5.6.2009
Með stein í maga og verk í hjarta
Ég er með óþægilega, óttablandna ónotatilfinningu. Níðþungan stein í maganum og nístandi verk í hjartanu. Og ég er reið. Öskureið. Nú á að skrifa upp á himinháa skuldaviðurkenningu vegna Icesave. Sex hundruð og fimmtíu þúsund milljónir - 650 milljarða - með ótrúlega háum vöxtum miðað við t.d. það sem kemur fram hér. Bara vextirnir á ári eru 35 milljarðar. Hækkunin á tóbaki, áfengi, eldsneyti og bifreiðagjöldum fyrir rúmri viku skilar ríkissjóði 2,5 milljörðum á ári. Bara vextirnir af Icesave-skuldinni eru fjórtánföld sú upphæð. Sársaukafullur niðurskurður alls staðar í þjóðfélaginu nægir varla fyrir vöxtunum einum saman. Meintar eignir og útlánasöfn eiga að ganga upp í skuldina - en enginn veit með vissu hvers virði eignirnar og útlánasöfnin eru. Kannski einskis virði. Þetta er náttúrulega bara bilun.
Fyrir hrun vissi ég ekki að Icesave væri til og skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna það. Ég fylgdist ekki mjög náið með því sem var að gerast í bankastarfsemi. En nú á ég að borga þessa endemis vitleysu - og börnin mín og barnabörnin líka. Kannski barnabarnabörnin. Ég er ekki sátt, lái mér hver sem vill. Ég vil ekki borga þetta - ég neita að borga skuldir sem ég ber enga ábyrgð á. Ég segi NEI!
Ég leit á þingpalla í dag og varð vitni að sirkusnum þar. Sá sirkus fólst aðallega í því að horfa upp á þingmenn flokkanna sem bera höfuðábyrgð á þeirri aðstöðu sem við erum í skammast út af upplýsingaskorti, leynd, fjarveru ráðherra og þingmanna stjórnarflokka... og Icesave-samningum. Þó var það á þeirra vakt sem Icesave og margt fleira varð til. Það voru þeir sem gáfu bankana fyrir lítið og afnumdu regluverkið. Það voru þeir sem flutu sofandi að feigðarósi. Þeir sáu um að skuldbinda þjóðina til að borga Icesave-sukkið. Þeir beittu nákvæmlega sömu leynd um allt milli himins og jarðar. Beittu ráðherravaldi, hunsuðu löggjafarþingið, gáfu skít í almenning í landinu. Þeim ferst að tala, hugsaði ég með mér - og fór. Þó hvarflar ekki að mér að samþykkja þennan Icesave-samning því ég hef engar forsendur til þess. Ég hef ekki fengið neinar þær upplýsingar sem gera mér kleift að meta málið. Þetta er nefnilega trúnaðarmál. Leyndó. Má ekki segja-mál. Enda "bara" um 650 milljarða að ræða. Síðast þegar ég vissi var þjóðarframleiðslan 1.500 milljarðar á ári. Við getum þetta ekki, svo einfalt er það.
Djöfull sem mig langar að segja "Helvítis fokking fokk", en ég er kurteis og vel upp alin og blóta því helst aldrei, a.m.k. ekki opinberlega.
Ég var að grufla og fann þessa umfjöllun úr Fréttablaðinu frá 16. júní 2005 - fyrir fjórum árum. Tveimur og hálfu ári eftir að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn færðu vinum sínum bankana á silfurfati. Þarna hafði Seðlabankinn nýlega hækkað stýrivexti í 9,5% til að hemja verðbólguna. Ég fann þá tölu í fróðlegu yfirliti Fjármálaráðuneytisins yfir árið 2005.
Frá sama mánuði, júní 2005, fann ég tvær greinar eftir Þorvald Gylfason sem voru athyglisverð lesning, svo ekki sé meira sagt. Sú fyrri er hér og seinni hér. Segið svo að enginn hafi varað við!
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var sagt að Hannes Smárason væri að selja íbúð sína í London fyrir 1,5 milljarða. Líklega er það þessi íbúð. Á Hvítbókinni er sagt frá glæsivillu sem hann ku eiga í Ameríku - sjá hér. Hann á líka tvö glæsihús í Reykjavík. Mér er í fersku minni þegar sagt var frá íbúðinni sem Sigurður Einarsson keypti sér rétt fyrir hrun fyrir 2 milljarða - sjá t.d. hér. Og hér er sagt frá óðalssetri Jóns Ásgeirs í Washington. Margir muna eftir þessari bloggfærslu Kjartans Péturs frá 14. október með loftmyndum af sveitasetrum banka- og auðmanna á Íslandi. Hvítbókin kíkti líka í heimsókn til þeirra fyrir skömmu - sjá hér. Svo er það Björgólfur Thor. Hann er ekki á flæðiskeri staddur, enda ætlar hann að láta okkur borga skuldirnar sínar eins og hinir auðjöfrarnir. Hann var myndaður með ríka og fræga fólkinu í Cannes nýverið - sjá hér. Og hann á snekkju, einkaþotu og kannski fleiri milljarðaleikföng. Við borgum. Björgólfur Thor á líka Nova-símafyrirtækið og ég bendi á að allir sem skipta við Nova eru að borga fyrir lifnaðinn og verðlauna Björgólf Thor fyrir að fara svona með íslensku þjóðina. Vinsamlegast bendið fólki á það.
Sem fyrr er gróðinn einkavæddur en tapið og skuldirnar þjóðnýtt.
Frétt Stöðvar 2 um íbúðasölu Hannesar Smárasonar í London.
Icesave var rætt í Kastljósi í kvöld. Ég tek undir með Þór Saari sem vill að við fáum Bretana til að leita uppi hina seku auðjöfra, leggja hald á eigur þeirra, finna leynireikningana þeirra í skattaskúmaskotum heimsins og hirða allt heila klabbið. Einhverjir milljarðar ættu að fást fyrir það. Og enn spyr ég eins og svo ótalmargir aðrir: "Hvað varð um alla þessa hundruð milljarða sem lagðir voru inn í Icesave, Kaupþing Edge og hvað þetta allt heitir?"
Kastljós 5. júní 2009
Ef einhver vogar sér að segja að ég sé öfundsjúk fær sá hinn sami rækilega á kjaftinn. Líðan mín stjórnast ekki af öfund frekar en flestra annarra. Ég er aftur á móti reið. Öskureið.
Viðbót: Ég held að ástæða sé til að minna á orð Michaels Hudson í Silfri Egils 5. apríl sl. Hann sagði að við ættum ekki að borga. Að við gætum það ekki. Ég minni líka á spurningar og svör Hudsons hér á síðunni í beinni 5. maí - íslensk þýðing hér.
Bloggar | Breytt 6.6.2009 kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (94)