20.10.2009
Óskar Bergsson og Eyktin hans
Það var fróðlegt að fylgjast með athugasemdum á Fésinu þegar Kastljósið var sent út fyrr í kvöld og fjallað um Óskar Bergsson og vinnubrögðin sem hann er þekktur fyrir. Ég ætla ekki að hafa það eftir sem sagt var en ekki fór á milli mála hvaða skoðun fólk hefur á siðlausri hagsmunapólitík Óskars. Ég ætla heldur ekki að hafa eftir hvað kollegar hans og samstarfsfólk víða í borgarkerfinu segir, það verður að koma fram annars staðar.
Það eru einmitt svona stjórnmálamenn sem fólk vill ekki lengur. Þeim er ekki treyst og þeir eru holdgervingar spillingarinnar sem kom okkur á kaldan klakann. Ég minni á þetta aftur fyrir kosningar í vor.
Kastljós 20. október 2009
Munið þið eftir þessu viðtali þar sem Þóra reyndi hvað eftir annað að benda honum á siðblinduna, en án árangurs. Ég skrifaði nokkur orð um þetta hér.
Kastljós 17. febrúar 2009
Bloggar | Breytt 21.10.2009 kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
20.10.2009
Brátt verða hliðin opnuð
Kunningjakona mín kom heim eftir stutta dvöl í útlöndum fyrir rúmri viku. Hún hafði ekki farið út fyrir landsteinana um nokkurt skeið og henni brá þegar hún kom aftur. Þetta er næm kona og hún sagðist hafa fundið svo neikvæða orku þegar hún steig á íslenska grund. Þetta kom mér ekkert á óvart. Neikvæðnin er nánast áþreifanleg í samfélaginu. Og það á sér vitaskuld ofureðlilegar skýringar.
Þótt ég ætli ekki að fara náið út í saumana á margslungnu andrúmsloftinu á Íslandi hér og nú er ég sannfærð um að hin neikvæða orka sem kunningjakona mín fann við heimkomuma er nátengd réttlætinu. Ef það er eitthvað sem okkar þjakaða og þjáða þjóðarsál þarfnast um þessar mundir er það réttlæti.
Búið er að skrifa undir Icesave-samning sem skuldsetur okkur í marga áratugi - en þeir sem höfuðábyrgðina bera ganga lausir og baða sig í illa fengnu fé eins og Jóakim aðalönd. Réttlæti?
Seðlabankinn henti nokkur hundruð milljörðum í gjaldþrota bankana dagana fyrir hrun og ríkissjóður öðru eins til að bjarga fjármagnseigendum. Vanhæfur seðlabankastjórinn og einn af arkitektum hrunsins, sem loks tókst að losna við úr embætti með lagasetningu í febrúar, þeytir nú skítabombum út um víðan völl sem ritstjóri um leið og hann reynir að hvítþvo sjálfan sig og þátt sinn í hruninu. Réttlæti?
Virkjana- og stóriðjusinnar fara nú mikinn og heimta að allt verði virkjað, orkuauðlindir þurrausnar í margar kynsóðir, til að breiða yfir gróðærisklúður einkavinavæddra bæjarstjóra sem seldu sér og vinum sínum opinberar eigur og settu bæjarfélögin sín á hausinn. Auðlindum kynslóðanna á að fórna á altari græðgi nokkurra manna og frasarnir fljúga. Álver eða dauði! Minnir óhugnanlega á æðið sem reið yfir þegar fjármálabólan var að þenjast út. Réttlæti?
Þetta eru bara þrjú dæmi af ótalmörgum sem varpa kannski einhverri ljóstýru á hina neikvæðu orku sem svífur yfir vötnunum á Íslandi. Eygjum við einhverja von? Vonandi - en eitt er víst: Ef hrunflokkarnir ná aftur völdum getum við, sem krefjumst réttlætis og þráum það umfram allt, pakkað saman og farið. Þá verða allir hrunvaldar hvítþvegnir og haldið áfram þar sem frá var horfið í einkavinavæðingar- og spillingarferlinu. Þá verður réttlætinu ALDREI fullnægt, sannið þið til. "Alting bliver igen som för", eins og segir í textanum með myndinni af Jóakim hér að ofan.
Pistillinn minn á Morgunvaktinni síðasta föstudag fjallaði ekki nema óbeint um þetta. Jú, kannski ljóðið hans Eyþórs. Ég kaus alltént að skilja það þannig að ljónið í búrinu væri réttlætið - og að brátt verði hliðin opnuð og ljónið brjótist út. Guðir allra trúarbragða hjálpi þeim sem á vegi þess verða. Hljóðskrá er viðfest neðst. Pistlunum er útvarpað svo snemma að það er enginn vaknaður - ja... að minnsta kosti ekki ég.
Ágætu hlustendur...
Einu sinni, endur fyrir löngu, var ég stolt af að vera Íslendingur. Spáði ekkert of mikið í pólitík en fylgdist samt með. Las blöðin, horfði á fréttir, lagði saman tvo og tvo og dró mínar ályktanir. Muldraði í barminn, tautaði og tuðaði, skammaðist yfir misvitrum ákvörðunum ráðamanna en hafðist ekki að. Reyndi ekki að fá greinar birtar í dagblöðum eða leggja orð í belg á annan hátt. En ég hugsaði mitt og safnaði í hugarsarpinn.
Hvað ætli þessi lýsing eigi við marga Íslendinga? Hve margir hafa hingað til beygt sig af þýlyndi undir hið lífseiga ofbeldi stjórnmálaflokkanna, sem kveður á um að við megum bara tjá skoðanir okkar með atkvæðinu á fjögurra ára fresti? Við eigum að þegja og hafa okkur hæg þess á milli. Ekki hafa skoðanir og leyfa stjórnmálaflokkunum að athafna sig í friði - hvort sem þeir eru að efna eða svíkja kosningaloforðin, láta þjóðina styðja innrásir og stríð eða gefa eigur hennar vinum sínum. Er þetta lýðræði? Ja... að minnsta kosti ekkert venjulegt lýðræði.
Já, ég var stoltur Íslendingur. Stolt af landinu mínu og þjóðinni minni. Menntaða fólkinu, náttúrunni, hreina loftinu, tæra vatninu og jafnvel eldgosum og jarðskjálftum. Slíkt tilheyrði því að vera Íslendingur. Árið 1983 var ég á leið heim eftir stutta heimsókn til Frakklands. Þegar ég fór í gegnum vegabréfaskoðun á flugvellinum í París sagði maðurinn sem þar vann: "Ah... Ísland! Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og í júlí - og enginn bjór!" Ég var þessu vön en honum fannst þetta skemmtileg sérkenni og við hlógum dátt saman. Ekki varð ég vör við að hann vissi fleira um Ísland. En það gerði ekkert til, ég var örugg í þeirri fullvissu, að það væri gott að vera Íslendingur.
Nú er öldin önnur. Þegar Íslendingar viðurkenna þjóðerni sitt erlendis nú um stundir - ef þeir þora því á annað borð - fá þeir glósur um að við séum þjófar og glæpamenn. Ekki er talað lengur fallega um land og þjóð, bara minnst á hrunið og spurt af hverju ekki sé enn búið að handtaka neinn fyrir að ræna þjóðina. Fyrir að rýja hana inn að skinni - ekki aðeins af fé heldur líka sjálfsvirðingu, stolti og reisn. Og við spyrjum líka: "Af hverju? Hvað dvelur réttlætinu?"
Stundum finnst mér ég vera eins og dýr í búri. Ég æði um, öskra svolítið á blogginu, en finnst ég vera innilokuð á svo margan hátt. Kefluð með hendur bundnar í skuldafangelsi og sé ekki ennþá von um betra líf eða réttlæti, almenningi til handa. En svo las ég lítið ljóð í nýútkominni ljóðabók eftir Eyþór Árnason, hið kunna ljúfmenni sem fékk verðlaun Tómasar Guðmundssonar á þriðjudaginn fyrir sitt fyrsta verk. Ljóðið heitir Dagar og það veitti mér örlitla von:
Dagar
Dagarnir eru
eins og ljón
í búri
Ég bíð í hringnum
Brátt verða
hliðin opnuð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)