Hver er þessi Guðjón?

Hann stóð vaktina fyrir okkur og með okkur í allan fyrravetur. Lék eitt aðalhlutverkið í andófi fjöldans gegn ástandinu, spillingunni, stjórnvöldum og öllu því sem á okkur brann. Við stóluðum á hann - og hann brást okkur aldrei. Hann studdi okkur og gaf okkur von. Var vakandi og sofandi yfir mannréttindum okkar og tjáningarfrelsinu sem hefur blómstrað sem aldrei fyrr eftir hrunið mikla. Hann gerði þetta allt í sjálfboðavinnu. Var launalaus allan tímann. Það veit ég, því ég kynntist honum vel í baráttunni fyrir betra samfélagi. Og þess vegna veit ég að nú þarf hann á okkur að halda. Nú er komið að okkur að styðja hann. Við klikkum ekki á því, er það?

Hörður Torfason, sá mikli baráttumaður og fánaberi mannréttinda, heldur sína 33. hausttónleika í Borgarleikhúsinu annað kvöld, þriðjudagskvöld. Ég hef farið nokkrum sinnum á tónleikana hans og þeir eru alltaf bráðskemmtileg upplifun - sambland af tónlist og leiklist. Frábærlega útfærð tjáning. Stórskemmtilegir textar og grípandi músík.

Ég hef verið að leita að fjölmiðlaumfjöllun um tónleikana, en það eina sem ég fann var viðtal við Hörð á Morgunvaktinni á fimmtudaginn. Þetta hefur komið mér svolítið á óvart, einkum í ljósi þess hve stóru hlutverki hann gegndi í búsáhaldabyltingunni í vetur, aðdraganda hennar og í hve mikilli þakkarskuld þjóðin stendur við Hörð Torfason. Til samanburðar þarf Bubbi bara að prumpa og kvarta um dýrtíð og er þá umsvifalaust í viðtölum í  öllum fjölmiðlum. Mér datt í hug hvort þetta væri hluti af þögguninni en trúi því bara ekki upp á fjölmiðlafólkið. Það hlýtur að hafa eitthvert frumkvæði og sjálfstæði. Engu að síður - maður spyr sig...

En hvað sem því líður - sjáumst í Borgarleikhúsinu annað kvöld, þriðjudagskvöld klukkan 20! Miðar fást hér og í Borgarleikhúsinu.

 
Ég hef glímt við þessa spurningu áratugum saman: Hver er þessi Guðjón? Getur einhver svarað því?
 
 

Lag: Hörður Torfason, Ljóð: Þórarinn Eldjárn

Guðjón lifir enn í okkar vonum
enginn getur flúið skugga hans.
Þér er sæmst að halla þér að honum
hann er gróin sál þíns föðurlands.
Þig stoðar lítt með gulli og glysi að skarta
þú ert sjálfur Guðjón innst í hjarta.

 Ungan léstu sverta þig og svíkja
þú sást ei þá hve margt er blekking tál.
Á fúnu hripi rak þig milli ríkja
hver rakki fékk að snuðr'í þinni sál.
Drjúptu höfði því að það er meinið
þú ert sjálfur Guðjón innvið beinið.

Þannig varstu hrakinn land úr landi
lítilsigldur fóli, aumur, smár.
En nú er burtu villa þín og vandi
þú viknar hrærður, fellir gleðitár.
Þótt illur sért er síst of seint þig iðri
þú ert sjálfur Guðjón undir niðri.

 Brátt mun skína í Guðjón gegnum tárin
gróður lífsins vex úr þeirri mold.
Einhverntíma seinna gróa sárin
er svik við Guðjón brenndu íslenskt hold.
Senn mun koma sá er hlýtur völdin
þú ert sjálfur Guðjón bakvið tjöldin.

Hörður Torfa - Hausttónleikar 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hann á allt lof skilið fyrir frumkvæðið og forystuna, en er þakkarskuldin ekki svolitlum vafa blandin í ljósi þess sem varð? Hvar er hann nú? Heldur hann kannski um höfuð sér og spyr sig: "Hvað hef ég gert?" 

Ég auglýsi annars eftir öðrum álíka til að leiða aðra byltingu og heimta dómstólaleiðina fyrir Icesave, ef það er ekki ogf seint. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.9.2009 kl. 02:46

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég er áreiðanlega Guðjón og þakka Herði Torfa fyrir það. Hörður hefur nú aftur skrifað veigamikinn kafla Íslandssögunnar, sem aldrei verður minna en afar lærdómsríkur fyrir stjórnvöld framtíðarinanr og íslenskan almúga.

Helgi Jóhann Hauksson, 7.9.2009 kl. 02:50

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þ.e. ég þakka Herði að ég horfist í augu við minn Guðjón bak við tjöldin.

Helgi Jóhann Hauksson, 7.9.2009 kl. 02:53

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nei, þakkarskuldin er ekki þeim vafa blandin, Jón Steinar. Ekkert okkar gat vitað hvað varð. Við vildum nýja stjórn - og fengum hana. Hvernig hún hefur staðið sig var ekki fyrirséð en þá er að veita aðhald. Og ef við ætlumst til þess að Hörður taki aftur forystuna við aðhaldið framundan verðum við að gera honum það kleift - því andófið er ólaunað.

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.9.2009 kl. 02:58

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Helgi... erum við semsagt öll Guðjón í einhverri mynd?

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.9.2009 kl. 02:59

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Já, er það ekki málið Lára.

Helgi Jóhann Hauksson, 7.9.2009 kl. 04:25

7 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hörður á sannarlega skilinn heiður fyrir sitt starf......svo er gaman að hlusta á hann.

En við getum ekki gert kröfur til þess að hann leiði næstu byltingu....sem ég held að sé bráðnauðsynleg

Hólmdís Hjartardóttir, 7.9.2009 kl. 06:39

8 identicon

Ég hef mætt á tónleika Harðar og mæli eindregið með þeim fyrir alla sem vilja eiga notalega kvöldstund.

Tel líka fyrstu plötu Harðar, sem í seinni tíð hefur verið kölluð "Ofar" en hét í raun bara "Hörður Torfason", einhverja bestu plötu íslenskra tónsmiða fyrr og síðar.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 08:02

9 identicon

Ég skil ekki af hverju þú þarft að hnýta í Bubba í þessu hrósi til Harðar.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 08:26

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa færslu Lára Hanna.  Hörður er frábær listamaður og manneskja.  Ég veit líka hve í raun og veru þessi vinna var mikil sem hann vann launalaus og vanþakklæti frá mörgum.  Málið er að Herði hefur aldrei verið hampað, allt sem hann er í dag, hefur hann barist sjálfur fyrir með sinni góðu lífsýn og dugnaði.  Hann hefur gert svo miklu miklu meira en margir gera sér grein fyrir.  m.a. með því að fara áratugi hringin í kring um landið og halda tónleika á litlum og stærri stöðum.  Marga hefur hann glatt, og marga hefur hann líka huggað og breytt lífsýn til hins betra.  Hörðu Torfason á allt gott skilið.  Ég kemst ekki á tónleikana, en ég hef farið á alla tónleika sem hann hefur haldið á Ísafirði, og get sagt að það er einstök upplifun að hlýða á hann.  Eins og þú segir þetta er bæði söng og leikhús.  Og það verður spennandi að heyra meira um Eyjuna Æ og íbúana þar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.9.2009 kl. 08:51

11 Smámynd: Anna

Gudjon er Saevar Ciesielski sem hefur gengid igegnum helviti a jordu a Islandi.

Anna , 7.9.2009 kl. 09:07

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hæ hæ, ég get auðvitað aldrei haldið kjafti LH mín og læt gossa.

Ég dáist innilega að Herði OG öllum hinum sem stóðu vaktina í fyrra.

Ég fæ hins vegar andateppu yfir öllu þessu lofi sem þú berð á hann, hehe.

En ég vona svo sannarlega að hann fylli húsið.  En það hefur hann reyndar alltaf gert.

Úje og knús í daginn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.9.2009 kl. 09:41

13 identicon

Hér er skýrt dæmi um þöggun fjölmiðlasamsteypu. Bubbi er eitthvað svo agnarsmár í samanburðinum.

http://www.dv.is/sandkorn/2009/8/16/utras-til-argentinu/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 09:42

14 Smámynd: Hlynur Hallsson

Hörður Torfa á allan heiður skilinn. Það var hann sem stóð vaktina í vetur og gafst ekki upp. Við værum í enn dýpri skít ef hann hefði ekki hvatt okkur áfram. Og þú átt einnig mikinn heiður skilinn Lára Hanna. Allir að mæta á tónleikana!

Hlynur Hallsson, 7.9.2009 kl. 09:58

15 identicon

Takk fyrir lofið sem þú berð á Hörð Torfa!
Hann á það svo sannarlega skilið og það mættu fleiri sýna það í verki og orði.

Ætli ég kíki ekki inná miði.is og kaupi miða á tónleikana því það hlýtur að vera hægt þar.

Ég er nefnilega einn af Guðjónum þessa lands

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 10:00

16 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Einhverra hluta vegna hafa hausttónleikar Harðar alltaf fengið fremur litla umfjöllun, hver sem svo ástæðan er. Ér er að sjálfsögðu búin að kaupa miða :) Þetta er einn af föstu punktunum á haustin. Hörður á mikið hrós skilið fyrir baráttuna í vetur :) Vonandi verður hver bekkur setinn :) 

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 7.9.2009 kl. 10:10

17 identicon

Ljóð Þórarins er ort líklegast á Lynghaga heima hjá þeim Guðjóni. Vinur hans í Matthildi var að stíga sín fyrstu skerf í Pólitík.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 11:54

18 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og ljúfar kveðjur :)

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 7.9.2009 kl. 12:38

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Lengi lifi Hörður Torfa og  Guðjón bak við tjöldin

Sigurður Þórðarson, 7.9.2009 kl. 12:38

20 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Hef farið á tónleikana hans Harðar og mótmælin sem hann stóð fyrir. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við hann ekki spurning.  Góða skemmtun.

Rut Sumarliðadóttir, 7.9.2009 kl. 13:17

21 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ekki kafna yfir lofinu, Jenný mín. Málið er að ég meina hvert orð - og gott betur reyndar. Mér fannst ég meira að segja draga úr og milda orðfærið. Og það sem einum finnst of mikið lof finnst öðrum of lítið. Ég hef haldið upp á tónlist Harðar frá því ég heyrði í honum fyrst - og það er laaaaaaangt síðan. Í vetur stóð hann svo vaktina með glans, ásamt fjölmörgum öðrum reyndar.

Elín... það var ekki meiningin að hnýta neitt sérstaklega í Bubba, sem mér finnst frábær listamaður. Einungis að benda á hvað hann fær mikla athygli þegar hann opnar munninn um eitthvað. Kannski er hann bara svona góður í listinni að koma sér á framfæri. Það er ekki öllum gefið og fjölmargir listamenn - á öllum sviðum - falla í skuggann ef þeir kunna það ekki nægilega vel. Kannski skiptir líka máli að vera með öflugan útgefanda og góðan umboðsmann eins og Bubbi. Hörður gefur sjálfur út tónlist sína og er eigin umboðsmaður svo hann hefur nóg á sinni könnu.

Hörður og Bubbi eru báðir mjög sérstakir listamenn, þótt ólíkir séu. Enginn er eins og þeir, enginn kemst með tærnar þar sem þeir hafa hælana - hvor á sínu sviði í sínum persónulega stíl. En það er Hörður sem er með tónleika annað kvöld og ég vildi leggja mitt af mörkum til að vekja athygli á þeim.

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.9.2009 kl. 16:00

22 identicon

Þeir eru báðir flottir. Þetta verða örugglega fínir tónleikar annað kvöld.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 16:34

23 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Held ég fari rétt með,Hörður hefur mætt á einn mótmælafund vegna Icsave. Ég vildi að hann hefði komið því við að mæta á fleiri. Tónlististarfólk nær að hrífa fólk með og í fyrstu skelfilegu viðbrögðunum við hrunið,losaði hann um málbeinið á "þumbaranum".Íslendingnum. Strengirnir vibera enn,þurfa samt nýjan áslátt.                
             

Helga Kristjánsdóttir, 7.9.2009 kl. 18:58

24 identicon

Hvet alla til að skrá sig í aðdáendahóp Harðar Torfa á facebook !

 http://www.facebook.com/profile.php?id=581667920&ref=name#/pages/Hordur-Torfason/132702456105?ref=mf

Og kaupa miða á Tónleikana á www.midi.is

Cilla (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 20:22

25 Smámynd: Þórbergur Torfason

Hörður stóð sig með miklum sóma í búsáhaldabyltingunni. Hann hefur leiðtogahæfileika sem nýttust vel á Austurvelli í vetur síðastliðinn.

Ég yrði fyrsti maður á tónleikana ef ég bara væri aðeins nær. Suðursveit er of fjarlæg höfuðborginni fyrir eina tónleika en ef til vill kemur Hörður bara til okkar þó síðar verði.

Þórbergur Torfason, 7.9.2009 kl. 20:23

26 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

TEK HEILSHUGAR UNDIR HÖRÐUR ER EINSTAKUR MAÐUR OG LISTAMAÐUR, ÉG HEF REYNT AÐ KOMAST Á HAUSTTÓNLEIKA HANS SENNILEGA HÁTT Í 2 ÁRATUGI OG NOKKRUM SINNUM ÚT Á LANDI LIKA OG ÉG LEYFI MÉR AÐ FULLYRÐA AÐ ÞAÐ VERÐUR ENGINN SVIKINN AF ÞVÍ. ÉG HEF NOKKRUM SINNUM DREGIÐ MEÐ MÉR FÓLK SEM HEFUR HVORKI HAFT ÁHUGA NÉ HLUSTAÐ Á HANN OG UNDANTEKNINGARLAUST HEFUR ÞAÐ FÓLK ALLTAF EKKI BARA SKEMMT SÉR VEL HELDUR VILL  ÞAÐ EKKI FYRIR NOKKURN MUN MISSA AF TÓNLEIKUNUM EFTIR ÞAÐ.   VARÐANDI BÚSÁHALDABYLTINGUNA Á HANN VISSULEGA HEIÐUR FYRIR, OKKUR VÆRI BETUR BORGIÐ SEM ÞJÓÐ Í DAG EF VIÐ ÆTTUM FLEIRI MENN (OG KONUR) EINS OG HÖRÐ SEM VINNA AF HEILINDUM OG HUGSSJÓN ÁN ÞESS AР BERA NOKKUÐ ÚR BÝTUM SJÁLFIR, EN HÉR MEÐ LÝSI ÉG EFTIR ÖÐRUM SLÍKUM

OG SVO NÁTTÚRLEGA MÆTUM ÖLL Á TÓNLEIKANA OG LÁTUM Í LJÓS ÞAKKLÆTI OKKAR 

Hulda Haraldsdóttir, 7.9.2009 kl. 20:45

27 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

TEK UNDIR MEÐ HELGU AÐ ÉG HEFÐI VILJAÐ SJÁ HÖRÐ MÆTA OG BERJAST GEGN ICESAVE SVÍVIRÐINGUNNI EN AUÐVITAÐ GETUM VIÐ EKKI ÆTLAST TIL ÞESS (þó manni langi)

Hulda Haraldsdóttir, 7.9.2009 kl. 20:53

28 identicon

Svo var Guðjón uppfærður. Þeir fálagar í Megasukk gerðu Guðjón 2000

http://www.midja.is/david/textar/textar.asp?ID=3013

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 22:19

29 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hehe.  Point taken.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.9.2009 kl. 22:35

30 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þegar þetta fræga kvæði Þórarins Eldjárns va nýorkt og flutt, þá starfaði Mosi hjá Garðyrkjunni í Reykjavík. Þá var þetta náanst eina vinnan sem unnt var að fá. Þarna var einnig nokkrir menntaskólanemar úr MH og man eg að Ólafur Klemensson, sonur Klemensar Jónssonar leikara var þarna líka. Hann þekkti til kvæðisins en hann var góður kunningi Þórarins skálds.

Ólafur kvað skáldið hafa nafna minn Samúelsson byggingameistara í huga. Með því að skoða upphafið:

Guðjón lifir enn í okkar vonum
enginn getur flúið skugga hans

má spyrja: Hvað er Þórarinn að meina með þessu? Er það nokkuð annað en að skuggi GS sé úti um allan bæ í formi allra þeirra háu húsbyggingar sem hann átti þátt í að byggja. Skuggarnir af þeim eru víða um borgina!

Sjálfsagt væri að inna skáldið sjálft um tilurð þessarar hugmyndar hans og að nota þetta ágæta mannsnafn í þessu eftirminnilega ljóði sem fyrst hóf að berast á öldum ljósvakans um 1970 í frábærum flutningi trúbadorsins. 

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 8.9.2009 kl. 08:15

31 identicon

Guðjón var sviðsmaður í herranótt. Leikritið var Bubbi kóngur. Aðalleikari var maður sem þú hefur níðst á í nokkur ár.

Guðni Stefánsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 08:25

32 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég fjarlægði tvær athugasemdir sem voru afar óviðeigandi og rætnar. Ef menn vilja skjóta hver á annan legg ég til að þeir geri það á eigin bloggsíðum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.9.2009 kl. 10:57

33 identicon

Sammála Láru Hönnu , eins og oftast.

Kristín (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 11:25

34 Smámynd: Sjóveikur

ég drullu skammast mín og biðst afsökunnar aftur, hendurnar hreifa sig hraðar en hausinn þegar órétt mál fer upp og lygin flæðir, ég veit ekki hvort það er fæðingargalli eða hrein heimska hjá mér, það eru svo margir í okkar guðsvolaða þjóðfélagi sem eru meðhöndlaðir illa, bæði á "bakvið tjöldin" og opið, af þeim sem hafa aðstöðu hinna ósnertanlegu.

ég læri af mistökunum reyni ég.

Besta kveðja og takk fyrir að taka burt óþverann, og riktigt tack fyrir allt sem kemur frá þér um þjóðmálin Lára Hanna !

Pálmar Magnússon

Sjóveikur, 8.9.2009 kl. 15:17

35 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

En hafa þessir tónleikar hans Hörða torfa ekki verið lítið auglýstir í gegnum tíðina? Ég man ekki til þess að hann hafi verið mikið í fjölmiðlum - jafnvel þó svo að þessir hausttónleikar hans hafi yfirleitt veirð mjög vinsælir.

Brynjar Jóhannsson, 9.9.2009 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband