Íslenska sumarið

Ég fór í tjaldútilegu fyrir tveimur árum. Langa yfirreið um Vestfirði í björtu og fallegu veðri, en fremur svölu. Myndin hér að neðan er grátlega lýsandi fyrir ástandið á tjaldstæðum á Íslandi. Ég upplifði þetta reyndar ekki eina einustu nótt því ég hrökklaðist í burtu frá hverju tjaldstæðinu á fætur öðru af þessum sökum. Kærði mig ekki um að kúldrast milli dekkja sem voru miklu stærri en litla tjaldið mitt og fann mér betri staði. Um daginn var ég aftur á ferðinni - þó ekki á tjaldstæðum - og sá enn fleiri, stærri og breiðari einbýlishús á hjólum en nokkru sinni fyrr. Þakkaði mínum sæla fyrir að mæta þeim ekki á rétt rúmlega einbreiðum malarvegum með þverhnípi á aðra hönd. Eins og sjá má er það Halldór Baldursson sem hittir naglann á höfuðið eins og venjulega.

Halldór Baldursson - How do you like Iceland - Moggi 13.7.09

Þessi fannst mér líka góð lýsing á þróun íslenskrar karlmennsku síðasta rúma árþúsundið. Mér varð hugsað til þessa pistils, Páskahugvekju í Íslendingasagnastíl með goðafræðiívafi, þar sem þróuninni er lýst örlítið nánar. Hvað er það sem dregur karlmenn að útigrillinu, helst með bjór í hönd, þótt þeir komi jafnvel aldrei að matseld annars? Ég játa fullkominn skilningsskort á fyrirbærinu, enda á ég ekki útigrill.

Halldór Baldursson - Íslensk karlmennska í 1000 ár - Moggi 15.7.09


Bloggfærslur 15. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband