Mikið hefur verið fjallað um hinn sögulega borgarstjórnarfund á fimmtudaginn og mótmælin sem þar voru viðhöfð og sýnist sitt hverjum. Ég hef sett inn athugasemdir á ýmsum bloggsíðum þar sem ég fagna þessum mótmælum og finnst þau alls ekki í ætt við skrílslæti eins og sumir vilja vera láta. Ég sat límd fyrir framan sjónvarpið á meðan á þessu stóð, skipti ört milli stöðva og fannst risið ekki hátt á forsvarsmönnum nýja meirihlutans. Loksins, loksins lét fólk í sér heyra og það eftirminnilega, enda þorra Reykvíkinga, og reyndar landsmanna allra, gróflega misboðið með valdaráninu. Frekar ætti að kenna valdaránið við skríl en mótmæli almennings sem hefur fengið sig fullsaddan af siðlausum embættisveitingum, baktjaldamakki, hrossakaupum, ábyrgðarleysi stjórnmálamanna og fáránlegri sóun á skattpeningum.
Í Vikulokunum á Rás 1 í morgun var Hallgrímur Thorsteinsson með þrjá gesti, þau Kjartan Magnússon úr Sjálfstæðisflokki, Oddnýju Sturludóttur úr Samfylkingu og Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðing, sem væntanlega var þar sem hlutlaus áhorfandi. "Hvað finnst ykkur um það sem gerðist þarna?" spurði Hallgrímur viðmælendur sína. Þau Kjartan og Oddný höfðu skiljanlega ólíka sýn á atburðinn.Svo spurði hann Einar Mar "Var þetta vanvirða við lýðræðið?" og Einar Mar svaraði eitthvað á þessa leið: "Nei, veistu ég held ekki. Ég er nú svolítið hrifinn af svona mótmælum og þegar almenningur lætur til sín taka. Við köllum þetta óhefðbundna stjórnmálaþátttöku... (Innskot Oddnýjar: Borgaralega óhlýðni.) ...eða borgaralega óhlýðni í stjórnmálafræðinni. Íslendingar eru alveg rosalega latir að láta til sín taka og alveg ómögulegir í þessari borgaralegu óhlýðni. Þannig að ég eiginlega bara dáist að fólki þegar það mætir svona og lætur í sér heyra. Mér finnst það bara hið besta mál."
Ég sá einhvers staðar að Jenný Anna, sá stórkostlegi nýyrðasmiður, kallar þetta "hljóðsettan lýðræðisgjörning" sem á jafnvel enn betur við hér en borgaraleg óhlýðni eða óhefðbundin stjórnmálaþátttaka.
Þetta finnst mér vera kjarni málsins og til að bæta um betur birti ég hér að neðan pistil Illuga Jökulssonar úr 24 stundum í dag. Ég hef verið mikill aðdáandi Illuga um langt árabil þótt ekki þekki ég hann neitt persónulega. Honum er einkar lagið að orða hlutina þannig, að mér finnst hann hafa lesið hug minn og hjarta og það gerir hann nú sem endranær.
Vonandi var atburðurinn í Ráðhúsi Reykjavíkur á fimmtudaginn bara forsmekkurinn að því sem koma skal - að landsmenn noti lýðræðið og taki virkan þátt í að móta líf sitt og umhverfi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
19.1.2008
Oft ratast kjöftugum satt á munn!


Kannski er það líka þessi eiginleiki sem heillar fjölmiðlamennina sem fá þá í þættina sína. Þeir vekja athygli fyrir öfgafullar skoðanir sínar og athygli er þáttastjórnendum lífsnauðsynleg. Hvaða skýring önnur gæti verið á því, að Egill Helgason bauð upp á Hannes Hólmstein í Silfrinu til að tala um loftslagsbreytingar seinni part árs í fyrra? Eða núna síðast í Kiljunni, sem annars er ágætur bókmenntaþáttur, þar sem Hannes og Egill skoðuðu saman myndir af lífsferli Davíðs Oddssonar og Hannes flutti fjálglegar skýringar með myndunum. Þótt ég túlki hugtakið bókmenntir mjög vítt fæ ég ekki séð að þessi myndaskoðun geti á neinn hátt flokkast undir bókmenntir, jafnvel þó að Hannes sé að gefa út myndabók um ofurhetjuna sína.

Í þættinum Mannamál á Stöð 2 síðastliðinn sunnudag gerðist merkilegur atburður sem ég hef þó ekki séð mikið fjallað um. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skilgreindi þar mjög skýrt og skilmerkilega hvað í því felst að vera Sjálfstæðismaður, sem líkast til nær yfir alla þá, sem eru skráðir í þann flokk og/eða kjósa hann. Ég var búin að horfa á þáttinn á Netinu, en yfirlætislaus og skemmtileg færsla hjá bloggvenzli mínu, Steingrími Helgasyni, varð til þess að ég horfði aftur og hlustaði betur. Ég fékk hugljómun.
Þar sem ég hef sjálf betra sjónminni en heyrnar, og reikna með að fleiri séu þannig gerðir, tók ég á það ráð að skrifa niður skilgreiningu Hannesar Hólmsteins á Sjálfstæðismönnum orð fyrir orð. Hún hljómar svona:

Þar höfum við það svart á hvítu. Slóð á þennan hluta Mannamáls er hér ef einhver vill líka horfa, hlusta og sannreyna orð Hannesar Hólmsteins. Hann sagði þetta - í alvöru.
Skýrara og skilmerkilegra getur það ekki verið. Sjálfstæðismenn eru ekki pólitískir, fylgja bara sínum foringja eins og sauðkindur sínum forystusauð. Þeir hafa bara áhuga á því að græða og grilla og hugsa um það eitt að bæta kjör sín og sinna, láta foringjann um pólitíkina. Væntanlega er þeim slétt sama um alla hina. En vinstrimenn, sem virðast samkvæmt skilgreiningu Hannesar einmitt vera allir hinir, eru pólitískir upp til hópa og reyna að leysa lífsgáturnar, að líkindum þjóðfélagsmál sem þarf að íhuga, ræða og afgreiða.
Mig grunar að þarna sé Hannes Hólmsteinn að orða, svona líka snilldarlega, það sem ansi margir vissu almennt fyrir og eru búnir að vita lengi, lengi.
Lífstíll | Breytt 16.2.2008 kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)