Færsluflokkur: Bloggar

Myndir ársins

Hin árlega ljósmyndasýning Blaðaljósmyndarafélagsins var opnuð í gær. Ég hef oft farið á þessa sýningu og haft mjög gaman af. Ljósmyndun er listgrein og blaðaljósmyndarar hafa margoft sýnt hvað þeir eru góðir þótt ekki fáum við alltaf að sjá allt sem þeir gera í blöðunum. Hér eru tvö sýnishorn.

Það kemur ekki á óvart að þessi mynd hafi verið valin mynd ársins.

Mynd ársins - Mbl. Kristinn

Þetta er portrettmynd ársins - frábær!

Portrettmynd ársins - Mbl. Júlíus


Eru auðmenn "kommúnistar" samtímans?

Nú er illt í efni, maður! Illa innrættir "ofurbloggarar", stjórnmála- og fjölmiðlamenn eru að tæta æruna af útrásarvíkingum og bankamönnum. Þessum líka sauðmeinlausu gæðablóðum sem vilja öllum vel og hugsa um það eitt að hjálpa heimilunum. Ja... svo segir að minnsta kosti Hjörleifur Jakobsson, forstjóri eins af fyrirtækjum Ólafs Ólafssonar, Kjalars. Líklega er hann búinn að gleyma áróðursmynd auðmanna sem sýnd var á RÚV í nóvember 2004.

Hjörleifur líkir þessum illa innrættu gagnrýnendum auðjöfra og bankamanna við McCarthy, sem sá kommúnista í öllum hornum og ýmist svipti blásaklaust fólk lífsviðurværinu, útskúfaði því úr samfélagi manna eða hrakti það út í dauðann. Hann áttar sig ekki á því að nú er þessu öfugt farið þar sem græðgi, svik og prettir auðjöfra og bankamanna hafa svipt þúsundir atvinnunni og nú þegar hrakið nokkra örvæntingarfulla Íslendinga út í dauðann. Hjörleifur fær pláss fyrir þessa varnarræðu sína við hlið leiðara Fréttablaðsins í dag, það dugar ekkert minna.

En á forsíðu Fréttablaðsins í dag var þessi frétt sem dregur allverulega úr vægi orða Hjörleifs, hafi þau eitthvert vægi yfirhöfuð. Það sem fram kemur hér er einungis eitt örlítið dæmi af ótalmörgum.

Bankamenn bjóða lán - Fbl. 14.3.09 - smellið þar til læsileg stærð fæst

Líklega finnst Hjörleifi og öðrum þeim, sem verja þátt útrásarvíkinga og bankamanna í efnahagshruninu og líkja gagnrýni á þá við McCarthy-ofsóknirnar í Bandaríkjunum, í lagi að haga sér svona. Og svona, og svona og svona. Hjörleifur hefur kannski ekki séð þetta... eða þetta, þetta og þetta. Líkast til hefur hann heldur ekki séð myndböndin um Leppa og leynifélög - hér og hér - sem afhjúpa blekkingarleik útrásarvíkinga og bankamanna. Nei, Hjörleifur kallar þá sem bent hafa á sukkið, spillinguna og siðleysið "berserki óhróðurs" og segir bloggara skrifa "eiturpillur" sem bjóði heim óhróðri um blásaklausa útrásarvíkinga og bankamenn.  Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson

Það er fallegt af Hjörleifi að stökkva fram á ritvöllinn til varnar sínum mönnum, kannski einkum yfirmanni sínum, Ólafi Ólafssyni. Eða eru þeir félagar meðal þeirra sem skjálfa á beinunum eftir innkomu Evu Joly í rannsókn á hruninu? En kannski finnst Hjörleifi bara allt í lagi að nokkrir tugir einstaklinga geti arðrænt heila þjóð og hneppt hana í skuldafjötra til áratuga með dyggri aðstoð skeytingarlausra eftirlitsaðila, öflugra þrýstihópa og spilltra stjórnmálamanna. Mér finnst það ekki og ég áskil mér rétt til að halda áfram að gagnrýna allt þetta lið þótt það stimpli mig þar með "berserk óhróðurs" sem skrifar "eiturpillur" um þessa sárasaklausu vesalinga.

Ég ráðlegg Hjörleifi að kynna sér ENRON-málið betur og bera það saman við undangengna atburði á Íslandi auðjöfranna. Vona það besta en  búa sig undir hið versta.

Að lokum bendi ég á nýja bloggsíðu hins frábæra Andrésar Magnússonar, geðlæknis, sem hefur einstakt lag á að greina stöðuna og tjá hana á mannamáli. Fylgist með bloggi Andrésar framvegis!


Eva Joly um Ísland í norska sjónvarpinu

Eva Joly var viðmælandi Önnu Grosvold í norska sjónvarpinu í gærkvöldi. Eini gallinn við samtal þeirra var hvað það var stutt. Fleiri viðmælendur voru í þættinum og ég leyfi einum þeirra að fljóta með, Robert Wilson, rithöfundi, því mér fannst innlegg hans athyglisvert.



Ari benti á annað viðtal við Evu Joly í athugasemd við þessa færslu og ég nældi mér í það líka. Þetta er útvarpsviðtal í mynd sem útvarpað var á fimmtudagskvöldið í norska ríkisútvarpinu, NRK2. Kærar þakkir fyrir ábendinguna, Ari.
 

Græðgi, siðleysi og spilling - ennþá!

Það fauk hressilega í mig þegar ég horfði á fréttir Stöðvar 2 í kvöld. Þetta getur ekki verið annað en svik og brot á samningum sem gerðir voru í febrúar um að bíða með launahækkanir til handa launþegum. Hér ætla eigendur fyrirtækis að greiða sjálfum sér arð sem myndi nægja í áður umsamda launahækkun starfsmanna í átta ár! Samið var um frestun - væntanlega vegna þess hve fyrirtækin eru blönk... eða hvað? Varla HB Grandi fyrst þeir hyggjast ausa fé í vasa eigenda á meðan starfsfólkið má lepja dauðann úr skel og fær ekki umsamda launahækkun.

Hafa þessir menn ekkert lært? Ætlar verkalýðshreyfingin að láta þetta óátalið? En ríkisstjórnin? Einn þessara manna skuldar þjóðinni stórfé! Ætti arðgreiðslan hans ekki að renna óskipt í ríkiskassann? Það verður að stöðva svona siðlausa græðgi.


Straumur vonar

"Eva Joly birtist alltaf eins og stormsveipur, hvar sem hún kemur. Og ekki eru allir sáttir við hana, sérstaklega vegna þess að hún þykir full opinská þegar viðkvæm mál eru annars vegar." Þannig hófst umfjöllun Gísla Kristjánssonar um Evu Joly í Speglinum miðvikudaginn 11. mars, þremur dögum eftir að Eva tók íslensku þjóðina með trompi. Hún kom svo sannarlega eins og stormsveipur til Íslands og áreiðanlega eru ekki allir sáttir. Ég skal veðja að einhverjir skjálfa á beinunum núna.

Það gerist ekki oft að einhver höfði svona sterkt til heillar þjóðar. Undanfarna daga hefur farið straumur um þjóðfélagið - straumur vonar. Ferill, framkoma og ekki síst orð Evu Joly vöktu þá von með þjóðinni að ef til vill nái réttlætið fram að ganga þrátt fyrir allt - þótt síðar verði. Við skynjum öll hve nauðsynlegt það er og munum öll leggja okkar af mörkum ef með þarf. Að minnsta kosti við sem höfum hreina samvisku - og það er meirihluti þjóðarinnar. Ég efast ekki um það eitt augnablik.

Í fyrradag spurði ég ungan mann hvað hann sæi þegar hann horfði á þessa mögnuðu mynd hans Ómars af Evu Joly sem fylgir viðtalinu í Morgunblaðinu hér að neðan. Hann hugsaði sig um augnablik og svaraði síðan: "Gamla konu". Ég hló og sagði honum að hann þyrfti að læra að lesa fólk. Lesa í þessar tjáningarríku hrukkur, brosið, svipmótið og það mikilvægasta af öllu - augun. Að lesa myndir og fólk er mjög stór hluti af lesskilningi. Ég ætla ekki að segja hvað ég sé - lesi hver fyrir sig. Mikið væri gaman að fá að heyra í athugasemdum hvað fólk les út úr myndinni.

Viðtalið sjálft við Evu Joly er líka frábært, enda einn af bestu blaðamönnum landsins hér á ferðinni, Kristján Jónsson. Lesið hvert einasta orð og gleymið ekki að lesa myndina líka. Hún er risastór hluti af viðtalinu. Smellið þar til læsileg stærð fæst og Spegilsbrotið er viðfest neðst í færslunni ásamt öðru Spegilsviðtali við dómsmálaráðherra.

Eva Joly - Mbl 11.3.09


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þetta er einmitt málið!

Bergþóra Jónsdóttir - Persónukjör er þverpólitískt - Moggi 12. mars 2009


500 milljarðar til eigenda - glæpur eða vinargreiði

Borgarafundirnir sem haldnir hafa verið í Reykjavík og á Akureyri í vetur hafa verið gríðarlega fjölsóttir og ógleymanlegir þeim sem þangað hafa komið. Á þá hafa mætt og setið fyrir svörum þingmenn, ráðherrar, fjölmiðlafólk, sérfræðingar af ýmsu tagi, leikmenn - og við, fróðleiksfús almenningur sem vill fá svör. Stundum höfum við fengið þau, stundum ekki. En enginn getur sakað okkur um að hafa ekki reynt.

Í kvöld, miðvikudagskvöld, er enn einn borgarafundurinn í Reykjavík - í þetta sinn í Iðnó klukkan 20. Yfirskrift fundarins er 500 milljarðar til eigenda - glæpur eða vinargreiði. Væntanlega dylst engum við hvað er átt.

Frummælendur verða þingmennirnir Atli Gíslason og Bjarni Benediktsson og Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður. Orð Atla Gíslasonar í Silfri Egils um daginn eru ógleymanleg og Björn Þorri var í Silfrinu hér.

Í pallborði verða Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur og Jóhann G. Ásgrímsson, viðskiptafræðingur. Haraldur var gestur í Silfri Egils hér (sami þáttur og Björn Þorri var í), glærurnar sem hann notaði með erindi sínu á síðasta Borgarafundi eru hér og  Jóhann G. Ásgrímsson var í Silfrinu hér.

Er það glæpur eða vinargreiði að lána vildarvinum 500 milljarða? Þetta eru engir smáaurar. Hvað ætli hafi verið að gerast í Landsbankanum og Glitni? Hvenær kemur það upp á borð? Hér kemur ýmislegt fram eins og í fyrri myndböndum.

  Mætum á Borgarafundinn í Iðnó í kvöld klukkan átta!

Borgarafundur í Iðnó 11. mars 2009


Tónleikarnir hefjast eftir klukkutíma!

Nú fer hver að verða síðastur að drífa sig á tónleika Harðar Torfasonar í Borgarleikhúsinu núna klukkan 20. Mætið og kaupið miða við innganginn.

Hörður aflar sér tekna með tónleikahaldi og plötusölu, ekki mótmælum. Sýnum honum stuðning, þakklæti og virðingu og mætum!




mbl.is Hörður Torfason: „ólaunað og sjálfsprottið“ starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhyggjusami auðmaðurinn

Ég þekki engan sem horfir á Ísland í dag lengur - ekki eftir að þátturinn var Séðogheyrtvæddur og allt kjöt skafið af beinunum. Fólk hefur gefist upp á eilífu, gufukenndu léttmetinu en ég þrjóskast við og athuga alltaf hvað er í boði í þessum áður oft ágæta þætti.

Undanfarið hafa tveir aðilar verið í miklu uppáhaldi hjá Íslandi í dag. Frjálshyggjukonan unga með frasafyllta hríðskotakjaftinn, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, og auðmaðurinn ásjálegi, Róbert Wessman. Ég er ekki nógu vel að mér í Séðogheyrt-fræðum til að vita hvort einhver tengsl eru milli þeirra og 365 miðla, stjórnenda þáttarins eða þeirra yfirmanna. Kannski getur einhver upplýst mig um það, mér til fróðleiksauka.

Í gærkvöldi var viðtal við "umhyggjusama auðmanninn" sem ruddi út úr sér lausnum fyrir þjáða þjóð og var með ráð á færibandi. Hann talaði af mikilli samúð um "vanda heimilanna" en mest þó um vænlega kosti í uppbyggingu efnahagslífsins - að hans mati. En rifjum fyrst upp nokkur atriði.

Auðmaður þessi var fyrsta umfjöllunarefni í Nærmynd Íslands í dag þann 6. janúar sl. Næsta nærmynd var svo um Ólaf Ólafsson hjá Kjalari, Kaupþingi og fleiri fyrirtækjum. (Þennan sem skildi okkur eftir með hundruða milljarða skuld við hrunið, munið þið?)

Svo einkennilega vildi til að einmitt um þessar mundir hugðist þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, loka St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og einkavinavæða skurðstofurnar í Keflavík... Og hver ætlaði að taka við kyndlinum annar en auðmaðurinn úr Nærmyndinni! Maður varð svo aldeilis hissa! Það hvarflaði ekki að mér eitt augnablik að Nærmyndinni hafi verið ætlað að milda og mýkja almenningsálitið á auðmanninum og hryðjuverkum heilbrigðisráðherra. Seiseinei!

Nú líður og bíður og lítið heyrist um auðmanninn annað en deilur við nágranna þangað til þessi frétt kom þar sem fram kemur að téður auðmaður - eða fyrirtæki í hans eigu - hafi fengið verk við Háskólann í Reykjavík sem boðið var í þrátt fyrir að standast ekki kröfur. Úff, spillingin ennþá grasserandi? Sussu nei, auðmaðurinn hafði gefið skólanum milljarð og auðvitað fær hann eitthvað fyrir sinn snúð. Varla gefur fólk peninga af hugsjón einni saman, eða hvað? Fyrirtækið Fasteign ehf. bauð út verkið og tók tilboði auðmannsins. Ég fletti fyrirtækinu upp þegar þessi frétt kom 23.  febrúar og fann það - en nú virðist það horfið af yfirborði jarðar og þegar maður gúglar það kemur ýmislegt undarlegt upp úr kafinu. Prófið sjálf. Ætli það séu einhverjir rannsóknarblaðamenn eftir í stéttinni?

Í gærkvöldi var svo einkaviðtal Sindra Sindra við auðmanninn og lausnirnar á öllum vanda Íslendinga voru fundnar. Ekki seinna vænna. Sindri réð sér ekki fyrir hrifningu og ætlar að fá auðmanninn aftur til sín svo hann geti klárað að redda málunum. Ég er svo auðtrúa að mér dettur ekki í hug að eitthvað sé í uppsiglingu. Og ég trúi því líka alveg eins og nýju neti að fyrsta hugsun allra auðmanna þegar þeir vakna á morgnana sé: "Hvað er hægt að gera fyrir heimilin í landinu?" Auk þess hvarflar ekki að mér að auðmenn séu að dæla peningum í prófkjörskandídata á þessum gagnsæju og alltuppáborðinu tímum. Neinei.


Réttlæti, sannleikur og traust í Silfri dagsins

Eva JolyFrábært Silfur og hápunkturinn var auðvitað viðtalið við Evu Joly, rannsóknardómara. Magnað viðtal sem enginn má missa af. Egill (og Björn Jónasson, útgefandi) eiga þakkir skildar fyrir að fá þessa reyndu og skörpu konu hingað. Vonandi bera íslensk yfirvöld gæfu til að fara að ráðum hennar. Það er óralangt á milli hugmynda Evu annars vegar um 20-30 manna hóp rannsóknaraðila, innlendra og erlendra sérfræðinga í fjársvikum, og hins vegar eins sýslumanns frá Akranesi og efnahagsbrotadeildar sem situr auðum höndum. Og Eva talaði hiklaust um frystingu eigna og haldlagningu þeirra - minntist ekki á að það væri "brot á mannréttindum".

Eva Joly sagði í miðju viðtali að ef almenningur fengi ekki að vita sannleikann og réttlætinu væri ekki fullnægt væri útilokað að sáttmáli samfélagins héldist. Lokaorð hennar voru þau að réttlæti væri grundvallaratriði fyrir fólkið í landinu til að búa í sátt sem þjóð, sannleikurinn væri nauðsynlegur og traustið byggðist á þessu tvennu - réttlæti og sannleika. Nákvæmlega það sem margir hafa verið að segja hér í ýmsu samhengi og ég skrifaði um fyrir nokkrum dögum, einu sinni sem oftar. Hér eru slóðir á fréttir um Joly á mbl, eyjunni og auðvitað á bloggi Egils Helgasonar. Ekkert fannst um hana á Vísi.is.

En fleira var í Silfrinu. Ég tek undir með Agli þegar hann óskar Valgerði Bjarnadóttur til hamingju með afnám eftirlaunalaganna. Hún átti einna mestan þátt í að vekja athygli á ósómanum, viðhalda fordæmingunni og hennar fyrsta verk þegar hún settist á þing sem varaþingmaður var að flytja frumvarp um afnám eftirlaunalaganna frá 2003. Sjálfstæðismaðurinn Birgir Ármannsson stakk því ofan í formannsskúffu í sinni nefnd og sagði það ekki verða afgreitt.

Mér fannst viðtalið við Ragnar Þór Ingólfsson stórmerkilegt (sjá Ragnar Þór í Silfrinu 30. nóv. sl.) og svolítið lýsandi fyrir spillingu og siðleysi þeirra sem hafa mikið fé til "umráða" og sinnuleysi almennings gagnvart verkum þeirra - eða kannski saklaust trúnaðartraust sem er síðan svikið. Við höldum að lífeyrissjóðirnir séu að vinna fyrir okkur á meðan þeir vinna jafnvel beinlínis gegn okkur. Fólki er gert skylt að borga í þá samkvæmt lögum, og ef það ekki borgar - og sættir sig við að féð sé notað í ofurlaun, lúxusbíla og áhættufjárfestingar - þá er það hundelt með vöxtum, vaxtavöxtum, lögfræðikostnaði og fleiri slíkum skemmtilegheitum. Hámark siðleysisins er að formaður VR, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs VR og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi þegar m.a. þetta og þetta fór þar fram, Gunnar Páll Pálsson, býður sig fram aftur til að geta haldið sukkinu áfram. Eins og Ragnar Þór segir á bloggsíðu sinni hafa VR félagar nú tækifæri - í fyrsta sinn í 118 ára sögu félagsins - til að láta Gunnar Pál gjalda gjörða sinna með því að kjósa hann EKKI og sjá til þess að ný stjórn ráði nýjan forstjóra hjá lífeyrissjóðnum í leiðinni. En lítum á Silfrið.

Vettvangur dagsins -  Davíð Sch. Thorsteinsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari og Sigurður Ágústsson

 

Ragnar Þór Ingólfsson um lífeyrissjóðina

 

Eva Joly, rannsóknardómari - textað

 

Kvöldfréttir RÚV 8. mars 2009

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband