Annað borgarabréf til Strauss-Kahn hjá AGS

Í byrjun nóvember sagði ég frá bréfi sem hópur áhyggjufullra Íslendinga skrifaði Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Strauss Kahn svaraði stuttlega eins og sjá má hér og nú hefur hópurinn sent honum annað bréf - svar við svarinu. Þetta bréf er öllu lengra en hið fyrra og með skýringamyndum. Til glöggvunar hengi ég öll þrjú bréfin í enskri útgáfu neðst í færsluna líka.

Hér er íslenska útgáfan af bréfinu sem sent var til Strauss Kahn nú fyrir stundu. Hann fékk að sjálfsögðu enska útgáfu. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Svarbréf Strauss-Kahn - bls. 1

Svarbréf Strauss-Kahn - bls. 2

Svarbréf Strauss-Kahn - bls. 3


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dauðadjúpar sprungur

Nú eru liðnir 14 mánuðir frá hruni. Það er meðgöngutími barns og fyrstu 5 mánuðirnir af ævi þess. Það þætti viðkomandi foreldrum langur tími. Tímaskynið er stórskrýtið því að sumu leyti finnst manni eins og hrunið hafi gerst í gær en jafnframt að það sé óralangt síðan. Við höfum verið í einhvers konar undarlegu tómarúmi - að bíða eftir flóðbylgjunum. Þær eru að skella á og munu sópa burt fólki og fémæti. Sumt er óhjákvæmilegt, annað alls ekki. Sumt er sanngjarnt, annað hræðilega ósanngjarnt. En mannfórnirnar eru aldrei réttlætanlegar. Aldrei.

Hver einasti fréttatími er uppfullur af siðleysi, sóðaskap og sukki. Bæði fyrr og nú. Þeir hafa verið það allt frá hruni. Fréttafíklar eiga bágt þessa dagana og vikurnar. Eru á barmi taugaáfalls mörgum sinnum á dag - en lesa, horfa og hlusta og geta ekki annað. Fjölmargir sem ekki eru haldnir þessari fíkn eru hættir að fylgjast með fréttum. Búnir að loka augum og eyrum til að vernda geðheilsuna. Þeir geta ekki meira. Fréttafíklarnir ekki heldur - en þeir geta ekki hætt. Ég er einn af þeim.

Þann 21. nóvember upplifði ég svolítið nýtt... Ég brast í grát yfir fyrstu frétt á bæði Stöð 2 og RÚV - sem var sama fréttin. Hún nísti inn að hjartarótum,  og ég fann vonleysi hellast yfir mig af miklum þunga. Mér fannst ég illa svikin og ég hugsaði með mér hvað heilbrigð skynsemi, skotheld rök og framsýni hafa lítið að segja á leiksviði gróðahyggju, sérhagsmuna og skammsýnna stjórnmála sem sjá aldrei lengra en fram að næstu kosningum. Ólíklegasta fólk lætur undan frekju, yfirgangi og þrýstingi þótt augljóst sé að verið er að keyra á fullri ferð ofan í hyldýpisóráð. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búin að jafna mig á fréttinni ennþá og er ekki tilbúin til að fjalla um málið af þeim sökum. Geri það örugglega seinna. En ætli það sé til einhver meðferð við fréttafíkn?

Ég ætla að benda á og birta hér þrjár af ótalmörgum fréttum úr sjónvarpi undanfarna daga. Sú fyrsta er úr tíufréttum RÚV á fimmtudagskvöldið og fjallar um misfjölmennar nefndir Vinnumálastofnunar. Og ég spyr hvort verið sé að borga þessu fólki fyrir nefndarsetur með fé úr atvinnuleysistryggingasjóði. Fer tryggingagjald misilla launaðra einyrkja m.a. í að borga hálaunuðum verkalýðsforingjum og fulltrúum atvinnurekenda fyrir að deila og drottna í sjóðum Vinnumálastofnunar? Stjórnarformaður Vinnumálastofnunar t.d. fær greiddar 45.198 kr. á mánuði fyrir stjórnarformennskuna. Það gera 542.376 kr. á ári. Jafnframt er sagt í fréttinni að algeng þóknun fyrir stjórnarsetu hjá stofnuninni séu 20.000 krónur á mánuði. Nú þegar hafa þessar stjórnir kostað tæpar 22 milljónir króna og árið er ekki búið. Ég spyr aftur: Hver borgar?

Tíufréttir RÚV 26. nóvember 2009

 

Takið sérstaklega eftir svokölluðum "Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga". Mikil saga er á bak við þennan sjóð sem stofnaður var með lögum á vormánuðum 1997. Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, lagði fram frumvarp um stofnun hans um miðja nótt 2 eða 3 dögum fyrir jól 1996. Málið átti að ganga hratt í gegn en svo varð ekki af vissum ástæðum og Páll varð víst trítilóður var mér sagt þá.

Á Íslandi eru um 30.000 sjálfstætt starfandi einstaklingar, eða einyrkjar sem stunda mjög fjölbreytta starfsemi. En þessi tiltekni tryggingasjóður er eingöngu ætlaður þremur starfsstéttum og hefur verið frá upphafi: Bændum, smábátasjómönnum og vörubílstjórum. Aðrar starfsstéttir mega sækja um inngöngu en verða að vera að lágmarki 500 til að fá þar inni. Hvaða starfsstétt einyrkja uppfyllir þá kröfu? Hve margir einyrkjar eru í einhverjum hagsmunasamtökum sem mögulega gætu sótt um?

Alþingismenn eru undarleg stétt fólks. Ef maður kannaðist ekki við þá marga persónulega gæti maður haldið að þetta væru geimverur sem aldrei hefðu komist í tæri við venjulega jarðarbúa. Stór hluti þeirra leikur nú sama leikinn og í sumar - að koma upp í pontu til skiptis og segja nákvæmlega ekki neitt í mörgum orðum. Tefur fyrir því að almenningur í landinu geti raðað saman mölbrotnu lífi sínu, lagfært skaddaða sjálfsmynd, rétt úr svínbeygðri reisn og horft til framtíðar. Á meðan einhver hundruð manns funduðu fyrir utan þinghúsið og kröfðust sjálfsagðra leiðréttinga og mannlegra lífskjara kvörtuðu þeir sáran undan hungri í miðju blaðrinu og málþófinu. Leyfðu sér að auki að segja að skortur á matarhléi væri mannréttindabrot - á meðan fjöldi fólks í samfélaginu á ekki til hnífs og skeiðar og er að missa heimili sín í gin ómennskra ríkisbanka! Ég hef ekki eftir hugsanir mínar en segi bara: Af hverju hætta þeir þá ekki að leggja stein í götu almennings í landinu og drífa sig í mat? Hvað á svona fíflagangur að þýða? Þetta fólk ætti að skammast sín og ná jarðsambandi! Við borgum þeim ekki laun fyrir að tala niður til okkar og niðurlægja okkur á þennan hátt.

Fréttir Stöðvar 2 - 28. nóvember 2009

Flestir muna þegar einvaldurinn mikli veiktist og fór á spítala. Þegar hann braggaðist upplýsti hann um hugljómun sem hann fékk í veikindunum: Það bráðvantaði nýtt Hátæknisjúkrahús. Sem nú er sem betur fer kallað Háskólasjúkrahús, er mér sagt. Ég sem hélt að Landspítalinn væri búinn að vera Háskólasjúkrahús í þó nokkuð marga áratugi. En hvað um það. Síminn var seldur að eigendum hans forspurðum - þjóðinni. Fyrir slikk og með grunnnetinu, illu heilli. Nota átti andvirði Símans, eða hluta af því, til að byggja H-sjúkrahúsið. Og þótt ekkert bóli á því ennþá og Síminn hafi verið keyptur með lánum er samt búið að eyða næstum 100 milljónum í H-sjúkrahúsið. Margir hafa spurt í hvað Símapeningarnir hafi farið. Hér sjáum við það.

Fréttir Stöðvar 2 - 28. nóvember 2009

Eitt af því sem ég er döprust yfir og hefur snert mig einna mest í öllum uppljóstrununum eftir hrunið er hve margir landar mínir eru á kafi í eiginhagsmunum og spillingu og hve djúpt þeir eru sokknir. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við að svo stór hluti þjóðarinnar minnar, sem ég hafði svo mikla trú og álit á, sé svona spilltur og samfélagsfjandsamlegur. Við erum svo fá og megum alls ekki við þessum þankagangi. Ég held að nauðsynlegt sé að skilgreina mjög vandlega hvað er spilling og hvað ekki, hvað er siðleysi og hvað ekki og hvað viðunandi framganga og hvað óviðunandi. Teitur Atlason skrifaði fjári góðan pistil sem fjallar um þetta að hluta. Lesið hann endilega. Og í tilefni af síðasta pistli mínum um banka, afskriftir og illa meðferð á fólki bendi ég á pistilinn Þekkti mann eftir Sigurjón M. Egilsson. Ég tárfelldi þegar ég las hann.

Þær eru víða, hinar dauðadjúpu sprungur. Hver hverfur í gin þeirrar næstu?


Bloggfærslur 29. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband