Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?

Óþekktur hverUm daginn var ég að ræða við mann sem er vel heima í fjölmiðlabransanum og hann sagði að það væri erfitt að gera auðlindamálin okkar sexí. Þetta þýðir einfaldlega að fjölmiðlar eiga erfitt með að fanga athygli fólks og áhuga á sumum málum. Þeirra á meðal er málið sem ég ætla að fjalla um - og mér finnst alveg rosalega sexí. Enda hef ég skrifað um það óteljandi pistla og kafað djúpt í þau mál. Þið ráðið hvort þið lesið áfram, en ég fullvissa ykkur um að mál af þessum toga skiptir okkur öll alveg gríðarlega miklu máli. Einmitt þess vegna geta þau ekki verið annað en sexí.

Áður en lengra er haldið tek ég fram að frásögnin sem hér fer á eftir er mín eigin túlkun á atburðum. Ég styðst við þær upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum, ýmsar vefsíður, blogg og annað tiltækt efni. Ég tel mig hafa lært á reynslu undanfarinna mánaða og dreg miskunnarlaust ályktanir út frá þeirri reynslu og þeim heimildum sem ég hef og finn.

Við munum flest eftir REI-málinu frá haustinu 2007. Sjálfsagt dæsa margir bara við tilhugsunina því málið var svo stórt og flókið og mikið um það fjallað á sínum tíma að maður var kominn með upp í kok og botnaði orðið ekki neitt í neinu. En svo skýrðist málið betur þegar frá leið og mjög upplýsandi fréttaskýring birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2007 sem ég hef birt tvisvar hér á blogginu, síðast hér. Í næstu færslu á eftir birti ég samanklippta fréttaumfjöllun um málið sem skýrir það enn betur.

Einhvern veginn á maður betra með að átta sig á málinu núna, eftir allt sem hefur gengið á. Persónur, leikendur og hlutverk þeirra í farsanum eru í stórum dráttum þannig: Spilltir stjórnmálamenn ætluðu að afhenda útrásardólgum orkuauðlindirnar okkar á silfurfati og allir ætluðu að græða feitt. Skítt með þjóðina og afkomendur okkar. Auðvitað er þetta einföldun,  málið er flókið. Fólk verður að kynna sér það og draga eigin ályktanir.

Nú virðist nýtt REI-mál vera í uppsiglingu sem verður að stöðva í einum grænum. Fleira skiptir máli en Icesave, ESB og skuldaniðurfelling Björgólfsfeðga.

HS OrkaÞegar REI-málið var í bígerð var Geysir Green Energy stofnaðHS Veitur og það keypti þriðjung í Hitaveitu Suðurnesja í júní 2007, en gríðarlega mikill jarðhiti er á Reykjanesskaganum. Til stóð hjá auðmönnunum að sameina GGE og REI en sá gjörningur varð aldrei að veruleika. Þeir ætluðu nefnilega að leggja undir sig auðlindirnar á öllu suðvesturhorninu, útrásarsnillingarnir.

Nú hefur Hitaveitu Suðurnesja verið skipt í HS Orku og HS Veitur. Í grófum dráttum má segja, að HS Orka sjái um orkuframleiðsluna og söluna en HS Veitur um dreifinguna og vatnið. Það er semsagt Orkan sem nýtir auðlindina og framleiðir en Veitan sér bara um að dreifa afurðinni, þ.e. rafmagninu og vatninu. Peningarnir - gróðinn - eru í framleiðslunni og sölunni. Þess vegna er verið að braska með HS Orku. Eignarhald HS Orku er nú svona:

HS Orka - eignarhald

Og hverjir eru að braska með auðlindina? Jú, bæjarstjórinn í Reykjanesbæ - sjálfstæðismaðurinn snoppufríði sem er búinn að koma bænum sínum í stórfelld fjárhagsvandræði - og Geysir Green Energy, fyrirtæki í óljósri einkaeigu hvers forstjóri getur ekki gefið upp fjárhagsstöðu fyrirtækisins (sjá fréttaviðtal hér að neðan) en hermt er að GGE sé í gjörgæslu bankanna og sé mun minna virði en forstjórinn vill vera láta (sjá grein hér). Forstjórinn segir eitt, endurskoðendur allt annað.

Eigendur GGE eru þrír: Atorka (41%), Glacier Renewable Energy Fund - í umsjón Íslandsbanka (40%) og Mannvit sem hét áður VGK (9%). Við höfum væntanlega öll lært í vetur að kanna hvað býr að baki svona upplýsingum. Á vefsíðu Atorku eru taldir upp 20 stærstu hluthafarnir miðað við 30. júní 2009:

20 stærstu hluthafar í Atorku

Þarna eru m.a. talin upp þræltraust fyrirtæki eins og FL Group og Landsbankinn í Luxembourg, nú ríkisbankinn Nýi Glitnir (væntanlega Íslandsbanki eftir nýjustu breytingar) og Sameinaði lífeyrissjóðurinn sem mun hafa tapað töluverðum fjárhæðum á áhættufjárfestingum. Samkvæmt frétt í AtorkaViðskiptablaðinu frá 16. október sl. var Atorka afskráð úr Kauphöllinni og hafði verðmæti félagsins þá lækkað um 90% frá áramótum. Í fréttinni er rætt við Þorstein Vilhelmsson, sem yfirgaf Samherja fyrir nokkrum árum með nokkur hundruð milljónir upp á vasann. Féð var afrakstur sölu annarrar auðlindar landsmanna, fiskjarins í sjónum, sem Þorsteinn og félagar hans í Samherja höfðu fengið endurgjaldslaust eða -lítið þegar sú auðlind var einkavædd. Mér var sagt af fróðum að flest félög á ofangreindum hluthafalista Atorku væru að meira eða minna leyti í eigu Þorsteins.

Engar upplýsingar er að fá á vefsíðu Íslandsbanka um eigendur eða hluthafa í Glacier Renewable Energy Fund. Ef einhver getur veitt upplýsingar um þann sjóð væru þær vel þegnar.

DV var með umfjöllun um þetta mál sl. föstudag og þar er sagt að Finnur Ingólfsson sé meðal hluthafa Mannvits. DV fann semsagt Finn enda er blaðið er aftur með stórfróðlega umfjöllun um málið í dag og þar er sagt að S-hópurinn alræmdi fari með völd í Geysi Green þrátt fyrir minnihlutaeign.

Svo er komið inn í myndina kanadískt fyrirtæki, Magma Energy, sem sagt Magma Energyer að hafi áhuga á að kaupa hlut í HS Orku. Forstjóri Magma er jarðfræðingurinn Ross Beaty, sem auðgaðist gríðarlega á silfurnámum, m.a. í Suður Ameríku. Hann stofnaði fyrirtækið í byrjun árs 2008, svo það er ekki nema eins og hálfs árs. Engin reynsla komin á starfsemi þess og siðferði stjórnenda í umgengni við jarðhitaauðlindir. Hér má sjá umfjöllun Bloomberg um hlutafjárútboð Magma í júní, sem var það stærsta í Kanada í 13 mánuði.

Eins og gefur að skilja, og allir Íslendingar ættu að vera með á hreinu eftir uppljóstranir undanfarinna 9 mánaða, kaupir kanadískt fyrirtæki sig ekki inn í jarðorkufyrirtæki á Íslandi nema til þess að græða á því og það rækilega. Forsvarsmenn GGE og Reykjanesbæjar fagna ógurlega, því þá vantar aur í kassann til að bjarga eigin skinni.

Í nóvember sl. var stofnað nýtt ráðgjafafyrirtæki, Arctica Finance. Eins og sjá má á þessari frétt eru stofnendur þess fyrrverandi starfsmenn gamla Landsbankans. Traustvekjandi? Fyrirtækinu var falið að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku eins og sjá má t.d. hér. Engar hömlur - hvað sem það þýðir.

Gallinn er bara sá að verið er að braska með auðlindir þjóðarinnar og einkavæða þær. Það gildir einu hvort auðlindin sé formlega í umsjón einhvers sveitarfélags - auðlindirnar okkar eru og eiga ávallt að vera sameign þjóðarinnar og spilltir stjórnmálamenn og aðrir siðlausir gróðapungar hafa ekkert leyfi til að selja innlendum eða erlendum fjárglæframönnum afnot af henni margar kynslóðir fram í tímann.

Til allrar hamingju eru fjölmiðlar á verði... sumir og upp að vissu marki. Og sumum fjölmiðlamönnum finnst þessi mál nógu sexí til að fjalla um þau. Fremstir í flokki eru Þórður Snær Júlíusson á Mogganum, sem hefur staðið vaktina með sóma, Jóhann Hauksson á DV og Hallgrímur Indriðason, Guðfinnur Sigurvinsson og Björn Malmquist á RÚV. Ég hef safnað saman greinum um þetta mál úr DV, Mogganum, mbl.is og 24 stundum hér og klippt saman fréttaumfjöllun RÚV - auk einnar fréttar á Stöð 2. Bloggararnir Hannes Friðriksson og Agnar Kristján Þorsteinsson hafa líka fjallað um þessi mál af mikilli innsýn og þekkingu.


Bloggfærslur 10. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband