Færsluflokkur: Pepsi-deildin
17.6.2009
Ég um mig frá mér til mín
Þetta gæti orðið svolítið flókið...
16.6.2009
Forréttindastéttin og fávitarnir
Mikill er máttur peninga og valds, tengslanetsins og klíkunnar. Sigurjónsmál hin nýjustu eru sambland af ótrúlegri forherðingu, ósvífni og ósannindum. Miðað við fréttaflutning fjölmiðla í gærkvöldi mætti ætla að Sigurjón Þ. Árnason hefði átt einkalífeyrissjóð með a.m.k. 70 milljóna króna innistæðu. Leitað var álits hjá lögmanni Sigurjóns og lögmanni Landsbankans, sem væntanlega er félagi og fyrrverandi samstarfsmaður Sigurjóns. Ekki var leitað til óháðra lögmanna úti í bæ. Ætli það hefði nú ekki þjónað sannleikanum betur. Hér eru fréttir kvöldsins um málið.
Svo kom lögmaður Sigurjóns, Sigurður G. Guðjónsson, í Kastljós og talaði enn um einkalífeyrissjóð Sigurjóns. Dásamlegt.
Ég sinnti erindum fyrir son minn í gær. Hann er í námi erlendis. Ég sótti fyrir hann skattkort og fór með það í bankann. Hann þarf nefnilega að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn til að geta lifað. Strákurinn átti um 500.000 krónur í séreignarsparnaði. Ekki há upphæð, en hann er líka ungur. Bankamenn og útrásardólgar sáu til þess að um 322.000 krónur af sparnaðinum töpuðust í hruninu. Hann fær heilar 178.000 íslenskar krónur í sinn hlut. Hann hefur ekki efni á að koma heim og fær enga vinnu. Ég hef ekki efni á að heimsækja hann þegar hann útskrifast. Mér varð hugsað til Sigurjóns og 70 milljónanna hans - og sonar hans, Icesave. Tapaðist ekkert af sparnaði Sigurjóns? Ferðast hann enn á Saga-Class um heiminn og lætur okkur borga reikninginn? Litla 650 milljarða+. Maður spyr sig...
Ég fékk fróðleg bréf í gær frá manni... köllum hann bara Kristján, sem ofbýður umfjöllunin um "einkalífeyrissjóð" Sigurjóns Þ. Árnasonar og ég ætla að birta einn og segja frá því sem ég fann sjálf.
Fyrst sagði Kristján mér frá þessu. Síðan er ekki lengur opinberlega á netinu en ekkert hverfur þaðan alveg. Þarna sjáum við þrjár leiðir til lífeyrissparnaðar, þar á meðal Fjárvörslureikninga. Samkvæmt nýjustu upplýsingum um þá reikninga eru sjóðfélagar í "einkalífeyrissjóði" Sigurjóns 2.514 í janúar 2009 (sjá fylgiskjal neðst í færslu). Lán Sigurjóns er hjá Fjárvörslureikningi III. Á síðunni sem vísað er í er skjal merkt: 3) Samningur um Fjárvörslureikninga Landsbankans-Landsbréfa (sjá líka fylgiskjal neðst í færslu). Skoðum það.
Í samningnum kemur fram að Fjárvörslureikningur III fjárfestir eingöngu í FORTUNA III, alþjóðlegum verðbréfasjóði Landsbréfa (Landsbankans). Fortuna III-sjóðurinn er svokallaður sjóðasjóður, þ.e. sjóður sem fjárfestir aðeins í öðrum sjóðum.
En hvað er þessi Fortuna-sjóður og hvar er hann til húsa? Maður gúglar smá og viti menn - Fortuna-sjóðurinn er með lögheimili á Guernsey. Guernsey er ein af Ermarsundseyjunum, heyrir undir Breta og er skattaskúmaskot á borð við Sviss, Lúxemborg og Bresku Jómfrúreyjar (Tortóla).
Mín takmarkaða þekking á peningum og fjármálum og sáraeinföld rökleiðsla segir mér þetta: Sigurjón Þ. Árnason > Fjárvörslureikningur III > Fortuna III > Guernsey > Skattaskúmaskot dauðans. Einkalífeyrissjóður, hvað?
Fortuna-sjóðurinn og Guernsey er ekkert nýtt. Það er þó nokkuð síðan bankarnir fóru að bjóða t.d. kvótakóngum og öðrum sem höfðu fé milli fingra, vel eða illa fengið, að fela fyrir þá peninga fyrir skattinum. Munið þið eftir þessu, sögunni hans Ara Matt í Silfrinu? Ég fann grein úr Morgunblaðinu frá 6. janúar árið 2000 - fyrir einkavæðingu bankanna - þar sem Landsbankamenn tala fjálglega um "aflandsþjónustu". Það þýðir á mannamáli leiðir til að svíkja undan skatti. Ég fann líka þingsályktunartillögu þriggja þingmanna frá 126. löggjafarþingi 2000-2001 um afnám skattleysissvæða. Um að koma í veg fyrir að fjármagnseigendur og fyrirtæki geti komið sér hjá því að greiða til samfélagsins. Framsaga Ögmundar Jónassonar er hér. Ég leitaði ekki uppi örlög tillögunnar en giska á að hún hafi sofnað í nefnd eða verið stungið ofan í skúffu.
En nóg um hugleiðingar mínar og aftur að bréfum Kristjáns. Ég get ekki státað mig af því að skilja alveg allt sem hann segir, en líklega flest, býst ég við. Gefum Kristjáni orðið:
Þeir (RÚV) halda áfram að kalla þetta "einkaséreignarsjóð" - það er hugtak sem búið var til af Landsbankanum til að afvegleiða fólk. "Það var einkaséreignarsjóður Sigurjóns í Landsbankanum sem keypti tvö skuldabréf af Sigurjóni" segir á ruv.is - þetta er haft beint upp úr fréttatilkynningu Landsbankans. Þetta orðalag nota bæði bankinn og Sigurður G. að einhverju leyti til þess að gefa inneign Sigurjóns þá ásýnd að hún sé annars eðlis en inneignir allra annarra Íslendinga sem eiga peninga í hinum ýmsu séreignarlífeyrissjóðum.
Þótt menn gefi þessu nöfn á borð við 'einka'séreignarsjóður, er þetta hefðbundinn séreignarlífeyrissparnaður í lífeyrissjóði sem er í vörslu Landsbankans. Sigurjón er einn af sjóðsfélögunum og hans inneign í sjóðnum er ekkert meira 'einka' heldur en hver önnur inneign í séreignarlífeyrissjóðum á Íslandi.
Sjóðsfélagar fá að velja um 'tegund fjárvörslureiknings' sem fjárfest skal í (I, II eða III), en hafi sjóðurinn fjárfest í veðskuldabréfum tryggðum í fasteignum gengur það klárlega gegn skilmálum sjóðsins, sem samþykktir eru af fjármálaráðuneytinu. Hvað þá ef hann fjárfesti í veðskuldabréfum einstakra sjóðsfélaga og með tilliti til inneignar í sjóðnum. Á síðunni sem ég sendi þér fyrr í dag er tengill á annan séreignarsjóð, Íslenska lífeyrissjóðinn, sem einnig býður upp á þrjár leiðir (I, II, III). (Innsk. - sjá viðhengi neðst í færslu). Hann hefur heimild til að kaupa veðskuldabréf, skv. skilmálum. Skilmálar séreignarlífeyrissjóðs verða að vera samþykktir af fjármálaráðuneytinu og ekki voru neinir sérskilmálar fyrir Sigurjón samþykktir þar - enda hefði það ekki verið löglegt.
Hagnaður eða tap af kaupunum á skuldabréfum Sigurjóns koma enda niður á öllum sjóðsfélögum í Fjárvörslureikningi III (eða koma þeim til góða, verði ávöxtun næstu 20 ár undir 3,5%) - ekki eingöngu hluta Sigurjóns. Sjóðurinn fjárfestir fyrir alla í Fjárvörslureikningi III með sama hætti og allir í þeirri leið fá sömu ávöxtun - ávöxtunin er ekki einstaklingsbundin. Hugmyndir um slíkt eru út úr kortinu!
Ef þetta væri heimilt líkt og Sigurður G. heldur fram, væri það aldrei tengt við inneign hvers sjóðsfélaga, heldur væri það hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins að kaupa veðskuldabréf einstaklinga eða lögaðila, tryggð með veði í fasteignum. Það væri ekki bundið við einstaklinga sem ættu háar fjárhæðir hjá sjóðnum, heldur í boði fyrir fyrir annað hvort alla sjóðsfélaga eða allan almenning. Líkt og hefðbundin lífeyrissjóðslán.
Sigurður G. sagði í Kastljósi í kvöld að sjóðsfélagar í sjóðnum sem lánaði Sigurjóni hefðu "fullt forræði yfir" eign sinni í sjóðnum. Þetta er ósatt, þeir hafa einungis val um fjárvörslureikning líkt og segir í skilmálum sjóðsins. Það eru engir aðrir skilmálar sem hafa verið samþykktir fyrir þennan sjóð, með þessa kennitölu, af stjórnvöldum. Sigurður bætti síðan við: "Sigurjón á þennan sjóð" - en hann á ekki meira í sínum sjóð en ég á í mínum 600 þ.kr. sjóð. Og hvorki ég né Sigurjón getum ráðstafað okkar hluta - kerfið er ekki þannig upp sett, heldur skal sjóðsstjórn "móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum [*] tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Stjórn lífeyrissjóðs er heimilt að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja deild í deildaskiptum sjóði. " (lög um starfsemi lífeyrissjóða)
[*] eitthvað segir mér að betri kjör hafi verið í boði á markaði með skuldabréf tryggðum með veði í fasteign.
Mergur málsins er auðvitað að þetta er úttekt, en ekki bara lán. Lífeyrissjóðurinn yrði að bjóða öllum öðrum (a.m.k. öllum sjóðsfélögunum) samskonar lán og lánakjör, ef hann ætlaði að komast upp með þetta. En það er auðvitað ekki heimilt skv. skilmálum sjóðsins - sjóðurinn fjárfestir eingöngu erlendis. Þetta held ég að Sigurði hefði vel mátt vera ljóst þegar hann samdi gerninginn.
Þegar Helgi Seljan spurði í viðtalinu: "Þarf hann ekki að borga skatt af þessu?", svaraði Sigurður: "Nei, hann er að taka lán". Þetta er einnig ósatt, komist Sigurjón á einhvern hátt upp með þessa lántöku (líkt og Kaupþingsfólkið virðist vera að komast upp með niðurfellingu persónuábyrgða), mun verða litið á mismun á vaxtakjörunum á láninu og almennum vöxtum á markaði, sem tekjur. En það er annað mál.
Hannes J. Hafstein, lögfræðingur hjá Landsbankanum virðist hafa lagt blessun sína yfir gjörninginn í tölvupósti, dags. 10 des. 2008. Endurritað efni tölvupóstarins er hjálagt. Ég þekki örlítið til Hannesar og einungis af góðu. Í tölvupóstinum kemur fram mjög framsækin lagatúlkun og helst er að sjá af niðurlagi tölvupóstsins að það hafi verið pantað. Ég hef reyndar prófað það á eigin skinni að Sigurður G. getur verið mjög ágengur og þrautseigur, og hef ég séð hann sannfæra fólk á ótrúlega hæfileikaríkan hátt.
Ég bið þig að afsaka kverúlantastílinn á þessum tölvupósti, ég á bara ekki orð yfir gjörðum þessara manna og andvaraleysi fjölmiðla. Aðeins einn fjölmiðill hefur leitað álits utanaðkomandi sérfræðinga, það var Vísir sem spurði formann Landssambands lífeyrissjóða. Af hverju í ósköpunum fær ekki einhver fjölmiðill óhlutdrægan lögfræðing eða lögmann til að skoða þetta mál?
Hér kemur bréfið sem birtist í kvöldfréttunum, með nokkrum innskotum (leturbr. mínar):
--- Endurritað eftir myndskoti í kvöldfréttum sjónvarps, 15. júní 2009.---
From: Hannes J. Hafstein
Sent: 10. desember 2008 14:47
To: Friðrik Nikulásson
Subject: Einkaséreignarsjóður
Sæll.
Ég er búinn að skoða þetta mál þar sem lagt er til að sjóðurinn kaupi skuldabréf útgefið af sjóðsfélaga en til tryggingar eru fasteignir.
Um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða á þeim séreignarsparnaði sem þeim er falin ávöxtun fer eftir 28. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og þeim samningi sem gerður er við viðkomandi sjóðsfélaga. Ekki er þó heimilt að víkja frá lagaákvæðum um fjárfestingarstefnu. [*]
Þau skuldabréf sem hér eru til skoðunar falla undir 3. tl. 1. mgr. 36. gr. laganna en þar kemur fram að lífeyrissjóði sé m.a. heimilt að ávaxta fé í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 75% af metnu markaðsvirði. Ég geri ráð fyrir að skuldabréfin falli undir þessi skilyrði varðandi veðhlutfall.
Önnur ákvæði varðandi fjárfestingarheimildirnar koma einnig til skoðunar í þessu sambandi. Sérstaklega 5. mgr. 36. gr. þar sem fram kemur að samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum útgefnum af sama aðila skuli ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins.
Í þessu sambandi verður að líta á eign hvers viðskiptavinar í einka-séreignarsjóðum sem sjálfstæðan sjóð í skilningi laganna. [**] Þannig verða fjárfestingar fyrir hvern viðskiptavin að uppfylla skilyrði 36. gr. laga 129/1997.
Með vísan til ofangreinds er niðurstaðan sú að kaup á umræddum skuldabréfum séu heimil að því gefnu að fjárfestingar fyrir viðkomandi viðskiptavin í heild uppfylli skilyrði 36. gr. laga nr. 129/1997. [***]
Kveðja,
Hannes
--------------------------
[*] Það athugist að lögin setja lágmarksviðmið um í hverju sjóðum er heimilt að fjárfesta og að hvaða marki. Síðan er í ákvæðinu gert ráð fyrir að skilmálar (samþykktir af fjármálaráðuneyti sbr. 9. gr. laganna) í samningi milli vörsluaðila og sjóðsfélaga afmarki fjárfestingarheimildir. Fjárfestingarheimildir sjóðsins, leiðum I, II og II sem eru í boði, eru alveg skýrar og þær heimila ekki kaup á skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign.
[**] Þetta er lögfræðileg rökleysa. Til að byrja með er um að ræða hefðbundinn séreignarsjóð, hann er ekkert meira einka' heldur en hver annar séreignarsjóður. En fyrst og fremst er út í hött að líta megi á hvern sjóð sem sjálfstæðan sjóð í skilningi laganna'. Þetta hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum, formaður Landssambands lífeyrissjóða leiðrétti þennan misskilning. Maður er aðili í séreignarsjóði, það eru ekki til séreignarsjóðir í einkaeigu, með sérstakri sjóðsstjórn og vörsluaðila, sérstökum skilmálum og samþykktum. Og væru þeir til, þá er ekki um það að ræða í tilviki þessa viðskiptavinar.
[***] Með þessu er lögfræðingurinn að segja að, þar sem inneign hvers félaga sé sjálfstæður sjóður (sem reyndar er bull), megi bréf útgefin af einum aðila aldrei fara yfir 10% af nettó inneign. M.ö.o., þessi kaup séu heimil ef bréfin sem útgefin eru af Sigurjóni nema ekki meira en 10% af hreinni eign Sigurjóns sjálfs. Hann verður því að hafa átt a.m.k. 700 milljónir samtals í sínum persónulega séreignarsparnaði, til þess að þetta gæti talist heimilt að mati lögfræðingsins.
Ofan á allt annað, finnst mér kostulegt ef maðurinn er er búinn að læsa 700 m.kr. í séreignarsjóði, en getur ekki losað 70 m.kr. öðruvísi en með því að taka veð út á húsin sín. Það er ágætis bobbi.
Sagði Kristján. Forréttindastéttin lítur greinilega á almenning sem fávita - og kemur fram við hann sem slíkan. Ég mótmæli!
Mig langar að skjóta því hér inn að Hannes þessi J. Hafstein, lögmaður Landsbankans sem sagði gjörning Sigurjóns löglegan, er einn innsti koppur í búri Intrum Justitia - innheimtufyrirtækisins sem innheimtir gjaldfallnar skuldir heimilanna, að sögn af hörku, og stórgræðir á því. Einn eigenda Intrum Justitia er Landsbankinn - nú ríkisbanki undir meintri stjórn ríkisstjórnar Íslands.
Sigurvin, sem skrifar oft athugasemdir við bloggpistlana mína, kom með þessa við síðasta pistil: "Einu sinni var náungi sem dró sér fé úr sjóði. Vinirnir í sjóðstjórninni uppgötvuðu fjárdráttinn. "Úps, hann gæti lent í fangelsi, við verðum að gera eitthvað". Og þá var útbúið skuldabréf, veðin voru kannski ekki uppá marga fiska en málinu var samt bjargað - bókhaldið stemmdi.
Þetta er að sjálfsögðu óskylt mál en það er margt skrítið við lánveitingu þessa sjóðs til þessa fyrrverandi bankastjóra, eiginlega eins og þetta hafi verið e.k. "eftiráredding".
Hvers vegna er vísitala september notuð (síðasti mánuður gamla bankans) en ekki nóvember, þegar bréfið er gefið út? Hvernig getur 'einka'sjóður haft sömu kennitölu og almennur sjóður bankans og samt gilt mismunandi lög um þessa "tvo" sjóði. Eru einhver lög til um 'einka'séreignasjóði?
En við getum verið alveg róleg, þetta verður örugglega rannsakað ofan í kjölinn og engin ástæða til að ætla að hér sé eitthvað óhreint á ferð, þetta er jú NÝI bankinn... Kannski sömu einstaklingarnir... en...??
Heiða B. Heiðars var handtekin í gær fyrir að setjast á götuna fyrir framan Alþingishúsið og neita að standa upp í mótmælum gegn Icesave-samningnum. Sigurjón Þ. Árnason, höfundur Icesave og fleiri gjörninga, og hans líkar ganga lausir. Hvort þeirra ætli hafi framið stærri glæp gegn íslensku þjóðinni, Heiða eða Sigurjón?
Pepsi-deildin | Breytt 7.2.2010 kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
15.6.2009
Máttur netsins og framtíð lýðræðis
Sigrún Davíðsdóttir hefur verið einn ötulasti fréttaskýringa- og rannsóknablaðamaður landsins um nokkurt skeið. Sigrún hefur verið með pistla í Speglinum á Rás 1 sem lesa má á vef RÚV hér. Hún hefur líka skrifað margar, góðar fréttaskýringar í Fréttaauka Eyjunnar - sjá hér. Nýjasta fréttaskýring Sigrúnar fjallar um kúlulán Sigurjóns Þ. Árnasonar og er fróðleg lesning í meira lagi. Nú munu þau furðulegu "lánamál" vera á allra vitorði og komin inn á borð hjá FME - alltént annað lánið af tveimur. Þetta mál kom upp á netinu, hélt áfram á netinu og fyrir þrýsting netverja (les. almennings) er það nú til skoðunar. Við væntum þess að málinu verði fylgt fast eftir. Nú reynir á heiðarleika og sjálfstæði embættismannanna.
Meðal þess sem Sigrún segir í fréttaskýringu sinni er þetta: "Í skuldabréfinu kemur í ljós að veðið fyrir láninu er húsið í vesturbænum sem Sigurjón býr í en síðan handskrifað á bréfið að þetta sé eignarhluti Sigurjóns'. Þó kemur fram í undirskriftum bréfsins að eiginkona Sigurjóns er þinglýstur eigandi hússins sem þau hjón búa í. Húsið var fært á eiginkonuna um miðjan október, viku eftir hrun Landsbankans." Því spyr ég: Ef Sigurjón á helming í húsinu hlýtur brunabótamat þess að vera 80 milljónir. Ekki má veðsetja húseign umfram brunabótamat. Ef kona Sigurjóns er skráð fyrir öllu húsinu verður brunabótamat þess að vera 40 milljónir til að geta tekið veð í húsinu fyrir þeirri upphæð. Í báðum tilfellum, Granaskjóli 28 og Bjarnarstíg 4, er brunabótamat húseignar rétt rúmlega "láns"upphæðin eins og sjá má á gögnum Fasteignaskrár Íslands. Það hlýtur því að vera rangt, eins og Sigrún bendir á, sem fram kemur í skuldabréfinu (sjá viðhengi neðst í færslunni) að um "eignarhluta Sigurjóns" sé að ræða.
Eins og fram hefur komið víða kemst Sigurjón hjá því að borga skatt af þessum "lífeyrissparnaði" með því að veita sjálfum sér slík "lán", auk þess sem lög kveða á um að lífeyrissparnað geti fólk aðeins tekið út eftir sextugt. Sigurjón er fæddur 24. júlí 1966 og er því rétt tæplega 43 ára. Hvað segja þeir sem hafa ýmist tapað milljónum úr séreignasjóðum sínum eða öðrum lífeyrissjóðum við þessu? Hvað segja þeir sem tapað hafa aleigunni í hlutabréfum eða sjóðum ýmiss konar sem bankarnir stofnuðu til að ryksuga til sín sparifé fólks og nota það að eigin vild? Maður spyr sig...
Hér er umfjöllun Moggans og Fréttablaðsins í dag. Auk þess vakti þessi frétt á Vísi.is athygli mína. Ég sagði í viðtali við Spegilinn í síðustu viku að fólk fái ekki heildarmyndina af þjóðmálaumræðunni með því að treysta á hefðbundna fjölmiðla - blöð og ljósvakamiðla. Ég stend við það. Eitthvað svipað og miklu fleira sagði ég í 50 mínútna viðtali við Ævar Kjartansson og Ágúst Þór Árnason um daginn. Því viðtali verður útvarpað einhvern af næstu sunnudagsmorgnum í þættinum Framtíð lýðræðis á Rás 1. Máttur netsins er mikill og á eftir að aukast. Netið - bloggið og netmiðlar ýmiss konar - gegna gríðarlega miklu og stóru hlutverki í framtíð lýðræðis á Íslandi.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.2.2009
Farsi
Hann skipaði sjálfan sig bankastjóra nýja Landsbankans þar sem hann var stjórnarformaður fyrir. Engin auglýsing, ekkert ráðningarferli. Bara til bráðabirgða, var fyrirslátturinn. Svo er sagt að hann hafi farið í mánaðarlangt frí í miðri kreppu og björgunaraðgerðum. Ég neita að trúa því - enda hafði ég nú ekki séð fyrir mér framtíðarvinnubrögðin í þjóðfélaginu svona.
Henrý Þór sér skoplegu hliðina á málinu eins og venjulega og kallar myndina Kleyfhugann. Hann sér fyrir sér langt, strangt og óvilhallt ráðningarferli þar sem einkavina- og sjálfsráðningar eru víðs fjarri. Miklu fleiri satírur Henrýs Þórs eru hér.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.10.2008
Og spillingin grasserar enn
Hvað er þetta annað en spilling? Bankamaður sem átti þátt í að stjórna Icesave-ævintýri gamla Landsbankans er settur yfir innri endurskoðun nýja Landsbankans sem hlýtur, meðal annars, að eiga að fara ofan í saumana á svikamyllunni. Svikamyllu sem, samkvæmt fréttum í dag, kostar Íslendinga 600 milljarða króna! Og fyrrverandi innri endurskoðendur Glitnis og Landsbankans eru nú í skilanefndum sinna banka, bráðabirgðastjórninni, og kæmu meðal annars að rannsókn sem þessari sem ekki er vanþörf á. Myndu rannsaka sinn eigin þátt í sukkinu. Var ekki Björgvin G. að lofa öllu fögru - að allt yrði svo hreint, tært og óspillt? Ég sá þessa frétt á Eyjunni og ætla að birta hana orðrétt hér.
Ég skora á alla Íslendinga að taka þátt í andófi, nú og framvegis. Aðrir bloggarar geta annað hvort birt þetta hjá sér eða linkað hingað eða á Eyjuna! Við megum ekki láta svona vinnubrögð yfir okkur ganga lengur. Við höfum gert það allt of lengi. Látum stjórnvöld vita af óánægju okkar, látum þau vita að fylgst er með þeim. Það er eftir því tekið ef allt logar í bloggheimum, það get ég fullvissað ykkur um. Ég vek auk þess athygli á að það er starfsmaður bankans sem varar við þessu, manneskja sem ætti að vita hvað felst í gjörningnum.
____________________________________________
Áhyggjur í Landsbanka: Fyrrum yfirmaður Icesave settur yfir innri endurskoðun Nýja Landsbanka
Starfsmaður Landsbankans varar nú við því í bréfi sem hann hefur sent frá sér, að framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Landsbankans, Brynjólfur Helgason, skuli hafa verið gerður að forstöðumanni Innri endurskoðunar Nýja Landsbankans.
Icesave í Englandi og Hollandi var stjórnað sem sérverkefni undir Alþjóðasviði.
Starfsmaðurinn telur að þarna sé farið inn á hættulega braut - að gjörningsaðili eða a.m.k. hluti hans sé farinn að rannsaka sjálfan sig, jafnvel breiða yfir fyrri gjörðir.
Hann vill meina að mjög mikilvægt sé að stöðva slíka gjörninga áður en þeir nái að festa sig í sessi. Hann hefur sent bréf sitt til fjölmiðla og sett sig í samband við þingmenn allra flokka vegna málsins. Athugasemdum hans mun ekki beint að Brynjólfi persónulega.
Starfsmaðurinn segir m.a. í bréfi sínu:
"Icesave ævintýrinu í Englandi og Hollandi (sem er að setja Ísland á hausinn) var stjórnað sem sérverkefni undir Alþjóðasviði, þetta var eitt meginverkefni þess síðustu misserin.
"Vitleysan heldur s.s. áfram.
- Hvað á framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs að gera sem innri endurskoðandi?
- Á hann að passa upp á að það verið ekki allt rannsakað?
- Á að verðlauna yfirmanninn með þessum hætti?
- Hafa menn ekkert lært?
- Eru að verða fleiri svona mistök í "björgunarferlinu"?
- Ætlar ný stjórn embættismanna að láta þetta viðgangast?
Er þetta boðlegt fyrir þjóðfélagið?
Svo má bæta því við að fyrrverandi innri endurskoðendur Glitnis og Landsbankans eru hvor í sinni skilanefndinni. Þeir sem voru hluti af því regluverki sem brást. Þeir bera etv. ekki mestu ábyrgðina, en eru klárlega hluti af því regluverki sem brást. Er ekki eitthvað að þegar svona er gert? Þó svo þekking þessara manna sé nýtt þarf ekki að setja þá í valdastöður við að stjórna rannsókn á klúðri sem þeir voru hluti af!! Er framboð hæfra manna virkilega ekki meira?"
"Hversu hlutlausir þurfa endurskoðendur að vera?
Starfsmaðurinn bendir jafnframt á að fráfarandi innri endurskoðandi LÍ, Sigurjón Geirsson, sé nú er í skilanefnd gamla LÍ, og segir hann hafa verið "virkan þátttakanda í Icesave ævintýrinu í Englandi og Hollandi. Það skýtur skökku við það hlutleysi sem krafist er af slíku embætti. Er engin hætta á hagsmunaárekstri hér? Hverra hagsmuna gæta starfsmenn skilanefndar?"
Starfsmaðurinn, sem segist vegna aðstæðna sinna ekki geta gefið upp nafn sitt, bendir jafnframt á leiðbeinandi reglur FME um innri endurskoðun fjármálafyrirtækja sem eru nýkomnar út, þar sem segir m.a. "...skal reynt að tryggja að starfsmenn hennar séu hlutlausir í reynd og starfi óháð þeim rekstrareiningum sem þeir endurskoða."
_________________________________________
Fréttin á Eyjunni er hér og nokkrir hafa skrifað athugasemdir. Bendi líka á tvær færslur á bloggi Egils Helga, þessa og þessa. Þar kemur margt athyglisvert fram og hann boðar fleiri slíkar.
Viðbót: Egill tekur undir með mér. Kristjana og Jenný líka. Og Gísli. Þetta segir Andrés. Ragnheiður, Jóna, Martha, Jakobína, Rut, Villi og Halla Rut hafa bæst við. Var að rekast á þetta hjá Neo, Heiðu, AK, Nínu, Nýju stjórnmálaafli, Einari og Hildigunni. Fleiri?
Pepsi-deildin | Breytt 15.10.2008 kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)