kæla sig

 

Í Fischersundi gerði svart villidýr árás úr launsátri á Kötlu. Það var með naumindum að mér tókst að bjarga henni frá klóm fnæsandi, svarta kattarins sem virðist ráða þar ríkjum. Við vorum báðar dauðskelkaðar og ætlum að muna að fara ekki aftur á þessar slóðir.

Svarta villidýrið í Fischersundi t.v.

 

Við enduðum göngutúrinn á Landakotstúni sem oftar. Þótt Kristskirkja sé falleg bygging finnst mér gamla kirkjan eiginlega fallegri - á sinn hátt.

Landakotskirkja hin eldri

 

Að lokum - Katla að spóka sig á Austurvelli.

Katla á Austurvelli


Í sátt við náttúruna? - Þjórsárpistill og áskorun

Hinn þreytti frasi virkjana- og álverssinna um að virkjað sé "í sátt við náttúruna" er alveg einstaklega kaldhæðnislegur. Þeim finnst allt í lagi að stúta náttúrunni og virkja bæði jarðhita og fallvötn - af því það er svo mikið "í sátt við náttúruna". Náttúran er semsagt mjög sátt við að láta leggja sig í rúst. Jæja, já.

UrriðafossÉg hafði ekkert sett mig inn í virkjanamálin í neðri hluta Þjórsár en vitað af umræðunni. Hef haft meira en nóg á minni könnu við að kynna mér og skrifa um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu auk þess að fylgjast með umræðunni um fyrirhugaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Inn á milli reyni ég svo að finna tíma til að vinna fyrir mér.

En mér var boðið austur í síðustu viku til að kynna mér málið svolítið og ég hef eiginlega verið í hálfgerðu sjokki síðan. Ekki vitað hvernig ég ætti að nálgast málið, svo skelfilegt er það. Svo las ég viðtal í Morgunblaðinu á sunnudag við Björn Sigurbjörnsson í Gróanda, Grásteinum í Helgadal. Í viðtalinu segir Björn m.a. frá því þegar faðir hans, sem stundaði garðyrkju í Fossvoginum eða á Bústaðablettinum, var hrakinn frá lífsstarfi sínu af yfirvöldum í Reykjavík, þá 65 ára að aldri. Þetta var árið 1966 og það átti að byggja. Jarðýtur óðu yfir æskuheimili Björns.

Ég sé ekki betur en að svipað sé að gerast við Þjórsá. Þar er valtað yfir Þjórsábændur og aðra landeigendur, þeir þvingaðir til að samþykkja að landinu þeirra verði drekkt og smánarlegar bætur greiddar af Landsvirkjun, sem hefur her lögfræðinga til að neyða fólk til samninga. Einhverjir bændanna þurfa að hætta búskap um nokkurra ára skeið á meðan framkvæmdir standa yfir en er sagt að þeir geti svo komið aftur og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Semsagt - hypjaðu þig að heiman og frá lífsviðurværinu, svo geturðu komið aftur þegar við erum búnir að athafna okkur. Hvað á að gera við féð og kýrnar á meðan? Getur bóndi, kannski á efri árum, bara farið sisvona og komið svo aftur seinna og tekið upp þráðinn? Hve mikið af landi hans, túnum og ökrum verður þá komið undir vatn? Eitthvað hljómar þetta nú ólíklega. 

Hér er nefnilega ekki verið að tala um virkjanir og uppistöðulón í óbyggðum eins og Kárahnjúka, heldur í byggð - og það fallegri og blómlegri byggð. Þjórsá er lengsta fljót á Íslandi, um 230 km. Það er mun lengri vegalengd en frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal (186 km) og örlítið styttri en frá Reykjavík til Blönduóss (244 km). Nokkrar virkjanir eru í efri hluta Þjórsár, næst hálendinu, en nú er ætlunin að virkja á láglendi - í byggð. Áhrifin ná alla leið suður fyrir þjóðveg nr. 1 þar sem Urriðafoss drynur skammt sunnan við nýju Þjórsárbrúna. Hann mun hverfa.

ÞjórsáHópnum sem ég var í samfloti með var boðið í mat á lífræna búinu í Skaftholti. Hjónin Guðfinnur Jakobsson og Atie Bakker voru höfðingjar heim að sækja og mig langar að koma þangað aftur... og aftur. Eftir matinn komu heimamenn til skrafs yfir kaffisopa og einn af þingmönnum Sunnlendinga, Björgvin G. Sigurðsson (sá sem tók skóflustunguna, munið þið?) mætti og ræddi stuttlega við fólkið áður en hann rauk í burtu aftur. Björgvin kvaðst mótfallinn virkjunum í neðri hluta Þjórsár - en tók engu að síður skóflustungu að álverinu í Helguvík sem mögulega gleypir orkuna sem framleidd verður í þeim virkjunum. Skrýtið.

Ýmislegt kom fram á þessum stutta fundi með heimamönnum og greinilegt að þeir voru mjög ósáttir við framgang Landsvirkjunar og málið allt. Hver vill sjá heimahögunum og lifibrauðinu drekkt með uppistöðulóni? Landsvirkjun hefur auk þess komið þannig fram við fólk að enginn treystir fyrirtækinu eða orðum lögfræðingahers þeirra. Nú þegar hafa þeir gengið á bak orða sinna - af því eitthvað hentar þeim betur en það sem áður var lofað. Traust fyrirtæki?

Sem dæmi um slíkt er fyrirhugað Hagalón. Upphaflega var áætlað að það yrði 114 metra (yfir sjávarmáli) en Landsvirkjun breytti því í 116 af því það hentaði þeim betur. Það munar um tvo metra. Gerir fólk sér grein fyrir hvað 116 metrar eru gríðarlegt dýpi? Snúum þeim yfir á borgarmál. Flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins kannast við glerturninn sem reistur hefur verið við Smáratorg í Kópavogi. Hæð hans er 78 metrar. Hallgrímskirkjuturn er 72 metrar. Ef gert er ráð fyrir um 3 metrum á hverja hæð jafnast 116 metra djúpt lón á við 38 hæða íbúðarhús. Það er ekkert smáræði.

Hér er mynd af svæðinu sem drekkt verður fyrir Hagalón. Þarna eru ægifagrar, vel grónar eyjar úti í ánni þar sem búfé hefur aldrei verið beitt svo gróður hefur fengið að vaxa þar óáreittur. Aðeins smábrot af stærstu eyjunni mun standa upp úr lóninu eins og agnarlítið sker því þarna verður lónsdýptin 10-12 metrar (4 hæða hús). Vinstra megin, þar sem birtan hamlar sýn, er Hekla og horft er til suðurs.

 Þjórsá

 

Miðað við þær upplýsingar sem fram komu, og þær voru töluverðar, er Þjórsármálið afskaplega flókið og að mörgu að hyggja. Ég þekki ekki nema brotabrot af því - en það brotabrot nægir mér til að ákveða að leggja mitt af mörkum. Ég er ekki nema eitt atkvæði, eitt bréf, ein athugasemd - en við höfum séð nú þegar hverju samtakamátturinn getur áorkað. Íbúar við Þjórsá þurfa hjálp og stuðning okkar hinna. Og eins og segir í auglýsingunni um breytingu á aðalskipulagi Flóahrepps: "Þeir sem ekki gera athugasemdir innan tilskilins frests teljast samþykkir tillögunni". Ég vil alls ekki teljast samþykk tillögunni og skora á alla sem vilja það ekki heldur að senda inn athugasemd. Þetta tekur kannski 10-15 mínútur af lífi ykkar, kostar ferð í pósthús eða póstkassa og eitt frímerki.

Mér skilst að það sé of seint að gera athugasemdir við framkvæmdir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi - norðan þjóðvegarins - en ekki sunnan hans, í Flóahreppi þar sem Urriðafossvirkjun er fyrirhuguð. Tillagan gengur í stórum dráttum út á að heimila virkjun og allt það rask sem henni fylgir. Hér er vefur Flóahrepps og þar getur fólk kynnt sér tillöguna nánar. Hér er Þjórsárvefurinn þar sem hægt er að lesa sér til um málið og framgöngu þess. Hér getur fólk séð uppkast af athugasemd við tillögunni til að senda Flóahreppi. Skriflegum athugasemdum skal skila til Flóahrepps, Þingborg, 801 Selfoss - merkt aðalskipulag - fyrir 1. ágúst 2008. ÞAÐ ER NÆSTA FÖSTUDAG! Nú þarf að hafa hraðar hendur og drífa í þessu.

Ég byrjaði pistilinn á að tala um frasann "að virkja í sátt við náttúruna".  Ég hef aldrei heyrt talað um "að virkja í sátt við fólkið í landinu". Aldrei. Er ekki kominn tími til að taka tillit til fólksins í landinu (kjósendanna - atkvæðanna) og ná sáttum við það? Er ekki kominn tími til að spyrja til hvers á að virkja og fyrir hvern áður en ætt er áfram og einstök náttúra Íslands lögð í rúst? Það finnst mér.

Eins og ég sagði fyrr í pistlinum hef ég ekki sett mig nægilega vel inn í Þjórsármálin svo ég á ekki mikið ítarefni um þau. En þetta átti ég - álit Ragnhildar Sigurðardóttur, vistfræðings, um mögulegt hrun laxastofnsins í Þjórsá ef af virkjun verður. Þetta er aðeins ein af mörgum viðvörunum sem komið hafa fram varðandi afleiðingar virkjana í neðri hluta Þjórsár.

 

Ég átti líka í fórum mínum þessa frétt um kostnað við störf í stóriðju - því auðvitað fer rafmagnið sem framleitt verður í Þjórsá til stóriðju. Stóriðjusinnar sjá ekkert annað, engar aðrar lausnir.

 

Hér er svo samantekt úr fréttum af moldroki við Hálslón. Þetta er fylgifiskur uppistöðulóna. Viljum við að hin búsældarlegu héruð á Suðurlandi hverfi í þykkan mökk? Hvað segja nágrannasveitarfélögin um það?



 
Viðbót 9. ágúst 2008:

Mbl. 9. ágúst 2008

Sjónvarpið, Hjalti Stefánsson og náttúrumyndir

Jaðrakan - ljósm.: Brynjúlfur BrynjúlfssonÉg hreifst af myndskeiði í lok tíufrétta RÚV um daginn, klippti það út og birti hér. Í athugasemd kom fram að listamaðurinn er Hjalti Stefánsson, myndatökumaður RÚV á Austurlandi, og hafði hann útbúið byrgi þar sem hann kom sér fyrir og beið til að ná þessum myndum. Mikla þolinmæði og natni þarf til að ná slíkum myndum svo mikið er á sig lagt. Ég skora á báðar sjónvarpsstöðvar að sýna fleiri svona myndskeið í lok allra frétta. Eftir að horfa á heilan fréttatíma sem fjallar að mestu um erfiðleika og hörmungar jafnt innanlands sem utan er sálfræðilega mjög jákvætt og róandi að fá svona falleg myndbrot af fegurð náttúrunnar í kringum okkur. Þau mættu vera miklu fleiri og svolítið lengri.

Hjalti var aftur á ferðinni í tíufréttum á miðvikudagskvöldið og nú með myndir af hinum gullfallega fugli, Jaðrakan, sem er nokkuð útbreiddur farfugl á Íslandi. Um hann stendur m.a. á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum - en þar er aðallega verið að fjalla um nafnið. Mér finnst sú umfjöllun sérlega skemmtileg því þar koma bæði gelíska og færeyska við sögu:

Jaðrakan er heiti á fuglinum Limosa limosa islandica sem er vaðfugl af snípuætt, rauðbrúnn á háls og bringu, með langt beint nef, raddmikill fugl og glæsilegur. Jaðrakaninn er farfugl og voru varpstöðvar hans aðeins á Suðurlandi fram eftir 20. öld en nú finnst hann í öllum landshlutum.

Af orðinu eru fjölmörg afbrigði, flest í karlkyni og kvenkyni.
Jaðrakan - ljósm.: Þorgils Sigurðsson
Í greininni "Fuglsheitið jaðrakan" lýsir Helgi Guðmundsson útbreiðslu afbrigða orðsins og sögu þess. Helgi setur fram tvær tilgátur um uppruna orðsins. Samkvæmt þeirri fyrri er orðið samsett úr orðunum jaðar og kárn sem talið er merkja 'kráka' eða 'hrafn'. Samkvæmt síðari tilgátunni er orðið tökuorð úr gelísku, sbr. skosk-gelíska adharcan og írska adhaircín. Gelísku orðin eru höfð um vepju (Vanellus vanellus) en í færeysku eru orðin jaðrakona, jarðarkona höfð um keldusvín (Rallus aquaticus).

Elsta heimild um orðmyndina
jaðrakárn í íslensku er handritið AM748 I 4to, frá því um 1300 eða frá öndverðri 14. öld. Orðmyndirnar jaðraka, jaðraki finnast frá því um 1600. Orðmyndin jaðrakan kemst snemma inn í kennslubækur en elsta dæmið er frá Sveinbirni Egilssyni 1848. Helgi telur bókmálsáhrif hafa orðið til þess að þessi orðmynd hefur orðið ofan á í nútímamáli en í rannsókn hans á dreifingu afbrigða orðsins á Suðurlandi á þessi orðmynd sér ekki sérstakt útbreiðslusvæði.

Myndirnar eru fengnar að láni af hinni frábæru fuglasíðu www.fuglar.is sem Félag fuglaáhugamanna á Hornafirði heldur úti af miklum krafti og ég hvet alla til að skoða. Þar eru ótrúlega margar og fallegar fuglamyndir ásamt margs konar upplýsingum um fugla.

Í gærkvöldi var svo sýnt myndskeið frá Seljalandsfossi og þar er engu síðri listamaður á ferðinni, Vilhjálmur Þór Guðmundsson, myndatökumaður Sjónvarpsins. Ég hef farið með ótalmarga erlenda ferðamenn að og á bak við Seljalandsfoss og þeim þykir það mikið ævintýri. Hvað ætli margir Íslendingar eigi eftir að upplifa þetta? Hér eru glæsilegar myndir Kjartans Péturs af fossinum sem hann er nýbúinn að setja inn á bloggið sitt. Skoðið líka ótrúlegar myndir af hellinum Búra í nýjustu færslu Kjartans!

Hér eru þessi tvö fallegu myndbrot klippt saman. Megum við fá meira að sjá, takk.

 


Er þetta tilviljun eða árangur?

Ég hætti mér ekki út í þær heimspekilegu hugleiðingar hvort eitthvað sé tilviljunum háð eða ekki - hvort tilviljun sé til eða ekki. Engu að síður hvarflar það að mér þegar ég lít um öxl og skoða mál sem ég hef skrifað um og framvindu þeirra. Er þetta tilviljun eða árangur? Blanda af hvoru tveggja? Eða bara hrein og klár slembilukka? Ég hef ekki hugmynd um það.

Ég er ekki svo vitlaus að halda að ég ein geti lyft einhverju grettistaki enda hafa fleiri tjáð sig um málin sem ég tíni til hér að neðan og kannski myndað þrýsting. En ég held aftur á móti að ef fólk hefur skoðanir, rökstyður þær á sannfærandi hátt, kemur þeim á framfæri og stendur saman - þá sé hægt að hafa áhrif. En hver sem skýringin er finnst mér pælingin skemmtileg.

Hvað sem gagnrýnendur bloggsins segja, og þá kannski sérstaklega þeir sem hafa horn í síðu Moggabloggsins, er bloggið orðinn öflugur miðill og góður vettvangur til að vekja athygli á ýmsum málum sem fólki finnst að betur mætti fara eða séu vel gerð. Blogg er ekki bara "...skammir eða raus á fremur illa skrifaðri íslensku..." eins og Víkverji sunnudagsins 29. júní sagði í Morgunblaðinu. Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé á blogginu eins og annars staðar og áhugamál bloggara margvísleg, en það er auðvelt að vinsa úr og finna þá sem maður vill lesa - hvort sem þeir eru skoðanabræður og -systur eður ei.

Sveitarstjórnarkosningar verða eftir tæp tvö ár og við getum búist við að stjórnmálamenn fari að brosa við okkur eftir kannski eitt og hálft. Þá verður gott að geta flett upp í blogginu og hermt upp á þá sitthvað sem hefur bjagast, afbakast eða ekki verið efnt á kjörtímabilinu. Þetta verða fyrstu kosningarnar þar sem þetta verður hægt með þessu móti vegna þess hve margir blogga og blogglestur orðinn almennur. Kannski er liðin tíð að stjórnmálamenn geti treyst á gullfiskaminni kjósenda.

En ég ætlaði að fara í örlitla upprifjun, tína til nokkur mál og vera svolítið sjálfhverf. Margt hefur gerst á stuttum tíma og margir lagt hönd á plóginn. Lítum á málið...

Ég skrifaði m.a. þetta (sjá listann) og þetta og þetta - svo gerðist þetta:


Ég skrifaði þetta og birti myndband. Síðan skrifaði ég þetta og birti annað myndband. Í framhaldi af því gerðist þetta og þá var auðvitað upplagt að gera þetta:

 

Það er ekki langt síðan ég skrifaði þetta og birti myndbönd með pistlinum. Skömmu seinna kom þetta:

 

Enn styttra er síðan ég skrifaði þennan pistil og í framhaldinu gerðist þetta:


Eins og ég sagði hér að ofan er ég ekki svo vitlaus að þakka sjálfri mér þetta allt saman. En ef þetta er ekki tilviljun ætti ég kannski að árangurstengja bloggið mitt. Ætli það sé hægt - og þá hvernig? 

 LoL  LoL  LoL


Ráðgjöf óskast í tölvumálum

Windows VistaÉg er að gefast upp á Windows Vista eftir að hafa notað það í tæpt ár. Ætla að skipta aftur yfir í XP áður en ég reyti af mér restina af hárlufsunum og er að búa mig undir breytinguna. Ég er alveg ágætlega mikill tölvunörd og kann ýmislegt fyrir mér í þeim efnum og kvíði aðallega einu...

Það er að flytja tölvupóstinn minn úr Windows Mail (Vista) aftur yfir í Outlook Express (XP). Ég hef aldrei kært mig um Outlook og haldið tryggð við Outlook Express í gegnum tíðina og hyggst gera það áfram. Ég hef geymt nánast allan minn tölvupóst frá árinu 1999 en þá lærði ég að flytja póst á milli tölva þegar ég fékk mér nýja. Þetta er fjársjóður, tugþúsundir tölvuskeyta, sem ég vil alls ekki glata - enda tek ég samviskusamlega afrit af þeim eins og öðrum gögnum.Windows XP

Ég veit hvar pósturinn er geymdur - í hvaða möppum og undirmöppum í báðum stýrikerfum. En pósturinn í Windows Mail er *.eml á meðan pósturinn í Outlook Express er *.dbx. Það var ekkert mál að flytja OE póstinn yfir í WM en ég hef ekki fundið neina leið til baka. Hvorki í "Export" né "Import" og ekki dugar heldur að flytja yfir og breyta bara úr *.xxx í *.yyy eins og stundum nægir til að fá hlutina til að virka.

Getur einhver mér fróðari leiðbeint mér við verkefnið? Sá hinn sami fær umsvifalaust gúrústatus í mínum huga.


Fjárfestar og einkavæðing

Þessi pistill er svar við athugasemd við þann síðasta og fjallar að mestu leyti um fjárfesta, einkavæðingu og íslenska pólitík. Þeir sem hafa áhuga á að skilja þennan pistil verða að lesa athugasemd nr. 12 sem Sigurður Þorsteinsson skrifaði við síðasta pistil minn. Vonandi hef ég gert ágætri athugasemd hans sæmileg skil með þessum pistli.

__________________________________________

Sigurður... mér finnst þú snúa svolítið út úr orðum mínum á þinn vingjarnlega, kurteisa og ljúfa hátt. Það má vel vera að pistlarnir mínir um náttúruvernd séu betri en aðrir (NB - náttúruvernd, ekki umhverfisvernd - þar er munur á). En ég hef skoðanir á fleiri málum og þegar peningahyggjan er beinlínis farin að hafa áhrif á náttúruna og verndun hennar get ég ekki orða bundist.

Liður 1:  Til að byrja með vil ég taka fram, að eins og ég segi í upphafsorðunum er þetta skrifað í framhaldi af myndbandinu sem ég birti í síðasta pistli og vísar því beinlínis í slíka og þvílíka fjárfesta. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um venjulegt fólk sem fjárfestir í innanstokksmunum, húsnæði eða menntun sinni og barnanna sinna. Ég er heldur ekki að tala um þennan venjulega Pétur og Pál og Jónínu og Guðrúnu sem fjárfesta hluta af sparifé sínu í hlutabréfum í hinum og þessum fyrirtækjum. Jafnvel ekki þá sem slá lán og veðsetja húsnæði sitt til að spila með á hlutabréfamarkaðnum. Þetta fólk er vitanlega að hugsa um að græða nokkrar krónur á fjárfestingunni, en hefur engin áhrif á stjórn fyrirtækisins og fylgist jafnvel ekkert með öðru en því, hvort hlutabréfin séu að lækka eða hækka í verði. Hefur ekki hugmynd um hvernig fyrirtækinu er stjórnað, hvaða laun það greiðir eða hvaða hlutverki það gegnir í víðara samhengi - jafnvel pólitísku.

Ég er að tala um stóru fjárfestana, þessa sem höndla með milljarða á milljarða ofan og svífast einskis. Fjárfesta, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, sem líta á almenning í landinu - svosem hvaða landi sem er - sem algjört aukaatriði, bara ef þeir geta grætt. Lastu athugasemdirnar við síðasta pistil sem ég benti á? Þar sem sagt var t.d. frá SMS skeyti frá auðmanni til stjórnmálamanns. Ég er að tala um þannig fjárfesta.

Ég hef aldrei unnið við fjármál eða hlutabréf eða neitt þvíumlíkt og hef lýst því yfir í pistlum hér á blogginu mínu að ég hafi enga sérþekkingu á slíkum málum - nema síður sé. Ég er því vissulega áhugamanneskja eins og þú segir. En ég er hluti af þessum almenningi sem horfir í forundran á hina ríku verða ríkari án þess að botna upp né niður í hvernig þetta sé hægt.  Ég horfi á þessi mál sem fullkomlega óinnvígð að öllu leyti en furða mig gjarnan á því hve fárra spurninga er spurt, einkum af fjölmiðlum sem um þessi mál fjalla. Hvernig gat þetta til dæmis gerst sem lýst er í myndbandinu í pistlinum hér á undan? Og hver á hvað í hvaða fyrirtæki eða Group eða hvað sem þessir strákar kjósa að kalla ungana sína?

Endur fyrir löngu kom út bók - mig minnir að hún hafi einfaldlega heitið Kolkrabbinn - þar sem farið var ofan í saumana á tengslaneti einstaklinga og fyrirtækja. Mér sýnist vera góður jarðvegur fyrir aðra slíka til að skýra eignarhald og brask með allt milli himins og jarðar.

Staðreyndin er nefnilega sú að þessir stórtæku "fjárfestar" eru gjarnan að spila með líf og afkomu almennings. Fyrirtæki sem við þurfum öll að skipta við að einu eða öðru leyti og ef þeir klúðra málunum erum það við sem borgum brúsann. Dæmi um það eru t.d. flugfélögin og matvöruverslanirnar. Þeir tapa eða gleypa of mikið sjálfir - það fer beint út í verðlagið sem almenningur er að sligast undan. Hver á Iceland Express? Síðast þegar ég vissi voru að mestu leyti sömu eigendur að IE og Icelandair. Mér gæti skjátlast því ég hendi ekki reiður á hver á hvað hverju sinni. Ég þurfti að fara tvisvar til Englands í vor og sumar með stuttu millibili og ég gat ekki séð neinn verðmun á fargjöldum þessara tveggja flugfélaga. Eiga ekki sömu menn Hagkaup, Bónus og 10-11 og svo aftur sömu menn Nóatún og Krónuna? Þetta eru tveir stærstu aðilarnir á matvörumarkaðnum á svæði þar sem 60-70% landsmanna búa. Og matur er lífsnauðsyn, ekki lúxus, þannig að allir þurfa að skipta við eitthvert þessara fyrirtækja.

Liður 2: Ég hef ekkert á móti samkeppni nema síður sé - þar sem hún á við og ef hún er raunveruleg og marktæk. Við erum svo lítið land með svo fáum íbúum að samkeppni getur ekki þrifist á öllum sviðum. Fyrirtækin bera sig einfaldlega ekki. Í einkavæðingarferli Íslendinga hafa verið gerð svo mörg og svo stór mistök að það hálfa væri nóg. Ég held að í því sambandi nægi að nefna bankana og grunnnet Símans. Nú er svo hægt og rólega verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna sem að mínu mati eru mikil mistök og síðast í gær komu fréttir um "útboð" á þjónustu a.m.k. hluta af Strætó. Ég efast stórlega um að það stuðli að lækkun fargjalda, tíðari ferðum, betra leiðakerfi og því sem þarf til að fá fólk til að nota almenningssamgöngur frekar en einkabílinn. Og ég þekki engan sem kannast við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum, sem er að stærstum hluta einkavætt, sem getur hugsað sér að breyta því góða kerfi sem foreldrar okkar, afar, ömmur, langafar og langömmur börðust fyrir að koma á - þar sem allir hlutu ódýra og góða heilbrigðisþjónustu án tillits til stéttar, stöðu eða efnahags. Engan.

Tilhneigingin í einkavæðingu á Íslandi hefur verið sú, að upp spretta mörg fyrirtæki í sömu greininni þegar allt er gefið frjálst, en fljótlega kemur í ljós að reksturinn borgar sig ekki, markaðurinn er of lítill, og smátt og smátt - stundum mjög hratt samt - gleypir sá fjársterki (eða sá með bestu pólitísku samböndin eða besta aðganginn að lánsfé í bönkum) alla þá litlu og eftir stendur eitt, kannski tvö fyrirtæki (Samkeppnisstofnun gerir athugasemd), jafnvel að hluta til í eigu sömu manna. Verð er samræmt, samkomulag gert um verðlagningu og allir eru ánægðir - nema ég og þú sem þurfum að borga brúsann.

Við Íslendingar eigum miklar og verðmætar auðlindir - t.d. fiskinn í sjónum og orkuna í fallvötnum og jarðhita. Búið er að einkavæða fiskinn í sjónum. Það var gert með kvótakerfinu þar sem einstaklingum var gefinn fiskveiðikvóti sem gengur nú kaupum og sölum eins og hver önnur hlutabréf.  Afleiðing þeirrar einkavæðingar eru öllum kunn. Kvótaeigendur gáfu fögur loforð um um að halda kvótanum í byggð en sviku þau öll og skildu eftir sig sviðna jörð - byggðarlög um allt land hafa nánast lagst í eyði og atvinnusköpun og -uppbygging verið fátækleg. Afleiðing þess er sú að verið er að stúta gjörsamlega ómetanlegri náttúru Íslands til að virkja fossa og jarðhita - til að afla orku fyrir mengandi stóriðju. Álver og kannski olíuhreinsistöð. Þetta hangir nefnilega allt saman. Einkavæðing - virkjun - stóriðja - fjárfestar - gróði - peningahyggja.

Nú blasir við að einkaaðilar ásælist orkuauðlindirnar okkar sem verða æ verðmætari eftir því sem orkuskorturinn eykst í heiminum. Stjórnvöld virðast ætla að nánast gefa þessa auðlind erlendum auðhringum í formi orku til álvera í stað þess að hinkra og sjá til hvernig veröldin þróast. Það á að gera okkur fjárhagslega háð öflum sem gæti ekki verið meira sama um land og þjóð - á meðan þeir sjálfir hagnast. Er nokkur furða að maður mótmæli? Það er verið að arðræna íslensku þjóðina - aftur. Ég get ekki setið þegjandi undir því.

Þú segir í athugasemd þinni: "Það hættulegasta í pólitískri umræðu, er að pólitíkin er of lítið fagleg og of mikið lík trúarbrögðum. Fólk étur allt of mikið upp vitleysuna eftir hvort annað til þess að þjóna flokkspólitískum hagsmunum, í stað þess að nálgast viðfangsefnið á faglegan hátt."

Ég er ekki í neinum flokki, þjóna engum flokkspólitískum hagsmunum, enginn stjórnmálaflokkur er áskrifandi að atkvæði mínu og ég hvorki tala né skrifa með flokkspólitík í huga. Ég veg og met orð og gjörðir út frá minni eigin almennu skynsemi og því sem ég sé, skynja og finn. Flokkapólitík er mér ekki að skapi og alls ekki hreppapólitíkin, sjálfhverfan innan kjördæmanna og atkvæðaveiðarnar. Ég vil að fólk - bæði kjósendur og stjórnmálamenn, fari að hugsa um heildina - ekki bara sérhagsmuni hvers landshluta fyrir sig, svo ekki sé minnst á sérhagsmuni einstakra frambjóðenda, þingmanna eða ráðherra. Ég fyrirlít slíka pólitík en því miður er hún það sem gildir á Íslandi.

Ég vil líka að dustað verði rykið af hugmynd Vilmundar heitins Gylfasonar frá 1983 um persónukosningar þvert á flokka og lista. Það gæti orðið landinu til mikillar blessunar ef sú hugmynd yrði útfærð af sanngirni og skynsemi.

Þetta er langt svar við athugasemd þinni, Sigurður. En nú sem endranær er mér mikið niðri fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að ég er lítil... agnarsmá raunar... Ég á enga peninga, hef engin völd. En sem betur fer bý ég í þjóðfélagi þar sem ég má segja skoðun mína. Hvort ég verð látin gjalda þess á einhvern hátt verður tíminn að leiða í ljós. Annað eins hefur gerst í þessu "frjálsa lýðræðisríki".


Peningar um peninga frá peningum til hvers?

Þetta var yfirskrift pistils sem ég skrifaði 5. desember sl. og fjallaði m.a. um hina yfirgengilegu peningadýrkun í samfélaginu. Hún kemur fram alls staðar - það er varla til neinn þáttur í umhverfinu sem ekki er smitaður af peningadýrkun sem ég vil frekar kalla græðgisvæðingu.

PeningarÍ framhaldi af myndbandinu í síðasta pistli varð mér hugsað til þess sem ég skrifaði fyrir tæpum 8 mánuðum - fyrir gengisfall, hrun á verð- og hlutabréfamarkaði, svokallaðan samdrátt og krepputal - en eftir a.m.k. eitt stjörnuhrap. Ég ákvað að endurbirta pistilinn og um leið vara við hugtakinu "fjárfestir" og tengdum orðum - hvort sem sá er innlendur eða erlendur. Fjárfestum fylgir alltaf krafan um hámarkshagnað af viðkomandi fjárfestingu og þar eru hagsmunir almennings aldrei hafðir í huga. Svokölluð samkeppni verður fyrr en varir að fákeppni, verð hækkar og þjónusta versnar. Slíkt virðist vera eðli einkavæðingar þrátt fyrir fögur fyrirheit einkavæðingarsinna um annað.

Í þessu sambandi bendi ég á athugasemdir nr. 1 og 11 við síðasta pistil eftir þá Sævar og Bjarna. Ef þetta er satt sem þeir segja voru óprúttnir menn ansi nálægt því að selja og einkavæða orkuauðlindir okkar. Hrollvekjandi tilhugsun. Verum á verði, vörumst spillta stjórnmálamenn og gráðuga, samviskulausa eiginhagsmunaseggi. Eins og Ásgeir segir í athugasemd nr. 8 við áðurnefndan pistil er það OKKAR að breyta ástandinu með aðhaldi, þrýstingi og atkvæðum okkar.

_________________________________________________

 

Ég hef lengi furðað mig á fréttamati fjölmiðla hvað varðar peninga og auðmenn. Allt annað í lífinu virðist vera hjóm eitt hjá því hver græðir hve mikið og á hverju, hver hlutabréfavísitalan er eða hvað þær nú heita þessar úrvalsauravísitölur, hvað hefur hækkað og hvað lækkað hverju sinni.

Sérstök innslög eða fréttatímaaukar eru um "markaðinn" eins og t.d. hjá PeningarStöð 2 í kringum hádegið - kl. 12:15 í dag var Markaðurinn hádegi og kl. 12:31 var Hádegisviðtal markaðarins. Síðan var Markaðurinn kl. 18:20.

Bankar og aðrar fjármálastofnanir eru með fréttir oft á dag um hvernig peningamarkaðurinn er að gera sig þá stundina og fréttir af hve margar milljónir, milljónatugir eða milljarðar gengu kaupum og sölum þann daginn tröllríða öllum fréttatímum á öllum fjölmiðlum. Það þótti auk þess tilefni í sérstaka frétt þegar viðskiptaþátturinn Í lok dagsféll niður kl. 16:20 þann 3. des. sl. eins og sjá má hér.

Í gærkvöldi var fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins mannaskipti auðmanna hjá FL Group. Það var þriðja frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fyrsta frétt í sexfréttum Ríkisútvarpsins.

FL GroupMenn hverfa frá störfum með tugmilljóna starfslokasamninga, sagt er frá þeim nýjasta hér. Þó var maðurinn sagður með 4 milljónir á mánuði á meðan hann gegndi starfinu og hefði líkast til getað lagt aura til hliðar fyrir mögru árin eins og við hin þurfum að gera.

Á sama tíma les maður þetta... og þetta... og þetta... svo dæmi séu nefnd. Þessar sögur nísta í gegn um merg, bein og hjarta og maður spyr sig hvað þarf til að snerta við réttlætiskennd almennings og fjölmiðlafólks. Af hverju er svona mikið fjallað um auðmennina í fjölmiðlum en svona lítið um fátæktina... um þá sem minna mega sín og þjóðfélagið kemur illa fram við?

Ísland best í heimi... hvað?

Ég hef verið að reyna, ásamt mörgum öðrum, að benda á þá firringBorholur á Skarðsmýrarfjalliu sem á sér stað í virkjanafíkn og stóriðjuæði vissra aðila í þjóðfélaginu og afleiðingar þeirrar skammsýni. Afleiðingarnar snerta hvert einasta mannsbarn á Íslandi í formi loftmengunar, lyktmengunar, eyðileggingar á þeirri dásamlegu náttúru sem við höfum öll hlotið í arf frá forfeðrum okkar og -mæðrum ásamt þenslu, verðbólgu, hækkandi vöxtum, innflutningi tugþúsunda erlendra verkamanna og almennt versnandi lífskjörum. Fáir hlusta og fjölmiðlar sofa á verðinum. Enginn fjölmiðill virðist tilbúinn til að kryfja málið og fjalla um það á vitrænan hátt og í heildstæðu samhengi. Fréttablaðið hefur gert heiðarlegar tilraunir, en þær nægja ekki til að gera svo gríðarlega alvarlegu og yfirgripsmiklu máli nauðsynleg og verðskulduð skil.

Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar var eftir því tekið að upp spruttu umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum sem mærðu náttúruvernd og lofuðu öllu fögru. Nauðsynlegt er að breyta lögum, að minnsta kosti tvennum, en hver er að sinna því? Enginn á þingi eftir því sem ég best veit.

AndræðiÁrið 2004 kom út merkileg ljóðabók eftir Sigfús Bjartmarsson sem hann kallaði Andræði. Bókin er leikur með orð og Sigfús leikur af mikilli snilld. Bókin skiptist í 11 kafla og hver kafli hefur inngangsljóð. Ég ætla að leyfa mér að birta hér tvö ljóð ásamt inngangsljóðum hvors kafla. Það var erfitt að velja því ljóðin eru hvert öðru betra og beinskeyttara.

 

5
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá hlutafjármarkaðarins hástökksmethafa
í flokki hörmangarafélaga vann:
Sá skal mæra samkeppnina
sem hana kaupir upp.

Og ljóðið sjálft er svona og ég tileinka það Hannesi Smárasyni og öðrum tugmilljóna-auðmönnum:

Vit er
veraldar
gengi.

Og
gott
er hátt
gengi en
hættar þó
en lágu við
að lækka
lengi.


vit er
vandmeðfarið
og valt.

Kúlið
getur óðara
orðið svo
kalt.

9
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá innsta aðstoðarkoppi æðstaráðsritara
landseigendaflokksins vann:
Fjórðungi bregður til flokks
en frekar bregður hinum
til hagsmuna
hans.

Ljóðið hljóðar svo - ég tileinka það Alþingi og ríkisstjórn, sem með réttu ættu að fara með stjórnartaumana - og sem lofa öllu fögru fyrir kosningar:

Í upphafi
skal efndirnar
skoða.


fagurt
galar formaður
sem fögnuðinn vill
fólki sínu
boða.

Og
ljúft er
að leggja svo
með lygasögnum
slag eftir
slag.


sjaldan
lifir kosningaloforð
kjördag.

Og
marga
mun sverja
eiðana sá
sem alla
svíkja
má.


enginn
tryggir atkvæðin
eftir á.

 


Getur þetta verið satt?

Það sem fram kemur í þessu myndbandi er ævintýralega ótrúlegt. Getur þetta virkilega verið satt? Ég á alveg óskaplega erfitt með að kyngja þessu, hvað þá að skilja hvernig þetta var og er hægt. Ætli það séu fleiri dæmi um svona vinnubrögð? Á hverju eru svona menn?

 

 

Mikið megum við - þessi skítblönku - vera fegin að hafa ekki átt hlutabréf í þessu fyrirtæki.


Er gamli, góði Geir kominn aftur?

Geir HaardeUndanfarið hef ég gagnrýnt forsætisráðherra fyrir framkomu sína við fjölmiðlafólk - og þar með þjóðina - eins og sjá má hér og hér. Hann hefur verið önugur og hvumpinn og neitað að svara spurningum. Almannatengillinn og flokksbróðir Geirs, Ólafur Hauksson, réð honum heilt í fréttum Stöðvar 2 nýverið og hvatti hann til að breyta framkomu sinni. Það virðist hann hafa gert, enda er hann í vinnu hjá þjóðinni og honum ber að standa skil á störfum sínum gagnvart henni.

Þar sem ég bjó til myndband um önuga framkomu forsætisráðherra er mér að sjálfsögðu bæði ljúft og skylt að búa til annað myndband um ljúfmannlega framkomu hans. Ég mátti til... Engu að síður vara ég bæði fjölmiðlafólk og almenning við. Ekki láta breytta framkomu slá ryki í augu ykkar. Haldið áfram að spyrja áleitinna spurninga og setja hlutina í samhengi. Geir hefur töfrandi bros - en oft leynist flagð undir fögru skinni eins og þar stendur og pólitíkin hans hefur greinilega ekkert breyst.

Undir lok myndbandsins er úrklippa úr helsti frétta Stöðvar 2 í gærkvöldi. Samsetningin er óborganleg og afskaplega kaldhæðnisleg. Hvort hún er af ásettu ráði gerð, þ.e. uppröðunin, veit ég ekki en ég gerði mér altént mat úr henni. Þetta er allt í gríni gert eins og sjá má - en gríni fylgir ávallt alvara.


Ábyrgðarleysi og sóðaskapur

Leiðsögumenn erlendra ferðamanna eru þeir sem kynnast ferðamönnunum best á meðan þeir staldra við, áhuga þeirra á landinu, ánægju með það - og kvörtunum yfir því. Leiðsögumenn þurfa að leysa hvers manns vanda, fræða, skýra, svara, hugga, græða og almennt redda því sem redda þarf hverju sinni. Þeir gegna jöfnum höndum hlutverki sálfræðinga, fræðara og reddara. Leiðsögumenn eru á ferðinni um allt land og koma á flesta þá staði sem heimsóttir eru í skipulögðum - og óskipulögðum ferðum ferðaskrifstofa og annarra.

Yfirvöld ferðamála ættu því að leggja eyrun við þegar leiðsögumenn tala og taka fullt mark á þeim. Þeir vita nákvæmlega hvernig ástandið er á öllu mögulegu um allt land.

Í sumar hafa heyrst fjölmargar kvartanir frá leiðsögumönnum um ástand salerna víðs vegar um landið. Þau eru lokuð, biluð eða jafnvel ekki fyrir hendi á fjölförnum stöðum þar sem margir rútufarmar af ferðamönnum staldra við á hverjum degi til að njóta náttúrufegurðar Íslands - og þá eru ótaldir allir sem ferðast um á einkabílum eða bílaleigubílum. Við Íslendingar erum auðvitað sjálfir þar á meðal. Hversu viljugir og fjölhæfir sem leiðsögumennirnir eru geta þeir ekki leyst þetta tiltekna vandamál.

En þeir geta látið vita af vandanum og hafa gert það af miklum krafti það sem af er sumri, m.a. í viðtölum við fjölmiðla. Nokkrir leiðsögumenn hafa einnig skrifað um málið á bloggsíður sínar og nægir þar að nefna Úrsúlu, Guðjón og Berglindi. Fjallað var um málið í hádegisfréttum RÚV núna áðan og í Fréttablaðinu í morgun var viðtal við Börk Hrólfsson, leiðsögumann, sem ég set inn hér að neðan. Börkur er þekktur fyrir að tala tæpitungulaust og það gerir hann hér sem endranær.

Takið eftir svörum ferðamálastjóra: "....þótt Ferðamálastofa sjái um uppbyggingu salerna sé það ekki hennar hlutverk að sjá um rekstur þeirra." Hvers hlutverk er það þá? Við hvern á að tala? Hver ber ábyrgð á því að náttúruperlur okkar séu ekki útmignar og -skitnar og mishuggulegur pappír fjúkandi um allar grundir? Spyr sú sem ekki veit og ég vildi gjarnan sjá fjölmiðla grafa það upp og halda áfram að spyrja.

Í tónspilaranum ofarlega til vinstri eru samanklipptar tvær fréttir um málið, önnur frá 3. júlí sl. og hin frá í hádeginu í dag - merkt: Fréttir - RÚV - 3. og 14.7.08 - Salernismál í ólestri - Kári Jónasson, leiðsögumaður og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.

Náttúruperlur verða salerni ferðamanna


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband