Færsluflokkur: Mannréttindi

Hver er þessi Guðjón?

Hann stóð vaktina fyrir okkur og með okkur í allan fyrravetur. Lék eitt aðalhlutverkið í andófi fjöldans gegn ástandinu, spillingunni, stjórnvöldum og öllu því sem á okkur brann. Við stóluðum á hann - og hann brást okkur aldrei. Hann studdi okkur og gaf okkur von. Var vakandi og sofandi yfir mannréttindum okkar og tjáningarfrelsinu sem hefur blómstrað sem aldrei fyrr eftir hrunið mikla. Hann gerði þetta allt í sjálfboðavinnu. Var launalaus allan tímann. Það veit ég, því ég kynntist honum vel í baráttunni fyrir betra samfélagi. Og þess vegna veit ég að nú þarf hann á okkur að halda. Nú er komið að okkur að styðja hann. Við klikkum ekki á því, er það?

Hörður Torfason, sá mikli baráttumaður og fánaberi mannréttinda, heldur sína 33. hausttónleika í Borgarleikhúsinu annað kvöld, þriðjudagskvöld. Ég hef farið nokkrum sinnum á tónleikana hans og þeir eru alltaf bráðskemmtileg upplifun - sambland af tónlist og leiklist. Frábærlega útfærð tjáning. Stórskemmtilegir textar og grípandi músík.

Ég hef verið að leita að fjölmiðlaumfjöllun um tónleikana, en það eina sem ég fann var viðtal við Hörð á Morgunvaktinni á fimmtudaginn. Þetta hefur komið mér svolítið á óvart, einkum í ljósi þess hve stóru hlutverki hann gegndi í búsáhaldabyltingunni í vetur, aðdraganda hennar og í hve mikilli þakkarskuld þjóðin stendur við Hörð Torfason. Til samanburðar þarf Bubbi bara að prumpa og kvarta um dýrtíð og er þá umsvifalaust í viðtölum í  öllum fjölmiðlum. Mér datt í hug hvort þetta væri hluti af þögguninni en trúi því bara ekki upp á fjölmiðlafólkið. Það hlýtur að hafa eitthvert frumkvæði og sjálfstæði. Engu að síður - maður spyr sig...

En hvað sem því líður - sjáumst í Borgarleikhúsinu annað kvöld, þriðjudagskvöld klukkan 20! Miðar fást hér og í Borgarleikhúsinu.

 
Ég hef glímt við þessa spurningu áratugum saman: Hver er þessi Guðjón? Getur einhver svarað því?
 
 

Lag: Hörður Torfason, Ljóð: Þórarinn Eldjárn

Guðjón lifir enn í okkar vonum
enginn getur flúið skugga hans.
Þér er sæmst að halla þér að honum
hann er gróin sál þíns föðurlands.
Þig stoðar lítt með gulli og glysi að skarta
þú ert sjálfur Guðjón innst í hjarta.

 Ungan léstu sverta þig og svíkja
þú sást ei þá hve margt er blekking tál.
Á fúnu hripi rak þig milli ríkja
hver rakki fékk að snuðr'í þinni sál.
Drjúptu höfði því að það er meinið
þú ert sjálfur Guðjón innvið beinið.

Þannig varstu hrakinn land úr landi
lítilsigldur fóli, aumur, smár.
En nú er burtu villa þín og vandi
þú viknar hrærður, fellir gleðitár.
Þótt illur sért er síst of seint þig iðri
þú ert sjálfur Guðjón undir niðri.

 Brátt mun skína í Guðjón gegnum tárin
gróður lífsins vex úr þeirri mold.
Einhverntíma seinna gróa sárin
er svik við Guðjón brenndu íslenskt hold.
Senn mun koma sá er hlýtur völdin
þú ert sjálfur Guðjón bakvið tjöldin.

Hörður Torfa - Hausttónleikar 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þrumuræða og sígild áminning

Þegar ég er með pistil á prjónunum, er að móta hann í huganum og rifja upp hvaða ítarefni ég á í sarpinum til að tengja í eða birta, kemur ýmislegt upp úr kafinu. Í þetta sinn var það þessi þrumuræða Herberts Sveinbjörnssonar, formanns Borgarahreyfingarinnar. Ræðan er flutt á Borgarafundi 12. janúar - áður en Borgarahreyfingin var stofnuð, minnir mig. Enda ríkisstjórn Geirs Haarde enn við völd og ekki búið að boða til kosninga.

Ég hlustaði á Herbert og hugsaði með mér, að velflest sem hann sagði þarna, fyrir rúmum 5 mánuðum, ætti við enn þann dag í dag. Mér fannst ræðan svo mögnuð að ég ætla að láta hana standa í sérfærslu, ekki blanda henni saman við það sem á eftir kemur. Hlustið á Herbert og pælið í því sem hann segir.


Fyrirspurnir og svör Jóhönnu

Þetta fór fram á Alþingi í morgun. Nú vitum við afstöðu forsætisráðherra og væntum þess að nú verði sett í blússgírinn og því breytt sem breyta þarf til að hægt sé að halda áfram leitinni að réttlætinu.


Þetta er einmitt málið!

Bergþóra Jónsdóttir - Persónukjör er þverpólitískt - Moggi 12. mars 2009


Málfrelsi - skoðanafrelsi - tjáningarfrelsi

73. grein stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands hljóðar svo: "Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum."

Flott - allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að láta í ljós hugsanir sínar. Enga ritskoðun eða tálmanir á tjáningarfrelsi. Glæsilegt - svona er Ísland... eða hvað? Nei.

Ekki aldeilis. Okkur eru væntanlega flestum í fersku minni ýmsar uppákomur í gegnum tíðina þar sem fólk hefur verið látið gjalda orða sinna og skoðana sem voru ekki stjórnvöldum eða vinnuveitendum þeirra þóknanlegar. Þessi skoðanakúgun hefur valdið ótrúlegri hræðslu í þjóðfélaginu og ótta margra við að tjá sig og segja sannleikann um ýmis málefni. Fólk þarf að óttast atvinnumissi, faglegan róg og fleira miður skemmtilegt ef það fylgir sannfæringu sinni. Geðslegt þjóðfélag? Nei.

Líka á Alþingi Íslendinga. Við vitum mætavel að margir þingmenn greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni þótt 48. grein stjórnarskrárinnar hljóði svo: "Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum." Þeir virðast æði oft vera trúrri flokknum en sannfæringu sinni eða fólkinu í landinu. Því ef þingmaður greiðir atkvæði gegn vilja flokksins eru til ýmis ráð til að gera þingmanninn "skaðlausan" og þar með áhrifalausan með öllu. Við höfum fordæmi fyrir þessu á Alþingi. Virðing fyrir sannfæringu alþingismanna? Nei.

Guðmundur Gunnarsson, verkalýðsforingi, minnist á ILO 58 regluna í þessari bloggfærslu. ILO stendur fyrir International Labour Organization eða Alþjóðaatvinnumálastofnunina. Reglan sem Guðmundur vitnar til gengur út á að atvinnurekandi verði að tilgreina ástæðu fyrir uppsögn starfsmanns. Guðmundur segir að flestar Evrópuþjóðir og margar þjóðir Asíu hafi staðfest þessa reglu - en ekki Ísland. Hér má reka fólk úr vinnu og svipta það lífsviðurværinu eftir geðþótta yfirmanna, m.a. ef þeim líkar ekki við skoðanir starfsmannsins. Skoðana- og tjáningarfrelsi? Nei.

Halldór Kristinn Björnsson, bifvélavirki hjá Toyota og virkur andófsmaður, skrifaði bloggfærslu og var rekinn úr vinnunni. Bloggfærslan ógurlega er hér. "Skortur á virðingu gagnvart samstarfsmönnum og vilja til samstarfs."

Þröstur Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu og ritstjóri Lesbókar, skrifaði meðal annars þennan pistil um miðjan janúar og var rekinn um síðustu mánaðamót. "Skipulagsbreytingar."

Þröstur Helgason - Mbl. 15.1.09

Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu og þingfréttamaður þess, tók virkan þátt í Borgarafundunum, hélt ræðu á einum þeirra og talaði fyrir þeim. Hún var líka rekin um síðustu mánaðamót. "Skipulagsbreytingar."

Málfrelsi? Skoðanafrelsi? Tjáningarfrelsi? Hverjir ráða þarna för og hvaða hvatir liggja að baki? Hver hefur hag af því að hér ríki áfram ótti við að tjá skoðanir sínar? Margir sem fjalla um viðkvæm mál, einkum þau sem snerta pólitík og auðmyndun einhvers konar, hafa fundið ítrekað fyrir hræðslu fólks við að tjá sig opinberlega - meira að segja ég.

Ómar Ragnarsson hefur fundið harkalega fyrir þessari ógnun og fjölmargir vísindamenn, svo dæmi sé tekið, hafa ekki þorað að stíga fram með upplýsingar t.d. hvað varðar jarðgufuvirkjanir og ótalmargt fleira sem kæmi sér illa fyrir ríkjandi yfirvöld eða vinnuveitendur þeirra. Sjálf hef ég fengið fjölmörg ummæli, bæði í síma og tölvupósti, þar sem mér er þakkað og hrósað fyrir að hafa kjark og þor til að skrifa það sem ég skrifa og birta það sem ég birti. Þó er ég aðeins að segja skoðanir mínar og það sem ég tel sannleika - og ég er nú bara pínulítið peð í samfélagi mannanna.

Agnes Bragadóttir, blaðamaður, skrifaði athyglisverða grein um þetta í nóvember 2007 sem hún kallaði Hræðsluþjóðfélagið (smellið þar til læsileg stærð fæst). Viljum við að þjóðfélag framtíðarinnar verði áfram hræðsluþjóðfélag? Ekki ég.

Agnes Bragadóttir - Mbl. 12.11.07


Er byltingin hafin?

Ég var að springa af stolti í dag - og svo aftur í kvöld. Er nýkomin heim eftir mótmælastöðu númer tvö. Þetta getum við, Íslendingar! Við erum búin að mótmæla þúsundum saman í 15 vikur. Í dag gerðist eitthvað stórt og mikið. Eitthvað brast sem getur ekki endað með neinu öðru en að ríkisstjórnin fari frá. Annað væri bara algjörlega út í hött. Enn eru þúsundir fyrir framan Alþingi og væntanlega stendur fólk vaktir. Gefið ykkur endilega fram ef þið getið tekið þátt í því.

Inni í Alþingishúsinu sat ríkisstjórn með tindátum sínum og talaði um hvort selja eigi áfengi í matvöruverslunum, vátryggingastarfsemi, greiðslur til líffæragjafa og fleira spennandi - sjá hér. Og forsætisráðherra kvartaði yfir að fá ekki vinnufrið!  W00t  Á hvaða plánetu ætli hann búi? Ég tók saman fréttaumfjöllun sjónvarpsstöðvanna í dag og kvöld. Þetta er magnað. Og aftur beitti lögreglan efnavopnum af mjög vafasömu tilefni.

Bein útsending RÚV sem hófst klukkan 14:10

 

Stöð 2 klukkan 17

 

Morgunblaðið Sjónvarp

 

Kvöldfréttir Stöðvar 2

 

Kvöldfréttir RÚV

 

Kastljós

 

Morgunblaðið Sjónvarp

 

Tíufréttir RÚV

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband