18.11.2007
Hroki og hræðsluáróður
Mér var gróflega misboðið þegar ég las viðtal við Eirík Hjálmarsson, upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur, á bls. 8 í Fréttablaðinu í dag - sjá má viðtalið hér og neðst í þessum pistli. Þar er slegið upp í fyrirsögn orðum Eiríks sem segir: "Aðrir kunna að virkja ef OR hættir við". Eiríkur minnir einnig á: "...að hver sem er geti byggt virkjun, til dæmis stórkaupendur raforku". Hvað meinar maðurinn? Síðan hvenær getur hver sem er byggt virkjun á Íslandi? Á hann við að erlendu álrisarnir geti eyðilagt íslenska náttúru og byggt virkjun þar sem þeim sýnist ef þeim mislíkar við íslenskar orkuveitur?
Þarna reynir Eiríkur blygðunarlaust að blekkja almenning með hótuninni um að "ef við gerum það ekki þá gerir það bara einhver annar". Eins og hvaða fyrirtæki sem er geti byggt virkjun hvar og hvenær sem er ef því þóknast. Svona málflutningur ætti að vera fyrir neðan virðingu viti borins manns eins og Eiríks - hann veit betur.
Annað sem ég hnaut um í málflutningi Eiríks var af hvílíkum hroka hann talaði niður til þeirra fjölmörgu sem sendu inn athugasemdir við fyrirhugaðri Bitruvirkjun. Aldrei í Íslandssögunni hafa borist eins margar athugasemdir við neinni framkvæmd á landinu - alls 660. Til samanburðar bárust 372 athugasemdir við Kárahnjúkavirkjun, en þar sváfu Íslendingar á verðinum.
Eiríkur segir að af þessum 660 athugasemdum hafi "því miður" 540 verið samhljóða efnislega. Af hverju "því miður", Eiríkur? Eru þær ekki jafngildar öðrum athugasemdum af því þær voru samhljóða? Segir það Eiríki og yfirmönnum OR ekkert að 540 manns hafi haft fyrir því að kynna sér málið í stórum dráttum, taka afstöðu með náttúrunni, afrita athugasemdina af vefsíðunni www.hengill.nu og senda hana í eigin nafni til Skipulagsstofnunar og Sveitarfélagsins Ölfuss? Var þá með sömu rökum ekkert að marka t.d. undirskriftir þúsunda Suðurnesjabúa fyrir skömmu af því þeir skrifuðu allir undir sömu yfirlýsinguna?
Ég mótmæli þessum hrokafulla málflutningi og tel mig tala fyrir hönd þeirra sem sendu inn samhljóða athugasemdir - okkur er öllum fúlasta alvara og við krefjumst þess að tekið verði fullt tillit til athugasemda okkar, þótt þær séu samhljóða. Vægi þeirra er síst minna fyrir það. Við ætlumst einnig til þess að forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur sýni eigendum fyrirtækisins, Reykvíkingum, þá sjálfsögðu kurteisi að tala ekki niður til þeirra eins og þeir séu kjánar.
Reynslan hefur sýnt að þar sem reist er virkjun er náttúran nánast dauðadæmd og að jarðvarma- og jarðgufuvirkjanir eru alls ekki eins sjálfbærar og umhverfisvænar og af er látið. Virkjun getur aldrei verið "í sátt við náttúruna" eins og talsmenn Bitruvirkjunar hafa klifað á. Alltaf þarf að fórna einhverju og í tilfelli Bitruvirkjunar er fórnin einfaldlega allt of mikil. Svo virðist sem Íslendingar séu smátt og smátt að átta sig á og hafna yfirgangi álvera, annars orkufreks iðnaðar og orkuvera eins og OR og Landsvirkjunar. Þeir eru að vakna til vitundar um afleiðingar virkjanaæðisins - þau óafturkræfu spjöll á náttúrunni sem meirihluti þjóðarinnar er ekki tilbúinn til að samþykkja. Svo ekki sé minnst á efnahagslegu áhrifin, metþenslu hagkerfisins, verðbólgu, himinháa vexti og fjárhagslegt óhóf sem bitnar á almenningi í landinu.
Ég hlóð allri frummatsskýrslunni inn í tölvuna mína fyrir nokkrum vikum. Það tók þó nokkuð langan tíma og hún þurfti mikið pláss. Svo fór ég að skoða og ætla nú að tína til nokkrar staðreyndir um umfang skýrslunnar. Hún er gróflega flokkuð í fjóra hluta og sett fram á .pdf-sniði (Adobe Acrobat): Frummatsskýrsla, Samantekt, Kort og myndir og Viðaukar.
Frummatsskýrslan er 158 bls. - 4,45 MB
Samantektin er 13 bls. - 14,2 MB
Kort og myndir eru 26 skjöl - 68,1 MB
Viðaukar eru 20 skjöl, alls 546 bls. - að mestu leyti skýrslur fræðimanna - 336 MB
Alls eru þetta 422,75 MB - næstum hálft GB
Lesningin er alls 717 blaðsíður og þá eru kortin og myndirnar ekki taldar með.
Ég lagði ekki í að telja þann hluta.
Frummatsskýrslan umrædda, sem er mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar, er unnin af Orkuveitu Reykjavíkur, aðalhagsmuna- og framkvæmdaraðilanum, í samvinnu við VSÓ-ráðgjöf. Athugasemdir voru sendar til Skipulagsstofnunar og þar voru þær taldar og flokkaðar. Síðan á að dæma í málinu - fara yfir athugasemdirnar, vega þær og meta og semja lokamatsskýrslu með tilliti til þeirra. Og hver gerir það? Jú, aðalhagsmuna- og framkvæmdaraðilinn, Orkuveita Reykjavíkur, í samvinnu við VSÓ-ráðgjöf. OR og VSÓ eiga semsagt að dæma í eigin máli, meta hvort eitthvað sé að marka athugasemdir við eigin frummatsskýrslu sem fyrirfram er búið að dæma með þeim orðum að þær séu "því miður" flestar samhljóða.
Heldur virkilega einhver að eitthvað verði að marka dóm þessara fyrirtækja yfir sjálfum sér og eigin vinnubrögðum? Varla verður dómurinn hlutlaus, svo mikið er víst. Nú kemur til kasta Skipulagsstofnunar, umhverfisráðherra og nýrrar stjórnar OR að hindra þennan gjörning og Alþingis að breyta lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.11.2007 kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)