"Formannssynir fyrr og nú"

NepótismiMikið hefur verið rætt um hinn svokallaða "nepótisma" og "cronyisma" sem þýðir frændhygli og/eða einkavinavæðing, og er þá einkum verið að tala um stjórnsýsluna á Íslandi og aðrar áhrifastöður í þjóðfélaginu. Carsten Valgreen er fyrrverandi aðalhagfræðingur Danske Bank og einn af þeim sem skrifuðu fræga rannsóknarskýrslu árið 2006, þar sem varað var við því sem var að gerast á Íslandi en var hæddur og spottaður af íslenskum yfirvöldum og auðmönnum fyrir vikið. Í grein sem Carsten Valgreen skrifaði í janúar sl. segir hann m.a.: "Ísland er lítið, einsleitt samfélag þar sem innbyrðis tengsl eru mikil. Þetta er bæði mikill styrkleiki og veikleiki. Þetta er rót kreppunnar. Slík samfélagsgerð virkar næstum eins og fjölskylda eða eitt fyrirtæki. Útilokun tiltekinna vandamála og ákvörðun um að þagga þau niður þróast mjög auðveldlega, og af því leiðir að erfitt er að grípa inn í þegar þau hafa hreiðrað um sig." Ég nefndi þetta í pistli um Evu Joly í júní.

Rót kreppunnar, hvorki meira né minna. Það eru stór orð en sannleikurinn er sá, að embættismannakerfið og stjórnsýslan eru gegnsýrð af pólitískum bitlingum þar sem menntun og hæfileikar hafa þurft að víkja fyrir flokksskírteinum og frændsemi. Hagsmunir flokkanna og valdsins látnir ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Eins og gefur að skilja eru þar sjálfstæðis- og framsóknarmenn í yfirgnæfandi meirihluta eftir óralanga stjórnarsetu flokka þeirra. Ég hef kallað þetta fyrirbæri fimmta valdið.

Gríðarlegar sviptingar hafa verið hjá "blaði allra landsmanna", Morgunblaðinu. Þar hefur átt sér stað ein mesta hreinsun síðari ára og nú síðast hverfa frá störfum fjórir af bestu blaðamönnunum sem eftir voru. Mbl.is ku hafa sett mikið niður og Moggabloggarar hverfa á önnur mið hver á fætur öðrum. Þeir sem eftir eru kvarta yfir að hafa ekki almennilegar fréttir til að tengja bloggin sín við. Þetta sést reyndar glöggt á heimsóknartölum helstu fréttabloggaranna, sem mér virðist hafa hrapað. Og Mogginn hefur breyst verulega eins og Gunnar skrifar t.d. um hér.

Mikilfengleg árásarhrina er í gangi hjá sjálfstæðismönnum gegn bloggi, Kærleiksböndin klikka ekkigagnrýni og frjálsri fjölmiðlun. Tjáningarfrelsið á að beisla, einkum tjáningarfrelsi Egils Helgasonar að því er virðist, því sannleikurinn má ekki koma í ljós. Það er hættuleg þróun að þeirra mati sem stórskaðar valdastrúktúrinn sem þeir voru búnir að koma sér upp. Aðalmálpípa árásarhrinunnar skreið út úr fylgsni sínu þegar Leiðtoginn settist í ritstjórastólinn og skvettir nú skoðunum sínum yfir landslýð af miklum móð og hirðir ekkert um hvað er satt og rétt. Völdin skulu endurheimt með lygum og óhróðri ef ekki vill betur til. Hér mærir hann t.d. félaga Björn og segir hann betri en Egil Helgason. Ekki vissi ég að samkeppni væri þar á milli, en takið sérstaklega eftir orðum hans um Evu Joly. Það fer um mig ónotahrollur við tilhugsunina um hvað verður um rannsóknir á gerendum hrunsins ef þetta lið kemst aftur til valda. Svo fabúlerar hann um meinta samsærisfundi nokkurra manna sem ég hef öruggar heimildir fyrir að hafi aldrei átt sér stað.

En aftur að nepótismanum. Sagt er að eigendur Morgunblaðsins geti ráðið og rekið þá sem þeim sýnist og það er strangt til tekið alveg hárrétt. Engu að síður gagnrýni ég harkalega þann gjörning eigendanna að reka blaðamenn á sjötugsaldri sem höfðu varið allri starfsævi sinni á blaðinu og áttu eftir örfá ár í eftirlaun. Löglegt kannski, en fullkomlega siðlaust. Því fylgir nefnilega mikil samfélagsleg ábyrgð að reka fjölmiðla.

Jóhann Hauksson skrifaði bloggpistil í gær um væntanlega viðbót við blaðamannaflóruna á Mogganum. Og viti menn! Það er sonur besta vinar aðal - en ekki hvað? Mannsins sem sigldi áreynslulaust inn í Hæstarétt á flokksskírteini og vináttuböndum. Jóhann vitnar í grein sem nýi blaðamaðurinn skrifaði fyrir tæpum tveimur árum þegar FLokkurinn réð son Leiðtogans, óverðugastan umsækjenda, í dómaraembætti fyrir norðan. Þar beitir blaðamaðurinn þekktum réttlætingum fyrir lögbrotum og siðleysi: Þetta hefur verið gert áður! Og fyrst þeir gerðu það megum við gera það líka. Hér er grein blaðamannsins úr Morgunblaðinu 25. janúar 2008:

Formannssynir fyrr og nú - Ívar Páll Jónsson - Morgunblaðið 25. janúar 2008

Ég bendi á áðurnefnt blogg Jóhanns hvað innihaldið varðar - en vil þó sérstaklega staldra við lokaorð greinarinnar. Lýsinguna á meintu lýðræði á Íslandi þar sem pöpullinn fær að segja skoðun sína á fjögurra ára fresti en er gert að halda kjafti þess á milli og vera ekki með neitt væl, þ.e. gagnrýni. Þannig hefur lýðræðið verið túlkað af a.m.k. sjálfstæðis- og framsóknarmönnum sem sátu í valdastólum allt of lengi. En við vitum betur, einkum eftir atburði ársins.

Embættisveitingin sem hér er fjallað um er væntanlega öllum í fersku minni. Björn Bjarnason lét Árna Mathiesen ráða aðstoðarmann sinn og son Leiðtogans í embætti sem hann var talinn síst fallinn til af umsækjendum. Þráinn Bertelsson gerði þessu m.a. skil í dagbókarfærslu í Fréttablaðinu 22. desember 2007. Embættisveiting þessi er með þeim umdeildari hin síðari ár og ekki að ástæðulausu. Árni reif bara kjaft yfir gagnrýninni, var væntanlega að hlýða fyrirmælum, og viðhafði fordæmalaus orð um væntanlegt álit Umboðsmanns Alþingis. Margir vilja meina að með þessu máli hafi pólitískur ferill Árna verið ráðinn. Enda starfar hann nú loks við það sem hann menntaði sig til, dýralækningar.

Árni Mathiesen og Umboðsmaður Alþingis - mars 2008

 

Frá hruni hefur mikið verið talað um bætt siðferði hjá yfirvöldum, í stjórnsýslunni og meðal almennings. Staðreyndin er nefnilega sú að "hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það." Yfirvöld verða að ganga á undan með góðu fordæmi, hvaða flokkar sem eru við völd hverju sinni. Ég bind vonir við að Þjóðfundurinn í næsta mánuði taki siðferðið föstum tökum og tali enga tæpitungu. Vonandi fær þessi maður að vera með í þeirri umræðu.

Myndskreyting með dagbókarfærslu Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu 22.12.07


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þetta, skýr og góð að vanda.  Þessi tengsl eru skelfileg fyrir land og þjóð.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.10.2009 kl. 16:23

2 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Landsfundarræðan sem þú birtir og ég hlustaði á þótti mér bara frekar fyndin í þetta skiptið. Í fyrra skiptið,í beinni, átti ég ekki orð fyrir hneikslan. Svona getur tíminn og fjarlægðin kannski breytt hlutunum. Já, það er ekki ánægjuleg tilfinning að þeir sem "ráðskast" með okkur fari ekki eftir sttum reglum. Þetta verður ný reynsla fyrir Davíð að vera í vinnu þar sem hann á allt undir viðskiptavinum og eigendum en ekki kjósendum. En af því að alltaf er verið að bendla Framsókn þá vil ég benda á skipting ábyrgðar á hruninu er svon að mínu viti. Sjálfstæðisflokkur 70 % samfylking 20, Framsókn 10 og VG 0 prósent. Hvernig finnst þér skiptingin vera?

Sigurður Ingólfsson, 17.10.2009 kl. 17:44

3 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

þetta tengist kannski ekki alveg þvi sem rætt er hér að ofan ég ég varð að koma þessu til þvi,var að heyra að eigendur nýja Glitnis þ.e. sem voru að taka yfir núna sem kröfuhafar skuldabréfa í bankanum séu engir aðrir en Jón Ásgeir , Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson - ég bara spyr ætlar skítinn hvergi að taka upp, þeir eiga að hafa verið að kaupa skuldabréf bankanna á 2-3% af virði þeirra og þannig núna orðnir kröfuhafar þeirra....oj oj ojFyrir

Steinar Immanúel Sörensson, 17.10.2009 kl. 17:49

4 identicon

„Mannsins sem sigldi áreynslulaust inn í Hæstarétt á flokksskírteini og vináttuböndum.“

Þetta eru miklar fullyrðingar og ekki rökstuddar. Ég spyr þig: Hvort vilt þú sem dómara þann sem er umhugað um mannréttindi einstaklingsins og ver þau fram í rauðan dauðann gegn yfirgangi kerfisins, eða varðhund þess? Ég mælist til þess að þú lesir þig aðeins í gegnum dóma og sératkvæði föður míns áður en þú kveður upp svona palladóma. Þá áttarðu þig kannski á því af hverju hann var skipaður.

„...þegar FLokkurinn réð son Leiðtogans, óverðugastan umsækjenda, í dómaraembætti fyrir norðan.“

Önnur alls órökstudd fullyrðing. Nefnd, undir forystu Péturs, mat Þorstein tveimur flokkum neðar en tvo jafnaldra hans, án alls rökstuðnings. Menn sem höfðu sambærilega reynslu. Hefur nefnd alltaf rétt fyrir sér? Má ekki gagnrýna álit nefndar? Hvernig væri að líta hlutlægt á staðreyndir máls?

„Þar beitir blaðamaðurinn þekktum réttlætingum fyrir lögbrotum og siðleysi: Þetta hefur verið gert áður! Og fyrst þeir gerðu það megum við gera það líka.“

Hér snýrðu út úr. Ég sýndi einfaldlega fram á að maðurinn sem gagnrýndi skipun Þorsteins, Pétur Hafstein, hafði sjálfur verið  skipaður í embætti framyfir menn, sem með réttu hefði mátt ætla að hefðu mun meiri starfsreynslu og hæfni en hann. Engar slíkar fullyrðingar eiga við um Þorstein, enda hafa störf hans að sögn þeirra sem til þekkja sannað að skipun hans var fyllilega verðskulduð.

Aðalatriði greinarinnar var, að mat nefndarinnar var alls ómálefnalegt. Til að leita skýringar á því rakti ég þegar Pétur Hafstein lét á sínum tíma látið óyfirveguð orð falla um föður Þorsteins. Kannski voru tengsl á milli óvildar hans í garð Davíðs Oddssonar og þeirrar furðulegu ákvörðunar, að skipa syni hans tveimur flokkum neðar en mönnum með algjörlega sambærilega reynslu. Vonum ekki.

Hér er annars svar mitt við pistli Jóhanns: http://www.amx.is/pistlar/10570/.

Ívar Páll Jónsson (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 18:00

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

mér fannst skondið, í grein Ívars Páls, að hann byrjar á að tala um ráðningu Þorsteins Davíðssonar á þann hátt að ekkert sé athugavert við hana. talar um nefndarálitið og almættið, með undirliggjandi kaldhæðnistóni. „Við liggur að fólk telji nefndarálitið vera álit almættisins, svo óumdeilt er það.“

síðan talar hann um ráðningu Péturs Kr. Hafstein, sem að mínu mati lyktar einnig af pólitík. hefur sumsé snúist um 180°í afstöðu sinni. hann notar söma kaldhæðni þar, en þó til að undirstrika að ráðningin hafi verið pólitísk. „Auðvitað verðum við að gera ráð fyrir að dómsmálaráðherra, sjálfstæðismaðurinn Friðjón Þórðarson, hafi ekki skipað Pétur Kr. Hafstein vegna þess að hann er sonur Jóhanns Hafstein, fyrrverandi forsætis- og dómsmálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Nei, það er af og frá.“

hann er í hrópandi mótsögn við sjálfan sig. lokar svo hringnum þar sem hann byrjaði.

hvort var hann í grein sinni að segja ráðningu Péturs Kr. Hafstein eðlilega, eða ráðningu Þorsteins Davíðssonar óeðlilega?

Brjánn Guðjónsson, 17.10.2009 kl. 18:17

6 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Talandi um frændsemi og pólitík: Í núverandi ríkisstjórn sitja sem ráðherrar tveir beinir erfingjar Kommúnistaflokks Íslands. Í tilviki annars ráðherrans er um að ræða ættarveldi sem komið að á þriðja ættlið.

Forystunni í Framsóknarflokknum hefur verið lýst þannig að formaðurinn sé svo innvígður í spillingarelementið í flokknum að einungis eitt gæti njörvað hann fastar: að Finnur Ingólfsson væri mamma hans!

Flosi Kristjánsson, 17.10.2009 kl. 19:11

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Snilldarfærsla Lára :)

Óskar Þorkelsson, 17.10.2009 kl. 19:33

8 identicon

Lára.Enn og aftur .Takk fyrir.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 19:36

9 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Ég fæ bara kast þegar minnst er á Árna Matt og veitinguna. Ég var svo reiður þegar þetta var að gerast að ég stofnaði hóp á Fésinu til að mótmæla. Það er nú ekki hægt að segja að hópurinn sá hafi sprungið vegna fjölmennis.

http://www.facebook.com/group.php?gid=10040752501

Guðl. Gauti Jónsson, 17.10.2009 kl. 20:08

10 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Það þarf fullkomlega samviskulaust fyrirtæki til að reka starfsmenn eins og Björn Vigni og Freystein,sem hafa starfað fyrir Morgunblaið lungann úr starfsævi sinni,- nokkrum árum áður en þeir bfara á eftirlaun. Slíkt gera bara illvirkjar. Mogginn er það sem á ensku er kallað : „corporation without a conscience". Samviskulaust fyrirtæki. Yfirmenn Moggans kunna ekki að skammast sín.

Eiður Svanberg Guðnason, 17.10.2009 kl. 21:33

11 Smámynd: Steingrímur Helgason

Alltaf góð, en ztundum betri, einz & núna...

Steingrímur Helgason, 17.10.2009 kl. 23:02

12 identicon

Bæta við athugasemd 10: að núna er við hæfi að segja við Davíð: "Svona gera menn ekki" þó að vísu hafi ekki verið hann sem sagði þessum mönnum upp, þá bendir ekkert til að hann hafi verið ósáttur við það.

Þegar þessi danska skýrsla kom út 2006, um að íslensku bankarnir stæðu á brauðfótum og gætu hrunið eins og spilaborg, þá var viðtal við Davíð í sjónvarpsfréttum þar sem hann var foksillur og vildi láta rannsaka "þessa aðför dananna að íslenska bankakerfinu" sem sakamál. Hvernig væri að rifja það upp núna þegar allt snýst um að láta okkur trúa að Davíð hafi verið á öndverðri skoðun, vitað þetta allt og reynt að vara við?

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband