Færsluflokkur: Íþróttir
24.1.2009
Fullkomið fólk steytir görn
Eftir tölvuleysi dagsins hef ég verið að vafra um netheima - fjölmiðla, blogg og fleira. Ég vona að ung börn hafi ekki séð orðbragðið sem viðhaft er á ýmsum bloggsíðum og í athugasemdum. Þvílíkur viðbjóður sem vellur út úr sumu fólki. Verri nú en nokkru sinni gagnvart þeim, sem áttu stærstan þátt í að ræna þjóðina aleigunni og svipta hana ærunni um leið. Ég held að þetta fólk með soraorðbragðið ætti að róa sig aðeins niður og hugsa málið.
En hvað gerðist? Jú, forsætisráðherra boðaði blaðamannafund og hélt afar vel skrifaða ræðu. Hvert orð var úthugsað, samsetning orðanna, niðurröðun setninganna - frábærlega vel gerð ræða. Hann tilkynnti um alvarleg veikindi sín sem munu valda fjarveru hans af landinu og úr starfi um tíma. Í leiðinni tilkynnti hann að Sjálfstæðisflokkurinn hefði skipt um skoðun, væri til í kosningar í vor og stakk upp á dagsetningu. Þetta var afar dramatísk stund. "Maximum impact," eins og sagt er. Það má endalaust deila um hversu smekklegt var að blanda þessum málum saman í einum blaðamannafundi, en ég efast ekki augnablik um að það var vandlega skipulagt enda tilgangurinn afar augljós.
Ég hef gagnrýnt forsætisráðherra harðlega fyrir störf hans og er ósammála honum í ansi mörgu sem lýtur að landstjórninni. En ég hef ekkert út á hann að setja sem manneskju. Að sögn er hann ljúfmenni, húmoristi og góður maður og ég efast ekki um að það sé satt. Ég finn til með honum og fjölskyldu hans og sendi honum einlægar óskir um góðan bata. Enginn óskar öðrum svo ills að lenda í slíkum hremmingum. Aldrei.
En veikindi forsætisráðherra breyta engu fyrir fólkið í landinu og þá stöðu sem við höfum verið sett í. Nákvæmlega engu. Samúð okkar með honum ekki heldur. Við megum ekki láta rugla okkur í ríminu og fara að blanda þessu saman. Ég áskil mér rétt til að halda áfram að gagnrýna störf forsætisráðherra og flokks hans, þrátt fyrir samúð mína með persónu hans og veikindum. Alveg nákvæmlega eins og við höfum svo ótalmörg gagnrýnt Samfylkinguna, formann hennar og utanríkisráðherra algerlega burtséð frá veikindum persónunnar Ingibjargar Sólrúnar.
En gagnrýni okkar á stjórnmálamenn, embættismenn og auðjöfra undanfarna mánuði er hjáróma hjá þeim ósköpum sem sumir hafa látið dynja á Herði Torfasyni í dag. Ég held að ég hafi bara ekki séð neitt viðlíka - og einhverjir hafa ákveðið að hætta að mæta á mótmælafundi af því Herði fórst óhönduglega að tjá sig í óviðbúnu útvarpsviðtali. Einhverjir vilja að Hörður biðjist afsökunar á orðum sínum. Ætli þeir hinir sömu hafi krafið þá afsökunarbeiðni sem komu Íslandi á hausinn með græðgi, undirlægjuhætti, samsekt og kæruleysi? Kannski er fólk orðið svo þreytt á krepputalinu að það stökkvi á hvað sem er til að skeyta skapi sínu á, ég veit það ekki. Kannski er reiðin orðin svo lýjandi að samúðin er kærkomin tilfinning og fólk vill hafa hana í friði. Kannski eru þetta bara þeir sem eftir eru af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar sem koma nú fnæsandi og hvæsandi út úr fylgsnum sínum og nota hvert tækifæri, hversu ómerkilegt sem það er, til að ófrægja andófsmenn.
Hvað sem því líður sé ég enga ástæðu til að ata einn helsta baráttumann okkar fyrir betra þjóðfélagi þvílíkum aur og gert hefur verið - fyrir það eitt að komast óheppilega að orði. Nær hugsun fólks ekki lengra en þetta? Ég bara trúi því ekki. Hörður Torfason er búinn að leggja á sig ómælda vinnu undanfarna fjóra mánuði til að veita okkur farveg, aðstæður og tækifæri til að tjá okkur, finna til samkenndar með náunganum og leyfa okkur að finnast við vera að gera eitthvað sem skiptir máli og hefur áhrif. Og mikil ósköp, mótmælin hafa vissulega haft áhrif.
En margir hafa ekki mætt af því mótmælafundirnir eru ekki nákvæmlega eins og þeir vilja hafa þá. Fólk ber ýmsu fyrir sig: Ómögulegir ræðumenn, yfirskrift fundanna ekki rétt orðuð, kröfurnar ekki númeraðar í réttri röð, fundarstjórinn í ljótri úlpu, konan sem stendur fremst með rauða húfu... eða bara eitthvað sem afsakar laugardagsrölt í Kringlunni, þaulsetu yfir enska boltanum - hvað sem er til að sleppa við að standa í öllum veðrum á Austurvelli og krefjast breytinga fyrir sig og afkomendur sína.
Hörður Torfason hefur alltaf mætt, alltaf skipulagt allt, talað við innlenda og erlenda fjölmiðla, verið í sambandi við lögregluna vegna lokana á götum og slíkra tækniatriða. Hörður hefur verið vakandi og sofandi yfir mótmælafundunum í fjóra mánuði og ekki gert neitt annað. Ekki hefur hann þegið krónu fyrir, enda launagreiðandinn enginn - þvert á móti, hann hefur borgað heilmikla peninga úr eigin vasa til að dæmið gæti gengið upp - og það hefur gengið upp. Það er Herði Torfasyni að þakka og engum öðrum. Mótmælin hafa skilað árangri þótt í smáu sé ennþá. Það er okkur að þakka sem mætum - og Herði Torfasyni. Áttið ykkur á því þið, sem skitnum kastið og þykist svo fullkomin að hafa efni á því.
Svo vogar fólk sér að níða af honum skóinn og ata æru hans skít og saur af því hann komst óheppilega að orði, örþreyttur maðurinn, í einu óundirbúnu útvarpsviðtali!
Hvernig væri nú að fólk beindi allri þessari orku í alvöruvandamálin í þjóðfélaginu sem hafa nákvæmlega ekkert breyst þrátt fyrir veikindi forsætisráðherra. Enn situr stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Enn situr ríkisstjórnin sem er meðsek. Enginn hefur axlað ábyrgð ennþá. Ekki hefur einum einasta auðjöfri verið refsað, engar eignir frystar - heldur er verið að bjarga þeim og jafnvel lána þeim meiri peninga sem við eigum ekki til en þurfum að borga. Enn hefur engin framtíðarsýn litið dagsins ljós, engin áætlun. Viðskiptaráðherra er alveg jafn áttavilltur og fyrr og heilbrigðisráðherra stefnir áfram að því að einkavinavæða heilbrigðisþjónustuna. Ég ætla ekki að minnast á Árna Mathiesen, ég gæti talað af mér.
ÞAÐ HEFUR EKKERT BREYST!
Prívat og persónulega finnst mér að það gæti verið of snemmt að kjósa í byrjun maí úr því sem komið er. Það hefði verið fínt ef kosningar hefðu verið ákveðnar í lok október, byrjun nóvember í fyrra. Ég óttast að þetta sé of stuttur tími til að ný, fjárvana umbótaöfl nái að skipuleggja sig og bjóða fram um allt land. Ég vil að stjórnin segi af sér og komið verði á utanþingsstjórn til að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Svo þarf að skipuleggja víðtækar kerfisbreytingar, stjórnarskrárbreytingu (já, ég veit - það þarf tvö þing), útfæra ný kosningalög o.fl. o.fl. En það er efni í annan og miklu lengri pistil.
Að lokum skora ég á ALLA að mæta á mótmælafundinn á Austurvelli í dag því ekkert hefur breyst. Nákvæmlega ekkert. Við verðum að halda áfram að mótmæla, skrifa, tala okkur hás og krefjast þess að óhæfir menn í valdastöðum verði látnir taka pokann sinn og aðrir hæfari taki við. Framtíðin er í húfi.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 03:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (114)