16.10.2009
Lærdómur fortíðar
Tíminn flýgur ekki á neinum venjulegum hraða... eða eins og ég hef sagt um árabil: "Það er helgi annan hvern dag og mánaðamót um hverja helgi." Svo gefur hann í ár frá ári. Spurning hvað gírarnir eru orðnir margir, eða hestöflin. Þessi er frá síðasta föstudegi - hljóðskrá fylgir neðst.
Ágætu hlustendur...
Yfirleitt er erfitt að velja umfjöllunarefni fyrir þessa pistla. Ekki af því efniviðinn skorti heldur vegna þess hve margt kemur til greina. Svo er spurningin hvort maður á að fjalla um fortíðina, nútíðina eða framtíðina? Stundum heyrast raddir um að við megum ekki velta okkur upp úr fortíðinni. Við ættum frekar að einblína á framtíðina og byggja upp.
Þetta finnst mér mikið vanmat á þeim lærdómi sem draga má af fortíðinni. Við eigum einmitt að rýna í hana með gleraugum gagnrýni og heiðarleika, reyna að forðast mistökin sem einkenna hana, leiðrétta rangindin sem hafa fest sig í sessi í áranna rás og afnema sjálftökuna og spillinguna sem hefur grasserað í íslensku samfélagi um áratugaskeið - kannski alla tíð. Sagan geymir þetta allt. Spurningin er bara hve aðgengilegar heimildirnar eru og hve viljug við erum sem þjóð til að horfast í augu við nakinn og oft forljótan sannleika liðinna tíma.
Þorvaldur Gylfason skrifaði góða grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann stakk upp á að færðar verði til bókar spillingarsögur fortíðar og nútíðar. Sögur sem hafa eingöngu varðveist í vitund fólksins í landinu, aldrei verið skráðar, og eru því ekki aðgengilegar kynslóðum nútíðar og framtíðar. Á meðan þannig er í pottinn búið er lífsins ómögulegt að læra af þeirri reynslu sem þar gæti mögulega leynst.
Þetta er góð hugmynd. Eiginlega alveg frábær. Ég er sannfærð um að fjölmargir gætu lagt heilmikið til málanna ef eitthvað þessu líkt verður að veruleika. Til dæmis mætti opna bókhald stjórnmálamanna og -flokka upp á gátt eins langt aftur í tímann og hægt er. Það væri ágætis byrjun.
En slík söguskoðun krefst þess að íslenska þjóðin sýni siðferðisstyrk, gangi hreint og heiðarlega til verks og af miklum heilindum. Ég held að meirihluti þjóðarinnar myndi fara nokkuð létt með það. Viðnám gegn slíkum hugmyndum kæmi líklega helst frá þeim, sem hafa eitthvað að fela, orðspor að verja, hagsmuni stjórnmálaflokka eða -foringja í huga - og frá þeim sem vilja engu breyta. Vilja geta haldið áfram að skammta sér og sínum hlunnindi og almannafé að vild og skara eld að eigin köku. Gefa skít í alla hina.
Margan lærdóminn má draga af græðgis-, einka-, frjálshyggju- og eiginhagsmunavæðingu þjóðfélagsins undanfarin ár. Einn af þeim ætti að vera sá, að við byggjum ekki réttlátt, sanngjarnt og siðað samfélag án samvinnu og samhjálpar. Við verðum öll að leggja af mörkum til samfélagsins og þykja það sjálfsagt. Á móti kemur að stjórnvöld verða að tryggja þjóðareign á grunnstoðunum, sem og eðlilega og sem jafnasta dreifingu á arðsemi samfélagsins - hvort sem er af auðlindum lands og sjávar eða öðru.
Horfum endilega til framtíðar - en með lærdóm af mistökum fortíðar í farteskinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)