Einar Már og Kjarni málsins

Mörgum eru greinarnar hans Einars Más í fersku minni - þessar sem birtust í Morgunblaðinu í fyrravetur og urðu undirstaðan í Hvítu bókinni góðu. Einar Már er kominn á kreik aftur og þar sem þessi grein er merkt númer 1 er væntanlega von á fleirum. Þótt flestir séu hættir að lesa Morgunblaðið er sumt einfaldlega skyldulesning. Þessi birtist í dag - smellið þar til læsileg stærð fæst.

Einar Már - Kjarni málsins 1 - Morgunblaðið 23. október 2009


Svívirða, sársauki, sorg og söknuður

Ég hef verið að velta ýmsu fyrir mér, rifja upp, pæla í þjóðarsálinni, merkingu orðanna, skilning okkar á þeim og samhengi hlutanna. Ég hef verið að hugsa um fólk og hvernig það upplifir kreppuna. Ég hitti lítinn hóp af góðu fólki eitt kvöldið í vikunni. Þar sagði ung kona: "Þetta er velmegunarkreppa". Það má til sanns vegar færa - a.m.k. hjá sumum. Önnur kona sagði reynslusögu. Hún var í apóteki og fyrir framan hana í röðinni var gömul kona að sækja lyfin sín. Þegar verið var að afgreiða gömlu konuna fór hún að skjálfa - hún grét. Þarna stóð hún með aleiguna í höndunum, 12.000 krónur. Lyfin kostuðu 9.000. Átti hún að borga lyfin og eiga bara 3.000 krónur til að lifa af út mánuðinn eða...? Þessi gamla kona var ekki að upplifa velmegunarkreppu.

Eflaust er þetta veruleiki margra þótt eldri borgarar séu kannski í meirihluta af því þeir hafa ekki tök á að auka tekjur sínar á neinn hátt. En þetta er gömul saga og ný. Það hefur alltaf verið til fátækt á Íslandi og alltaf hefur verið stéttskipting í okkar "stéttlausa", litla þjóðfélagi. Kannski er þetta meira áberandi nú en alla jafna, ég veit það ekki. Maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að jafna lífsgæðin betur í örsamfélagi eins og okkar - af hverju þeir sem hafa yfrið nóg og gott betur geta ekki hunskast til að hjálpa sínum minnstu bræðrum og systrum. Af hverju nokkrum einstaklingum finnst bara sjálfsagt að velta sér upp úr peningum eins og Jóakim aðalönd á meðan aðrir eiga ekki til hnífs og skeiðar.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki slíkan þankagang - hef aldrei gert og mun aldrei gera. Mér finnst þetta svívirðilegt og óafsakanlegt.

Svo er það sársaukinn. Við vorkennum okkur alveg óskaplega. Okkur finnst illa með okkur farið af alþjóðasamfélaginu svokallaða. Fólk, sem fætt er með silfur- eða jafnvel gullskeiðar í munni og hefur ekki hugmynd um hvað það er að líða skort eða þurfa að neita sér um nokkurn hlut, lætur eins og heimurinn sé að farast af því það fær ekki sínum prívatvilja framgengt í öllum málum svo það geti hlaðið enn meira undir sig og sína.

Mér hefur æ oftar, í öllum ósköpunum sem hafa gengið á, orðið hugsað til forsíðumyndar á tímariti sem ég kom auga á fyrir margt löngu. Ég keypti tímaritið og geymdi forsíðumyndina. Ég gerði það til að minna sjálfa mig á hvað ég hef það helvíti gott - hvað sem á gengur og þrátt fyrir allt og allt. Til að minna sjálfa mig á hve kvartanir okkar Íslendinga yfir léttvægum, efnislegum lífsgæðum eru í raun fáránlegar þegar upp er staðið. Þetta var í ágúst árið 1992 og myndin var á forsíðu The Economist. Stríðið í Bosníu var í algleymingi og þar átti fólk um sárt að binda. Ég gróf þessa forsíðu upp og skannaði hana inn í tölvuna. Sjáið þið það sem ég sá þá og sé enn? Hvað erum við að kvarta?

The Economist - forsíða - ágúst 1992

Ég hef líka verið að hugsa um stjórnmálin og stjórnmálamennina og -konurnar. Reyni öðru hvoru að fylgjast með umræðunum á Alþingi en gefst alltaf upp. Þvílíkur farsi! Þvílíkar gervimanneskjur og gervimálstaður sem þar er á ferðinni! Hvaða fólk er þetta eiginlega sem kosið var til að leiða þjóðina á erfiðum tímum? Gjammandi gelgjur og útblásnar blaðurskjóður? Það er undantekning ef einhver kemur í ræðustól og talar af hugsjón, skynsemi og sannfæringu. Þá hugsa ég til Vilmundar Gylfasonar og hans stutta en minnisstæða ferils á þingi. Og ég sakna heiðarlegra hugsjónamanna og -kvenna sem hægt er að treysta.

Vilmundur lést langt fyrir aldur fram og hans var sárt saknað af ótalmörgum. Blöðin voru uppfull af minningargreinum um hann, en ein er mér minnisstæðust þeirra allra. Það var persónulegasta og stórkostlegasta minningargrein sem ég hafði lesið á þeim tíma, og hún var eftir Guðrúnu Helgadóttur sem þá sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið.

Guðrún sagði m.a. í minningargrein sinni, sem bar hinn einfalda titil Til Vilmundar og birtist í Þjóðviljanum á útfarardegi Vilmundar 28. júní 1983: "Þú þoldir svo miklu meira en ætla mátti, vegna þess að þú varst svo heiðarlegur og sanntrúaður á málstað þinn, og svo ótrúlega lítið kænn. Fyrir þá eiginleika kveðja þig í dag þúsundir Íslendinga í einlægri sorg. Þeir vita að við eigum kappnóg af kænu fólki." Svo segir Guðrún seinna: "Sannleikann í þér tókst þér aldrei að dylja. Þess vegna þótti svo mörgum vænt um þig, og þess vegna var ýmsum ekkert hlýtt til þín. Sannleikurinn er ekki öllum fýsilegur fylgisveinn." (Af hverju tengi ég þessi orð við Bjarna Ben og Sigmund Davíð... og fleiri af þeirri sort?) Í grein sinni minnist Guðrún á ræðu ræðanna á Alþingi - ræðu sem enn þann dag í dag er talin sú besta sem þar hefur verið flutt. Takið eftir ummælum Vilmundar um nýja stjórnarskrá og varðhunda valdsins. Ég hengi ræðuna neðst í færsluna.

Það er þetta með stjórnmálamenn, heiðarleikann og sannleikann. Hve marga stjórnmálamenn sem nú sitja á þingi væri hægt að skrifa slík eftirmæli um?

Til Vilmundar - Guðrún Helgadóttir - Þjóðviljinn 28. júní 1983


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 23. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband