Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Rökstuddur grunur um glæpi?

Kompássmaðurinn Kristinn Hrafnsson byrjaði sumarafleysinguna með trukki á RÚV í kvöld. Hann fjallaði um myrkraverkin sem framin voru hjá Kaupþingi dagana áður en bankinn var yfirtekinn - og þau eru vægast sagt svakaleg. Kristinn boðaði framhald næstu kvöld og vísaði í síðuna WikiLeaks.

Fjallað var um lán Landsbankans til fyrirtækja sem tengd eru eigendum hans hér og hér. Nú var það Kaupþing - og sukkið... maður minn! Þetta er það sem við erum að borga fyrir - og þetta líka. Og fleira og fleira.

Fréttir RÚV - Kristinn Hrafnsson - 31. júlí 2009

Kristinn segir í fréttinni að lán Kaupþings til 11 fyrirtækja í Existu-hópnum, að Skiptum meðtöldum, séu upp á rúmlega 300 milljarða króna að núvirði. Bara þau lán eru tæpur helmingur af Icesave-skuldinni. Sjáið þetta bara. Upphæðir eru í milljónum evra og gengið er rétt um 180 krónur.

Lánabók Kaupþings - Exista

Í glæruskjalinu sem fjallað er um og kallað er "Meeting of the Board of Directors - Annual Large Exposure Reporting" er bara fjallað um lán frá 45 milljónum evra, sem mér reiknast til að séu 8,1 milljarður króna. Þetta er ótrúlegt skjal og þar kennir ýmissa grasa. Ég hengi það hér neðst í færsluna ef fólk vill taka þátt í að rjúfa þá vernd sem bankaleynd veitir þessum mönnum. Ég skora á alla bloggara og netmiðla að birta þetta - þá hafa þeir nóg að gera í lögsóknunum, blessaðir.

Skoðið þetta vandlega með reiknivél við hönd til að fá íslensku upphæðirnar. Hvað varð um alla þessa peninga? Hvernig stendur á að ekki er búið að frysta, kyrrsetja, haldleggja... hvað sem við köllum þann gjörning að hirða af þeim það sem þeir stálu og ætla að láta okkur borga. Í lögum nr. 88/2008 - gr. 68 og 88 - er fjallað um slíkt og þar er vísað í lög nr. 31/1990 sem beinlínis fjalla um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Hér er tilvitnun í gr. 68 og 88 í fyrrnefndu lögunum:

Lög nr. 88/2008 - gr. 88

Hrunstjórnin gerði ekkert í þessum málum í haust - EKKERT. Hugsið ykkur ef sú stjórn hefði haft döngun í sér til að frysta allt strax og hindra öll stór viðskipti. Værum við í annarri stöðu í dag? Hefði þessu fólki tekist að mjólka bankana og fjárhirslur þjóðarinnar eins og raun virðist bera vitni? Munið þið eftir þegar Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra "til nokkurra daga" rétt áður en bankinn féll? Það eru 90 milljarðar íslenskra króna á núvirði. Einn sjöundi hluti Icesave. Hvað varð um þá peninga í ljósi þessara Kaupþingslána og meintra undanskota stærstu eigenda í skattaskúmaskot?

Er ekki kominn tími á gjalddaga?

Stöð 2 og RÚV 28. júlí 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Snákar í jakkafötum með testosteróneitrun

Anna vinkona benti á þessa grein á fésbókinni. Greinin er frá 2006 og smellpassar við umræðuna þessa dagana um siðleysi, siðblindu og almennt  andlegt heilbrigði vissra hópa í samfélaginu og fleira í þá veru. Þessum pælingum Kristjáns, Hare og Babiak til áhrifsauka og staðfæringar bendi ég á nýjustu bloggfærslu Egils Helga og sýkópatapistil Stefáns Snævarr. Hér er svo einnig fróðleg grein um þá kenningu að testosteróneitrun hafi lagt efnahag heimsins í rúst. Í því sambandi er vert að geta þess að testosterón er aðalkarlhormónið sem myndast einkum í eistum.

Kristján G. Arngrímsson - Snákar í jakkafötum - Moggi 7. júní 2006


Dagar Kompáss taldir?

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég pistil um ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum og birti auk þess pistil um sama efni af Morgunvakt Rásar 2. Í honum fór ég fram á við mennta- og fjármálaráðherra að veitt yrði fé til að stofna og reka sjálfstæðan og óháðan rannsóknar- og upplýsingahóp fjölmiðla. Þetta ætti að vera auðsótt mál og oft var þörf en nú er nauðsyn. Ríkisstjórnin hefur ekkert að fela, er það? Þótt fréttastofur og hefðbundnir fjölmiðlar séu góðra gjalda verðir svo langt sem þeir ná, er ekki nóg að fá aðeins 2 mínútna frétt eða þriggja dálka grein af stórmálum og síðan ekki söguna meir. Fréttirnar þarf að setja í samhengi, grafa og grufla, tengja og skýra, finna orsakir og afleiðingar, komast að niðurstöðu og fylgja fréttunum eftir.

Ég, eins og svo ótalmargir aðrir, hef beðið eftir að Kompás kæmi aftur á skjáinn en ekkert hefur bólað á honum. Silfur Egils hætti í maí, kemur væntanlega ekki aftur fyrr en í september og Kastljósið fór skyndilega í sumarfrí. Um þessar mundir er því engar fréttaskýringar að fá í sjónvarpi og þótt Spegillinn standi sannarlega fyrir sínu vantar myndrænu útfærsluna. Þetta er fáránleg staða sem almenningi er boðið upp á af fjölmiðlunum. Við þurfum á miklu öflugri fjölmiðlun að halda en hægt er að sinna nú miðað við samdrátt og niðurskurð. Eða er kannski eitthvað galið við forganginn hjá miðlunum? Það skyldi þó aldrei vera.

Í Mogganum í dag er sagt að dagar Kompáss séu taldir. Ég neita að trúa því. Skortur á gagnrýnni fjölmiðlun á gróðærisárunum og í aðdraganda hruns hefur orðið okkur dýrkeyptur. Við verðum að læra af þeirri reynslu og efla fjölmiðlunina ef eitthvað er. Hlustið á Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, í myndböndunum neðst í þessum pistli. Við getum ekki haft miklar væntingar til einkarekinna fjölmiðla í eigu sjálfra útrásarauðmannanna sem eiga risastóran þátt í stöðu okkar í dag og því sem rannsaka þarf. En við getum gert miklar kröfur til Ríkisfjölmiðilsins sem við eigum og kostum sjálf. Og til ríkisstjórnarinnar sem fer með fjárveitingarvaldið.

Hér fyrir neðan er greinin úr Mogganum í dag (smellið þar til læsileg stærð fæst) og valin sýnishorn af umfjöllun Kompáss um mikilvæg mál í íslensku samfélagi. Ég vil fá meira af slíku - ekki er vanþörf á um þessar mundir! Set líka inn umfjöllun um Kompás og viðtöl úr Kastljósi og Spjalli Sölva.

Morgunblaðið 29. júlí 2009

Dagar Kompáss taldir - Moggi 29. júlí 2009

Kompás 20. nóvember 2007 - um Seðlabankann, vexti og verðbólgu

 

Kompás 13. október 2008 - um efnahagskreppuna

 

Kompás 20. október 2008 - um útrásina

 

Kompás 15. apríl 2008 - um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum

 

Kompás 29. apríl 2008 - um olíuslys

 

Kompásmál í Kastljósi 27. janúar 2009

 

Sölvi Tryggva spjallar við Kompássmenn - Skjár 1 - 3. apríl 2009

 


Kannski hefði ég átt að gera það

Flestir kannast við þegar eitthvað hverfur ekki úr huga manns klukkustundum, dögum og jafnvel vikum saman. Maður fær eitthvað á heilann. Það getur verið lag, setning, hugmynd eða hvað sem er. Þetta myndbrot hefur varla vikið úr huga mér upp á síðkastið. Setningin syngur í huganum endalaust og ég get ekki bægt frá mér spurningunni: "What if he had...?" Ef hann hefði gert það... Hvað þá? Væri staðan eitthvað öðruvísi í dag? Verst er, að það er ómögulegt að segja. Spurningunni verður aldrei svarað.

BBC 2 - Hard Talk - Geir Haarde

 

Allt viðtalið - 12. febrúar 2009



Hvað sögðu auðmennirnir þá?

Í ljósi nýjustu frétta um glæpina í bönkunum fyrir og eftir yfirtöku þeirra er ekki úr vegi að rifja upp orð og viðbrögð eigenda þeirra og yfirmanna í kringum hrunið og eftir það. Fjölmargir sögðu margt fleira á ýmsum vettvangi en ætli þetta nægi ekki í bili.

En fyrst - fréttir kvöldsins og samviskuspurningar: Útrásardólgar og bankamenn sáu pening í orkunni okkar, keyptu sig inn í REI og stofnuðu Geysi Green Energy. REI-málið var stöðvað en GGE keypti þriðjung í Hitaveitu Suðurnesja og var nú að kaupa meira í samvinnu við kanadíska fyrirtækið Magma Energy. Eins og sjá má af nýjustu fréttum skutu dólgarnir undan gríðarlegum fjármunum. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að þeir standi ekki á bak við kaupin á afnotunum af orkuauðlindunum? Hvers vegna er Bjarni Ármannsson að koma heim? Hann var einn stofnenda GGE sem bankastjóri Glitnis, stjórnarformaður og stór eigandi í REI og reyndi að sameina fyrirtækin. Hvernig stendur á því að aðeins einn einasti þingmaður, Atli Gíslason, og enginn ráðherra hefur tjáð sig um þessa nýjustu gjörninga. Hugsið málið.

RÚV - 27. júlí 2009 - meira hér


Stöð 2 og RÚV - 27. júlí 2009

 

Og hefst þá upprifjunin:

Lárus Welding - Glitnir - Silfur Egils 21. september 2008


Jón Ásgeir Jóhannesson - Glitnir - Stöð 2 - 30. september 2008

 

Þorsteinn Már Baldvinsson - Glitnir - Kastljós 30. september 2008

 

Sigurður Einarsson - Kaupþing - Kastljós 6. október 2008

 

Sigurjón Þ. Árnason - Landsbankinn - Kastljós 8. október 2008

 

Jón Ásgeir Jóhannesson - Glitnir - Silfur Egils 12. október 2008

 

Sigurjón Þ. Árnason - Landsbankinn - Ísland í dag 13. október 2008

 

Jón Ásgeir Jóhannesson - Glitnir - Hrafnaþing 20. október 2008

 

Björgólfur Thor Björgólfsson - Landsbankinn - Kompás 27. október 2008

 

Sigurður Einarsson - Kaupþing - Markaðurinn með BI 8. nóvember 2008

 

Björgólfur Guðmundsson - Landsbankinn - Kastljós 13. nóvember 2008

 


Glæpur og refsing?

Ríkissjónvarpið var með stórfrétt í kvöld um lán Landsbankans til fyrirtækja Björgólfsfeðga. Samkvæmt henni var framinn stórfelldur glæpur þegar Landsbankinn lánaði fyrirtækjum tengdum eigendum sínum langt umfram það sem lög leyfa og tjónið er metið í hundruðum milljarða.

Hér kemur fram að samkvæmt 30. grein laga um fjármálafyrirtæki (lög nr. 161/2002) megi lán til eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Eiginfjárgrunnurinn er síðan skilgreindur frekar í gr. 84 og 85. Samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri Landsbankans 2008 (í þessu tilfelli hálfsársuppgjör eða sex mánaða uppgjör frá 30. júní 2008) er eiginfjárgrunnur Landsbankans 319,6 milljarðar (neðst á bls. 34), sem þýðir að bankinn má ekki lána "innbyrðis tengdum viðskiptamönnum" meira en tæpa 80 milljarða (79,65). En lítum á hve mikið fé bankinn átti þátt í að lána fyrirtækjum Björgólfsfeðga (og Magnúsar) samkvæmt frétt RÚV:

Landsbankalán til Björgólfsfeðga - RÚV 26.7.09

Þarna eru ótalin þau fyrirtæki sem minnst var á fyrr í fréttinni, Grettir með 60 milljarða og Novator Pharma 43 milljarða. En á þessum lista eru lánin komin upp í 365 milljarða og þó vantar upphæð á eitt fyrirtækið. Gerum ráð fyrir að Landsbankinn hafi lánað þetta allt (fram kemur í fréttinni að hann hafi átt hlut í einhverjum lánanna). Og gerum ráð fyrir að lánin til Grettis og NP (103 milljarðar) jafni upphæðir á móti. Þar sem eiginfjárgrunnurinn var aðeins 319,6 milljarðar er þarna búið að lána langt umfram 100% af honum, eða um 114%. Munum að bannað er samkvæmt lögum að lána meira en 25% af grunninum, eða 80 milljarða. Þetta slagar í að vera fimmföld leyfileg upphæð. Undir lok fréttarinnar tók ég sérstaklega eftir þessu:

Eva Joly sagði í viðtali við Stöð 2 þann 16. júní að réttarkerfi heimsins væru sniðin til að halda hlífiskildi yfir hinum ríku og valdamiklu. Þeir sleppi við refsingu eftir að dómar hafi verið kveðnir upp. Engu sé líkara en að hluti samfélagsins sé hafinn yfir lög. Ætlum við að láta það viðgangast í stærsta fjársvikamáli sem vitað er um þar sem heil þjóð er sett á hausinn? Eða verður yfirskrift íslenska efnahagshrunsins: Efnahagsglæpir og refsileysi?

Stöð 2 - 16. júní 2009

 

Verður refsað fyrir þennan glæp - og þá hverjum? Verður framhald á fréttinni á RÚV? Verður rýnt á svipaðan hátt í lánabækur hinna bankanna? Við bíðum spennt.


Ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum

Mér eru fjölmiðlarnir hugleiknir og finnst ansi mikið vanta upp á að þeir sinni því sem má kalla skyldu þeirra - upplýsingagjöf, rannsóknarfréttamennsku og skýringum á atburðum fyrir almenning. Blaða- og fréttamenn komust sjálfir að þeirri niðurstöðu að þeir hafi brugðist í aðdraganda hrunsins, ef ég man rétt. Ekki verið nógu vakandi og of trúgjarnir - eins og við hin.

Blaðamannafélag Íslands - BlaðamaðurinnMér hættir til að verja þá, því ég veit við hvaða aðstæður þeir búa - gríðarlegan tímaskort, ómanneskjulegt vinnuálag og í mörgum tilfellum skítalaun. Viðmælendur svara ekki spurningum þeirra og stundum gátu (geta?) ágengar, beittar spurningar jafngilt uppsögn viðkomandi blaða/fréttamanns. Hátt settir stjórnmálamenn töluðu ekki við gagnrýna blaða/fréttamenn og vildu sjálfir ráða spurningunum. Allt mögulegt hefur viðgengist. En sumir voru líka nátengdir persónum og leikendum í atburðum gróðærisins - og eru enn.

Kannski er ekki við blaða- eða fréttamennina sjálfa að sakast að öllu leyti, heldur vinnuveitendur þeirra, sjálfa fjölmiðlana. Einkum fyrir að skapa þeim ekki þær aðstæður sem nauðsynlegar eru til að geta sinnt starfinu almennilega, sérhæfa sig í málaflokkum og gefa þeim pláss eða tíma til að koma upplýsingunum á framfæri. Vissulega er þó ýmislegt mjög vel gert og bæði vilji og geta fyrir hendi bæði í stéttinni og utan hennar.

Mér finnst að í vetur, á þessum gríðarlegu umbrotatímum í íslensku samfélagi, hafi mestu upplýsingarnar, málefnalegasta umræðan og bestu Blaðamannafélag Íslands - Blaðamannaverðlaunfréttaskýringarnar verið á netinu - þar af mikið á blogginu. Og um þessar mundir er eiginlega einn helsti rannsóknarblaðamaðurinn okkar hún Sigrún Davíðsdóttir í Speglinum á RÚV og á Eyjunni. Sigrún hefur verið óþreytandi við að segja frá ýmsum vafasömum viðskiptum og fleiru sem viðkemur hruninu. Lesið og hlustið t.d. á pistla hennar í vikunni um Endurreista og efalausa banka og Bruðl og sjónhverfingar.

Ég sakna Kompáss mjög. Hef sagt það áður og segi enn. Okkur bráðvantar svona þátt og ég skil ekki af hverju RÚV hefur ekki tekið þáttinn upp á arma sína en mig grunar að um fjárskort sé að ræða. Eins og ég kem inn á í pistlinum hér að neðan vil ég að ríkisstjórnin veiti ríflegri upphæð til að koma saman sjálfstæðum, óháðum rannsóknarhópi fjölmiðlafólks sem hefði það hlutverk að rannsaka, afhjúpa, upplýsa og útskýra. Frá upphafi hruns hafa fjölmargir sérfræðingar, reynsluboltar og leikmenn hamrað á því, að upplýsingar séu grundvallaratriði til að almenningur geti skilið og tekið þátt í þeirri hugarfarsbreytingu og  uppbyggingu sem verður að eiga sér stað á Íslandi. Slík fjárveiting ætti að vera jafnsjálfsögð og fjárveiting til annars konar rannsókna á hruninu. Upplýsingar eru nefnilega nátengdar réttlætinu.

En hér er pistillinn minn á Morgunvakt Rásar 2 í gær - hljóðskrá hengd við neðst.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Í tæpt ár hefur mér fundist ég vera stödd í hræðilegri martröð. Stundum hef ég verið þess fullviss, að einn daginn ranki ég við mér og komist að raun um, að þetta hafi bara verið vondur draumur. En martröðin heldur áfram og verður sífellt skelfilegri eftir því sem fleiri spillingarmál koma upp á yfirborðið. Þeim virðist ekki ætla að linna og botninum er greinilega ekki náð ennþá.

Ég er orðin kúguppgefin á martröðinni og þrái heilbrigt samfélag, lausnir, heiðarleika, réttlæti og von. En það eina sem blasir við er meiri spilling, hræðileg vanhæfni, undarleg leynd og endalausar deilur um allt. Stundum finn ég varla heila brú í þjóðfélagsumræðunni, alveg sama hvernig ég leita. Sérfræðingar karpa, einn segir þetta og sá næsti eitthvað allt annað. Þeim virðist jafn fyrirmunað að finna sameiginlega lausn á vandamálum þjóðarinnar og alþingismönnum. Það er sárt að horfa upp á þetta og enginn fjölmiðill hefur ennþá tekið að sér að skýra út ólík viðhorf, fólkið á bak við þau, bera saman skoðanir, orsakir og afleiðingar - og reyna að komast að niðurstöðu. Er það kannski ekki hægt? Maður spyr sig...

Ég hef komist rækilega að raun um, að það er miklu meira en full vinna að reyna að fylgjast með öllu sem hefur gerst síðan hrunið varð, halda því til haga og reyna að tengja saman menn og málefni. Hvað þá að fylgja málum eftir og halda þeim lifandi í umræðunni. Ef vel ætti að vera þyrfti einhver fjölmiðill að hafa hóp fólks í vinnu sem gerir ekkert annað en einmitt þetta. En sú er aldeilis ekki raunin.

Í mestu hamförum af mannavöldum sem íslenska þjóðin hefur upplifað hafa fjölmiðlar einmitt neyðst til að bregðast þveröfugt við. Skera niður og segja upp fólki þegar þjóðin þarf á öflugum fjölmiðlum að halda sem aldrei fyrr. Eini fréttaskýringaþátturinn í sjónvarpi, Kastljós, fór meira að segja í frí í júlí á meðan fjallað er um tvö umdeildustu málin um þessar mundir á Alþingi, ESB og Icesave. Væntanlega er fríið til komið vegna niðurskurðar og sparnaðar í rekstri RÚV.

Ekki hefur fjarvera Kastljóss náð að fylla Stöð 2 innblæstri og hvatt til dáða á þeim bænum. Frá áramótum hefur Ísland í dag verið undirlagt af yfirborðskenndu léttmetishjali - með örfáum undantekningum. Léttmetið er fínt í bland - en er það svo miklu ódýrara í vinnslu en alvörumálin? Því fylgir ábyrgð að reka fjölmiðla og eigendur þeirra ættu að sjá sóma sinn í, að huga að upplýsingagildi efnisins ekki síður en skemmtanagildi þess.

Mig langar að beina máli mínu til ríkisstjórnarinnar, einkum mennta- og fjármálaráðherra, og fara fram á að veitt verði rausnarlegri upphæð til reksturs rannsóknarhóps fjölmiðla sem hefði það hlutverk að rannsaka og upplýsa þjóðina um öll helstu mál hrunsins. Í hópnum gætu verið valdir fulltrúar frá öllum fjölmiðlum - og alls ekki má gleyma netmiðlum og bloggi. Oftar en ekki hafa langbestu upplýsingarnar komið fram á netinu og málefnalegustu umræðurnar farið fram þar. En netfjölmiðlun nær bara ekki til nema takmarkaðs fjölda landsmanna.

Fyrir utan fræðslu- og upplýsingagildi þessa fjölmiðlahóps fyrir almenning, gæti vinna hans örugglega gagnast rannsóknaraðilum hrunsins. Vinna hópsins væri líka aðhald við embættin, því upplýsingar hans um alvarleg mál hljóta óhjákvæmilega að koma inn á borð hjá þeim.

Upplýsingar og réttlæti kostar peninga - en er þjóðinni lífsnauðsynlegt.

*************************

Í tengslum við þessar pælingar minni ég á viðtöl við Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, sem var hér á ferð í lok maí. Hann lýsir m.a. hvernig útrásardólgar höfðu áhrif á skrif blaðamanna í Bretlandi þegar verið var að markaðssetja Icesave og fleira. Og fyrst þeir gátu blekkt breska blaðamenn gátu þeir vitaskuld blekkt þá íslensku líka - enda voru (og eru) þeir í mörgum tilfellum vinnuveitendur þeirra. Sorglegt en satt. Takið sérstaklega eftir þessum orðum Aidans White: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins."

Aidan White í Kastljósi 28. maí 2009

 Aidan White í fréttum Stöðvar 2 - 28. maí 2009

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sterk og ákveðin forysta Sjálfstæðisflokksins

Icesave er mál málanna þessa dagana, vikurnar og mánuðina. Það væri að æra óstöðugan að bæta á umfjöllun um það volaða mál sem er í öllum fjölmiðlum og allir hafa einhverja skoðun á. En það eru helst skoðanir alþingismanna og sérfræðinga sem komast að í fjölmiðlunum. Við hin látum okkur nægja netið og bloggið. Stuðningur við Icesave-samninginn á þingi er óljós í meira lagi þessa dagana og sífellt eru nýir fletir á málinu afhjúpaðir - enginn góður.

Afstaða stjórnarþingmanna er óskýr - en afstaða stjórnarandstöðu alveg klár. Stjórnarandstöðuflokkarnir vilja ekki samþykkja samninginn. En hvað vilja þeir gera? Hver er þeirra lausn?

Hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins er sterkur og ákveðinn leiðtogi sem hlýtur að vera dáður af flokksmönnum sínum eins og hefð er fyrir í flokknum - með nokkrum undantekningum þó. Í fréttum RÚV í kvöld var hann spurður hvað hann og flokkurinn hans vildi gera í Icesave-málinu. Svar formannsins var afdráttarlaust, ákveðið og afgerandi eins og hans er von og vísa. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi beðið hugmyndafræðilegt gjaldþrot með falli frjálshyggjunnar er nýi leiðtoginn greinilega sá, sem mun hífa flokkinn úr öldudalnum með vasklegri framgöngu sinni, ákveðni, hugmyndauðgi, málefnalegum svörum og frábærum lausnum.

Það sem mér finnst eiginlega verst við þetta viðtal, er að fréttakonan lét hann komast upp með þetta svar - ef svar skal kalla.


Geðveiki gróðærisins

Ég sá aldrei þessa þætti en frétti af nokkrum, meðal annars þessum. Þessi talsmáti, hugsunarháttur og lífsstíll virðist hafa verið ríkjandi meðal hóps fólks í gróðærinu. Mér finnst þetta jaðra við geðveiki.


Ég á mér draum

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband