Færsluflokkur: Bloggar
Svik, blekkingar, lygar, leyndarmál, þjófnaður, bankarán, landráð... en það má ekki leggja hald á eigur þessara manna - það væri brot á mannréttindum þeirra. Er ekki allt í lagi? Stutt samantekt Egils hér. Á laugardagsfundunum á Austurvelli er m.a. verið að krefjast þess að þessir menn hljóti makleg málagjöld en fólk er hætt að mæta. Af hverju? Er öllum sama? Viljum við láta þetta óátalið? Ja... ekki ég. Og við getum verið alveg handviss um að þótt hér sé verið að tala um Kaupþing þá hefur ástandið ekki verið mikið skárra í hinum bönkunum. Ég er að tala um t.d. þetta...
Og þetta... (smellið þar til læsileg stærð fæst)
Svo berast þær fréttir að Kristján Möller og Björgvin G. Sigurðsson, bankamála- og viðskiptaráðherra - sem báðir voru í ríkisstjórninni sem aðhafðist ekkert hvorki fyrir né eftir hrunið - hafi lent í fyrsta sæti í prófkjörum Samfylkingarinnar í sínum kjördæmum. Og Siv Friðleifsdóttir efst hjá Framsókn. Og Alfreð valtaði yfir Sigmund Davíð. Vill fólk það sama aftur, semsagt? Ja... maður spyr sig. Þetta virkar ógnvekjandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.3.2009
Tónleikar sem enginn má missa af
Ég hef bara tvisvar farið á tónleika hjá honum þótt hann hafi alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Samt hefur hann haldið tónleika á hverju hausti í guðmávitahvaðmörgár. Ég hef kynnst honum undanfarna mánuði á baráttunni fyrir betri heimi og betra Íslandi og gegnumheilli og óeigingjarnari hugsjónamaður held ég sé varla til.
Hann kallar sig söngvaskáld - sem mér finnst svo fallegt orð - og hann heitir Hörður Torfason. Mánuðum saman hefur hann hjálpað okkur hinum. Hjálpað okkur til að öðlast sameiginlega rödd í hremmingunum sem hafa skekið þjóðfélagið okkar. Hann hefur staðið fyrir hverjum fundinum á fætur öðrum á Austurvelli í hvað... 22 vikur. Það eru rúmir 5 mánuðir. Og við höfum náð undraverðum árangri vegna þess að sameinuð stöndum við, sundruð föllum við. Svo einfalt er það.
Allan þennan tíma hefur Hörður verið launalaus og helgað sig baráttunni. Nú er komið að okkur að sýna þakklæti okkar, virðingu og vináttu og mæta á tónleika sem Hörður ætlar að halda næsta þriðjudagskvöld, 10. mars, í Borgarleikhúsinu. Ég er búin að kaupa mína miða og vonast til að sjá sem flesta á þriðjudagskvöldið.
Slóðin er: www.midi.is og síminn í Borgarleikhúsinu er 568 8000. Öll saman nú - sjáumst!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.3.2009
Álit fagfólks óskast
Í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi var sagt frá niðurstöðum skoðanakönnunar. Þar kom fram að flokkarnir tveir sem leiddu íslensku þjóðina þráðbeint til glötunar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, fá samtals 41,6% atkvæða. Tæpan helming. Flokkarnir sem klúðruðu velflestu í 12 ára stjórnarsetu sinni með skelfilegum afleiðingum fyrir land og þjóð.
Í tilefni af þessari niðurstöðu langar mig að biðja um álit geðlækna og sálfræðinga á íslensku þjóðarsálinni. Öldum saman hefur þessi þjóð, sem þrátt fyrir allt hafði - og hefur - svo ótalmargt til að vera stolt af og fulla ástæðu til að bera höfuðið hátt, lotið vilja einhverra(r) herra(þjóðar) og kysst vöndinn hvað eftir annað.
Ég spyr viðkomandi fagfólk: Hvað veldur því að íslensk þjóð heldur áfram að kyssa vöndinn? Hvernig í ósköpunum stendur á því að svona stór hluti kjósenda vill frekar annað pungspark en endurreisn, samvinnu, sátt, samlíðun og sæmilegt jafnræði? Var síðasta pungspark ekki nógu andskoti vont? Þjást Íslendingar af innbyggðum masókisma eða nenna þeir bara ekki að hugsa? Vill fólk kannski bara græða á daginn, grilla á kvöldin, láta aðra um að hugsa fyrir sig og glæpamennina arðræna sig aftur? Er nokkur furða að maður spyrji: Hvað amar að íslenskum kjósendum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
5.3.2009
Ekki missa af þessu...
...þið sem sáuð ekki Kastljósið í kvöld! Litla, gula hænan er aldrei langt undan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tilkynnt hefur verið að Þorvaldur Gylfason hafi hlotið Menningarverðlaun DV í fræðaflokki fyrir greinaskrif sín um hagfræði og efnahagsmál. Fáir eru betur að slíkri viðurkenningu komnir og ekki er víst að ástand mála hér á landi væri eins slæmt og raun ber vitni ef hlustað hefði verið á Þorvald. Hér er nýjasta greinin hans úr Fréttablaðinu í dag. Til hamingju, Þorvaldur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.3.2009
Borgarahreyfingin - nýtt framboð
Mér líst vel á fólkið og baráttuna og óska þeim innilega til hamingju með fyrsta skrefið. Baldvin, Birgitta og Valgeir eru öll Moggabloggarar, ég veit ekki um hina. Vefur Borgarahreyfingarinnar er hér. Ég hvet alla til að kynna sér þetta nýja afl í íslenskum stjórnmálum.
Bloggar | Breytt 5.3.2009 kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
3.3.2009
Snilld
Þetta var sýnt í Kastljósi í kvöld og er algjör snilld. Vinnan á bak við svona flottar klippingar er alveg gríðarlega mikil, svo mikið veit ég, og þetta er ofboðslega vel gert. Höfundur var sagður Guðmundur Bergkvist, kannski er það þessi hér...
Lagið sem Guðmundur notar er Not Fade Away með Rolling Stones. Ég fletti því upp á YouTube að gamni og lá í hláturskasti við að horfa á gömlu brýnin í myndbandi frá 1964.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.3.2009
Flokkur í vanda og óheyrilegt bruðl
Fyrir aðeins tveimur árum gengu Sjálfstæðismenn glaðbeittir til landsfundar, hylltu foringja sína og sjálfa sig, klöppuðu hver öðrum á bakið og hrósuðu sér fyrir velgengni Íslands. Þá þegar voru blikur á lofti í efnahag bankanna og landsins en þeir létu varnaðarorð sem vind um eyru þjóta og héldu sinni stefnu og striki. Hér er sýnishorn af ræðu formannsins á landsfundinum - fengin héðan.
Og hér er frægt kynningarmyndband Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2007 sem hefur farið víða um netheima undanfarna mánuði. Ég man ekki hvar ég sá það fyrst.
Um helgina hefur mikið verið rætt og ritað um drög að skýrslu Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins og niðurstaðan víða dregin saman þannig, að það hafi verið fólkið en ekki stefnan sem brást. Engu að síður erum við nú að gjalda dýru verði einmitt þessa stefnu sem troðið var ofan í kok á okkur - sumum nauðugum, öðrum viljugum. En formaðurinn gerir lítið úr skýrsludrögunum og fólkinu sem vann þau og viðurkennir engin mistök fremur en endranær.
Nú á að ganga aftur til kosninga og víðast hvar á landinu verða prófkjör hjá flestum flokkum. Sitjandi ríkisstjórn lofaði að breyta kosningalögum þannig að unnt verði að kjósa fólk - að koma á persónukjöri. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins berst gegn því þótt heyrst hafi um einhverja flokksmenn með jákvætt viðhorf gagnvart því. Ég vona að ríkisstjórninni takist að koma slíkri breytingu í gegn, það væri fyrsta skrefið í rétta átt.
Prófkjörin eru gríðarlega kostnaðarsöm - eða hafa verið gerð það af þeim sem hafa aðgang að nægu fjármagni til að "kaupa" þingsæti. Nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að sýna aðhald og hefur beint þeim tilmælum til frambjóðenda að eyða "aðeins" 2,5 milljónum á mann í prófkjörsbaráttuna - hámark. Gefum okkur að sumir eyði minna, aðrir meira, en að þetta verði meðalupphæð sem hver frambjóðandi eyðir í sókn sinni eftir öruggu þingsæti.
Ef við lítum á þá upphæð sem mánaðarlaun í eitt ár eru það 208.000 á mánuði.
Ef við tökum aðeins frambjóðendur í Reykjavík, sem eru 29, þá eru þetta samtals 72 milljónir.
Það gera 6 milljónir á mánuði í eitt ár, 3 milljónir á mánuði í 2 ár, 1,5 milljón á mánuði í 3 ár...
Bara prófkjörsbarátta frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík einni.
Flokkurinn er nú með 9 þingmenn í Reykjavík (norður+suður). Hvert þingsæti kostar þá 8 milljónir ef deilt er með samanlögðum kostnaði.
Hvað kallar maður svona nokkuð í árferði eins og nú er þar sem tala atvinnulausra er komin yfir 15.000 og fólk að missa aleiguna? Taktleysi? Siðleysi? Forstokkun? Hroka? Ég veit það ekki, en mér blöskrar. Ég hef aðeins séð eina sjálfstæðiskonu gagnrýna þetta, Dögg Pálsdóttur í bloggi sínu hér og á hún mikið hrós skilið fyrir það. Reyndar er ég ekki fastagestur á öðrum bloggum Sjálfstæðismanna, en kem þó víða við og líkast til myndi slík gagnrýni, ef einhver væri, spyrjast út.
Og ekki hef ég heyrt að frambjóðendum verði gert að upplýsa hvaðan þeir fá það fé sem þeir verja í kosningabaráttuna. Ekki eiga þetta allir handbært í rassvasanum. Guðbjörg Hildur Kolbeins ýjar að því að einn alþingismaður hafi verið í boði Baugs í síðustu kosningum. Það er með ólíkindum að ekki séu til almennar reglur um gagnsæjar fjárreiður til að svona aðdróttanir séu ekki að þvælast fyrir - ef ósannar eru. Hver vill kjósa fólk í boði Jóns Ásgeirs, Pálma Haraldssonar, Finns Ingólfssonar, Ólafs Ólafssonar, Björgólfsfeðga - eða bara hvers sem er? Við vitum mætavel að ætlast er til að fjárstuðningur við frambjóðendur og flokka sé endurgoldinn. Allar fjárreiður, bæði einstakra frambjóðenda sem og flokka, verða að vera opin bók. Það er einfaldlega óaðskiljanlegur hluti af því, að endurvekja traust kjósenda/almennings.
En aftur að 72 milljónunum sem gera má ráð fyrir að prófkjörsbarátta sjálfstæðismanna í Reykjavík einni saman muni kosta. Og eins og ég nefni hér að ofan má gera ráð fyrir að sumir hunsi tilmælin og eyði hærri fjárhæðum, aðrir lægri, einhverjir kannski sáralitlu eins og Dögg hyggst gera. En gefum okkur að prófkjörsbarátta sjálfstæðismanna í Reykjavík kosti þetta - og hugsum til hans Nóna Sæs litla, sem fjallað var um í Kastljósi um daginn, og baráttu foreldra hans fyrir sanngjörnum bótum sem þau hafa þurft að heyja ofan á þá ómanneskjulegu sorg sem slysinu fylgdi. Svo ekki sé minnst á vægan dóm ökuníðingsins sem því olli. Berið upphæðirnar í umfjöllun Kastljóss saman við kostnað prófkjörsbaráttu sjálfstæðismanna í Reykjavík og ímyndið ykkur kostnaðinn hjá öllum flokkum á landsvísu.
Ég legg til að allir frambjóðendur í öllum flokkum leggi sömu upphæð og þeir verja til prófkjörsbaráttunnar í sjóð til styrktar Nóna Sæ til að tryggja örugga framtíð þessa litla drengs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
1.3.2009
Silfur dagsins
Fínt Silfur í dag að venju og fjölmennt.
Vettvangur dagsins 1 - Daði Rafns, Árni Snævarr, Þóra Kristín og Sveinn Andri
Vettvangur dagsins 2 - Valgeir Skagfjörð og Anna Sigrún
Þóra Arnórsdóttir um Enron myndina - Sýnd á RÚV í kvöld!
Jón Baldvin Hannibalsson með munninn fyrir neðan nefið.
Hjálmar Gíslason hjá Data Market var með stórmerkilegar upplýsingar.
Bloggar | Breytt 2.3.2009 kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.3.2009
Sölvi spjallar við áhættufjárfesti
Sölvi Tryggvason, sjónvarpsmaðurinn klári sem ég sakna mjög úr Íslandi í dag er kominn með eigin þátt á Skjá einum - Spjallið með Sölva. Þættirnir eru á laugardagskvöldum klukkan 19:55. Annar þátturinn var sendur út í gærkvöldi og þar spjallaði Sölvi m.a. við áhættufjárfestinn Jón Hannes Smárason. Ætli þetta sé almennur þankagangur áhættufjárfesta...?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)