17.12.2007
Háð getur verið hárbeitt gagnrýni
Fjöldi manns hefur einnig haft samband við okkur persónulega, ýmist hringt eða sent tölvupóst. Sumir til að sýna stuðning, aðrir til að veita upplýsingar. Sumir óska nafnleyndar, aðrir ekki.
Eins og greinilega hefur komið fram mjög víða er sveitarstjóri Ölfuss ábyrgur fyrir ýmsu sem þykir vægast sagt gagnrýnisvert og eru virkjanamálin aðeins einn angi af því öllu saman. Nýlega var mér bent á grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir rúmu ári, nánar tiltekið 2. desember 2006. Hún er eftir Jóhann Davíðsson og fjallar í háðskum tón um afrekaskrá sveitarstjórans í Ölfusi og hvernig hann hefur æ ofan í æ klúðrað málefnum Þorlákshafnar- og Ölfusbúa. Það er ofar mínum skilningi hvers vegna íbúar Sveitarfélagsins Ölfuss eru ekki löngu búnir að taka sig saman og stöðva sveitarstjórann. Skyldi það eitthvað hafa með hræðsluna og nafnleyndina að gera sem fjallað er um í færslunni hér á undan? Það kæmi mér alls ekkert á óvart.
Jóhann Davíðsson veitti mér leyfi til að endurbirta greinina sína. Háðið getur verið hárbeitt vopn eins og hér má sjá:
Laugardaginn 2. desember, 2006
Til hamingju, Þorlákshafnarbúar
Jóhann Davíðsson fjallar um málefni sveitarfélagsins í Þorlákshöfn

Hann er röskur, selur 1544 hektara jörð, Hlíðarenda, sem nota átti sem útivistarsvæði, m.a. til skógræktar og breytir í iðnaðarsvæði. Eiginlega er ekki hægt að kalla þetta sölu, heldur svona góðra vina gjöf, en það gerðu oft höfðingjar til forna, gáfu vinum sínum ríkulega og nískulaust.
Bæjarstjórinn bar hag eigenda vel fyrir brjósti, þ.e. íbúa sveitarfélagsins, og setti enga óþarfa fyrirvara eða kvaðir í kaupsamninginn, t.d. hvað um jörðina verður ef ekki kemur til reksturs vatnsverksmiðju. Hefur kaupandinn fimm ár til að hugsa það án fjárútláta og vonandi verða stjórnendur fyrirtækisins ekki andvaka vegna vaxtanna.
Kaupandinn þarf ekki að greiða krónu fyrir vatnið en annars átti vatnsfélagið að greiða bæjarfélaginu fyrir vatnsnotkun. Þetta sýnir hve útsjónarsamur bæjarstjórinn er í rekstri sveitarfélagsins og skýrir væntanlega hækkun meirihlutans á launum hans.
Þá var hann ekkert að bíða eftir formlegum leyfum, enda er það tafsamt fyrir duglegan bæjarstjóra heldur gaf mönnum góðfúslega leyfi til að atast í vatnslindinni og fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn með stórvirkum tækjum áður en hann seldi jörðina enda vissi hann sem var að fáir höfðu skoðað þetta og enn færri hugmynd um, hvað jörðin hefur að geyma. Þar hlífði hann mörgum íbúum við að sjá hverju þeir voru að missa af. Sú tillitssemi hans er virðingarverð.
Þetta var fjárhagslega hagkvæmt enda kostar skógrækt og annað stúss við svona útivistarsvæði ómælt fjármagn. Þá losar hann Þorlákshafnarbúa við fjárútlát vegna um 100 ára gamals húss á bæjarstæðinu, en einhver sérvitringurinn gæti látið sér það til hugar koma að gera upp húsið, þar sem það tengist mjög náið sjávarútvegi og sögu Þorlákshafnar og er elsta húsið í sveitarfélaginu. Bæjarstjórinn er séður, nefnir ekki húsið einu orði í sölusamningnum.
Það er gott hjá honum að hafa ekki látið minnast á sölu stórs hluta af upplandinu, m.a. þeirra fjalla sem blasa við frá Þorlákshöfn, á fréttavef bæjarfélagsins, Ölfus.is. Einhverjir gætu orðið sárir vegna sölunnar en Ólafur Áki er friðsemdarmaður og vill hlífa mönnum við óþægilegum fréttum. Betra að fólk lesi þar um nýjan slökkvibíl og bangsadaga í bókasafninu.
Ólafur Áki er hamhleypa til verka. Búinn að ákveða að selja land undir álverksmiðju í Þorlákshöfn. Til að milda skap þeirra íbúa sem finnst nóg komið af slíkum í landinu, og kæra sig ekkert um eina við bæjardyrnar, bendir bæjarstjórinn réttilega á að þetta er ekki álverksmiðja heldur svona smá álverksmiðja.
Sveitarfélagið hefur selt land undir golfvöll og land úti á Bergi.
Stefnir í að bæjarstjórinn verði búinn að losa sig við allt land sveitarfélagsins fyrir næstu jól og er það rösklega gert þar sem bærinn var með þeim landmestu á landinu.
Þessi forystusauður hefur lýst áhuga sínum á að íbúar höfuðborgarsvæðisins losni við úrgang sinn í Þorlákshafnarlandið. Á það eflaust eftir að efla jákvæða ímynd bæjarfélagsins.
Hópur fólks kom til Þorlákshafnar s.l. vor. Mætti honum mikill fnykur og þegar spurt var hvað annað væri í boði var sagt að í bænum væru þrjár hraðahindranir. Þarna tel ég að bæjarstjórinn hafi sýnt hyggjuvit til að laða að ferðamenn, sparað auglýsingakostnað og vitað sem var að betra er illt umtal en ekkert.
Í framtíðinni geta svo ferðamenn skoðað, væntanlega fyrir sanngjarnt gjald, hvernig skemma má án nokkurra leyfa gróna fjallshlíð, barið augum iðnaðarhús á útivistarsvæði, séð lítið og sætt álver og notið ilmsins af sorphaugi. Allt í anda "metnaðarfullrar stefnu í umhverfismálum", með "áherslu á að gengið verði um landið og auðlindir þess af varfærni og virðingu" og þess að náttúran og íbúarnir hafa lengi og vel notið "vafans áður en ákvörðun er tekin" eins og segir á vef Sjálfstæðisfélagsins Ægis.
Íbúar Árborgar hljóta að vera ánægðir með skreytinguna á Ingólfsfjalli enda er hún gerð með metnaðarfullri varfærni og virðingu.
Nýyrðasmíði bæjarstjórans er uppspretta peninga. Þannig fann hann upp nýyrðið "Bráðabirgða framkvæmdaleyfi" og lét Orkuveitu Reykjavíkur greiða 500 milljónir fyrir. Sannast þar hið fornkveðna: "Dýrt er drottins orðið".
Einnig virðist hann hafa breytt merkingu orðsins "íbúalýðræði" sem var talið þýða að haft væri samráð við íbúana um málefnin, í: "Bæjarstjórinn ræður".
Þótt hann hafi örlítið hagrætt geislabaugnum fyrir kosningar og verið með orðhengilshátt við gamla Hafnarbúa, má ekki dæma hann hart. Hann var að safna atkvæðum og þar helgaði tilgangurinn meðalið.
Enda er gaman að stjórna og fá að tylla, þótt væri ekki nema annarri rasskinninni í bæjarstjórastólinn, um stund.
Hvar eru teiknibólurnar?
Enn og aftur, til hamingju.
Höfundur er lögreglumaður, bjó á B-götu 9 Þorlákshöfn og er félagi í Græna bindinu.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.12.2007
Hræðslan og nafnleynd
Þetta var fyrirsögn í leiðara Morgunblaðsins síðastliðinn mánudag, 10. desember. Leiðarinn er birtur hér að neðan. Umrædd hræðsla er ekki ný af nálinni. Agnes Bragadóttir skrifaði langa grein um hræðsluna í Morgunblaðið 12. nóvember sl. og Ómar Ragnarsson bloggar um hana sama dag hér.
Við sem höfum reynt að berjast gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi, og bent á vægast sagt vafasamar aðferðir sem viðhafðar hafa verið af þeim sem að virkjuninni standa, höfum aldeilis fundið fyrir þessari hræðslu. Fólk, sem er innilega sammála okkur og býr jafnvel yfir upplýsingum, þorir ekki að leggja nafn sitt við málið af ótta við einhvers konar refsingu eða aðrar afleiðingar þess að láta skoðanir sínar í ljós. Þetta er óhugnanlegt.
Í þessari færslu lýsti ég eftir lýðræðinu á Íslandi. Nú lýsi ég eftir skoðana- og málfrelsinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)