Hver gætir hvaða hagsmuna?

Nokkrir Pressupennar hafa lagt sig í líma í vikunni við að ófrægja Evu Joly og grafa undan trúverðugleika hennar. Það hefur ekki tekist því fólk sér almennt í gegnum svona hræsnisfullt skítkast. Það er ekki eins auðvelt að ljúga að okkur og áður því nú eru allir á verði og netið sér til þess að upplýsingar berast manna á milli á ljóshraða. Íslenska þjóðin virðist hafa slegið skjaldborg um Evu Joly og ver hana með kjafti og klóm. Enda gerði hún samning við þjóðina eins og hún segir í viðtali í helgarblaði DV. Þar segir Eva m.a.: "Ég lít svo á að ég hafi ekki gert samning við stjórnvöld heldur við þjóðina..." og hún segir jafnframt: "Og ég er þeirrar skoðunar að það sé einmitt í krafti almenningsálitsins sem unnt er að fylgja eftir rannsókninni á bankahruninu." Þetta verðum við öll að taka til okkar. Við erum almenningur og almenningsálitið sem Eva talar um er álit okkar. Við verðum að átta okkur á styrkleika okkar og valdi sem sameinaður hópur. Sundruð fáum við engu framgengt.

Í umfjöllun um þær brigður sem bornar hafa verið á hæfi hennar og Sigríðar Benediktsdóttur vegna almennra orða þeirra um hrunið segir Eva Joly: "Það að mega tjá skoðanir sínar opinberlega eru grundvallarréttindi. Og það má alltaf gera ráð fyrir því að þeir sem mögulega hafa framið efnahagsbrot og eiga hagsmuna að gæta haldi uppi vörnum með ógnunum og tilraunum til þöggunar. Þeir óska þess, sem eru vitanlega draumórar, að reglan um að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð komi í veg fyrir grunsemdir og rannsókn mála. En þannig er þetta ekki í raunveruleikanum". Þetta er gott viðtal, ég mæli með því. Forsíða DV 12.6.09 - Eva Joly

Ég mæli líka með að fólk lesi frábæran bloggpistil Jóhanns Haukssonar, Mengun hugarfarsins. Þar veltir Jóhann fyrir sér orðaparinu hæfi-vanhæfi, setur það í samband við völd og áhrif og leggur út af niðurstöðunni. Jóhann vitnar í grein eftir Carsten Valgreen, hagfræðing hjá Danske Bank, sem birtist í Fréttablaðinu 10. janúar sl. Greinina má lesa í heild sinni hér. Jóhann vitnar í þessi orð Carstens: "Ísland er lítið, einsleitt samfélag þar sem innbyrðis tengsl eru mikil. Þetta er bæði mikill styrkleiki og veikleiki. Þetta er rót kreppunnar. Slík samfélagsgerð virkar næstum eins og fjölskylda eða eitt fyrirtæki. Útilokun tiltekinna vandamála og ákvörðun um að þagga þau niður þróast mjög auðveldlega, og af því leiðir að erfitt er að grípa inn í þegar þau hafa hreiðrað um sig."

Carsten ValgreenCarsten Valgreen tók þátt í að skrifa rannsóknarskýrslu um uppsveifluna á Íslandi í mars 2006. Ætli okkur rámi ekki flest í viðbrögð íslenskra stjórnvalda og viðskiptalífsins. Það varð allt vitlaust. Danirnir voru ófrægðir í bak og fyrir, sagðir öfundsjúkir og fleira miður fallegt. Bankarnir fengu menn til að skrifa mótvægisskýrslur og Viðskiptaráð fékk m.a. Tryggva Þór Herbertsson, nú alþingismann Sjálfstæðisflokks, til að skrifa um "fjármálastöðugleikann" á Íslandi. Um þessi viðbrögð segir Carsten meðal annars: "Þetta kom mér þannig fyrir sjónir að allir, þar með talið allir embættismenn, væru staðráðnir í að taka ekki á ástandinu á yfirvegaðan og hlutlægan hátt. Þess í stað gáfu viðbrögð flestra, meðal annars opinberra stofnana til kynna útbreidda hjarðhegðun og hugarfar sem einkenndist af "við á móti þeim" viðhorfi."

Ég hef á tilfinningunni að ófrægingarherferð sú sem nú á sér stað gegn Evu Joly og Sigríði Benediktsdóttur sé í eðli sínu náskyld hinum hörðu viðbrögðum við skýrslu Danske Bank í mars 2006. Afneitun og ófræging. En við höfum lært af reynslunni, er það ekki? Nú spyrjum við gagnrýnna spurninga eins og t.d.: "Hverjir eru það sem ófrægja þær og af hvaða hvötum gera þeir það?" Mér finnst svarið nokkuð augljóst, a.m.k. í sumum tilfellum.

Sigurður G. Guðjónsson er lögmaður Stoða (Jóns Ásgeirs og co.), fyrrverandi Sigurður G. Guðjónssonstjórnarmaður í Glitni sem var í eigu m.a. Jóns Ásgeirs og nátengdur Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans. Í sameiningu hafa þeir félagar nú orðið uppvísir að þessu og þessu - fyrir utan allt annað, s.s. Icesave. Eins og sjá má hér eru "lánin" ekki tekin úr einkasjóði Sigurjóns eins og Sigurður G. Guðjónsson hélt fram heldur úr Fjárvörslusjóði Landsbankans sem á fjórða þúsund manns áttu hlut í árið 2007. Sigurður er auk þess svili Björgvins G. Sigurðssonar, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sem jós útrásina lofi og hafðist ekki að í aðdraganda hruns og eftir það. Auðvitað vill Sigurður G. Guðjónsson enga rannsókn á hruninu.

Hér er gott dæmi um það sem Jónas Kristjánsson kallar "kranablaðamennsku". Fréttamaður segir "netverja klóra sér í kollinum" (ég brást reyndar allt öðru vísi við) og segir frá 40 milljóna láninu til Sigurjóns.  Fréttamaður talar við Sigurð G. sem segir Sigurjón eiga sinn eigin lífeyrissjóð sem lánið er tekið hjá. Fréttamaðurinn kannar málið ekkert frekar, leitar ekki sannleikans í þessu furðulega máli, en tekur orð Sigurðar G. góð og gild. Þeir sem ekki lesa netmiðla og blogg gætu trúað þessu. Stórhættuleg fréttamennska.

Jónas Fr. JónssonJónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, klagaði Sigríði Benediktsdóttur, sem situr í Rannsóknarnefnd Alþingis, fyrir að viðhafa almenn orð um græðgi og andvaraleysi í aðdraganda hrunsins í skólablaði Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Eitthvað sem við höfum öll verið að ræða í allan vetur og er á allra vitorði. Egill Helgason orðaði það einhvern veginn þannig um daginn að Sigríður gæti allt eins hafa sagt að sólin kæmi upp í austri eða að það rigndi oft á Suðurlandi. Jónas Fr. Jónsson gegndi stóru og mikilvægu hlutverki í aðdraganda hrunsins og steinsvaf á verðinum. Það er hreint ótrúlegt að tekið skuli mark á klögumálum hans. Auðvitað vill hann ekki láta rannsaka hrunið.

Ólaf Arnarson á ég ekki eins gott með að skilja. Jú, hann var starfsmaðurÓlafur Arnarson banka og útrásardólga. Er hann að verja sína gömlu félaga - meðvitað eða ómeðvitað? Ég veit það ekki. Hann talar um misheppnað plott, oflof og að við tilbiðjum Evu Joly. Því er ég ekki sammála. Traust okkar á Evu Joly kemur tilbeiðslu ekkert við. Og hvernig hann dregur trúverðugleika trúnaðarmanna Joly í efa finnst mér eiginlega svolítið skondið. Á sama tíma og hún og Sigríður liggja undir ámæli fyrir að viðhafa almæltan sannleika um hrunið er spurt hvort trúnaðarmenn Evu Joly hafi hagsmuna að gæta. Hvaða hagsmuna? Hvernig dettur Ólafi í hug að konan velji sér trúnaðarmenn sem gætu mögulega haft aðra hagsmuni en þjóðin sjálf - almenningur? Hagsmuni réttlætis. Hvaða hagsmuna er Ólafur að gæta þegar hann dregur dómgreind og hæfi Evu Joly í efa á þennan hátt? Ólafur tjáði sig líka um þetta í Kastljósi föstudagsins - sjá hér.

Valtýr Sigurðsson er sérkapítuli. Ég fjallaði um hann hér og um embættismannakerfið sem hann tilheyrir hér. Þetta viðtal við Valtý verður honum - meðal annars - til ævarandi hneisu.

Agnes Bragadóttir skrifar þessa grein í Sunnudagsmoggann og segir Evu Joly hafa lög að mæla.

Agnes Bragadóttir - Mbl. 14.6.09

Brynjari NíelssBrynjar Níelssonyni, hæstaréttarlögmanni, botna ég ekkert í. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma getað tekið undir neitt sem hann segir. Kannski misminnir mig. Í þessari grein í Fréttablaðinu frá í nóvember talar hann um að innviðir samfélagsins séu meira virði en verðbréf sem tapast höfðu. En við höfum aldeilis komist að því, að innviðirnir eru feysknir og fúnir - og viljum nýja innviði. Hann vill ekki kyrrsetja eigur auðmanna eða stofna embætti sérstaks saksóknara. Brynjari finnst kerfið okkar hafa virkað vel. En við höfum komist að því, að það virkaði bara alls ekki. Hér viðrar Brynjar vanþóknun sína á Evu Joly og hér segir hann Evu vera í pólitískri herferð! Í öllum bænum... ég bið þá sem skilja þennan mann að útskýra fyrir mér hvað honum gengur til. Hvers konar manneskja hann er og hvaða hagsmuni hann er að verja - ef einhverja.

Ég held að stjórnvöld og óvildarmenn Evu Joly verði að gera sér grein fyrir að það er rétt sem hún sagði í viðtalinu við DV. Hún gerði samning við þjóðina. Íslenska þjóðin krefst réttlætis og Eva Joly er holdgervingur þess réttlætis. Hún er tákn vonarinnar og þjóðin stendur þétt að baki henni. Hver sá sem reynir að grafa undan rannsókninni með því að ófrægja hana, rægja eða vinna gegn henni er um leið að ófrægja, grafa undan og vinna gegn þjóðinni og réttlætiskennd hennar. Eva Joly á nákvæmlega engra hagsmuna að gæta, en hún er heiðarleg og vill leita sannleika og réttlætis. Samskiptin og upplýsingaflæðið á netinu sér til þess að duldir hagsmunir gagnrýnenda hennar eru grafnir upp og auglýstir rækilega. Almenningur ætlar að standa saman þar til réttlætinu er fullnægt.

Fögur er hlíðin, segir Björg Eva í stórfínum pistli sem ég hvet fólk til að lesa.


Bloggfærslur 14. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband